• Lykilorð:
  • Skuldamál

            Ár 2018, föstudaginn 2. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp dómur í máli nr. E-255/2016:

 

                                                                  Landsbankinn hf.

                                                                  (Jón Páll Hilmarsson lögmaður)

                                                                  gegn

                                                                  Yutong Eurobus ehf.

                                                                  (Flóki Ásgeirsson lögmaður)

                                                                 

                                                                 

         Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð þann 5. október 2018, er höfðað með stefnu birtri 15. september 2016.

         Stefnandi er Landsbankinn hf.,  Austurstræti 11, Reykjavík vegna Landsbankans hf., Selfossi, Austurvegi 20, Selfoss.

         Stefndi er Yutong Eurobus ehf.,  Fossnesi C, Selfoss, fyrirsvarsmaður Úlfur Björnsson, Þórsmörk 9, Hveragerði.

         Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 16.271.253,00, ásamt 13,25% yfirdráttarvöxtum frá lokunardegi reiknings þann 11.08.2016 til 15.09.2016 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 16.271.253,00 frá 15.09.2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur.  Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu í samræmi við heimildir.

         Dómkröfur stefnda eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að stefnukröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst stefndi að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Með úrskurði dómsins 1. mars 2017 var frávísunarkröfu stefnda hafnað, en stefndi heldur þó kröfunni fram sem áður, en ekki var fjallað um hana sérstaklega við aðalmeðferð málsins.

        

        

         Málavextir

         Samkvæmt framlögðum gögnum sótti stefndi um að opna veltureikning hjá stefnanda þann 30. júní 2007 og skv. áritun var umsóknin samþykkt af stefnda þann 29. júní 2007. Var reikningurinn nr. 0152-26-000797, en skv. reikningaskrá stefnanda var reikningnum lokað og var síðasta hreyfing á honum 11. ágúst 2016 og síðasta útskrift 29. júlí s.á., en dagsetning vanskila sögð 27. apríl 2016 og yfirdráttur kr. 16.271.253, sem er stefnufjárhæð málsins. Samkvæmt téðu yfirliti úr reikningaskránni er skuldavaxtaprósenta tilgreind 13,25.

            Þá hefur verið lögð fram innheimtuviðvörun stefnanda til stefnda, dagsett 6. maí 2016, þar sem tilkynnt er um óheimilan yfirdrátt á téðum reikningi, í vanskilum frá 27. apríl 2016. Yfirdráttarskuld á reikningnum sé kr. 16.144.353, en þar af séu kr. 2.144.353 umfram heimild. Er því beint til stefnda að gera skil á fénu, en verði skuldin ógreidd 21 degi eftir fyrstu vanskil verði skuldin sett í milliinnheimtu og kostnaður vegna hennar sé skv. verðskrá bankans.

            Þann 15. ágúst 2016 var stefnda sent innheimtubréf vegna þessa þar sem vísað er til téðs höfuðstóls og bætt við hann dráttarvöxtum til 15. ágúst 2016 ásamt innheimtuþóknun, alls kr. 16.729,660. Er þar skorað á stefnda að greiða innan 7 daga, en ella verði krafan innheimt með atbeina dómstóla og/eða sýslumanns. 

            Þá hefur verið lagt fram töluvert af tölvupóstum, reikningsyfirlitum og ýmsum gögnum sem ekki verður sérstaklega gerð grein fyrir hér, en af þeim má m.a. ráða að stefndi hafi verið í viðskiptum við erlenda aðila varðandi innflutning á strætisvögnum og óskað eftir aðkomu stefnanda vegna fjármögnunar á þeim viðskiptum, en það ekki gengið eftir skv. óskum stefnda.

 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir mál sitt á því að stefndi hafi verið með reikning nr. 797 frá því árinu 2007. Upphaflega við Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankann hf.

         Hafi stefnda verið veitt heimild til að draga á reikninginn, gegn greiðslu vaxta og kostnaðar, samkvæmt framlögðum skilmálum og vaxtatöflum stefnanda. Heimild stefnda hafi runnið út og hafi reikningnum verið lokað af þeim sökum þann 11. ágúst 2016. Þegar reikningnum hafi verið lokað hafi skuldin numið kr. 16.271.253,00, sem sé stefnufjárhæðin. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf þann 15. ágúst 2016. Krafist sé yfirdráttarvaxta frá lokun reiknings til þess dags þegar mánuður er liðinn frá dagsetningu innheimtubréfs, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.

         Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

         Hvað aðild Landsbankans hf. varðar kveður stefnandi að Fjármálaeftirlitið (FME), hafi með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 000000-0000, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 000000-0000, (nú Landsbankinn hf., kt. 000000-0000) sé dagsett þann 9. október 2008.

         Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera  virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.

          

Málsástæður og lagarök stefnda

Frávísunarkrafa

Vegna frávísunarkröfu sinnar, sem hann hefur enn uppi í málinu, byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður. Í framlögðum gögnum, sem stafi frá stefnanda, sé reynt að renna stoðum undir fjárhæð kröfunnar. Ekki sé betur að þessu staðið en svo að í málinu liggi aðeins fyrir eitt skjal sem sé ætlað að sanna réttmæti kröfu stefnanda. Í skjalinu sé að finna stefnufjárhæð málsins án sundurliðunar. Þannig liggi hvorki fyrir yfirlit um hreyfingar á veltureikningi stefnda né yfirlit um úttektir af reikningnum heldur einungis ósundurliðuð meint heildarskuld. Stefndi kannist ekki við að heildarskuld hans gagnvart stefnanda nemi þessari fjárhæð. Honum sé að sama skapi ókleift að leggja mat á stefnufjárhæð málsins með hliðsjón af framlögðum gögnum stefnanda. Af þessu leiði að nefnt skjal sé með öllu ófullnægjandi grundvöllur fyrir því að fallist verði á greiðsluskyldu stefnda og önnur gögn málsins bæti ekki úr þessum annmörkum.

Framangreindir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda séu til þess fallnir að bitna á vörnum stefnda í málinu og geri það að verkum að grundvöllur málsins sé óskýr. Þannig hafi stefnandi hvorki gert viðhlítandi grein fyrir uppruna kröfu sinnar né hvernig fjárhæð hennar er reiknuð út en honum sé skylt að gera skýrlega grein fyrir þessum atriðum í stefnu sinni.

 

Sýknukrafa

Fallist dómurinn ekki á frávísun málsins byggir stefndi sýknukröfu sína aðallega á þeim grundvelli að krafa stefnanda sé með öllu ósönnuð. Stefnandi hafi ekki sundurliðað kröfu sína, sannað uppruna hennar eða gert grein fyrir því hvernig fjárhæð hennar sé fundin út. Ekki verði séð að framlögð gögn stefnanda geti talist færa sönnur á þá skuld sem stefndi er krafinn um greiðslu á og sé stefnufjárhæð málsins því með öllu ósönnuð.

Stefnandi hafi ekki heimild til að krefjast greiðslu hinnar meintu skuldar.

Í málsatvikalýsingu stefnanda sé tekið fram að heimild stefnda hafi runnið út og að veltureikningnum hafi verið lokað af þeim sökum þann 11. ágúst 2016. Stefndi andmælir því að heimild hans hafi runnið út og bendir á að framlögð gögn stefnanda beri ekki með sér að heimild stefnda hafi runnið út og hafi stefnandi ekki fært fram neinar röksemdir fyrir heimild sinni til þess að loka reikningnum.

Stefnandi hafi gjaldfellt skuld stefnda án tilefnis og án heimildar og krefjist nú greiðslu höfuðstóls hennar ásamt tilgreindum viðbótarkröfum. Um heimildir stefnanda til gjaldfellingar skuldarinnar fari eftir almennum skilmálum veltureikninga sem hafi verið lagðir fram í málinu. Með hliðsjón af efni nefndra skilmála virðist stefnandi byggja heimildir sínar til gjaldfellingar á að stefndi hafi lent í vanskilum með eina eða fleiri skuldbindingar við stefnanda. Stefndi bendir á að framlögð gögn beri ekki með sér að um vanskil hafi verið að ræða og ekkert liggi fyrir um að stefndi hafi dregið á veltureikning sinn umfram umsamda yfirdráttarheimild.

Þar sem lögmæt gjaldfelling sé forsenda þess að stefndi verði krafinn um greiðslu höfuðstóls skuldarinnar og ekkert liggi fyrir um hvort viðkomandi gjaldfelling hafi verið lögmæt með hliðsjón af framlögðum gögnum, sé ekki komin fram nægileg sönnun fyrir því að stefnanda sé heimilt að krefja stefnda um greiðslu stefnufjárhæðarinnar. Að sama skapi beri framlögð gögn ekki með sér að stefndi sé í vanskilum með eina eða fleiri skuldbindingar og geti ósundurliðað skjal, þar sem einungis stefnufjárhæð málsins sé tilgreind, ekki talist fullnægjandi sönnun um vanefndir stefnda og þar með heimildir stefnanda til gjaldfellingar.

Stefnanda hefði verið í lófa lagið að gera skýrari grein fyrir heimildum sínum til gjaldfellingar lánsins, þá með vísun til tilgreindra ákvæða í skilmálum eða sundurliðun af hreyfingum á veltureikningi stefnda. Í framlögðum gögnum liggi hins vegar ekkert fyrir um þessi atriði og sé því ósannað að stefnandi hafi heimild til að krefjast greiðslu höfuðstóls skuldarinnar.

Að auki bendir stefndi á að í umsókn stefnda um stofnun veltureiknings, sem var samþykkt árið 2007, sé tekið fram að stefndi hafi samþykkt þá skilmála sem um veltureikninginn giltu og að hann hefði þegar kynnt sér þá skilmála. Stefndi sjái ekki betur en að framlagðir skilmálar stefnanda séu nr. 1516-02 og að þeir hafi tekið gildi í mars 2012.

Þar sem framlagðir skilmálar hafi tekið gildi í mars 2012 sjái stefndi ekki hvaða máli þeir skipti í tengslum við þetta mál þar sem um heimildir stefnanda sem lánveitanda fari eftir skilmálunum eins og þeir hafi verið þegar veltureikningur stefnda var opnaður, þ.e. í júní 2007. Þar sem umræddir skilmálar hafi ekki verið lagðir fyrir dóminn sé með öllu ósannað að stefnandi hafi haft heimildir til að gjaldfella lánið með þeim hætti sem gert hafi verið í málinu.

 

Lækkunarkrafa

Verði ekki fallist á frávísunar- eða sýknukröfur stefnda, gerir stefndi þá kröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð.

Vísar stefndi til þess að stefnufjárhæð málsins sé byggð á röngum útreikningi, að stefnanda sé óheimilt að reikna yfirdráttarvexti og dráttarvexti með þeim hætti sem tiltekið sé í kröfugerð hans og að óheimilt sé að líta til innheimtukostnaðar við ákvörðun málskostnaðar þar sem brotið hafi verið gegn ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008.

Stefndi vísar til þess að stefnandi krefjist 13,25% yfirdráttarvaxta frá lokun reiknings, þann 15. ágúst 2016, til 15. september 2016. Stefndi geti ekki ráðið af framlögðum gögnum málsins hvernig stefnandi fái út framangreint prósentustig en hvergi sé þar tekið fram að yfirdráttarlán skuli bera 13,25% yfirdráttarvexti frá lokun reiknings. Stefndi fái heldur ekki séð við hvaða heimildir þessir yfirdráttarvextir styðjist og mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu þessara vaxta.

Kveður stefndi að í málsatvikalýsingu stefnanda sé vísað til innheimtubréfs sem hafi verið sent fyrir hönd stefnanda til stefnda þann 15. ágúst 2016. Stefnandi krefjist dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður var liðinn frá dagsetningu innheimtubréfsins, þ.e. frá 15. september 2016. Ljóst sé að stefnandi byggi kröfu sína um dráttarvexti á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu þar sem ekki hafi verið samið um gjalddaga kröfunnar. Í 3. mgr. 5. gr. nefndra laga sé tekið fram að heimilt sé að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Stefndi kannast hins vegar ekki við hafa móttekið innheimtubréfið og framlögð gögn beri ekki með sér að svo hafi verið; ekki hafi verið lagt fram birtingarvottorð eða ferill ábyrgðarbréfs sem sýni fram á móttöku stefnda á nefndu bréfi.

Að framangreindu virtu kveðst stefndi mótmæla því að krafa stefnanda skuli bera dráttarvexti frá 15. september 2016 og vísar til þess að krafan, ef á hana verður fallist, skuli fyrst bera dráttarvexti frá dómsuppsögu.

Varðandi innheimtukostnað kveður stefndi að í framlögðum gögnum liggi fyrir tvö skjöl sem skýri feril innheimtuaðgerða stefnanda gagnvart stefnda; annars vegar dómskjal sem ber yfirskriftina ,,Innheimtuviðvörun“, og hins vegar dómskjal sem ber yfirskriftina ,,Innheimtubréf lögmanns stefnanda“. Um gildi og efni þessara innheimtuaðgerða fari eftir innheimtulögum nr. 95/2008. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra laga gildi þau um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna sé tekið fram að með fruminnheimtu sé átt við innheimtuviðvörun skv. 7. gr. og með milliinnheimtu sé átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið innheimtuviðvörun skv. 7. gr. og áður en löginnheimta hefst.

Í 7. gr. laganna, sem beri yfirskriftina ,,Innheimtuviðvörun“ sé mælt fyrir um hvernig kröfuhafi skuli standa að gerð innheimtuviðvörunar. Ekki sé hægt að skilja framlögð gögn stefnanda á annan hátt en að „innheimtuviðvörun“ sé innheimtuviðvörun stefnanda til stefnda. Í 1. mgr. 7. gr. laganna sé tekið fram að eftir gjalddaga kröfu skuli kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar. Í innheimtuviðvöruninni sé tekið fram að meintur óheimill yfirdráttur hafi verið í vanskilum frá 27. apríl 2016. Með hliðsjón af efni innheimtuviðvörunarinnar, sem sé dagsett þann 5. maí 2016, virðist stefnandi ganga út frá því sem gefnu að gjalddagi kröfunnar sé kominn.

Erfitt sé að henda reiður á þær röksemdir sem liggi að baki þeim skilningi stefnanda að gjalddagi kröfunnar hafi verið kominn þegar nefnd innheimtuviðvörun hafi verið send. Þetta megi hvorki leiða af þeim almennu skilmálum sem liggi frammi í málinu, né öðrum framlögðum gögnum. Einnig þykir stefnda innheimtuviðvörunin einkennileg með hliðsjón af síðari innheimtuaðgerðum en í dómskjali sem ber yfirskriftina ,,Innheimtubréf lögmanns stefnanda“, sé tekið fram að gjalddagi kröfunnar hafi verið þann 11. ágúst 2016.

Með hliðsjón af framangreindu hafi innheimtuviðvörun stefnanda verið send stefnda áður en gjalddagi kröfunnar hafi verið kominn og í andstöðu við 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Einnig sé rétt að benda á að innheimtuviðvörun stefnanda sé einnig í andstöðu við a. lið 2. mgr. 7. gr., þar sem kennitala og heimilisfang kröfuhafa sé ekki tilgreint, c. lið 2. mgr. 7. gr., þar sem ekki sé sundurliðað hver sé höfuðstóll kröfunnar eða hverjar séu viðbótarkröfur.

Þá sé það ónefnt að innheimtuviðvörun stefnanda beri ekki með sér hvers sé krafist, þ.e. hvort krafist sé greiðslu á því sem hafi verið umfram heimild eða kröfunnar í heild sinni. Eðlilegt hljóti að teljast að innheimtubréf, sem stafa frá viðskiptabanka, beri skýrt með sér hvers er krafist. Að auki sé rétt að tiltaka að nefnt ,,Innheimtubréf lögmanns stefnanda“ falli ótvírætt undir löginnheimtu í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna, sem skuli ávallt hefjast eftir að skuldara hafi borist gild innheimtuviðvörun í skilningi 7. gr. laganna.

Með hliðsjón af ofangreindu hafi stefndi aldrei verið viss um hvers stefnandi hafi verið að krefjast af honum, þ.e. hvort honum væri einungis skylt að greiða hinn meinta óheimila yfirdrátt eða höfuðstól skuldarinnar. Afstaða bankans hafi ekki legið skýrt fyrir fyrr en gerð hafi verið krafa um greiðslu höfuðstóls lánsins, ásamt viðbótarkröfum, þann 15. ágúst 2016 með innheimtubréfi þar að lútandi.

Með vísan til ofangreindra röksemda andmælir stefndi því að við ákvörðun málskostnaðar skuli tekið tilliti til innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu. Stefndi vísar þessu til stuðnings til 3. máls. 1. mgr. 11. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Þar sé tekið fram að ef brotið hefur verið gegn 7. gr. laganna, þannig að innheimtuviðvörun þjóni ekki tilgangi sínum, verði skuldari aðeins krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar.

Stefndi kveðst byggja á meginreglum íslensks réttarfars um skýra kröfugerð sem fái m.a. stoð í stafliðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Þá vísar stefndi einnig til meginreglna laga um meðferð einkamála um sönnun og sönnunarbyrði, innheimtulaga nr. 95/2008 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málskostnaðarkrafa stefnda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

           

            Forsendur og niðurstaða

            Eins og að framan greinir er aðalkrafa stefnda sú að máli þessu verði vísað frá dómi, en þeirri kröfu hefur þegar verið hafnað með úrskurði dómsins og hafa ekki verið færðar fram aðrar málsástæður vegna þeirrar kröfu en sem áður hefur verið tekin afstaða til. Verður kröfu stefnda um frávísun því hafnað á ný og er óþarft að fjalla frekar um hana.

            Að frágenginni kröfu um frávísun krefst stefndi aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

            Í greinargerð sinni færir stefndi fram þá málsástæðu fyrir sýknukröfu sinni að krafa stefnanda sé öll ósönnuð og ekki hafi hún verið sundurliðuð á neinn hátt. Ekki liggi neitt fyrir um uppruna hennar eða hvernig fjárhæðin sé fundin út. Á þessa málsvörn verður ekki fallist. Hafa verið lögð fram í málinu reikningsyfirlit, heimildaryfirlit og vaxtanótur um téðan reikning. Á reikningsyfirliti kemur fram að þann 11. ágúst 2016 hafi reikningurinn verið í mínus um kr. 16.271.253. Hefur ekkert komið fram um að þau gögn séu röng og hefur þeim ekki verið hnekkt á neinn hátt. Þá liggur fyrir og hefur ekki annað komið fram en að reikningsyfirlit hafi verið send stefnda, en á þeim segir ætíð að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga, en teljist ella rétt.

            Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki heimild til að krefjast greiðslu hinnar meintu skuldar, enda liggi ekki fyrir að heimild stefnda hafi runnið út og að stefnandi hafi haft heimild til að loka reikningnum. Í umsókn stefnanda um veltureikninginn staðfestir hann að hafa kynnt sér og fengið afhenta almenna skilmála veltureikninga og muni í einu og öllu fara eftir ákvæðum þeirra. Í framlögðum skilmálum um veltureikninga, frá mars 2012, segir að yfirdráttarheimild skuli vera bundin við ákveðinn gildistíma. Dragi reikningseigandi á veltureikninginn umfram umsamda yfirdráttarheimild sé stefnanda heimilt að fella yfirdráttarheimildina niður fyrirvaralaust og án uppsagnar. Þá kemur þar fram að bankanum sé hvenær sem er heimilt að krefjast fullnægjandi tryggingar að mati bankans. Komi til þess að trygging bankans rýrni eða teljist ekki fullnægjandi að mati bankans sé reikningseiganda skylt að leggja fram nýja tryggingu. Verði reikningseigandi ekki við því innan 10 daga sé bankanum heimilt að fella niður yfirdráttarheimildina í heild eða að hluta og gjaldfella ádregna stöðu án frekari fyrirvara eða uppsagnar. Í gögnum málsins kemur fram, m.a. reikningsyfirlitum, að lengi var yfirdráttarehimild stefnda kr. 16.000.000, en eftir marsmánuð 2016 lækkar hún. Yfirdráttarheimildin var ávallt tímabundin skv. gögnum málsins. Í september 2015 eiga sér stað tölvupóstsamskipti þar sem fram kemur að starfsmaður stefnda hafi verið að óska eftir framlengingu yfirdráttarheimildarinnar og eru þau tölvupóstsamskipti milli stefnda og Benedikts Guðmundssonar framkvæmdastjóra stefnda. Í framhaldinu eru svo tölvupóstar t.d. 1. apríl og 18. maí 2016 þar sem fram kemur að stefndi hafi samþykkt að framlengja yfirdráttarheimild, en þó þannig að hún myndi lækka um 2 milljónir á mánuði, en jafnframt kemur fram í tölvupóstinum 18. maí 2016 að reikningurinn sé yfirdreginn umfram heimildir um 2,2 milljónir og farið fram á að honum verði komið í skil. Í tölvupósti 22. júlí 2016 kemur fram að framkvæmdastjóri stefnda sé meðvitaður um að stefnandi sé að hefja innheimtu á kröfum sínum gagnvart stefnda. Þá eiga sér stað nokkur önnur tölvupóstsamskipti sem enda með því að um mánaðamótin ágúst/september 2016 fær stefndi endanlegt afsvar með frekari fyrirgreiðslu hjá stefnanda. Verður því ekki fallist á það með stefnda að yfirdráttarheimildin hafi ekki runnið út, en með því að hún gerði það og var ekki framlengd, þá liggur í hlutarins eðli að stefnanda var heimilt að krefja stefnda um greiðslu þeirrar skuldar sem fólst í yfirdrætti reikningsins. Stefndi hefur borið fyrir sig að stefnanda hafi ekki verið heimilt að gjaldfella lánið. Ekki er um að ræða eiginlega gjaldfellingu láns, heldur yfirdráttarheimild sem rann út og var ekki endurnýjuð. Er því ekki hald í málsástæðum um óheimila gjaldfellingu.

            Stefndi hefur vísað til þess að ekki liggi fyrir hverjir hafi verið viðskiptaskilmálar á umræddum reikningi og bendir á að einungis liggi fyrir skilmálar frá marsmánuði 2012. Dómurinn lítur svo á að með því að hafa téðan reikning í bankanum þá hafi stefndi undirgengist þá skilmála sem um hann giltu hverju sinni, en þegar hann sótti um reikninginn þá staðfesti hann að hafa kynnt sér skilmálana. Þá verður ekki séð að stefndi hafi nokkru sinni fyrr en til málshöfðunar kom borið fyrir sig að hafa ekki þekkt skilmála sem um reikninginn giltu, en hann mátti ekki vænta þess að þurfa ekki að greiða upp yfirdrátt samkvæmt yfirdráttarheimild sem ekki var endurnýjuð.

            Vegna lækkunarkröfu sinnar vísar stefndi til þess að krafan sé byggð á röngum útreikningi, óheimilt sé að reikna yfirdráttarvexti og dráttarvexti svo sem gert sé, og óheimilt sé að líta til innheimtukostnaðar við ákvörðun málskostnaðar þar sem brotið hafi verið gegn ákvæðum innheimtulaga.

            Stefndi hafði umræddan reikning hjá stefnanda um árabil. Ekki gat hann vænst þess að þurfa ekki að greiða vexti af yfirdrættinum, en í öllum vaxtanótum sem liggja fyrir í málinu kemur fram hvernig yfirdráttarvextirnir voru og liggur ekki annað fyrir en að þær hafi borist stefnda, en jafnframt er tekið fram í þeim að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga. Ekki hefur komið fram að stefndi hafi þá haft athugasemdir. Verður að líta svo á að með þessu hafi í raun verið samningur milli aðila um yfirdráttarvextina. Þá verður ekki annað séð en að heimilt hafi verið að krefja stefnda um yfirdráttarvexti eftir að yfirdráttarheimildin rann út og var ekki endurnýjuð, en vaxtaákvörðun stefnanda frá þessum tíma hefur verið lögð fram og ekki annað sjáanlegt en að yfirdráttarvextirnir séu í samræmi við hana, en ekki var þess að vænta að á þeim tíma féllu yfirdráttarvextir niður.

            Stefndi kveðst ekki hafa fengið innheimtubréf 15. ágúst 2016 og því verði hann ekki krafinn um dráttarvexti frá 15. september s.á., enda sé dráttarvaxtakrafan ljóslega byggð á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Um þetta hefur stefnandi vísað til þess að stefndi hafi vitað um innheimtuna og sé langlíklegast að bréfið hafi borist honum. Að mati dómsins er ósannað að stefnandi hafi með umræddu bréfi krafið stefnda um greiðslu og verður að miða upphaf dráttarvaxta við seinna tímamark og verður þá að horfa til stefnubirtingar 15. september 2016 og mánuð eftir hana, þ.e. 15. október 2016 sem upphaf dráttarvaxta.

            Vegna innheimtukostnaðar byggir stefndi á því að við ákvörðun málskostnaðar megi ekki taka tillit til fyrri innheimtu og innheimtukostnaðar fyrir löginnheimtu, en innheimtuviðvörun hafi verið send stefnda áður en gjalddagi hafi verið kominn, en það sé í andstöðu við tilvísuð ákvæði innheimtulaga nr. 95/2008. Í stefnufjárhæð er innheimtukostnaður ekki innifalinn, en málskostnaður verður skv. XXI. kafla laga nr. 91/1991 ákveðinn í einu lagi. Fallast ber hins vegar á það með stefnda að svokölluð innheimtuviðvörun var send fyrir gjalddaga, en það er ekki skv. 1. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

            Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umstefndu fjárhæð ásamt 13,25% yfirdráttarvöxtum frá lokunardegi reiknings þann 11. ágúst 2016 til 15. október 2016 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 16.271.253 frá þeim degi til greiðsludags.

            Þá verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 1.461.532 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Frávísunarkröfu stefnda, Yutong Eurobus ehf., er hafnað.

Stefndi greiði stefnanda, Landsbankanum hf., kr. 16.271.253, ásamt 13,25% yfirdráttarvöxtum frá 11. ágúst 2016 til 15. október 2016 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 1.461.532 í málskostnað.

           

                                                                        Sigurður G. Gíslason