• Lykilorð:
  • Hraðakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. nóvember 2018 í máli nr. S-106/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Birni Bjarka Þórissyni

(enginn)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi vestra útgefinni 11. október 2018, á hendur Birni Bjarka Þórissyni, fæddum […], til heimils að […], […], „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, síðdegis sunnudaginn 24. júní 2018 ekið bifreiðinni […], suður Norðurlandsveg við Uppsali í Akrahreppi í Skagafirði, sviptur ökurétti og með 109 km hraða á klst., þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst. óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum.“

II

Ákærði sótti þing þegar málið var þingfest 13. nóvember og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Að framkominni játningu ákærða sem er í samræmi við gögn málsins telst sekt ákærða nægilega sönnuð og var farið með málið eftir ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði samþykkti ákærði greiðslu sektar fyrir að aka í tvíganga undir áhrifum ávana- og fíkniefna 1. júlí 2013. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í samtals 18 mánuði frá 1. júlí 2013. Hinn 18. júlí 2014 gekkst ákærði undir greiðslu sektar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökurétti. Þá var hann sviptur ökurétti í fjögur ár frá 31. desember 2014 að telja. Á árinu 2016 samþykkti ákærði að greiða sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hinn 3. nóvember 2017 gekkst ákærði undir tvær sektargreiðslur fyrir að aka sviptur ökurétti og 16. janúar gekkst hann á ný undir greiðslu sektar fyrir sama brot.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að horfa til sakarferils hans. Sektargerðir þær sem að framan er getið eru til staðar í réttinum Af þeim má ráða að brot þau sem hann gekkst undir að hafa framið og lauk með sektargerðum 1. júlí 2013 framdi hann í janúar og mars 2013 eða áður en hann varð fullra 18. ára og hafa þau því ekki ítrekunaráhrif. Þá má sjá af sektargerðum frá 3. nóvember 2017 og 16. janúar 2018 að brotin sem hann viðurkenndi að hafa framið voru framin 14. og 15 júní og 2. júlí 2017 og gætir því ekki ítrekunaráhrifa á milli þeirra. Samkvæmt þessu er ákærði nú sakfelldur fyrir að aka öðru sinni undir áhrifum ávana og fíkniefna og þriðja sinni sviptur ökurétti þannig að ítrekunaráhrifa gæti á milli brotanna.

Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 31. desember 2018 að telja.  

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt framlögðu yfirliti nam sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins 77.758 krónum en annar kostnaður féll ekki á málið.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Björn Bjarki Þórisson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. 

Ákærði greiði 77.758 krónur í sakarkostnað

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson