- Lykilorð:
- Atvinnuréttindi
- Eignarréttur
- Stjórnarskrá
- Stjórnvaldsúrskurður
- Tekjuskattur
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2016 í máli nr. E-2274/2015:
Ármann Ármannsson
Ármann Fr. Ármannsson
Esther Ósk Ármannsdóttir
(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Soffía Jónsdóttir hrl.)
I
Mál
þetta, sem var dómtekið 10. október sl., er höfðað 23. júní 2015 af Ármanni
Ármannssyni, Mánatúni 2 í Reykjavík, Ármanni Fr. Ármannssyni, Ólafsgeisla 115 í
Reykjavík og Esther Ósk Ármannsdóttur, Hörpugötu 9 í Reykjavík, gegn íslenska
ríkinu.
Dómkröfur
stefnanda, Ármanns Ármannssonar, eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður
ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120301436, og
að felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hann vegna sölu hlutafjár
í Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að
endurgreiða stefnanda 153.986.548 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga
nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 7.
mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu
nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi,
Ármann Fr. Ármannsson, gerir þá kröfu að felldur verði úr gildi úrskurður
ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120303792, og
felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hann vegna sölu hlutafjár í
Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að
endurgreiða stefnanda 253.036 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr.
29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 16. mars
2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi,
Esther Ósk Ármannsdóttir, gerir þá kröfu að felldur verði úr gildi úrskurður
ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120303794, og
felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hana vegna sölu hlutafjár í
Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að
endurgreiða stefnanda 253.036 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr.
29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 16. mars
2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnendur
krefjast þess, hver fyrir sig, að stefndi verði dæmdur til greiðslu
málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Stefndi
krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og að þeir verði, hver um sig, dæmdir
til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
II
Málsatvik
eru þau að stefnendur voru öll eigendur Ingimundar hf. árið 2005 þegar samþykkt
var að skipta félaginu upp í þrjú félög. Stefnandi, Ármann Ármannsson, átti þá
99,3% hlutafjár í félaginu, en fjögur börn hans áttu hvert um sig 0,175% hlut í
því, þeirra á meðal stefnendur, Ármann Fr. Ármannsson og Esther Ósk
Ármannsdóttir. Var meðal annars við það miðað að útgerðarhluti félagsins, sem
fólst í útgerð fiskiskipsins Helgu RE 49, yrði færður í sérstakt félag.
Hinn
23. maí 2005 gerði Skinney Þinganes hf. stefnanda, Ármanni Ármannssyni,
kauptilboð „fyrir hönd hluthafa einkahlutafélags sem stofnað verður eftir
skiptingu Ingimundar hf. ... í alla hluti hins óskráða einkahlutafélags“. Á
grundvelli tilboðsins var 27. sama mánaðar gerður kaupsamningur þar sem
„eigendur allra hluta í Fjarðarey ehf. ... sem verður skráð við skiptingu
Ingimundar hf.“ seldu Skinney Þinganesi hf. 90% hluta í hinu óskráða félagi og
Ketillaug ehf. 10% hluta í því.
Einkahlutafélagið
Fjarðarey mun hafa verið stofnað 30. júní 2005 og var stofnun þess tilkynnt til
fyrirtækjaskrár 12. ágúst sama ár. Afsal fyrir hlutafénu í félaginu var gefið
út 16. ágúst 2005 til kaupendanna. Skiptingar- og samrunaáætlun var undirrituð
af stjórnum Ingimundar hf. og Fjarðareyjar 16. ágúst 2005 og hún birt í
Lögbirtingablaði 24. ágúst 2005. Þá var skipting samþykkt á hluthafafundi í
Ingimundi hf. 24. september 2005 sem og á hluthafafundi í Fjarðarey ehf. 26.
september 2005 þar sem fulltrúar nýrra hluthafa voru mættir.
Í
stefnu greinir svo frá að stefnendur hafi hagnast nokkuð af sölu hlutfjárins í
Fjarðarey ehf. og hafi talið söluhagnað sinn fram árið 2006. Í skattframtali
stefnanda, Ármanns Ármannssonar, á því ári vegna tekjuársins 2005 var
söluhagnaður hans í tilefni af framangreindum viðskiptum talinn nema
1.537.878.557 krónum sem taldar voru fram sem fjármagnstekjur. Í skattframtölum
annarra stefnenda var söluhagnaður þeirra talinn nema 2.530.361 krónu hjá hvoru
systkinanna og voru þessar tekjur taldar fram sem fjármagnstekjur.
Ágreiningslaust er að stefnendur hafi greitt fjármagnstekjuskatt af þessum
tekjum, stefnandi Ármann Ármannsson, 153.986.548 krónur, og systkinin hvor um
sig 253.036 krónur.
Með
bréfi ríkisskattstjóra til Skinneyjar Þinganess hf. í lok júní 2011 var óskað
upplýsinga um kaupin á Fjarðarey ehf. Svar mun hafa borist í júlí sama ár. Með
bréfi, dags. 29. ágúst 2011, var óskað upplýsinga um sömu viðskipti frá
Ingimundi hf. Eftir frekari gagnaöflun af hálfu ríkisskattstjóra boðaði hann
með bréfum 1. desember 2011 að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld
Ingimundar hf. og stefnenda. Í boðunarbréfinu voru færð rök fyrir því að
gagngjaldsskilyrði 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fyrir skiptingu
Ingimundar hf. hefðu ekki verið uppfyllt. Eftir að ríkisskattstjóra höfðu
borist skrifleg andmæli við framangreindu erindi kvað hann upp úrskurð í málum
stefnenda og Ingimundar hf. 30. desember 2011.
Í
samandreginni lýsingu í úrskurði í máli Ingimundar hf. kemur fram að athugun
ríkisskattstjóra hafi leitt í ljós að við skiptingu félagsins hafi
fiskveiðiskipið Helga RE 49 verið flutt úr félaginu yfir í nýtt félag,
Fjarðarey ehf., ásamt aflaheimildum. Hlutabréf í Fjarðarey ehf. hafi þá þegar
verið seld til Skinneyjar-Þinganess hf./Ketillaugar ehf., þ.e. áður en
formlegri skiptingu á félaginu var lokið. Því teldist gagngjaldsskilyrði
fyrrgreindra ákvæða laga um tekjuskatt ekki uppfyllt. Samkvæmt því bæri að færa
söluandvirði fiskiskipsins auk aflaheimilda til tekna hjá Ingimundi hf. sem
venjulegan söluhagnað atvinnurekstrareigna, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 90/2003.
Fallist var á að heimilt væri að færa niður hluta af söluhagnaði með því að
aukafyrna eignir samkvæmt heimild í 14. gr. og 6. mgr. 15. gr. laga nr.
90/2003.
Í
úrskurðum í málum stefnenda var ekki vikið að framangreindri skiptingu. Hins
vegar var stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2007 hækkaður vegna lækkunar
á hlutafé Ingimundar hf. árið 2006. Stefnendur ákváðu að una þeirri niðurstöðu.
Ingimundur
hf. mun hafa samið við innheimtumann ríkissjóðs um greiðslu kröfunnar í tilefni
af endurálagningu opinberra gjalda vegna framangreindrar niðurstöðu og innt af
hendi 287.649.234 krónur 9. júlí 2013. Ingimundur hf. kærði úrskurð
ríkisskattstjóra í máli félagsins til yfirskattanefndar 2. mars 2012. Með
úrskurði yfirskattanefndar 3. júlí 2013 var kröfum Ingimundar hf. hafnað.
Ingimundur hf. höfðaði því næst mál fyrir dómstólum í því skyni að fá
úrskurðinn felldan úr gildi. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 12.
nóvember 2015 í málinu nr. 217/2015. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að
skipting Ingimundar hf. hefði fyrst tekið gildi þegar hluthafafundurinn í
Fjarðarey ehf. hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti samkvæmt 1. og 2.
mgr. 133. gr., sbr. 1. tölulið 1. mgr. 127. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.
Þótt hluthafar í Ingimundi hf. hefðu fengið hlutabréf í Fjarðarey ehf. við
stofnun þess hefði Ingimundi hf. ekki verið skipt að lögum fyrr en eftir að
þeir höfðu afsalað bréfunum til annarra. Af þeirri ástæðu hefði því
frumskilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að hluthafar í
félagi sem skipt væri fengju hlutabréf í félögunum sem við tækju sem gagngjald
fyrir hlutafé í hinu skipta félagi, ekki verið fullnægt. Skipti Ingimundar hf.
hafi því ekki haft þau áhrif í skattalegu tilliti sem þar væri kveðið á um. Þá
var á það fallist að skattyfirvöldum hafi verið heimilt með vísan til 1. mgr.
57. gr. laga nr. 90/2003 að ákveða að kaupverð samkvæmt umræddum kaupsamningi
skyldi fært til tekna hjá Ingimundi hf. að því tilskyldu að öðrum skilyrðum
endurálagningar væri fullnægt. Reyndist svo vera og var stefndi því sýknaður af
kröfum Ingimundar hf.
Í
ljósi fyrrgreinds úrskurðar ríkisskattstjóra í máli Ingimundar hf. óskuðu
stefnendur eftir því með bréfum 7. og 16. mars 2012 að álagning á opinberum
gjöldum þeirra gjaldárið 2006 yrði endurupptekin og leiðrétt. Því til stuðnings
var vísað til þess að það væri afstaða ríkisskattstjóra að skipting Ingimundar
hf. hafi falið í sér málamyndagerning sem horfa bæri fram hjá í skattalegu
tilliti. Samkvæmt því bæri ekki aðeins að hækka álagningu opinberra gjalda á
Ingimund hf. heldur einnig að fella niður álagningu á stefnendur sem helgast
hefði af hagnaði af sölu hlutabréfanna í Fjarðarey ehf.
Ríkisskattstjóri
beið niðurstöðu yfirskattanefndar áður en embættið tók afstöðu til erinda
stefnenda. Með úrskurðum ríkisskattstjóra 12. ágúst 2013 hafnaði
ríkisskattstjóri endurupptöku og leiðréttingu skattframtala stefnenda árið
2006. Í niðurstöðukafla úrskurðar í máli stefnanda, Ármanns Ármannssonar, segir
orðrétt: „Gjaldanda voru á árinu 2005 afhent verðmæti sem renna áttu til
Ingimundar hf. vegna sölu þess félags á atvinnurekstrareignum sínum. Það
söluandvirði sem ríkisskattstjóri lagði til grundvallar að væri söluverð skips
og aflaheimilda var að fjárhæð 1.550.000.000 kr. og þar sem gjaldandi var
eigandi 99,3% hlutafjár í Ingimundi hf. runnu 1.539.150.000 kr. af
söluandvirðinu til gjaldanda. Þar sem gjaldanda var afhent söluandvirði
eignanna var ráðstöfunarréttur söluandvirðisins á hendi gjaldanda og á hans
valdi að ákveða hvernig því yrði varið. Ber að líta til þess við mat á því
hvort til gjaldanda hafi runnið skattskyldar tekjur á árinu 2005.“ Því næst er
í úrskurðinum vísað til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um hvaða
greiðslur teljist vera arður af hlutum og hlutabréfum, og talið að líta verði á
þetta „úthlutaða fé“ í ljósi þess ákvæðis. Um hafi verið að ræða „afhendingu
verðmæta til hlutareiganda sem telja verði sem tekjur af hlutareign hans í
félaginu“. Var því hafnað að um „efnahagslega tvísköttun“ væri að ræða, enda
væri almenna skattframkvæmdin sú að hagnaður af seldum atvinnurekstrareignum í
eigu hlutafélaga væri skattlagður hjá hlutafélaginu og því næst væri það sem
ráðstafað væri til hlutahafa skattlagt sem tekjur af þeirra hlutareign að
gættum ákvæðum um arðsúthlutunarheimildir. Úrskurðir í málum annarra stefnenda
voru samhljóða nema fjárhæðir aðrar.
Með
bréfi til ríkisskattstjóra 29. ágúst 2013 krafðist lögmaður stefnenda þess að
ríkisskattstjóri afturkallaði framangreindar ákvarðanir sínar með vísan til 25.
gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeirri kröfu var hafnað með bréfum til
stefnenda 23. október 2013.
III
1.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur byggja málssókn sína á því að þeir hafi samkvæmt
stjórnarskrá heimild til að stofna félög og stunda þá atvinnustarfsemi sem lög
leyfi. Stefnendur hafi kosið að reka atvinnustarfsemi sína í hlutafélaginu
Ingimundi. Um uppbyggingu og starfsemi hlutafélaga gildi lög um hlutafélög.
Hlutafélagalögin geri m.a. ráð fyrir því að hluthafar geti ákveðið að skipta
hlutafélagi upp í fleiri en eitt hlutafélag eða einkahlutafélag. Stefnendur
hafi nýtt sér þennan rétt og skiptu Ingimundi hf. á árinu 2005 þannig að til
varð félagið Fjarðarey ehf. Einkahlutafélagið hafi tekið við fiskiskipinu Helgu
RE, lausafé því tilheyrandi og veiðiheimildum. Við skiptinguna hafi stefnendur
farið í einu og öllu eftir lögum um hlutafélög og lögum um tekjuskatt.
Stefnendur
byggja einnig á því að þeim sé og hafi verið frjálst að semja um sölu á hlutum
í Fjarðarey ehf. áður en formlegum skiptum Ingimundar hf. hafi verið lokið,
enda skipting félagsins skilyrði þess að samningurinn um sölu hlutanna í
Fjarðarey ehf. yrði réttilega efndur. Kveða þeir sölu þeirra á hlutum í
Fjarðarey ehf. hafa leitt til skattskyldu þeirra samkvæmt lögum um tekjuskatt.
Stefnendur hafi gert grein fyrir sölunni á hlutum sínum í skattaframtölum eftir
að salan hafði átt sér stað og hafi skilað ríkissjóði lögboðnum
fjármagnstekjuskatti.
Stefnendur
benda á að skattyfirvöld og dómstólar hafi talið að skipting Ingimundar hf. og
sala hluta í Fjarðarey ehf. hafi falið í sér málamyndagerninga og
skattasniðgöngu sem skattayfirvöldum sé heimilt að færa til raunveruleikans.
Því telja stefnendur að einu og sömu verðmætin, þ.e. endurgjaldið fyrir útgerð
Helgu RE með veiðiheimildum og öðru sem skipinu fylgdu á árinu 2005, hafi verið
skattlögð sem tekjur af sölu atvinnurekstrareiningar hjá Ingimundi hf. og sem
tekjur af sölu hlutabréfa hjá stefnendum.
Stefnendur
byggja á því að með þessari tvöföldu skattheimtu sé freklega gengið á rétt
þeirra til að ráða eignum sínum og haga atvinnustarfsemi sinni með þeim hætti
sem þeim og löglegum félögum þeirra sé sem hagfelldust hverju sinni. Eignir
stefnenda og Ingimundar hf. njóti verndar eignarréttarákvæðis
stjórnarskrárinnar. Eignarréttarákvæðið setji skattheimtu skorður. Telja
stefnendur að af þeim skorðum leiði m.a. að sömu tekjur verði ekki skattlagðar
tvisvar sinnum, síst af öllu með tæplega sex ára millibili, aðeins vegna þess
eins að skattayfirvöld telji tiltekin lögskipti hafa falið í sér
málamyndagerninga sem þau vilji færa til meints raunveruleika.
Af
hálfu stefnenda er á því byggt að sé skattayfirvöldum játaður svo víðfeðmur
réttur til að hlutast til um einkaréttarlegar aðgerðir og viðskipti verði hinn
skattaréttarlegi raunveruleiki að ná til allra þátta viðkomandi aðgerða og
viðskipta. Af því leiði að skattayfirvöldum hafi borið að verða við kröfum
stefnenda um að endurupptaka skattskil þeirra og álagningu á árinu 2006 þegar
skattayfirvöld höfðu tekið ákvörðun um að skattleggja Ingimund hf. Á þetta
sjónarmið hafi ríkisskattstjóri fallist að hluta með því að taka til greina
sjónarmið Ingimundar hf. um að ef leggja ætti tekjuskatt á félagið á grundvelli
raunveruleikareglu 57. gr. tekjuskattslaganna þá yrði að horfa til þess að féð
sem kom út úr viðskiptunum við Skinney-Þinganes hf. hefði verið notað til
nýfjárfestingar. Af röksemdafærslu og
niðurstöðu skattayfirvalda í máli Ingimundar hf. leiði að mati stefnenda að
hluthafar Fjarðareyjar ehf. hafi ekki getað haldið söluverði hlutafjár í
félaginu. Söluverðið hafi orðið að fara inn til Ingimundar hf. þangað sem það
hafi líka farið og verið notað til að kaupa nýtt skip og aflaheimildir.
Stefnendur
benda á að hluthafafundur í Ingimundi hf. hafi aldrei tekið ákvörðun um að
greiða eða afhenda stefnendum og öðrum hluthöfum félagsins, sem arð eða gjöf,
andvirði atvinnurekstrareiningar þeirra sem skipting Ingimundar hf. hafi tekið
til. Þegar skattayfirvöld hafi breytt því, sem frá þeirra bæjardyrum séð hafi
talist óvenjuleg skipti í fjármálum í ,,venjuleg“, verði hin nýja skipan að ná
til allra þeirra þátta sem hafi talist óvenjulegir og færa þá alla til samræmis
við raunveruleikann, en ekki aðeins hluta þeirra.
Um
lagarök vísa stefnendur til reglna um samningsfrelsi, reglna um jafngildi
skráðra sem óskráðra samninga, reglna kröfuréttar um efndir samninga, 133. gr.
laga um hlutafélög nr. 2/1995, 52. gr. og 57. gr. laga um tekjuskatt nr.
90/2003, og til ákvæða 72., 74., 75. og 77. gr. stjórnarskrárinnar sem setja
eignaskerðingum, afskiptum ríkisvaldsins af atvinnustarfsemi og skattheimtu
þess skorður.
Stefnendur
kveða endurgreiðslukröfur sínar og kröfur um vexti og dráttarvexti byggja á
lögum nr. 29/1995, sbr. lög nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta sé miðaður
við þann tíma sem stefnendur hafi óskað eftir upptöku skattskila sinna. Þá sé
krafa um málskostnað reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr.
91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
2.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi
mótmælir öllum málatilbúnaði stefnenda sem röngum. Í fyrsta lagi er á því byggt
að endurgreiðslukrafa stefnenda sé fallin niður fyrir fyrningu. Krafa stefnenda
byggi á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
Samkvæmt 4. gr. laganna falli krafa um endurgreiðslu niður fyrir fyrningu þegar
fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Óumdeilt sé að
stefnendur hafi talið hagnað af sölu hlutafjár í Fjarðarey ehf. fram til skatts
árið 2006. Hagnaðurinn hafi verið skattlagður sem fjármagnstekjur á því ári og
inntur af hendi. Endurgreiðslukrafa stefnenda sé því fyrnd hvort sem miðað sé
við stefnubirtingu 23. júní 2015 eða beiðni stefnenda til ríkisskattstjóra um
endurupptöku og leiðréttingu, dags. 7. og 16. mars 2012. Því beri að sýkna
stefnda af öllum kröfum stefnenda.
Verði
stefndi ekki þegar sýknaður á grundvelli fyrningar byggir hann sýknukröfu sína
á því að úrskurðir ríkisskattstjóra í málum stefnenda séu í einu og öllu í
samræmi við lög. Engum þeim efnisannmörkum sé til að dreifa sem að lögum geti
leitt til þess að þeir verði felldir úr gildi í heild sinni eða að hluta.
Stefndi
byggir á því að engin tvísköttun hafi átt sér stað. Í
lögskýringargögnum með 52. gr. tekjuskattslaga komi fram að með ákvæðinu sé
ekki verið að leggja til að fallið verði frá skattlagningu, heldur væri
skattlagningu frestað þar til eignarhlutur í viðtökufélagi yrði seldur. Ekkert
kæmi í veg fyrir að staðið væri að skiptingu á annan máta en gert væri ráð
fyrir í ákvæðinu, en það myndi aftur á móti valda því að viðkomandi aðilar nytu
ekki hins skattalega hagræðis sem tilgreint væri í ákvæðinu, heldur yrðu slík
tilvik meðhöndluð eftir þeim reglum sem gildi um úttektarskattlagningu.
Stefndi
bendir á að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli Ingimundar hf. liggi fyrir að
skipting Ingimundar hf. hafi ekki öðlast gildi samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga
nr. 2/1995 fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hafi samþykkt skiptinguna
fyrir sitt leyti 26. september 2005. Stefnendur hafi selt þriðja aðila allt
hlutafé sitt í Fjarðarey ehf. 27. maí 2005 og tekið við greiðslu söluverðsins 16.
ágúst 2005. Gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52. gr. tekjuskattslaga hafi því ekki
verið fyrir hendi og frestun skattlagningar á söluverði þeirra rekstareigna sem
runnið hafi frá Ingimundi hf. til Fjarðareyjar hf. þar af leiðandi verið
óheimil. Ingimundi hf. hafi því borið að standa skil á greiðslu skatts sem hafi
numið söluhagnaði atvinnurekstrareignanna sem færðar
hafi verið yfir í Fjarðarey ehf.
Stefndi
telur að hafa verði í huga að undir venjulegum
kringumstæðum sé sala eigna skattlögð hjá lögaðilanum sjálfum. Ákvæði 52. gr.
laga nr. 90/2003 sem kveði á um skattleysi/frest skattlagningar við skiptingu
félaga, sé undantekningarákvæði. Uppfylli skipting ekki gagngjaldsskilyrði
ákvæðisins hafi það í för með sér að þær eignir sem fari frá félagi við skiptingu
skattleggist hjá félaginu sem hafi látið þær af hendi og afhending eða skipti á
hlutabréfum hluthafa við skiptingu félags teljist hafa í för með sér
skattskyldar tekjur hjá hluthöfum sem láta þau af hendi.
Stefndi
vísar til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 í þessu sambandi þar sem kveðið sé á
um að auk venjulegrar arðgreiðslu teljist til arðs af hlutum og hlutabréfum
sérhver afhending verðmæta til
hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa sem telja
verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Úttekt
úr félagi, hvort sem um sé að ræða arð sem úthlutað væri með réttum hætti af
skattlögðum tekjum, þ.e. hagnaði félagsins eftir skatt, eða óheimila úttekt, sé
alltaf skattskyld í hendi hluthafanna. Mörg dæmi þessa sé að finna í dómaframkvæmd.
Sama eigi við um söluhagnað af hlutabréfum í félagi. Eina hugsanlega álitaefnið
í þessu sambandi sé að mati stefnda hvort skattleggja beri tekjurnar samkvæmt
1. eða 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Þessu til stuðnings vísar stefndi til
úrskurða yfirskattanefndar nr. 175/2015 og 176/2015.
Stefndi
vísar og til þess að óumdeilt sé að í tilviki
stefnenda hafi að auki átt sér stað sjálfstæð sala á öllu hlutafé þeirra í
Fjarðarey ehf. til þriðja aðila. Stefnendur hafi fengið söluverðið greitt 16.
ágúst 2005 samhliða útgáfu afsals. Að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar og
í ljósi þess að í skattskilum stefnenda á gjaldárinu 2006 er tilgreindur
söluhagnaður á hlutabréfum í Fjarðarey ehf., telur stefndi það vafalaust að um
sé að ræða skattlagningu sérgreindra tekna sjálfstæðra skattaðila. Stefnendur
töldu sér til tekna í skattskilum sínum söluhagnað
af hlutum í Fjarðarey ehf. og er sú skattlagning í fullu samræmi við
ákvæði 52. gr. tekjuskattslaga. Ingimundi hf. hafi á hinn bóginn verið
ákvarðaður skattstofn vegna þess að ákvæði 52. gr. voru ekki uppfyllt við
yfirfærslu eigna við skiptingu og þær tekjur skattlagðar sem hverjar aðrar
tekjur lögaðila sem sæti sjálfstæðri skattlagningu. Ekki verði þannig með
nokkru móti fallist á að um „tvöfalda skattlagningu“ sé að ræða fremur en lög
standi til s.s. gildir annars vegar um skattlagningu tekna lögaðila og hins
vegar skattlagningu hjá hluthöfum þegar félag úthluti arði af skattlögðum
tekjum. Hvað þá heldur þegar um sé að ræða sjálfstæða sölu hluthafa á hlutabréfum
í því félagi eða öðrum hlutafélögum, en það eigi vissulega við um stefnendur í
þessu máli. Öndverðum málsástæðum stefnenda sé mótmælt sem röngum.
Stefndi tekur fram að hann fái ekki séð hvernig synjun á
því að endurákvarða réttilega álagða skatta stefnenda geti falið í sér skorður
við frelsi þeirra til að haga atvinnustarfsemi sinni með þeim hætti sem þeim og
löglegum félögum þeirra sé hagfelldust hverju sinni í skilningi 1. mgr. 75. gr.
stjórnarskrár, allra síst í ljósi sérstakra ákvæða í 40. gr. og 1. mgr. 77. gr.
stjórnarskrár um skatta. Þá telur hann úrskurði ríkisskattstjóra í málum
stefnenda fyllilega samrýmast fyrirmælum 11. gr. tekjuskattslaganna. Sú
skattlagningarregla sé almenn og gildi án takmarkana um alla þá sem fái
úthlutað verðmætum úr hlutafélagi. Stefndi mótmælir sem rangri málsástæðu
stefnenda um að fjármagnstekjuskattur, sem þau hafi greitt árið 2006, brjóti
gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Stefndi
vísar til þess að óumdeilt sé að stefnendur hafi fengið söluverðið frá Skinney-Þinganesi
hf. og Ketillaug ehf. í hendur 16. ágúst 2005 og að féð hafi verið þeim til
frjálsrar ráðstöfunar. Það breytir engu um skattskyldu stefnenda að þau hafi
síðar ráðstafað þessu fé til kaupa á hlutafé í Ingimundi hf.
Stefndi
kveðst vilja halda því til haga að í úrskurði ríkisskattstjóra í máli
Ingimundar hf. hafi hvorki verið bornar brigður á réttmæti skiptingar félagsins
né samning stefnenda um sölu hlutafjár Fjarðareyjar ehf. til
Skinneyjar-Þinganess hf. og Ketillaugar ehf. Í úrskurðinum hafi hins vegar
verið á því byggt að skattaleg meðferð Ingimundar hf. á þessum gerningum í
skattskilum sínum hafi verið til málamynda, eins og síðar hafi verið staðfest
með dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015. Sú staðreynd að Ingimundur hf. hafi ekki notið þess skattalega hagræðis
sem fólgið sé í 52. gr. tekjuskattslagana öndvert ráðagerðum félagsins leiði
ekki sjálfkrafa til þess að skattskil annarra aðila í viðskiptunum hafi verið
röng. Þegar í ljós komi að sú skattasniðgönguleið sem farin hafi verið hafi ekki
gengið upp geti aðilar þannig ekki óskað eftir leiðréttingu á skattskilum sínum
í ljósi þess að sá „forsendubrestur“ hafi orðið að aðferðin sem þeir völdu hafi
þrátt fyrir allt leitt til skattlagningar sem þeir voru að reyna að forðast eða
jafnvel hærri skattlagningar en ef rétt hefði verið staðið að öllum skattskilum
þeirra aðila sem að komu.
Að öllu framangreindu virtu telur stefndi að rétt hafi
verið að synja stefnendum um endurupptöku á skattskilum þeirra vegna
gjaldársins 2006. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Stefndi
mótmælir vaxtakröfu stefnenda sérstaklega bæði sem vanreifaðri og
ósannaðri. Upphafsdagur vaxta sé órökstuddur, enda komi hvergi fram í gögnum
málsins hvaða dag stefnendur hafi innt af hendi greiðslu fjármagnstekjuskatts.
Þá séu allir vextir eldri en fjögurra ára fyrndir í samræmi við 4. gr. laga nr.
29/1995 sem og almenna fyrningarreglu 3. gr. laga nr. 150/2007, sbr. 3. gr.
eldri fyrningarlaga nr. 14/1905. Eigi stefnendur einhverja kröfu til greiðslu
vaxta beri því að miða upphafsdag þeirra við síðara tímamark.
Stefndi
styður kröfu sína um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Kröfur
stefnenda eru á því reistar að ríkisskattstjóra hafi verið skylt að verða við
beiðni þeirra um endurupptöku og leiðréttingu á því að leggja bæri á þau
fjármagnstekjuskatt gjaldárið 2006 í ljósi þeirrar afstöðu skattyfirvalda að
líta bæri á Ingimund hf. sem raunverulegan seljanda fiskiskipsins Helgu RE 49,
ásamt veiðarfærum og fiskveiðiheimildum, og að söluhagnaðurinn skyldi færður
til tekna hjá félaginu. Stefnendur krefjast þess annars vegar að ákvarðanir
ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013 um að hafna beiðni þeirra þar að lútandi
verði felldar úr gildi. Hins vegar krefjast þeir endurgreiðslu þess
fjármagnstekjuskatts sem þau inntu af hendi á árinu 2006 vegna tekna af sölu
hlutabréfa í Fjarðarey ehf., en sú krafa er reist á lögum nr. 29/1995, um
endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
Stefndi
krefst sýknu aðallega á þeim grunni að endurgreiðslukrafan sé fyrnd. Um það
vísar hann til 4. gr. fyrrgreindra laga nr. 29/1995. Í ákvæðinu segir að krafa
um endurgreiðslu samkvæmt lögunum falli úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár
eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Þar segir enn fremur að allir
áfallnir vextir fyrnist samhliða kröfu um endurgreiðslu.
Ákvæði
þetta er afdráttarlaust um að fjögurra ára fyrningarfrestur hefjist þegar
greiðsla eigi sér stað. Þó er óljóst hvernig álitaefni um fyrningu horfir við
þegar skattyfirvöld beita endurálagningu, sem skattgreiðandi telur kalla á
leiðréttingu á skattgreiðslu sinni, þegar fjögur ár eru liðin af sex ára fresti
samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Stefnendur eiga hvað sem því líður
lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum um ógildingu ákvarðana
ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013. Því er rétt að fjalla fyrst um þann
ágreining sem uppi er um efni þeirra ákvarðana áður en afstaða er tekin til
þess hvort endurgreiðslukrafa stefnenda kunni að vera fyrnd.
Beiðni
stefnenda 7. og 16. mars 2012 um breytingu á skattálagningu þeirra var reist á
2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er ríkisskattstjóra veitt
heimild til þess að taka til greina beiðni af þessu tagi, en þó lengst sex ár
aftur í tímann talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir
hagsmunir að baki slíkri beiðni. Skal slík beiðni byggjast á nýjum gögnum og
upplýsingum, eins og segir í ákvæðinu. Heimilt er að víkja frá framangreindum
tímamörkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Synjun ríkisskattstjóra á því
að verða við beiðni stefnenda var ekki reist á því að á það skorti að
fyrrgreindu skilyrði um tímamörk væri fullnægt.
Í
skattframtölum stefnenda vegna tekjuársins 2005 voru taldar fram tekjur sem
áttu rætur að rekja til hagnaðar af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., eins og
rakið er í kafla II. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 tóku
skiptin á Ingimundi hf. ekki gildi fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf.
hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti 26. september 2005. Þá höfðu
stefnendur þegar ráðstafað eignarhlutum sínum í Fjarðarey ehf. með kaupsamningi
27. maí 2005. Þau fengu því aldrei hlutabréf í því félagi í sínar hendur nema
að nafninu til og ekki var fullnægt svonefndu gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52.
gr. laga nr. 90/2003. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á
að með kaupsamningi um hlutafé í hinu óstofnaða félagi, Fjarðarey ehf., frá 27.
maí 2005 hafi í reynd verið ráðstafað eignum og réttindum í eigu Ingimundar hf.
til kaupenda hlutanna í hinu óstofnaða félagi, enda voru þeir orðnir hluthafar
í því þegar eignirnar og réttindin runnu til þess frá Ingimundi hf. Af þessum
sökum var skattyfirvöldum rétt með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003
að ákveða að kaupverð samkvæmt samningnum skyldi fært til tekna hjá Ingimundi
hf. að öðrum skilyrðum endurálagningar fullnægðum.
Hér
reynir á hvort þessi niðurstaða gefi tilefni til þess að fella niður álagningu
fyrrgreinds tekjuskatts er byggðist á því að stefnendur hefðu selt hlutabréf
sín í Fjarðarey ehf. gegn umsömdu endurgjaldi. Þó að leiða megi af
framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands að tekjur af sölu umræddra eigna og
réttinda Ingimundar hf. hefðu með réttu átt að falla félaginu í skaut, en ekki
stefnendum, verður ekki fram hjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir
þessi verðmæti, var ráðstafað til stefnanda 16. ágúst 2005, eins og gögn
málsins bera með sér, og voru þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það. Í því
ljósi var ríkisskattstjóra rétt að líta svo á að fjármunir er svöruðu til
hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til stefnenda og væru því
tekjur af hlutareign þeirra í Ingimundi hf. í samræmi við 11. gr. laga nr.
90/2003 sem eru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga. Ekki er fallist á að um
óheimila tvísköttun hafi verið að ræða enda getur fjármunum, er svara til
söluhagnaðar af eignum hlutafélags og félagið greiðir tekjuskatt af, verið
úthlutað til hlutareigenda sem teljast þá skattskyldar tekjur hans í samræmi
við fyrrgreint ákvæði laga nr. 90/2003 og 4. tölulið c-liðar 7. gr. laganna. Þá
fær dómurinn ekki séð að sú ákvörðun að ráðstafa þessum tekjum til kaupa á
hlutafé í Ingimundi hf. af félaginu sjálfu, eins og skattframtal stefnanda,
Ármanns Ármannssonar, ber með sér að hann hafi gert, breyti því að honum bar
skylda til að greiða skatt af þeim.
Samkvæmt
framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að sú breyting skattyfirvalda, að
færa hagnað af sölu eigna og réttinda Ingimundar hf. samkvæmt kaupsamningi 27.
maí 2005 félaginu til tekna, leiði lögum samkvæmt til þess að fella beri niður
skattálagningu sem reist var á tekjum stefnenda af sölu hlutabréfa í Fjarðarey
ehf. Sú niðurstaða, sem reist er á almennum og efnislegum mælikvarða 11. gr.
laga nr. 90/2003, sbr. 7. gr. sömu laga, er gilda um hvers konar úthlutun
verðmæta úr hlutafélögum, felur ekki í sér óheimila eignaskerðingu samkvæmt 1.
mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er sú niðurstaða heldur ekki
andstæð atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, enda helgast
hún af lögmætri álagningu skatts af tekjum stefnenda. Því verður stefndi
sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Með
vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber
stefnendum óskipt að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000
krónur.
Ásmundur
Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi,
íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda, Ármanns Ármannssonar, Ármanns Fr.
Ármannssonar og Estherar Óskar Ármannsdóttur.
Stefnendur
greiði stefnda óskipt 800.000 krónur í málskostnað.
Ásmundur Helgason (sign.)