• Lykilorð:
  • Brot í opinberu starfi
  • Frávísun að hluta
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur

            Ár 2017, fimmtudaginn 28. september, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-91/2017: 

 

                                                Ákæruvaldið

                                                (Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari)

                                                gegn

                                                X

                                                (Björgvin Jónsson hrl.)

 

kveðinn upp svohljóðandi

 

dómur:

           

Mál þetta, sem dómtekið var þann 1. september sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 22. maí 2017 á hendur ákærða, X

 „fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi sem fangavörður, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 1. janúar 2017, í fangaklefa A4 í húsi 1 í fangelsinu á Litla Hrauni Eyrarbakka, farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða er ákærði hugðist slökkva eld í fyrrgreindum fangaklefa þar sem refsifanginn A var vistaður og strax eftir að hafa slökkt eldinn sprautað úr léttvatnsslökkvitæki, sem ákærði hafði meðferðis, í andlit og bringu A í um þrjár sekúndur.

 

Telst þetta varða við 132. gr. og 217. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

          Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.000.000 í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.“

             

            Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og til þrautavara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði stórlega lækkuð og aðeins tekin til greina að óverulegu leyti.

Málavextir.

 Með bréfi dagsettu 20. mars 2017 til lögreglustjórans á Suðurlandi óskaði B eftir því að tekið yrði til rannsóknar hvort ákærði og/eða aðrir starfsmenn hafi með einhverjum hætti gerst brotlegir þegar fanginn A, brotaþoli í máli þessu, hafi þann 1. janúar sl. verið staðinn að því að kveikja í á klefa nr. A-4 í húsi 1 á Litla-Hrauni. Segir í bréfinu að viðbrögð fangavarða séu til á myndbandsupptöku og sjáist á henni að fangaverðir fari inn á klefa fangans og fremstur fari ákærði með slökkvitæki. Í skýrslu segir að eldurinn hafi verið við útöndun í glugga í flík sem hann hefði komið þar fyrir og stemmi það við upptöku að eldur hafi verið slökktur þar. Hins vegar sé þess ekki getið í skýrslu sem sjáist á myndbandsupptöku í framhaldinu að eftir að hafa slökkt eldinn snúi ákærði sér að brotaþola og sprauti úr slökkvitækinu í andlit hans og vit, en um sé að ræða svokallað léttvatnstæki.

Í skýrslu sem skráð er 1. janúar 2017 og undirrituð af ákærða og fangavörðunum C og D segir að um kl. 23:30 hafi heyrst miklar barsmíðar á klefa brotaþola og í kjölfarið hafi hann hringt og sagt að hann vantaði mat. Hafi honum verið tilkynnt að ekki væri afgreiddur matur eftir innilokun og hafi hann þá haldið áfram að berja og sparka og hafi samfangar hans á deildinni kvartað yfir því að það væri enginn svefnfriður. Hafi verið talað við næturvarðstjórann E og hafi verið ákveðið að fara inn á klefa brotaþola og tilkynna honum að hann yrði fluttur í hús 1 ef hann hætti ekki þessum ófriði. Hafi brotaþoli þá sagst ætlað að hætta að berja og sparka en fimm mínútum seinna hafi hann aftur verið farinn að berja og sparka á klefa sínum og hafi því verið ákveðið að fara með hann í klefa A4 í húsi 1 og hafi ákærði, D og C flutt hann þangað. Eftir að brotaþoli hafi verið búinn að vera í klefanum í um 10 mínútur hafi fundist mikil reyklykt úr klefanum og við innlit á lúgu hafi sést að hann hafi verið búinn að kveikja í. Hafi eldurinn verið við útöndun við glugga þar sem hann hefði troðið einhverri flík á milli og náð þannig að kveikja í. Segir í skýrslunni að farið hafi verið inn á klefann með slökkvitæki og eldurinn slökktur. Brotaþoli hafi ítrekað verið beðinn um að afhenda kveikjarann en hann hafi neitað og hafi hann því verið fjarlægður úr fötum hans með valdi og hafi kveikjarinn verið hálfur upp í endaþarmi hans. Tekið er fram í skýrslunni að brotaþoli hafi verið til ófriðs alla helgina og hafi samfangar hans kvartað yfir litlum svefnfriði og því hafi þolinmæðin verið búin gagnvart látum hans. Þann 21. mars 2017 gerðu fangaverðirnir D og F leiðréttingu við framangreinda skýrslu og kemur þar fram að brotaþoli hafi ekki verið líkamsleitaður þar sem leitað hefði verið í vösum hans og klæðum áður en hann hafi verið færður í hús 1. Þá segir að 5-10 mínútum áður en farið hafi verið inn til fangans að slökkva eldinn við gluggann hefði hann kveikt eld í salerninu á klefanum sem slökktur hefði verið með því að sturta niður, en það sé gert utan klefa. Í lok skýrslunnar segir að þegar farið hafi verið inn með slökkvitækið til að slökkva seinni eldinn hafi verið sprautað á brotaþola.

Í máli þessu liggur fyrir myndskeið af umræddu atviki og sést þar að ákærði gengur fyrstur inn í klefann með slökkvitæki, fer í vinstra fjær horn klefans þar sem eldur var við loftræstiop í glugga og snýr hann baki í brotaþola. Ákærði snýr sér síðan að brotaþola og beinir bunu úr slökkvitækinu að andliti brotaþola í um 3 sekúndur.

Samkvæmt gögnum málsins er umrætt slökkvitæki svokallað léttvatnsslökkvitæki. Mun efninu AFFF3% vera blandað við vatn í hlutföllunum 5,72 lítrar af vatni á móti 2,8 desilítrum af léttvatni. Engar leiðbeiningar mun að finna, hvorki frá framleiðanda né á slökkvitækjunum sjálfum, hvernig með skuli fara ef fólk fær þessa blöndu á sig.

Ákærði hefur lagt fram læknisvottorð þar sem fram kemur að hann hafi þann 29. janúar 2015 verið að negla gólflista og við það hafi stálnagli brotnað og skotist í vinstra auga. Fram kemur í vottorðinu að ákærði sjái afar illa með vinstra auga og trufli það hann við vinnu. Þá kemur fram að hann hafi farið í aðgerð í janúar 2017 vegna örmyndunar á hornhimnu.

Engin læknisfræðileg gögn eru til um afleiðingar þess að vatni hafi verið sprautað í andlit brotaþola umrætt skipti.

Með bréfi til ákærða dagsettu þann 20. mars 2017 tilkynnti fangelsismálastofnun ríkisins að ákveðið hefði verið að leysa ákærða undan vinnuskyldu tímabundið vegna umrædds atviks.

                       

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að komið hafi tilkynning kl. 23:30 um háreysti í klefa 121 þar sem brotaþoli var. Hann hafi ásamt D farið inn í klefann og beðið brotaþola að hætta þessu, hann hafi verið með hróp og köll og spörk og læti og hafi honum verið sagt að hann yrði annars færður í hús 1 í aðskilnað. Hann hafi samþykkt þetta en 5 eða 10 mínútum síðar hafi þetta byrjað aftur og hafi E ákveðið að færa hann í aðskilnað. Hafi verið leitað í vösum hans hvort hann væri með eitthvað sem gæti skaðað hann eða fangaverðina en svo hafi ekki verið. Hafi hann þá verið færður yfir í hús 1 og settur inn í öryggisklefa eða myndavélaklefa og lokaður þar inni. Skömmu síðar hafi komið tilkynning um að eldur væri kominn upp í klefanum og kvaðst ákærði hafa tekið vatnsslökkvitæki sem hafi verið inni á varðstofu, farið inn í klefann og séð að eldur hafi logað í loftstokki innst inni, hægra megin í klefanum og hafi verið búið að troða þar einhverju drasli uppundir. Ákærði kvaðst hafa gert tækið klárt og slökkt eldinn. Það hafi verið reykur og kóf og hafi brotaþoli staðið honum á vinstri hlið og eftir að hann  hafi sprautað á eldinn hafi hann snúið sér að brotaþola og sett smá bunu framan á hann líka. Ákærði kvaðst hafa krafið brotaþola um eldfærin en hann hafi stöðugt neitað að vera með eitthvað og hafi þurft að taka hann úr fötunum og þá hafi fundist kveikjari í endaþarmi hans. Ákærði kvað um ósjálfráð viðbrögð að ræða, brotaþoli hafi verið búinn að vera til mikilla vandræða og með háreysti og læti og þá megi vera að það hafi verið einhver glóð á honum líka en hann gat ekki fullyrt neitt um það. Þá gat ákærði ekki fullyrt hvort ástæðan hafi verið sú að hann hafi verið orðinn pirraður á brotaþola vegna hegðunar hans og þá taldi hann brotaþola hafa verið ógnandi með þessari hegðun sinni. Ákærði kvað ekki hafa verið getið um þetta atvik í fyrstu skýrslu um málið enda hafi hann talið þetta eitthvað sem ekki skipti máli, skýrslan hafi átt að snúast um það að brotaþoli hafi kveikt eld og hafi hann stofnað fjölda manns í hættu. Ákærði kvaðst hafa látið yfirmann sinn E vita af því seinna um nóttina að hann hefði gert þetta og hafi hann ekkert brugðist neitt sérstaklega við því. Ákærði kvaðst ekki vita um þá leiðréttingu sem gerð hefði verið á skýrslunni síðar. Ákærði kvað það hafa verið í lagi að sprauta á brotaþola ef það hefði verið eldur í honum. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið blindur á vinstra auga og því ekki séð sérstaklega það sem snúið hafi að brotaþola þannig að hann ætlaði ekki að útiloka það. Hann kvaðst hafa farið í aðgerð 5. janúar sl. og væri hann nú með 40-50% sjón á auganu.

            Brotaþoli kom fyrir dóm og skýrði svo frá að honum hefði verið sagt að komið hefði upp eldur en það hefði ekki verið af hans völdum. Hann gat ekkert frekar borið um málsatvik og virtist ekki hafa hugmynd um það um hvað mál þetta snerist.

            Vitnið D fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði verið í svokallaðri aðlögun, hann hafi kvöldið áður verið mjög erfiður, hann hafi barið í hurðir og valdið pirringi hjá föngum.   Hafi hann  verið færður yfir í hús 1en áður hefði verið leitað að eldfærum á honum. Skömmu síðar hafi komið tilkynning frá F um að hann hefði kveikt í pappír í klósettinu en hún hefði sturtað niður fyrir utan klefann. F hafi hringt aftur og sagt að brotaþoli væri búinn að kveikja í aftur einhvers staðar við gluggann. Hafi ákærði tekið slökkvitæki, farið inn, slökkt eldinn og sprautað úr slökkvitækinu á brotaþola sem stóð vinstra megin við hann og hafi bunan lent á andliti hans og brjóstkassa að honum sýndist en þetta hafi gerst mjög snöggt.  Hafi brotaþoli virst hissa yfir þessu en hann hafi ekki kvartað.  Hann kvað brotaþola ekki hafa verið ógnandi eða með háreysti þegar þeir komu inn í klefann en reykur hafi verið þar inni. Hann gat ekki útilokað að einhver glóð hafi verið á brotaþola en hann kvaðst ekki hafa séð það vel.  Hann kvað brotaþola hafa fengið þá bestu aðhlynningu sem völ hafi verið á, ef hann hefði verið eitthvað skaðaður þá hefði verið kallaður til læknir. Hann kvað að gleymst hefði að taka fram í skýrslu að sprautað hefði verið á brotaþola en einnig  hefði gleymst að taka fram að hann hefði áður kveikt í klósettinu og þá hefði gleymst að taka fram að leitað hefði verið í vösum hans áður enn hann hafi farið inn í klefann. Hann kvað að þolinmæði fanga gagnvart látum brotaþola hafi verið búin, ekki þolinmæði fangavarðanna.

Vitnið F fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi komið í hús 1 í fylgd tveggja fangavarða en hann hefði verið með læti í klefa sínum í húsi 4. Eftir smátíma hafi hún fundið brunalykt, kveikt á myndavél og séð að það hafi  logað í salerninu. Hún hafi sturtað niður úr herbergi við hliðina og látið vita að brotaþoli væri greinilega með kveikjara á sér, en fangaverðirnir hefðu leitað á honum áður en þeim komu með hann. Hann hafi síðan kveikt aftur í og hafi ákærði tekið slökkvitæki og sprautað úr því á eld við glugga og ítrekað beðið brotaþola um kveikjarann, en hann hafi neitað að afhenda hann. Hafi ákærði verið búinn að slökkva eldinn og þá sprautað á brotaþola í smástund og stöðugt beðið hann um kveikjarann. Hafi það endað með því að brotaþoli hafi verið settur á gólfið, afklæddur og þá hafi kveikjari fundist í endaþarmi hans. Vitnið minnti að ákærði hafi sprautað í bringu brotaþola sem hafi aðeins róast niður við það. Hún kvað brotaþola ekki hafa kvartað undan bununni. 

  Vitnið C fangavörður skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði verið fluttur úr húsi 4 inn í  hús 1 vegna þess að hann hefði verið til ófriðs og hefðu fangar varla getað sofið vegna hans. Vitnið minnti að leitað hefði verið létt á honum og þá mundi vitnið eftir reyklykt og hefði ákærði farið inn í klefann, slökkt eldinn og sprautað á brotaþola. Hafi bunan lent ofarlega á honum en vitnið kvaðst ekki hafa séð hvort það hafi verið glóð í honum. Vitnið mundi ekki til þess að brotaþoli hefði verið með háreysti eða hótanir eftir að hann hefði kveikt eldinn, hins vegar hafi honum fundist það ógnandi að vera búinn að kveikja eld í klefanum.  

 Vitnið B, forstöðumaður fangelsisins að Litla-Hrauni, skýrði svo frá fyrir dómi að þann 17. mars sl. hafi starfsmaður fangelsisins bent honum á að hann ætti að kynna sér myndbandsupptöku frá 1. janúar sl. Eftir að hafa séð upptökuna kvaðst vitnið hafa skoðað skýrslu um atvikið og séð að ekki hafi verið greint frá því að  slökkvitæki hafi verið beint að fanganum sjálfum.  Hafi það verið mat vitnisins að mögulega hafi verið farið offari við valdbeitingu og gæti verið um saknæmt atferli að ræða. Hann kvaðst hafa ráðfært sig við forstjóra Fangelsismálastofnunar og hafi þeir ákveðið að vísa málinu til lögreglu og hafi það verið gert þann 20. mars sl. og hafi ákærði þá verið leystur undan starfsskyldum sínum. Hann kvað fyrri skýrsluna hafa verið leiðrétta eftir að málið kom upp, en það hafi verið að frumkvæði skýrsluhöfunda. Hann kvað vera til fastmótaðar verklagsreglur þegar eldur kemur upp í fangelsinu og ljóst sé að fangaverðir ráði ekki við að slökkva eldinn, en engin sérstök viðbragðsáætlun sé til fyrir minni háttar brunatilvik. Það sé mat fangavarða hvenær þeir treysti sér til þess að eiga við tilvikin og í fangavarðanámi fái þeir einhverja þjálfun í notkun tækja og tóla. 

Vitnið E varðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi  að brotaþoli hefði verið búinn að vera órólegur og ruglaður eins og hann hafi verið búinn að vera allt frá því  hann hafi komið inn í fangelsið í byrjun desember. Hafi verið tekin ákvörðun um að setja hann í einangrunarklefa. Hann kvað ákærða um nóttina hafa tjáð sér að hann hafi sprautað úr slökkvitæki á brotaþola og hafi hann ekkert farið dult með það. Hann kvaðst næst þegar hann hafi verið á vakt hafa kíkt á myndband af atvikinu og ekkert aðhafst frekar í því þar sem hann hafi ekki talið það saknæmt að sprauta vatni á manninn, en hann hafi frekar talið þetta óheppilegt og ekki innan þeirra heimilda sem fangaverðir hafi. Engin hætta hafi verið á ferðum og þá hafi ákærði verið að slökkva eld í klefa hjá fársjúkum manni. Hann kvað um vatnsslökkvitæki að ræða sem myndi einhvers konar húð eða filmu, en það sé ekki talið hættulegt.   

 

Niðurstaða.   

            Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa  sprautað úr léttvatnsslökkvitæki í andlit og bringu brotaþola og er sú háttsemi hans í ákæru talin vera líkamsárás og brot í opinberu starfi. Brotaþoli var refsifangi í fangelsinu að Litla-Hrauni og hafði hann verið færður í fangaklefa A4 í húsi 1 í fangelsinu vegna mikilla óláta í honum í öðrum fangaklefa. Skömmu eftir að brotaþoli kom inn í fangaklefann varð fangavörður var við að kviknað hafði í pappír í salerni í klefanum en eldurinn var slökktur með því að sturta niður utan klefans. Skömmu eftir þetta mun fangavörðum hafa borist tilkynning um að enn væri kominn upp eldur í klefa brotaþola og hefur ákærði kannast við að hafa farið inn í klefann með léttvatnsslökkvitæki og séð að eldur hafi logað í loftstokki innst inni, hægra megin í klefanum og hafi verið búið að troða einhverju drasli uppundir. Ákærði kvaðst hafa slökkt eldinn, það hafi verið reykur og kóf og hafi brotaþoli staðið honum á vinstri hlið og eftir að hann  hafi sprautað á eldinn hafi hann snúið sér að brotaþola og sett smá bunu framan á hann líka. Hafi verið um ósjálfráð viðbrögð að ræða, brotaþoli hafi verið búinn að vera til mikilla vandræða og með háreysti og læti og þá megi vera að það hafi verið einhver glóð á honum líka en hann gat ekki fullyrt neitt um það. Á myndbandsupptöku má sjá að bunan beinist að brotaþola í 3 sekúndur. Ákærði hefur lagt fram læknisfræðileg gögn sem sýna fram á að hann hafi á þessum tíma verið blindur á vinstra auga en hann hafi eftir umræddan atburð farið í aðgerð og sé hann nú með 40-50% sjón á auganu.

            Þegar framangreind háttsemi ákærða er skoðuð ber að hafa í huga að brotaþoli hafði tvívegis með skömmu millibili kveikt eld í klefa þeim sem hann var vistaður í og því greinilegt að það var eindreginn ásetningur hans að halda þeirri iðju áfram, enda hafði hann falið kveikjara í endaþarmi sínum. Ákærða var bæði rétt og skylt að fara inn í klefann með slökkvitæki og slökkva þar eld sem þar logaði. Hafa ber í huga að atburðarás þessi er ekki tekin til lögreglurannsóknar fyrr en að liðnum tæpum þremur mánuðum frá atvikinu og gæti það haft áhrif á minni ákærða og vitna. Ákærði hefur ekki útilokað að einhver glóð hafi verið á brotaþola og hafi svo verið var það ákærða að meinalausu að slökkva í henni með því að beina bunu að brotaþola. Þá hefur fangavörðurinn D heldur ekki útilokað að glóð hafi verið á brotaþola og þegar tekið er tillit til þess að brotaþoli er staddur í litlu rými þegar hann kveikir eldinn verður að telja meiri líkur en minni að glóð geti borist í hann við þessar aðstæður. Með hliðsjón af öllu framansögðu og með hliðsjón af því að reykur og kóf var inni í klefanum og ákærði sjónlaus á vinstra auga verður að telja ósannað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að meiða brotaþola. Með sömu rökum ber að hafna því að ákærði hafi ekki gætt lögmætra aðferða og farið offari umrætt sinn og ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að vísa skaðabótakröfu brotaþola frá dómi.

Þá ber með vísan til 2. mgr. 218. gr. sömu laga að fella allan sakarkostnað vegna  málsins á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hrl.  950.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar lögmannsins, 60.500 krónur. Úr ríkissjóði greiðist einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Páls Hilmarssonar hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

 Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Skaðabótakröfu A er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hrl.  950.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar lögmannsins, 60.500 krónur. Úr ríkissjóði greiðist einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Páls Hilmarssonar hdl., 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

                       

                                                                                                Hjörtur O. Aðalsteinsson