- Lykilorð:
- Einkahlutafélög
- Félagsslit
- Forkaupsréttur
- Hlutafé
- Hluthafi
- Ógilding
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2017 máli nr. E-4550/2014:
Matthías H Johannessen
(Reimar Snæfells Pétursson hrl.)
gegn
Aztiq Pharma Partners ehf.
Árna Harðarsyni og
Magnúsi Jaroslav Magnússyni
(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)
Mál
þetta var höfðað 23. október 2014 af Matthíasi H. Johannessen[...] gegn Aztiq
Pharma Partners ehf., [...], Árna Harðarsyni, [...], og Magnúsi Jaroslav
Magnússyni, [...]. Málinu var vísað frá dómi 22. ágúst sl. eftir aðalmeðferð
þess, en Hæstiréttur ómerkti þann úrskurð með dómi í málinu nr. 555/2017, 11.
október sl. Málið var flutt að nýju 8. desember sl. og dómtekið í kjölfarið.
Stefnandi
krefst þess með vísan til 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994, um
einkahlutafélög, að kveðinn verði upp dómur fyrir því að stefnda félaginu,
Aztiq Pharma Partners ehf., skuli slitið. Þá krefst hann málskostnaðar.
Allir
stefndu krefjast sýknu. Til vara krefjast stefndu þess að stefndi, Aztiq Pharma
Partners ehf., geti, innan frests og fyrir verð sem ákveðið er í dóminum, leyst
til sín 10.000 hluti stefnanda í stefnda, Aztiq Pharma Partners ehf. Þá
krefjast stefndu málskostnaðar.
I.
Máli
þessu var frestað nokkrum sinnum þar sem beðið var matsgerðar og svo yfirmats í
máli sem rekið var fyrir dómnum milli að mestu leyti sömu aðila og sem varðaði
að miklu leyti sömu málsatvik. Eftir að yfirmatsgerð lá fyrir í því máli sem
var nr. E-3519/2014 var í þinghaldi 16. mars 2016 ákveðið að fresta þessu máli
ótiltekið þar til niðurstaða væri fengin í mál nr. E-3519/2014. Dómur gekk í
því máli 11. nóvember 2016 og í kjölfarið eða 20. desember 2016 var mál þetta
tekið fyrir að nýju.
II.
Með framsalssamningi 31. mars 2009 eignaðist
stefnandi 10.000 hluti af 500.000 útgefnum hlutum í Aztiq Pharma Partners ehf.
eða sem svaraði til 2% eignarhlutar. Samkvæmt sama samningi eignuðust Vilhelm
Róbert Wessman 470.000 hluti eða 94% eignarhlut, stefndi Árni 10.000 hluti eða
2%, og stefndi Magnús 10.000 hluti eða 2%. Seljandi hlutafjárins var Lögvit
ehf. Við gerð framsalssamningsins tóku stefnandi, Árni og Vilhelm Róbert sæti í
stjórn félagsins.
Stefndu lýsa því svo að Vilhelm Róbert hafi ekki
eignast hlut í félaginu heldur hafi stefndi Árni yfirtekið þann hlut og eignast
96% í félaginu samkvæmt viðbótarsamkomulagi sbr. umfjöllun síðar. Árni
Harðarson greiddi 480.000 krónur fyrir hlutinn 7. september 2009, stefndi
Magnús 10.000 krónur fyrir sinn hlut 13. ágúst s.á. og stefnandi fyrir sinn
hlut 23. júlí s.á.
Tilgangur Aztiq Pharma Partners ehf. var eignarhald
og rekstur lyfjafyrirtækja. Í samræmi við það fjárfesti Aztiq Pharma Partners
ehf. í lyfjafyrirtækinu Alvogen.
Hugmyndin á bak við stofnun Aztiq Pharma Partners
ehf. var að setja á stofn sjóð sem afla myndi fjárfesta til að standa undir
fjárfestingum í lyfjageiranum, til samræmis við tilgang félagsins. Aztiq Pharma
Partners ehf. festi í framhaldinu kaup á öllum hlutum í nýstofnuðu félagi,
Aztiq Partners AB, og greiddi fyrir það sem nam stofnframlagi félagsins,
100.000 sænskar krónur. Aztiq Partners AB setti síðan upp svokallaðan
SICAR–sjóð í Lúxemborg, Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR, og eins og áður
segir var stefnt að því að fjármagna sjóðinn með utanaðkomandi fjármagni til
fjárfestingar í lyfjageiranum.
Áður en sjóðurinn aflaði fjármagns gafst honum, í september
2009, kostur á að kaupa 30% eignarhlut í Alvogen Aztiq Société Civile,
móðurfélagi rekstrarfélaga um lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum.
Stefnandi lýsir skipulagi samstæðu Aztiq Pharma
Partners ehf. eftir fjárfestinguna með eftirfarandi hætti sem ekki hefur verið
andmælt af stefndu:
Af myndinni megi sjá að Aztiq Pharma Partners ehf.
hafi átt sænskt dótturfélag sem heitir Aztiq Partners AB. Síðarnefnda félagið
átti svo 96,8% eignarhlut í lúxemborgska félaginu Aztiq Pharma Partners S.C.A.
SICAR og 100% eignarhlut í lúxemborgska félaginu Aztiq Pharma Management S.A.
sem átti afgang hlutafjárins í Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR. Samkvæmt
þessu réð Aztiq Pharma Partners ehf. í gegnum Aztiq Partners AB yfir öllu
hlutafé Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR.
Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR var síðan eigandi
9,795,919 hluta í lyfjafyrirtækinu Alvogen Aztiq Société Civile („Alvogen“) eða
sem svaraði til 29,97% eignarhlutar í því félagi. Stefnandi bendir á að
samkvæmt skýrslu stjórnar Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR með ársreikningi
félagsins fyrir árið 2010, sem stefndi Árni undirritaði, hafi þessi
eignarhlutur í Alvogen í árslok 2010 verið metinn á 76,5 milljónir
bandaríkjadala. Hafi það mat byggst á verðmati fjárfestingarbankans Raiffeisen
Investment Bank AG frá því í mars 2010.
Þá átti Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR kauprétt
að 10% eignarhlut til viðbótar í Alvogen gegn greiðslu á 9,6 milljónum
bandaríkjadala. Ef miðað væri við framangreint verðmat Raiffeisen væri verðmæti
þess kaupréttar samkvæmt mati stefnanda í mars 2010 um 15,9 milljónir
bandaríkjadala.
Stefnandi bendir á að stefndi Aztiq Pharma Partners
ehf. hafi ekki aðeins ráðist í framangreinda fjárfestingu, heldur einnig veitt
Alvogen þjónustu sem hafi skilað um 47 milljónum króna í tekjur á árinu 2009 og
um 102 milljónum króna í tekjur á árinu 2010.
Stefndu vísa á bug staðhæfingum stefnanda um stórkostleg
verðmæti 30% eignarhluta í Alvogen og kaupréttar að 10% eignarhlut í Alvogen,
þar sem staðreyndin sé sú að þegar Aztiq Pharma Partners S.C.A. SICAR hafi
skrifað sig fyrir hlutum í Alvogen Aztiq Société Civile hafi verið veittur
greiðslufrestur í 18 mánuði. Hafi verðmæti félagsins því verið nær því að vera
hið sama og innborgað hlutafé fyrir hluti í Aztiq Partners AB, sbr. mat Rýnis endurskoðunar
á eignarhluta Aztiq Partners AB. Þá árétta stefndu að eingöngu 500.000 kr.
höfðu verið greiddar í hlutafé til félagsins og þar af hafði stefnandi greitt
10.000 kr.
