• Lykilorð:
  • Eignarleigusamningur
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Viðurkenningardómur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 20. apríl 2016 í máli

                                               nr. E-50/2013:

 

Bragi Benediktsson

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

Elvari Daða Guðjónssyni

Kristínu Axelsdóttur

(Guðbjörg Benjamínsdóttir hdl.)

Sigurði Axel Benediktssyni

Jóhannesi Hauki Haukssyni

Guðnýju Maríu Hauksdóttur

                                         (enginn)

og ríkissjóði Íslands

                                         (Árni Pálsson hrl.)

                                        

Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. febrúar 2016, er höfðað með stefnum birtum 31. janúar, 2., 4. og 9. febrúar 2013, til viðurkenningar á eignarrétti að fasteign.

Stefnandi er Bragi Benediktsson, Grímstungu 2, Norðurþingi.

Stefndu eru Elvar Daði Guðjónsson, Grímstungu 1, Norðurþingi, Kristín Axelsdóttir, Grímstungu 1, Norðurþingi, Sigurður Axel Benediktsson, Lindarhvammi 9, Kópavogi, Jóhannes Haukur Hauksson, Bakkahvammi 9, Búðardal, Guðný María Hauksdóttir, Maríubakka 22, Reykjavík, og ríkissjóður Íslands, Vegmúla 3, Reykjavík.

Endanleg dómkrafa stefnanda er aðallega sú að viðurkenndur verði eignarréttur hans að geymslu með fastanúmer 216-6973 02 0101, Grímstungu 2, Norðurþingi, sem stendur í óskiptu landi Grímsstaða á Fjöllum. Til vara er gerð krafa um staðfestingu á afnotarétti geymslunnar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi þeirra stefndu sem héldu uppi vörnum í málinu fram að dómtöku þess, þeirra Elvars Daða Guðjónssonar og Kristínar Axelsdóttur.

Af hálfu stefndu Elvars Daða Guðjónssonar og Kristínar Axelsdóttur er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

Með samkomulagi, undirrituðu 19. febrúar 2016, sem lagt var fram við upphaf aðalmeðferðar málsins, hafa stefnandi og ríkissjóður fellt málið niður sín á milli án kostnaðar. Í samkomulaginu kemur fram að ríkissjóður geri engar athugasemdir við kröfu stefnanda um viðurkenningu eignarréttar að geymslunni.

Aðrir stefndu hafa ekki látið málið til sín taka. Liggur fyrir yfirlýsing þeirra, dags. 26. febrúar 2013, um að þau geri engar athugasemdir við kröfu stefnanda eins og hún sé sett fram og geri engar kröfur í umrædda geymslu.

Með úrskurði, uppkveðnum 2. febrúar 2015, var frávísunarkröfu sem höfð var uppi af hálfu stefndu Elvars Daða og Kristínar hafnað. Undirritaður dómari tók við meðferð málsins í september 2015, en hafði engin afskipti af rekstri þess fram til þess tíma.

 

I

Málsatvik

Í málinu er deilt um eignarrétt að 91 fermetra skemmu, sem í gögnum málsins er ýmist vísað til sem geymslu, bragga eða skála. Verður hér eftirleiðis eftir atvikum ýmist notað orðið geymsla, sbr. dómkröfu stefnanda, eða orðið braggi, sem þykir lýsandi fyrir fasteignina sökum byggingarlags hennar. Þá verður hér eftirleiðis, þar sem vísað er til stefndu, einungis átt við þau stefndu sem héldu uppi vörnum fram að dómtöku málsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Samkvæmt fasteignaskrá tilheyrir umrædd „geymsla“ jörðinni Grímstungu 2. Í stefnu er þess getið að núverandi skráning geymslunnar í fasteignaskrá sé tengd við fastanúmer þeirrar jarðar, nr. 216-6973, en með auðkennið 216-6975. Áður hafi geymslan verið með sérstakt fastanúmer 216-6975.

Grímstunga 2, sem er þinglýst eign stefnanda, mun vera hluti af upphaflega Grímsstaðalandinu á Fjöllum, en það skiptist nú í Grímsstaði 1, Grímsstaði 2, Grímstungu og Grímstungu 2. Stefndu Jóhannes Haukur og Guðný María eru þinglýstir eigendur að Grímsstöðum 1, ríkissjóður Íslands að Grímsstöðum 2 og þau Kristín, Elvar Daði og Sigurður Axel að Grímstungu.

Dómkrafa stefnanda hljóðaði í upphafi á um viðurkenningu eignarréttar að bragganum, ásamt því landi sem hann stendur á, en við upphaf aðalmeðferðar málsins var orðalagi dómkröfunnar breytt þannig að fallið var frá kröfu um viðurkenningu eignarréttar að landi. Er óumdeilt orðið að bragginn standi í óskiptu landi jarða aðila.

Stefnda Kristín, sem mun sitja í óskiptu búi eftir föður stefnanda, Benedikt Sigurðsson, ráðstafaði með kaupsamningi, dags. 29. desember 2005, hluta jarðarinnar Grímstungu til stefnda Elvars Daða, ásamt íbúðarhúsi o.fl., auk hlutar í „geymslu, byggð árið 1947 (FMR 216-6975, merkt 02 0101), þar sem kynding er staðsett“. Afsal vegna hins selda var gefið út þann 10. júní 2006 og þinglýst þann 12. júní s.á.

Stefnandi mun hafa höfðað mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á árinu 2006 (mál nr. E-527/2006) til riftunar á framangreindum kaupsamningi og afsali og jafnframt til viðurkenningar á eignarrétti stefnanda að „geymslu“ með fastanúmer 216-6975. Samhliða mun hafa verið gerð krafa um opinber skipti á dánarbúi Benedikts Sigurðssonar. Lauk málaferlum þessum með dómssátt, staðfestri í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 4. apríl 2007. Liggur sáttin fyrir í máli þessu og kemur fram í 5. gr. hennar að með samningnum verði „eignarréttarleg staða geymslunnar (FMR nr. 216-6975 02 0101) hin sama og áður en kaupsamningur Elvars Daða og Kristínar Axelsdóttur var undirritaður“.

Stefnandi kveður braggann hafa verið í hans eigu og umsjá frá árinu 1966 og að enginn landeigandi hafi gert við það athugasemdir uns stefndi Elvar Daði eignaðist hlut í landi Grímstungu. Hafi sá stefndi síðan leynt og ljóst reynt að öðlast yfirráð yfir bragganum og í engu farið eftir ákvæðum dómssáttarinnar. Af þeim sökum sé nauðsynlegt fyrir stefnanda að fá eignarrétt sinn að bragganum staðfestan.

Þessum staðhæfingum mótmæla stefndu og halda því fram að afnot braggans hafi ætíð verið sameiginleg með landeigendum að Grímsstöðum og Öxarfjarðarhreppi. Hafi umræddur braggi m.a. verið nýttur af stefndu Kristínu og Benedikt Sigurðssyni, föður stefnanda, vegna búskapar og ferðaþjónustu, en þau hafi stundað hefðbundinn búskap á jörðinni a.m.k. fram til ársins 1988 og ferðaþjónustu frá árinu 1990.

Aðilar eru sammála um að Ungmennafélag Fjöllunga hafi keypt umræddan bragga árið 1946 frá Seyðisfirði og flutt hann á Grímsstaðalandið til nota sem samkomuhús. Þá er óumdeilt að starfsemi Ungmennafélags Fjöllunga hafi lognast út af í kringum 1963–1964, vegna mikilla brottflutninga fólks úr sveitinni.

Stefnandi kveður braggann hafa staðið ónotaðan eftir það og án viðhalds til ársins 1966, en þá hafi verið ákveðið af hálfu ungmennafélagsins að stefnandi og Páll Kristjánsson, sem þá mun hafa búið að Grímsstöðum, fengju braggann til eignar. Um þetta er ágreiningur, en stefndu hafna því að nokkur sönnun fyrir yfirfærslu eignarhalds liggi fyrir í málinu.

Óumdeilt er þó að þeir stefnandi og Páll Kristjánsson hófu rekstur bifvélaverkstæðis í bragganum á árinu 1966, að sögn stefnanda til að þjónusta vaxandi umferð og þá bændur sem eftir voru á Fjöllum. Þá er í reynd ekki deilt um að þeir hafi rekið verkstæðið saman í bragganum fram til þess er Páll fluttist á brott um 1979–1980.

Stefnandi heldur því fram að þeir Páll hafi breytt bragganum í verkstæðishús og framkvæmt ýmsar breytingar og endurbætur á eigninni, m.a. hafi verið skipt um framgafl, gólf, hurðir og glugga. Næstu árin hafi þeir Páll rekið vélaverkstæði í bragganum, séð um allt viðhald hans og greitt öll gjöld og kostnað af bragganum. Eftir að Páll fluttist brott hafi stefnandi einn séð um allt viðhald eignarinnar og greitt af henni öll gjöld.

Í málinu liggur fyrir afsal vegna sölu á 50% hlut Páls í bragganum til stefnanda, útgefið  8. september 2006, móttekið til þinglýsingar 31. október og innfært í þinglýsingabækur 1. nóvember s.á. Kemur þar fram að eignin hafi verið afhent 1980. Með bréfi, dags. 17. október 2008, féllst sýslumaðurinn á Húsavík hins vegar á kröfu allra stefndu um að afsalið yrði afmáð úr þinglýsingabókum, þar sem Pál hefði skort þinglýsta eignarheimild.

Stefndu draga í efa að sala Páls til stefnanda hafi í reynd átt sér stað og benda á að afsalið hafi verið afmáð úr þinglýsingabókum. Enn fremur hafna stefndu því að nokkur sönnun liggi fyrir um að stefnandi og Páll hafi kostað viðhald og breytingar á geymslunni. Þá hafna þeir því að þeir stefnandi og Páll hafi greitt öll gjöld og kostnað af geymslunni. Slíkt hafi verið sameiginlegur kostnaður landeigenda að Grímsstöðum í ljósi sameiginlegrar nýtingar þeirra á geymslunni. Aðrir landeigendur, þ. á m. Kristín, hafi ætíð átt hlutdeild í umræddum kostnaði á grundvelli sameiginlegra afnota. Þá geti það ekki skapað stefnanda rétt hafi hann ekki rukkað aðra landeigendur réttilega.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni Páll Kristjánsson, Gunnlaugur Ólafsson, Ingólfur Pétursson, Sigríður Benediktsdóttir og Sigurður Karl Leósson. Að framburði þeirra verður vikið eftir þörfum í niðurstöðukafla þessa dóms.

 

II

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst aðallega byggja á því að hann, ásamt Páli Kristjánssyni, hafi fengið geymsluna til eignar árið 1966 frá Ungmennafélagi Fjöllunga. Þrátt fyrir að engin skjalleg gögn liggi fyrir sem staðfesti framangreinda staðhæfingu stefnanda þá bendi hann á að hann hafi frá þeim tíma farið með eignina sem sína (fyrstu 13 árin með Páli), og enginn landeigenda hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við það eða lýst yfir efasemdum um eignarhald stefnanda á geymslunni. Það sé fyrst eftir flutning stefnda Elvars Daða í sveitina árið 2005 sem ágreiningur verði um rétt stefnanda til geymslunnar en stefnandi byggi og á því að stefndi Elvar Daði sé bundinn af afstöðu meðeigenda sinna og forvera þeirra, sem hafi samþykkt eignarrétt stefnanda í verki eða í öllu falli með athafnaleysi.

Stefnandi byggi á því að geymslan tilheyri Grímstungu 2 enda sé svo talið vera í öllum opinberum fasteignaskrám. Þinglýsingabækur beri aukinheldur ekki með sér að nokkuð sé undanskilið, sbr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

Allt frá árinu 1966 kveðst stefnandi hafa nýtt eignina, fyrst sem vélaverkstæði og síðar sem geymslu. Hann hafi kostað allt viðhald hennar og greitt af henni öll gjöld, s.s. fasteignagjöld, tryggingar, rafmagn og hitaveitu, auk þess sem hann og Páll hafi lagt í verulegar endurbætur til að breyta eigninni úr samkomuhúsi í vélaverkstæði. Meðal annars hafi verið skipt um framgafl á húsinu, gólf, glugga o.fl. Þá liggi fyrir að geymslan sé skráð á nafn stefnanda í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hafi svo verið allt frá árinu 1978, að minnsta kosti. Engar athugasemdir hafi nokkru sinni verið gerðar við þá skráningu. Þá megi geta þess að í bókinni Land og fólk, byggðasaga Norður-Þingeyinga, sem fyrst hafi verið gefin út árið 1982, séu taldar upp eignir hvers bónda. Þar sé talið upp að geymslan tilheyri Sigríði og Braga í Grímstungu 2. Bókin hafi verið endurútgefin árið 2003 án þess að nokkur hafi gert við það athugasemd að eignarhaldinu væri lýst á þennan máta.

Einnig megi benda á að þann 24. ágúst 2011 hafi verið gert samkomulag (binding sales agreement) á milli Zhongkun Investment Group frá Kína og landeigenda Grímsstaða og Grímstungu varðandi kaup þess fyrrnefnda á landinu. Í yfirlýsingunni komi fram að undanskilin sé fasteign stefnanda með fastanúmer 216-6974 og geymsla með fastanúmer 216-6973 þar sem hvort tveggja sé eign stefnanda, Braga Benediktssonar. Yfirlýsingin sé undirrituð af Gunnólfi Lárussyni fyrir hönd landeigenda.

Loks byggi stefnandi á afsali Páls Kristjánssonar, dagsettu 8. september 2006,    þar sem sá síðarnefndi staðfesti að hann hafi afsalað sér 50% geymslunnar til stefnanda í janúar árið 1980. Að mati stefnanda breyti það engu í þessu sambandi þótt þinglýsing afsalsins hafi verið afmáð úr þinglýsingabókum enda sé þinglýsing skjala eingöngu skráning heimilda en segi hvorki af né á um efnislegan rétt. Stefnandi byggi á því að í afsali Páls felist enn frekari staðfesting á eignarhaldi stefnanda á bragganum.

Allt framangreint hnígi að því að staðhæfing stefnanda um tilurð eignarhalds hans sé rétt og fullsönnuð.

Verði hins vegar ekki talið sannað að ungmennafélagið hafi afhent stefnanda húsið til eignar þá krefjist stefnandi staðfestingar á eignarrétti að því á grundvelli fullnaðrar eignarhefðar í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Hefðartími fasteigna sé 20 ár, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Stefnandi hafi farið með umráð og eignarhald geymslunnar frá árinu 1966 og hafi eignin því verið í hans umráðum í mörg ár umfram lögbundinn hefðartíma. Vísist til sömu röksemda og að framan greini, þ. á m. um greiðslu skatta og skyldna og opinberra skráninga. Samkvæmt 6. gr. laganna skapi fullnuð hefð eignarrétt yfir hlut þeim er í eignarhaldi hafi verið og þurfi hefðandi ekki að styðjast við aðra eignarheimild. Við setningu laganna hafi einkum verið haft í huga að fasteignaeigendum, sem skorti t.d. þinglýstar heimildir fyrir eignarrétti sínum, væri nauðsynlegt að hafa einhver réttarúrræði til að afla sér eignardóms sem síðar mætti þinglýsa. Með þessu væri komið í veg fyrir að raunverulegur eigandi yrði hlunnfarinn eign sinni einungis vegna þess að hann hefði ekki til taks rétt skjöl á réttum tíma.

Stefnandi árétti sérstaklega að eignarhald hans á geymslunni sé sannanlega óslitið frá 1966 og enginn annar en hann hafi haft umráð eða afnot hennar á þeim tíma, að frátöldum Páli Kristjánssyni meðeiganda hans fram að árinu 1980. Frá þeim tíma hafi hann farið einn með umráð og eignarhald án athugasemda eða afskipta annarra þar til stefndi Elvar Daði hafi farið að nýta geymsluna hin síðustu ár í óleyfi stefnanda.

Samkvæmt framangreindu verði því að telja sannað að stefnandi hafi farið með geymsluna sem sína eign frá árinu 1966 og að þau not hafi útilokað aðra frá því að nota hana, þ. á m. stefndu.

Kaupsamningur um hluta geymslunnar á milli stefndu Kristínar Axelsdóttur og meðstefnda Elvars Daða þann 31. desember 2005 breyti engu í þessu sambandi enda hafi seljanda skort með öllu heimild til sölu þeirrar eignar. Jafnframt hafi stefnandi strax höfðað mál til riftunar kaupsamningsins og í framhaldi af því hafi verið gerð dómssátt þar sem 1. gr. kaupsamningsins hafi verið breytt á þann hátt að hin umþrætta geymsla væri undanskilin kaupunum. Engan veginn sé því unnt að líta þannig á að með kaupsamningnum hafi eignarhald stefnanda rofnað. Þá bendi stefnandi jafnframt á þá staðreynd að hefðin hafi sannanlega verið fullnuð löngu áður en ofangreindur kaupsamningur hafi verið gerður og því ekki um nein réttaráhrif þess kaupsamnings að þessu leyti að ræða.

Með vísan til framangreinds verði að telja fullsannað að stefnandi eigi eignarrétt að geymslu þeirri sem deilt sé um á grundvelli hefðar.

Verði á hvoruga málsástæðu fallist sé þess krafist til vara að staðfestur verði afnotaréttur stefnanda að margnefndri geymslu. Sem rök fyrir þeirri kröfu sé vísað til yfir 40 ára samfelldra afnota af eigninni, sbr. og 7. gr. laga um hefð.

Auk framangreindra lagatilvísana er í stefnu vísað til meginreglna eignar- og kröfuréttar. Krafa stefnenda um málskostnað sé studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að gæta þess við ákvörðun málskostnaðar þannig að honum verði haldið skaðlausum af þeim skatti.

 

III

Málsástæður stefndu

Í greinargerð stefndu Elvars Daða og Kristínar kemur fram að krafa þeirra um sýknu sé m.a. byggð á því að landið undir umþrættri geymslu sé í eigu stefndu Kristínar og að því sé hafnað að svæðið sé óskipt. Við munnlegan flutning málsins kom hins vegar fram að óumdeilt sé að bragginn standi í óskiptu landi jarða aðila.

Stefndu vísa því á bug að landeigendur að Grímsstöðum, að Elvari Daða undanskildum, hafi samþykkt eignarrétt stefnanda að geymslunni í verki með athafnaleysi og að stefndu séu bundin af þeirri afstöðu. Landeigendur hafi nýtt geymsluna árum saman, bæði sem sameiginlegt geymslurými fyrir vélar sem landeigendur eigi í sameiningu og fyrir olíukyndingu sem staðsett sé í húsnæðinu. Þá liggi fyrir að snjóbíll í eigu Öxarfjarðarhrepps hafi verið geymdur í geymslunni a.m.k. síðastliðin 15 ár. Eftir að stefndi Elvar Daði hafi keypt hlut í jörðinni Grímstungu 1 hafi hann, líkt og aðrir landeigendur að Grímsstöðum, nýtt geymsluna og því veki furðu að stefnandi hafi fyrst árið 2006 stofnað til ágreinings um eignarhald og afnotarétt yfir geymslunni.

Stefnandi byggi hinn ætlaða eignar- og afnotarétt sinn að geymslunni á skráningu hennar í fasteignaskrá. Því sé til að svara að skráning í fasteignaskrá hafi ekki grundvallarþýðingu varðandi eignarhald manna á fasteignum. Til að mynda sé afar auðvelt og viðurhlutalítið að breyta skráningu í fasteignaskrá, en slíkt sé mögulegt með aðeins einu símtali. Í málatilbúnaði sínum vísi stefnandi til útprentunar úr fasteignaskrá frá árinu 1979 um það að hann hafi verið skráður eigandi geymslunnar. Stefndu bendi í þessu samhengi á framlagða útprentun úr fasteignaskrá frá árinu áður, 1978, þar sem faðir stefnanda, Benedikt Sigurðsson, sé skráður eigandi. Óútskýrt sé af hálfu stefnanda hvers vegna faðir hans hafi verið skráður eigandi, ef stefnandi telji sig hafa verið eiganda geymslunnar allt frá árinu 1966.

Varðandi skráningu eigna í fasteignaskrá sé vísað til bls. 3 í bréfi sýslumannsins á Húsavík, dags. 17. október 2008, þar sem segi: „Upplýsingar þær sem færðar eru í fasteignamatshluta Landskrár fasteigna um einstök mannvirki eða matshluta eru ekki nema að takmörkuðu leyti byggðar á þinglýstum gögnum og á það við um þessar jarðir sem aðrar.“ Að mati stefndu sé þetta kjarni málsins, þ.e. að stefnandi hafi ekki gert reka að því að þinglýsa hinum ætlaða eignarrétti sínum. Þeim Páli og stefnanda, og síðar stefnanda einum, hafi verið í lófa lagið að þinglýsa ætluðum réttindum sínum yfir geymslunni þegar í stað, hafi þeir viljað að rétturinn héldi gildi gagnvart öðrum rétthöfum að eigninni, en ljóst sé að slíkt beri að gera til að réttindi yfir fasteign haldi gildi gagnvart öðrum rétthöfum að eigninni, sbr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þar sem enginn reki hafi verið gerður að slíku beri stefnandi hallann af því. Samkvæmt hinu afdráttarlausa ákvæði þinglýsingalaga geti sá sem telji sig eiga réttindi yfir fasteign ekki borið þau fyrir sig nema þeim hafi verið þinglýst. Ljóst sé að formleg skilyrði eignarheimildar sé þinglýsing, sbr. ákvæði 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga.

Sýslumaðurinn á Húsavík hafi fallist á það að afmá afsal Páls Kristjánssonar til stefnanda úr þinglýsingabók á grundvelli eftirfarandi röksemda: „Páll Kristjánsson hafði hvorki þinglýsta eignarheimild að Grímsstöðum II né að einstökum hlutum hennar. Er því ljóst að Pál brast þinglýsta heimild til að ráðstafa eign þeirri sem hið umdeilda afsal varðar, sbr. 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr. þinglýsingalaga. Í samræmi við þessi formskilyrði verður því að fallast á þá kröfu umbjóðenda yðar að afmá skjalið úr þinglýsingabók embættisins, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.“

   Stefndu hafni því að tilvísun stefnanda til ritsins Land og fólk, byggðasaga Norður-Þingeyinga, frá 1982, hafi nokkurt gildi í málinu. Sömuleiðis sé því hafnað að tilvísun stefnanda til samkomulags landeigenda Grímsstaða og Grímstungnajarða um sölu til Zhongkun Investment Group í Kína („Binding sales agreement“) frá 24. ágúst 2011 hafi nokkra sérstaka þýðingu í þessu máli í ljósi þess að ekki liggi fyrir þinglýst skjöl um eignarheimild stefnanda að geymslunni. Stefnandi geti ekki byggt rétt á afsali Páls Kristjánssonar þar sem það hafi verið afmáð úr þinglýsingabókum.

Stefndi Elvar Daði, og áður stefnda Kristín, hafi um langa hríð rekið ferðaþjónustu á jörðinni og hafi af þeim sökum nýtt geymsluna sem geymslurými fyrir ýmis tæki fyrir reksturinn. Elvar Daði búi á jörðinni ásamt fjölskyldu sinni, þ. á m. fimm börnum sínum, og eðli málsins samkvæmt þurfi hann töluvert geymslupláss. Stefnandi sé hins vegar hættur að vinna við búskap og bílaviðgerðir sökum aldurs og hafi engin sérstök not fyrir hina umþrættu geymslu. Vakin sé á því sérstök athygli að íbúðarhús stefnanda sé byggt á landi Grímstungu 1 og sé án lóðarréttinda í ræktuðu landi. Ekkert ræktað land fylgi því Grímstungu 2, heldur einungis hlutdeild í óræktuðu landi. Komi þetta m.a. fram í bréfi sýslumannsins á Húsavík frá 17. október 2008 þar sem tekið sé fram að Benedikt Sigurðsson hafi ráðstafað hluta óræktaðs lands Grímstungu til stefnanda og að með nafnleyfi Örnefnanefndar 9. september 2005 hafi þessi jarðarhluti fengið nafnið Grímstunga 2. Stefnandi sé búsettur í íbúðarhúsi sínu en sé hættur að stunda nokkurn búskap eða rekstur að öðru leyti. Þjóni því ekki tilgangi fyrir hann að krefjast eignarréttar að geymslunni nú, sérstaklega í ljósi húsakosts hans á jörðinni.

Stefndu byggi jafnframt á því að útilokað sé að stefnandi hafi eignast geymsluna á grundvelli reglna um hefð, sbr. ákvæði laga nr. 46/1905 um hefð og það sem áður hafi komið fram um nýtingu geymslunnar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna sé það skilyrði fyrir hefð að um sé að ræða 20 ára óslitið eignarhald á fasteign. Þá segi í 3. mgr. 2. gr. laganna að hafi hefðandi fengið hlut að veði, til geymslu, til láns eða á leigu geti slík umráð ekki heimilað hefð. Afnot geymslunnar hafi verið sameiginleg með öllum eigendum jarðarinnar Grímsstaða og Öxarfjarðarhrepps í áraraðir. Það sé því ljóst að stefnandi hafi ekki eignast geymsluna fyrir hefð, enda ekki um óslitið eignarhald eða afnot að ræða. Geymslan hafi verið nýtt sem sameiginleg vélageymsla, þótt stefnandi hafi ef til vill jafnframt haft þar aðstöðu til bílaviðgerða. Þá sé vakin athygli á því að óumdeilt sé að í geymslunni sé sameiginleg kynding og vatnsdæla íbúa jarðarinnar. Ekki sé unnt að viðurkenna eignarrétt eða afnotarétt stefnanda eins að geymslunni þar sem aðrir landeigendur verði að hafa aðgang að sameiginlegri kyndingu og vatnsdælu í geymslunni. Stefndu hafi um langt skeið staðið straum af ýmsum kostnaði vegna geymslunnar. Fyrir liggi gögn því til staðfestingar, en þau staðfesti hlutdeild þeirra í rafmagnskostnaði vegna geymslunnar, t.d. reikningar frá 1998, 2000, 2004 og 2005. Þess beri einnig að geta að árið 2005 hafi stefndi Elvar Daði fært skráningu orkureikninga vegna geymslunnar yfir á sitt nafn, en stefnandi hafi fljótlega fært skráninguna aftur yfir á sig. Slíkt geti ekki skapað honum rétt yfir geymslunni. Þá beri að árétta að stefnandi öðlist ekki eignarrétt fyrir hefð hafi geymslan verið lánuð honum og/eða öðrum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna.

Stefnanda hafi ekki tekist að sanna óslitið eignarhald á geymslunni í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/0905, en stefnandi virðist byggja á því að ætlað eignarhald hans sé óslitið frá árinu 1966. Því sé alfarið hafnað, og til hliðsjónar vísað til þess sem fyrr kom fram að faðir stefnanda, Benedikt Sigurðsson, hafi verið skráður eigandi að geymslunni í fasteignaskrá árið 1978, auk þess sem fyrir liggi samkvæmt reikningum að stefndu hafi staðið straum af rekstrarkostnaði geymslunnar. Í öllu falli sé á því byggt að ætlað eignarhald stefnanda hafi rofnað, t.d. við gerð kaupsamnings milli stefndu, dags. 29. desember 2005.

Þá hafi stefnanda heldur ekki tekist að sýna fram á samfelld afnot af eigninni, sbr. 7. gr. laganna, eins og haldið sé fram í stefnu. Beri því jafnframt að hafna varakröfu stefnanda um að staðfestur verði afnotaréttur hans eins af geymslunni.

Stefndu mótmæli því sérstaklega að samantekt úr dagbók lögreglunnar á Húsavík varðandi tilkynningar frá stefnanda og eiginkonu hans til lögreglu hafi þýðingu við úrlausn þessa máls, auk þess sem hér sé einungis um að ræða tilhæfulausar ásakanir stefnanda á hendur stefnda Elvari Daða.

Um lagarök kveðast stefndu einkum vísa til meginreglna eignar- og kröfuréttar. Þá sé vísað til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 24., 25. og 29. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til laga nr. 46/1905 um hefð. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefndu séu ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Eins og fyrr sagði hélt stefndi ríkissjóður Íslands ekki uppi vörnum í málinu eftir að samkomulag tókst milli hans og stefnanda um að fella niður málið sín á milli í kjölfar breytingar sem gerð var á dómkröfu stefnanda við upphaf aðalmeðferðar málsins. Fólst sú breyting í því að fallið var frá kröfu um viðurkenningu eignarréttar að landi því sem bragginn stendur á. Eru ekki efni til að rekja hér þær málsástæður sem byggt var á í greinargerð þessa stefnda, enda lutu þær allar að mótmælum við því að bragganum fylgdi eignarland á þeim stað þar sem hann stæði.

 

IV

Niðurstaða

Eins og fram er komið er í máli þessu deilt um eignarhald á 91 fm bragga, sem óumdeilt er orðið að stendur í óskiptu landi jarða aðila. Skilja verður málatilbúnað stefndu svo að hann hvíli á því að þau telji eignarhald braggans eiga að fara saman við eignarhald landsins sem hann stendur á.

Stefnandi byggir aðallega á því að eignarhald braggans hafi færst til hans og Páls Kristjánssonar á árinu 1966, fyrir ákvörðun Ungmennafélags Fjöllunga sem óumdeilt virðist að þá átti braggann. Liggur þó fyrir að ekki var gengið frá slíkri ákvörðun með skriflegum hætti. Fyrir dómi bar stefnandi að ekki hafi tíðkast meðal sveitunga að ganga skriflega frá slíkum gerningum á þessum tíma og að þeir fáu bændur sem eftir voru á svæðinu hafi tekið þessa ákvörðun fyrir hönd félagsins.

Staðhæfing stefnanda um yfirfærslu eignarréttar braggans styðst einkum við síðari tíma gögn, þar á meðal um skráningu eignarinnar í fasteignaskrá frá árinu 1979, um greiðslur stefnanda á fasteignagjöldum og tryggingaiðgjöldum, ljósrit úr ritinu Land og fólk, byggðasaga Norður-Þingeyinga og ákvæði í samkomulagi landeigenda Grímsstaðalandsins við Zhongkun Investment Group frá 24. ágúst 2011. Þótt gögn þessi geti stutt staðhæfingu stefnanda er hér hvorki um samtímagögn að ræða né gögn sem talist geta haft verulega þýðingu við úrlausn um staðhæfingu stefnanda.

Framburður þeirra vitna sem leidd voru fyrir dóminn var ekki einhlítur um það hvort þau hafi talið þá stefnanda og Pál hafa fengið braggann til eignar eða einungis til afnota fyrir verkstæðisrekstur. Eitt vitnanna, Sigurður Karl Leósson frá Hólsseli, sem stefnandi nefndi í sínum framburði sem einn þeirra bænda er hefðu staðið að ákvörðun ungmennafélagsins, kvað það ekki skilning sinn að bragginn hefði verið afhentur þeim stefnanda og Páli til eignar, heldur til afnota, þótt hann viðurkenndi að ekki hafi verið fyrirséð annað en að ungmennafélagið hefði lognast endanlega út af og myndi ekki halda uppi eignarráðum braggans.

Við munnlegan málflutning var á því byggt af hálfu stefnanda að í 5. gr. dómssáttar aðila frá 4. apríl 2007, sem rakin er í málavaxtalýsingu hér að framan, felist viðurkenning stefndu á eignarrétti stefnanda að bragganum. Sú málsástæða er of seint fram komin og kemst ekki að í málinu gegn mótmælum stefndu. Þá verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að sönnun fyrir eignarrétti hans geti byggst á athafnaleysi landeigenda eða samþykki þeirra í verki, sem stefndu séu bundin við.

Samkvæmt öllu framanrituðu þykir stefnandi verða að bera hallann af því að fullnægjandi sönnun skortir fyrir þeirri staðhæfingu að þeir Páll hafi eignast braggann á árinu 1966.

Víkur þá að þeirri málsástæðu stefnanda að hann hafi eignast braggann fyrir hefð, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

Nægilega er leitt í ljós, m.a. með framburði vitna, að verkstæðisrekstur stefnanda og Páls Kristjánssonar hafi staðið óslitið allt frá árinu 1966 fram til um 1980. Eftir það kveðst stefnandi hafa rekið verkstæðið í bragganum áfram einn, raunar allt fram á þennan dag, auk þess sem hann hafi nýtt húsnæðið sem geymslu. Mótmælti stefnandi fyrir dómi öllum fullyrðingum stefndu um annað. Liggja engin skjalleg gögn fyrir sem stutt geta staðhæfingar stefndu um að stefnandi hafi flutt verkstæðisrekstur sinn alfarið í annað húsnæði á landinu sem reist mun hafa verið í kringum 1982–1983. Framburður vitna rennir heldur ekki nægum stoðum undir það.

Fram er komið, m.a. í framburði vitna, að þeir stefnandi og Páll stóðu fyrir framkvæmdum við að breyta bragganum í verkstæði og er ekkert fram komið sem bendir til annars en að þeir hafi sjálfir greitt kostnað af þeim framkvæmdum, eins og þeir staðhæfa.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja um skráningu braggans í fasteignaskrá verður ráðið að hann hafi verið skráður eign stefnanda um árabil, eins og skráning í fasteignaskrá 1979 og síðari skráningar eru til marks um. Ekki þykir það geta ráðið neinum úrslitum í málinu þótt óútskýrt sé hvers vegna bragginn hafi verið skráður á föður hans á árinu 1978. Hefur stefnandi einnig sýnt fram á það með gögnum að hann hafi um langt skeið staðið straum af tryggingaiðgjöldum og fasteignagjöldum vegna braggans. Styður framangreint að stefnandi hafi litið á braggann sem sína eign.

Í málinu liggja einnig fyrir gögn um að stefnandi hafi greitt orkureikninga í eigin nafni vegna raforkumæla sem staðsettir munu hafa verið í bragganum. Hafa stefndu leitast við að sýna fram á það með gögnum að stefnda Kristín hafi endurgreitt stefnanda hluta þess kostnaðar. Fyrir dómi bar stefnandi að langmestur hluti rafmagnsins hafi farið til kyndingar sem staðsett hefur verið í bragganum og að kyndingin þjóni ekki bragganum, sem sé ókyntur og einungis lýstur með örfáum ljósaperum, heldur húsi stefnda Elvars Daða, áður stefndu Kristínar, og þar áður einnig húsi stefnanda sjálfs. Fær þetta stoð í gögnum málsins, s.s. vottorði og framburði vitnisins Ingólfs Péturssonar pípulagningamanns og dómssátt aðila frá 4. apríl 2007. Með þeim gögnum sem lögð hafa verið fram hefur stefndu ekki lánast að sýna fram á að þau hafi í reynd borið kostnað af rekstri braggans þannig að nokkru máli skipti.

Þótt engin gögn liggi fyrir um umfang verkstæðisrekstrarins í bragganum, liggur ekki annað fyrir en að bragginn sé enn útbúinn sem verkstæði, þar á meðal með verkstæðisgryfju líkt og fram kom í framburði stefnanda og vitna fyrir dómi, og hafi ekki verið tekinn úr þeim notum, þótt leggja verði til grundvallar að stefnandi hafi meira nýtt hann sem geymslu í seinni tíð.

Þá benda gögn málsins ekki til annars en að nýting stefnanda, og áður einnig Páls Kristjánssonar, á bragganum hafi í reynd útilokað að mestu aðra nýtingu hans. Þótt óumdeilt sé að í bragganum, sem ávallt mun hafa staðið ólæstur, hafi um eitthvert skeið verið staðsettir munir ótengdir verkstæðinu, s.s. díselrafstöð og nefnd kynding, og jafnvel þótt þar hafi í gegnum tíðina verið geymdar stöku vélar, bifreiðar eða aðrir munir í eigu annarra en stefnanda, að því er stefnandi kveður með heimild hans, verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að þau not hafi verið afar takmörkuð í samanburði við framangreind not stefnanda. Má hér til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar frá 9. nóvember 2006 í máli nr. 386/2006.

Stefndu hafa ekki leitt líkur að því að stefnandi hafi fengið braggann til láns eða leigu eða með öðrum hætti skuldbundið sig til þess að skila honum aftur eða að hann hafi með öðrum hætti mátt vænta þess að um tímabundin afnot væri að ræða. Leggja verður til grundvallar að starfsemi Ungmennafélags Fjöllunga hafi lagst af fyrir árið 1966, vegna fólksflutninga úr sveitinni, og að fyrirsjáanlegt hafi verið að hún yrði ekki endurvakin, svo sem raun var á. Verður ekki séð að eignarráðum braggans hafi verið haldið uppi með nokkrum hætti af hálfu ungmennafélagsins eftir að starfsemi þess lagðist af. Þá liggur fyrir afsal Páls Kristjánssonar til stefnanda fyrir helmingi braggans, sem Páll staðfesti fyrir dómi, og breytir engu þótt það afsal hafi verið afmáð úr þinglýsingabók. Verður því ekki séð að 2. eða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 standi því í vegi að eignarhald stefnanda á bragganum hafi getað unnist fyrir hefð. Má hér aftur vísa til hliðsjónar til forsendna framangreinds dóms Hæstaréttar.

Við munnlegan málflutning studdu stefndu sýknukröfu sína jafnframt við þá málsástæðu að hefð væri komin á afnot þeirra af bragganum vegna staðsetningar kyndingarinnar, sbr. 7. gr. laga nr. 46/1905. Sú málsástæða er of seint fram komin og kemst ekki að í málinu gegn mótmælum stefnanda, en að auki verður ekki séð að hún samræmist dómssátt aðila frá 4. apríl 2007, þar sem kveðið er á um að kyndinguna beri að fjarlægja úr bragganum. Í greinargerð stefndu er einnig minnst á að vatnsdæla sé í bragganum, en um það eru gögn málsins óljós og var þessu atriði ekki hreyft við skýrslutökur fyrir dómi og munnlegan málflutning.

Samkvæmt framanrituðu verður að telja uppfyllt það skilyrði fyrir eignarhefð að um 20 ára óslitið eignarhald stefnanda á fasteigninni sé að ræða, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Verður að hafna þeirri málsástæðu stefndu að eignarhald stefnanda hafi rofnað vegna kaupsamningsgerðar milli stefndu á árinu 2005, enda var hefð stefnanda þá löngu fullnuð. Stefndu hafa ekki haldið fram öðrum málsatvikum til stuðnings því að óslitið eignarhald stefnanda hafi verið rofið.

Samkvæmt öllu framanrituðu, og þar sem öllum málsástæðum stefndu hefur verið hafnað, verður fallist á aðalkröfu stefnanda um viðurkenningu eignarréttar hans að bragganum, eða geymslunni, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans.

 

Dómsorð:

Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, Braga Benediktssonar, að geymslu með fastanúmer 216-6973 02 0101, Grímstungu 2, Norðurþingi, sem stendur í óskiptu landi Grímsstaða á Fjöllum.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.