- Kjarasamningur
- Laun
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2017 í máli nr. E-240/2016:
Júlíus Óli Einarsson
(Halldór Kr. Þorsteinsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
I
Mál þetta, sem dómtekið var 3. mars 2017, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 27. janúar 2016, af Júlíusi Einarssyni, Sóltúni 26, Selfossi, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að
stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.512.223 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um
vexti og verðtryggingu, af 206.840 krónum frá 1. febrúar 2012 til 1. mars 2012,
af 439.625 krónum frá 1. mars 2012 til 1. apríl 2012, af 733.222 krónum frá 1.
apríl 2012 til 1. maí 2012, af 947.316 krónum frá 1. maí 2012 til 1. júní 2012,
af 1.134.554 krónum frá 1. júní 2012 til 1. júlí 2012, af 1.285.986 krónum frá 1. júlí 2012 til 1. ágúst 2012, af 1.526.935 krónum frá 1. ágúst 2012
til 1. september 2012, af 1.776.836
krónum frá 1. september 2012 til 1. október 2012, af 2.052.529 krónum frá 1. október 2012 til 1. nóvember 2012, af
2.302.430 krónum frá 1. nóvember 2012 til 1. desember 2012, af 2.471.765 krónum
frá 1. desember 2012 til 1. janúar 2013, af 2.703.762 krónum frá 1. janúar 2013
til 1. febrúar 2013, af 2.935.759 krónum frá 1. febrúar 2013 til 1. mars 2013,
af 3.114.046 krónum frá 1. mars 2013 til 1. apríl 2013, af 3.408.060 krónum frá
1. apríl 2013 til 1. maí 2013, af 3.666.186 krónum frá 1. maí 2013 til 1. júní
2013, af 3.933.558 krónum frá 1. júní 2013 til 1. júlí 2013, af 4.043.742 krónum
frá 1. júlí 2013 til 1. ágúst 2013, af 4.301.868 krónum frá 1. ágúst 2013 til
1. september 2013, af 4.558.896 krónum frá 1. september 2013 til 1. október
2013, af 4.743.051 krónu frá 1. október 2013 til 1. nóvember 2013, af 5.009.326
krónum frá 1. nóvember 2013 til 1. desember 2013, af 5.303.339 krónum frá 1.
desember 2013 til 1. janúar 2014, af 5.606.599 krónum frá 1. janúar 2014 til 1.
febrúar 2014, af 5.873.972 krónum frá 1. febrúar 2014 til 1. mars 2014, af
6.113.605 krónum frá 1. mars 2014 til 1. apríl 2014, af 6.407.619 krónum frá 1.
apríl 2014 til 1. maí 2014, af 6.665.745 krónum frá 1. maí 2014 til 1. júní
2014, af 6.923.871 krónu frá 1. júní 2014 til 1. júlí 2014, af 7.172.751 krónu
frá 1. júlí 2014 til 1. ágúst 2014, af 7.338.413 krónum frá 1. ágúst 2014 til
1. september 2014 og af 7.512.223 krónum frá 1. september 2014 til
greiðsludags.
Stefnandi krefst auk þess málskostnaðar að
skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum
stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Kröfu stefnda um frávísun var hafnað með
úrskurði dómsins 18. nóvember 2016.
II
Helstu málavextir eru þeir að stefnandi
starfaði sem umsjónarmaður á Bessastöðum frá 18. janúar 2010 til ágústloka 2014
en hann sagði starfi sínu lausu 16. maí 2014. Ráðningarsamningur á milli aðila
var undirritaður 21. desember 2009 og samkvæmt honum var stefnandi ráðinn til
að starfa í dagvinnu en fékk auk þess fastar yfirvinnugreiðslur, 50
yfirvinnustundir á mánuði, sem alla jafna var ætlað að taka til allrar yfirvinnu
sem stefnandi ynni. Þar að auki skyldi greiða yfirvinnukaup vegna vinnu á
stórhátíðum. Í greinargerð stefnda er tekið fram að til viðbótar við
framangreint hafi stefnanda verið greiddir viðbótaryfirvinnutímar, til dæmis
þegar innleitt hafi verið nýtt öryggiskerfi á Bessastöðum. Í
ráðningarsamningnum er SFR tilgreint sem stéttarfélag og þá segir að um
launagreiðslur, launaflokk, starfsaldur til launa og önnur starfskjör fari
eftir því sem í samningnum greini og samkvæmt kjarasamningi þess stéttarfélags
sem í honum sé tilgreint.
Í stefnu er því lýst að
við undirritun ráðningarsamnings hafi stefnanda verið tjáð að hann þyrfti að
sinna bakvöktum utan dagvinnutíma, auk þess sem hann þyrfti að vera á bakvakt
aðra hverja helgi að meðaltali. Stefnanda hefði verið lofað því, að
bakvaktakvöðin yrði lítt íþyngjandi en fælist aðallega í að fylgjast með boðum
frá öryggiskerfum sem bærust sjaldan. Eingöngu yrði nauðsynlegt að stefnandi
hefði náttstað á Bessastöðum meðan á vöktum stæði en hann hefði að öðru leyti fullt
ferðafrelsi innan höfuðborgarsvæðisins. Stefnandi segir að svo hafi hins vegar
ekki orðið raunin, heldur hefðu bakvaktir íþyngt honum mjög og hefði
vinnuskyldu hans í raun aldrei lokið, auk þess sem stefnanda hefði þegar frá
leið jafnframt verið gert að hlaupa í skarðið fyrir bílstjóra forsetans.
Í málinu liggur fyrir
starfslýsing umsjónarmanns á Bessastöðum þar sem segir að hann hafi starfsstöð
í vaktmiðstöð í Norðurhúsi á Bessastöðum og að búsetukvöð fylgi starfinu.
Jafnframt er þar tiltekið að vinnutími umsjónarmanns taki almennt mið af
daglegri starfsemi staðarins og að umsjónarmaður skuli auk þess vera til taks
eftir því sem með þurfi og óskað verði eftir af forseta eða öðrum í hans
umboði, utan hefðbundins vinnutíma, t.d. í tengslum við fundi og móttöku gesta.
Þá kemur einnig fram í starfslýsingunni að umsjónarmaður skuli vera á
svokallaðri boðvakt og sinna akstri fyrir embætti forseta Íslands eftir nánara
samkomulagi.
Í framlagðri auglýsingu
um starf umsjónarmanns á Bessastöðum frá því í september 2009 segir um
starfssvið hans eftirfarandi: „Umsjónarmaður skal annast almenna vörslu,
eftirlit og daglega umsjón með húsakosti, lóð og landareign á Bessastöðum sem
og tæknikerfum og lagnarýmum. Þá þarf umsjónarmaður að geta sinnt fjölþættum
verkefnum fyrir embætti forseta Íslands, svo sem akstri, og tekið þátt í
undirbúningi og framkvæmd viðburða á Bessastöðum. Nauðsynlegt er að umsækjandi
hafi meirapróf, hæfni í meðferð tölvuvæddra hús- og öryggiskerfa og vald á
enskri tungu. Umsjónarmanni ber að hafa fasta búsetu í íbúð sem honum er ætluð
á Bessastöðum.“
Af framlögðum
tölvupóstum milli stefnanda og forsetaritara verður ráðið að stefnandi gerði á
starfstíma sínum ýmsar athugasemdir við vinnufyrirkomulag og önnur kjör sín.
Stefnandi sagði upp
starfi sínu sem umsjónarmaður í tölvupósti til forsetaritara 16. maí 2014 og
lét af störfum í ágúst sama ár.
III
Stefnandi byggir
dómkröfur sínar á því að stefndi hafi vangreitt honum laun á þeim tíma sem
stefnandi starfaði fyrir stefnda. Stefnandi hafi ekki fengið greiddar vaktir
þrátt fyrir að hafa haft viðveru á vinnustað allan sólarhringinn þegar hann var
á bakvakt. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi farið um ráðningarsambandið samkvæmt
ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 9. gr.
þeirra laga komi fram að starfsmenn eigi rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt
kjarasamningum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og
skyldutryggingu lífeyrisréttinda, mæli kjarasamningar fyrir um lágmarkskjör
fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningur nái
til. Samningsákvæði um lakari kjör starfsmanna en samkvæmt kjarasamningi séu
ógild, hvort sem starfsmaður er félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki.
Stefnandi vísar til þess
að í ráðningarsamningi hans og embætti forseta Íslands sé hvergi fjallað um
viðveruskyldu hans, heldur aðeins að hann fái greiddar 50 yfirvinnustundir á
mánuði fyrir alla yfirvinnu. Þegar stefnandi hafi skrifað undir
ráðningarsamning hafi yfirmenn tjáð honum að hann þyrfti að sinna bakvöktum
utan dagvinnutíma, auk þess að taka bakvakt að meðaltali aðra hverja helgi.
Hvergi hafi verið getið um þetta fyrirkomulag í ráðningarsamningi sem aðilar
hafi undirritað. Stefnandi byggir á því að vinnufyrirkomulag hans hafi jafnast
til þess sem fjallað sé um í ákvæði 2.5.1 í kjarasamningi SFR við
fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, þar sem gerð hafi verið sú krafa að
hann væri ætíð reiðubúinn að sinna útkalli þegar hann hafi ekki verið við
störf.
Stefnandi vísar til þess
að samkvæmt ákvæði 1.6.2 í tilvitnuðum kjarasamningi skuli laun fyrir bakvaktir
reiknast af dagvinnukaupi þannig að greitt sé 33,33% álag fyrir vaktir unnar
frá klukkan 5 síðdegis til miðnættis alla virka daga nema á föstudögum og frá
miðnætti til klukkan 8 alla virka morgna nema á mánudagsmorgnum. Þá skuli
greiða 45% álag fyrir vaktir unnar frá miðnætti til klukkan 8 á
mánudagsmorgnum, frá klukkan 5 síðdegis til miðnættis á föstudagskvöldum og
allan sólarhringinn um helgar og á sérstökum frídögum.