Stefnandi hætti í stjórn Aztiq Pharma Partners ehf.
2. mars 2010 og sæti hans tók Magnús Jaroslav Magnússon. Ástæða þessara
breytinga var að sögn stefnanda ósætti milli hans og annarra aðila málsins.
Stefndi segir hins vegar ástæðuna þá að stefnandi hafi 1. mars 2010 ráðið sig
til starfa hjá Actavis, samkeppnisaðila stefnda. Þau vistaskipti hafi stefnandi
undirbúið á laun um nokkurt skeið.
Viðræður áttu sér stað á þessum tíma milli aðila
máls um að hlutur stefnanda í Aztiq Pharma Partners ehf. yrði keyptur en þær
skiluðu ekki árangri.
Eftir undirritun framsalssamningsins útbjuggu
Vilhelm Róbert og Árni sérstakan samning um framsal Vilhelm Róberts til Árna á
470.000 hlutunum í eigu Vilhelms Róberts. Þessi samningur bar titilinn „viðauki
við framsalssamning um hlutabréf í Einkahlutafélaginu Dalasúlu ehf.“.
Burtséð frá því hvenær viðaukinn var undirritaður
hefur því verið slegið föstu að það hafi gerst eftir gerð framsalssamningsins
og því hafi forkaupsréttur hluthafa orðið virkur sbr. dóm Hæstaréttar í málinu
nr. 331/2013. Stefnanda fullyrðir að honum hafi ekki verið kunnugt um gerð
viðaukans fyrr en löngu síðar.
Fljótlega eftir að stefnandi hætti í stjórn eða um
1. júlí 2010 gekk þáverandi stjórn Aztiq Pharma Partners ehf., þeir Vilhelm
Róbert, Árni og Magnús Jaroslav, til samninga sem fólu í sér afsal á helstu
eign félagsins, Aztiq Partners AB, til annars félags, Aztiq Pharma ehf. Þessi
viðskipti munu hafa farið fram án vitneskju stefnanda málsins.
Af þeim upplýsingum sem stefnandi hefur síðar fengið
um viðskiptin telur hann að draga megi þau upp með þessum hætti:
Þannig seldi Aztiq Pharma Partners ehf. helstu eign
sína, eignarhlutinn í Aztiq Partners AB, nánast eignalausu félagi, Aztiq Pharma
ehf., fyrir tæpar 5 milljónir króna og að sögn stefnanda gegn ógreiddri og
ótryggri vonargreiðslu að hámarki 10 milljónir evra ef kaupandi félagsins hefði
sjálfur hagnað af fjárfestingunni og að öðrum frekari skilyrðum uppfylltum
(svonefnt „earn out“ á ensku).
Eftir þessar ráðstafanir virðist starfsemi félagsins
að öðru leyti nánast leggjast af. Það hafi óverulegar tekjur og sé rekið með
rúmlega 15 milljóna króna tapi árið 2011, tæplega níu milljóna króna tapi árið
2012 og með rúmlega 11 milljóna króna tapi árið 2013.
Aðalfundir Aztiq Pharma Partners ehf. fyrir
rekstrarárin 2009 og 2010 voru ekki haldnir fyrr en 14. október 2011 og þá
kveðst stefnandi fyrst hafa fengið upplýsingar um framangreind viðskipti.
Upplýsingar um starfsemi Aztiq Pharma Partners ehf. á fundunum voru að sögn
stefnanda ófullkomnar enda reikningar félagsins ekki endurskoðaðir.
Jafnskjótt og stefnandi fékk vitneskju um að félagar
hans, aðrir hluthafar Aztiq Pharma Partners ehf., og sameiginlegt félag þeirra
höfðu ráðstafað eignarhlutum og eignum án vitneskju og í trássi við vilja
stefnanda, hóf hann aðgerðir.
Stefnandi gat ekki unað því að með gerð umrædds
viðauka væri gengið fram hjá forkaupsrétti hans að hlutunum 470.000 sem Vilhelm
Róbert afsalaði Árna. Af því tilefni höfðaði hann mál 13. desember 2011 til
viðurkenningar á þeim rétti.
Með dómi 28. nóvember 2013, í máli nr. 367/2013,
viðurkenndi Hæstiréttur forkaupsrétt stefnanda og annarra hluthafa, að félaginu
frágengnu, að hlutunum sem viðaukinn tók til á genginu ein króna á hlut.
Meðan málið var rekið um forkaupsréttinn höfðaði
stefnandi mál gegn stjórnarmönnum Aztiq Pharma Partners ehf. til heimtu
skaðabóta vegna sölu helstu eignar félagsins, Aztiq Partners AB, til Aztiq
Pharma ehf. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. október 2012. Dómur
gekk í því 11. nóvember 2016 í málinu nr. E-3519/2012. Því máli hefur verið
áfrýjað af beggja hálfu til Hæstaréttar Íslands. Í málinu var aflað
yfirmatsgerðar um verðmæti Aztiq Pharma Partners ehf. miðað við 1. júlí 2010
eða um það bil er salan fór fram.
Stefnandi höfðaði einnig mál gegn Aztiq Pharma
Partners ehf. vegna þess að hann taldi ársreikningum félagsins, sem fram voru
lagðir á aðalfundum fyrir árin 2009 og 2010, verulega áfátt. Hann taldi þá ekki
samrýmast lögbundnum kröfum m.a. um gerð og endurskoðun samstæðureikninga og
áritun löggilts endurskoðanda félagsins.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2014 var
Aztiq Pharma Partners ehf. sýknað af öllum kröfum stefnanda í því máli. Því
máli var áfrýjað að fengnu áfrýjunarleyfi. Með dómi Hæstaréttar 21. maí 2015 í
máli nr. 791/2014 var vísað frá héraðsdómi
aðalkröfu áfrýjanda, Matthíasar H. Johannessen, um að ógiltir yrðu aðalfundir
stefnda, Aztiq Pharma Partners ehf., sem haldnir voru 14. október 2011 fyrir
starfsárin 2009 og 2011, en sýknað af öðrum kröfum stefnanda.
Í kjölfar framangreinds dóms Hæstaréttar frá 28.
nóvember 2013 ákvað Aztiq Pharma Partners ehf., með tilkynningu 2. desember
2013, að ganga inn í kaupin samkvæmt framangreindum viðauka.
Stefnandi hefur metið það svo að með því sé staðan í
raun sú að hann eigi nú þriðjung útistandandi hlutafjár Aztiq Pharma Partners
ehf. Með „útistandandi hlutafé“ sé átt við hlutafé í eigu annarra en félagsins
sjálfs, en hlutir í eigu þess njóti hvorki atkvæðisréttar, sbr. 57. gr. laga
nr. 138/1994, né arðsréttar eðli máls samkvæmt. Eftir kaup félagsins voru
útistandandi hlutir 30.000 og stefnanda sé eigandi 10.000 þeirra, eða
þriðjungs.
Aðrir hluthafar Aztiq Pharma Partners ehf. en
stefnandi lögðu fram á aðalfundi Aztiq Pharma Partners ehf. fyrir árið 2012,
sem fram fór 14. mars 2014, tillögu um að stjórn félagsins yrði veitt heimild
til að selja Vilhelm Róbert, án forkaupsréttar, eigin bréf félagsins að
nafnverði 470.000 krónur fyrir eina krónu á hlut.
