• Lykilorð:
 • Aðilaskipti
 • Ábyrgð
 • Kröfulýsingarfrestur
 • Kröfuréttur
 • Lánastofnanir
 • Lánssamningur
 • Lögskýring
 • Málsástæður
 • Ógilding samnings
 • Skjöl
 • Sönnun
 • Uppgjör
 • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 14. mars 2019 í máli nr. E-3056/2017:

Landsbankinn hf.

(Ásgeir Jónsson lögmaður)

gegn

Sigmari Júlíusi Eðvarðssyni

(Hjalti S. Mogensen lögmaður)

 

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 19. september 2017 og dómtekið 18. febrúar 2019. Stefn­andi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Sigmar Júlíus Eðvarðs­­­­son, [...], [...]. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjár­­­hæð 7.352.406 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 7.352.406 krónum frá 28. september 2013 til greiðslu­­dags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og tekið verði tillit til virðis­aukaskatts. 

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Til viðbótar við aðal- og varakröfu krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum máls­­kostnaðar­reikningi.

 

II.

Málsatvik:

Mál þetta má rekja til lánssamnings milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 3372, dagsettur 27. júlí 2005, hér nefnt fyrra lánið eða fyrri lánssamningur eftir því sem við á. Lánið var jafn­­­framt sam­­þykkt af tuttugu og fimm sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilum, þar með talið stefnda, og var ábyrgð þeirra hlutfallsleg (l. pro rata). Um var að ræða samning um fjöl­­­myntalán til fimm ára að jafnvirði 80.000.000 króna og var mið­að við sterlings­pund (e. Pound sterling, GBP). Lánsfjárhæðin var greidd í íslenskum krón­­um inn á bankabók Hydra ehf. þann 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samn­ingsins um út­borgun sem var undir­ritaður 27. júlí sama ár. Hlutfallsleg ábyrgð hvers og eins sjálfs­skuldarábyrgðaraðila var í sam­ræmi við hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þess­um tíma. Stefndi var í ábyrgð fyrir 44.671 sterlings­pundum. Samkvæmt g- og h-liðum 9. gr. lánssamningsins var lántaka, Hydra ehf., óheimilt að setja nokkrar eignir sínar eða dótturfélaga sinna að veði umfram það sem þegar hefði verið gert við gerð samningsins, auk þess sem félagið skuldbatt sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem það tók eða öðrum fjárhagslegum skuld­­bindingum, hverju nafni sem þær nefndust, nema sams konar trygging væri jafn­framt sett fyrir skuldbindingu félagsins samkvæmt lánssamningnum. Að sögn stefnda veð­­setti Hydra ehf., í janúar 2006, þrátt fyrir fyrrgreint bannákvæði, flugvélar og aðrar eignir til Landsbanka Íslands hf. vegna tveggja lánasamninga sem gerðir voru á þeim tíma, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009. Láninu var skuld­breytt með við­auk­­um, dagsettum 1. nóv­ember 2006 og 22. nóv­­ember 2007. Á ár­unum 2005-2007 greiddi Hydra ehf. átta sinnum inn á lánið. Van­­skil urðu vegna lánsins og beindi bank­inn þá kröfum sínum að ábyrgðar­­mönnunum, þar með talið að stefnda.

Vegna vanskila Hydra ehf. og vegna kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnda til þess að standa undir ábyrgð sinni vegna lánsins gerði stefndi láns­samn­ing við bankann, dagsettan 27. apríl 2008, nr. 11874, hér eftir nefnt síðara lánið eða síðari láns­samningur eftir því sem við á. Lán þetta var að fjárhæð 42.000 sterlings­­pund. Með síð­­­­­ara lán­inu gerði stefndi upp ábyrgð sína vegna fyrra lánsins. Fleiri sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilar vegna fyrra lánsins gerðu einnig upp ábyrgðir sínar á svipuðum tíma, þar með talið með því að taka nýtt lán hjá bankanum. Stefnandi eign­aðist kröfu á hendur stefnda með almennri ákvörðun Fjár­málaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráð­­stöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Stefndi hætti síðar að greiða af lán­inu.

Hydra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 en á þeim tíma hafði nafni félagsins verið breytt í Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf. Landsbanki Íslands hf. lýsti upp­­­­­­­­haflega almennri kröfu í þrotabúið út af fyrra láninu. Kröfu­lýsingin var síðar lækkuð vegna innborgana sem komu inn á lánið. Við lok gjald­þrota­skipta á árinu 2013 fékk bankinn aðeins úthlutað að hluta upp í kröfu sína.

Með almennri tilkynningu 10. júní 2011 á vefsíðu stefn­anda var vísað til dóms Hæsta­­­­réttar Íslands frá 9. sama mánaðar í máli nr. 155/2011. Tekið var fram að með dóm­­­­inum hefði verið fallist á röksemd annars aðila málsins, skuldara sem tekið hafði lán hjá forvera stefnanda á árinu 2007, að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í ís­lensk­um krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt. Að því virtu bæri stefn­anda að endurreikna lánið í samræmi við lög nr. 38/2001. Þá var tekið fram í til­kynn­ingunni að bankinn myndi jafnframt endurreikna önnur sambærileg lán og miða endur­útreikning við lægstu óverðtryggðu útlánsvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samhliða sendi stefn­andi bréf þar sem stefnda var tilkynnt að bankinn væri að skoða hvort skilmálar síð­ara lánsins féllu undir for­dæmis­­­gildi dóms­ins varðandi ólög­­mæta gengistryggingu. Með bréfi stefn­­­anda 29. nóv­­­­ember 2011 var stefnda til­kynnt að það væri mat bank­ans að síðara lánið félli ekki undir efnisatriði dómsins og að því virtu yrði það ekki endur­­útreiknað. Með bréfi til stefnanda 12. des­ember 2011 til­kynnti stefndi að hann teldi að fyrra lánið hefði verið ólögmætt og taka ætti tillit til þess til lækkunar á síðara lán­inu. 

Einar Pétursson, starfsmaður Landsbankans hf., gaf skýrslu vitnis við aðal­meðferð.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á síðara láninu, sbr. lánssamning Landsbanka Íslands hf. og stefnda, dagsettan 27. apríl 2008. Samkvæmt þeim samningi hafi Lands­banki Íslands hf., sem lán­veit­­andi, og stefndi, sem lántaki, samið um fjöl­mynta­lán til þriggja ára að fjárhæð 42.000 sterlings­­pund. Í samn­ingnum hafi verið miðað við að ef stefndi greiddi af­borg­anir, vexti og dráttar­vexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krón­­­­­um þá skyldi hann greiða samkvæmt sölu­gengi bankans á gjalddaga. Stefndi hafi lofað að taka að láni og bankinn að lána um­samda fjár­hæð, sbr. gr. 1.1 í samningnum. Stefndi skyldi greiða lánveitanda 0,30% lán­töku­gjald af heildarfjárhæðinni og skyldi lán­­­­­­töku­gjaldið dragast af við útborgun láns­ins, sbr. gr. 5.1 í samningnum. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi með beiðni 25. júlí 2008 óskað eftir út­greiðslu lánsins 31. sama mán­aðar til samræmis við gr. 1.2 og við­auka nr. 1 í samn­ingnum. Hafi það leitt til þess að greidd voru til hans 41.874,00 sterlings­pund.

Stefnandi vísar til þess að borið hafi að greiða lánið að fullu á næstu þremur árum með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi verið 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 í samningnum. Stefndi hafi lofað að greiða bank­anum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) í sam­ræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxta­­­­­­álags. Með LIBOR-vöxtum hafi verið átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir voru auglýstir kl. 11:00 fyrir hádegi að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtust á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá, tveimur virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil, sbr. gr. 3.2 í samningnum. Þessu til við­­­­­­­­bótar hafi verið kveðið á um að vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og þeir greiðast eftir á á gjald­­­dögum á sex mánaða fresti í fyrsta skipti 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 og 3.3 í samn­ingnum. Þá skyldi við vaxtaútreikning taka mið af vaxta­reglum er varða daga­fjölda sem í gildi væru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma, sbr. gr. 3.4 í samn­­ingnum.

Stefnandi vísar til þess að stefnda beri skylda til að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, frá gjalddaga til greiðslu­­dags, standi hann ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga. Í gr. 6.1 í lánssamn­­­ingnum sé kveðið á um að lánveitandi skyldi hafa val um það hvort krafist yrði dráttar­­­vaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í ís­lenskar krónur. Þá sé þar einnig kveðið á um að séu dráttarvextir krafðir í erlendum myntum þá skyldu þeir vera vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum, auk við­eigandi álags að við­bættu 10% viðbótarálagi. Ef skuldinni yrði hins vegar breytt í íslenskar krónur á gjald­daga þá skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðla­banka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Þá vísar stefn­andi til gr. 6.2 í láns­samn­ingnum varðandi vanefndir stefnda. Þar sé kveðið á um skyldu hans til að greiða lán­veit­anda, auk vaxta og dráttarvaxta, allan kostnað sem bankinn legði út í vegna van­efnd­anna, málssóknar eða annarra réttargjalda, lögmanns­þóknunar eða annars sem bank­anum bæri að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna inn­­heimtu alls láns­ins.

Stefnandi vísar til viðauka við lánssamninginn, dagsettan 16. apríl 2009, þar sem fram komi að eftirstöðvar lánsins 5. janúar 2009 hafi verið 42.000,00 sterlingspund. Auk þess hafi gjald­fallnir vextir á þeim tíma verið 1.757,06 sterlingspund og hafi þeir átt að greiðast við undirritun við­aukans. Samkvæmt skilmálabreytingunni hafi lán­veit­andi og stefndi orðið ásáttir um breytingar á lánssamningnum. Nánar tiltekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 í lánssamningnum með þeim hætti að eftir­stöðvar lánsins hafi átt að greiða að fullu með sex jöfnum afborgunum á sex mán­aða fresti. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi átt að vera 15. júlí 2009 og þá hafi vextir átt að reiknast frá 5. janúar sama ár. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að lánssamningurinn skyldi haldast óbreyttur.

Stefnandi vísar til 10. gr. lánssamningsins varðandi uppsagnarákvæði. Þar sé kveðið á um heimild lánveitanda til gjaldfellingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nánar til­tekið sé þar um að ræða heimild til að fella lán samkvæmt samningnum í gjald­­daga ein­­hliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Heimildin sé meðal annars til staðar hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vöxtum varað í fjórtán daga eða lengur, sbr. a-lið gr. 10.1 í lánssamningnum. Þá sé í grein 10.2 sama samnings, þegar þannig stendur á, jafnframt kveðið á um að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuld­ina í ís­lenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim mynt­­­­um sem hver lánshluti samanstandi af og krefja stefnda um greiðslu í sam­ræmi við ákvæði lánssamningsins. Þessu til viðbótar sé í grein 10.3 í láns­samn­ingnum kveðið á um það að komi til gjaldfellingar sam­kvæmt gr. 10.1 í sama samningi þá beri allar skuldir í öllum tilvikum dráttarvexti í sam­ræmi við gr. 6.1 í samningnum af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð.

Varðandi stöðu vanskila tekur stefnandi fram að elsti ógreiddi gjalddagi lánsins sé 15. janúar 2010. Þá hafi lokagjalddagi samkvæmt samningnum verið 16. janúar 2012. Þann 2. febrúar 2015 hafi eftirstöðvar lánsins verið 35.000,00 sterlingspund og áfallnir samn­­ingsvextir verið 1.664,87 sterlingspund, eða samtals 36.664,87 sterlingspund. Þann dag hafi sölugengi sterlingspunds verið 200,53. Umreiknaðar eftirstöðvar lánsins hafi því verið 7.352.406 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins, auk dráttarvaxta og kostn­­­aðar. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti af stefnufjárhæð frá 28. september 2013, eða fjórum árum fyrir þingfestingardag málsins. Dráttarvextir fyrir tímabilið 15. júlí 2010 til 27. september 2013 hafi hins vegar fallið niður fyrir fyrningu og því sé ekki krafist dráttarvaxta fyrir það tímabil. Stefnandi tekur fram að stefnda hafi verið sent innheimtubréf 2. febrúar 2015 en skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir inn­heimtu­­­­tilraunir.

Stefnandi tekur fram að um samninginn gildi íslensk lög. Þá sé í gr. 15.1 í samn­ingnum kveðið á um að mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild að málinu vísar stefnandi til fyrrgreindrar ákvörðunar Fjár­­­­málaeftirlitsins frá 9. október 2008. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuld­bind­inga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður stefnandi við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er krafa um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun reist á lögum númer 50/1988 en stefnandi tekur fram að hann sé ekki virðis­auka­skattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til samningsskilmála og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar varnarþing.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi reisir varnir sínar aðallega á því að samningi aðila frá 27. apríl 2008 vegna síðara lánsins eigi að víkja til hliðar í heild eða að hluta þar sem það sé ósann­gjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri samninginn fyrir sig, sbr. 36. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga. Eigi það bæði við um aðal- og varakröfu hans. Stefndi tekur fram að við mat á þessu eigi að líta til efnis samn­ings, stöðu samningsaðila, atvika við samnings­gerð og atvika sem síðar komu til. Þá byggir stefndi á því að við mat á því hvort laga­ákvæðið eigi við um þann samning eigi að líta til atriða í samn­ingi milli sömu aðila vegna fyrra lánsins sem tengist gerð samn­­ingsins vegna síðara lánsins. Um þetta vísar stefndi meðal annars til sjónarmiða sem fram koma í 36. gr. c laga nr. 7/1936, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1995. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi eignast kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur honum á grund­velli fyrrgreindrar ákvörð­unar Fjár­mála­eftirlits­ins 9. okt. 2008. Að því virtu og sam­kvæmt almennum reglum um aðila­­­skipti að kröfuréttindum þá öðlist stefnandi ekki rýmri rétt á hendur stefnda með þeirri ráð­stöfun en forveri hans naut. Stefndi byggir á því að hann haldi öllum mót­bárum þrátt fyrir aðila­skiptin, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 348/2013.

Til rökstuðnings fyrir sýknu á framangreindum lagagrundvelli byggir stefndi á því að lækkun kröfulýsingar Landsbanka Íslands hf. í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S. A. ehf., áður Hydra ehf., hafi valdið honum tjóni. Stefndi vísar til þess að bank­inn hafi upp­­haflega lýst almennri kröfu í þrotabúið að fjárhæð 93.204.643 krónur út af fyrra lán­­inu. Úrskurðardagur þrotabúsins hafi verið 28. maí 2008 og kröfulýsing bank­ans hafi verið dagsett 28. júlí sama ár. Kröfulýsingin hafi síðan verið lækkuð miðað við kröfu­­­­skrá bankans 8. september 2008 og hún verið send skiptastjóra með tölvu­skeyti 15. sama mán­aðar. Bankinn hafi þá verið búinn að taka tillit til inn­borgana sem komið höfðu inn á fyrra lánið 31. júlí 2008 og 6. ágúst sama ár frá ábyrgðar­mönnum þess láns. Að því virtu hafi endanleg fjárhæð á kröfu bankans í búið vegna fyrr­­greinds láns verið um­talsvert lægri en ella, nánar tiltekið 21.333.498 krónur. Með lækkun kröf­unnar hafi bankinn fengið umtalsvert lægri fjárhæð greidda við búskiptin eða sem nam 12.849.727 krónum. Niðurstaða samkvæmt úthlutunargerð hafi því verið sú að bank­inn fékk upp í kröfu sína, í september/október 2013, samtals 6.972.897 krónur. Þá tekur stefndi fram að fyrrgreind lækkun hafi verið sett fram af bank­anum eftir að kröfu­­­­­­­­lýsingar­fresti lauk í þrotabúið. Að því virtu hafi stefndi ekki haft nokkurn mögu­leika á því að lýsa kröfu í búið vegna tjóns síns út af ábyrgðinni. Stefndi byggir á því að það hafi verið alvarleg mistök hjá bankanum að lækka kröf­­­una í þrotabúið eins og að framan greinir. Þá hafi ekkert samráð verið haft við stefnda í þessu sambandi. Með þessu hafi bankinn fallið frá rétti til greiðslu úr þrota­búinu á kostnað stefnda en um þetta fari eftir reglum samkvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með þessu hafi bankinn valdið stefnda tjóni sem sé senni­­­­leg afleiðing af saknæmri hátt­­semi bankans. Stefndi byggir á því að ef kröfu­lýs­ingin hefði ekki verið lækkuð þá hefði framangreind fjárhæð, 12.849.727 krónur, átt að greiðast til hans sem ábyrgðar­manns, að öllu leyti eða hluta, og lækka dóm­­kröfuna í þessu máli. Stefndi gerir því þá kröfu að öll framangreind fjárhæð komi til lækk­unar á stefnukröfu í þessu máli. Þá telur stefndi að framangreind háttsemi stefn­anda séu enn frek­­­ari rök fyrir því að víkja beri láns­samn­ingnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 svo leiði til sýknu.

Varnir stefnda taka einnig til þess að víkja eigi síðari lánssamningnum til hliðar á fyrr­greindum lagagrundvelli þar sem fyrra lánið hafi verið með ólögmætri gengis­trygg­­ingu. Nánar tiltekið byggir stefndi á því að höfuðstóll fyrra lánsins, milli Hydra ehf., Landsbanka Íslands hf. og tuttugu og fimm ábyrgðaraðila, hafi verið í íslenskum krónum en tekið breytingum miðað við gengi erlends gjaldmiðils. Slík gengistrygging lána sé ólögmæt. Að því virtu hafi gengis­­­­trygging fyrra lánsins farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi vísar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 og stefnanda hafi verið skylt að endurreikna lánið í kjölfar fyrrgreinds dóms. Þá hafi bank­­inn gefið út skuldbindandi loforð með opinberri yfirlýsingu 10. júní 2011. Höfuð­stóll fyrra lánsins hafi því verið of hár. Ef bank­inn hefði endurreiknað lánið þá hefði krafa hans á ábyrgðaraðila orðið mun lægri en lögð var til grundvallar uppgjöri við þá. Stefn­andi hafi því fengið verulega ofgreiðslu á sínum tíma. Stefnandi verði því að endur­reikna fyrra lánið en það leiði til þess að hann þurfi að lækka kröfu sína í þessu máli enda hafi höfuðstóll síðara lánsins verið of hár sem nemur hinni ólögmætu gengis­tryggingu fyrri lánssamningsins. Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að það sé ljóst að fyrra lánið sé löngu upp greitt og rúmlega það. Í fyrsta lagi með inn­borg­unum Hydra ehf. inn á lánið á árunum 2005-2007. Í annan stað með innborgunum ábyrgðar­­aðila inn á lánið á árinu 2008 en þær hafi miðast við að gera bank­ann skað­lausan og gera lánið upp miðað við að um væri að ræða lögmætt erlent lán. Í þriðja lagi þegar tekið sé tillit til úthlutunargerðar úr búi Hydra ehf. en þar hafi stefnandi í sept­ember/október 2013 fengið 6.972.897 krónur upp í kröfu sína. Þá hafi þessi greiðsla komið til stefnanda löngu eftir að ábyrgðar­aðilar gerðu upp ábyrgðir sínar vegna fyrra lánsins með peninga­greiðslum og nýjum láns­samningum. Að því virtu hefði stefnandi átt að ráð­stafa henni til að lækka kröfuna samkvæmt stefnu í þessu máli en það hafi hann ekki gert.

Stefndi reisir varnir sínar einnig á því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við þar sem líkur bendi til þess að stefnandi hafi þegar fengið greidda fjármuni vegna fyrra lánsins sem geri hann skaðlausan. Stefnandi hafi ekki endurreiknað lánið til samræmis við dóma­­­­­­fordæmi Hæstaréttar. Að því virtu telur stefndi að frekari greiðslur inn á síðara lánið myndu leiða til ólögmætrar auðgunar stefnanda. Höfuð­stóll skuldar hans sam­kvæmt síðara lán­­­inu hafi verið alltof hár í upphafi enda hafi fjár­hæðin tekið mið af ólög­­mætum út­reikn­ingum stefnanda vegna fyrra láns­ins. Staða samn­­ingsaðila hafi verið ójöfn við samn­­ingsgerðina, stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem hafi á að skipa sér­­­fróðum starfs­mönnum en stefndi sé einstaklingur og neytandi. Mjög hafi hallað á stefnda við samn­ings­­­gerðina og öll ákvæði samningsins verið samin einhliða af stefn­anda. Stefndi vísar nánar til atvika í tengslum við síðari láns­samn­inginn sem stangist á við góða við­skipta­­hætti og venjur, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefndi eigi ekki að bera hallann af því að hafa gengist í ábyrgð vegna fyrra lánsins sem starfsmenn stefnanda máttu vita að var ólögmætt frá upp­hafi. Síðara lánið hafi verið allt of hátt. Meginþorri sjálfskuldarábyrgðarmanna fyrra lánsins hafi gert upp ábyrgðir sínar en ábyrgð þeirra hafi ávallt miðast við að fyrra lánið væri lögmætt erlent lán. Þá hafi stefnandi fengið greiddar inn á lánið 6.972.897 krónur frá þrota­bú­inu. Þeir fjármunir eigi að koma til lækkunar stefnu­kröfu í máli þessu geti stefn­andi ekki sýnt fram á eðlilega ráðstöfun þeirra. 

Til viðbótar framangreindum málsástæðum til stuðnings aðal- og varakröfu þá gerir stefndi rökstuddar athugasemdir við höfuðstóls- og vaxtakröfu stefnanda vegna síðara láns­ins sem hann telur að geti haft áhrif á formhlið málsins og kunni að leiða til frá­vísunar þess frá dómi án kröfu. Krafa samkvæmt stefnu málsins sé ekki gerð í íslensk­um krónum enda hafi stefnandi aldrei tilkynnt honum að síðari láninu hafi verið um­breytt í íslenskar krónur. Þá komi ekki fram í vaxtakröfu hvort verið sé að fara fram á innlenda eða erlenda dráttarvexti og engin leið sé fyrir stefnda að átta sig á því. Enn fremur gerir stefndi athugasemd við kröfu stefnanda um virðisaukaskatt á mál­flutn­­ings­­­þóknun. Telur stefndi þá kröfu vera óréttmæta þar sem stefnandi geti inn­skatt­að virðisaukaskatt á málflutnings­þóknun. Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. þeirra laga. Þá vísar stefndi til laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. c. Varð­­andi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 en því til viðbótar vísar stefndi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og tekur fram að hann sé ekki virðis­­auka­skattsskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til þess við ákvörðun máls­kostn­aðar. Með hliðsjón af úr­lausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og lagarökum stefnda, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

 

IV.

Niðurstöður:

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri greiðsluskylda eftirstöðva láns samkvæmt síð­ari láns­samningnum, dagsettum 27. apríl 2008. Óumdeilt er að stefndi undirritaði umræddan lánssamning sem lántaki. Sam­­kvæmt láns­­­­samningnum var fjárhæð lánsins þar skýrlega tilgreind í ster­lings­­­pundum og var því um lögmætt lán í erlendri mynt að ræða. Með viðauka 16. apríl 2009 var gerð breyting á lánstíma o.fl. Í málinu liggur fyrir að tilefni þess að síðari lánssamningurinn var gerður var uppgjör á sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna fyrri láns­samn­­­­ings­ins milli Lands­­banka Íslands hf. og Hydra ehf. en stefndi var í hlutfallslegri ábyrgð sem nam 44.671 sterlings­pundi vegna þess samnings. Með viðauka 1 með síðari lánssamningnum, dagsettum 25. júlí 2008, óskaði stefndi eftir ráðstöfun lánsins inn á fyrra lánið 31. sama mánaðar. Fyrir liggur að aðilaskipti urðu á kröfu stefnanda á hendur stefnda, sbr. ákvörðun Fjár­mála­eftirlitsins 9. október 2008. Stefndi heldur öllum mótbárum gegn kröfu stefnanda þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. nóvember 2013 í máli nr. 348/2013. Annað hliðstætt mál út af öðrum sjálfsskuldar­ábyrgðaraðila, sem var í hlut­falls­­legri ábyrgð út af sama láni til Hydra ehf., hefur áður verið til umfjöllunar fyrir dóm­­­stól­­um, sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016. Mála­tilbún­aður aðila í því máli er að mörgu leyti hliðstæður mála­tilbúnaði aðila í þessu máli enda samkynja sakarefni og atvik máls keimlík. Að því virtu hefur dóm­ur­inn leið­bein­ingar­­gildi fyrir úrlausn þessa máls.

Í máli þessu háttar svo til að stefnandi lýsti fyrst kröfu í fyrrgreint þrotabú, aðal­skuld­ara samkvæmt fyrri lánssamningnum, með kröfulýsingu 28. júlí 2008, samtals að fjárhæð 93.210.868 krónur, sem send var innan kröfulýsingarfrests. Í niður­lagi kröfu­lýs­­ingar­innar var tekið fram að hún myndi taka breytingum vegna skuld­breytinga sjálf­­­­­­­­skuldar­ábyrgðaraðila. Þá var kröfulýsingin lækkuð 15. september sama ár, að liðn­­­­­­­­­­um kröfu­lýsingar­fresti, niður í 21.339.723 krónur, án samráðs við stefnda og var ástæðan fyrir lækkuninni sú að flestir ábyrgðaraðilar höfðu gert upp ábyrgðir sínar, þar með talið stefndi með síð­ara láninu sem hér er til umfjöllunar. Með þessu fékk stefn­­­­andi lægri úthlutun úr þrota­­­­­búinu sem nam 12.849.727 krónum. Þá liggur fyrir að stefndi lýsti ekki kröfu í um­rætt þrotabú. Hið sama á við um aðra ábyrgðarmenn sem gerðu upp ábyrgðir sínar. Stefndi reisir dómkröfur sínar á því að með þessu hafi stefn­­andi ekki lýst ýtrustu kröfum og þar með ekki gætt hagsmuna sinna til fulls og fallið frá rétti til greiðslu af óveðsettum eignum úr þrotabúinu. Þá hafi þetta verið gert án sam­ráðs við stefnda og leitt til tjóns fyrir hann og aðra sjálfskuldarábyrgðaraðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­aðilunum áður en ljóst var hversu mikið fengist upp í lánið frá þrota­­búinu. Með þessu hafi verið farið gegn 103. gr. laga nr. 21/1991. Hátt­semi stefn­anda hafi að þessu leyti þýðingu við mat á ábyrgð hans og hvort víkja eigi til hliðar og ógilda fjárskuldbindingu hans sam­­kvæmt síðari lánssamningnum á grund­velli 36. gr. laga nr. 7/1936. 

Stefnandi mótmælir framangreindum vörnum stefnda og tekur fram að 103. gr. laga nr. 21/1991 taki aðeins til óskiptrar ábyrgðar en ekki til hlutfallslegrar ábyrgðar. Stefn­­­andi bendir einnig á að stefnda hefði verið unnt að beina kröfu að þrotabúinu jafn­­vel þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn. Það hafi hann hins vegar ekki gert og stefn­­­andi geti ekki borið ábyrgð á því og hann ekki haft leiðbeiningarskyldu í því sam­bandi. Síðari lánssamningurinn hafi verið gerður um mánuði áður en þrotabúið var tekið til skipta með úrskurði 28. maí 2008. Kröfu­lýsingar­frestur hafi verið til 18. ágúst 2008. Þegar stefnandi hafi fengið ­­fyrirmæli frá stefnda 25. júlí sama ár um greiðslu inn á fyrra lánið þann 31. sama mánaðar út af ábyrgðinni, hafi kröfulýsingarfresturinn ekki verið lið­inn. Þetta hafi nítján aðrir ábyrgðar­aðilar gert með sama hætti og sumir tekið ný lán eins og stefndi en aðrir greitt með pen­ing­um á tímabili frá júní til sept­ember 2008. Enginn þeirra sem staðið hafi við ábyrgðir sínar hafi hins vegar lýst kröfum í þrota­búið. Þá hafi skipta­lok í búinu verið 20. sept­­­ember 2013 en fyrri út­hlutun úr því hafi verið í mars sama ár. Að þessu virtu hafi liðið um fimm ár frá greiðslu stefnda þar til byrjað var að úthluta úr búinu. Stefn­andi bendir á að hann hafi ekki verið eini kröfu­hafi þrota­búsins og því sé ljóst að bank­inn hafi ekki getað staðið á því að fá úthlutað miðað við upp­haf­lega kröfulýsingu þar sem ábyrgðar­­­mennirnir lýstu ekki kröfum í búið. Ef það hefði gerst þá hefði það bitnað á öðrum kröfuhöfum sem lýstu kröfum í búið. Þá komi hvergi fram í lögum að stefnanda, sem kröfuhafa, hafi verið óheimilt að lækka kröfuna í þrotabúið en sú ráðstöfun hafi verið eðlileg og sam­rýmst 104. gr. laga nr. 21/1991.

Það liggur í eðli sjálfskuldarábyrgðar að ­ábyrgðarmaður tekur að sér skuld aðal­skuld­ara eins og hann hefði sjálfur stofnað hana. Að því virtu verður hann almennt sjálfur að gæta að því að hann bíði ekki tjón við sjálf­skuldar­­ábyrgð­­ina eins og hverju öðru er hann kann að ráðast í. Kröfu­hafi hefur almennt ekki skyldu til að gæta hags­muna sjálfskuldar­ábyrgðarmanns í þessu tilliti. Annað mál er það að samkvæmt megin­­­­­­­­­­­­reglum kröfuréttar getur kröfuhafi ekki með því að gæta ekki að rétti sínum aukið skuld­bind­­­ingu ábyrgðar­manns. Í máli þessu háttar svo til að ábyrgð stefnda vegna skuldar þrotabúsins var hlutfallsleg en ekki óskipt. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 taka samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Sambærilegum ákvæðum er ekki til að dreifa í þeim lögum sem taka til hlutfallslegrar ábyrgðar í þessu tilliti. Markmið og tilgangur ákvæðanna er að standa vörð um hagsmuni kröfu­hafa og ábyrgðarmanna. Við skýringu á 103. gr. laga nr. 21/1991 verður að líta til þess til­gangs lagagreinarinnar, að tryggja að úthlutun vegna tiltekinnar kröfu fari ekki um­fram þá hlutdeild sem í hennar hlut skal koma miðað við heildarfjárhæð kröfunnar en þessi verkan greinarinnar tryggir rétt annarra kröfuhafa. Þá ber einnig að leggja til grund­­­vallar þá reglu lagagreinarinnar að kröfuhafa er rétt að lýsa heildarfjárhæð kröfu í þrota­bú skuldara, þótt hún hafi að einhverju leyti fengist greidd frá ábyrgðar­mönnum, eða líkur standi til þess að greiðsla muni berast frá þeim. Síðar, eða við lok skipta, skal svo koma til lokauppgjörs ef hallar á einhvern í þeim lögskiptum, sbr. 104. gr. sömu laga. Ekki verður séð að skilsmunur óskiptrar og hlutfallslegrar sjálfskuldar­ábyrgðar hafi þýð­­­ingu í þessu sambandi þegar svo háttar til sem í þessu máli að þrota­maður er einn skuldari og ber ábyrgð á skuldinni allri. Að þessu virtu þykir rétt að beita ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991 um hlutfallslega sjálfskuldarábyrgð í framan­greindu tilliti eins og um væri að ræða óskipta sjálfskuldarábyrgð. Fyrir liggur að stefn­­­­­andi lýsti upp­haflega kröfu í þrotabúið 28. júlí 2008 en lækkaði kröfu­lýsingu sína í það 15. september sama ár, eftir að hann fékk greitt frá stefnda, sem leiddi til þess að hann fékk lægri úthlutun við skiptalok sem nam 12.849.727 krón­um. Fjárhæðin er óumdeild milli aðila og er hún hærri en stefnu­fjár­hæð í þessu máli. Með þessu gerði stefn­­andi ekki ýtrustu kröfur á hendur þrota­­búinu til að tak­marka tjón sitt vegna van­efnda þrota­búsins sem aðalskuldara á greiðslu skuld­­­­­ar­­innar. Lækkunin á kröfu­­­lýsing­unni var and­stæð því sem til var ætlast sam­kvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 og hún var gerð án sam­­­­ráðs við stefnda. Stefnandi gætti því ekki að rétti sínum í sam­ræmi við lög við skipti á þrotabúinu og til tjóns fyrir stefnda. Að virtum þessum atvik­um verður að telja að stefnandi hafi í raun ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda og verður því fallist á með stefnda að rétt sé að víkja síðari láns­samn­­ingnum til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að undir rekstri máls þessa, eftir að varnir stefnda komu fram um að krafan á hendur honum væri upp­greidd, voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda, útreikningar og fylgiskjöl, þar sem leitast var við að sýna fram á hið gagn­­­­­stæða. Stefndi gerði athugasemdir við þau gögn og lagði meðal annars fram þrjár kvittanir, dagsettar 30. júní 2008, vegna innborgana sem hann taldi að ekki hefði verið tekið tillit til, sam­tals að fjárhæð 14.093.472 krónur, vegna fyrra lánsins. Sú fjárhæð er hærri en stefnu­fjárhæð í máli þessu. Þegar að því virtu væri ljóst að lánið, sem stefndi var í ábyrgð fyrir, væri upp­greitt. Stefn­­andi brást við þessu með því að leggja fram þrjár bak­færslukvittanir vegna sama láns með sömu fjárhæð, auk þess sem hann lagði fram yfir­lýsingu frá innheimtu­stýr­ingu stefnanda, dagsetta 21. september 2018, ásamt tveimur yfirlitum auðkenndum nr. I og II með fylgiskjölum. Í yfir­­lýs­ing­unni greinir meðal annars að ekki hafi varð­veist í kerfum stefn­­anda skýr­ingar á bakfærslunum að öðru leyti en því að greiðslur sem fóru inn á lánið 30. júní 2008 hafi ekki átt að fara inn á það. Til að bak­færa greiðslurnar hafi þurft að bak­færa allar aðrar greiðslur frá þeim tíma til 1. sept­ember 2008 og setja þær svo aftur inn á lánið. Stefndi byggði á því við aðal­meðferð að stefnandi hefði með hliðsjón af framan­greindum gögnum ekki sýnt fram á það að krafan á hendur honum væri lögvarin og ekki þegar ­greidd. Þá tók stefn­andi efnis­lega afstöðu til varna stefnda á þessum grund­velli og vís­aði til fyrr­greindra gagna og fylgiskjala og gerði nánar grein fyrir þeim. Að þessu virtu komast fyrr­­greindar máls­­ástæður að í málinu. Vitnið Einar Pétursson, starfsmaður stefn­anda, kom ekki að gerð fyrrgreindrar yfir­­lýsingar innheimtustýringar og gat ekki borið um hvaða forsendur lágu henni til grundvallar. Þá leiddi stefnandi ekki önnur vitni til að skýra bak­færslurnar eða efni yfirlýsingar­innar og gögn sem henni fylgdu. Bakfærslu­kvittanirnar eru dagsettar 16. og 18. maí 2018, sem er eftir að mál þetta var höfðað og stuttu áður en skjölin voru lögð fram. Skjölin bera því ekki með sér að vera sam­­tíma­gögn um bak­færslur sem hefði verið eðlilegt í almennu tilliti í máli af þessum toga. Bak­­færslukvittanirnar eru gefnar út af stefnanda en ekki forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Nöfn starfs­manna koma ekki fram á bak­færslukvitt­unum gagn­stætt því sem almennt á við um greiðslu­kvitt­anir sem liggja fyrir í málinu. Þá er ósamræmi í greiðslu­­­­auðkennum samkvæmt yfirliti nr. I um inn­borganir á lánið og yfirliti nr. II um bak­færslur, sbr. fyrrgreinda yfir­lýsingu inn­heimtu­stýringar. Að mati dóms­­­ins eru fyrr­greind sóknar­gögn svo ófull­komin að ekki fæst sam­rýmst því sem ætlast má til um gæði og áreiðanleika gagna sem stafa frá fjár­mála­­stofnun til fram­­lagn­ingar í þágu með­­­­­ferðar máls fyrir dómi og ætlað er að sýna fram á lögvarða kröfu á hendur skuld­ara. Af þessu leiðir að stefnandi hefur ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að krafa hans á hendur stefnda sé ekki þegar greidd.

Að öllu framan­greindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefn­anda.

Með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ræðst af málskostnaðarreikningi stefnda, 2.369.035 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Jónsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Hjalti S. Mogensen lögmaður.

Daði Kristjánsson, héraðsdómari og dómsformaður, kveður upp dóm þennan ásamt með­­dómsmönn­unum Ástráði Haraldssyni héraðsdómara og Sigurbirni Einars­syni við­skipta­­­fræðingi.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Sigmar Júlíus Eðvarðsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.

       Stefnandi greiði stefnda 2.369.035 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                                    Daði Kristjánsson

                                                                                    Ástráður Haraldsson

                                                                                    Sigurbjörn Einarsson