Stefnandi kveðst hafa
haldið sómasamlega utan um vinnutíma sína fyrir embættið. Með hliðsjón af því
byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á greiðslum úr hendi embættisins vegna
vangoldinna launa sem nemi alls 7.512.223 krónum, eins og krafan sundurliðist í endanlegri dómkröfu stefnanda. Stefnandi
vísar til þess að taka þurfi tillit til þess að tímakaup fyrir dagvinnu
samkvæmt launaflokki 631-029-6, sem eigi við um hann, hafi verið 1.996 krónur
til 29. febrúar 2012, 2.066
krónur til 28. febrúar 2013 og 2.134 krónur eftir það þar til hann hafi látið
af störfum fyrir embættið í lok ágúst 2014. Að auki krefst stefnandi
dráttarvaxta af hverjum mánaðarlaunum fyrir sig fram til greiðsludags samkvæmt
1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi vísar til þess
að lögmaður hans hafi sent embætti forseta bréf 12. júní 2015 og reifað
málsatvik, m.a. með vísan til tölvupóstsamskipta á milli stefnanda og
embættisins. Í kjölfar bréfsins hafi erindið verið rætt á fundi aðila máls 26.
ágúst 2015. Í samtölum við starfsmenn forsetaembættisins hafi ekki verið þrætt
fyrir að stefnandi hefði ávallt þurft að vera til staðar og til taks á
Bessastöðum. Starfsmenn embættisins hafi þess í stað lýst því að vinnustaðurinn
sé fámennur og því sé nauðsynlegt að starfsmenn séu tilbúnir að ganga í öll
störf á öllum tímum. Þetta megi skilja sem svo að þeir telji sérstakt eðli
vinnustaðarins réttlæta að starfsmenn séu ætíð reiðubúnir til starfa, án þess
að þeir njóti sanngjarna launagreiðslna fyrir. Stefnandi andmælir umræddri
afstöðu alfarið, enda geti hvorki stærð vinnustaðar né sérstaða hans réttlætt
að gengið sé framhjá kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum starfsmanna.
Stefnandi byggir kröfur
sínar á ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,
einkum 9. gr. Þá er vísað til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og
skyldutryggingu lífeyrisréttinda, einkum 1. gr. laganna. Eins er vísað til
þágildandi kjarasamnings SFR og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Um
dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um
málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um
varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. sömu laga.
IV
Stefndi krefst sýknu af
öllum kröfum stefnanda og byggir á því að stefnandi hafi nú þegar fengið greidd
öll laun sem hann eigi rétt á vegna vinnu sinnar sem ráðstmanns hjá embætti
forseta Íslands. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi strax í upphafi
ráðningar verið upplýstur um kjör sín, vinnutíma og skyldur samkvæmt 2. gr.
reglna nr. 351/1996, um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa
starfsmenn um ráðningarkjör. Stefnandi hafi fengið greidd mánaðarlaun fyrir
dagvinnu samkvæmt kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs,
samkvæmt launaflokki 631-029-6 í samræmi við gildandi kjarasamning. Auk fastra
mánaðarlauna hafi stefnandi fengið greidda 50 fasta yfirvinnutíma fyrir viðveru
á Bessastöðum aðra hverja helgi, auk tilfallandi verkefna svo sem vegna
boðvaktar, móttöku og funda forseta Íslands. Viðvera aðra hvora helgi hafi numið
að meðaltali 32 klukkustundum á mánuði. Því hafi stefnandi fengið greidda 18
yfirvinnutíma á mánuði vegna tilfallandi verkefna sem eðli málsins samkvæmt
hafi verið bundin við viðveru forseta Íslands á Bessastöðum. Af þeirri ástæðu
hafi stefnandi ætíð verið upplýstur um dagskrá forsetans og því hafi yfirleitt
legið ljóst fyrir hvenær stefnandi átti að inna af hendi önnur verkefni. Þá sé
jafnframt ljóst að engar móttökur eða fundir forseta, akstur eða annað honum
tengt hafi komið til á þeim tíma þegar forsetinn var í útlöndum. Af gögnum
málsins megi sjá að á starfstíma stefnanda hjá embættinu hafi fjarvera
forsetans numið samtals þremur til fjórum mánuðum á ári þegar mest hafi verið.
Fyrir tilfallandi verkefni, sem hafi verið unnin í beinum tengslum við útgefna
dagskrá forseta Íslands, hafi stefnandi fengið greidda fasta yfirvinnutíma á
mánuði og hafi þeim yfirvinnugreiðslum verið ætlað að koma til móts við þá
vinnu, væri hún unnin utan hefðbundins dagvinnutíma. Stefndi vísar jafnframt
til þess að stefnandi hafi notið hærri launa en forveri hans í starfi, auk þess
sem stsefnandi hafi átt þess kost að stunda nám við Háskóla Íslands á
starfstíma sínum hjá embættinu.
Stefndi bendir á að
stefnanda hafi frá upphafi verið gerð grein fyrir því að mikilvægur hluti af
starfsskyldum umsjónarmanns fælist í því að hægt væri að ná í hann með stuttum
fyrirvara og því þyrfti hann að vera til taks á staðnum. Talsverð binding gæti
falist í starfinu vegna þessarar kvaðar. Til að koma til móts við hugsanlegt
óhagræði af henni tengdri, væri hluti af launakjörum umsjónarmanns frítt
húsnæði fyrir hann og fjölskyldu hans á Bessastöðum. Þar sem litið hafi verið á
búsetuskilyrði og viðveruskyldu sem kvöð, hafi embættið greitt hita, rafmagn,
síma og önnur gjöld af húsnæðinu. Þá hafi hlunnindin, sem skilgreind væru sem
kvöð, verið undanþegin skatti. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir
viðveruskyldunni strax í upphafi, í auglýsingu um starfið og starfslýsingu
umsjónarmanns á Bessastöðum. Þá hafi stefnandi samkvæmt ráðningarsamningi verið
ráðinn til starfa í dagvinnu með fasta yfirvinnutíma en ekki í vaktavinnu.
Viðveruskyldu stefnanda á dagvinnutíma aðra hvora helgi hafi verið mætt með
greiðslu fastra yfirvinnutíma samkvæmt grein 2.3.1 í kjarasamningi milli aðila
en ekki vaktafyrirkomulagi samkvæmt grein 2.6. Stefnandi eigi því ekki rétt á
umkröfðum bakvaktagreiðslum til viðbótar föstum mánaðarlaunum og greiðslu 50
fastra yfirvinnutíma á mánuði.
Því er mótmælt að það
hafi þýðingu í málinu að stefnandi hafi á starfstíma sínum hjá embætti forseta
Íslands ítrekað óskað eftir því í tölvupóstum til forsetaritara að ræða
launakjör sín. Jafnvel þótt starfsmaður óski eftir viðtölum um launakjör sín,
svo sem hann eigi rétt á, þýði það ekki að starfsmaðurinn eigi þar með rétt að
slíkum launahækkunum. Forsetaritari hafi enda ætíð hafnað kröfum um launahækkun
með vísan til þess að fastar yfirvinnugreiðslur væru greiðslur fyrir umræddar
bakvaktir og að það hafi legið fyrir frá upphafi.
Því er hafnað að grein
2.5.1 í kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs hafi átt við um
launakjör stefnanda, enda hafi stefnandi verið ráðinn til starfa í dagvinnu með
föstum yfirvinnutímum en ekki í vaktavinnu með skipulagðri bakvakt. Stefnandi
hafi fengið greidd dagvinnulaun samkvæmt grein 2.2 og 50 tíma í yfirvinnu utan
tilskilins dagvinnutíma samkvæmt grein 2.3 í kjarasamningi milli aðila.
Jafnframt hafi stefnandi fengið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu á
stórhátíðum og ef einhver sérstaklega stór verk hafi legið fyrir, svo sem við
innleiðingu nýs öryggiskerfis á Bessastöðum.
Stefndi byggir á því að
krafa stefnanda um viðbótarlaun vegna aksturs eigi ekki við rök að styðjast,
enda hafi akstur verið hluti af starfsskyldum stefnanda. Tilgreint hafi verið í
auglýsingu um starfið að það fæli meðal annars í sér akstur. Þá hafi jafnframt
verið tekið fram í auglýsingunni að nauðsynlegt væri að umsækjandi hefði
meirapróf, sem stefnandi hafi reyndar ekki haft. Í starfslýsingunni sem
stefnanda hafi einnig verið kynnt í upphafi ráðningar, væri þess getið að
akstur fyrir forseta Íslands væri hluti af starfsskyldum umsjónarmanns.
Stefnanda hafi því mátt vera ljóst við upphaf ráðningartímans, að hluti af hans
starfsskyldum væri akstur og að allar greiðslur fyrir akstur væru innifaldar í
mánaðarlaunum. Auk þess sem áskilið hafi verið af hálfu stefnanda að stefndi
aflaði sér meiraprófs eins fljótt og auðið væri í kjölfar ráðningar.
Stefnandi byggir á því
að einhliða útbúin gögn af hálfu stefnanda sem hafi að geyma yfirlit yfir
orlofstöku á ráðningartíma hafi enga þýðingu sem sönnunargagn í málinu.
Með hliðsjón af
framangreindu byggir stefndi á því að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður að
myndi greiðsluskyldu til stefnanda. Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar
stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Við aðalmeðferð málsins
gaf stefnandi aðilaskýrslu. Auk þess gáfu skýrslur vitnin, Örnólfur Thorsson
forsetaritari, Kristín Ólafsdóttir, fyrrum ráðsmaður á Bessastöðum, Árni
Sigurjónsson, skrifstofustjóri hjá embætti forseta Íslands, og Jóhann Gunnar Arnarsson,
fyrrum staðarhaldari á Bessastöðum. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og
þurfa þykir.
Mál þetta lýtur að
ágreiningi aðila um það, hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda um
vangoldin laun vegna starfa stefnanda í þágu embættis forseta Íslands.
Stefnandi starfaði sem umsjónarmaður á Bessastöðum frá því í janúar 2010 fram í
ágúst ágúst 2014. Kröfugerð stefnanda miðast við að hann hafi verið á bakvakt
allan sólarhringinn, utan hefðbundins dagvinnutíma og fyrirframskilgreindrar
yfirvinnu, enda hafi hann þá verið bundinn viðveruskyldu á Bessastöðum, fyrir
utan þá daga þegar hann hafi verið í vaktafríi eða orlofi. Stefnandi byggir á
því að hann hafi ekki fengið endurgjald fyrir þær bakvaktir í samræmi við
fyrirmæli kjarasamnings SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs um lágmarkskjör
starfsmanna ríkisins. Kröfugerð stefnanda var breytt undir rekstri málsins í
tilefni af vörnum stefnda, sem lutu að því að hluti kröfunnar væri fyrndur,
þ.e. vegna tímabilsins frá janúar 2010 til og með janúar 2012. Endanleg
kröfugerð stefnanda nær því til tímabilsins frá febrúar 2012 til og með ágúst
2014. Stefnandi kveðst í máli þessu krefjast greiðslu á mismun þeirra
launagreiðslna annars vegar, sem honum hafi með réttu borið úr hendi stefnda á
grundvelli kjarasamnings, og þeirra launa hins vegar sem honum hafi nú þegar
verið greidd vegna framangreinds starfstímabils. Stefndi krefst sýknu af öllum
kröfum stefnanda með þeim rökum að stefnanda hafi nú þegar verið greidd öll þau
laun sem samið hafi verið um.
Óumdeilt er að gerður
var ráðningarsamningur við stefnanda sem er sama efnis og óundirritaður
ráðningarsamningur sem lagður hefur verið fram í málinu. Í ráðningarsamningnum
kemur fram vinnutímaskipulag stefnanda í dagvinnu og yfirvinnu. Stefnandi fékk
fastar greiðslur fyrir alla yfirvinnu sem miðuðust við 50 klukkustundir á
mánuði. Í ráðningarsamningnum er vísað til kjarasamnings SFR og þá er þar mælt
fyrir um að um réttindi stefnanda og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um
réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 9. gr. laganna nr. 70/1996
eiga starfsmenn rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt kjarasamningum.
Kjarasamningar mæla fyrir um lágmarkskjör launamanna, svo sem segir í 1. gr.
laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
Þar segir jafnframt að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um
lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir.
Í framlögðum
ráðningarsamningi er hvorki vikið sérstaklega að viðveruskyldu stefnanda á
Bessastöðum né mælt sérstaklega fyrir um að hann skuli sinna bakvöktum. Í texta
í meginmáli ráðningarsamningsins um greiðslutilhögun launa er þó gert ráð fyrir
að til þess geti komið að greitt sé vaktaálag. Þar segir að mánaðarlaun skuli
greidd eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar næst á eftir vinnumánuði og að
þá séu einnig greidd laun fyrir yfirvinnu, „vaktaálög“, ferðakostnað,
akstursgjald og aðrar greiðslur fyrir tímabilið frá 16. degi mánaðar til 15.
dags mánaðar næst á undan greiðsludegi. Í auglýsingu um starf umsjónarmanns kom
fram að honum bæri að hafa fasta búsetu í íbúð sem honum væri ætluð á
Bessastöðum. Hins vegar er þar ekki vikið að viðveruskyldu umsjónarmanns á
staðnum. Þá er hvergi vikið að henni í starfslýsingu um starfið sem stefndi
hefur lagt fram í málinu en stefnandi kannast ekki við að honum hafi verið
kynnt sú starfslýsing áður en hann hóf störf hjá embættinu.
Deila aðila lýtur m.a.
að því, hvort stefnandi hafi í raun haft viðveruskyldu á Bessastöðum og þá
hvort slík viðveruskylda falli undir skilgreiningu á bakvakt í kjarasamningi
SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með gildistíma frá 1. maí 2011 til 31.
mars 2014 sem óumdeilt er að gilti um ráðningarsamband stefnanda og embættis
forseta Íslands á þeim tíma sem kröfugerð málsins nær til. Í 2. kafla
kjarasamningsins er fjallað um vinnutíma og um bakvaktir og bakvaktafrí í grein
2.5. Samkvæmt grein 2.5.1 er með bakvakt átt við að starfsmaður sé ekki við
störf en reiðubúinn til að sinna útkalli. Það teljist hins vegar ekki bakvakt
dveljist starfsmaður á vinnustað að beiðni yfirmanns. Um greiðslu fyrir
bakvaktir fer samkvæmt grein 1.6.2 en þar er segir að slík greiðsla reiknist af
dagvinnukaupi, sbr. grein 1.4.1, með þeim hætti sem nánar er lýst í fyrrnefnda
ákvæðinu.
Stefndi byggir á því að
hvað sem öðru líði, hafi stefnanda verið umbunað fyrir störf sín á Bessastöðum
utan hefðbundinnar dagvinnu með fastri mánaðarlegri greiðslu 50
yfirvinnustunda. Þá virðist stefndi jafnframt byggja á því að afnot íbúðar
umsjónarmanns á Bessastöðum sé liður í umbun vegna vöktunar á öryggiskerfum,
þrátt fyrir að þau fríðindi hafi ekki verið reiknuð umsjónarmanni til tekna þar
sem litið væri svo á að þau fæli einnig í sér kvöð um viðveru.
Samkvæmt framburði
stefnanda undirritaði hann ráðningarsaming sinn við stefnda í desember 2009, án
þess að sérstök starfslýsing lægi fyrir þar sem skyldum hans í starfi hafi
verið lýst. Starfslýsingu þá, sem liggur fyrir í málinu, hafi hann ekki séð
fyrr en undir rekstri þessa dómsmáls. Þó hafi ekki verið dregið úr því við
ráðningu hans að starf umsjónarmanns á Bessastöðum væri annasamt starf sem ekki
yrði unnið á hefðbundnum dagvinnutíma. Álagið færi að nokkru eftir dagskrá
forseta en 50 yfirvinnutímar, sem væru óháðir vinnuframlagi, hafi verið taldir
hæfilegir miðað við umfang starfsins. Stefnandi taldi að starfið hefði hins
vegar ekki verið í samræmi við það sem honum hefði verið kynnt í aðdraganda
ráðningar að því er varðar umfang og verkefni. Hann kvaðst í upphafi hafa gert
ráð fyrir því að utan dagvinnutíma hefði hann svigrúm til að haga málum sínum
að vild, þrátt fyrir búsetukvöð í ráðningarsamningi, nema þegar um útköll yrði
að ræða, enda hefði hann átt að vera með farsíma á sér öllum stundum. Síðar
hafi komið í ljós að umsjónarmaður hafi átt að hafa viðveru á Bessastöðum allan
sólarhringinn, nema þegar hann var í orlofi eða í vaktafríi aðra hverja helgi,
sem þó hafi ekki ætíð staðist. Þá hafi verkefni umsjónarmanns oft á tíðum
krafist tafarlausrar úrlausnar á öllum tímum sólarhringsins. Auk þess hafi hann
sem umsjónarmaður séð um vöktun á öryggiskerfi staðarins, utan hefðbundins
vinnutíma, en kerfið hefði í upphafi starfstíma hans verið bilað og sífellt
gefið frá sér tilefnislausar viðvaranir sem hann hefði ætíð þurft að sinna.
Eins hafi fylgt því mikið álag þegar öryggiskerfinu hefði verið skipt út. Þá
lýsti stefnandi því að hann hefði sem umsjónarmaður haft það hlutverk að
tryggja að enginn óviðkomandi kæmi nálægt forsetabústaðnum, auk þess sem þess
hefði verið krafist að hann sinnti akstursverkefnum, stundum að nóttu til, og
hafi þá ekki alltaf verið gætt að hvíldartíma hans daginn eftir. Stefnandi tók
fram að viðveruskyldan hefði ekki breyst þótt forsetinn væri erlendis. Ljóst er
af gögnum málsins að stefnandi gerði ítrekað athugasemdir við viðveruskyldu
sína á Bessastöðum.
Kristín Ólafsdóttir,
fyrrverandi ráðsmaður á Bessastöðum, og Jóhann Gunnar Arnarsson, fyrrverandi
staðarhaldari á Besstastöðum, voru samtíða stefnanda í starfi hjá embætti
forseta Íslands fram í ágúst 2011. Vætti þeirra styðja framburð stefnanda um að
hann hafi sem umsjónarmaður haft mikla viðveruskyldu á Bessastöðum, enda hefði
staðurinn ekki mátt vera mannlaus. Annað hvort ráðsmaður eða staðarhaldari
hefði hefði ávallt þurft að leysa umsjónarmann af þegar hann hefði verið í
vaktafríi eða í orlofi. Í framburði vitnisins Kristínar kom fram hvorki
ráðsmaður, staðarhaldari né umsjónarmaður á Bessastöðum hefði í raun unnið
eftir stimpilklukku, heldur hefðu þeir verið í starfinu allan sólarhringinn.
Hún kvað engan þessara starfsmanna hafa verið sáttan við þessa bindingu og að
enginn þeirra hefði við ráðningu í störf sín gert ráð fyrir því að störfin yrðu
svo umfangsmikil sem raun varð. Vitnið, Jóhann Gunnar, kvaðst, sem
staðarhaldari á Bessastöðum, hins vegar ekki haft eins mikla viðveruskyldu og
umsjónarmaðurinn, þrátt fyrir að hann hefði haft þar fasta búsetu. Hins vegar
hefði hann ætíð verið með síma á sér svo ávallt væri hægt að ná í hann vegna
vinnunnar. Þegar hann hefði sinnt helgarvöktum á Bessastöðum á móti
umsjónarmanni eða leyst umsjónarmann af í orlofi, hefði honum hins vegar verið
skylt að vera á Bessastöðum nema hann fengi ráðsmanninn til að leysa sig af.
Meðan á viðveruskyldunni hefði staðið, hefði hann þurft að vakta öryggiskerfin
og sinna þeim að öðru leyti. Jafnframt staðfesti Jóhann Gunnar framburð stefnanda
um að viðveruskylda umsjónarmanns eða þess sem leysti hann af hefði verið sú
sama, hvort sem forsetinn var þá erlendis eða hér á landi.
Örnólfur Thorsson
forsetaritari lýsti því í skýrslu sinni fyrir dóminum að þess hefði verið
krafist að umsjónarmaður hefði fasta búsetu á Bessastöðum. Búsetuskyldan hefði
verið kvöð og því hafi það ekki verið reiknað umsjónarmanni til tekna að starfi
hans fylgdi íbúð fyrir hann og fjölskyldu hans sem embættið sá um að reka að
öllu leyti. Embætti forsetans væri fáliðað en hefði miklar skyldur. Öll
þjónusta við forseta og þá, sem kæmu sem gestir á Bessastaði og hefðu samskipti
við embættið, þyrfti að vera óaðfinnanleg. Allir fastir starfsmenn fengju
farsíma, sem embættið greiddi fyrir, svo alltaf væri unnt að ná í starfsmennina.
Vitnið staðfesti jafnframt að á meðal starfsskyldna stefnanda sem umsjónarmanns
á Bessastöðum hafi verið að hafa yfirumsjón með viðhaldi utanhúss, hann hefði
akstursskyldur, vöktun með öryggiskerfum, auk þátttöku í viðburðum. Vitnið
staðfesti einnig að staðurinn mætti aldrei mátt vera mannlaus og því hefði
alltaf þurft að vera þar starfsmaður, m.a. til að hafa eftirlit með
öryggiskerfi og sinna viðvörunum frá því. Sú skylda hefði jafnan hvílt á
umsjónarmanni, fyrir utan aðra hverja helgi þegar staðarhaldari sinnti henni.
Vitnið kvaðst hins vegar fyrst hafa heyrt rætt um bakvaktir umsjónarmanns í
stefnu málsins.
Vitnið, Árni
Sigurjónsson skrifstofustjóri embættis forseta Íslands, kvað stefnanda hafa
verið gerð grein fyrir því við ráðningu að starf umsjónarmanns á Bessastöðum
væri ábyrgðarmikið starf. Þess hafi verið gætt í ráðningarviðtali að fegra ekki
starfið úr hófi og hefði stefnanda verið kynnt að því fylgdi viðveruskylda sem
fæli í sér að stefnandi þyrfti að hafa fasta búsetu á Bessastöðum. Hins vegar
væru fríðindi falin í fríu húsnæði. Búsetukvöðin hafi verið liður í starfi
stefnanda og ljóst að miklar kröfur hafi verið gerðar til umsjónarmanns um að
bregðast við þegar verkefni hefðu komið upp.
Af framlögðum gögnum og
skýrslum stefnanda og vitna fyrir dóminum er upplýst að stefnandi hafði
viðveruskyldu allan sólarhringinn á Bessastöðum, að frádreginni annarri hverri
helgi og að frádregnum þeim tíma þegar stefnandi var í orlofi. Sú viðveruskylda
var í gildi á ráðningartíma stefnanda sem umsjónarmanns á Bessastöðum. Verður
ráðið af starfsskyldum stefnanda að hann hafi átt að vera til taks á staðnum,
m.a. við vöktun á öryggiskerfi staðarins, og að hann hafi jafnframt þurft að
vera reiðubúinn til að sinna útköllum starfs síns vegna. Viðveruskyldan var í
gildi utan hefðbundins dagvinnutíma og tilfallandi yfirvinnu, sem sýnt þykir að
hafi meðal annars verið fólgin í akstursverkefnum fyrir forseta, auk þátttöku í
viðburðum á Bessastöðum utan dagvinnutíma.
Þegar litið er til
áðurnefndrar lýsingar stefnanda á starfsskyldum hans, vætti vitna sem styðja
lýsingar hans á viðveruskyldu og framlögðum gögnum er það mat dómsins að
viðveruskylda og vinnutilhögun stefnanda sem ráðsmanns að því er hana varðar,
sýni að stefnanda var skylt að vera tiltækur á Bessastöðum utan venjulegs
vinnutíma og viðbúinn að sinna útkalli ef þess gerðist þörf. Það er mat dómsins
að skilgreining greinar 2.5.1 í þágildandi kjarasamningi SFR og
fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs þar sem segir að „með bakvakt [sé] átt við að
starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli“ taki samkvæmt
orðanna hljóðan til umþrætts vinnuframlags stefnanda á ráðningartíma hans.
Í ljósi alls
framangreinds verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi sinnt
bakvöktum í störfum sínum fyrir forsetaembættið og á hann því rétt á greiðslu
fyrir þær samkvæmt fyrirmælum þágildandi kjarsamnings um bakvaktaálag af
dagvinnukaupi, sbr. grein 1.6.2 í kjarasamningnum. Óumdeilt er og ljóst af
ráðningarsamningi að stefnandi var í launaflokki 631-029-6, svo sem lýst er í
málatilbúnaði beggja aðila. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er
ekki unnt að fallast á það með stefnda, að umræddar bakvaktir hafi fallið innan
starfsskyldna stefnanda, eins og þeim er lýst í ráðningarsamningi, sem greitt hafi
verið fyrir með fastri mánaðarlegri greiðslu fyrir 50 yfirvinnustundir. Í
skýrslu sinni fyrir dóminum kannaðist stefnandi ekki við að hafa séð framlagða
ódagsetta og óundirritaða starfslýsingu fyrr en stefndi lagði hana fram sem
dómskjal í máli þessu. Stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir fullyrðingum sínum að
þessu leyti en með vísan til alls framangreinds er það mat dómsins að sú sönnun
hafi ekki tekist. Að því leyti verður jafnframt að líta til áðurraktrar
lýsingar vitnanna, Kristínar Ólafsdóttur fyrrverandi ráðsmanns og Jóhanns
Gunnars Arnarssonar fyrrverandi staðarhaldara, um viðveruskyldu umsjónarmanns á
Bessastöðum sem er í samræmi við lýsingu stefnanda að því leyti. Báru vitnin á
þann veg að staðarhaldari og ráðsmaður hefðu einungis sinnt útköllum eftir
þörfum og leyst stefnanda af meðan hann var í vaktafríi aðra hverja helgi eða í
orlofi.
Þá liggur fyrir að sá
húsakostur, sem umsjónarmaður á Bessastöðum skyldi hafa fasta búsetu í á
ráðningartíma honum að endurgjaldslausu, var ekki reiknaður stefnanda til
tekna, líkt og stefndi gerir raunar grein fyrir í málatilbúnaði sínum. Ekki var
þar um starfstengd hlunnindi að ræða, heldur búsetukvöð sem umsjónarmaður
skyldi sæta. Sjónarmiðum stefnda í greinargerð um að bakvöktum stefnanda hafi
verið mætt með rekstri íbúðarhúsnæðis fyrir stefnanda á Bessastöðum er því
hafnað.
Fram kom í framburði
stefnanda og tveggja vitna að ekki hefði verið haldið nákvæmlega utan um
vinnutíma starfsmanna, hvorki að því er varðar dagvinnutíma né yfirvinnutíma,
enda hefðu störf þeirra ekki verið mæld með stimpilklukku. Stefnandi hefur í
málinu lagt fram yfirlit yfir vaktafrí sitt og orlofstöku á ráðningartíma hans
hjá embætti forseta Íslands. Samkvæmt framlögðum gögnum stefnanda miðast
útreikningar hans við að hann hafi verið á bakvakt allan sólarhringinn þegar
hann hafði viðveru á Bessastöðum. Stefnandi gerir grein fyrir orlofsdögum sínum
á umræddu tímabili og eru þeir dregnir frá útreikningi hans á vangreiddum
launum vegna bakvakta sem og yfirvinna samkvæmt grein 2.5.3 í kjarasamningi SFR
og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Af framlögðum launaseðlum stefnanda verður
ráðið að ekki hafi verið greitt sérstakt bakvaktarálag.
Stefndi hefur andmælt
sönnunargildi yfirlits stefnanda en hefur hins vegar engan reka gert að því að
leggja fram gögn í málinu til vefengingar á efni þess og útreikningum. Þó
verður að líta svo á að það standi stefnda, sem opinberum vinnuveitanda, nær að
halda utan um upplýsingar um viðveru starfsmanna sinna og um leið að upplýsa
nánar um launagreiðslur til stefnanda sem og uppgjör við starfslok. Þá hefur
stefndi ekki fært fram önnur töluleg rök gegn framlögðum útreikningum
stefnanda. Að öllu framangreindu virtu og gögnum málsins er það því mat dómsins
að leggja verði útreikninga stefnanda til grundvallar við úrlausn málsins, enda
hafa þeir ekki verið hraktir.
Í ljósi þess sem hér að
framan er rakið, þykir engu breyta um þau réttindi stefnanda, sem mál þetta
lýtur að, þótt hann hafi fengið hærri grunnlaun en forveri hans í starfi og
jafnframt notið svigrúms hjá vinnuveitanda sínum við að sækja sér menntun
meðfram vinnu.
Er það því niðurstaða
dómsins að taka beri kröfu stefnanda til greina, eins og hún er sett fram í
endanlegri kröfugerð hans.
Eftir úrslitum
málsins og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um
meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað
sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til
virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Halldór Kr. Þorsteinsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Uppkvaðning
dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
D ó
m s o r ð:
Stefndi,
íslenska ríkið, greiði stefnanda, Júlíusi Óla Einarssyni, 7.512.223 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.
gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 206.840 krónum frá 1.
febrúar 2012 til 1. mars 2012, af 439.625 krónum frá 1. mars 2012 til 1. apríl
2012, af 733.222 krónum frá 1. apríl 2012 til 1. maí 2012, af 947.316 krónum
frá 1. maí 2012 til 1. júní 2012, af 1.134.554 krónum frá 1. júní 2012 til 1.
júlí 2012, af 1.285.986 krónum frá
1. júlí 2012 til 1. ágúst 2012, af
1.526.935 krónum frá 1. ágúst 2012 til 1. september 2012, af 1.776.836 krónum frá 1. september 2012 til 1. október 2012, af 2.052.529 krónum frá 1. október
2012 til 1. nóvember 2012, af 2.302.430 krónum frá 1. nóvember 2012 til 1.
desember 2012, af 2.471.765 krónum frá 1. desember 2012 til 1. janúar 2013, af
2.703.762 krónum frá 1. janúar 2013 til 1. febrúar 2013, af 2.935.759 krónum
frá 1. febrúar 2013 til 1. mars 2013, af 3.114.046 krónum frá 1. mars 2013 til
1. apríl 2013, af 3.408.060 krónum frá 1. apríl 2013 til 1. maí 2013, af
3.666.186 krónum frá 1. maí 2013 til 1. júní 2013, af 3.933.558 krónum frá 1.
júní 2013 til 1. júlí 2013, af 4.043.742 krónum frá 1. júlí 2013 til 1. ágúst
2013, af 4.301.868 krónum frá 1. ágúst 2013 til 1. september 2013, af 4.558.896
krónum frá 1. september 2013 til 1. október 2013, af 4.743.051 krónu frá 1.
október 2013 til 1. nóvember 2013, af 5.009.326 krónum frá 1. nóvember 2013 til
1. desember 2013, af 5.303.339 krónum frá 1. desember 2013 til 1. janúar 2014,
af 5.606.599 krónum frá 1. janúar 2014 til 1. febrúar 2014, af 5.873.972 krónum
frá 1. febrúar 2014 til 1. mars 2014, af 6.113.605 krónum frá 1. mars 2014 til
1. apríl 2014, af 6.407.619 krónum frá 1. apríl 2014 til 1. maí 2014, af
6.665.745 krónum frá 1. maí 2014 til 1. júní 2014, af 6.923.871 krónu frá 1.
júní 2014 til 1. júlí 2014, af 7.172.751 krónu frá 1. júlí 2014 til 1. ágúst
2014, af 7.338.413 krónum frá 1. ágúst 2014 til 1. september 2014 og af
7.512.223 krónum frá 1. september 2014 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir