• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 16. ágúst 2018 í máli nr. S-77/2018:

 

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Bragi Björnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 26. júní 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 7. febrúar 2018 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...];

fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 16. ágúst 2015, fyrir utan sumarbústað að [...] í [...], slegið bróður sinn, A, með kaffibolla í vinstra eyra og í kjölfarið veitt honum högg fyrir ofan hægra eyra, með þeim afleiðingum að A hlaut 4 cm langan skurð á vinstra eyra, væg þreyfieymsli yfir kjálka vinstra megin og vægt mar og eða roða hægra megin ofan á höfði.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst þess aðallega í málinu að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara krefst ákærði þess að honum verði ekki gerð refsing en til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Í öllum tilvikum krefst ákærði þess að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun verjanda til handa.

I

Hinn 17. ágúst 2015 kom brotaþoli, A, á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur bróður sínum, ákærða í máli þessu, fyrir líkamsárás sem brotaþoli sagði hafa átt sér stað daginn áður að [...] í [...]. Brotaþoli lýsti atvikum svo fyrir lögreglu að hann og ákærði hefðu verið að smíða sumarbústað ásamt þriðja bróðurnum, C. Móðir þeirra bræðra hefði einnig verið á staðnum. Brotaþoli kvað þeim ákærða hafa orðið sundurorða vegna mistaka sem orðið hefðu við smíðina og hefði ákærði orðið hálf illur. Hann hefði ekki sagst nenna að standa í „millimetra kjaftæði“ og farið í kaffi inn í vinnuskúr þar sem fjölskyldan hefði haft afdrep meðan á smíðinni stóð. Hið sama hefði brotaþoli gert stuttu síðar eftir að móðir hans hafði ítrekað beðið hann um að koma. Brotaþoli og ákærði hefðu síðan haldið áfram að deila inni í vinnuskúrnum. Ákærði hefði í kjölfarið hrint brotaþola í gólfið og rokið út. Brotaþoli hefði reiðst mjög við þá framgöngu ákærða. Hann hefði því farið út á eftir ákærða og sagt við hann að svona kæmi hann ekki fram við sig. Ákærði hefði þá, án nokkurs fyrirvara, lamið brotaþola í vinstra eyra með kaffibolla með þeim afleiðingum að sár kom á eyrað. Ákærði hefði í kjölfarið pakkað niður föggum sínum og yfirgefið svæðið. Brotaþoli hefði hins vegar haft símasamband við lögreglu sem ráðlagt hefði honum að leggja fram kæru daginn eftir. Þá hefði ákærði samdægurs farið á slysadeild þar sem sárið á eyranu hefði verið saumað saman.

Ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 26. nóvember 2015. Lýsti hann atvikum svo að við byggingu sumarhússins hefði brotaþoli gert athugsemdir við lengd á stoðum í húsinu. Sú athugasemd hefði verið algerlega haldlaus. Hefði ákærði á endanum gefist upp á þessu tali brotaþola og farið inn í vinnuskúrinn í kaffi. Brotaþoli hefði síðan einnig komið inn í kaffi. Í kjölfarið hefði komið til frekari orðaskipta þeirra á milli. Í þeim hefði brotaþoli komið alveg upp að ákærða, sem þá hefði staðið upp. Vegna þrengsla í vinnuskúrnum hefði brotaþoli við það fallið aftur fyrir sig og endað sitjandi í drasli sem þar var inni. Ákærði hefði í framhaldinu ýtt aðeins við brotaþola og farið út. Hann hefði verið að drekka kaffið sitt úti þegar brotaþoli hefði komið trylltur út úr vinnuskúrnum. Hann hefði verið með hendur á lofti og öskrað: „Ég stúta þér.“ Brotaþoli hefði komið alveg upp að ákærða sem vegna þessarar framkomu brotaþola hefði orðið hræddur og slegið til hans með hægri hendi, í sjálfsvörn. Ákærði hefði verið með kaffibollann í hendinni og hefði bollinn farið í vinstra eyra brotaþola. Aðeins hefði blætt úr eyranu eftir höggið. Ákærði hefði í kjölfarið tekið saman föggur sínar og yfirgefið staðinn.

Við rannsókn málsins tók lögregla einnig skýrslu af bróður ákærða og brotaþola, C. Vitnaskýrsla var jafnframt tekin af móður þeirra bræðra. Þá aflaði lögregla læknisvottorðs, sem dagsett er 6. janúar 2016, vegna áverka brotaþola. Í vottorðinu, sem ritað er af D lækni, segir um áverka brotaþola að hann hafi verið með 4 cm skurð á vinstra eyra og vægt mar/roða hægra megin ofan á höfði. Saumuð hefðu verið sex spor til þess að loka sárinu.

Rannsókn lögreglu lauk í lok nóvember 2015. Hinn 7. febrúar 2018 höfðaði héraðssaksóknari síðan mál þetta samkvæmt áðursögðu.

II

Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök en tók fram að hann kannaðist við að hafa slegið brotaþola með bolla í sjálfsvörn. Við upphaf skýrslu sinnar fyrir dómi kvað ákærði þá afstöðu sína óbreytta. Ákærði skýrði annars svo frá að þegar atvik máls gerðust hefði brotaþoli verið „búinn að hegða sér eins og fáviti“ við smíði sumarbústaðarins. Hann hefði verið með ásakanir í garð annarra sem að smíðinni komu og sífellt verið að taka verkfæri ákærða. Við þetta hefði ákærði ítrekað gert athugasemdir og hefði það pirrað brotaþola.

Ákærði sagði brotaþola umræddan morgun ítrekað hafa gert athugasemdir við vinnubrögð sín. Ákærði kvaðst að lokum hafa gefist upp og farið inn í vinnuskúr í kaffi sem móðir þeirra bræðra hefði verið búin að útbúa. Skömmu síðar hefði brotaþoli komið inn í skúrinn. Hann hefði verið ógnandi og með leiðindi og lýst því yfir að hann væri búinn að laga allan skítinn eftir ákærða. Ákærði hefði af þessum sökum ekki haft áhuga á frekari samskiptum við brotaþola og staðið upp og ætlað út. Vegna þrengsla í skúrnum hefði brotaþoli fallið aftur fyrir sig þegar ákærði stóð upp og á einangrunarplast o.fl. sem verið hefði fyrir aftan hann. Brotaþoli hefði staðið upp aftur og ákærði þá ýtt við honum til þess að komast út. Hefði ákærði haft kaffibollann með sér. Brotaþoli hefði komið hlaupandi á eftir ákærða, öskrandi og æpandi, og sagst ætla að stúta honum. Ákærði hefði verið skíthræddur við brotaþola, enda hefði þetta ekki verið í fyrsta skipti sem brotaþoli hefði komið vaðandi að honum með þessum hætti. Brotaþoli hefði komið hlaupandi að ákærða með hnefann á lofti og hefði ákærði ósjálfrátt brugðist við með því slá til hans með kaffibollanum. Annað sagðist ákærði ekki hafa gert og neitaði hann því alfarið að hafa slegið brotaþola fleiri en þessu eina höggi. Í kjölfar höggsins hefði brotaþoli, gargað og veinað, snúist í marga hringi og síðan hent sér í jörðina. Kvaðst ákærði hafa séð blóð á brotaþola eftir að hann veitti honum höggið. Þegar ákærði hefði verið að búa sig undir að yfirgefa svæðið hefði brotaþoli síðan aftur komið askvaðandi að ákærða og hefði C, bróðir þeirra, þurft að toga hann frá ákærða.

Kaffibollanum lýsti ákærði svo að um „venjulegan“ keramikbolla hefði verið að ræða, merktan Sjúkraliðafélagi Íslands. Bollann sagði ákærði ekki hafa brotnað við höggið.

Aðspurður kvað ákærði ekkert samband vera á milli þeirra brotaþola í dag. Þeir hefðu ekkert ræðst við eftir að atvik máls gerðust. Ákærði sagði brotaþola eiga sér sögu um að lenda í útistöðum og jafnvel átökum. Greinilegt væri að brotaþola liði mjög illa og því tipluðu allir á tánum í kringum hann án þess að nokkur tæki af skarið og gerði honum grein fyrir því að hann væri hjálparþurfi.

III

A, brotaþoli í málinu, lýsti málsatvikum svo að umræddan dag hefði hann verið að vinna að smíði sumarbústaðarins ásamt bræðrum sínum tveimur. Mikil togstreita hefði búin að vera á milli hans og ákærða við smíðina. Hinir hefðu farið inn í vinnuskúrinn í kaffi en brotaþoli verið áfram úti og hefði hann verið að reyna að leysa úr ákveðnu vandamáli sem komið hefði upp við smíðina. Það hefði ákærði tekið eitthvað til sín og ekki þolað. Nokkru síðar hefði verið kallað á brotaþola í kaffi og hann farið inn í vinnuskúrinn. Brotaþoli sagðist strax og hann kom inn hafa talað við ákærða og innt hann eftir því hvort þeir gætu ekki verið vinir og leyst vandamálin saman. Ákærði hefði ekki tekið því vel. Honum hefði fundist brotaþoli vera of vandvirkur. Samtal þeirra hefði endað með því að ákærði ýtti við brotaþola, sem við það hefði fallið í gólfið. Ákærði hefði síðan farið út. Brotaþoli hefði staðið upp og lýst furðu sinni á framkomu ákærða við móður sína og C. Brotaþoli hefði því næst farið foxillur út úr vinnuskúrnum á eftir ákærða.

Eftir að brotaþoli kom út kvað hann ákærða hafa öskrað á sig. Brotaþoli sagðist hafa spurt ákærða að því hver andskotinn gengi á, kallað hann helvítis fífl og sagst helst langa til þess að lemja hann. Kvaðst brotaþoli mögulega hafa baðað út höndunum á meðan hann lét þessi orð falla en neitaði því að hafa verið með kreppta hnefa á lofti. Þá neitaði brotaþoli því jafnframt að hann hefði haft í hyggju að lemja ákærða eða beita hann ofbeldi á annan hátt. Eftir að brotaþoli hefði látið fyrrgreind orð falla hefði hann skyndilega fengið kaffibolla í höfuðið, á vinstra eyra. Bollann kvað brotaþoli ekki hafa brotnað við höggið en allt að einu hefði tekið að blæða úr höfði brotaþola við höggið. Brotaþoli hefði tekið um andlit sér og hann þá fengið högg frá ákærða hinum megin á höfuðið með krepptum hnefa. Brotaþoli sagði C eftir þetta hafa gengið á milli sín og ákærða. Brotaþoli hefði í framhaldinu farið inn í vinnuskúrinn. Hefði hann verið í áfalli eftir það sem gerðist.

Brotaþoli sagðist síðan hafa tilkynnt lögreglu um málið símleiðis og þá verið bent á að koma á lögreglustöð daginn eftir og leggja fram kæru. Eftir að hafa rætt við lögreglu kvaðst brotaþoli hafa farið aftur út úr vinnuskúrnum. Ákærði hefði þá verið taka saman föggur sínar. Brotaþoli hefði þá sagt við ákærða: „Sjáðu hvað þú ert búinn að gera.“ Ákærði hefði þá ætlað að rjúka aftur í brotaþola og hefði C þurft að ganga á milli til að stöðva ákærða. Sjálfur sagðist brotaþoli engin áform hafa haft um að veitast að ákærða.

Fram kom hjá brotaþola að hann hefði enga heyrn á hægra eyra eftir læknisaðgerð. Seinna högg ákærða hefði komið rétt ofan við þann stað sem tekið var úr beini við þá aðgerð. Brotaþoli hefði því verið mjög hræddur eftir að hafa fengið högg á það svæði. Þá hefði höggið með bollanum komið á það eyra sem hann væri enn með heyrn á og því hefði honum einnig verið mjög brugðið vegna þess höggs. Við höggið kvað brotaþoli brjósk í eyranu hafa brotnað og væri það varanlega afmyndað. Sauma hefði þurft sex spor til að loka sárinu á eyranu og þá hefði brotaþoli verið með són í eyranu í þrjá mánuði á eftir. Hann hefði einnig þjáðst af höfuðverk.

Brotaþoli sagði ákærða aldrei hafa komið að máli við sig í þau þrjú ár sem liðin væru frá atvikum til að biðjast afsökunar. Hjá honum væri enga iðrun að finna. Samband þeirra bræðra eftir þetta hefði því ekkert verið. Þá hefði samband brotaþola við móður sína og C verið erfitt, enda þau í erfiðri stöðu vegna tengsla ákærða og brotaþola.

C, bróðir ákærða og brotaþola, greindi svo frá að umræddan dag hefði hann unnið að smíði sumarbústaðarins ásamt bræðrum sínum tveimur. Vitnið hefði verið að sinna afmörkuðu verkefni en ákærði og brotaþoli unnið saman að öðru. Brotaþoli hefði síðan farið „að eltast við eitthvað millimetramál“, hann orðið aðeins of nákvæmur, eins og hann eigi til að vera. Ákærði hefði fengið nóg af því og hann sagt eitthvað sem svo að hann nennti ekki þessu kjaftæði lengur. Ákærði hefði síðan farið inn í vinnuskúrinn. Vitnið hefði komið þangað inn skömmu síðar og nefnt við ákærða hvort ekki væri hægt að reyna að halda þessu á rólegu nótunum og klára verkið í sátt og samlyndi. Vitnið hefði síðan farið út úr skúrnum og boðað brotaþola í kaffi. Að því loknu hefði vitnið farið aftur inn í skúrinn og sest niður.

Nokkru síðar hefði brotaþoli komið inn í vinnuskúrinn. Brotaþoli hefði gengið að ákærða, staðið yfir honum og sagst vera búinn að laga eftir hann skítinn. Brotaþoli hefði síðan sagt nokkuð hátt og ákveðið: „Getum við ekki verið vinir X?“ Ákærði hefði beðið brotaþola um að láta sig vera, setjast niður og fá sér kaffi. Brotaþoli hefði hins vegar staðið áfram yfir ákærða og talað hátt til hans. Ákærði hefði svarað brotaþola og ítrekað sagt honum að setjast niður, drekka kaffið sitt og láta sig vera. Brotaþoli hefði þá látið einhver orð falla sem orðið hefðu til þess að ákærði varð ósáttur og stóð upp. Vegna þrengsla í skúrnum hefði ákærði rekist utan í brotaþola þegar hann stóð upp, sem við það hefði fallið aftur fyrir sig á ferðaklósett sem staðið hefði á gólfinu. Kannaðist vitnið aðspurt ekki við að ákærði hefði hrint brotaþola. Þeir hefðu meira svona rekist saman. Í kjölfarið hefði ákærði farið út úr vinnuskúrnum og haft kaffibollann með sér. Brotaþoli hefði þá baðað út höndum og sagt við vitnið að það þyrfti að taka afstöðu. Vitnið kvaðst hafa staðið upp og svarað því til að brotaþoli ætti ekkert með að vera að öskra á vitnið. Það væru hann og ákærði sem deildu. Hefði vitnið beðist undan því að brotaþoli blandaði því inn í þær deilur. Að  þessu sögðu hefði vitnið farið út úr skúrnum.

Örskömmu síðar hefði brotaþoli ætt framhjá vitninu. Hann hefði verið svartur af reiði. Brotþoli hefði baðað út höndunum, bent á ákærða og sagt: „Ég fokking stúta þér.“ Hann hefði síðan gengið mjög ákveðið í átt að ákærða, sem sagt hefði honum að láta sig í friði. Brotaþoli hefði þá gengið alveg upp að ákærða og farið með ennið upp að enni hans og ýtt honum þannig aftur á bak. Ákærði hefði haldið honum frá sér og ítrekað tilmæli sín til brotaþola um að láta sig í friði. Brotaþoli hefði þá lyft upp höndunum, kreppt hnefana og sagt eitthvað sem svo: „Viltu þetta?“ Ákærði hefði í kjölfarið ýtt við brotaþola og síðan slegið hann með kaffibollanum. Bollinn hefði lent á eyra brotaþola, sem fallið hefði niður við höggið. Er það gerðist hefði vitnið vegna ógnana brotaþola verið búið að færa sig nær honum og ákærða og verið við öllu búið. Vitnið hefði því náð að ganga á milli þeirra strax eftir höggið. Fullyrti vitnið aðspurt að eingöngu hefði verið um eitt högg að ræða. Vitnið hefði í kjölfarið dregið brotaþola, sem verið hefði í miklu uppnámi, af húsplötunni, tekið utan um hann og lagst með hann niður til þess að róa hann.

Kaffibollanum lýsti vitnið svo að um hefði verið að ræða hvítan keramikbolla, líklega merktan Sjúkraliðafélaginu. Bollann sagði vitnið ekki hafa brotnað við höggið. Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa verið líklegan til þess að láta verða af hótunum sínum áður en ákærði sló hann með bollanum. Svo reiður hefði brotaþoli verið.

Vitnið sagði ákærða í framhaldinu hafa tekið saman föggur sínar og sett þær inn í bíl. Vitnið hefði á meðan fylgt brotaþola inn í vinnuskúrinn til þess að kanna hvort það væri í lagi með hann og hvort búa þyrfti um sárið.

Skömmu síðar hefði brotaþoli farið aftur út og gengið ákveðið að ákærða. Brotaþoli hefði síðan tekið umbúðirnar frá eyranu og öskrað á ákærða: „Sjáðu hvað þú ert búinn að gera“. Ákærði hefði öskrað á móti og sagt brotaþola að láta sig í friði. Vitnið sagðist ekki hafa þurft að grípa inn í þessi samskipti bræðranna og hefði ákærði í kjölfar þeirra sest inn í bíl sinn og ekið í burtu.

Samband sitt við brotaþola eftir að atvik gerðust sagði vitnið hafa verið lítið. Vitnið væri í meiri samskiptum við ákærða. Kvað vitnið allt fjölskyldulífið hafa stirðnað við þetta atvik. Því hefði fylgt mikil vanlíðan hjá öllum fjölskyldumeðlimum.

E bar fyrir dómi að upp hefði komið ágreiningur við smíði sumarbústaðarins á milli tveggja sona hennar, ákærða og brotaþola. Vitnið sagði þeim tveimur mjög oft verða sundurorða og hefðu samskipti þeirra í gegnum tíðina verið erfið.

Vitnið kvað einhverja skekkju í smíðinni, sem brotaþoli hefði borið á ákærða, hafa komið til umræðu þeirra á milli. Vegna þeirrar spennu sem upp var komin hefði vitnið sagt að nú skyldu þau öll fara í kaffi. Ákærði og yngsti bróðirinn, C, hefðu strax farið inn en brotaþoli orðið eftir að klára sitt verk. Vitnið sagðist síðan hafa ítrekað við brotaþola að þau skyldu koma inn í kaffi, sem hann hefði þá og gert.

