• Lykilorð:
  • Ákæra
  • Gáleysi
  • Peningaþvætti
  • Fangelsi
  • Sakarkostnaður
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunarmat
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 8. mars 2018 í máli nr. S-326/2017:

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Halldóru Guðrúnu Víglundsdóttur

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)

Gunnari Rúnari Gunnarssyni

(Páll Kristjánsson lögmaður)

Pálma Þór Erlingssyni og

(Víðir Smári Petersen lögmaður)

Craig Ideaho Osakapamwan

(Bragi Björnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 23. febrúar 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 20. september 2017 á hendur ákærðu, Halldóru Guðrúnu Víglundsdóttur, kt. [...], [...], [...], Gunnari Rúnari Gunnarssyni, kt. [...], [...], [...], Pálma Þór Erlingssyni, kt. [...], [...], [...] og Craig Ideaho Osakapamwan, fæddum [...], til heimilis á Ítalíu:

I

„Á hendur ákærðu öllum fyrir peningaþvætti í sameiningu, með því að hafa í janúar og febrúar 2016 tekið við 31.600.000 krónum af ótilgreindum aðila, geymt fjármunina á bankareikningum, nýtt að hluta, flutt að hluta, sent að hluta til Ítalíu og millifært 20.500.000 krónur af umræddu fé á bankareikning félagsins Global Trixim í Hong Kong, þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að um væri að ræða ólöglega fengið fé, en um var að ræða fé sem ótilgreindur aðili komst yfir með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaganna Daesung Food One Co. Ltd. í Suður Kóreu og Nesfisks hf., svo sem nánar er rakið í 1. til 7. tölulið:

1)      Ákærðu Gunnar Rúnar og Halldóra Guðrún tóku, 29. janúar 2016, við 31.600.000 krónum á bankareikning einkahlutafélagsins RG verktakar, kt. [...], í Íslandsbanka nr. [1], þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða. Áður höfðu þau í sameiningu veitt ótilgreindum erlendum manni upplýsingar um umræddan bankareikning einkahlutafélagsins í þeim tilgangi að hið ólöglega fengna fé yrði lagt inn á hann. Þann 3. febrúar 2016 fóru ákærðu Gunnar Rúnar og Halldóra Guðrún í Íslandsbanka og reyndu, án árangurs, að senda umrædda fjármuni úr landi.

2)      Ákærði Gunnar Rúnar tók, 3. febrúar 2016, út 6.319.691 krónu af umræddum bankareikningi RG verktaka ehf. og notaði hluta fjármunanna til eigin þarfa, m.a. til kaupa á jeppabifreiðinni [...]. Þá afhenti hann meðákærðu Halldóru Guðrúnu hluta fjárins.

3)      Ákærða Halldóra Guðrún sendi, 3. febrúar 2016, 622.588 krónur af því fé sem meðákærði Gunnar Rúnar afhenti henni til fjögurra aðila á Ítalíu í gegnum greiðslukerfi Western Union.

4)      Ákærðu Gunnar Rúnar, Halldóra Guðrún og Pálmi Þór millifærðu, 5. febrúar 2016, í sameiningu, 23.000.000 krónur af umræddu fé af bankareikningi RG verktaka ehf. yfir á bankareikning ákærða Pálma Þórs í Íslandsbanka, nr.  [3], í þeim tilgangi að flytja þá þaðan úr landi. Mátti ákærði Pálmi Þór á sama hátt og meðákærðu vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða sem hann þannig tók við á bankareikning sinn. Í framhaldinu millifærði ákærði Pálmi Þór samtals 23.005.000 krónur með 8 færslum af bankareikningi sínum í Íslandsbanka nr. [3] yfir á bankareikning sinn nr.  [4] hjá Arion banka.

5)      Ákærðu Gunnar Rúnar, Halldóra Guðrún og Pálmi Þór millifærðu, 8. febrúar 2016, í sameiningu, rúmar 20.500.000 krónur af umræddu fé af bankareikningi Pálma Þórs nr. [4] hjá Arion banka yfir á bankareikning félagsins Global Trixim í Hong Kong.

6)      Ákærði Pálmi Þór millifærði, 10. febrúar 2016, 1.073.786 krónur af umræddum fjármunum af bankareikningi sínum nr. [3] hjá Íslandsbanka yfir á bankareikning félagsins Global Trixim í Hong Kong.

7)      Ákærði Craig Ideaho skipulagði og gaf meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið, eftir að hann kom til landsins 2. febrúar 2016, og voru brotin þannig framin að hans undirlagi. Kom hann til landsins gagngert til að sjá til þess að umræddir fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum. Þá afhenti hann meðákærðu tilhæfulausa reikninga sem var framvísað í Arion banka þann 8. febrúar 2017 og flutti hluta af fjármununum úr landi. Mátti ákærða Craig Ideaho á sama hátt og meðákærðu vera ljóst að um ólöglega fengið fé var að ræða.

II

Á hendur ákærðu Halldóru Guðrúnu, Gunnari Rúnari og Pálma Þór, fyrir peningaþvætti í sameiningu, með því að hafa í febrúar 2016 tekið við 22.200.000 krónum af ótilgreindum aðila og nýtt að hluta, geymt og flutt að hluta og sent hluta þess til Spánar, þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða, en um var að ræða fé sem ótilgreindur aðili komst yfir með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaganna Daesung Food One Co. Ltd. í Suður Kóreu og Nesfisks hf., svo sem nánar er rakið í 1. til 3. tölulið:

1)      Ákærðu Gunnar Rúnar og Halldóra Guðrún tóku,  22. febrúar 2016, við 22.200.000 krónum á bankareikning RG verktaka nr. [2] hjá Íslandsbanka, þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða.

2)      Ákærðu Gunnar Rúnar, Halldóra Guðrún og Pálmi Þór millifærðu í sameiningu 22.050.000 krónur af umræddu fé yfir á bankareikning ákærða Pálma Þórs nr. [4] hjá Arion banka. Mátti ákærði Pálmi Þór á sama hátt og meðákærðu vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða sem hann þannig tók við á bankareikning sinn.

3)      Ákærði Pálmi Þór tók, 23. febrúar 2016, út af bankareikningi sínum nr. [4]samtals 2.065.000 krónur í reiðufé og afhenti meðákærðu Halldóru Guðrúnu 1.500.000 krónur af þeim til þess að hún gæti sent meiri hluta þess fjár til tiltekinna aðila á Spáni í gegnum Western Union. Ákærða Halldóra Guðrún tók við umræddu fé og lét senda það umræddum aðilum.

III

Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist með vísan til 69. og 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, að ákærðu Pálma Þór, Gunnari Rúnari og Halldóru Guðrúnu verði gert að sæta upptöku á ávinningi brotanna. Nánar tiltekið:

 

a)        Að ákærða Pálma Þór verði gert að sæta upptöku á innistæðu að fjárhæð kr. 20.755.897 á bankareikningi nr.  [5] sem stofnaður var af héraðssaksóknara til að varðveita fjármuni sem haldlagðar voru á bankareikningi ákærða nr. [4] hjá Arion banka þann 2. mars 2016. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 2. mars 2016 til greiðsludags.

b)        Að ákærða Gunnari Rúnari verði gert að sæta upptöku á innistæðu að fjárhæð kr. 939.788 á bankareikningi nr. [6] hjá Arion banka sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita fjármuni sem eru andvirði bifreiðarinnar [...] sem hald var lagt á við rannsókn málsins. Bifreiðin var seld að ósk ákærða og var andvirðið haldlagt 29. ágúst 2016. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 29. ágúst 2016 til greiðsludags.

c)        Að ákærða Gunnari Rúnari verði gert að sæta upptöku á kr. 21.000 á bankareikningi nr. [7] hjá Arion banka sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita reiðufé sem var haldlagt við húsleit á heimili ákærða að Rauðarárstíg 24, Reykjavík, 26. febrúar 2016. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 26. febrúar 2016 til greiðsludags.

d)       Að ákærðu Halldóru Guðrúnu verði gert að sæta upptöku á innistæðu að fjárhæð kr. 773.770 á bankareikningi nr. [8] hjá Landsbankanum sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita fjármuni sem haldlagðir voru í greiðslukerfi Western Union hjá Landsbankanum þann 4. mars 2016. Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 4. mars 2016 til greiðsludags.

 

Kröfur ákærðu Halldóru:

Ákærða Halldóra krefst þess aðallega í málinu að hún verði sýknuð af refsikröfu ákæruvalds. Til vara krefst ákærða þess að henni verði ekki gerð refsing en til þrautavara að henni verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Í öllum tilvikum krefst ákærða þess að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg þóknun verjanda hennar til handa.

Kröfur ákærða Gunnars:

Ákærði Gunnar krefst þess aðallega að kröfum á hendur honum verði vísað frá dómi. Til vara krefst ákærði sýknu af refsikröfu ákæruvalds en til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 26. febrúar 2016 til 4. mars 2016, verði dregið frá refsingunni að fullri dagatölu. Hvað upptökukröfur ákæruvalds varðar andmælir ákærði ekki upptöku á andvirði hinnar haldlögðu bifreiðar. Hann mótmælir hins vegar kröfu um upptöku á 21.000 krónum, sem lögregla haldlagði við húsleit á heimili hans. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.

Kröfur ákærða Pálma :

Ákærði Pálmi krefst þess aðallega í málinu að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist hans verði dregin frá dæmdri refsingu. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun verjanda hans.

Kröfur ákærða Craig:

Ákærði Craig krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds í málinu. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 15. febrúar 2017 til 10. janúar 2018 verði dregin frá refsingunni að fullri dagatölu. Í báðum tilvikum krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða til handa.

A

1

Hinn 24. febrúar 2016 barst tilkynning á grundvelli 17. gr. laga nr. 64/2006 frá peningaþvættisskrifstofu héraðs­saksóknara um ætlað peninga­þvætti. Í tilkynningunni kom fram að svo virtist sem erlendur aðili hefði komist yfir upplýsingar um fiskútflutning Nesfisks hf., en það félag er fiskvinnslufyrirtæki í Garði og sendir  meðal annars sjávarafurðir í gámum til Suður-Kóreu. Óþekktur aðili, sem gefið hefði sig út fyrir að vera fyrirsvarsmaður Nesfisks hf., hefði í tvígang sent greiðslufyrirmæli með tölvupósti til kaupanda sjávarafurða, Daesung Food One Co. Ltd. í Suður-Kóreu, þess efnis að greiða skyldi kaupverð sjávarafurðanna inn á reikning félagsins RG verktaka ehf., félags í eigu ákærða Gunnars, með þeim afleiðingum að greiðslan fyrir vöruna barst ekki seljanda hennar, Nesfiski hf. 

Af hálfu lögreglu var framkvæmd sérstök rannsókn á tölvupóst­samskiptum C, sölumanns hjá Nesfiski hf., og O, starfsmanns Daesung Food One Co. Ltd. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að hinn óþekkti aðili, eða einhverjir á hans vegum, hefðu brotist inn í pósthólf hins suðurkóreska viðskiptavinar Nesfisks hf. og tekið yfir og stjórnað samskiptum á milli félaganna á tímabilinu frá 15. desember 2015 til 22. febrúar 2016 með þeim afleiðingum að fjármunir sem fara áttu frá Daesung Food One Co Ltd. og inn á bankareikning Nesfisks hf. fóru þess í stað inn á bankareikning RG verktaka ehf.

Samkvæmt gögnum málsins beindi hinn óþekkti aðili tveimur greiðslum frá Daesung Food One Co Ltd. inn á reikning RG verktaka ehf. Þannig liggur fyrir samkvæmt framlögðum banka­upplýsingum að 29. janúar 2016 voru millifærðar 31.599.105 krónur á reikning nr. [2], en sá reikningur var í eigu RG verktaka ehf. Hinn 3. febrúar 2016 var tekin út af reikningnum 6.319.691 króna í reiðufé. Tveimur dögum síðar voru 23.000.000 króna millifærðar af reikningi [2] á reikning ákærða Pálma nr. [3] í Íslandsbanka hf. Í kjölfarið voru síðan millifærðar af þeim reikningi í átta færslum samtals 23.005.000 krónur inn á reikning ákærða Pálma nr. [4] í Arion banka hf. Hinn 8. febrúar 2016 var 20.581.141 króna send með símgreiðslu af þeim reikningi á reikning félagsins Global Trixim Ltd. í Hong Kong nr. [9]. Tveimur dögum síðar voru 1.073.786 krónur yfirfærðar með SWIFT-greiðslu af reikningi ákærða Pálma nr. [3] í Íslandsbanka hf. á greindan reikning Global Trixim Ltd.

Síðari greiðslan sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] var að fjárhæð 22.252.196 krónur. Samkvæmt framlögðum banka­upplýsingum var hún lögð inn 22. febrúar 2016. Stærsti hluti fjárhæðarinnar, eða 22.050.000 krónur, var síðan millifærður á bankareikning ákærða Pálma nr. [4] hjá Arion banka hf. Degi síðar voru teknar út af reikningnum 2.065.000 krónur í reiðufé. Hinn 2. mars 2016 haldlagði héraðssaksóknari þær 20.755.897 krónur sem þann dag voru á fyrrnefndum bankareikningi ákærða Pálma hjá Arion banka hf.

Undir rannsókn málsins voru, auk hinna síðastnefndu fjármuna, haldlagðar 939.788 krónur, sem voru söluverð bifreiðarinnar [...]. Var sú bifreið seld að ósk ákærða Gunnars og andvirði hennar lagt inn á bankareikning nr. [6] hjá Arion banka hf. sem embætti héraðssaksóknara stofnaði til að varðveita fjármunina. Innstæðuna haldlagði héraðssaksóknari síðan 29. ágúst 2016. Einnig voru við húsleit á heimili ákærða Gunnars að [...] í [...] haldlagðar 21.000 krónur. Þá voru að endingu haldlagðar undir rannsókn málsins 773.770 krónur sem voru í greiðslukerfi Western Union hjá Landsbankanum 4. mars 2016.

Ákærðu Gunnar og Pálmi voru báðir handteknir í þágu rannsóknar málsins og hinn 26. febrúar 2016 voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 4. mars 2016. Ákærða Halldóra var einnig handtekin og hún úrskurðuð í gæsluvarðhald til sama dags og meðákærðu Gunnar og Pálmi.

Að kröfu lögreglu gaf Héraðsdómur Reykjavíkur út alþjóðlega handtökuskipun á hendur ákærða Craig 30. mars 2016. Með bréfi til skrifstofu almannaöryggis innanríkisráðuneytisins 4. apríl 2016 var óskað eftir því að ákærði yrði eftirlýstur og hann handtekinn hvar sem til hans næðist og hann framseldur íslenskum yfirvöldum. Hinn 14. febrúar 2017 barst tölvupóstur frá lögreglufulltrúa í alþjóðadeild ríkislögreglustjóra þess efnis að ákærði Craig hefði verið handtekinn á flugvellinum í Bologna á Ítalíu. Hinn 15. febrúar 2017 sendi skrifstofa almannaöryggis innanríkis­ráðuneytisins beiðni til ítalskra yfirvalda um framsal ákærða. Ítölsk dómsmálayfirvöld samþykktu framsalið 10. júlí 2017 og var ákærði Craig fluttur til landsins 17. ágúst 2017. Hann var samdægurs úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sætti ákærði gæsluvarðhaldi allt til 10. janúar sl. er Landsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms úr gildi og gerði ákærða að sæta farbanni. Hefur ákærði Craig sætt farbanni frá þeim degi.

2

Við rannsóknina aflaði lögregla bankagagna er tengdust fyrrgreindum millifærslum. Einnig var aflað mjög umfangsmikilla fjarskiptagagna, svo sem síðar verður vikið að. Framburðarskýrslur voru teknar af öllum ákærðu og þá voru einnig teknar skýrslur af nokkrum fjölda vitna sem talið var að byggju yfir upplýsingum um málsatvik. Var þar einkum um að ræða bankastarfsmenn og aðila tengda ákærðu.

Undir rannsókn málsins var framkvæmd rannsókn á áðurnefndum fjarskipta­gögnum, meðal annars í því skyni að kanna hvort í þeim væri að finna tengsl milli sakborninga, sbr. framlagðar upplýsingaskýrslur A lögreglumanns frá 16. og 21. febrúar 2017. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að ákærðu Gunnar, Pálmi og Halldóra hefðu öll verið í samskiptum við símanúmerið (1) á þeim tíma sem ákærði Craig var hér á landi. Við nánari skoðun kom jafnframt í ljós að það númer hafði eingöngu verið í notkun þegar ákærði Craig var á landinu. Af gögnunum mátti enn fremur ráða að númerið hafði oftast tengst í gegnum farsímamastur nærri Hótel Hafnarfirði. Þá kom í ljós að umrætt númer var skráð í símaskrá í síma ákærða Gunnars sem „Magni Svart“. Var það niðurstaða rannsóknarinnar í ljósi þessa að ákærði Craig hefði haft símanúmerið (1) til afnota á meðan hann var hér á landi.

Við rannsókn lögreglu á fjarskiptagögnunum kom einnig fram að símanúmerið (1) hafði einkum verið í samskiptum við símanúmerið (2). Skoðun á því númeri gaf þá niðurstöðu að númerið tengdist oftast fjarskiptamastri við Tjarnarbraut í Reykjanesbæ. Það sama átti samkvæmt gögnunum við um persónulegt símanúmer ákærða Pálma, símanúmerið (3). Niðurstaða frekari rannsóknar var sú að notkun númeranna tveggja fylgdist að í þó nokkurn fjölda skipta á nokkrum mismunandi stöðum, en símanúmer annarra ákærðu höfðu ekki sambærileg tengsl við notkun á númerinu (2). Var það því niðurstaða rannsóknar lögreglu að margt benti til þess að ákærði Pálmi hefði haft símarnúmerið til afnota.

B

1

Í skýrslu ákærða Gunnars fyrir dómi kom fram að ákærða Halldóra hefði komið að máli við hann um miðjan desember 2015 og spurt hann hvort hún gæti fengið lánaðan hjá honum bankareikning. Ákærði hefði innt ákærðu Halldóru eftir tilganginum og ákærða svarað því til að hún væri í sambandi við mann úti í heimi sem vildi hefja viðskipti með fisk hér á landi. Ákærði hefði sagt það vera vandæðalaust af sinni hálfu að lána ákærðu bankareikning með því skilyrði að hann fengi „prósentur af því“. Spurður um hvaða maður það var sem koma átti með peninga til landsins kvað ákærði það hafa verið „þessi Sly svokallaði“. Þann mann sagðist ákærði aldrei hafa hitt og lítið sem ekkert vita um annað en að hann væri fyrrverandi unnusti ákærðu Halldóru. Ákærða hefði sagt Sly eiga eignir, þ.m.t. fasteignir, um allan heim. Ákærði kvað ákærðu Halldóru hafa verið í sambandi við þennan erlenda aðila vegna peninga­sendingarinnar. Hefði Sly fengið bankaupplýsingar varðandi félag ákærða, RG verktaka ehf., frá henni. RG verktaka ehf. sagði ákærði hafa verið félag í sinni eigu. Félagið væri nú orðið gjaldþrota.

Einum eða tveimur dögum eftir að fjármunir bárust hingað til lands kvað ákærði ákærðu Halldóru hafa haft samband við hann að nýju. Sagðist ákærði þá ekkert hafa verið búinn að heyra í ákærðu frá því hann heyrði í henni um miðjan desember 2015 samkvæmt áðursögðu. Hvorki á því tímabili né heldur síðar hefði ákærði heldur verið í sambandi við hina erlendu aðila. Sagði ákærði sér hafa brugðið er hann varð þess áskynja að búið var að leggja rúmar 30 milljónir króna inn á bankareikning félags hans, RG verktaka ehf. Ákærða Halldóra hefði vissulega verið búin að nefna einhverjar milljónir í þessu sambandi en ekki svona háa fjárhæð. Hluta nefndrar fjárhæðar sagði ákærði hafa átt að fara til kaupa á félagi hans. Fullyrti ákærði að hann hefði allan tímann vitað að engin viðskipti væru á bak við peningasendinguna. Þá fullyrti hann jafnframt að hann hefði enga vitneskju haft um uppruna fjárins.

Fram kom hjá ákærða að um það hefði verið rætt að hann fengi 15-20% fjárhæðarinnar í sinn hlut fyrir það að láta peningana fara í gegnum reikning RG verktaka ehf. Í ljósi þeirra fjárhæða sem síðan hefðu borist sagði ákærði þá þóknun undir engum kringumstæðum hafa getað talist eðlilega.

Hinn 3. febrúar 2016 kvaðst ákærði Gunnar hafa að beiðni ákærðu Halldóru, sem sagst hefði vera að fara að fyrirmælum „þeirra úti og Craig“, tekið út ríflega 6.319.000 krónur af bankareikningi RG verktaka ehf. Framburð ákærðu þess efnis að ákærði Craig hefði rétt honum miða með þessari fjárhæð sagði ákærði Gunnar rangan. Ákærði sagðist sjálfur hafa tekið af þessari fjárhæð 3,2 milljónir króna „bara eins og ég átti að fá“ en ákærða Halldóra hefði sagt ákærða að taka helminginn. Sjálf hefði hún tekið afganginn. Peningunum sagðist ákærði Gunnar hafa varið til kaupa á bifreið og til greiðslu á lausaskuldum.

Þennan sama dag kvaðst ákærði Gunnar hafa farið í Íslandsbanka við Kirkjusand með ákærðu Halldóru þeirra erinda að reyna að senda fjármunina á reikningi RG verktaka ehf. úr landi. Það hefði ekki gengið þar sem ákærða Halldóra hefði ekki verið með „rétta pappíra“. Ákærða hefði þó framvísað einhverjum reikningi sem hún hefði haft meðferðis og sagst hafa fengið frá ákærða Craig í tölvupósti. Sjálfur sagðist ákærði enga þekkingu hafa haft á því sem þurfti að gera til að millifæra fjármunina.

Vegna þess að ekki gekk að senda peningana úr landi sagði ákærði Gunnar sér hafa dottið hug að leita til ákærða Pálma. Hann hefði ákærði þekkt og treyst. Jafnframt hefði hann vitað að ákærði Pálmi hefði langa reynslu af viðskiptum. Í framhaldinu hefðu þau ákærði Gunnar, ákærða og ákærði Pálmi hist í Vogunum og farið yfir það hvernig best væri að standa að millifærslu peninganna úr landi. Hefðu þau rætt saman í bifreið ákærða Gunnars. Á meðan þau réðu ráðum sínum hefði ákærði Pálmi hringt í B lögmann. Í samtali þeirra kvað ákærði Gunnar hafa komið til tals að búa til einhverja fléttu tengda fasteignum í Víðidal. Sagði ákærði sér hafa verið ljóst allan tímann að þar hefði verið á ferðinni alger uppspuni. Staðfesti ákærði Gunnar sérstaklega aðspurður fyrir dómi að eftir að málið kom upp hefði ákærði Pálmi beðið hann um að bera um fléttu á bak við þessar millifærslur „þetta Víðidalsdæmi“ í skýrslutökum.

Ákærði Gunnar sagðist 2. febrúar 2016 hafa keyrt ákærðu Halldóru út á flugvöll þeirra erinda að sækja ákærða Craig. Fullyrti ákærði að það hefði verið ákærða sem átt hefði frumkvæðið að því að sækja Craig, sem hún hefði sagt vera „mann sem tengdist þessum peningamálum“. Ákærða Halldóra hefði verið sá aðili sem fyrst og fremst var í samskiptum við ákærða Craig. Hefði ákærða skilist að hlutverk ákærða Craig væri að tryggja að peningarnir færu rétta leið, þ.e. aftur úr landi. Sjálfur sagðist ákærði Gunnar hafa verið í litlum samskiptum við ákærða Craig, enda talaði hann, þ.e. ákærði Gunnar, hvorki ensku né skildi það tungumál. Ákærði sagðist hafa keypt símanúmer fyrir ákærða Craig til þess að nota hér á landi og annaðhvort hann sjálfur, þ.e. ákærði Gunnar, eða ákærða Halldóra hefðu keypt handa honum síma. Númerið, og eftir atvikum símann, kvaðst ákærði Gunnar hafa afhent ákærðu Halldóru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa pantað eða greitt fyrir hótelherbergi fyrir ákærða Craig. Þá kvaðst hann ekki hafa afhent honum neina peninga.

Reikninga þá sem notaðir hefðu verið til þess að framkvæma millifærslurnar sagði ákærði Gunnar ýmist hafa komið frá ákærðu Halldóru eða ákærða Craig. Kvaðst ákærði hafa séð reikning sem tilbúinn var til útprentunar í tölvu Craig í eina skiptið sem hann fór upp á hótelherbergi hans.

Spurður út í millifærslu að fjárhæð 23 milljónir, sem framkvæmd var 5. febrúar 2016 af reikningi RG verktaka ehf. yfir á reikning ákærða Pálma, bar ákærði Gunnar að ákærði Pálmi hefði eflaust gert millifærsluna heima hjá sér. Sagðist ákærði hafa afhent ákærða Pálma miða frá Íslandsbanka hf. „... með öllum númerum, pin-númerum og öllu draslinu. Síðan var ég farinn.“ Sjálfur sagðist ákærði Gunnar ekkert kunna á heimabanka.

Ákærði Gunnar staðfesti að hann hefði 5. febrúar 2016 tekið út 2,1 milljón króna í reiðufé. Hann hefði síðan þremur dögum síðar lagt 1 milljón króna af þeim fjármunum inn á reikning ákærða Pálma. Nefnda 2,1 milljón króna hefði ákærði Gunnar átt að afhenda ákærðu Pálma og Halldóru.

Spurður út í ríflega 22.200.000 króna greiðslu sem borist hefði inn á reikning RG verktaka ehf. 22. febrúar 2016 svaraði ákærði Gunnar því til að ákærða Halldóra hefði verið búin að tala um að meiri fjármunir væru væntanlegir. Í kjölfarið hefði ákærði Pálmi millifært nánast alla þessa fjárhæð yfir á reikning sinn að fyrirmælum ákærðu Halldóru. Var á ákærða að skilja að þegar síðari greiðslan hefði borist hefðu farið að renna á hann tvær grímur og hann áttað sig á að líklega væri um refsiverða háttsemi að ræða að baki þessum fjárhæðum. Ákærði kvað það vera upplifun sína að hann hefði verið notaður. Taldi ákærði að hann hefði enga þóknun fengið vegna þessarar síðari greiðslu.

Ákærði fullyrti að hann hefði í engu komið að skipulagningu málsins. Sagðist hann enga reynslu hafa af alþjóðlegum viðskiptum eða viðskiptum við erlenda aðila yfir höfuð. Menntun sína kvað ákærði vera grunnskólamenntun.

2

Ákærða Halldóra skýrði svo frá fyrir dómi að kunningi hennar, Sly að nafni, hefði haft samband við hana og innt hana eftir því hvort hún gæti sjálf, eða þekkti einhvern sem gæti, aðstoðað erlendan fjárfesti við að stofna fyrirtæki hér á landi. Sá aðili hefði haft í hyggju að hefja fiskútflutning héðan, nánar tiltekið útflutning á þorskhausum, og vantað aðstoð við að kaupa húsnæði hér á landi, stofna kennitölu og bankareikning o.þ.h. Ákærða kvaðst hins vegar ekki hafa búið yfir kunnáttu og þekkingu til þess að aðstoða þennan erlenda fjárfesti. Nefndi ákærða sérstaklega í sambandi við hin fyrirhuguðu viðskipti að ákærði Craig hefði nefnt það við hana, eftir að hann kom til landsins nokkru síðar, að faðir hans hefði einhverju sinni komið að slíkum viðskiptum hér á landi.

Nánar spurð um tengsl þeirra Sly kvað ákærða hann vera vin fyrrverandi tengdasonar hennar. Sjálf sagðist ákærða ekki þekkja Sly „ofboðslega mikið“. Framburð ákærða Pálma Þórs þess efnis að ákærða hefði um tíma starfað fyrir Sly við að flytja peninga á milli landa kvað ákærða alrangan.

Einhverju síðar sagðist ákærða hafa rekist á ákærða Gunnar og sagt honum frá erindi Sly. Eftir það hefði ákærði margoft hringt í ákærðu og lýst yfir áhuga á því að komast í samband við hinn erlenda fjárfesti. Hjá ákærða Gunnari hefði meðal annars komið fram að hann ætti fullt af kennitölum sem hann gæti selt. Var á ákærðu að skilja að ákærði hefði beitt hana talsverðri pressu vegna málsins. Svo hefði farið að ákærða og ákærði Gunnar hittust heima hjá móður ákærða og hringdu í Sly og fjárfestinn.

Ákærða sagði ákærða Gunnar hafa verið þann aðila sem gefið hefði Sly nauðsynlegar bankaupplýsingar til að koma þeim fjármunum til Íslands sem ákæra málsins tæki til. Var á ákærðu að skilja að hún hefði leiðbeint ákærða Gunnari eitthvað varðandi þetta. Hún fullyrti hins vegar að upplýsingarnar hefði ákærði Gunnar allar sent sjálfur.

Fram kom hjá ákærðu að hún þekkti ákærða Gunnar „... ekkert í díteila.“ Hún hefði vitað að hann væri málari og að hann ætti fyrirtæki. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa haft vitneskju um að ákærði væri með skerta greind. Sagðist hún þó minnast ummæla ákærða Gunnars í þá veru að hann hygðist láta lýsa sig greindarskertan svo að hann yrði ekki metinn sakhæfur. Ákærða kvaðst aðspurð lítið hafa þekkt til sakaferils ákærða Gunnars. Hún kannaðist aftur á móti við að hafa oft lánað ákærða lágar fjárhæðir þegar hann hefði leitað til hennar eftir aðstoð og sagst vera með handrukkara á eftir sér.

Ákærða sagði fyrrnefndan Sly einhverju áður hafa leitað til hennar um lán, að hans sögn í tengslum við öflun ítalsks ríkisborgararéttar. Hefði hún lánað Sly 440.000 krónur vegna þess. Um það hefði verið rætt að ákærða fengi þessa fjárhæð endurgreidda í tengslum við fjármagnsflutningana hingað til lands. Ákærða kvaðst hins vegar enga fjármuni hafa átt að fá umfram það vegna málsins og kannaðist hún aðspurð ekkert við að hafa átt að fá 15-20% þóknun fyrir aðkomu sína að málinu.

Ákærða sagði ákærða Gunnar hafa leitað til hennar 2. febrúar 2016 vegna tungumálaörðugleika. Ákærði hefði sótt hana og hún farið með honum út á Keflavíkurflugvöll að sækja ákærða Craig. Er þetta gerðist kvaðst ákærða engin deili hafa þekkt á Craig en hún talið að um væri að ræða bróður þess erlenda fjárfestis sem áður var nefndur. Fram kom hjá ákærðu að hún hefði ekki verið í miklu sambandi við ákærða Craig á meðan hann dvaldist hér á landi. Hún hefði fyrst og fremst séð um að snattast með hann í bankann, á veitingastaði og í búðir. Þetta hefði ákærða gert að beiðni Sly sem hringt hefði í hana og beðið hana um að skutla Craig hingað og þangað. Ákærða sagði ákærða Gunnar hafa átt að panta og borga gistinguna fyrir ákærða Craig. Hann hefði hins vegar ekki átt pening og því hefði ákærða lánað honum fyrir gistingunni, 22.000 krónur að því er ákærðu minnti. Ákærði Gunnar hefði síðar endurgreitt ákærðu þá fjárhæð. Ákærða sagði rangt að ákærði Craig hefði verið sendur hingað til lands til þess að ýta á eftir því að hún sendi peningana aftur úr landi. Hún hefði aldrei haft það hlutverk með höndum.

Hinn 3. febrúar 2016, á milli kl. 10 og 11 að morgni, sagðist ákærða hafa fengið símtal frá ákærða Gunnari sem þá hefði sagst vera staddur á hóteli hjá ákærða Craig. Ákærði Gunnar hefði sagt þeim tveimur ganga illa að ræða saman vegna tungumálaerfiðleika. Hefði ákærði Gunnar óskað eftir því að ákærða kæmi til þeirra. Á þessum tímapunkti sagðist ákærða ekki hafa vitað að fjármunir væru komnir til landsins.

Síðar þennan sama dag hefði ákærði Craig hringt og spurt að því hvort ákærða gæti skutlað honum. Ákærða hefði þá farið og sótt ákærða Craig. Hann hefði beðið ákærðu um að keyra sig í banka. Fyrst hefðu þau farið í útibú Landsbankans í Hafnarfirði. Þangað hefði ákærði Craig farið erindisleysu þar sem ekki hefði reynst vera hægt að senda þá fjármuni sem hann ætlaði að senda úr landi. Næst hefðu þau ekið upp í Mjódd þar sem ákærða kvaðst hafa beðið eftir ákærða Craig í um það bil 30 mínútur. Að þeim tíma liðnum hefði ákærði komið út og sagt að hann mætti ekki senda fjármunina. Hefði hann beðið ákærðu um að senda þá fyrir hann. Kom fram hjá ákærðu að ákærði Craig hefði verið með fulla tösku af peningum. Ákærða kvaðst hafa orðið við beiðni ákærða og sent peninga út. Fjárhæðina sagði ákærða alla hafa verið í 10.000 króna seðlum. Fullyrti ákærða að hún hefði með þessu ekki aðhafst neitt ólöglegt, enda hefði hún talið að peningarnir væru í eigu ákærða Craig.

Sama dag, þ.e. 3. febrúar 2016, hefði ákærði Gunnar tekið út rúmar 6,3 milljónir króna og hefði ákærða fengið 440.000 krónur af þeirri fjárhæð. Þetta hefði atvikast með þeim hætti að ákærði Craig hefði unnið einhverja útreikninga og hann síðan afhent ákærða Gunnari miða með ákveðinni fjárhæð. Ákærði Gunnar hefði farið í banka í kjölfarið og tekið þá fjárhæð út. Hluta fjárhæðarinnar hefði ákærði Gunnar síðan notað til að kaupa sér jeppa, sem hann hefði sýnt ákærðu síðar þetta sama kvöld.

Eftir að fjármunir voru komnir inn á reikning RG verktaka ehf. hefði ákærði Gunnar beðið ákærðu um að koma með sér í bankann. Þar hefði ákærða óskað eftir upplýsingum frá starfsmanni í bankanum um gjaldeyrishöft og reglur varðandi sendingu peninga úr landi. Gjaldkerinn hefði upplýst hvaða gögn þyrftu að liggja fyrir og hefði hann meðal annars nefnt að reikningar þyrftu að vera á bak við greiðslurnar. Ekki hefði gengið að millifæra fjármunina og ákærða því farið heim.

Um kl. 16:00 þennan sama dag hefði ákærði Gunnar hringt í ákærðu. Hann hefði þá verið staddur í bankanum með kvittun. Ákærða kvaðst hvorki hafa vitað hvers efnis kvittunin var né hvar ákærði hefði fengið hana. Ákærði Gunnar hefði eitthvað verið að vandræðast og úr hefði orðið að hann rétti starfskonu í bankanum símann. Ákærða hefði í kjölfarið rætt við konuna sem upplýst hefði að vandræði hefðu komið upp við millifærsluna þar sem ekki hefðu verið nægir fjármunir inni á reikningnum. Aðeins hefði vantað upp á þá fjárhæð sem til reiðu var á reikningum, 10.000 krónur að því er ákærðu minnti. Ákærða sagði ekki hafa komið til greina af sinni hálfu að greiða það sem upp á vantaði. Um afdrif þessarar millifærslu kvaðst ákærða ekki vita. Tók ákærða fram að hún hefði á þessum tímapunkti verið orðin mjög þreytt á endalausu kvabbi frá ákærða Gunnari.

Að kvöldi þessa sama dags hefði ákærði Gunnar enn hringt í ákærðu. Erindið hefði verið að biðja hana um að hitta hann á bensínstöð í Vogunum. Hefði ákærði sagst vilja sýna ákærðu áðurnefndan jeppa, sem hann hefði keypt sér. Þegar ákærða hefði komið á staðinn hefði hún sest í aftursæti bifreiðar ákærða. Frammi hjá ákærða Gunnari hefði setið „einhver maður“. Sá hefði verið með stillt á hátalarann í símanum sínum og hefði hann verið að tala við lögfræðing. Til umræðu hefðu verið „einhver húsamál“ og rætt um að gera samning á milli ákærða Gunnars og ákærða Pálma. Að símtalinu loknu hefði maðurinn, ákærði Pálmi, kynnt sig fyrir ákærðu og sagst vera æskuvinur ákærða Gunnars. Fram hefði komið hjá ákærða Pálma að hann hygðist hjálpa ákærða Gunnari og myndi hann taka við af ákærðu við að aðstoða Gunnar. Ákærði Pálmi hefði sagst vera búinn að ræða við lögfræðinginn sinn „... og þetta væri allt saman löglegt.“ Ákærði Pálmi hefði sagst vera upplýstur um stöðuna, þ.e. að umræddir aðilar hefðu ætlað að fjárfesta hér á landi en að þeir væru hættir við og að þeir vildu senda peningana aftur úr landi. Hefði ákærði Pálmi sagst ætla að aðstoða við það.

Ákærða kvaðst í raun lítið vita hvað gerðist eftir áðurnefndan fund hennar með ákærðu Gunnari og Pálma og ekkert vita um þær millifærslur sem framkvæmdar hefðu verið eftir það tímamark. Þá neitaði ákærða því að hafa afhent ákærða Craig peninga. Framburð ákærða Craig fyrir lögreglu þess efnis að ákærða hefði látið hann fá 2.600-2.700 evrur til að fara með til Ítalíu kvað ákærða alrangan. Ákærða sagðist heldur enga peninga hafa fengið frá ákærða Craig.

Ákærða sagði sér hafa fundist skrýtið í ljósi þess sem áður hafði komið fram um fyrirhugaða fjárfestingu hér að landi að senda hefði átt peningana aftur úr landi. Hefði hún nefnt þetta við ákærða Craig sem svarað hefði því til að „einhver samningur“ á milli Íslands og Nígeríu girti fyrir að hægt væri að selja þorskhausa frá Íslandi til Nígeríu.

Ákærða kvað ákærða Pálma hafa haft samband við hana og beðið hana um að prenta út nokkur skjöl, reikninga, og hefði hann gefið þá skýringu að hann væri prentaralaus. Skjölin hefði ákærða fengið send frá ákærða Pálma sem síðan hefði sótt þau til hennar. Framburð ákærða Pálma um að skjölin hefðu komið frá ákærðu sagði hún rangan. Var á ákærðu að skilja að mögulega hefði ákærði Pálmi fengið skjölin frá ákærða Craig. Fullyrti ákærða að hún hefði ekkert þekkt til efnis skjalanna.

Fram kom hjá ákærðu að ákærði Pálmi hefði hótað henni öllu illu þegar hún hefði sagst ætla að draga sig í hlé og taka ekki frekari þátt í þessu máli öllu. Hann hefði í því sambandi vísað til þess að hann væri vel tengdur í undirheimana.

Á einhverjum tímapunkti sagði ákærða hafa komið í ljós að hluta peninganna vantaði. Ákærði Craig hefði verið mjög reiður vegna þess og sagt ákærðu, þegar hún hefði verið að keyra hann út á flugvöll að beiðni Sly, að ef ákærðu Pálmi og Gunnar skiluðu ekki peningunum myndi hann koma aftur til landsins með nokkra aðila með sér. Þau skyldu því gæta að sér. Þá hefði Sly margítrekað hringt í ákærðu eftir að í ljós kom að hluta peninganna vantaði. Hann hefði verið mjög reiður og pressað á að peningunum yrði skilað, en hann hefði talið ákærðu Gunnar og Pálma hafa stolið þeim. Hefði Sly vísað til þess í samtölum þeirra að hann væri með eigendur peninganna á bakinu. Vegna þessarar miklu pressu frá Sly kvaðst ákærða hafa verið í miklum símasamskiptum við meðákærðu, meðal annars ákærða Craig. Ákærða hefði lent á milli þessara aðila og reynt að róa ástandið.

Millifærslu inn á bankareikning RG verktaka ehf. 22. febrúar 2016, að fjárhæð 22.200.000 krónur, sagðist ákærða ekki hafa haft hugmynd um. Framburð ákærða Gunnars um annað sagði ákærða rangan. Degi síðar hefði ákærði Pálmi haft samband við ákærðu og sagt henni að Sly hefði gefið þau fyrirmæli að hún ætti að senda peninga til Spánar. Er þarna var komið sögu kvaðst ákærða hafa verið undir miklum hótunum, þ.m.t. líflátshótunum, frá Sly.

Ákærða staðfesti fyrir dómi að ákærði Pálmi hefði látið hana fá tvö umslög með peningum. Annað umslagið hefði hann hefði beðið ákærðu um að koma til eiginkonu sinnar. Ákærði Pálmi hefði sagt umslagið innihalda 100.000 krónur. Peningana hefði ákærði Pálmi sagst hafa fengið að gjöf frá Sly. Fram hefði komið hjá ákærða að umslagið ætti ákærða að afhenda eiginkonu ákærða Pálma, kæmi eitthvað fyrir hann. Hitt umslagið hefði innihaldið peninga sem ákærða hefði átt að senda úr landi með Western Union 23. febrúar 2016 samkvæmt fyrirmælum ákærða Pálma, sem aftur hefði verið að fara að fyrirmælum Sly. Þessar millifærslur kvaðst ákærða ekki hafa klárað.

Fram kom hjá ákærðu að ákærði Gunnar hefði haft samband við hana áður en skýrsla var tekin af henni hjá lögreglu og innt hana eftir því hvort hún vildi hitta hann, ákærða Pálma og lögmann hans og „samræma sögur“. Það hefði ákærða hins vegar ekki viljað gera.

3

Ákærði Pálmi sagði upphaf aðkomu sinnar að málinu markast af símtali sem honum hefði borist frá meðákærða Gunnari. Þá tvo kvað ákærði hafa verið vini í rúm tuttugu ár, en þeir kæmu úr sama byggðalagi, Vogum á Vatnsleysuströnd. Flesta úr byggðarlaginu sagði ákærði hafa snúið baki við ákærða Gunnari. Það hefði hann hins vegar ekki gert. Kom fram hjá ákærða að hann þekkti vel sögu ákærða Gunnars og sakaferil hans.

 Ákærði Pálmi kvað fram hafa komið hjá ákærða Gunnari að hann væri ásamt ákærðu Halldóru í viðskiptum við fjársterka aðila erlendis. Þau hefðu lent í vandræðum með að millifæra peninga úr landi. Af þeim sökum hefðu þau beðið ákærða um að koma og hitta þau. Ákærði hefði verið búsettur í [...] á þessum tíma og þau því hist á miðri leið, við bensínstöð N1 í Vogum 4. febrúar 2016. Þar hefði ákærði Gunnar kynnt ákærða fyrir ákærðu Halldóru. Á fundinum hefðu þau rætt hvernig millifærslur sem þessar gengju fyrir sig. Ákærði kvaðst strax hafa áttað sig á því að ákærði Gunnar væri kominn í einhver vandræði sem hann gæti ekki klórað sig út úr sjálfur, að hann væri búinn að taka eitthvað að sér sem hann hefði ekkert vit á. Vandræðin hefðu lýst sér í því að ákærði Gunnar hefði ekki getað millifært umræddar fjárhæðir sjálfur. Síðar hefði reyndar komið í ljós að það var misskilningur. Búið hefði verið að samþykkja millifærslurnar í Íslandsbanka hf., en ákærði Gunnar hins vegar ekki haft hugmynd um það. Ákærði sagðist hafa samþykkt að hjálpa ákærða Gunnari með millifærslurnar vegna vinskapar þeirra. Tók ákærði sérstaklega fram að hann hefði með því ekki tekið að sér að aðstoða ákærðu Halldóru eða ákærða Craig. Hann hefði ekki einu sinni vitað hver sá síðarnefndi var á þessum tíma.

Á fundi ákærðu við N1 kvaðst ákærði Pálmi hafa ákveðið að bera málið símleiðis undir við lögmann, B. Hefði ákærði stillt símann sinn þannig að ákærðu Gunnar og Halldóra heyrðu einnig í lögmanninum. Ákærði hefði upplýst lögmanninn um að hjá honum væri fólk sem væri í viðskiptum við útlendinga og væri í vandræðum með millifærslur. Ákærði sagðist ekki hafa vitað ástæðu þess. Hann hefði þó vitað af gjaldeyrishöftunum og því spurt lögmanninn nákvæmlega út í millifærslurnar, hvort hann mætti framkvæma þær og þá með hvaða hætti. Þannig hefði ákærði spurt lögmanninn út í gjaldeyrishöftin og hvort þau skiptu hér máli. Einnig hvort ákærði mætti taka við fé og vera milliliður í viðskiptunum. Ákærði hefði fengið þær upplýsingar frá lögmanninum að honum væri heimilt að millifæra peninga frá Íslandi svo fremi sem reikningur að baki viðskiptunum væri í lagi og í hans nafni. Ákærði hefði í ljósi þessa talið að með því að framkvæma þessa fjármagnsflutninga í gegnum sinn eigin reikning væri hann ekki að gera neitt rangt eða ólöglegt, eða að hylma yfir með einum eða neinum.

Ákærði Pálmi kvað ákærða Gunnar hafa sagt honum að umræddir fjármunir kæmu frá ávaxtaverksmiðju í Suður-Kóreu. Það fyrirtæki hefði yfir fjármunum að ráða og ætlaði sér að fjárfesta á Íslandi. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa rætt möguleg fasteignaviðskipti í Víðidal við þetta tækifæri. Rétt væri hins vegar að hann hefði verið búinn að gera kauptilboð í fasteign í Víðidal á þessum tíma og verið að leita að fjármögnun vegna þeirra kaupa. Þegar borinn var undir ákærða framburður ákærða Gunnars þess efnis að hann hefði aldrei haldið að um raunveruleg viðskipti væri að ræða, og frásögnin um að viðskipti væru að baki millifærslunum hefði komið frá ákærða Pálma, ítrekaði Pálmi fyrri framburð og sagðist ekki kannast við þessa lýsingu ákærða Gunnars á atvikum.

Aðspurður sagðist ákærði Pálmi ekki hafa vitað af því að ákærði Gunnar hefði tekið út 6,3 milljónir í reiðufé daginn áður, þ.e. 3. febrúar 2016. Ákærði kannaðist þó við að hafa heyrt um vandræði sem af því hefðu skapast. Ákærði sagði að ákærðu Gunnari og Halldóru hefði verið lofað hvoru um sig 5% fyrir sína aðkomu að viðskiptunum. Þeim hefði hins vegar ekki tekist að leysa það verkefni sem þau tóku að sér. Tók ákærði fram í þessu sambandi að hann teldi að enginn banki á Íslandi myndi taka við erlendum gjaldeyri frá útlendingum án þess að taka fyrir það þóknun. Þegar þarna var komið sögu hefði ákærði ekkert vitað um hvaða fjárhæðir væri að tefla og ekki heldur að ákærði Gunnar sæti undir hótunum vegna málsins.

Ákærði Pálmi sagðist mjög fljótlega hafa áttað sig á því að málið væri alls ekki eins vaxið og um hefði verið rætt í upphafi og að ákærði Gunnar hefði ekki gert honum ljósar staðreyndir málsins. Ákærði hefði einnig áttað sig á því að ákærði Gunnar væri kominn undir pressu um að skila fjármununum af sér frá þeim erlendu aðilum sem sagst hefðu eiga peningana. Þrátt fyrir það kvað ákærði sig ekki hafa grunað að féð, sem hann hefði fengið frá ákærða Gunnari, væri illa fengið.

Spurður að því hvort hann hefði átt að fá greiðslu fyrir aðstoðina kvað ákærði það upphaflega ekki hafa staðið til. Þegar fram í sótti hefði ákærði hins vegar sagt að hann stæði ekki í þessu fyrir ekki neitt. Ákærði Gunnar hefði þá fyrst nefnt að hann fengi 5% þóknun, eða 1.500.000 krónur. Ákærði hefði síðar hitt ákærða Craig og þá komist að því að þá fjárhæð myndi hann aldrei fá. Honum hefðu þá verið boðnir 5.000 dollarar sem hann hefði átt að fá í sínar hendur áður en peningarnir færu úr landi.

Fyrir dómi var endurrit af símtali að morgni 5. febrúar 2016 borið undir ákærða Pálma, en í símtalinu má heyra ákærða Gunnar ræða við starfsmann Íslandsbanka hf. um símgreiðslu. Ákærði tekur þá til máls og kynnir sig sem Óskar, samstarfsmann ákærða Gunnars. Greinir ákærði starfsmanni Íslandsbanka hf. frá því að þeir hafi verið að taka á sig verk en eigi ekki von á pappírum fyrr en um miðja næstu viku. Um símtalið bar ákærði Pálmi fyrir dómi að þegar þarna var komið sögu hefðu ákærðu Gunnar og Halldóra verið búin að fara sjálf í bankann og þau orðið tvísaga um millifærsluna. Ákærði Gunnar hefði verið kominn í vandræði þar sem hann hefði verið búinn að bulla um að hann væri í viðskiptum erlendis og að hann væri búinn að vera í mörg ár ,,í einhverju svona“. Ákærðu Gunnar og Halldóra hefðu bæði verið búin að gefa þá skýringu að Óskar nokkur væri í fyrirtækinu með ákærða Gunnari. Ákærða Pálma hefði síðan verið réttur síminn og hefði hann í einfeldni sinni tekið við símtólinu og sagst vera þessi Óskar. Ákærði hefði síðan haft það eftir við bankastarfsmanninn sem ákærði Gunnar hafði sagt við hann.

Endurrit af símtali ákærða Pálma við starfsmann Arion banka hf. var einnig borið undir ákærða fyrir dómi. Í símtalinu má heyra ákærða Pálma ræða við bankastarfsmanninn um það hvort í lagi væri að reikningur væri stílaður á hann persónulega. Í símtalinu kemur einnig fram hjá ákærða að hann sé með nýstofnað félag sem hann sé að kaupa vörur ,,inn á“. Spurður um hvort umræddar millifærslur hefðu verið vegna þess að hann var að kaupa vörur kvaðst ákærði Pálmi hafa verið að hafa milligöngu um vörukaup. Ákærði bar að hann hefði verið með nýstofnað félag á sínum vegum á þessum tíma. Það félag hefði þó ekki komið nálægt þessum viðskiptum. Ástæðu þess að hann nefndi félag sitt í þessu samhengi kvað ákærði vera þá að hann hefði aldrei ætlað að flytja vörur inn á sínu persónulega nafni. Ef til þess hefði komið að flytja inn vörur hefði ákærði Pálmi alltaf gert það í nafni félags. Vísaði ákærði enn fremur til þess að hið erlenda fyrirtæki hefði verið að kaupa einhverjar vörur sem væntanlega hefði átt að flytja til Íslands.

Ákærði Pálmi sagði 23 milljóna króna millifærslu af reikningi RG verktaka ehf. yfir á reikning hans 5. febrúar 2016 hafa verið framkvæmda í tölvu heima hjá honum og hefði ákærða Halldóra verið viðstödd. Í fyrstu bar ákærði að hann hefði ekki framkvæmt millifærsluna sjálfur. Sækjandi bar þá undir ákærða framburð ákærða Gunnars um að hann hafi ekkert kunnað á heimabankann og að ákærði Pálmi hefði framkvæmt millifærsluna. Svaraði ákærði því þá til að ákærði Gunnar hefði verið nýbúinn að stofna þennan reikning og hefði hann skipt um PIN-númer reikningsins heima hjá ákærða. Kvaðst ákærði geta staðfest að ákærði Gunnar hefði aldrei farið inn á heimabankann hjá Íslandsbanka hf. Á heimabankann hefði ákærði Gunnar ekkert kunnað og ákærði því aðstoðað hann. Spurður um hvers vegna hann aðstoðaði ákærða Gunnar ekki bara við að framkvæma millifærslurnar í stað þess að færa peningana yfir á eigin reikninga svaraði ákærði því til að hann hefði aldrei ætlað sér að skipta sér af viðskiptunum. Það hefðu verið ákærðu Gunnar og Halldóra sem í þessum viðskiptum stóðu, ekki ákærði. Nánar spurður um hvers vegna hann hefði ekki einfaldlega aðstoðað ákærða Gunnar við að koma peningunum úr landi í stað þess að millifæra þá yfir á sinn reikning og síðan áfram þaðan sagðist ákærði ekki hafa viljað blanda sér í viðskipti eða fyrirtæki ákærða Gunnars.

Ákærði kannaðist við að hafa millifært 23 milljónir af reikningi sínum hjá Íslandsbanka hf. yfir á reikning sinn hjá Arion banka hf. Þetta hefði hann gert heima hjá sér á sömu tölvu og áður, en í þetta skiptið hefði hann verið einn. Ástæðu þess að hann færði peningana á milli reikninga kvað ákærði hafa verið þá að hann hefði á þessum tíma verið að færa viðskipti sín yfir til Arion banka hf.

Spurður um hvaðan hann hefði fengið upplýsingar um hvert senda ætti þær 20,5 milljónir króna sem sendar voru af reikningi ákærða hjá Arion banka hf. 8. febrúar 2016 yfir á reikning félagsins Global Trixim í Hong Kong svaraði ákærði því til að hann hefði fengið reikninga (e. voucher) frá ákærðu Halldóru. Ákærði sagðist ekki alveg klár á því hver hefði haft milligöngu um að koma upplýsingunum áleiðis. Hann væri aftur á móti viss um að það hefði verið ákærða Halldóra sem lét hann hafa upplýsingarnar. Taldi ákærði að gögnin hefðu verið útbúin af Sly en ekki ákærða Craig. Hvort það hefði verið ákærði Craig sem sendi ákærðu Halldóru gögnin og prentaði þau út kvaðst ákærði ekki vita. Hann hefði í það minnsta ekki að því komið.

Ákærði kvaðst aldrei hafa beðið um skýringar á þeim reikningum sem útbúnir voru í hans nafni. Hann hefði enda ekki sjálfur staðið í þessum viðskiptum. Ákærði sagði sig ekki hafa rennt í grun að reikningarnir sem hann framvísaði væru falsaðir eða tilhæfulausir. Hann hefði talið sig vera að aðstoða við lögmæt viðskipti og sagt meðákærðu Gunnari og Halldóru að hann myndi ekki gera þetta öðruvísi en í sínu nafni. Taldi ákærði líklegt að það hefði verið ákærða Halldóra sem prentaði umrædd gögn út. Vísaði hann til þess í því sambandi að ákærði Craig hefði ekki getað prentað gögnin út sjálfur á því hóteli sem hann gisti á.

Ákærði kannaðist aðspurður við að lögmæti reikninganna hefði verið kannað af starfsmönnum bankans. Ákærði hefði beðið á meðan starfsmaðurinn, sem afgreiddi ákærða, sagði við hann að þetta myndi fara til skoðunar í lögfræðideildinni. Ástæðu þess að reikningarnir voru yfirfarnir af lögfræðideild bankans áleit ákærði þá að blekið hefði verið hálfbúið og ljósritið þess vegna ekki verið alveg skýrt. Engar athugasemdir hefðu síðan verið gerðar af hálfu bankans við reikningana.

Ákærði Pálmi sagðist aldrei hafa tekið við peningum frá ákærða Gunnari í reiðufé. Hann hefði sérstaklega beðið ákærða Gunnar um að millifæra það sem ætti að millifæra í gegnum bankareikninga. Ákærði kvaðst hins vegar telja að ákærði Gunnar hefði haldið einhverju eftir af peningum. Ákærðu hefði orðið ljóst að þau myndu hljóta verra af ef ákærði Gunnar skilaði ekki þeim peningum sem hann ekki átti.

Fyrir dómi var borin undir ákærða millifærsla á rúmri 1 milljón króna af reikningi hans í Íslandsbanka hf. til fyrirtækisins Global Trixim í Hong Kong 10. febrúar 2016. Ákærði bar að hann hefði ekki haft stjórn á því hvað stóð á þeim reikningi. Hann hefði ekki einu sinni vitað hvað stóð á fyrri nótunni og ekki vitað hversu há upphæðin var á fyrri reikningnum. Inni á reikningnum hjá ákærða hafi verið eftir einhverjar 2 eða 3 milljónir króna. Hann hefði síðan fengið tvo reikninga til viðbótar rétt áður en ákærði Craig fór af landi brott.

Ákærði lýsti því fyrir dómi að er þarna var komið sögu hefði hann verið undir mjög mikilli pressu og honum borist símtöl frá Craig og félögum hans. Ákærði kvaðst ekki hafa upplifað þann þrýsting sem merki um að umræddir fjármunir væru illa fengnir heldur hefði hann talið að eigendur þeirra teldu ástæðu til að passa upp á þá, sérstaklega þar sem þeir hefðu talið að ákærði Gunnar hefði tekið peninga ófrjálsri hendi. Ákærði hefði upplifað þetta svo að þeir ákærði Gunnar sætu undir ásökunum um þjófnað. Ákærði hefði gert sitt besta til þess að eyða þeim misskilningi. Hann hefði vitað að ákærði Craig ætti flug frá landinu þennan dag, þ.e. 10. febrúar 2016. Ákærði hefði því farið í Íslandsbanka hf. og síðan ekið rakleiðis á Keflavíkurflugvöll þar sem hann hefði ætlað að sýna ákærða Craig kvittun, staðfestingu á því að hann hefði gengið frá greiðslunni. Ákærði hefði hins vegar ekki náð á ákærða Craig. Hann hefði því keyrt heim til ákærðu Halldóru með gögnin og afhent henni þau. Taldi ákærði að hann hefði einnig sent ákærðu þessar upplýsingar rafrænt.

Um millifærslu á reikning ákærða hjá Arion banka hf. af reikningi RG verktaka ehf. að fjárhæð 22 milljónir króna 23. febrúar 2016 bar ákærði að ákærða Halldóra hefði hringt í hann og upplýst hann um að fjármunir væru komnir að utan. Upplýsingar um það hefði ákærða haft frá ákærða Gunnari. Hefði ákærða Halldóra verið búin að fá nákvæmlega sömu fyrirmæli og ákærði, þ.e. að gæta ætti þess að ákærði Gunnar fengi ekki peningana þar sem honum væri ekki treystandi.

Ákærði sagðist hafa haft von um að fá fjármuni frá ákærða Gunnari til fjárfestinga vegna tengsla hans við hina erlendu fjármagnseigendur. Spurður um hvort fyrir hefði legið að von væri á meiri fjármunum til landsins kvað ákærði meðákærða Gunnar hafa nefnt að meiri fjármunir væru væntanlegir. Ákærði myndi fá meiri viðskipti þar sem hinir erlendu fjárfestar væru áfram um að fjárfesta meira á Íslandi. Kannaðist ákærði við að hafa nefnt Víðidal í því samhengi en hann hefði verið á höttunum eftir fjármögnun út af fjárfestingu þar. Tók ákærði fram að hann hefði þó ekki haft hina erlendu fjárfesta í huga í því sambandi heldur ákærða Gunnar. Hann hefði litið svo á að ef ákærði Gunnar væri í viðskiptum við mjög vel stæða einstaklinga þá væri reynandi að fá hann til að lána sér eða taka þátt í fjárfestingunni með einhverjum hætti.

Ákærði kvaðst hafa fengið fyrirmæli frá ákærðu Halldóru um að taka út 2 milljónir króna í reiðufé, sem hann hefði gert 23. febrúar 2016 að fenginni staðfestingu frá ákærða Craig. Ákærði kvaðst hafa tekið þessa fjármuni út sjálfur hjá Íslandsbanka hf. í Keflavík og enga aðstoð við það fengið. Ákærða hefði samt verið meinilla við þetta því að hann hefði er þarna var komið sögu verið farinn að sitja undir hótunum. Hefði því verið komið á framfæri við ákærða að ef ákærði Gunnar eyddi meiri peningum þá myndi verða upplýst um hvar heimili ákærða Pálma væri. Ákærði sagði sér hafa borist hótanir í gegnum snjallforritið Snapchat frá ákærða Craig, fyrir tilstilli Sly að því er ákærði taldi. Ákærði sagðist hafa afhent ákærðu Halldóru peningana svo að hún gæti sent meirihluta fjárins til aðila á Spáni. Ákærða hefði komið til ákærða Pálma Þórs til þess að sækja peningana. Ákærði hefði afhent henni 2.065.000 krónur í umslagi. Ákærða hefði verið sú sem verið hefði í samskiptum við þá aðila sem þóst hefðu eiga umrædda fjármuni og standa í viðskiptum á Íslandi. Ákærði sagðist aðspurður í raun ekkert hafa vitað af sendingu peninga utan með Western Union. Hann hefði ekki gefið ákærðu fyrirmæli um að að millifæra þá fjármuni. Ákærði kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvað gera ætti við seinni greiðsluna. Hann hefði engin fyrirmæli fengið um það. Enn þann dag í dag viti hann ekkert hver ætlaður áfangastaður þeirra fjármuna hefði verið. Ákærði hefði bara ekki ætlað að taka skellinn ef ákærði Gunnar hirti peningana. Ákærði hefði metið það svo að fjölskylda hans yrði í hættu kæmi sú staða upp.

Falsaða reikninga frá Global Trixim, sem fundust við húsleit á heimili ákærða Pálma, sagði hann alla hafa verið komna frá ákærðu Halldóru. Kannaðist ákærði ekki við að það hefði hringt viðvörunarbjöllum hjá honum að peningarnir færu til þessa fyrirtækis. Umræddir reikningar væru þeir reikningar sem ákærði hefði farið með í Íslandsbanka hf. Annar reikninganna hefði verið að fjárhæð 160.000 dollarar.

Fram kom hjá ákærða að ákærða Halldóra hefði áður en síðari greiðslan barst greint honum frá því að hún hefði áður unnið fyrir Sly. Sú vinna hefði verið fólgin í því að fljúga með peninga á milli landa. Ákærði sagði á sig hafa runnið tvær grímur þegar hann hefði síðan heyrt af því frá vini sínum að sá hefði látið ákærðu í té peninga þremur árum áður og að hún hefði jafnframt fengið, meðal annars frá fjölskyldu og vinum, um 100 milljónir sem hún hefði farið með utan til að skipta í gjaldeyri. Vinur ákærða hefði ekki fengið þessar milljónir til baka. Ákærði hefði beðið ákærðu að hitta sig á Kaffitár í Reykjanesbæ til þess að ræða þetta og hefði hún staðfest þessa frásögn vinar ákærða. Ákærði hefði við þetta tækifæri beðið ákærðu um að útskýra tengsl sín við þessa menn og hefði ákærða sagt Sly vera fyrrverandi kærasta sinn.

Spurður um hvers vegna hann hefði ekki dregið sig úr málinu á þessum tímapunkti svaraði ákærði Pálmi því til að honum hefði liðið eins og hann ætti enga útgönguleið. Áréttaði ákærði að hann hefði ekki haft hugmynd um að meiri fjármunir væru að koma fyrr en honum barst um það símtal. Það fyrsta sem hann hefði gert hefði verið að reyna að tryggja að peningunum yrði ekki eytt. Þeir hefðu því farið inn á bankareikning ákærða.

Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa verið með farsíma, sem haldlagður var við rannsókn málsins, í vörslum sínum um tíma. Þegar ákærði hefði fengið símann afhentan hefði verið gefin sú skýring að það hefði ekki alltaf náðst í hann. Það hefði hins vegar ekki verið rétt. Að mati ákærða hefði verið um að ræða einhverja taktík hjá hinum erlendu aðilum. Er sækjandi benti ákærða á að umræddur sími hefði verið mikið notaður í samskiptum við ákærða Craig kannaðist hann við að hafa verið í símasambandi við ákærða Craig a.m.k. tvisvar eða þrisvar í gegnum íslenskt númer.

Spurður um aðkomu ákærða Craig að málinu kvaðst ákærði Pálmi telja að hann hefði verið leiksoppur, líkt og önnur ákærðu. Taldi ákærði að ákærði Craig hefði eingöngu verið fenginn að málinu til þess að fylgjast með því að hin ákærðu sinntu sínum hlutverkum. Ákærða Craig kvað ákærði Pálmi hvorki hafa ógnað sér með orðum eða líkamlega. Hefði ákærði upplifað ástandið þannig að ákærði Craig væri undir sömu pressu og hann sjálfur. Taldi ákærði að ákærði Craig hefði ekki vitað meira en önnur ákærðu um hvaðan peningarnir kæmu eða hvert þeir væru að fara. Ákærði kvaðst þó hafa haldið að ákærði Craig ætti hluta af þessum fjármunum, eða eftir atvikum hlut í fyrirtækinu.

Ákærði Pálmi kvaðst aldrei hafa afhent ákærða Craig peninga. Hann hefði heldur enga peninga fengið frá Craig. Þá neitaði ákærði því aðspurður að hafa útvegað ákærða Craig íslenskt símanúmer. Vísaði ákærði til þess í því sambandi að ákærði Craig hefði komið til landsins löngu áður en hann kom að málinu.

Ákærði kannaðist við að hafa heyrt ákærða Craig tala um Sly sem ,,the boss“. Ákærði Craig hefði verið milligöngumaður á milli ákærða og Sly. Þegar Sly hefði verið orðinn pirraður og reynt að vekja ótta hefði þeim skilaboðum hins vegar verið komið á framfæri í gegnum ákærðu Halldóru. Ákærði kvaðst hafa skynjað að ákærði Craig væri undir pressu frá Sly, síðar hefði pressan færst yfir á ákærða Gunnar og svo yfir á ákærða Pálma sjálfan. Þegar ákærðu Gunnar og Pálmi hefðu losnað úr gæsluvarðhaldi hefði það verið mál manna að þeir væru með þessa peninga og að það myndu koma hingað menn til að sækja þá. Þau skilaboð hafi ákærði fengið frá ákærða Craig. Ákærði kannaðist við að hafa rætt við Sly í síma eftir að greiðsla skilað sér ekki frá Íslandi. Í símtalinu hefði Sly verið hvass við ákærða. Ákærði kvaðst hafa útskýrt fyrir Sly að langan tíma gæti tekið að flytja peninga frá Íslandi.

Ákærði kvaðst í raun ekki hafa verið í miklum samskiptum við ákærða Craig. Sagðist ákærði einungis einu sinni hafa verið einn með honum. Það hefði verið þegar ákærði Craig fylgdi honum að útibúi Arion banka hf. í verslunarmiðstöðinni Firði. Kom fram hjá ákærða að ákærði Craig hefði ekki farið inn í bankann heldur beðið á kaffihúsi á meðan ákærði fór þar inn.

Ákærði sagði þá Craig hafa rætt um frekari viðskipti. Ákærði Craig hefði haldið því fram að hann þekkti mjög vel stæða aðila sem væru til í að koma með fjármagn til landsins til fjárfestinga. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa haft trú á þessu og það hefði því komið honum á óvart þegar þegar síðari greiðslan barst.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði verið í sambandi við ákærða Craig á síðari stigum í því skyni að reyna að lokka hann til Íslands, en ákærði hefði boðist til þess við embætti héraðssaksóknara að hafa milligöngu þar um. Þá kvaðst ákærði eiga að minnsta kosti þrenn eða fern vistuð snapchat-skilaboð frá ákærða Craig þar sem haft hefði verið í hótunum við ákærða. Þeir hefðu verið vinir á snapchat en ákærði Craig hefði síðan blokkað hann.

4

Ákærði Craig lýsti aðkomu sinni að máli þessu svo fyrir dómi að hann hefði dag nokkurn verið ásamt vini sínum Sly í brúðkaupi hjá sameiginlegum vini þeirra á Ítalíu. Þetta hefði verið nokkrum dögum áður en ákærði kom til Íslands í byrjun febrúar 2016. Sly hefði sagt ákærða að hann væri í viðskiptum á Íslandi við ákærðu Halldóru og félaga hennar, ákærða Gunnar. Sly hefði haft hug á því að ferðast til Íslands en það verið vandkvæðum bundið þar sem dvalarleyfi Sly á Ítalíu hefði þá verið í vinnslu. Sly hefði því beðið ákærða um að aðstoða sig við þessi viðskipti sín á Íslandi, en hvað í þeim fólst hefði Sly ekki útlistað í neinum smáatriðum fyrir ákærða.

Sly hefði upplýst ákærða um að hann hefði sent peninga til Íslands en síðan skipt um skoðun og að það væri hans vilji að hluti fjárins færi frá Íslandi til Hong Kong. Jafnframt hefði Sly upplýst ákærða um að ákærða Halldóra svaraði ekki alltaf símtölum frá honum. Ákærði sagðist ekki geta fullyrt neitt um það en sagði að vera mætti að Sly hefði talið að ákærða og félagar hennar hefðu haft aðrar áætlanir með peningana.

Ákærði Craig kvað Sly hafa sagt sér að hlutverk hans fælist eingöngu í því að sjá staðfestingu eða kvittun fyrir móttöku peninganna og senda upplýsingar til Sly um að millifærslan hefði verið framkvæmd. Aðspurður sagði ákærði sér ekki hafa þótt einkennilegt að Sly hefði beðið hann að fara til Íslands í þeim eina tilgangi að taka myndir af kvittunum í ljósi þess að Sly hefði sjálfur átt erfitt með að fara til Íslands af fyrrgreindri ástæðu. Það hefði því komið ákærða á óvart þegar síðar kom í ljós að til þess væri af honum ætlast að hann hefði eitthvað með peninga að gera. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki verið starfsmaður Sly heldur væru þeir eingöngu vinir.

Sly hefði boðið ákærða að greiða fyrir hann flugmiða til Íslands. Ákærði hefði átt að fá 500 evrur í þóknun fyrir þetta viðvik fyrir Sly. Honum hefði aldrei verið boðin hærri þóknun en sú fjárhæð. Þá hefði hann séð í þessu ágætt tækifæri til þess að koma til Íslands, sem hann hefði verið búinn að heyra margt gott um. Sly hefði upplýst ákærða um að meðan á dvölinni á Íslandi stæði myndi hann gista hjá ákærðu Halldóru, þ.e. í tvo daga.

Ákærði sagði sér hafa fundist tilboð Sly gott fyrir tveggja daga verkefni. Í huga ákærða hefði aldrei komið til greina að hann yrði á Íslandi lengur en það. Að hann myndi lenda í því að vera nokkrum dögum lengur á landinu, jafnvel í viku, hefði aldrei verið inni í myndinni af hans hálfu.

Sly hefði síðan sagt ákærða að allt væri til reiðu og að ákærða Halldóra myndi ná í hann á flugvöllinn. Flugmiði til Íslands hefði verið keyptur daginn fyrir brottför. Áður en ákærði kom til Íslands kvaðst hann ekkert hafa þekkt meðákærðu og engin samskipti hafa haft við þau. Ákærða hefði náð í ákærða á flugvöllinn. Hún hefði upplýst ákærða um að vegna fjölskylduaðstæðna gæti hún ekki hýst hann og því hefði hún ekið honum á hótel þar sem hún hefði greitt fyrir tveggja nátta dvöl fyrir ákærða með greiðslukorti.

Aðspurður neitaði ákærði Craig því að hann hefði fengið afhentan farsíma við komuna til landsins. Hann hefði hins vegar fengið símkort afhent daginn eftir með íslensku númeri. Númerið hefði ákærða Halldóra afhent honum. Ákærði kvaðst hafa verið í mestu sambandi við ákærðu meðan á Íslandsdvöl hans stóð. Hann sagði Sly og ákærðu hafa verið í beinu sambandi en í hvert skipti sem Sly hefði reynt að hringja í ákærðu og hún ekki svarað hefði Sly hringt í ákærða sem þá hefði orðið að tala við hana. Það hefðu verið í einu skiptin sem ákærði Craig var í sambandi við Sly. Þannig hefði ákærði fengið upplýsingar um hvað væri í gangi. Hann hefði í raun verið á milli ákærðu og Sly.

Sama kvöld og ákærði Craig kom til landsins hefðu ákærða Halldóra og ákærði Gunnar komið á hótelið og sagt honum að peningarnir væru á reikningi ákærða Gunnars og að þau myndu millifæra þá daginn eftir. Þann dag hefðu þau svo komið aftur til ákærða á hótelið og sagt honum að þau væru í vandræðum með að millifæra fjármunina. Ákærðu hefðu sagt ákærða Craig að þau ætluðu að reyna að finna aðra leið til þess að millifæra peningana. Sly hefði verið upplýstur um þessi vandkvæði. Að kvöldi þessa sama dags hefði ákærði fengið símtal frá ákærða Gunnari. Hann hefði reynt að segja ákærða Craig eitthvað en hann ekki skilið ákærða Gunnar, sem verið hefði að reyna að gera sig skiljanlegan á ensku. Ákærði Craig hefði því hringt í ákærðu og sagt henni að hann skildi ákærða Gunnar ekki. Ákærða hefði þá upplýst ákærða um að þau Gunnar hefðu komist í samband við aðila sem gæti aðstoðað þau við að millifæra féð. Í framhaldi af samtali þeirra hefði ákærði hringt í ákærða Gunnar, sagt honum frá samtali sínu við ákærðu og sagt honum að hann biði hans á hótelinu. Í kjölfarið hefði ákærði Gunnar komið akandi og náð í ákærða. Þeir hefðu síðan farið heim til ákærða Pálma. Þar hefði ákærða Halldóra verið fyrir. Þetta hefði verið í fyrsta skipti sem ákærði hitti ákærða Pálma. Ákærði Craig hefði síðan hringt í Sly sem í framhaldinu hefði rætt við ákærða Pálma. Hefði Sly gefið samþykki sitt fyrir því að peningarnir yrðu millifærðir á bankareikninga ákærða Pálma.

Degi síðar hefði komið upp vandamál með reikninga sem meðákærðu hefðu framvísað í bankanum. Ákærði Craig kvaðst ekki hafa vitað neitt um hver útbjó reikningana. Hann hefði fyrst séð þá við yfirheyrslu hjá lögreglu. Benti ákærði í þessu samhengi á að ákærði Pálmi hefði komið inn í málið á síðari stigum. Hann kvaðst ákærði ekkert hafa þekkt og ekkert hafa um hann vitað. Kvaðst ákærði ekki átta sig á því hvernig hann hefði átt að útbúa reikninga á mann sem hann vissi ekkert um.

Ákærði Craig sagðist hafa hringt í Sly sem óskað hefði eftir upplýsingum um netfang ákærðu Halldóru. Hún hefði þá slegið netfang sitt inn í síma ákærða og hann sent það áfram til Sly. Sly hefði síðan sent reikningana til ákærðu. Þegar reikningarnir voru tilbúnir hefði verið hægt að senda peningana. Ákærða Craig hefðu þá verið sýndar kvittanir frá bankanum. Ákærði nefndi í þessu samhengi að honum hefðu einnig verið sýndar kvittanir frá Western Union vegna millifærslu ákærðu. Neitaði ákærði því aðspurður að hafa gefið ákærðu fyrirmæli um að millifæra peninga í gegnum Western Union. Ákærði sagðist vita til þess að peningar hefðu verið millifærðir eftir að hann fór af landi brott. Hann byggi hins vegar ekki yfir neinum upplýsingum um millifærsluna. Hann hefði raunar ekki vitað af þeirri millifærslu ákærðu fyrir Sly fyrr en Sly hefði hringt í hann. Í símtalinu hefði Sly sagt ákærða að hann næði ekki sambandi við ákærðu. Sly hefði sagt ákærða að það væri mjög mikilvægt að hann kæmi þeim skilaboðum áleiðis til ákærðu að það væri villa í nöfnum á skjalinu hjá Western Union um yfirfærslu fjárins. Ákærði kvaðst í kjölfarið hafa hringt í ákærðu, en hún ekki svarað. Ákærða hefði síðan hringt í ákærða og sagt honum að hún hefði séð að Sly hefði verið að reyna að ná í hana en hún ekki átt þess kost að svara. Ákærða hefði sagt ákærða Craig að hún myndi afhenda honum kvittun þannig að ákærði gæti tekið mynd af kvittuninni og sent til Sly. Ákærði hefði í kjölfarið sent Sly mynd af kvittuninni sem þá hefði sagt að það væri ekki kvittunin sem væri vandamálið heldur það að mistök hefðu verið gerð við ritun nafna á skjölin.

Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa talið sig vera að taka þátt í ólöglegu athæfi. Hann hefði ekki vitað að ólögleg viðskipti stæðu á bak við millifærslurnar. Ákærði sagðist ekki hafa gefið neinum bein fyrirmæli um hvernig millifæra ætti peninga úr landi. Þá hefði hann heldur ekki skipulagt hvernig það ætti að gera. Benti ákærði á í því sambandi að meðákærðu væru engin börn og að þau þekktu kerfið hér á landi. Furðulegt væri því að ætla að hann hefði gefið þeim einhver fyrirmæli í þessu sambandi.

Ákærði neitaði því að hann hefði átt að beita þrýstingi eða hótunum yrðu peningarnir ekki greiddir. Sagðist hann aldrei hafa hótað meðákærðu. Tók ákærði fram að á öðrum degi eftir að hann kom til landsins, eftir að í ljós var komið að meðákærðu gátu ekki millifært peningana, hefðu þeir Sly rifist og ákærði sagt honum að hann vildi snúa aftur til Ítalíu. Spurður um hvort hann hefði vitað hvert senda ætti peningana svaraði ákærði því til að áður en hann fór frá Ítalíu hefði Sly sagt honum að peningarnir yrðu millifærðir til Hong Kong.

Meðan á  Íslandsdvölinni stóð kvaðst ákærði einungis hafa tekið við peningum frá ákærðu Halldóru. Ákærða hefði í eitt skipti látið hann hafa peninga fyrir mat. Þá hefði hún jafnframt látið hann fá peninga svo að hann gæti framlengt dvöl sína á hótelinu. Um hefði verið að ræða íslenskar krónur, jafnvirði 200-300 evra. Að síðustu hefði ákærða afhent ákærða íslenskar krónur í bifreið fyrir utan hótelið. Frumkvæðið að því hefði verið ákærðu, ekki hans. Þau hefðu þá verið að leggja af stað út á flugvöll. Ákærði hefði spurt ákærðu hversu há fjárhæðin væri og hún svarað því til að umreiknað í evrur væri þetta 2.600 til 2.700 evrur. Ákærða hefði sagt ákærða að skipta íslensku krónunum á flugvellinum. Það hefði hann síðan gert. Að meðtöldum peningum sem ákærði hefði sjálfur átt taldi hann að fjárhæð sú sem hann skipti á flugvellinum hefði numið um 2.700 evrum. Ákærða hefði sagt ákærða Craig að Sly hefði sagt henni að afhenda honum þessa peninga. Um hefði verið að ræða eftirstöðvar þess sem ákærða hefði ekki getað millifært hjá Western Union. Ákærða hefði verið ætlað að koma peningunum til Sly. Ákærði hefði í fyrstu haft efasemdir um að taka peningana með sér úr landi þar sem hann hafði engin fyrirmæli fengið um það frá Sly. Þá hefði hann haft áhyggjur af reglum á Ítalíu varðandi það hversu mikla fjármuni mætti taka með sér inn í landið. Ákærði hefði á endanum náð sambandi við Sly sem staðfest hefði að ákærði ætti að hafa peningana með sér út.

Framburð ákærða Pálma fyrir lögreglu þess efnis að ákærði Craig og Sly hefðu beðið ákærða Pálma um að gera ráðstafanir svo að stofna mætti bankareikning í Sviss sagði ákærði rangan. Þá kannaðist hann ekki við að hafa boðið ákærða Pálma greiðslu fyrir aðkomu hans að málinu. Ákærði kannaðist heldur ekki við að hafa farið í banka með ákærða Pálma, svo sem ákærði Pálmi hafði borið um. Ákærði kannast hins vegar við að hafa setið á kaffihúsi einum eða tveimur dögum áður en hann yfirgaf landið á meðan ákærði Pálmi fór í banka. Ákærði Pálmi hefði þó ekki millifært neina peninga í það skipti.

Ákærði Craig bar fyrir dómi að hann hefði engin samskipti haft við meðákærðu eftir að hann fór af landi brott. Þegar framburður ákærða Pálma þess efnis að ákærði hefði sent honum snapchat-skilaboð með hótunum eða þrýstingi var borinn undir ákærða vísaði hann til þess að eftir að hann yfirgaf landið hefði hann afhent Sly símanúmer hjá ákærða Gunnari. Hvort eitthvað hefði farið á milli þeirra eftir þann tíma sagðist ákærði ekkert geta um borið. Hann hefði ekkert komið að málinu eftir þetta.

C

C, starfsmaður hjá Nesfiski hf., greindi svo frá fyrir dómi að félagið hefði verið að selja suðurkóreska fyrirtækinu Daesung Food One Co. Ltd. fisk í annað eða þriðja skiptið þegar í ljós hefði komið að óprúttnir aðilar höfðu komist inn í tölvupóstsamskipti á milli félaganna. Nesfiskur hf. hefði þá gert lögreglu aðvart. Afleiðingar þessa hefðu orðið að greiðsla Daesung fyrir fisksendinguna, sem ætluð hefði verið Nesfiski hf., hefði farið inn á rangan reikning. Staðan í dag væri enn sú að Daesung hefði fengið vöruna afhenta en Nesfiskur hf. enga greiðslu móttekið. Á vitninu var hins vegar að skilja að ekki lægi endanlega fyrir á hverjum tjónið vegna hinna glötuðu fjármuna myndi lenda.

B lögmaður bar aðspurður fyrir dómi um tengsl sín við ákærða Pálma að þeir væru kunningjar og þá hefði hann sinnt lögmannsstörfum fyrir ákærða. Hann hefði meðal annars verið verjandi ákærða Pálma í málinu á fyrri stigum þess. Vitnið kvaðst aldrei hafa hitt önnur ákærðu og engin tengsl hafa við þau.

Vitnið sagði ákærða Pálma hafa hringt í tvígang síðla dags eða snemma kvölds 4. febrúar 2016. Í þeim símtölum hefði komið fram að vinafólk ákærða Pálma stæði í einhverjum viðskiptum og vegna viðskiptanna þyrfti að millifæra peninga til útlanda. Það hefði ekki gengið hnökralaust fyrir sig en ástæður þess hefði ákærði Pálmi ekki almennilega skilið. Hann hefði því haft samband við vitnið og spurt það út í gjaldeyrishöft og áhrif þeirra á fjármagnsflutninga. Tók vitnið fram að það hefði ekki verið neinn sérfræðingur á þessu sviði en þó talið sig þekkja grundvallaratriðin. Vitnið sagði þessi mál hafa verið rædd almennt, þ.m.t. lögmæti fjármagnsflutninga milli landa og nauðsyn þess að reikningar vegna viðkomandi viðskipta stæðu að baki millifærslum frá landinu. Atvik þessa máls hefðu hins vegar ekki verið rædd sérstaklega. Þá hefði ákærði Pálmi innt vitnið eftir því hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að hann sæi um að millifæra fjármunina fyrir vinafólk sitt. Hefði vitnið svarað því til að það teldi svo ekki vera. Hvaða fyrirkomulag ákærði Pálmi myndi síðan hafa á aðstoð sinni hefði aftur á móti ekki verið rætt.

Aðspurt af sækjanda kvaðst vitnið ekki kannast við að hafa ásamt ákærða Pálma boðað önnur ákærðu í málinu til fundar í þeim tilgangi að samræma framburð þeirra í málinu. Spurningu sækjanda sagði vitnið furðulega og jafnframt vísaði það enn fremur til þess að framburður í þessa veru hefði verið dreginn til baka.

Vitnið D kvaðst vera fyrrverandi sambýlismaður ákærðu Halldóru. Fyrir dómi var borið undir vitnið framlagt skjal, sem samkvæmt efni sínu ber með sér að vitnið hafi 24. febrúar 2016 sent úr landi í fjórum sendingum með Western Union, samtals 1.218.258 krónur. Vitnið staðfesti aðspurt að hafa sent greinda fjármuni á fyrrnefndum degi að beiðni ákærðu. Vitnið sagðist ekki hafa vitað hvaðan peningarnir komu. Ákærða hefði ekkert skýrt það út fyrir vitninu. Hún hefði einfaldlega beðið vitnið um að senda peningana.

E, ráðgjafi fyrirtækja hjá Íslandsbanka hf., sagði ákærða Gunnar hafa komið í útibú bankans að morgni 4. febrúar 2016 ásamt konu, sem vitnið gat ekki nafngreint. Ákærða Gunnar kvað vitnið hafa komið fram fyrir hönd RG verktaka ehf. Erindið hefði verið að senda símgreiðslu úr landi. Á þessum tíma hefðu verið gjaldeyrishöft í landinu og því hefðu reikningar þurft að vera á bak við allar greiðslur úr landi. Ákærði Gunnar og konan hefðu ekki verið með reikninga meðferðis og hefðu þau hringt nokkur símtöl vegna þess á meðan þau voru hjá vitninu. Konuna kvað vitnið hafa kallað eftir nauðsynlegum upplýsingum til þess að fylla út gjaldeyrisumsóknina sem fylgja hefði átt reikningnum. Vitninu hefði fundist að ákærði Gunnar vissi ekki hvert hann væri að senda peningana. Þar sem þau hefðu ekki haft reikninginn undir höndum hefðu þau sagst ætla að koma aftur síðar um daginn þegar þau væru komin með þau skjöl sem upp á vantaði.

Vitnið kvaðst ekki hafa verið við þegar þau komu síðar um daginn og því hefði annar starfsmaður tekið á móti þeim þá. Vitnið sagðist vita til þess að innan bankans hefði farið fram ákveðin könnun á lögmæti reikningsins þegar honum var framvísað í bankanum þarna síðar um daginn. Hefði reikningurinn verið sendur til lögmanns hjá bankanum. Við þá skoðun hefði ekkert athugavert komið fram. Aðspurt kvað vitnið ekkert annað hafa girt fyrir að greiðslan færi fram daginn eftir annað en það að ekki reyndust vera nægir fjármunir á þeim reikningi sem millifæra átti af.

F, ráðgjafi fyrirtækja hjá Íslandsbanka hf., bar að 4. febrúar 2016 hefði hún veitt athygli konu og karlmanni sem leituðu til starfsfélaga hennar í bankaútibúinu, E. Vitnið sagði E ekki hafa getað framkvæmt millifærslu sem beðið hefði verið um þar sem vantað hefði reikning á bak við færsluna.

Skömmu fyrir kl. 16:00 sama dag hefði karlmaðurinn komið aftur í bankaútibúið og hann þá haft reikning meðferðis. Vitnið hefði fengið gengi vegna millifærslunnar og reikningurinn verið sendur til lögfræðings bankans til þess að fá staðfestingu á að hann væri fullnægjandi. Engar athugasemdir hefðu borist við reikninginn. Hins vegar hefði ekki reynst unnt að millifæra vegna þess hversu áliðið dags var orðið. Vegna þess að ekki gekk að millifæra kvaðst vitnið hafa rætt við konuna í síma. Staðfesti vitnið fyrir dómi ummæli sín í lögregluskýrslu þess efnis að karlmaðurinn hefði virst stressaður og frekar æstur vegna þess að millifærslan gekk ekki eftir. Þá lýsti vitnið þeirri tilfinningu, sem vaknað hefði hjá því eftir að allt var um garð gengið, að karlmaðurinn hefði verið „peð“ í þessu öllu saman.

Morguninn eftir kvaðst vitnið hafa átt að framkvæma millifærsluna en þá hefðu ekki reynst vera nægir fjármunir inni á bankareikningnum. Vitnið kvaðst í kjölfarið hafa hringt og tilkynnt að símgreiðslan færi ekki í gegn. Þar sem búið hefði verið að panta gengi fyrir greiðsluna, sem síðan hefði ekki gengið eftir, hefði bankinn fengið sekt. Var á vitninu að skilja að þann kostnað hefði sá aðili greitt sem beðið hafði um greiðsluna.

G, þjónustufulltrúi í útibúi Íslandsbanka hf. í Reykjanesbæ, bar að síðla dags 10. febrúar 2018 hefði ákærði Pálmi komið í bankaútibúið og lagt fram umsókn um gjaldeyrissímgreiðslu. Ákærði Pálmi hefði framvísað reikningi og gefið þær skýringar á millifærslunni að hann væri að kaupa flugelda. Kvað vitnið þá skýringu ekki hafa komið fram á reikningnum.

H, starfsmaður Arion banka hf., bar fyrir dómi að 8. febrúar 2016 hefði hann sent inn símgreiðslu samkvæmt reikningum. Vitnið hefði ekki þekkt þann aðila sem bað um símgreiðsluna. Nafn hans hefði verið Pálmi. Vitnið hefði áður en greiðslan var kláruð ráðfært sig við lögfræðing í bankanum og tekið afrit á reikningunum og sent á erlend viðskipti í bankanum. Ástæðu þess að vitnið hefði ráðfært sig símleiðis við lögfræðing vegna reikninganna kvað það hafa verið að á umræddum tíma hefðu verið gjaldeyrishöft í landinu. Enn fremur hefði verið um háa fjárhæð að ræða. Við þessa athugun hefði ekkert athugavert komið fram og símgreiðslan því gengið í gegn.

I, systir ákærða Gunnars, staðfesti fyrir dómi að hún hefði í febrúar 2016 verið skráð fyrir Mitsubishi Pajero-jeppabifreið. Vitnið sagði það hafa atvikast með þeim hætti að ákærði Gunnar hefði spurt vitnið þess hvort hann mætti skrá bifreiðina á nafn vitnisins. Vitnið kvaðst hafa samþykkt það en tók skýrt fram að bifreiðin hefði aldrei verið í þess eigu. Ástæðu beiðni ákærða mundi vitnið ekki vel en sagði vel geta verið að ummæli, sem höfð væru eftir vitninu í lögregluskýrslu þess efnis að ástæðan hefði verið skuldastaða ákærða Gunnars hjá trygginga­félögunum, væru rétt.

J staðfesti fyrir dómi að hann hefði 3. febrúar 2016 selt Mitsubishi Pajero-bifreið. Vitnið kvaðst aðspurt ekki muna nafn kaupandans en um hefði verið að ræða hávaxinn karlmann. Kaupverðið hefði verið innt af hendi í reiðufé.

A lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði framlagðar upplýsingaskýrslur sínar, dagsettar 16. og 21. febrúar 2017. Við rannsóknina sagði vitnið hafa verið notast við sérstakan hugbúnað sem ætlaður væri til þess að skoða mikið magn fjarskiptaupplýsinga í einu. Tilgangurinn hefði einkum verið að kanna hvort í fyrirliggjandi notkunarupplýsingum mætti finna einhver tengsl. Komið hefði í ljós að ákærðu Gunnar, Pálmi og Halldóra voru öll í samskiptum við símanúmerið (1) á þeim tíma sem ákærði Craig var á landinu. Þegar upplýsingar um það númer voru kannaðar hefði komið í ljós að númerið hafði eingöngu verið í notkun á því tímabili sem ákærði Craig var hér staddur. Þá hefði mátt sjá af gögnunum að númerið var mest notað í gegnum farsímamastur nærri Hótel Hafnarfirði. Númer þetta hefði verið skráð í símaskrá síma ákærða Gunnars sem „Magni Svart“. Í ljósi þessa og annars þess sem fram komi í skýrslunni hefði það verið niðurstaða rannsóknarinnar að ákærði Craig hefði haft símanúmerið (1) til afnota á meðan hann dvaldist hér á landi.

Við rannsóknina hefði enn fremur komið fram að símanúmerið (1) hafði einkum verið í samskiptum við símanúmerið (2). Númerið hefði síðan verið í sambandi við erlend símanúmer í framhaldi af samskiptum við númerið (2), aðallega númer á Ítalíu. Eitt hinna erlendu númera hefði verið í samskiptum við ákærðu Halldóru, Craig og Gunnar frá Ítalíu. Skoðun á númerinu (2) í áðurnefndu forriti hefði skilað þeim niðurstöðum að númerið tengdist oftast fjarskiptamastri við Tjarnarbraut í Reykjanesbæ. Það sama hefði átt við um símanúmerið (3), en það númer hefði verið persónulegt símanúmer ákærða Pálma. Niðurstaða frekari rannsóknar hefði verið sú að notkun þessara tveggja númera fylgdist að í þó nokkurn fjölda skipta á nokkrum mismunandi stöðum. Símanúmer annarra ákærðu hefðu ekki haft sambærileg tengsl við notkun á númerinu (2). Vitnið sagði því margt hafa bent til þess að ákærði Pálmi hefði haft símarnúmerið (2) undir höndum.

Sérstaklega aðspurt kvað vitnið ákærða Gunnar hafa verið nokkuð samstarfsfúsan við lögreglu undir rannsókn málsins. Hann hefði meðal annars bent á upplýsingar og gögn sem hjálpað hefðu lögreglu við rannsókn málsins.

Fyrir dóminn komu einnig vitnin K, eiginkona ákærða Pálma, L, móðir ákærða Gunnars, M, sambýliskona ákærða Gunnars, og N, dóttir ákærðu Halldóru. Skoruðust vitnin öll undan skýrslugjöf í málinu, ýmist með heimild í 1. eða 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D

Krafa ákærða Gunnars um frávísun:

Í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um það að í ákæru skuli greina, svo glöggt sem verða má, hver sú háttsemi er sem ákært er vegna, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur ákvæði þetta verið skýrt svo að verknaðarlýsing í ákæru verði að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverða háttsemi honum er gefin að sök og við hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur.

Ákærðu er í máli þessu gefið að sök peningaþvætti í sameiningu. Að því gættu verður ekki á það fallist með ákærða Gunnari að í ákæru sé ekki nægjanlega skilið á milli hvers ákærðu um sig við lýsingu á hinni meintu refsiverðu háttsemi þeirra. Verður því ekki annað séð en ákæra málsins sé í samræmi við áskilnað c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og er kröfu ákærða Gunnars um frávísun krafna ákæruvalds á hendur honum því hafnað.

Ákærukafli I:

Svo sem rakið er í kafla A hér að framan liggur fyrir í málinu að utanaðkomandi aðili komst yfir upplýsingar um fiskútflutning Nesfisks hf. Rannsókn lögreglu leiddi ekki í ljós hver sá aðili var. Óháð því liggur hins vegar fyrir að hinn óþekkti aðili gaf sig út fyrir að vera fyrirsvarsmaður Nesfisks hf. og sendi hann í tvígang greiðslu­fyrirmæli með tölvupósti til viðsemjanda félagsins, hins suðurkóreska félags Daesung Food One Co. Ltd., þess efnis að greiða skyldi kaupverð sjávarafurða inn á reikning einkahlutafélagsins RG verktaka. Af þeirri háttsemi leiddi að greiðslan fyrir vöruna barst ekki Nesfiski hf.

Fyrri greiðslan sem hinn óþekkti aðili beindi frá Daesung Food One Co. Ltd. inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] var samkvæmt framlögðum banka­upplýsingum að fjárhæð 31.599.105 krónur og var millifærð á reikninginn 29. janúar 2016. Einkahlutafélagið RG verktakar var í eigu ákærða Gunnars er atvik máls gerðust. Þá er upplýst með framburði ákærðu Gunnars og Halldóru, en framburður allra ákærðu er ítarlega reifaður í kafla B hér að framan, að frumkvæðið að því að koma á tengslum á milli RG verktaka ehf. og hins óþekkta aðila kom frá ákærðu Halldóru. Með framburði ákærðu Gunnars og Halldóru liggur jafnframt fyrir að nauðsynlegar bankaupplýsingar til þess að millifæra fjárhæðina á reikning RG verktaka ehf. komu frá þeim í sameiningu. Samkvæmt öllu þessu þykir dómnum sannað að ákærðu Gunnar og Halldóra hafi á áðurnefndum degi, 29. janúar 2016, tekið við þeim 31.599.105 krónum á bankareikningi RG verktaka ehf. sem hinn óþekkti aðili komst yfir í tengslum við viðskipti Nesfisks hf. og Daesung Food One Co. Ltd.

Upplýst er málinu með framlagðri viðskiptakvittun og framburði ákærða Gunnars fyrir dómi að 3. febrúar 2016 tók ákærði út 6.319.691 krónu í reiðufé af  fyrrnefndum reikningi RG verktaka ehf. nr. [2]. Ákærði sagðist sjálfur hafa tekið af þessari fjárhæð 3.200.000 krónur „bara eins og ég átti að fá“ en ákærða Halldóra hefði sagt honum að taka helminginn. Sjálf hefði ákærða tekið afganginn. Peningunum sagðist ákærði Gunnar hafa varið til kaupa á bifreið og til greiðslu á lausaskuldum.

Ákærða Halldóra hefur kannast við að hafa fengið 440.000 krónur af þeirri fjárhæð sem ákærði Gunnar tók út af reikningi RG verktaka ehf. samkvæmt framansögðu. Framburði ákærða Gunnars um að fjárhæðin sem ákærða fékk hafi numið ríflega 3.100.000 krónum hefur hún vísað á bug. Að mati dómsins verður við mat á framburði beggja ákærðu að þessu leyti að líta til þess að upplýst er með framlögðum bankaupplýsingum að þennan sama dag, 3. febrúar 2016, sendi ákærða Halldóra 622.588 krónur til fjögurra aðila á Ítalíu í gegnum greiðslukerfi Western Union. Hefur ákærða enga haldbæra skýringu gefið á tilurð þeirra fjármuna. Að því gættu þykir dómnum mega leggja framburð ákærða Gunnars til grundvallar um þetta atriði og slá því föstu að ákærða Halldóra hafi móttekið úr hans hendi hluta þeirrar fjárhæðar sem hann tók út í reiðufé af reikningi RG verktaka ehf., eða ríflega 3.100.000 krónur. Með vísan til framangreinds þykir jafnframt mega slá því föstu að þær 622.588 krónur sem ákærða sendi samdægurs til Ítalíu samkvæmt áðursögðu hafi verið hluti þeirrar fjárhæðar.

Fyrir liggur með framburði ákærðu Gunnars og Halldóru, vætti starfsmanna Íslandsbanka hf., þeirra E og F, framlögðum myndum úr eftirlitsmyndavélum Íslandsbanka hf., fyrirliggjandi bankagögnum og endurritum símtala, að 3. febrúar 2016 reyndu ákærðu Gunnar og Halldóra að senda úr landi þá fjármuni sem millifærðir voru samkvæmt áðursögðu á reikning RG verktaka ehf. 29. janúar 2016. Upplýst er að ekki gekk að millifæra fjárhæðina, fyrst af þeim sökum að reikninga skorti á bak við færsluna og síðar vegna þess að næg innstæða reyndist ekki lengur vera fyrir hendi á reikningi RG verktaka ehf. Fyrir liggur með framburði ákærðu Gunnars, Halldóru og Pálma að í kjölfar þessa leitaði ákærði Gunnar til ákærða Pálma og óskaði eftir liðsinni hans. Er enn fremur upplýst að ákærðu Gunnar, Pálmi og Halldóra hittust að kvöldi 3. febrúar 2016 nærri bensínstöð N1 í Vogum á Vatnsleysuströnd og ræddu næstu skref í málinu í bifreið ákærða Gunnars.

Upplýst er með framlögðum bankagögnum að 5. febrúar 2016 voru 23.000.000 króna millifærðar af reikningi RG verktaka ehf. nr. [2] á reikning ákærða Pálma nr. [3] í Íslandsbanka hf. Fyrir dómi gekkst ákærði Pálmi við því að nefnd 23.000.000 króna millifærsla af reikningi RG verktaka ehf. yfir á reikning hans hefði verið framkvæmd í tölvu á heimili hans. Ákærði kvað ákærðu Halldóru hafa verið viðstadda. Einnig kom fram hjá honum að ákærði Gunnar hefði á þessum tíma verið nýbúinn að stofna reikninginn og hefði hann skipt um PIN-númer reikningsins heima hjá ákærða Pálma. Kvaðst ákærði Pálmi geta staðfest að ákærði Gunnar hefði aldrei farið inn á heimabankann hjá Íslandsbanka hf. Á heimabankann hefði ákærði Gunnar ekkert kunnað og ákærði Pálmi því aðstoðað hann. Getur dómurinn ekki skilið framburð ákærða Pálma um þessi atvik öðruvísi en svo að það hafi verið hann sem framkvæmdi umrædda millifærslu. Um millifærsluna bar ákærði Gunnar fyrir dómi að ákærði Pálmi hefði eflaust framkvæmt millifærsluna heima hjá sér. Sagðist ákærði hafa afhent ákærða Pálma miða frá Íslandsbanka hf. „... með öllum númerum, pin-númerum og öllu draslinu. Síðan var ég farinn.“ Sjálfur sagðist ákærði Gunnar ekkert kunna á heimabanka.

Fyrir liggur með framlögðum bankagögnum og framburði ákærða Pálma að í kjölfarið millifærði hann af reikningi sínum nr. [3] í Íslandsbanka hf., í átta færslum, samtals 23.005.000 krónur inn á reikning sinn nr. [4]í Arion banka hf.

Fyrir dómi kom fram hjá ákærða Pálma að hann hefði 8. febrúar 2016 sent 20.581.141 krónu með símgreiðslu af reikningi sínum nr. [4]í Arion banka hf. á reikning félagsins Global Trixim Ltd. í Hong Kong nr. [9]. Ákærði Pálmi kvaðst hafa fengið reikninga frá ákærðu Halldóru til að framvísa vegna þeirrar millifærslu. Sagðist ákærði Pálmi vera viss um að það hefði verið ákærða sem lét hann hafa nauðsynlegar upplýsingar vegna millifærslunnar. Þá taldi hann einnig líklegt að það hefði verið ákærða sem prentað hefði út fylgigögn með millifærslunni. Ákærði vísaði í því sambandi til þess að ákærði Craig hefði ekki getað prentað gögnin út sjálfur á því hóteli sem hann dvaldi á. Hvað þessa millifærslu varðar kannaðist ákærða Halldóra við það fyrir dómi að ákærði Pálmi hefði beðið hana um að prenta út nokkur skjöl, reikninga, og hefði hann gefið þá skýringu að hann væri prentaralaus. Skjölin hefði ákærða fengið send frá ákærða Pálma sem síðan hefði sótt þau til hennar. Framburð ákærða Pálma um að skjölin hefðu komið frá ákærðu sagði hún rangan. Var á ákærðu að skilja að mögulega hefði ákærði Pálmi fengið skjölin frá ákærða Craig.

Fyrir dómi kannaðist ákærði Pálmi við að hafa 10. febrúar 2016 millifært með SWIFT-greiðslu 1.073.786 krónur af reikningi sínum í Íslandsbanka hf. nr. [3] yfir á reikning félagsins Global Trixim Ltd. í Hong Kong nr. [9].

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn sannað að ákærði Pálmi hafi haft þá aðkomu að atvikum samkvæmt ákærukafla I sem þar er lýst.

Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver sá sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings sæta fangelsi allt að sex árum árum. Ásetningur er saknæmisskilyrði samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Varnir ákærðu allra lúta öðrum þræði að því að þau hafi enga hugmynd haft um að fjármunir þeir sem um er fjallað í ákæruköflum I og II, og stöfuðu samkvæmt framansögðu frá Daesung Food One Co. Ltd., hafi verið ávinningur refsiverðs brots. Í báðum tilvitnuðum köflum ákæru er ítrekað vísað til þess að ákærðu hafi mátt vita, eða þeim mátt vera ljóst, að um ólöglega fengið fé væri að ræða. Að mati dómsins er með þeirri háttsemislýsingu í ákæru verið að lýsa gáleysi ákærðu varðandi það að umræddir fjármunir væru ólöglega fengið fé, að fjármunirnir væru ávinningur refsiverðs brots. Að þessu athuguðu verður ekki með réttu því talið vera lýst í ákæru að ákærðu hafi sýnt af sér ásetning hvað umrætt atriði varðar. Getur engu breytt um þessa niðurstöðu þótt í ákæru sé vísað til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó má sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Með sömu skilyrðum er dómara og rétt að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en fram koma í ákæru, þó aldrei aðrar kröfur en þar greinir. Af tilvitnuðu ákvæði leiðir að dómari er bundinn af lýsingu háttsemi í ákæru hvað saknæmi háttseminnar varðar. Þegar að því gættu og með vísan til annars þess sem að framan er rakið telur dómurinn að ákærðu verði ekki sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Í 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að sé brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar framið af gáleysi varði það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Ljóst er af framburði ákærða Gunnars fyrir dómi að hann vissi frá upphafi að engin viðskipti væru á bak við umræddar peningasendingar. Samkvæmt því og í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræðir þykir mega slá því föstu að ákærði Gunnar hafi mátt vita að umræddir fjármunir væru ávinningur refsiverðs brots.

Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að það var ákærða Halldóra sem leitaði til ákærða Gunnars og fékk hann til þess að leggja til bankareikning fyrir þá fjármuni sem væntanlegir voru til landsins. Í ljósi þess sem ákærða kveðst sjálf hafa þekkt til ákærða Gunnars á þeim tíma og þeirra fjárhæða sem um ræðir er framburður hennar í þá veru að hún hafi talið að um eðlileg viðskipti væri að ræða að mati dómsins afar ótrúverðugur. Þykir með vísan til þessa mega slá því föstu að ákærða Halldóra hafi mátt vita að umræddir fjármunir væru ávinningur refsiverðs brots.

Fyrir dómi kvað ákærði Pálmi þá ákærða Gunnar hafa verið vini í rúm tuttugu ár, en þeir kæmu úr sama byggðarlagi. Flesta úr byggðarlaginu sagði ákærði vera búna að snúa baki við ákærða Gunnari. Það hefði hann hins vegar ekki gert. Jafnframt kom fram hjá ákærða Pálma að hann þekkti vel sögu ákærða Gunnars og sakaferil hans. Í ljósi þessa og þess að um var að ræða á þriðja tug milljóna króna var full ástæða til þess fyrir ákærða Pálma að kanna uppruna þeirra fjármuna sem hann tók að sér að aðstoða ákærðu Gunnar og Halldóru við að senda úr landi. Þegar að þessu gættu þykir mega slá því föstu að ákærði Pálmi hafi mátt vita að umræddir fjármunir væru ávinningur refsiverðs brots.

 Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir ákæruvaldið hafa fært fyrir því sönnur, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærðu Halldóra, Gunnar og Pálmi hafi gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærukafla I og að með henni hafi þau brotið gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í ákærukafla I er ákærða Craig gefið að sök að hafa skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið eftir að hann kom til landsins 2. febrúar 2016 og hafi brotin þannig verið framin að hans undirlagi. Ákærði Craig er í ákæru sagður hafa komið gagngert til landsins til að sjá til þess að umræddir fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum. Þá hafi hann afhent meðákærðu tilhæfulausa reikninga sem framvísað var í Arion banka hf. 8. febrúar 2016 og flutt hluta af fjármununum úr landi. Ákærða Craig hafi á sama hátt og meðákærðu mátt vera ljóst að um ólöglega fengið fé væri að ræða.

Að mati dómsins hefur ekkert haldbært komið fram um það í málinu að brot meðákærðu hafi verið framin að undirlagi ákærða Craig. Hins vegar þykir mega slá því föstu með vísan til framburðar meðákærðu allra að hann hafi komið hingað til lands gagngert til þess að sjá til þess að þeir fjármunir sem ákærukafli I tekur til yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum. Ósannað þykir hins vegar að ákærði Craig hafi afhent meðákærðu þá tilhæfulausu reikninga sem framvísað var í Arion banka 8. febrúar 2016, en um þetta atriði ber ákærðu Pálma og Craig annars vegar og ákærðu Gunnari og Halldóru hins vegar ekki saman. Aftur á móti liggur fyrir samkvæmt framburði ákærða Craig sjálfs að hann flutti úr landi lítinn hluta umræddra fjármuna, eða um 2600-2700 evrur.

Ákærða Craig verður með vísan til þeirra sömu raka og færð eru fram hér að framan varðandi þátt meðákærðu ekki sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda er í ákæru til þess vísað að honum hafi á sama hátt og meðákærðu mátt vera ljóst að um ólöglega fengið fé væri að ræða. Með þeirri háttsemi sinni sem dómurinn telur samkvæmt framansögðu sannað að ákærði hafi gerst sekur um braut hann hins vegar gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærukafli II:

Síðari greiðslan sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] í Íslandsbanka hf. var að fjárhæð 22.252.196 krónur. Samkvæmt framlögðum banka­upplýsingum var hún lögð inn 22. febrúar 2016. Um það hvernig það kom til að hinn óþekkti aðili fékk í hendur nauðsynlegar bankaupplýsingar til þess að millifæra fjárhæðina á reikning RG verktaka ehf. vísast til þess sem um það atriði er rakið í umfjöllun dómsins varðandi ákærukafla I. Verður því slegið föstu með vísan til röksemda dómsins hér að framan að ákærðu Gunnar og Halldóra hafi 22. febrúar 2016 tekið við á bankareikningi RG verktaka ehf. 22.252.196 krónum, sem hinn óþekkti aðili komst yfir í tengslum við viðskipti Nesfisks hf. og Daesung Food One Co. Ltd., þrátt fyrir að þau hafi mátt vita að umræddir fjármunir væru ávinningur refsiverðs brots.

Stærsti hluti umræddrar fjárhæðar, eða 22.050.000 krónur, var síðan millifærður á bankareikning ákærða Pálma nr. [4] hjá Arion banka hf. Ákærðu Gunnar og Halldóra hafa bæði neitað því að hafa framkvæmt þessa millifærslu og að mati dómsins liggur ekkert haldbært fyrir í málinu um að ákærðu hafi komið beint að millifærslunni. Verður lagt til grundvallar að því virtu sem fyrir liggur um meðferð fyrri greiðslunnar, þess að um reikning ákærða Pálma var að ræða og eftirfarandi ráðstöfun hans á hluta fjármunanna að millifærslan hafi verið framkvæmt af ákærða Pálma. Með sömu rökum og áður voru rakin þykir mega slá því föstu að ákærði Pálmi hafi líkt og meðákærðu Gunnar og Halldóra mátt vita að um ólöglega fengið fé væri að ræða sem hann þannig tók við á bankareikningi sínum.

Þá er upplýst, meðal annars með framburði ákærða Pálma sjálfs, að 23. febrúar 2016 tók hann út af fyrrgreindum reikningi sínum 2.065.000 krónur í reiðufé. Ákærði Pálmi kveðst hafa afhent ákærðu Halldóru þá fjármuni svo hún gæti sent meirihluta þeirra til aðila á Spáni. Þessi framburður ákærða Pálma fær eindreginn stuðning í vætti D, fyrrverandi sambýlismanns ákærðu Halldóru. Fyrir dómi var borið undir vitnið skjal, sem samkvæmt efni sínu ber með sér að vitnið hafi 24. febrúar 2016 sent úr landi í fjórum sendingum með Western Union, samtals 1.218.258 krónur. Staðfesti vitnið að hafa sent greinda fjármuni á fyrrnefndum degi að beiðni ákærðu Halldóru. Með vísan til alls þessa verður lagt til grundvallar að svo hafi verið.

Að endingu liggur fyrir hvað ákærukafla II varðar að 2. mars 2016 haldlagði héraðssaksóknari þær 20.755.897 krónur sem þá voru á bankareikningi ákærða Pálma nr. [4] hjá Arion banka hf.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og þeirra röksemda dómsins sem er að finna í umfjöllun hans um sakagiftir samkvæmt ákærukafla I þykir ákæruvaldið hafa fært fyrir því sönnur, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærðu Halldóra, Gunnar og Pálmi hafi gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærukafla II og að með henni hafi þau brotið gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærukafli III, upptökukröfur:

Samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta. Sama gildir um muni sem keyptir eru fyrir ávinninginn eða komið hafa í stað hans. Þá er á um það kveðið í 1. mgr. 69. gr. b. að gera megi upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot þegar 1) brotið er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og 2) það getur varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi.

Af framlögðum gögnum má skýrlega ráða að þá haldlögðu fjármuni sem krafist er upptöku á í ákærulið III a) megi rekja til hinna óupplýstu fjársvika. Kröfunni hefur ekki verið andmælt af hálfu ákærða Pálma. Um er að ræða hluta þeirrar fjárhæðar sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] hinn 22. febrúar 2016 og var að fjárhæð 22.252.196 krónur. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu þykja uppfyllt lagaskilyrði svo fallist verði á upptökukröfu ákæruvalds á innistæðu að fjárhæð kr. 20.755.897 á bankareikningi nr.  [5] sem stofnaður var af héraðssaksóknara til að varðveita fjármuni sem haldlagðar voru á bankareikningi ákærða Pálma nr. [4] hjá Arion banka hf. 2. mars 2016. Ákærði sæti jafnframt upptöku á áföllnum vöxtum og verðbótum á fjárhæðina frá nefndum degi.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærða Gunnars fyrir dómi að þeir haldlögðu fjármunir sem krafist er upptöku á í lið III b) í ákæru eru hluti þeirrar fjárhæðar sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] og var að fjárhæð 31.599.105 krónur. Þá fjármuni má því rekja til hinna óupplýstu fjársvika. Ákærði Gunnar andmælir ekki upptökukröfu ákæruvalds hvað umrædda fjárhæð varðar. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu þykja vera uppfyllt lagaskilyrði svo fallist verði á kröfu ákæruvalds um upptöku á innstæðu að fjárhæð 939.788 krónur á bankareikningi nr. [6] hjá Arion banka hf. sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita þá fjármuni sem voru andvirði bifreiðarinnar [...] sem haldlögð var við rannsókn málsins og seld að ósk ákærða, en söluverð bifreiðarinnar var haldlagt 29. ágúst 2016. Ákærði sæti jafnframt upptöku á áföllnum vöxtum og verðbótum á fjárhæðina frá nefndum degi.

Ekkert haldbært liggur fyrir um tilurð þeirra 21.000 króna sem haldlagðar voru við húsleit á heimili ákærða 26. febrúar 2016 og upptökukrafa ákæruvalds samkvæmt lið III c) í ákæru tekur til. Verður því ekki á kröfuna fallist á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur fyrir samkvæmt framburði ákærða Gunnars fyrir dómi að hann tók sér 3,2 milljónir króna af þeirri fjárhæð sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. 29. janúar 2016, en tvöfalda þá fjárhæð kvaðst ákærði hafa tekið út af umræddum reikningi í reiðufé 3. febrúar 2016. Af þessu er ljóst að brot ákærða var til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga varða hins vegar einungis fangelsi allt að sex mánuðum. Eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði svo fallist verði á kröfu ákæruvalds um upptöku á innstæðu að fjárhæð 21.000 krónur á bankareikningi nr. [7] hjá Arion banka, sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita reiðufé sem var haldlagt við húsleit á heimili ákærða að [...] í Reykjavík 26. febrúar 2016. Þeirri kröfu ákæruvalds verður því hrundið.

Telja verður upplýst samkvæmt gögnum málsins og því sem rakið er hér að framan varðandi sakargiftir samkvæmt II. kafla ákæru að þeir haldlögðu fjármunir sem krafist er upptöku á í lið III d) í ákæru séu hluti þeirrar fjárhæðar sem hinn óþekkti aðili beindi inn á reikning RG verktaka ehf. nr. [2] og var að fjárhæð 22.252.196 krónur. Þá fjármuni má því rekja til hinna óupplýstu fjársvika. Ákærða Halldóra hefur ekki andmælt upptökukröfu ákæruvalds. Samkvæmt því og öðru framangreindu þykja uppfyllt lagaskilyrði svo fallist verði á kröfu ákæruvalds um upptöku á innstæðu að fjárhæð 773.770 krónur á bankareikningi nr. [8] hjá Landsbankanum sem stofnaður var af embætti héraðssaksóknara til að varðveita fjármuni sem haldlagðir voru í greiðslukerfi Western Union hjá Landsbankanum 4. mars 2016. Ákærða sæti jafnframt upptöku á áföllnum vöxtum og verðbótum á fjárhæðina frá nefndum degi.

E

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærðu Halldóru ekki áður verið gerð refsing. Ákærða er í málinu, líkt og meðákærðu, sakfelld fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Að virtum þeim fjárhæðum sem brot ákærðu vörðuðu og þess tjóns sem af brotunum leiddi, sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi. Í ljósi atvika málsins þykja ekki efni til þess að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar dæmdri refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærða sætti, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1940, frá 27. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða Pálma ekki áður verið gerð refsing. Brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar samkvæmt áðursögðu sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Með sömu rökum og að framan greinir varðandi ákvörðun refsingar ákærðu Halldóru þykir refsing ákærða Pálma hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi. Til frádráttar dæmdri refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1940, frá 26. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði Gunnar langan sakaferil að baki. Hefur hann meðal annars ítrekað sætt refsingum fyrir auðgunarbrot. Horfir þetta ákærða til refsiþyngingar, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til þess verður hins vegar að líta að ákærði gekkst fyrir dómi að talsverðu leyti við þeim sökum sem á hann eru bornar í málinu og þá var hann samstarfsfús við lögreglu undir rannsókn málsins og benti meðal annars á upplýsingar og gögn sem hjálpuðu lögreglu við rannsóknina, sbr. framburð Guðmundar Halldórssonar lögreglumanns fyrir dómi. Horfir þetta ákærða til málsbóta, sbr. 8. og 9. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu þessu heildstætt virtu, og að teknu tilliti til þeirra fjárhæða sem brot ákærða vörðuðu, þykir refsing hans réttilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi, sem engin efni þykja vera til að binda skilorði. Til frádráttar dæmdri refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1940, frá 26. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Í málinu liggur ekkert fyrir um að ákærða Craig hafi áður verið gerð refsing. Ákærði hafði einungis aðkomu að því broti sem ákæruliður I tekur til. Að virtri þeirri fjárhæð sem brot ákærða varðaði, þætti hans í brotinu og þess tjóns sem af brotinu leiddi, sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, sem í ljósi allra atvika málsins þykja ekki efni til að binda skilorði. Nægjanlegt þykir í ljósi lengdar hinnar dæmdu refsingar að kveða á um það í dómsorði að til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti hér á landi, sbr. 76. gr. laga nr. 19/1940, frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018 að fullri dagatölu.

F

Þar sem ákærðu eru öll sakfelld fyrir vægari brot en þeim eru gefin að sök í ákæru þykir rétt með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að gera hverju ákærðu um sig að greiða helming þóknunar verjenda sinna. Við mat á þóknun verjenda, er hæfilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir, er litið til umfangs málsins, þ.m.t. talið mikils umfangs skriflegra gagna, og einnig þess að ekki var lögð fram í málinu skýrsla lögreglu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, en svo sem málið er vaxið var það að ekki lá fyrir slíkt heildaryfirlit yfir rannsókn lögreglu og niðurstöður rannsóknarinnar til þess fallið að gera vinnu verjenda meiri en annars hefði orðið. Þá er sérstaklega tekið tillit til þess við ákvörðun þóknunar verjanda ákærða Craig að ákærði sætti gæsluvarðhaldi hér á landi frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018 og síðan farbanni frá þeim degi, sem óhjákvæmilega leiddi til aukinnar vinnu verjanda. Að endingu skal sérstaklega tekið fram að útlagður kostnaður verjanda ákærða Craig „vegna fatnaðar o.fl.“ getur ekki talist heyra til sakarkostnaðar í málinu samkvæmt 1. mgr. 233. gr. laga nr. 88/2008.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Kröfu ákærða Gunnars Rúnars Gunnarssonar um að öllum kröfum ákæruvalds á hendur honum verði vísað frá dómi er hafnað.

Ákærða Halldóra Guðrún Víglundsdóttir sæti fangelsi í fimm mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærða sætti frá 27. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Ákærði Pálmi Þór Erlingsson sæti fangelsi í fimm mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 26. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Ákærði Gunnar Rúnar Gunnarsson sæti fangelsi í fjóra mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 26. febrúar 2016 til 4. mars 2016 að fullri dagatölu.

Ákærði Craig Ideaho Osakapamwan sæti fangelsi í tvo mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018 að fullri dagatölu.

Ákærði Pálmi sæti upptöku á innstæðu að fjárhæð 20.755.897 krónur á bankareikningi nr. [5], sem haldlögð var á bankareikningi ákærða nr. [4] hjá Arion banka hf. 2. mars 2016, auk áfallinna vaxta og verðbóta á fjárhæðina frá þeim degi.

Ákærði Gunnar sæti upptöku á innstæðu að fjárhæð 939.788 krónur á bankareikningi nr. hjá Arion banka hf., andvirði bifreiðarinnar [...] sem haldlögð var undir rannsókn málsins. Ákærði sæti einnig upptöku á áföllnum vöxtum og verðbótum af greindri fjárhæð frá 29. ágúst 2016. Kröfu ákæruvalds um upptöku á innstæðu að fjárhæð 21.000 krónur á bankareikningi nr. [7] hjá Arion banka hf., en sú fjárhæð var haldlögð við húsleit á heimili ákærða að [...] í Reykjavík 26. febrúar 2016, er hafnað.

Ákærða Halldóra sæti upptöku á innstæðu að fjárhæð 773.770 krónur á bankareikningi nr. [8] hjá Landsbankanum, en sú fjárhæð var haldlögð í greiðslukerfi Western Union hjá Landsbankanum 4. mars 2016, auk áfallinna vaxta og verðbóta á fjárhæðina frá þeim degi.

Ákærða Halldóra greiði 2.529.600 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda hennar, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar lögmanns, sem í heild nemur 5.059.200 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði Pálmi greiði 2.798.060 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda hans fyrir dómi, Víðis Smára Petersen lögmanns, sem í heild nemur 4.490.040 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum, og helmingur þóknunar verjenda ákærða á fyrri stigum málsins, B lögmanns, sem í heild nemur 347.200 krónum, og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, sem í heild nemur 758.880 krónum, í báðum tilvikum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði Gunnar greiði 2.276.640 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda hans, Páls Kristjánssonar lögmanns, sem í heild nemur 4.553.280 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði Craig greiði 3.222.680 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda hans, Braga Björnssonar lögmanns, sem í heild nemur 6.366.160 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagður ferðakostnaður verjandans, 39.600 krónur.

           

Kristinn Halldórsson