Stefnandi gat ekki unað þessu og krafðist lögbanns
við því að Aztiq Pharma Partners ehf. seldi Vilhelm Róbert, án þess að bjóða
öðrum hluthöfum forkaupsrétt, eigin hluti félagsins að nafnverði 470.000
krónur. Sýslumaðurinn í Kópavogi synjaði í fyrstu kröfunni en Héraðsdómur
Reykjaness felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði 12. júní 2014 og lagði
fyrir sýslumann að leggja lögbannið á. Sýslumaður gerði það 3. júlí 2014 og
stefnandi þingfesti mál því til staðfestingar 3. september 2014.
Í millitíðinni hafði stefnandi höfðað mál á
grundvelli 71. gr. laga nr. 138/1994 til ógildingar á samþykkt
hluthafafundarins 14. mars 2014. Það mál og staðfestingarmálið hafa nú verið
sameinuð.
Aftur lögðu aðrir hluthafar Aztiq Pharma Partners
ehf. en stefnandi, fram tillögu um breytingar á hluthafafundi sem haldinn var
24. október 2014 þess efnis að hlutafé Aztiq Pharma Partners ehf. yrði hækkað
um 100 milljónir króna á genginu ein króna á hlut. Samhliða ákváðu þeir að
leggja til að ákvæði í samþykktum félagsins um forkaupsrétt yrði afnumið í
heild sinni. Þessi hlutafjárhækkun var samþykkt og því á stefnandi nú í stað
þriðjungs hlutar, sem hann taldi sig eiga fyrir hækkun, einungis um 0,01% hlut.
Stefnandi vildi meina að þar sem félagið hefði litla
sem enga starfsemi og engar upplýsingar lægju fyrir um til hvaða þarfa
hlutafjárins skyldi aflað, yrði hlutafjárhækkun óforsvaranleg. Stefnandi
höfðaði því mál til ógildingar á þessari ákvörðun hluthafafundar og þeirri að
afnema forkaupsrétt hluthafa að miklu leyti. Dómur í því máli er kveðinn upp í
dag.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína um slit félagsins á 1.
mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 en samkvæmt greininni geti hluthafar, sem ráða
yfir minnst fimmtungi hlutafjár, krafist dóms fyrir því að félagi skuli slitið
„á þeim grundvelli að hluthafar hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína í
félaginu eða tekið þátt í brotum á lögum þessum eða samþykktum félagsins“.
Stefnandi telur öll skilyrði þessa ákvæðis uppfyllt.
Stefnandi kveðst við útgáfu stefnu hafa verið
eigandi þriðjungs útistandandi hlutafjár Aztiq Pharma Partners ehf. Skilyrðið
um fimmtung hlutafjár sé því uppfyllt.
Þá hafi aðrir hluthafar, þ.e. stefndu Árni og Magnús
Jaroslav, misnotað aðstöðu sína í félaginu á kostnað stefnanda. Þeir hafi sem
stjórnarmenn félagsins selt helstu eign þess til félags í eigu Árna í andstöðu
við 51. gr., 70. gr. og 70. gr. a laga nr. 138/1994.
Sömu hluthafar, hafi brotið gegn og tekið þátt í
brotum gegn 7. gr. samþykkta félagsins með því að hlutast ekki til um að bjóða
forkaupsrétt samkvæmt samþykktunum vegna „viðaukans“, svonefnda.
Þeir hafi og brotið gegn og tekið þátt í brotum gegn
19. gr. samþykkta félagsins og 59. gr. laga nr. 138/1994 með því að
endurskoðandi félagsins hafi átölulaust látið hjá líða að rannsaka reikninga
félagsins, með því að hafa sem stjórnarmenn ekki lagt fyrir aðalfund skýrslu
endurskoðanda, og með því að hafa sem stjórnarmenn ekki lagt fyrir aðalfund
samstæðureikninga fyrir árin 2009 og 2010.
Þeir hafi jafnframt brotið gegn og tekið þátt í
brotum gegn 70. gr. laga nr. 138/1994 með því að hafa á aðalfundi 14. mars 2014
samþykkt breytingar á 7. gr. samþykkta félagsins til að sniðganga réttindi
stefnanda. Aztiq Pharma Partners ehf. hafi verið skylt við þær aðstæður sem þá
voru uppi ýmist að lækka hlutafé félagsins í þágu allra hluthafa samkvæmt
ströngum reglum VIII. kafla laga nr. 138/1994 eða bjóða öðrum hluthöfum
forgangsrétt við sölu hlutanna.
Þeir sömu hafi brotið gegn og tekið þátt í brotum
gegn 70. gr. laga nr. 138/1994 með því að hafa samþykkt á aðalfundi 24. október
2014 hækkun hlutafjár um 100 milljónir króna. Óforsvaranlegt hafi verið fyrir
stefnanda að taka þátt í hækkuninni, starfsemi félagsins sé lítil sem engin og
tilgangur ráðstöfunarinnar sé sýnilega að afla þeim hluthöfum, sem hafa staðið
þétt saman gegn hagsmunum stefnanda, hagsmuni á hans kostnað.
Að endingu tiltekur stefandi að sömu hluthafar hafi
brotið gegn og tekið þátt í brotum gegn 59. gr. laga nr. 138/1994 og 11. gr.
samþykkta félagsins með því að boða ekki sem stjórnarmenn aðalfundi þess fyrir
2011 fyrr en eftir lok næsta ágústmánaðar 2012.
Öll þau brot gegn lögum nr. 138/1994 og samþykktum
félagsins og öll þátttaka í þeim, sem að framan sé lýst, séu framkvæmd af
ásetningi. Þá feli hvert tilvik í sér misnotkun aðstöðu hluthafanna af
ásetningi óháð því hvort um brot gegn lögum nr. 138/1994 eða samþykktum
félagsins teljist vera að ræða.
Hvert og eitt þessara tilvika sé nægjanlegt til að
fallist verði á dómkröfur stefnanda. Enginn greinarmunur verði gerður á
athöfnum eða athöfnum hluthafanna eftir því hvort þeir komi fram sem hluthafar
eða stjórnarmenn, enda hafi hluthafarnir í krafti atkvæðavægis ráðið öllu um
skipan stjórnar félagsins.
Stefnandi telur nauðsynlegt að stefna öllum
hluthöfum Aztiq Pharma Partners ehf. til að þola dóm í málinu með hliðsjón af
afleiðingum dómsins fyrir eignarhluti þeirra í félaginu. Varnarþing sé í
Reykjavík, sbr. 32. og 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga nr.
138/1994. Um kröfu sína um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr.
91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.
III.
Stefndu telja verulega formgalla á
málatilbúnaði stefnanda og að engir lögvarðir hagsmunir stefnanda séu fyrir
hendi.
Stefnandi sé ekki lengur hluthafi í Aztiq
Pharma Partners ehf. sem krafist er slita á, þar sem með tilkynningu 30.
nóvember 2014 hafi hlutir hans verið innleystir á grundvelli 16. og 17. gr.
laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í kjölfarið hafi stefnandi farið fram á
að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta innlausnarverð á hlut hans. Skorað hafi
verið á stefnanda að falla frá beiðni um dómkvaðningu en hann hafi hafnað því.
Því sé í gangi matsferli samkvæmt 17. gr. Stefnandi sé því ekki lengur eigandi
hluta heldur standi einungis eftir ágreiningur um verðmæti hlutanna sem verði
leyst úr þegar niðurstaða liggur fyrir hjá dómkvöddum matsmönnum.
Einungis hluthafi geti átt aðild að máli til
slita á hlutafélagi. Aðildarhæfi stefnandi hafi fallið niður undir rekstri
málsins. Þá hafi úrlausn á málsástæðum stefnanda engin áhrif á stöðu hans þar
sem hann verði ekki aftur hluthafi þótt fallist yrði á þær. Því sé slík úrlausn
andstæð 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og hún hefði ekki raunhæft gildi fyrir
réttarstöðu stefnanda.
Stefnandi hafi ekki krafist ógildingar á
innlausninni og hafi farið fram á mat á innlausnarverði. Hann hafi því
viðurkennt innlausnina og samþykkt í verki. Hann geti ekki krafist þess í
dómsmáli að grundvöllur ákvörðunar verði talinn ólögmætur þegar sjálf
ákvörðunin hafi ekki verið borin undir dómstól.
Stefndu Árni og Aztiq Pharma Partners ehf.
krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda þar sem skortir það
grundvallarskilyrði fyrir kröfugerð stefnanda að hann sé eigandi 1/5 hlutafjár
í Aztiq Pharma Partners ehf. stefndi Árni sé eigandi 99,98% hlutafjár í
félaginu frá 7. nóvember 2014 og alls útistandandi hlutafjár frá 5. janúar
2015. Eðli máls samkvæmt verði skilyrðinu um 1/5 hlutafjár að vera fullnægt við
uppkvaðningu dóms en ekki þegar mál er höfðað. Verði því að sýkna stefndu af
kröfu stefnanda þar sem hann eigi ekki aðild að málinu, sbr. 16. gr. laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála.
Þar sem stefndi Magnús er ekki lengur hluthafi
í félaginu eftir að hann samþykkti innlausnartilboð þann 10. desember 2014 hafi
hann ekki hagsmuni af úrlausn málsins og eru engar kröfur gerðar af hans hálfu
í málinu.
Þá
byggja stefndu jafnframt á því að önnur skilyrði 1. mgr. 81. gr. laga nr.
138/1994 skorti til þess að fallast beri á kröfu stefnanda.
Í
skýringum með ákvæði 81. gr. komi fram að ákvæðinu sé einkum ætlað að vera
beitt þegar engin virk réttarúrræði standi eiganda minnihluta hlutafjár til
boða samkvæmt lögum. Ljóst sé að stefnandi hafi haft ýmis úrræði til þess að gæta
réttar síns en hann hefur áður höfðað mál til ógildingar á ákvörðunum aðalfunda
félagsins, til lagningar lögbanns á ákvarðanir aðalfunda félagsins og til
heimtu skaðabóta vegna ráðstafana stjórnar félagsins á eign þess. Hafi stefndu
aldrei staðið í vegi fyrir því eða aftrað því að stefnandi beiti réttindum
sínum sem hluthafi í Aztiq Pharma Partners ehf. Séu því engin efni til þess að
fallast á kröfu stefnanda og beita svo íþyngjandi úrræði sem félagsslitum í
andstöðu við vilja meirihluta eiganda stefnda, Aztiq Pharma Partners ehf.,
þegar einnig er litið til þess að stefnandi sé ekki lengur hluthafi.
Stefnandi
mótmælir því að með sölu á hlutum Aztiq Pharma Partners ehf., í sænska
dótturfélagi þess, Aztiq Partners AB, um mitt ár 2010, hafi falist ráðstöfun
sem var til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra
hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Hlutirnir hafi verið
framseldir á sama verði og sem nam undirliggjandi verðmæti, þ.e. kaupverði
hluta í Alvogen, að teknu tilliti til skuldbindinga vegna þeirra, auk
vonargreiðslu, kæmi til þess að hlutir í Alvogen yrðu seldir á hærra verði en
sem nam kaupverði. Sé á því byggt af hálfu stefndu að eignin hafi ekki verið
seld á undirverði í andstöðu við 51. gr. og 70. gr. ehfl.
Stjórn
Aztiq Pharma Partners ehf., sem var skipuð hluthöfum sem hafi farið með 98% af
hlutafé Aztiq, hafi einnig verið einróma um að framsal hluta í Aztiq Partners
AB væri nauðsynlegt til að tryggja fjármögnun kaupa á hlutum í Alvogen, vegna
áskilnaðar fjármögnunaraðila um tiltekna eigendaskipan samstæðunnar. Stefnandi,
sem hafði hafið störf hjá samkeppnisaðila Alvogen og neitað að undirrita
trúnaðaryfirlýsingu, hafi átt 2% hlut í félaginu og hafi ekki verið í stjórn
þess. Hafi því ekki verið tilefni til að leita eftir samþykki stefnanda fyrir
framsalinu og synjun minnihluta hluthafa í atkvæðagreiðslu þar um hefði ekki
haft nein áhrif á þá ákvörðun.
Þá
hafi samningur um framsal hluta í Aztiq Partners AB einnig verið gerður í
tengslum við venjulegan rekstur Aztiq Pharma Partners ehf., sem
eignarhaldsfélags um fjárfestingar í lyfjageiranum, og hafi haft að geyma
eðlilegt verð og aðra skilmála, sbr. 4. tölulið 70. gr. a laga um
einkahlutafélög. Sé á því byggt af hálfu stefndu að ekki hafi verið þörf á að
leita eftir samþykki hluthafafundar fyrir ráðstöfuninni með vísan til 70. gr. a
og þá ekki síst í ljósi þess að synjun stefnanda hefði ekki haft nokkur áhrif á
þá ákvörðun sem tekin var.
Við gerð viðauka við framsalssamning um kaup málsaðila
á hlutum í Aztiq Pharma Partners ehf. kveðast stefndu hafa verið í góðri trú um
að viðaukinn væri eingöngu til leiðréttingar á þeim eignarhlutföllum sem
ranglega höfðu verið tilgreind í framsalssamningnum og fæli ekki í sér
eigendaskipti að hlutum sem virkjuðu forkaupsrétt samkvæmt 7. gr. samþykkta
félagsins.
Þegar niðurstaða dóma Hæstaréttar í málum nr. 331/2013
og 367/2013 lá fyrir hafi stefndi Árni þá þegar hlutast til um að bjóða
félaginu forkaupsrétt samkvæmt umræddu ákvæði samþykkta félagsins og til
samræmis við niðurstöðu tilgreindra dóma. Verði litið á það sem brot á
samþykktum félagsins að hafa ekki boðið forkaupsrétt við gerð viðaukans skorti
í það minnsta ásetningsskilyrðið en stefnda óraði ekki fyrir að framsal hefði
átt sér stað með gerð viðaukans. Sé því mótmælt að framangreint geti orðið grundvöllur fyrir kröfu stefnanda um slit á
félaginu.
Á
aðalfundum félagsins 2009 og 2010 hafi verið lagðir fram ársreikningar til
samþykktar fundarins. Skoðunarmaður félagsins, Lúðvík Þráinsson endurskoðandi,
hafi yfirfarið reikningana og kannað bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er
vörðuðu rekstur þess og stöðu í samræmi við lög nr. 3/2006, um ársreikninga, og
19. gr. samþykkta félagsins. Á aðalfundunum hafi einnig verið lagðar fram
skýrslur skoðunarmanns með yfirförnum og undirrituðum ársreikningi félagsins í
samræmi við 59. gr. laga um einkahlutafélög.
Félaginu
hafi ekki verið skylt að kjósa endurskoðanda samkvæmt 98. gr. laga nr. 3/2006 og ekki hvílt á skoðunarmanni
félagsins skylda til að endurskoða og árita reikninga, heldur hafi hlutverk
hans samkvæmt lögum falist í því að yfirfara og undirrita reikninga félagsins,
sbr. 2. mgr. 102. gr. og 3. mgr. 104. gr. laga nr. 3/2006. Framangreint hafi
verið staðfest af fjölskipuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. júlí 2014 í máli
nr. E-11/2012 sem og að ekki hafi verið áskilið að lagður yrði fyrir aðalfund
samstæðureikningur samkvæmt 70. gr. laganna. Sé málsástæða stefnanda hvað þetta
varðar því með öllu haldlaus.
Á
löglega boðuðum aðalfundi Aztiq Pharma Partners ehf. 14. mars 2014, sem
fulltrúar allra hluthafa sóttu, hafi verið samþykkt með 2/3 hluta atkvæða að
fella brott forkaupsrétt að eigin hlutum félagsins í samræmi við 63. og 68. gr.
laga um einkahlutafélög og samþykktir félagsins. Gilti sú ákvörðun jafnt um
alla hluthafa í félaginu og tók til viðskipta með hluti í félaginu til
framtíðar.
Þá
hafi verið samþykkt á löglega boðuðum aðalfundi Aztiq Pharma Partners ehf. 24.
október 2014 með 2/3 hluta atkvæða að fella forkaupsrétt að hlutum í félaginu
alfarið brott. Stefndu byggja á því að aukinn meirihluti hluthafa hafi að lögum
vald til þess að afnema forkaupsrétt hluthafa við eigendaskipti að hlutum,
hvort sem er að hluta eða að öllu leyti. Sé ekkert í lögum nr. 138/1994, um
einkahlutafélög, sem komi í veg fyrir að unnt sé að breyta ákvæðum um
forkaupsrétt í samþykktum og fella þannig niður forkaupsrétt að hluta eða öllu
leyti, eða forgangsrétt ef því er að skipta, enda sé það gert með áskildum
meirihluta hluthafa og innbyrðis réttarsambandi hluthafa ekki raskað.
Því
er mótmælt af hálfu stefndu að 38. gr. laga um einkahlutafélög hafi áhrif á
lögmæti ákvarðana aðalfunda félagsins enda hafi hlutafé í félaginu nú verið
hækkað og eigin hlutir vel innan lögbundinna marka og því hvíli engin
lagaskylda á félaginu að selja hlutina eða lækka hlutafé með vísan til
tilgreinds ákvæðis.
Á
löglega boðuðum aðalfundi Aztiq Pharma Partners ehf. 24. október 2014 hafi
verið samþykkt með 2/3 hluta atkvæða að
hækka hlutafé félagsins um 100.000.000 króna að nafnverði á genginu ein króna á
hlut til samræmis við 23-25. gr., 63. og 68. gr. laga nr. 138/2014. Samkvæmt
greindri ákvörðun hafi allir hluthafar félagsins átt rétt til að skrá sig fyrir
nýjum hlutum í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína. Skráðu hluthafar sig
ekki fyrir nýútgefnum hlutum skyldi öðrum hluthöfum veittur hlutfallslegur
réttur til að skrá sig fyrir þeim hlutum. Hlutafjárhækkunin hafi m.a. verið
ákveðin í þeim tilgangi að efna skuldbindingar Aztiq Pharma Partners ehf. en
félagið hafi ekki átt reiðufé til að greiða skammtímaskuldir og stefndi því í
greiðsluþrot yrði ekkert að gert. Í framhaldi af hækkuninni hafi stjórn
félagsins síðan áform um að taka ákvörðun um frekari rekstur og fjárfestingar
til samræmis við tilgang félagsins, en starfsemin hafi að mestu legið niðri á
síðustu árum fyrir málshöfðun þessa vegna ágreinings við stefnanda og
síendurtekinna málshöfðana af hans hálfu.
Stefnanda
hafi gefist kostur á að taka þátt í hlutafjárhækkuninni rétt eins og öðrum
hluthöfum, með nákvæmlega sömu skilmálum, en kaus að gera það ekki. Í
ákvörðuninni hafi því hvorki falist röskun á innbyrðis réttarsambandi hluthafa
né hafi hluthöfum með nokkrum hætti verið mismunað. Sé því alfarið mótmælt að
ákvörðunin hafi verið til þess fallin að afla þeim hluthöfum sem tóku þátt í
hlutafjárhækkuninni ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda.
Stefndu
telja að boðun til aðalfunda félagsins hafi dregist fyrst og fremst vegna þess
að félagið hafi verið óstarfhæft frá árinu 2010 vegna ágreinings hluthafa og
málaferla. Enginn ásetningur hafi verið til staðar af hálfu stefndu að misnota
aðstöðu sína í félaginu eða brjóta gegn lögum og samþykktum, heldur hafi tafir
á fundarboðun orsakast af afsakanlegum ástæðum. Séu því ekki uppfyllt skilyrði
1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 til þess að slíta félaginu á þessum
grundvelli.
Stefndu
gera þá varakröfu ef ekki verður sýknað í málinu að dómurinn ákveði að í stað
félagsslita geti stefndi, Aztiq Pharma Partners ehf., innan frests og fyrir
verð sem ákveðið er af dómnum, leyst til sín 10.000 hluti stefnanda í Aztiq
Pharma Partners ehf., sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994. Séu engin efni
til að verða við kröfu stefnanda um jafníþyngjandi aðgerð og félagsslit stefnda
Aztiq Pharma Partners ehf. hefði í för með sér.
Samrýmist
það einnig ákvæði 18. gr. a að beitt sé vægara úrræði, þ.e. innlausn 10.000
hluta stefnanda í Aztiq Pharma Partners ehf., sem og sú staðreynd að hlutur
stefnanda í félaginu hafi þegar verið innleystur.
Þá
séu hagsmunir stefnanda að fullu tryggðir með innlausn hluta hans, jafnvel þótt
talið verði að skilyrði 1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 séu uppfyllt, og án
þess að koma þurfi til jafn viðurhlutamikillar aðgerðar og slit félagsins hafi
óhjákvæmilega í för með sér. Sé heldur ekki með nokkru móti hægt að fallast á
að réttmætur ágreiningur hluthafa geti leitt til þess að lagaskilyrði séu til
að heimila jafn harkalegt inngrip og slit félags.
Stefndi
byggir aðallega á þeim ákvæðum laga sem vísað er til í greinargerð hans, laga
nr. 138/1994, um einkahlutafélög, einkum 16.-18. gr., 23.-25. gr., 63. gr., 68.
gr., 71. gr. og 2. mgr. 81. gr. laganna. Vísar stefndi jafnframt til laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála, einkum 16. grein laganna um sýknu vegna
aðildarskorts. Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr.
91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðst
við ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt af málskostnaði.
IV.
Þann
24. október 2014, eða degi eftir höfðun þessa máls, var haldinn aðalfundur í
Aztiq Pharma Partners ehf. Þar var samþykkt að auka hlutafé félagsins um
100.000.000 króna. Stefnandi tók ekki þátt í þeirri aukningu enda hafði hann
lýst því að hann teldi engar forsendur vera fyrir aukningunni og í hana hafi
verið ráðist eingöngu til að skerða hans hagsmuni enn frekar, öðrum hluthöfum
til hagsbóta. Höfðaði hann enda annað dómsmál til að freista þess að fá þessari
ákvörðun hnekkt.
Fljótlega
í kjölfar aðalfundarins, eða 30. nóvember 2014, sendi Árni Harðarson, hluthafi
í félaginu, bréf til annarra hluthafa, þ.e. stefnanda, sem tók við bréfinu 1.
desember sama ár, og Magnúsar Jaroslav Magnússonar þar sem hann tilkynnti í
kjölfar hækkunarinnar að hann væri nú eigandi 99,98% hlutar í félaginu og að
hann hefði ákveðið samkvæmt 16. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að
aðrir hluthafar skyldu sæta innlausn á hlutum sínum. Stefnandi átti á þessum
tíma, samkvæmt sýn Árna, einungis 0,01% hlut í félaginu.
Stefnandi
mótmælti innlausn með bréfi 18. desember 2014 og kvað, m.a. með vísan til
framangreinds máls sem hann hafði þá höfðað um ógildingu
hlutafjárhækkunarinnar, að aðgerðin væri með öllu löglaus. Í bréfinu óskaði
stefnandi þó eftir því að félagið myndi beiðast dómkvaðningar matsmanna til að
meta virði félagsins. Stefnandi tók þó fram að í því fælist engin viðurkenning
á aðgerðinni. Matsbeiðni var þó ekki móttekin í héraðsdómi fyrr en 9. janúar
2017. Matsmenn voru, án andmæla aðila, dómkvaddir af Héraðsdómi Reykjaness 25.
janúar 2017.
Árni
Harðarson sendi 6. janúar 2015 tilkynningu um greiðslu inn á greiðslureikning
með vísan til 17. gr. laga um einkahlutafélög enda hafði þá stefnandi ekki
framselt hluti sína.
Samkvæmt
17. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, gildir sú regla að sé hlutur ekki framseldur samkvæmt
ákvæðum 16. gr. laganna skal greiða andvirði hans á geymslureikning á nafni
rétthafa. Frá þeim tíma teljist hluthafinn réttur eigandi hlutar og hlutir
fyrri eiganda ógildir. Tilkynning í þessa veru var í bréfi Árna frá 6. janúar
2015. Jafnframt var tekið fram að hlutaskrá Aztiq Pharma Parterns ehf. hefði
verið breytt til samræmis við framangreint.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu í málinu
nr. E-4549/2014 að stefnandi ætti ekki lengur vegna framangreinds lögvarða
hagsmuni af því að leyst yrði úr kröfum hans þar sem hann væri ekki lengur
hluthafi í félaginu. Stefnandi yrði að leita annarra leiða til að sækja þann
rétt sem hann telur sig eiga vegna framangreindra ákvarðana. Hæstiréttur
ómerkti úrskurðinn með dómi í málinu nr. 554/2017 á þeim grundvelli að
stefnandi hefði verið hluthafi í Aztiq Pharma Partners ehf. þegar þær
ráðstafanir voru gerðar sem stefnandi telur að leiða eigi til þess að félaginu
verði slitið.
Í dómi þessa dómstóls á milli stefnanda og annarra sem átt hafa hlut í stefnda í málinu nr. E-3519/2012, sem áfrýjað var til Hæstaréttar, var í forsendum niðurstöðu því slegið föstu að stefnandi ætti ekki þriðjungshlut í stefnda heldur félagið sjálft. Þetta byggði á því að í dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í málinu nr. 367/2013, milli stefnanda og Árna Harðarsonar, Vilhelms Róberts Wessman, Magnúsar Jaroslav Magnússonar og Aztiq Pharma Partners ehf. var komist að þeirri niðurstöðu að með þeim viðauka við framsalssamning sem stefndu Árni Harðarson og Vilhelm Róbert Wessman gerðu, þar sem Róbert gekk út úr ofangreindu félagi sem eigandi 94% hlutar, og Árni eignaðist alls 96% hlut í félaginu, hafi forkaupsréttur orðið virkur. Því var þannig slegið föstu að sá gerningur hefði verið gerður eftir upphafleg kaup aðila á félaginu, sem áður hét Dalasúla ehf. Við þessa breytingu hafi hluthafar því, í samræmi við 2. mgr. 7. gr. samþykkta fyrir Aztiq Pharma Partners ehf., öðlast forkaupsrétt að þeim bréfum sem þarna skiptu um hendur, þ.e. þeim 94% hlut sem Vilhelm hafði skrifað sig fyrir, þó að frágengnu félaginu sjálfu.
Strax eftir að dómur Hæstaréttar féll 28. nóvember 2013 lýsti stefndi Árni Harðarson því yfir sem formaður stjórnar, f.h. Aztiq Pharma Partners ehf., að félagið hygðist nýta sér forkaupsrétt vegna þessara viðskipta. Var bréf þessa efnis sent 2. desember 2013, til Róberts Wessman, og afrit til stefnanda og stefnda Magnúsar Jaroslav Magnússonar. Stefnandi byggði á því að við þessa yfirlýsingu væri í raun sú staða uppi að hann hefði eignast þriðjungshlut í félaginu og stefndu Magnús og Árni þriðjung hvor. Yrði það skýrt þannig að fyrir framangreind viðskipti áttu þessir aðilar allir 2% hlut og við útgöngu stefnda Róberts og kaup félagsins á hluta hans hafi þeir því allir í raun orðið jafnstórir eigendur alls hlutafjár í félaginu, enda fylgi eigin hlutum hvorki atkvæðisréttur né réttur til arðs.
Það lá hins vegar ekkert fyrir í málinu sem leiddi að mati dómsins til þess að stefnandi yrði talinn eiga, samanber framangreint, þriðjung hlutafjár í félaginu. Félagið virtist þannig ekki hafa losað um hlutina þrátt fyrir lagaskyldu og voru þeir því að forminu til enn í eigu þess sjálfs að því er best varð séð. Því var lagt til grundvallar að félagið sjálft hafi enn verið eigandi 94% hlutar. Þessi staða var samkvæmt framangreindum rökum enn sú sama á aðalfundi félagsins 24. október 2014.
Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 er það forsenda þess að gerð verði krafa um slit á félagi, að hluthafi sem það gerir eigi minnst fimmtung hlutafjár. Fari hluthafi fram með slíka kröfu og fyrir liggur að hann nær ekki þessu hlutfalli telur dómurinn að vísa beri máli frá dómi. Því verður ekki dregin önnur ályktun af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 554/2017 en að gengið sé út frá því að stefnandi uppfylli þetta skilyrði laganna þótt notast hafi verið efnislega við það orðalag að sóknaraðili, þ.e. stefnandi þessa máls, teldi sig hafa átt þriðjung hlutafjár. Því telur dómurinn ekki undan því vikist að fjalla efnislega um kröfu stefnanda.
Koma
því til skoðunar þær ákvarðanir sem stefnandi byggir á að eigi að leiða til
þess að félaginu verði slitið. Þar kemur fyrst til skoðunar sú ákvörðun stefndu
sem einkum var umfjöllunarefni í málinu nr. E-3519/2012 sem að framan er lýst,
um að selja hlutabréf í Aztiq Partners AB, hafi verið tekin gegn betri vitund,
þ.e. að stjórn félagsins hafi vitað að endurgjald fyrir bréfin hafi verið allt
of lítið, ef sú var raunin. Rétt er að víkja nokkuð að niðurstöðu þess máls.
Dómurinn
í því máli, sem skipaður var sérfróðum meðdómurum, taldi framlagða yfirmatsgerð
í því máli um þau verðmæti sem skiptu um hendur vel grundaða, og að ekki væru á
henni neinir þeir annmarkar sem myndu draga úr gildi hennar og var hún því lögð
til grundvallar í málinu, enda hafði henni ekki verið hnekkt.
Þannig
var lagt til grundvallar að mat á virði Alvogen, sem framkvæmt var af
Raiffeisen Investment Bank, eða ársreikningur Aztiq Pharma Partners S.C.A.
SICAR, um stöðu félagsins í árslok 2010, hafi ekki megnað að draga úr gildi
yfirmatsgerðar, en samkvæmt reikningi sem undirritaður var af stefnda Árna
Harðarsyni var eignarhlutur sjóðsins í Alvogen þá metinn á 76,5 milljónir
bandaríkjadala. Hið sama var talið gilda um framburði fyrir dómi og önnur skjöl
sem lögð hafa voru fram í málinu um þennan þátt málsins, þ.m.t. ársreikningar.
Samkvæmt
fyrrgreindri yfirmatsgerð var verðmæti alls hlutafjár í Aztiq Pharma Partners
ehf. 1. júlí 2010, eftir að dregnar eru frá skuldir vegna kaupanna, 15.1
milljón bandaríkjadala eða gróflega jafnvirði um 1.680 milljóna króna. Samkvæmt
bæði undirmati og yfirmati var virði þeirrar greiðslu sem inna átti af hendi
fyrir hlutinn, en virtist reyndar við þá málsmeðferð enn ekki hafa skilað sér
til félagsins, um 1.5 milljónir króna eða jafnvel lægra. Matsmenn treystu sér
eðli máls samkvæmt ekki til að meta hugsanlegar viðbótargreiðslur við sölu
hlutarins, eða eins og sagði í yfirmati: „Vegna óvissu um tímasetningu á
mögulegri sölu Aztiq Pharma SICAR á eignarhlut í Alvogen Aztiq SC, verðmæti
þeirrar sölu, tímamarki afnáms gjaldeyrishafta innan þeirra marka sem sett eru
í kaupsamningi telja yfirmatsmenn sér ekki fært að leggja mat á verðmæti
mögulegra aukagreiðslna.“
Í
ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir í málinu taldi dómurinn því sýnt að
helsta eign Aztiq Pharma Partners ehf., þ.e. Aztiq Partners AB, hafi verið seld
á undirverði. Þá var einnig gengið út frá því að stjórn félagsins hafi mátt
vera þetta fullljóst. Í því sambandi var vísað til þess að þegar ákvörðunin var
tekin lá fyrir mat Raiffeisen Investment Bank frá febrúar 2010 sem mat virði
heildarhlutafjár í Alvogen (e. Equity value) þá á 255 milljónir bandaríkjadala.
Við þessa fjárhæð hafi svo stefndi Árni miðað í ársreikningi Aztiq Pharma
Partners S.C.A. SICAR fyrir 2010, en stjórnarformaður þess félags var stefndi
Róbert og honum var því mætavel kunnugt um þessa stöðu. Árni hafi og látið
getið í skýrslu stjórnenda með reikningnum að utanaðkomandi aðili hefði sýnt
áhuga á að kaupa 10% hlut í Alvogen og nefnt hafi verið, að viðkomandi væri
reiðubúinn að greiða 25 milljónir dala fyrir slíkan hlut, sem er þá næstum sama
mat og hjá Raiffeisen. Þá yrði að ganga út frá því að stefndu hafi verið
kunnugt um kynningu stjórnenda Alvogen frá því í febrúar 2010, þar sem kynnt
var áætlun um rekstur og framlegð til framtíðar, en yfirmatsmenn notuðu þessa
kynningu sem hluta af grundvelli fyrir niðurstöðum sínum. Dómurinn taldi að
ekki yrði gerður ágreiningur um að stefndu hafi mikla reynslu á þessu sviði og
hafi því 1. júlí 2010, án nokkurs vafa, átt að gera sér grein fyrir verðmæti
hlutarins.
Ekki
voru talin skipta máli þau sjónarmið að ef stjórn Aztiq Pharma Partners ehf.
hefði ekki farið þá leið sem farin var, hefði fjárfestingarmöguleikinn líkast
til tapast, þar sem fjármögnun hefði líklega ekki tekist. Þessi málsástæða var
í raun engum gögnum studd og staðreyndin talin enda sú, eðli máls samkvæmt, að
hún yrði aldrei sönnuð. Það hafi hins vegar ekki breytt því að þessi leið var
farin án þess að skeyta neinu um hagsmuni stefnanda sem átti sannanlega 2% hlut
í félaginu og jafnvel þriðjung hlutafjár. Hið sama var talið eiga við um
meintar kröfur Sage International Ventures LLC, m.a. um breytt eignarhald sem
skilyrði fyrir lánveitingu. Slíkt hafi ekki veitt stjórninni neinar rýmri
heimildir til að ganga fram hjá hagsmunum félagsins og hluthafa þess og ekki
yrði séð að þær kröfur hafi einar og sér kallað á og/eða réttlætt þá leið að
selja svo til einu eign félagsins á miklu undirverði.
Þeirrar
reglu var getið að gengið hafi verið út frá því að ákvarðanir stjórnar
hlutafélags sem eru viðskiptalegs eðlis leiði ekki til bótaskyldu, einfaldlega
af þeirri ástæðu að síðar komi í ljós að þær hafi verið rangar og félagið hafi
tapað á þeim. Þá er þó lagt til grundvallar að stjórnandi félags hafi tekið
slíkar ákvarðanir í góðri trú og haft hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Talið
var að slík sjónarmið ættu ekki við í málinu. Dómnum virtist einsýnt að með þeirri
ráðstöfun sem málið fjallaði einkum um hafi hagsmunir einstaks eða jafnvel
einstakra hluthafa verið teknir með ótilhlýðilegum hætti fram fyrir hagsmuni
félagsins og þar með annarra hluthafa. Ef hætta væri á slíkum árekstrum bæri
stjórnarmönnum að setja hagsmuni félagsins í öndvegi, en dómurinn taldi að
stefndu hefðu í umrætt sinn ekki gert það.
Að
virtu einkum framangreindu var því talið að háttsemi stefndu hefði bakað þeim
skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda, en líkur stæðu til þess að tjón stefnanda
væri umtalsvert og hlypi á mörgum milljónum króna hvort sem miðað væri við 2%
hlut, hvað þá ef um þriðjungshlut væri að ræða.
Annað
dæmi sem stefnandi nefnir til sögunnar og telur til marks um ótilhlýðilegar
gjörðir meðhluthafa sinna er sú ákvörðun þeirra að hækka á aðalfundi 24.
október 2014 hlutafé í hinu stefnda einkahlutafélagi um 100.000.000 króna.
Einnig í þriðja lagi að hafa afnumið á sama fundi forkaupsrétt hluthafa innan
félagsins. Höfðaði stefnandi mál vegna þessara tilvika skömmu eftir aðalfundinn.
Dómur féll í málinu fyrr í dag þar sem fallist var á kröfur stefnanda. Þannig
var talið að þessar ráðstafanir meðhluthafa stefnanda hefðu verið
ótilhlýðilegar og til þess fallnar að færa tilteknum hluthöfum hagsmuni á
kostnað stefnanda. Þessar ákvarðanir voru því ógiltar.
Stefnandi
byggir einnig á því að aðrir hluthafar í félaginu hafi brotið samþykktir
félagsins á fundi 14. mars 2014 til að sniðganga réttindi stefnanda. Einnig
hafi sömu hluthafar brotið gegn og tekið þátt í brotum gegn 59. gr. laga nr.
138/1994 og 11. gr. samþykkta félagsins
með því að boða ekki aðalfundi í félaginu á réttum tíma. Þá hafi þeir brotið
gegn 7. gr. samþykkta félagsins með því að hlutast til um að stefnanda væri
ekki boðinn forkaupsréttur samkvæmt hinum svokallaða „viðauka“ sem að framan er
getið. Jafnframt er að lokum byggt á því að þeir sömu hafi brotið gegn 59. gr.
laga nr. 138/1994 og 19. gr. samþykkta félagsins með því að endurskoðandi
félagsins hafi átölulaust látið hjá líða að rannsaka reikninga félagsins o.fl.
Dómurinn
telur að framangreind framganga annarra hluthafa í Aztiq Pharma Partners ehf.
hafi verið með öllu óásættanleg. Síður verður talið að síðastgreind atriði eigi
að leiða til slita á einkahlutafélaginu eða að fullyrt verði að þar hafi verið
ásetningur. Dómurinn telur á hinn bóginn að atvik er varða eignasölu úr
félaginu, hækkun hlutafjár og afnám allra ákvæða um forkaupsrétt í samþykktum
félagsins hafi verið mjög ámælisverð og skaðað í krafti meirihlutavalds með
ótilhlýðilegum hætti hagsmuni stefnanda öðrum hluthöfum til hagsbóta án þess að
stefnandi fengi rönd við reist. Ekki getur verið ágreiningur um það að þessi
brot voru eðli máls samkvæmt framin af ásetningi. Því verður talið að skilyrðum
1. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé fullnægt þannig að
skilyrði séu til að fallast á að slíta félaginu.
Stefndu
hafa gert þá varakröfu, að dómurinn ákveði að í stað félagsslita geti stefndi,
Aztiq Pharma Partners ehf., innan frests og fyrir verð sem ákveðið sé í
dóminum, leyst til sín 10.000 hluti stefnanda í Aztiq Pharma Partners ehf.,
sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 138/1994. Dómurinn telur að unnt sé undir vissum
kringumstæðum að beita vægari úrræðum en slitum ef þeim verður komið við, þrátt
fyrir að brot séu alvarleg og skilyrði fyrir slitum fyrir hendi.
Ákvæði
2. mgr. 81. gr. var í fyrstu útgáfu laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, en
frumvarp til laganna var lagt fram á 118. löggjafarþingi 1994. Í umfjöllun um
þáverandi 106. gr. sagði það eitt í athugasemdum um ákvæðið að það væri sambærilegt
114. gr. laga um hlutafélög. Ákvæði í þessa veru kom inn í hlutafélagalög með
lögum nr. 69/1989. Í frumvarpi til þeirra laga segir einungis um ákvæðið, sem
varð á endanum 114. gr. hlutafélagalaga, að ákvæðið sem væri nýmæli þarfnaðist
ekki skýringar.
Því
eru ekki sjáanlegar leiðbeiningar um það á hverju verðmæti fyrirtækis skuli
byggt þegar dómur ákveður það undir framangreindum kringumstæðum. Engin gögn
sem dómari getur lagt til grundvallar í málinu miðað við ágreining aðila gera
að mati dómsins það kleift að ákveða verðmæti félagsins svo hægt sé að beita 2.
mgr. 81. gr. en telja verður að slíkt mat verði alla jafnan að miða við
verðmæti félagsins á þeim tíma sem dómur er lagður á. Verður ekki betur séð en
að í stöðu eins og þeirri sem uppi er í þessu máli þurfi að koma til mjög
ákveðin sönnunargögn svo dómari geti fellt á þetta dóm, og er þá einkum horft
til mats dómkvadds matsmanns - eða manna. Slíkra sönnunargagna nýtur ekki við í
þessu máli og eru því ekki efni til að fallast á varakröfu stefndu.
Matsgerð
sem unnið mun að vegna innlausnar Árna Harðarsonar á hlut stefnanda í öðru máli
liggur ekki frammi og ekki hefur verið gerð krafa um frestun málsins þar til
matsgerð liggur fyrir enda með öllu óvíst hvenær hún muni líta dagsins ljós og
ómögulegt að átta sig á því hver niðurstaða hennar verður og hvort hún gæti
gagnast við úrlausn á varakröfu stefndu. Stefndu hafa ekki bent á hvaða vægari
úrræði önnur gætu tryggt hagsmuni stefnanda.
Þá
verður horft til þess við úrlausn á varakröfunni að augljóslega er ágreiningur
með aðilum um hvort stefnandi hafi átt 2% í félaginu eða þriðjung hlutafjár
sbr. það að krafan miðast við 2% eða 10.000 hluti.
Ekki
verður séð af gögnum málsins að starfsemi sé í Aztiq Pharma Partners ehf.,
a.m.k. virðist hún þá ekki umfangsmikil frekar en síðustu ár. Því verður að
telja að þótt slit á hlutafélagi sé mjög viðurhlutamikil aðgerð séu
rekstrarhagsmunir ekki slíkir að standi í vegi fyrir slitum, a.m.k. hefur ekki
verið sýnt fram á það.
Því
er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfu stefnanda um slit á
einkahlutafélaginu Aztiq Pharma Partners.
Í samræmi við 1. mgr. 130.
gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skulu stefndu sameiginlega greiða
stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar er horft til þess að jafnframt er
í dag kveðinn upp dómur í öðru máli milli stefnanda og stefnda Aztiq Pharma
Partners ehf. sem varða að hluta til sama sakarefni. Þegar greinargerð var lögð
fram í málinu 27. janúar 2015 var bókað að ekki væri mætt af hálfu stefnda
Magnúsar Jaroslav Magnússonar og að hann myndi ekki láta málið til sína taka
enda, sbr. framangreint, hann ekki lengur hluthafi í Aztiq Pharma Partners ehf.
Ekki er með hliðsjón af þessu ástæða til að dæma hann til þátttöku í greiðslu
málskostnaðar.
Fyrir stefnanda flutti málið
Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður og fyrir stefndu Jóhannes Bjarni Björnsson
hæstaréttarlögmaður.
Lárentsínus Kristjánsson
héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ
Einkahlutafélaginu
Aztiq Pharma Partners ehf., kt. 450309-0520, skal slitið.
Stefndu, Aztiq Pharma
Partners ehf. og Árni Harðarson, greiði sameiginlega stefnanda, Matthíasi H.
Johannessen, samtals 800.000 krónur í málskostnað.
Lárentsínus Kristjánsson (sign.)