Inni í vinnuskúrnum hefði brotaþoli sagt við ákærða eitthvað í þá veru að hann væri búinn að hreinsa upp eftir hann skítinn. Brotaþoli hefði síðan sagt við ákærða: „Getum við ekki verið vinir?“ Ákærði hefði svarað því neitandi. Einhver frekari orðaskipti hefðu orðið á milli bræðranna sem lokið hefði með því að ákærði stóð upp og við það hefði brotaþoli fallið aftur fyrir sig, eins og í sæti. Tók vitnið fram að þröngt hefði verið í skúrnum og sagði vitnið greinilegt að það hefði ekki verið ætlun ákærða að fella brotaþola. Ákærði hefði í kjölfarið yfirgefið skúrinn með þjósti og hefði vitnið séð á honum að hann var reiður. Brotaþoli hefði þá snúið sér að C og innt hann eftir því hver afstaða hans væri. C hefði svarað því til að hann tæki enga afstöðu sagt að deilan væri alfarið á milli brotaþola og ákærða. Brotaþoli hefði því næst farið mjög æstur út úr skúrnum og C á eftir honum. Í kjölfarið hefði vitnið heyrt læti fyrir utan skúrinn og það því farið út líka. Brotaþoli hefði verið að hafa í hótunum við ákærða, hann hótað að lemja ákærða, sem þá hefði „komið fram“ með höndina með þeim afleiðingum að kaffibolli, sem ákærði var með í hendinni, fór í eyrað á brotaþola. Vitnið sagðist eingöngu hafa séð þetta eina högg. Spurt um hvort það hefði talið að brotaþoli myndi láta verða af hótunum sínum kvaðst vitnið efast um það. Brotaþoli hefði orðið mjög skelkaður og gargað upp yfir sig. Í kjölfarið hefði vitnið veitt því athygli það fossblæddi úr brotaþola og hefði blóð runnið niður andlit hans. Brotaþola sagði vitnið hafa virst vera í losti eftir höggið. Nefndi vitnið í því sambandi að brotaþoli hefði enga heyrn á öðru eyranu og taldi vitnið að hann hefði verið hræddur um að missa heyrnina á hinu eyranu. Af þeim sökum hefði hann verið í þessu mikla áfalli eftir höggið.

Vitnið kvað C hafa tekið utan um brotaþola og haldið honum niðri. Ákærði hefði í framhaldinu tekið saman eigur sínar og ekið í burtu. Vitnið sagði ákærða hafa liðið mjög illa yfir því að hafa slegið bróður sinn.

Þá kom fyrir dóm D læknir sem skýrði og staðfesti framlagt vottorð sitt. Aðspurt sagði vitnið töluverða hættu vera í því fólgna að slá mann í höfuðið með keramik bolla. Áverka hægra megin á ofanverðu höfði brotaþola kvað vitnið geta samrýmst því að brotaþoli hefði verið sleginn eða kýldur í höfuðið.

IV

Upplýst er með framburði ákærða og vitna, sem ítarlega er rakinn í köflum II og III hér að framan, að ákærða og brotaþola varð sundurorða er þeir unnu að smíði sumarhúss að [...] í [...] 16. ágúst 2015. Jafnframt liggur fyrir með framburði C og ákærða að þeim síðarnefnda mislíkuðu ítrekaðar athugasemdir brotaþola við vinnubrögð hans og lagði hann því niður vinnu og fór í kaffi inn í vinnuskúr sem komið hafði verið fyrir á lóðinni. Þá liggur einnig fyrir með framburði bræðranna þriggja og móður þeirra að þangað inn hafi brotaþoli jafnframt komið skömmu síðar. Telur dómurinn upplýst með framburði C, móður bræðranna og ákærða að inni í vinnuskúrnum hafi brotaþoli haldið áfram að ræða við ákærða um ætlaða missmíði hans. Ákærði hafi hins vegar ekki viljað ræða við brotaþola og á endanum hafi hann staðið upp úr sæti sínu og farið út. Brotaþoli hefur einn borið um að ákærði hafi hrint brotaþola þegar hann stóð upp og telur dómurinn því ósannað að svo hafi verið heldur hafi brotaþoli fallið við þegar ákærði rakst í hann er ákærði stóð upp.

Eftir að ákærði yfirgaf vinnuskúrinn samkvæmt framansögðu leið mjög skammur tími þar til brotaþoli kom einnig þaðan út. Upplýst er með framburði brotaþola, bræðra hans og móður, að brotaþola var þá mjög heitt í hamsi. Brotaþoli bar þannig sjálfur fyrir dómi að hann hefði spurt ákærða að því hver andskotinn gengi á, kallað hann helvítis fífl og sagst helst langa til þess að lemja hann. Sagðist brotaþoli mögulega hafa baðað út höndunum á meðan hann lét þessi orð falla en neitaði því að hafa verið með kreppta hnefa á lofti. Brotaþoli neitaði því jafnframt að hann hefði haft í hyggju að lemja ákærða eða beita hann ofbeldi á annan hátt. Eftir að brotaþoli hefði látið fyrrgreind orð falla hefði hann skyndilega fengið kaffibolla í höfuðið, á vinstra eyra.

Ákærði lýsti þessum atvikum svo að brotaþoli hefði komið hlaupandi á eftir honum, öskrandi og æpandi, og sagst ætla að stúta honum. Ákærði kvaðst hafa verið skíthræddur við brotaþola. Brotaþoli hefði síðan komið hlaupandi að ákærða með hnefann á lofti og hefði ákærði ósjálfrátt brugðist við með því slá til hans með kaffibollanum. C lýsti þessu svo að brotþoli hefði baðað út höndunum, bent á ákærða og sagt: „Ég fokking stúta þér.“ Hann hefði síðan gengið mjög ákveðið í átt að ákærða, sem sagt hefði honum að láta sig í friði. Brotaþoli hefði þá gengið alveg upp að ákærða og farið með ennið upp að enni hans og ýtt honum þannig aftur á bak. Ákærði hefði haldið honum frá sér og ítrekað tilmæli sín til brotaþola um að láta sig í friði. Brotaþoli hefði þá lyft upp höndunum, kreppt hnefana og sagt eitthvað sem svo: „Viltu þetta?“ Ákærði hefði í kjölfarið ýtt við brotaþola og síðan slegið hann með kaffibollanum. Bollinn hefði lent á eyra brotaþola, sem fallið hefði niður við höggið. Þá bar móðir bræðranna um þessi atvik að brotaþoli hefði verið að hafa í hótunum við ákærða, hann hótað að lemja ákærða, sem þá hefði „komið fram“ með höndina með þeim afleiðingum að kaffibolli, sem ákærði var með í hendinni, fór í eyrað á brotaþola.

Ákærði hefur allt frá upphafi gengist við því að hafa slegið brotaþola með kaffibolla í höfuðið. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu bar ákærði þannig um að hafa slegið brotaþola með hægri hendi og við það hefði kaffibolli sem hann hélt á farið í vinstra eyra brotaþola. Við þingfestingu málsins var síðan eftir ákærða bókað, þegar hann var inntur eftir afstöðu til sakargifta, að hann neitaði sök en kannaðist við að hafa slegið brotaþola með bolla í sjálfsvörn. Þá bar ákærði við aðalmeðferð málsins, svo sem fyrr var rakið, að þegar brotaþoli hefði komið hlaupandi að honum með hnefann á lofti hefði hann ósjálfrátt brugðist við með því slá til brotaþola með kaffibollanum.

Í málinu hefur ekkert haldbært komið fram sem skotið getur stoðum undir þá málsvörn ákærða að högg ákærða hafi verið einhvers konar ósjálfráð viðbrögð hans við framgöngu brotaþola. Þvert á móti þykir dómnum sannað með vísan til alls framangreinds, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi, eftir að brotaþoli hafði haft í hótunum við hann og stóð ógnandi fyrir framan hann, slegið brotaþola með kaffibolla í höfuðið. Af högginu hlaut brotaþoli samkvæmt framburði vitna og vottorði D læknis, dagsettu 6. janúar 2016, 4 cm skurð á vinstra eyra sem úr blæddi.

Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa í kjölfar þess að hann sló kaffibollanum í höfuð brotaþola veitt honum högg fyrir ofan hægra eyra. Brotaþoli hefur einn borið um slíkt högg en í skýrslu sinni fyrir dómi sagðist móðir hans eingöngu hafa séð höggið með bollanum. Þá fullyrti C að einungis hefði verið um eitt högg að ræða. Af vætti D læknis fyrir dómi mátti ráða að þótt áverkinn hægra megin ofan á höfði brotaþola gæti skýrst af slíku höggi, sem ákærða er gefið að sök, gætu verið á áverkanum aðrar mögulegar skýringar. Að því gættu og með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna, gegn eindreginni neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi í kjölfar þess að hann sló brotaþola í höfuðið með kaffibolla veitt honum högg fyrir ofan hægra eyra. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum.

Í málinu nýtur ekki ljósmynda eða mælinga af umræddum kaffibolla. Fyrir dómi lýsti ákærði bollanum svo að um „venjulegan“ keramikbolla hefði verið að ræða, merktan Sjúkraliðafélagi Íslands. Lýsingar C á bollanum voru á sömu lund en hann kvað um hafa verið að ræða hvítan keramikbolla, líklega merktan Sjúkraliðafélaginu. Að þessu gættu þykir dóminum nægjanlega í ljós leitt að um hefðbundinn kaffibolla úr keramik hafi verið að ræða. Sú háttsemi ákærða að slá brotaþola í höfuðið með slíkum bolla, sem mögulega gat brotnað við höggið, var að mati dómsins mjög hættuleg og af slíku höggi gátu hlotist alvarlegir áverkar. Engu breytir hér þótt upplýst sé í málinu að kaffibollinn hafi ekki brotnað við högg ákærða, enda hafði ákærði enga stjórn að því hvort svo yrði. Að þessu sögðu er það niðurstaða dómsins að greind háttsemi ákærða sé réttilega heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í ákæru.

Ákærði hefur borið því við að verknaður hans hafi verið unninn í neyðarvörn og því verði að telja, hvað sem öðru líði, að háttsemi hans sé refsilaus samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er skilyrði neyðarvarnar samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að ekki hafi verið beitt vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en sú árás sem vofir yfir. Verður ekki framhjá því litið að þótt ákærði hafi í ljósi framkomu brotaþola haft ástæðu til að óttast að á hann yrði ráðist, var sú háttsemi hans að slá brotaþola í höfuðið með kaffibollanum sérstaklega hættuleg að mati dómsins og í ljósi atvika hættulegri en möguleg árás brotaþola, og það tjón sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til. Af þeim sökum verður ekki á það fallist með ákærða að verknaður hans hafi verið unninn í neyðarvörn. Af þessari niðurstöðu leiðir að 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga getur heldur ekki átt við um verknað ákærða.

Brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga varðar fangelsi allt að 16 árum. Þar sem dómurinn telur fyrrgreinda háttsemi ákærða varða við tilvitnað ákvæði er brot hans ófyrnt, sbr. nefnt refsihámark og ákvæði 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því og öðru framangreindu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

V

Ákærði er í málinu sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Þá hefur að mati dómsins verið leitt í ljós með skýrslum vitna að atvik í aðdraganda þess að ákærði sló bollanum í höfuð brotaþola hafi verið með þeim hætti að líta beri til 3. mgr. 218. gr. c. i.f. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða, honum til málsbóta. Samkvæmt því og að broti ákærða að öðru leyti virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Eftir atvikum og í ljósi þess dráttar sem varð á útgáfu ákæru í málinu kemur ekki annað til álita en fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þykir rétt að gera ákærða að greiða ⅔ hluta þóknunar skipaðs verjanda síns, Braga Björnssonar lögmanns, en þóknun lögmannsins þykir að gættu umfangi málsins og með hliðsjón af tímaskýrslu hans hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærða einnig gert að greiða sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti héraðssaksóknara, dagsettu 15. febrúar 2018, að fjárhæð 32.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 355.227 krónur í sakarkostnað, þar með talda ⅔ hluta þóknunar skipaðs verjanda síns, Braga Björnssonar lögmanns, en þóknunin nemur 484.840 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson