Héraðsdómur Reykjavíkur Dómur 14. nóvember 2019 Mál nr. E - 1962/2019 : Arnar Þór Ómarsson ( Sveinbjörn Claessen hdl. ) g egn Vátryggingafélag Íslands hf. ( Jón Eðvald Malmquist hdl. ) Dómur Mál þetta, sem var dómtekið 29. október sl., var höfðað 7. maí 2019 af Arnari Þór Ómarssyni gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 7.644.874 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. októ ber 2017 til 1. mars 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 27. febrúar 2019 sem nam 5.512.624 krónum. Til vara er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 7.484.340 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. október 2017 til 1. mars 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 27. febrúar 2019 sem nam 5.512 .624 krónum. Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. I Helstu málsatvik Mál þetta á rætur að rekja til þess að stefnandi lenti í umferðarslysi 3. júlí 2017. Hann var ökumaður fólksbifreiðar sem var á leið suður Reykjanesbraut og ók á vinstri akrein þegar hann sá bifreið fyrir framan sig á leið í útskot vinstra megin við veginn . Á milli bifreiðar stefnanda og þeirrar bifreiðar var önnur bifreið sem snarhemlaði þegar bifreiðin á undan beygði í útskotið. Stefnandi hemlaði strax en bíll hans rann eftir götunni og náði ekki að stansa í tæka tíð, með þeim afleiðingum að hann lenti á bifreiðinni fyrir framan. Stefnandi leitaði á slysadeild Landspítalans í Fossvogi, en fór 2 þaðan vegna annríkis. Daginn eftir leitaði hann til Heilsugæslunnar í Mosfellsbæ vegna verkja í mjóbaki og var hann greindur með tognun í hálshrygg, brjósthrygg og le ndhrygg. Stefnandi hafði verið á vinnumarkaði frá árinu 2011 og starfaði hjá Matfugli ehf. fram til september 2016. Þá hóf hann störf há APA ehf. og starfaði þar fram til loka árs 2018. Bifreið stefnanda var tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns hjá s tefnda. Stefndi viðurkenndi bótaskyldu vegna líkamstjóns stefnanda og aðilar öfluðu sameiginlega mats Guðjóns Baldurssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns á afleiðingum slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð þeirra frá 21. janúar 2019 var talið að stöðugleikapunktur væri 3. október 2017. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið tveir dagar að fullu og tímabil þjáninga tveir dagar án rúmlegu. Þá var talið að varanlegur miski stefnanda væri 5 stig og varanleg örorka 8%. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu á grundvelli matsgerðarinnar með bréfi 29. janúar 2019. Það reis ekki ágreiningur um greiðslu bóta vegna annars en varanlegrar örorku, en aðila greindi á um hvaða árslaunaviðmið skyldi leggja til grundvallar við út reikning bóta. Stefnandi taldi rétt að meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga en stefndi taldi skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins ekki vera uppfyllt. Hinn 26. febrúar 2019 gengu aðilar til uppgjörs bóta á grundvelli matsgerðarinnar og voru bætur vegna varanlegrar örorku miðaðar við laun stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi tók við bótum vegna varanlegrar örorku sem námu 5.512.624 krónum 27. sama mánaðar, en gerði meðal annars fyrirvara við árslaunaviðmið. II Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi telur að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku beri að víkja frá almennri reglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda séu tekjur hans síðustu þrjú ár fyrir slysdag ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hefði ekki komið til slyssins. Byggt er á því að aðstæður stefnanda á slysdegi hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þannig hafi stefnandi í september 2016, um tíu mánuðum fyrir slysdag, skip t um starfsvettvang þegar hann hætti störfum hjá Matfugli ehf. og hóf störf hjá APA ehf., sem var þjónustufyrirtæki flugfélagsins WOW Air á starfið hafi gengið út á að vigta og pakka fiski sem sé sendur með flugvélum. Með þessari breytingu á starfsvettvangi hafi tekjur stefnanda hækkað umtalsvert. Hafi ánægja ríkt með störf stefnanda þegar slysið varð og ætlun hans ekki staðið til annars 3 en að sinna áfram sama starfi. Stefnan di hafi verið einn fjölmargra starfsmanna APA ehf. sem misstu vinnu sína í janúar 2019, þegar ljóst var að í óefni stefndi hjá flugfélaginu WOW Air. Vísað er til þess að þegar stefnandi breytti um starfsvettvang hafi orðið töluverð breyting á launum hans. Hafi tekjur stefnanda fyrstu níu mánuðina í starfi hjá APA ehf., þ.e. frá október 2016 til júlí 2017, til að mynda numið 3.859.155 krónum en tekjur í því starfi sem hann sinnti áður hjá Matfugli ehf. 2.762.851 krónu. Hafi laun stefnanda vegna þessa tímabi ls þannig hækkað um 39,6%. Sé miðað við fyrstu fimmtán mánuðina í nýja starfinu, þ.e. frá október 2016 til desember 2017, í samanburði við síðustu fimmtán mánuðina í hinu eldra starfi, þ.e. frá júlí 2015 til september 2016, nemi launahækkunin 62,7%. Í ljós i þessa gefi tekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysdag ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hans ef ekki hefði komið til slyssins. Lögð er áhersla á að í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1999 um breytingu á skaðab ótalögum, sbr. nú 7. gr. laganna, sé til nánari skýringar á óvenjulegum aðstæðum vísað til þess að tjónþoli skipti um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum hans. Þetta eigi bersýnilega við um aðstæður stefnanda og séu laun hans í hinu nýju starfi hj á APA ehf. réttari mælikvarði á framtíðartekjur en laun í því starfi sem hann hafi áður sinnt. Miðist aðalkrafa stefnanda við laun hans fyrsta heila árið á nýjum starfsvettvangi, en um sé að ræða byrjunarlaun og kröfunni þannig stillt í hóf. Tekið er fram að kjarni 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga felist í því hvort breyting á aðstæðum skömmu fyrir eða skömmu eftir slys, t.d. vinnuskipti, feli í sér breytingu á tekjum hvort heldur til hækkunar eða lækkunar. Því er mótmælt að sú staðreynd að stefnanda var sagt u pp störfum hjá APA ehf. í lok árs 2018 hafi nokkra þýðingu, enda sé um að ræða atvik sem gerðist löngu eftir slysdag og sem stefnandi hafði enga stjórn á. Því er jafnframt mótmælt að geta stefnanda til að afla mun hærri tekna en hann hafði áður gert hafi v erið tímabundin. Aðalkrafa stefnanda er byggð á því að miða beri við tekjur hans fyrstu tólf mánuðina á nýjum starfsvettvangi hjá APA ehf., þ.e. frá október 2016 til september 2017. Viðmiðunarlaun til útreiknings bóta vegna varanlegrar örorku að meðtöldu 8,5% mótframlagi a tvinnurekanda í lífeyrissjóð til 1. júlí 2017 og 10% eftir þann dag nemi 6.028.700 krónum. Krafan nemi samtals 7.644.874 krónum (6.028.700 x 15,851 x 8%). Varakrafa stefnanda miðast við regluleg heildarlaun verkakarla í iðnaði og fiskvinnslu á slysárinu 2 017 samkvæmt launakönnun Hagstofunnar, en þau nemi 458.000 krónum á mánuði. Lögð er áhersla á að krafan miðist við regluleg heildarlaun en ekki heildarlaun og sé kröfunni því stillt í hóf. Viðmiðunarlaunin nemi 6.004.380 4 krónum að meðtöldu framlagi atvinnu rekanda í lífeyrissjóð. Krafan nemi samtals 7.484.340 krónum (6.004.380 krónur x 15,581 x 8%). Til stuðnings kröfu um vexti vísar stefnandi til 16. gr. skaðabótalaga og er vaxta krafist frá upphafsdegi metinnar örorku 3. október 2017 til 1. mars 2019, þeg ar einn mánuður var liðinn frá því að stefndi var krafinn um greiðslu bóta með kröfubréfi sem er dagsett 29. janúar 2019. Frá þeim degi er dráttarvaxta krafist til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. III Helstu málsástæður og lagarök stef nda Stefndi byggir aðalkröfu um sýknu á því að með þegar greiddum bótum hafi stefnandi fengið tjón sitt bætt að fullu og eigi hann ekki lögvarinn rétt á frekari greiðslum úr hendi stefnda. Byggt er á því að miða beri við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabóta laga við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku. Sérregla 2. mgr. 7. gr. eigi ekki við, en hana beri að skýra þröngt og þurfi stefnandi bæði að sanna að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi og að annar mælikvarði sé réttari fyrir líklegar framtíð artekjur. Byggt er á því að það eitt að stefnandi hafi skipt um starf leiði ekki til þess að aðstæður séu óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, heldur þurfi meira að koma til. Bent er á að ástæða þess að stefnandi skipti um starf tengdist því ekki að hann hefði öðlast nýja starfshæfni eða menntun. Hafi stefnandi ekki farið í annars konar starf sem veitti möguleika á að hann fengi tekjuhærri störf í framtíðinni en það starf sem hann gegndi áður hjá Matfugli ehf. Það eina sem virðist liggja fyrir sé að stefnandi hafi fengið að einhverju leyti hærri laun í nýja starfinu hjá APA ehf., en það leiði ekki eitt til þess að aðstæður teljist óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. Tekið er fram að stefnandi hafði verið á vinnumarkaði frá árinu 2011 e ða í um sex ár þegar slysið varð og hafi því verið komin reynsla á þau laun sem hann aflaði. Fram komi í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögum að viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár sé að jafnaði e ðlileg þegar um sé að ræða mann í launuðu starfi, sem og að launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára. Þá sé í margfeldisstuðli 6. gr. skaðabótalaga sérstaklega tekið á því atriði að hjá ungu fólki, sem er að hefja starfs feril sinn, séu líkur á hækkandi launum. Stefndi telur það tekjuviðmið sem aðalkrafa stefnanda miðast við ekki vera réttari mælikvarða á líklegar framtíðartekjur en það viðmið sem stefndi hafi lagt til grundvallar. Áréttað er að stefnandi hafi ekki skipt um starf á þeim grunni að hann hefði öðlast frekari reynslu eða menntun, auk þess sem ekkert liggi fyrir um að starfið hjá APA ehf. hafi krafist einhverrar sérþekkingar eða hæfni umfram það starf sem 5 stefnandi gegndi hjá Matfugli ehf. Að sama skapi liggi e kkert fyrir um að starfið hjá APA ehf. hafi veitt stefnanda möguleika á sambærilegum störfum til framtíðar litið. Þá verði ekki horft fram hjá því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum og fái hann því ekki lengur þau laun sem hann fékk frá fyrirtækinu. Hafi umræddar tekjur því ekki verið viðvarandi, heldur tímabundnar, og geti ekki talist réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda. Þá megi ráða af stefnu að APA ehf. hafi hætt starfsemi og sé umrætt starf því ekki lengur til. Tekjur í starfi sem ekki sé lengur til geti ekki talist réttari mælikvarði á framtíðartekjur. Einnig er bent á að ekkert liggi fyrir um tekjur stefnanda eftir júní 2018 eða um að þær séu sambærilegar þeim tekjum sem hann hafði hjá APA ehf. Stefndi mótmælir jafnframt varak röfu stefnanda um að bætur fyrir varanlega örorku verði miðaðar við regluleg heildarlaun verkakarla í iðnaði og fiskvinnslu á slysárinu 2017 samkvæmt launakönnun Hagstofunnar, enda hafi ekki verið sýnt fram á að um sé að ræða réttari mælikvarða á líklegar framtíðartekjur í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Tekið er fram að krafan sé algjörlega vanreifuð og hafi stefnandi ekki fært nokkur rök fyrir því á hvaða grunni ætti að miða við slík laun. Stefndi krefst til vara lækkunar á kröfum stefnanda og byg gir á því að þau árslaun sem kröfur stefnanda séu byggðar á gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hans. Verði fallist á að aðstæður hafi verið óvenjulegar og að ákveða beri árslaun sérstaklega beri stefnandi sönnunarbyrði um það hvaða árslaun þa ð séu sem teljist betri mælikvarði á framtíðartekjur hans. Stefndi gerir ekki athugasemdir við tölulegan útreikning á kröfum stefnanda. Aftur á móti er kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu mótmælt, enda liggi þá fyrst fyrir hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda og hvort vanefndir verði á greiðslu sem heimili að dráttarvextir séu reiknaðir. IV Niðurstaða Stefnandi lenti í umferðarslysi 3. júlí 2017 og er ekki deilt um bótaskyldu stefnda eða afleiðingar slyssins. Ágreiningur aðila snýs t um það hvort miða beri bætur vegna varanlegrar örorku við tekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eða hvort uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. ákvæðisins til að ákveða árslaun sérstaklega. Til þess að vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. verður stefnandi að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verður litið til a thugasemda við 6. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999 sem breyttu 7. gr. laganna. Þar er meðal annars tekið fram að launatekjur liðinna ára séu ekki góður 6 mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar fullyrða má að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Sem dæmi er nefnt að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Tekið er fram að í slíku tilviki sé eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður. Stefnandi var 23 ára þegar slysið varð og hafði lokið grunnskólaprófi, en ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum. Hann hafði verið á vinnumarkaði í um sex ár og starfaði hjá Matfugli ehf. frá árinu 2011 og fram til september 2016. Hann hóf þá störf hjá APA ehf. se m var þjónustufyrirtæki flugfélagsins WOW Air. Starfið fólst í vigtun og pökkun fiskafurða sem voru fluttar með flugvélum flugfélagsins. Stefnandi hafði starfað hjá APA ehf. í um tíu mánuði þegar slysið varð og hann starfaði þar áfram til loka árs 2018, þe gar honum var sagt upp störfum vegna rekstrarlegra erfiðleika flugfélagsins WOW Air. Það verður ráðið af fyrirliggjandi yfirlitum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra að það hafi orðið viðvarandi hækkun á mánaðarlegum launum stefnanda eftir að hann hóf stö rf hjá APA ehf. og að breyting á starfsvettvangi hafi leitt til umtalsverðrar hækkunar á launum. Þannig voru tekjur stefnanda til að mynda tæplega 40% hærri fyrstu níu mánuðina í starfi hjá APA ehf. en síðustu níu mánuðina í starfi hjá Matfugli ehf. og er munurinn meiri sé miðað við lengra tímabil. Þar sem stefnandi skipti um starf um tíu mánuðum fyrir slysdag og umtalsverð hækkun varð á tekjum hans vegna breytingar á starfsvettvangi, að teknu tilliti til lögskýringargagna, lagt til grundvallar að óvenjuleg ar aðstæður hafi verið fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá sem fæst með því að beita meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verður því fallist á að ákvarða beri árslaun stefnanda sérstaklega í sam ræmi við heimild 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Við mat á því hvaða mælikvarða telja megi réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda verður meðal annars litið til þess að fram kemur í matsgerð, sem aðilar öfluðu sameiginlega, að í ljósi skorts á menntun stefnanda megi gera ráð fyrir að það verði hlutskipti hans á vinnumarkaði hér eftir sem hingað til að vinna líkamlega erfið störf. Stefnandi byggir aðallega á því að miða beri við laun hans fyrstu tólf mánuðina í því starfi hjá APA ehf. sem hann sinnti þeg ar slysið varð, en eins og rakið hefur verið fólst starfið í pökkun og vigtun fiskafurða og telst það líkamlega erfitt. Ekki verður fallist á röksemdir stefnda um að þetta viðmið geti ekki talist réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur þar sem stefna nda hafi verið sagt upp störfum í lok árs 2018, enda var ástæðan rekstrarvandi flugfélagsins WOW Air og tengdist ekki starfshæfni stefnanda. Í ljósi eðlis starfsins, sem krefst ekki sérþekkingar eða starfsréttinda, verður að leggja til grundvallar að stefn andi eigi möguleika á sambærilegu starfi og tekjum í framtíðinni og skiptir ekki sköpum þó APA ehf. hafi hætt starfsemi sinni. Við mat á því hvaða mælikvarða beri að leggja til grundvallar er jafnframt litið til þess að þær 7 tekjur sem aðalkrafa stefnanda m iðast við eru lægri en meðallaun verkamanna á því ári sem slysið varð, en stefnandi lagði til hliðsjónar fram upplýsingar um þetta frá Hagstofu Íslands við aðalmeðferð málsins. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að laun stefnanda hefðu orðið önnur og lægri hefði hann ekki lent í því slysi sem mál þetta er sprottið af. Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að horfa megi til launa stefnanda eftir að hann breytti um starfsvettvang við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku. Verður því fallist á aðalkröfu stefna nda sem tekur mið af launum hans fyrstu tólf mánuðina í umræddu starfi. Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við tölulegan útreikning á kröfu stefnanda. Þá hefur kröfu um vexti ekki verið mótmælt, en stefndi byggir á því að krafan geti ekki borið dráttarv exti frá fyrri tíma en dómsuppsögu þar sem þá fyrst liggi fyrir hvort stefnda beri að greiða stefnanda frekari bætur. Krafa stefnanda er byggð á matsgerð, sem aðilar öfluðu sameiginlega, og var kröfubréf sent stefnda 29. janúar 2019. Því verða dráttarvexti r dæmdir af kröfunni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2019, svo sem stefnandi krefst, sbr. 9. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 7.644.874 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dóms orði greinir. Frá þessu dregst innborgun stefnda frá 27. febrúar 2019 sem nam 5.512.624 krónum. Í samræmi við þessa niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfil ega ákveðinn 800.000 krónur. Dóm þennan kveður upp Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari. Dómso r ð: Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Arnari Þór Ómarssyni, 7.644.874 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. október 2017 til 1. mars 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda 27. febrúar 2019 sem nam 5. 512.624 krónum. Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað. Ásgerður Ragnarsdóttir