• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, 12. apríl 2019, í máli nr. S-1/2019:

Ákæruvaldið

(Sonja H.Berndsen saksóknarfulltrúi)

gegn

Þorsteini Halldórssyni

(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. janúar 2019 á hendur Þorsteini Halldórssyni, Vallarási 2, Reykjavík, fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa mánudaginn 16. janúar 2017 utandyra við Hraunbæ 121 í Reykjavík, veist með ofbeldi að A, rifið í jakka hans með þeim afleiðingum að þeir féllu báðir í jörðina og slegið hann hnefahöggi í maga og í kjölfar þess hótað að drepa hann ef hann sæi hann aftur, en með háttsemi sinni beitti ákærði barnið ofbeldi, líkamlegum refsingum, hótunum, ógnunum, vanvirðandi hegðun og sýndi barninu yfirgang og ruddalegt athæfi. 

Er brot þetta talið varða við 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

            Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

           

            Miðvikudaginn 18. janúar 2017 mætti brotaþoli, ásamt föður sínum, til lögreglu til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Við það tækifæri var tekin lögregluskýrsla af brotaþola þar sem hann gerði grein fyrir atvikum. Lýsti hann því hvernig ákærði hefði veist að sér að tilefnislausu. Hafi hann rifið í brotaþola þannig að þeir féllu báðir í jörðina og slegið brotaþola í magann. Að auki hafi ákærði hótað brotaþola. 

            Á meðal gagna málsins er læknisvottorð sem sérfræðingur í heimilislækningum hefur ritað að beiðni lögreglu 16. febrúar 2017. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi leitað á læknavaktina 17. janúar 2017 í kjölfar líkamsárásar. Hann hafi komið síðdegis ásamt móður sinni og lýst því að hann hafi verið á gangi fyrir utan veitingastaðinn Dominos um kl. 18. Hafi hann verið búinn að drekka úr pappaglasi, sem hann hafi hent frá sér. Nærstaddur maður hafi undið sér að brotaþola og tekið utan um hann aftan frá. Spurning væri hvort brotaþoli hafi fengið högg í maga. Atlagan hafi tekið örstuttan tíma. Hafi maðurinn síðan sleppt brotaþola en sagt honum að taka pappaglasið og henda í ruslið. Brotaþoli hafi verið skoðaður við komu. Engin ytri áverkamerki hafi verið á húð og allar hreyfingar eðlilegar. Brotaþoli hafi borið sig vel þrátt fyrir allt. Framkoma hans hafi öll verið eðlileg og skýr og hafi hann gefið góða sögu. Brotaþoli hafi ekki leitað aftur á deildina. 

 

            Ákærði hefur skýrt svo frá að umrætt sinn hafi hann verið á leið út úr verslun Bónuss við Hraunbæ 121 í Reykjavík. Er hann hafi komið út hafi ungir strákar komið út af veitingastaðnum Dominos, en sá staður hafi verið við hliðina á verslun Bónuss. Mikið af glösum og diskum hafi verið um allt fyrir utan staðinn. Ungur drengur hafi verið á staðnum og hafi drengurinn hent rusli upp í loftið. Hafi ákærði gengið að drengnum og tekið í ermi hans. Hafi ákærði spurt drenginn hvort hann hafi ekki misst eitthvað. Drengurinn hafi sagt nei og öskrað á ákærða í tvígang að sleppa. Hafi drengurinn rifið hönd sína til baka. Ákærði hafi enn haldið í ermi drengsins þegar það var. Þeir hafi við þetta dottið í jörðina. Ákærði hafi ekki haldið í ermi drengsins af neinu offorsi, en drengurinn hafi verið vanstilltur. Ekki væri útilokað að við fallið hafi hönd ákærða rekist í magann á drengnum, en hann hafi, eins og áður sagði, haldið í ermi drengsins. Hafi ákærði lent ofan á drengnum við fallið. Drengurinn hafi rokið á fætur og sagt að hann ætlaði að kæra ákærða. Ákærði kvaðst aldrei hafa hótað drengnum neinu. Drengurinn hafi verið samferða öðrum dreng. Sá hafi ekki verið sjáanlegur á meðan á þessu stóð.

            Brotaþoli kvaðst hafa verið samferða vini sínum þennan dag. Er þeir hafi gengið fram hjá Dominos hafi þeir fengið sér vatn að drekka úr pappaglösum. Er brotaþoli hafi komið út af staðnum hafi hann hent pappaglasinu í jörðina. Ákærði hafi komið að honum. Hafi ákærði hlaupið á brotaþola og tekið hann niður. Liggjandi í jörðinni hafi brotaþoli fengið högg í magann. Hafi annað hvort verið um hné eða hnefa ákærða að ræða. Hafi ákærði skipað brotaþola að taka upp rusl er brotaþoli hafi hent. Hafi ákærði sagt að hann myndi drepa brotaþola ef hann sæi hann aftur. Aðstaðan hafi verið mjög óþægileg og brotaþoli orðið mjög hræddur við ákærða. Hafi hann tekið ýmiss konar rusl og sett í ruslafötu. Brotaþoli hafi farið heim til sín og sagt móður sinni frá því hvað hafi komið fyrir. Um kvöldið hafi þau hringt í lögreglu til að láta vita af málinu. Þau hafi síðan mætt í skýrslutöku næsta dag. Eins hafi brotaþoli farið næsta dag á læknavaktina.

            Vinur brotaþola, sem var samferða brotaþola þennan dag, lýsti því að vitnið og brotaþoli hefðu farið inn á Dominos til að fá sér vatn. Fyrir utan hafi einhver komið aftan að brotaþola og ráðist á hann. Vitnið hafi orðið mjög hrætt við árásina og hlaupið á brott. Hafi vitnið því einungis séð er þessi maður hafi ráðist á brotaþola. Maðurinn hafi komið aftan að brotaþola og tekið hann niður í jörðina. Þegar það hafi atvikast hafi vitnið staðið um metra frá brotaþola. Ekki hafi vitnið heyrt hvort maðurinn og brotaþoli hafi sagt eitthvað hvor við annan, en vitnið hafi farið strax af vettvangi þar sem hann hafi óttast ákærða. 

            Faðir brotaþola kom fyrir dóminn og lýsti því að móðir brotaþola hefði hringt í sig umrætt sinn og sagt sér frá því að maður hefði ráðist á brotaþola. Hafi vitnið farið heim og rætt við brotaþola. Brotaþoli hafi greinilega verið í sjokki. Vitnið hafi hringt í lögreglu vegna málsins til að unnt yrði að finna manninn. Hafi lögregla bent vitninu á að koma næsta dag og leggja fram kæru. Vitnið hafi farið næsta dag, ásamt brotaþola, þar sem kæra hafi verið lögð fram. Umrætt atvik hafi haft nokkur áhrif á brotaþola. Hafi hann orðið daufari en venjulega. Líðanin hafi svo farið batnandi og liði brotaþola betur í dag.

            Móðir brotaþola kvað hann hafa hringt í sig þennan dag og sagt að ráðist hefði verið á sig úti á götu. Hafi vitnið spurt um nánari atvik og brotaþoli sagt að maður hafi hrint sér í jörðina og þar sem brotaþoli hafi legið í jörðinni hafi verið sparkað eða slegið í magann á honum. Hafi maðurinn síðan látið brotaþola taka upp rusl og henda, einnig rusl er brotaþoli hafi ekki borið neina ábyrgð á. Hafi brotaþoli sagt að maðurinn hefði sagt að ef hann sæi hann aftur myndi hann drepa hann. Er vitnið hafi hitt brotaþola hafi brotaþoli sagt að hann væri fínn. Hann hafi hins vegar augljóslega verið stressaður. Hafi vitnið lagt til að þau myndu aka um og sjá hvort þau fyndu ekki þennan mann. Hafi brotaþola liðið illa með það og reynt að fela sig í bifreiðinni er þau hafi ekið um. Hafi vitnið farið að sjoppu þar sem atvikið hafi átt að eiga sér stað og beðið um að fá að sjá myndir úr eftirlitsmyndavél til að bera kennsl á manninn. Hafi vitninu verið heimilað að horfa á upptökur. Brotaþoli hafi ekki verið sáttur við þetta atvik. Hafi hann í upphafi verið í sjokki. Hafi vitnið rætt við móður vinar brotaþola, sem var samferða brotaþola þennan dag. Hafi móðirin sagt að sonur hennar hafi hlaupið á brott af hræðslu. Hafi hann verið í mjög alvarlegu kvíðakasti vegna atburðarins.

            Læknir er ritað hefur læknisvottorð vegna brotaþola staðfesti vottorð sitt. Fram kom að vitnið hefði tekið niður frásögn brotaþola af atvikum og skráð í vottorð sitt. Vitnið hafi skoðað brotaþola, sem ekki hafi verið með sýnilega áverka. Hafi brotaþoli borið sig nokkuð vel.  

 

            Niðurstaða:

Ákærða er gefin að sök líkamsárás, hótanir og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa veist með ofbeldi að brotaþola, rifið í jakka hans með þeim afleiðingum að þeir féllu báðir í jörðina og hafa slegið hann hnefahöggi í maga og í kjölfar þess hótað að drepa hann ef hann sæi hann aftur. Er ákærða gefið að sök að hafa með háttsemi sinni beitt barnið ofbeldi, líkamlegum refsingum, hótunum, ógnunum, vanvirðandi hegðun og að hafa sýnt barninu yfirgang og ruddalegt athæfi. Er brotið talið varða við 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa haft afskipti af brotaþola umrætt sinn og að hafa gripið í jakka hans. Þeir hafi runnið til og fallið í jörðina þannig að ákærði hafi fallið ofan á brotaþola. Væri ekki útilokað að hönd ákærða hafi rekist í brotaþola við fallið. Ákærði hafi ekki hótað brotaþola en hann hafi spurt drenginn hvort hann hafi ekki misst eitthvað. Ákærði hafi ekki slegið brotaþola.

Brotaþoli og skólafélagi hans, sem var samferða brotaþola þennan dag, bera báðir að maður hafi ráðist á brotaþola þannig að brotaþoli hafi fallið í jörðina. Skólafélaginn kveðst hafa orðið hræddur og hlaupið strax á brott af vettvangi. Hafi hann því ekki séð framvinduna. Brotaþoli kveður ákærða hafa slegið eða sparkað í magann á sér eftir að brotaþoli féll í jörðina og hótað sér lífláti ef hann sæi brotaþola aftur. Hafi brotaþoli orðið hræddur við ákærða.

Ákærði vék sér að fyrra bragði að brotaþola utandyra við Dominos í Hraunbæ í Reykjavík mánudaginn 16. janúar 2017. Brotaþoli var þá einungis 12 ára að aldri. Ákærði hefur viðurkennt að hafa gripið í ermi brotaþola, en ætla verður að ákærði hafi með því að minnsta kosti ætlað að stöðva för brotaþola þar sem brotaþoli var að henda frá sér rusli. Sú aðferð ákærða að hefta för ungmennisins á þennan máta var með öllu ástæðulaus og ámælisverð. Brotaþoli og vinur hans, báðir ungir að árum, þekktu ákærða ekki neitt og urðu eðlilega mjög hræddir við framferði hans. Ákærði og brotaþoli féllu báðir í jörðina og verður það rakið til háttsemi ákærða.

Ákærði bar fyrir dóminum að höndin á honum hefði getað rekist í brotaþola í fallinu. Hann greindi ekki frá því við lögregluyfirheyrslu. Er hér um mikilvægt atriði að ræða. Misræmi um þetta atriði dregur úr trúverðugleika framburðar ákærða. Brotaþoli hefur verið trúverðugur í framburði sínum fyrir dóminum og sjálfum sér samkvæmur. Hefur hann frá upphafi staðhæft að ákærði hafi hótað að drepa hann ef hann sæi hann aftur. Verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar um það atriði. Eins verður trúverðugur framburður brotaþola lagður til grundvallar um að ákærði hafi annað hvort slegið eða sparkað í maga brotaþola, en ákærði hefur lýst því að ekki sé útilokað að höndin á sér hafi rekist í maga brotaþola í fallinu. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi, líkamlegum refsingum, hótunum og ógnunum, vanvirðandi hegðun og að hafa sýnt barninu yfirgang og ruddalegt athæfi. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í maí 1966. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af framferði ákærða umrætt sinn er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Með hliðsjón af brotinu og sakaferli ákærða þykir unnt að skilorðsbinda refsinguna með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Ákærði greiði sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sonja H. Berndsen saksóknarfulltrúi.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, Þorsteinn Halldórsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.        

            Ákærði greiði 393.090 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 379.440 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason