• Lykilorð:
 • Aðilaskipti
 • Ábyrgð
 • Kröfulýsingarfrestur
 • Kröfuréttur
 • Lánastofnanir
 • Lánssamningur
 • Lögskýring
 • Málsástæður
 • Ógilding samnings
 • Skjöl
 • Sönnun
 • Uppgjör
 • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 14. mars 2019 í máli nr. E-84/2018:

Landsbankinn hf.

(Ásgeir Jónsson lögmaður)

gegn

Einari Dagbjartssyni

(Björn Þorri Viktorsson lögmaður)

 

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 2. janúar 2018 og dómtekið 18. febrúar 2019. Stefn­andi er Lands­­bankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Einar Dagbjartsson, [...], [...].

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjár­­­­hæð 6.300.599 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 6.300.599 krónum frá 11. janúar 2014 til greiðslu­­­­­­dags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og tekið verði tillit til virðis­­­­aukaskatts.   

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega. Til viðbótar við aðal- og vara­­kröfu krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðar­yfir­liti og tekið verði tillit til virðis­aukaskatts.

 

II.

Málsatvik:

Mál þetta má rekja til lánssamnings milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 3372, dagsettur 27. júlí 2005, hér nefnt fyrra lánið eða fyrri lánssamningur eftir því sem við á. Lánið var jafn­­­framt sam­þykkt af tuttugu og fimm sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilum, þar með talið stefnda, og var ábyrgð þeirra hlutfallsleg (l. pro rata). Um var að ræða samning um fjöl­­­myntalán til fimm ára að jafnvirði 80.000.000 króna og var mið­að við sterlings­pund (e. Pound sterling, GBP). Lánsfjárhæðin var greidd í íslenskum krón­­um inn á bankabók Hydra ehf. þann 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samn­ings­ins um út­borgun sem var undir­­ritaður 27. júlí sama ár. Stefndi var í ábyrgð fyrir 44.911 sterlings­pundum. Samkvæmt g- og h-liðum 9. gr. lánssamningsins var lántaka, Hydra ehf., óheimilt að setja nokkrar eignir sínar eða dótturfélaga sinna að veði um­fram það sem þegar hefði verið gert við gerð samningsins, auk þess sem félagið skuld­batt sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem það tók eða öðrum fjár­hags­legum skuld­bindingum, hverju nafni sem þær nefndust, nema sams konar trygg­ing væri jafn­framt sett fyrir skuldbindingu félagsins samkvæmt lánssamningnum. Að sögn stefnda veð­setti Hydra ehf., í janúar 2006, þrátt fyrir fyrrgreint bannákvæði, flug­vélar og aðrar eignir til Landsbanka Íslands hf. vegna tveggja lánasamninga sem gerðir voru á þeim tíma, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009. Láninu var skuld­breytt með við­auk­­um, dagsettum 1. nóvember 2006 og 22. nóv­­ember 2007. Á ár­unum 2005-2007 greiddi Hydra ehf. átta sinnum inn á lánið. Vanskil urðu vegna láns­­ins og beindi bankinn þá kröfum sínum að ábyrgðar­­mönnunum, þar með talið að stefnda.

Vegna vanskila Hydra ehf. og vegna kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnda til þess að standa undir ábyrgð sinni vegna lánsins gerði stefndi láns­samn­ing við bankann, dagsettan 25. júní 2008, nr. 64627, hér eftir nefnt síðara lánið eða síðari lánssamningur eftir því sem við á. Lán þetta var að fjárhæð 45.053,16 sterlings­­pund. Með síð­­­­­ara lán­inu gerði stefndi upp ábyrgð sína vegna fyrra lánsins. Fleiri sjálf­skuldar­­­ábyrgðar­aðilar vegna fyrra lánsins gerðu einnig upp ábyrgðir sínar á svip­­­uðum tíma, þar með talið með því að taka nýtt lán hjá bankanum. Stefnandi eign­aðist kröfu á hendur stefnda með almennri ákvörðun Fjár­málaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráð­stöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Stefndi hætti síðar að greiða af lán­inu.

Hydra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 en á þeim tíma hafði nafni félagsins verið breytt í Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf. Landsbanki Íslands hf. lýsti upp­­­­­­­haflega almennri kröfu í þrotabúið út af fyrra láninu. Kröfu­lýsingin var síðar lækkuð vegna innborgana sem komu inn á lánið. Við lok gjald­þrota­skipta á árinu 2013 fékk bankinn aðeins úthlutað að hluta upp í kröfu sína.

Með almennri tilkynningu 10. júní 2011 á vefsíðu stefn­anda var vísað til dóms Hæsta­­­­réttar Íslands frá 9. sama mánaðar í máli nr. 155/2011. Tekið var fram að með dóm­­­­inum hefði verið fallist á röksemd annars aðila málsins, skuldara sem tekið hafði lán hjá forvera stefnanda á árinu 2007, að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í ís­lensk­um krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt. Að því virtu bæri stefn­­anda að endurreikna lánið í samræmi við lög nr. 38/2001. Þá var tekið fram í til­kynn­­ingunni að bankinn myndi jafnframt endurreikna önnur sambærileg lán og miða endur­útreikning við lægstu óverðtryggðu útlánsvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samhliða sendi stefn­andi bréf þar sem stefnda var tilkynnt að bankinn væri að skoða hvort skilmálar síð­ara lánsins féllu undir for­dæmis­­­gildi dóms­ins varðandi ólög­­mæta gengistryggingu. Með bréfi stefn­­­anda 29. nóv­­­­ember 2011 var stefnda til­kynnt að það væri mat bank­ans að síðara lánið félli ekki undir efnisatriði dómsins og að því virtu yrði það ekki endur­­útreiknað.

Einar Pétursson, starfsmaður Landsbankans hf., gaf skýrslu vitnis við aðal­meðferð.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi reisir dómkröfur sínar á síðara láninu, sbr. lánssamning Landsbanka Íslands hf. og stefnda, dagsettan 25. júní 2008. Samkvæmt þeim samningi hafi Lands­banki Íslands hf., sem lán­veit­­andi, og stefndi, sem lántaki, samið um fjöl­mynta­lán til þriggja ára að fjárhæð 45.053,16 sterlings­­pund. Í samn­ingnum hafi verið miðað við að ef stefndi greiddi af­borg­anir, vexti og dráttar­vexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krón­­­­­­­um þá skyldi hann greiða samkvæmt sölu­gengi bankans á gjalddaga. Stefndi hafi lofað að taka að láni og bankinn að lána um­samda fjár­hæð, sbr. gr. 1.1 í samningnum. Stefndi skyldi greiða lánveitanda 0,30% lán­töku­gjald af heildarfjárhæðinni og skyldi lán­­­­­­­­­­töku­gjaldið dragast af við útborgun láns­ins, sbr. gr. 5.1 í samningnum. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi með beiðni 25. júní 2008 óskað eftir út­greiðslu lánsins 6. ágúst 2008 til samræmis við gr. 1.2 og við­auka 1 í samn­ingnum. Hafi það leitt til þess að greidd voru til hans 44.918,00 sterlings­pund.

Stefnandi vísar til þess að borið hafi að greiða lánið að fullu á næstu þremur árum með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi verið 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 í samningnum. Stefndi hafi lofað að greiða bank­anum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) í sam­ræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxta­­­­­­­álags. Með LIBOR-vöxtum hafi verið átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir voru auglýstir kl. 11:00 fyrir hádegi að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtust á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá tveimur virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil, sbr. gr. 3.2 í samningnum. Þessu til við­­­­­­­­­bótar hafi verið kveðið á um að vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og þeir greiðast eftir á á gjald­­­dögum á sex mánaða fresti í fyrsta skipti 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 og 3.3 í samningnum. Þá skyldi við vaxtaútreikning taka mið af vaxta­reglum er varða daga­fjölda sem í gildi væru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma, sbr. gr. 3.4 í samningnum.

Stefnandi vísar til þess að stefnda beri skylda til að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, frá gjalddaga til greiðslu­­dags, standi hann ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga. Í gr. 6.1 í lánssamn­­­ingnum sé kveðið á um að lánveitandi skyldi hafa val um það hvort krafist yrði dráttar­­­vaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í ís­lenskar krónur. Þá sé þar einnig kveðið á um að séu dráttarvextir krafðir í erlendum mynt­­­um þá skyldu þeir vera vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum, auk við­eigandi álags að við­bættu 10% viðbótarálagi. Ef skuldinni yrði hins vegar breytt í íslenskar krónur á gjald­daga þá skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðla­­­banka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Þá vísar stefn­andi til gr. 6.2 í láns­­­samn­ingnum varðandi vanefndir stefnda. Þar sé kveðið á um skyldu hans til að greiða lán­veit­anda, auk vaxta og dráttarvaxta, allan kostnað sem bankinn legði út í vegna van­efnd­anna, málssóknar eða annarra réttargjalda, lögmanns­þóknunar eða annars sem bank­anum bæri að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna inn­­heimtu alls láns­ins.

Stefnandi vísar til viðauka við lánssamninginn, sem dagsettur er 17. maí 2010, þar sem bankinn hafi samþykkt beiðni stefnda um breytingar á láninu. Með þeim hafi erlendu láni verið breytt í íslenskar krónur. Höfuðstólslækkun vegna breytingarinnar skyldi verða 25% af hverri mynt. Höfuðstóll sem gefinn yrði upp í íslenskum krónum skyldi miðast við sölugengi Landsbankans á viðkomandi mynt við útgáfudag við­aukans, 192,37 sterlings­pund. Skilmálar lánsins eftir breytinguna urðu með þeim hætti að höfuð­­­stóll skyldi vera 6.328.773 krónur. Lánstíminn skyldi vera níu ár. Fjöldi af­borg­ana skyldi vera átján. Gjalddagi fyrstu afborgunar og fyrstu vaxtagreiðslu skyldi vera 1. júlí 2010. Mán­uðir á milli gjalddaga skyldu vera sex. Vextir skyldu reiknast frá 17. maí 2010. Vextir myndu vera samkvæmt viðmiðuninni K1 en þeir voru 5,80% við undir­­­ritun viðaukans. Grunn­vísi­talan skyldi verða 362,9. Lánið skyldi greiðast með jöfn­­­­um afborgunum. Vextir skyldu vera breytilegir ársvextir eins og þeir yrðu ákveðnir á hverjum tíma af stefn­anda og tæki það jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Vext­ir­nir skyldu vera eftir á greiddir á sömu gjald­dögum og afborganir nema um annað yrði samið. Stefnanda skyldi vera heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka framangreinda vexti, þar með talið vaxta­álag, í samræmi við vaxta­ákvarðanir Landsbankans á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar yrðu á fjár­hagsstöðu og endur­greiðslu­möguleikum útgefanda, ef breyt­­­ingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar að­stæður gæfu tilefni til, sbr. 4. gr. við­aukans. Höfuðstóll skuldar­innar skyldi breytast í hlut­falli við breytingar á vísi­töl­unni frá grunnvísitölunni til fyrsta gjalddaga og síðan í hlut­falli við breytingar á vísi­tölunni á milli gjalddaga. Höfuð­­stóll lánsins skyldi reikn­aður út á hverjum gjalddaga áður en afborganir og vextir yrðu reiknaðir út. Afborganir skyldu reiknaðar út þannig að á hverjum gjald­daga væri vísitöluálagi bætt við höfuð­stól skuldarinnar og síðan deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga sem þá yrðu eftir, að meðtöldum þeim gjald­­daga sem yrði í það sinn, sbr. gr. 6 í viðaukanum. Við vaxtaútreikning og útreikn­ing van­­skilavaxta skyldi mið­að við að 30 dagar væru í hverjum mánuði og 360 dagar í ári, sbr. gr. 7 viðaukans. Að öðru leyti var miðað við að skil­málar lánsins héldust óbreyttir. 

Stefnandi vísar einnig til viðauka við lánssamninginn, sem dagsettur er 17. ágúst 2010, þar sem lánveitandi og stefndi hafi orðið ásáttir um breytingar á láns­samn­ingnum. Nánar til­tekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 með þeim hætti að eftir­stöðvar lánsins skyldi endurgreiða að fullu með átján jöfnum af­borg­un­um á sex mán­aða fresti. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 1. janúar 2011 og vextir skyldu reiknast frá 17. maí 2010. Að öðru leyti hafi verið lagt til grund­­vallar að láns­samningurinn skyldi haldast óbreyttur.

Enn fremur vísar stefnandi til viðauka við lánssamninginn, dags. 11. ágúst 2011, þar sem lánveitandi og stefndi hafi aftur orðið ásáttir um breytingar á láns­samn­ingn­um. Nánar tiltekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 í láns­samn­ingnum með þeim hætti að eftirstöðvar lánsins skyldi greiða að fullu á næstu tíu árum með eitt hundrað og tuttugu jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Næsti gjald­dagi af­borgana skyldi vera 1. ágúst 2011 og þá skyldu vextir reiknast frá 1. júlí sama ár. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að lánssamningurinn héldist óbreyttur.

Þessu til viðbótar vísar stefnandi til viðauka við lánssamninginn, dags. 20. júní 2012, þar sem lánveitandi og stefndi hafi enn orðið ásáttir um breytingar á láns­­­­­samningnum. Lánstíma samkvæmt gr. 2.1 lánssamningsins hafi verið breytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldi endurgreiða að fullu með eitt hundrað og þremur jöfn­­­­­­um af­borgunum á eins mánaðar fresti. Næsti gjalddagi afborgana skyldi vera 1. jan­úar 2013 en vexti hafi þó borið að greiða á eins mánaðar fresti út lánstímann og næst 1. júlí 2012. Þá var bætt við nýrri grein, 3.6, þar sem kveðið var á um að lánið skyldi bundið vísi­tölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitölu í júnímán­uði 2012, 398,2 stig. Höfuðstóll skuldarinnar skyldi breytast í hlutfalli við breyt­ingar á vísi­­­tölunni frá grunn­vísitölunni til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfali við breyt­ingar á vísi­­tölunni á milli gjalddaga. Skyldi höfuðstóll lánsins reiknaður út á hverjum gjald­­daga áður en afborganir og vextir yrðu reiknaðir út. Afborganir skyldu reiknast út þannig að á hverjum gjalddaga skyldi vísitöluálagi bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan deilt í út­komuna með þeim fjölda gjalddaga sem þá yrðu eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem yrði í það sinn. Vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum skyldu breytast þannig að lántaki lofaði að greiða bankanum vexti, sem skyldu vera kjör­­­­­­­­­vextir bankans samkvæmt kjörvaxtaflokki 2 eins og þeir skyldu ákveðnir á hverjum tíma af bankanum, eða samtals 6,15% ársvextir við undirritun viðaukans. Þá var miðað við að vextir skyldu reiknast frá 1. júní 2012. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að láns­samningurinn skyldi haldast óbreyttur.

Stefnandi vísar til 10. gr. lánssamningsins varðandi uppsagnarákvæði. Þar sé kveðið á um heimild lánveitanda til gjaldfellingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nánar til­tekið sé þar um að ræða heimild til að fella lán samkvæmt samningnum í gjald­­­­­­­­­­daga ein­­hliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Heimildin sé meðal annars til staðar hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vöxtum varað í fjórtán daga eða lengur, sbr. a-lið gr. 10.1 í lánssamningnum. Þá sé í grein 10.2 sama samnings, þegar þannig stendur á, jafnframt kveðið á um að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuld­­ina í ís­lenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bank­ans á þeim mynt­­­­um sem hver lánshluti samanstandi af og krefja stefnda um greiðslu í sam­ræmi við ákvæði lánssamningsins. Þessu til viðbótar sé í grein 10.3 í láns­samn­­ingnum kveðið á um það að komi til gjaldfellingar sam­kvæmt gr. 10.1 í sama samningi þá beri allar skuldir í öllum tilvikum dráttarvexti í sam­­­ræmi við gr. 6.1 í samn­ingnum af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð.

Varðandi stöðu vanskila tekur stefnandi fram að elsti ógreiddi gjalddagi lánsins sé 1. mars 2013. Stefnandi tekur fram að stefnda hafi verið sent innheimtubréf 25. sept­ember 2013 þar sem fram hafi komið að höfuðstóll lánsins hafi verið gjaldfelldur. Þann dag hafi staða lánsins verið 6.300.599 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins, auk dráttar­­­vaxta og kostnaðar. Nánar tiltekið séu eftirstöðvar höfuðstóls 6.189.204 krónur, samn­ingsvextir til 1. mars 2013 séu samtals 31.720 krónur. Verðbætur á höfuðstól séu 79.269 krónur og verðbætur á vexti séu 406 krónur. Stefnandi gerir kröfu um dráttar­vexti af stefnufjárhæð frá 11. janúar 2014, eða fjórum árum fyrir þingfestingardag máls­­­­­ins. Stefnandi tekur fram að skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir inn­heimtu­­til­raunir.

Stefnandi tekur fram að um samninginn gildi íslensk lög. Þá sé í gr. 15.1 í samn­ingnum kveðið á um að mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild að málinu vísar stefnandi til fyrrgreindrar ákvörðunar Fjár­­­­málaeftirlitsins frá 9. október 2008. Um lagarök að öðru leyti vísar stefn­­­andi til meginreglna kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuld­bind­inga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður stefn­andi við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er krafa um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun reist á lögum númer 50/1988 en stefnandi tekur fram að hann sé ekki virðis­auka­­­skattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til samningsskilmála og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar varnarþing.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi reisir varnir sínar á því að víkja eigi síðari lánssamningnum til hliðar á grundvelli sanngirnissjónarmiða samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, vegna síð­ari atvika sem komu til eftir að hann gekkst undir sjálfskuldarábyrgð út af fyrri láns­­samn­ingnum. Eigi það bæði við um aðal- og varakröfu hans. Í því sambandi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi þann 28. júlí 2008 upp­­­haflega lýst kröfu að fjárhæð 93.210.868 krónur í þrotabú Eignar­halds­­félags­ins City S.A. ehf., áður Hydra ehf., vegna fyrri láns­samn­ings­ins. Stefnandi hafi hins vegar síðar breytt kröfu­lýsingunni og lækkað kröfuna í þrot­a­búið í 21.339.723 krónur. Stefndi byggir á því að með því að stefnandi hafi ekki lýst ýtrustu kröf­um í þrota­búið þá hafi hann ekki gætt hags­muna sinna til fulls og með því fallið frá rétti til greiðslu af óveð­­­­settum eignum úr búinu. Hafi það verið gert á kostn­að stefnda og annarra sjálf­skuldar­­­ábyrgðar­aðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­­aðilum lánsins áður en ljóst var hversu mikið fékkst greitt upp í lánið frá upp­haflegum lán­taka. Um þetta fari eftir 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­­þrotaskipti o.fl.

Þessu til frekari rökstuðnings vísar stefndi til þess að stefn­anda hefði samkvæmt fyrr­greindri laga­grein verið rétt að lýsa heildar­kröfu í þrotabúið en þar sem hann hafi ekki gert það þá hafi hann ekki gætt að því að ganga að lögmæt­um réttindum sínum í búinu og tryggja sér greiðslur og þar með takmarka tjón sitt. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Þá hafi ekkert sam­ráð verið haft við stefnda þegar krafan í þrotabúið var lækkuð. Telur stefndi að þessi háttsemi stefn­anda gangi gegn almennum sjónar­mið­­­um um tjóns­­­takmörkun og að hún samrýmist ekki skýrum ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991. Þá verði þessi sjónarmið að teljast sér­staklega mikils­­­­verð í ljósi þess sem aðilar bein­línis sömdu um með 9. gr. lánssamningsins, um tak­­­­markanir Hydra ehf. á veð­­­setningu á eignum félagsins. Með lækkun á kröf­unni í þrot­a­búið, eftir að stefndi gerði upp ábyrgð sína með síð­­ari láns­samn­ingnum, hafi stefn­andi fengið um­tals­vert lægri fjárhæð úthlutað úr þrota­­­búinu sem nam um þrettán milljón­um króna. Hefði stefn­­andi hins vegar haldið sig við upp­haflega kröfu­­lýsingu hefði hann bæði tak­mark­að eigið tjón og tjón þeirra ábyrgðar­aðila sem stóðu að baki láns­samn­ingnum. Með þessari háttsemi hafi stefn­­andi valdið stefnda tjóni samhliða því að hann féll frá rétti sínum til greiðslna úr þrota­bú­inu.

Jafnframt taka varn­­­­­­­irnar til þess að víkja eigi síðari láns­­samningnum til hliðar og ógilda hann á grund­­­­­­velli 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna fleiri nánar tilgreindra atvika, um­fram það sem áður greinir varðandi kröfu­­­lýsingu í þrotabúið. Í því sam­bandi vísar stefndi til þess að aðrar lán­­­veitingar hafi átt sér stað frá Landsbanka Íslands hf. til Hydra ehf. á árinu 2006 gegn veði í eignum félagsins og án þess að þeim væri ætlað að tryggja réttindi sam­­­kvæmt fyrri lánssamningnum. Með því hafi verið brotið gegn 9. gr. lánssamningsins sem kvað á um bann á veðsetningu eigna félagsins. Bannið hafi verið í þágu stefnda og annarra ábyrgðarmanna. For­sendur hafi þannig brostið hjá stefnda fyrir því að gangast undir ábyrgðarskuld­bind­ing­una. Enn fremur og ekki síður, til stuðnings því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu, byggir stefndi á því að allar lögvarðar kröfur stefnda á grundvelli fyrra lánsins séu uppgreiddar enda hafi allir þeir sem greiddu upp í ábyrgðir sínar sam­kvæmt kröf­um stefnanda greitt miklu hærri fjárhæð en sem nam hlutfalli af heildar­­­skuldinni sem þeir ábyrgðust í upphafi. Fyrra lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu sem hafi farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Með gengis­falli krón­unnar hafi höfuð­stóll skuldarinnar marg­­faldast og einbeittur vilji stefn­anda um að færa inn­heimt­una ekki í krónur hafi verið til þess fallinn að hagnast á stefnda og öðrum ábyrgðar­mönn­um og hann notið verulegrar ofgreiðslu. Stefnandi hafi miðað við erlenda mynt varðandi fyrri lánssamninginn og einnig varðandi þann síðari sem stefndi telur að hann hafi ranglega gengist undir á ár­inu 2008. Stefn­andi hafi ekki endur­reiknað fyrri láns­samn­inginn til samræmis við dóm Hæsta­réttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 sem honum hafi borið að gera þar sem láns­­samningurinn hafi verið sams konar og lá til grund­­vallar í fyrrgreindum dómi. Stefn­­andi hafi með þessu einnig farið gegn eigin opin­berri yfir­­­lýsingu um endur­útreikn­­­ing slíkra lána. Þá hafi stefnandi ekki tekið tillit til út­hlut­unar úr þrotabúinu sem kom til eftir að stefndi og aðrir gerðu upp ábyrgðir sínar. Hið sama eigi við um greiðslur sem fengust frá öðrum ábyrgðar­mönnum. Með þessu fari stef­n­­­andi fram gagn­­­­vart stefnda með ólög­mæt­um hætti og andstætt 19. gr. laga nr. 161/2002 og 3. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1995. Telur stefndi að stefn­andi reyni að auðgast á hans kostn­að með því að krefja hann um greiðslu á ábyrgð á láni sem þegar sé upp­greitt. Þá kunni háttsemi stefnanda og starfs­manna hans að fara á svig við 248. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940.

Varnir stefnda taka einnig til þess að ábyrgð stefnda samkvæmt fyrri láns­samn­ingnum hafi verið ógild frá upphafi þar sem hún hafi tengst hlutafjáraukningu hjá Hydra ehf. án þess að greiðslur kæmu á móti frá stefnda o.fl. Að því virtu hafi verið um að ræða brot gegn 11. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessu öllu til við­bótar vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, auk þess sem hann vísar til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað. Varðandi vara­kröfu þá tekur stefndi sérstaklega fram að líta skuli til þess að fyrri lánssamningi eigi að víkja til hliðar að því leyti sem fjárhæð skuldar sé umfram hlut stefnda í ábyrgð á upphaf­legum höfuðstól hins gengistryggða samnings og taka eigi tillit til allra inn­borgana á skuldina, þar á meðal greiðslu vegna úthlutunar úr fyrrgreindu þrotabúi. Stefndi tekur fram að stefnandi hafi með aðilaskiptum af kröfunni, sbr. ákvörðun Fjár­­­mála­eftirlits­ins frá 9. október 2008, ekki öðlast rýmri rétt gagnvart stefnda en forveri hans hafði. Stefndi haldi því öllum mótbárum sínum þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæsta­­réttar í máli nr. 348/2013. Með hliðsjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnda, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

 

 

 

 

IV.

Niðurstöður:

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri greiðsluskylda eftirstöðva láns samkvæmt síð­ari láns­samningnum, dagsettum 25. júní 2008. Óumdeilt er að stefndi undirritaði umræddan lánssamning sem lántaki. Sam­­kvæmt láns­­­­samningnum var fjárhæð lánsins þar skýrlega tilgreind í ster­lings­­­pundum og var því um lögmætt lán í erlendri mynt að ræða. Með viðauka 17. maí 2010 var láninu breytt yfir í íslenskar krónur og höfuðstóll þess lækkaður um 25%. Þá voru síðar gerðir þrír við­­­­­­­aukar, dag­settir 17. ágúst 2010, 11. ágúst 2011 og 20. júní 2012, varð­andi breytingu á lánstíma o.fl. Í málinu liggur fyrir að tilefni þess að síðari lánssamningurinn var gerður var upp­gjör á sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna fyrri láns­samn­­­­ings­ins milli Lands­­banka Íslands hf. og Hydra ehf. en stefndi var í hlutfallslegri ábyrgð sem nam 44.911 sterlings­pundum vegna þess samnings. Með viðauka 1 með síðari lánssamningnum, dag­settum 25. júní 2008, óskaði stefndi eftir ráðstöfun lánsins inn á fyrra lánið 6. ágúst sama ár. Fyrir liggur að aðilaskipti urðu á kröfu stefnanda á hendur stefnda, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Stefndi heldur öllum mótbárum gegn kröfu stefnanda þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. nóvember 2013 í máli nr. 348/2013. Annað hliðstætt mál út af öðrum sjálfsskuldar­ábyrgðaraðila, sem var í hlutfalls­legri ábyrgð út af sama láni til Hydra ehf., hefur áður verið til um­fjöllunar fyrir dóm­­stól­­um, sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016. Mála­­tilbún­aður aðila í því máli er að mörgu leyti hliðstæður mála­tilbúnaði aðila í þessu máli enda samkynja sakarefni og atvik máls keimlík. Að því virtu hefur dóm­ur­inn leiðbeiningar­gildi fyrir úrlausn þessa máls.

Í máli þessu háttar svo til að stefnandi lýsti fyrst kröfu í fyrrgreint þrotabú, aðal­skuld­ara samkvæmt fyrri lánssamningnum, með kröfulýsingu 28. júlí 2008, samtals að fjárhæð 93.210.868 krónur, sem send var innan kröfulýsingarfrests. Í niður­lagi kröfu­lýs­­ingar­innar var tekið fram að hún myndi taka breytingum vegna skuld­breytinga sjálf­­­­­­­­skuldar­ábyrgðaraðila. Þá var kröfulýsingin lækkuð 15. september sama ár, að liðn­­­­­­­­­­­­um kröfu­lýsingar­fresti, niður í 21.339.723 krónur, án samráðs við stefnda og var ástæðan fyrir lækkuninni sú að flestir ábyrgðaraðilar höfðu gert upp ábyrgðir sínar, þar með talið stefndi með síð­ara láninu sem hér er til umfjöllunar. Með þessu fékk stefn­­­­­andi lægri úthlutun úr þrota­­­­­búinu sem nam 12.849.727 krónum. Þá liggur fyrir að stefndi lýsti ekki kröfu í um­rætt þrotabú. Hið sama á við um aðra ábyrgðarmenn sem gerðu upp ábyrgðir sínar. Stefndi reisir dómkröfur sínar á því að með þessu hafi stefn­­andi ekki lýst ýtrustu kröfum og þar með ekki gætt hagsmuna sinna til fulls og fallið frá rétti til greiðslu af óveðsettum eignum úr þrotabúinu. Þá hafi þetta verið gert án sam­ráðs við stefnda og leitt til tjóns fyrir hann og aðra sjálfskuldarábyrgðaraðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­aðilunum áður en ljóst var hversu mikið fengist upp í lánið frá þrota­­­búinu. Með þessu hafi verið farið gegn 103. gr. laga nr. 21/1991. Hátt­semi stefn­anda hafi að þessu leyti þýðingu við mat á ábyrgð hans og hvort víkja eigi til hliðar og ógilda fjárskuldbindingu hans sam­­kvæmt síðari lánssamningnum á grund­velli 36. gr. laga nr. 7/1936. 

Stefnandi mótmælir framangreindum vörnum stefnda og tekur fram að 103. gr. laga nr. 21/1991 taki aðeins til óskiptrar ábyrgðar en ekki til hlutfallslegrar ábyrgðar. Stefn­­­andi bendir einnig á að stefnda hefði verið unnt að beina kröfu að þrotabúinu jafn­vel þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn. Það hafi hann hins vegar ekki gert og stefn­­andi geti ekki borið ábyrgð á því og hann ekki haft leiðbeiningarskyldu í því sam­bandi. Síðari lánssamningurinn hafi verið gerður þegar um mánuður var liðinn frá því þrotabúið var tekið til skipta með úrskurði 28. maí 2008. Kröfu­lýsingar­frestur hafi verið til 18. ágúst 2008. Þegar stefnandi hafi fengið ­­fyrirmæli frá stefnda 25. júní sama ár um greiðslu inn á fyrra lánið þann 6. ágúst sama ár út af ábyrgðinni, hafi kröfu­lýsingar­frestur­inn ekki verið liðinn. Þetta hafi nítján aðrir ábyrgðar­aðilar gert með sama hætti og sumir tekið ný lán eins og stefndi en aðrir greitt með pen­ing­um á tíma­bili frá júní til september 2008. Enginn þeirra sem staðið hafi við ábyrgðir sínar hafi hins vegar lýst kröfum í þrotabúið. Þá hafi skipta­lok í búinu verið 20. sept­­­ember 2013 en fyrri út­hlutun úr því hafi verið í mars sama ár. Að þessu virtu hafi liðið um fimm ár frá greiðslu stefnda þar til byrjað var að úthluta úr búinu. Stefn­andi bendir á að hann hafi ekki verið eini kröfuhafi þrota­búsins og því sé ljóst að bank­inn hafi ekki getað staðið á því að fá úthlutað miðað við upp­haf­lega kröfulýsingu þar sem ábyrgðar­­­menn­irnir lýstu ekki kröfum í búið. Ef það hefði gerst þá hefði það bitnað á öðrum kröfu­höfum sem lýstu kröfum í búið. Þá komi hvergi fram í lögum að stefnanda, sem kröfu­hafa, hafi verið óheimilt að lækka kröfuna í þrotabúið en sú ráðstöfun hafi verið eðli­leg og sam­rýmst 104. gr. laga nr. 21/1991.

Það liggur í eðli sjálfskuldarábyrgðar að ­ábyrgðarmaður tekur að sér skuld aðal­skuld­ara eins og hann hefði sjálfur stofnað hana. Að því virtu verður hann almennt sjálfur að gæta að því að hann bíði ekki tjón við sjálf­skuldar­­ábyrgð­­ina eins og hverju öðru er hann kann að ráðast í. Kröfu­hafi hefur almennt ekki skyldu til að gæta hags­muna sjálfskuldar­ábyrgðarmanns í þessu tilliti. Annað mál er það að samkvæmt megin­­­­­­­­­­­­­reglum kröfuréttar getur kröfuhafi ekki með því að gæta ekki að rétti sínum aukið skuld­bind­­­ingu ábyrgðar­manns. Í máli þessu háttar svo til að ábyrgð stefnda vegna skuldar þrotabúsins var hlutfallsleg en ekki óskipt. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 taka samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Sambærilegum ákvæðum er ekki til að dreifa í þeim lögum sem taka til hlutfallslegrar ábyrgðar í þessu tilliti. Markmið og tilgangur ákvæðanna er að standa vörð um hagsmuni kröfu­hafa og ábyrgðarmanna. Við skýringu á 103. gr. laga nr. 21/1991 verður að líta til þess til­gangs lagagreinarinnar, að tryggja að úthlutun vegna tiltekinnar kröfu fari ekki um­fram þá hlutdeild sem í hennar hlut skal koma miðað við heildarfjárhæð kröfunnar en þessi verkan greinarinnar tryggir rétt annarra kröfuhafa. Þá ber einnig að leggja til grund­­vallar þá reglu lagagreinarinnar að kröfuhafa er rétt að lýsa heildarfjárhæð kröfu í þrota­bú skuldara, þótt hún hafi að einhverju leyti fengist greidd frá ábyrgðar­mönnum, eða líkur standi til þess að greiðsla muni berast frá þeim. Síðar, eða við lok skipta, skal svo koma til lokauppgjörs ef hallar á einhvern í þeim lögskiptum, sbr. 104. gr. sömu laga. Ekki verður séð að skilsmunur óskiptrar og hlutfallslegrar sjálfskuldar­ábyrgðar hafi þýð­­­ingu í þessu sambandi þegar svo háttar til sem í þessu máli að þrota­maður er einn skuldari og ber ábyrgð á skuldinni allri. Að þessu virtu þykir rétt að beita ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991 um hlutfallslega sjálfskuldarábyrgð í framan­greindu tilliti eins og um væri að ræða óskipta sjálfskuldarábyrgð. Fyrir liggur að stefn­­­­­a­ndi lýsti upp­haflega kröfu í þrotabúið 28. júlí 2008 en lækkaði kröfu­lýsingu sína í það 15. september sama ár, eftir að hann fékk greitt frá stefnda, sem leiddi til þess að hann fékk lægri úthlutun við skiptalok sem nam 12.849.727 krón­um. Fjár­hæðin er óumdeild milli aðila og er hún hærri en stefnu­fjár­hæð í þessu máli. Með þessu gerði stefn­­andi ekki ýtrustu kröfur á hendur þrota­­búinu til að tak­marka tjón sitt vegna van­efnda þrota­búsins sem aðalskuldara á greiðslu skuld­­­­­ar­­innar. Lækkunin á kröfu­­­­lýsing­unni var and­stæð því sem til var ætlast sam­kvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 og hún var gerð án sam­­­­ráðs við stefnda. Stefnandi gætti því ekki að rétti sínum í sam­ræmi við lög við skipti á þrotabúinu og til tjóns fyrir stefnda. Að virtum þessum atvik­um verður að telja að stefnandi hafi í raun ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda og verður því fallist á með stefnda að rétt sé að víkja síðari láns­­samn­­ingnum til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að undir rekstri máls þessa, eftir að varnir stefnda komu fram um að krafan á hendur honum væri upp­greidd, voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda, útreikningar og fylgiskjöl, þar sem leitast var við að sýna fram á hið gagn­­­­stæða. Stefndi gerði athugasemdir við þau gögn og lagði meðal annars fram þrjár kvittanir, dagsettar 30. júní 2008, vegna innborgana sem hann taldi að ekki hefði verið tekið tillit til, sam­tals að fjárhæð 14.093.472 krónur, vegna fyrra lánsins. Sú fjárhæð er hærri en stefnu­fjárhæð í máli þessu. Þegar að því virtu væri ljóst að lánið, sem stefndi var í ábyrgð fyrir, væri upp­greitt. Stefn­­andi brást við þessu með því að leggja fram þrjár bak­færslukvittanir vegna sama láns með sömu fjárhæð, auk þess sem hann lagði fram yfir­lýsingu frá innheimtu­stýr­ingu stefnanda, dagsetta 21. september 2018, ásamt tveimur yfirlitum auðkenndum nr. I og II með fylgiskjölum. Í yfir­­lýs­ing­unni greinir meðal annars að ekki hafi varð­veist í kerfum stefn­­anda skýr­ingar á bakfærslunum að öðru leyti en því að greiðslur sem fóru inn á lánið 30. júní 2008 hafi ekki átt að fara inn á það. Til að bak­færa greiðslurnar hafi þurft að bak­færa allar aðrar greiðslur frá þeim tíma til 1. sept­ember 2008 og setja þær svo aftur inn á lánið. Stefndi byggði á því við aðal­meðferð að stefnandi hefði með hliðsjón af framan­greindum gögnum ekki sýnt fram á það að krafan á hendur honum væri lögvarin og ekki þegar ­greidd. Þá tók stefn­­andi efnis­lega afstöðu til varna stefnda á þessum grund­velli og vís­aði til fyrr­greindra gagna og fylgiskjala og gerði nánar grein fyrir þeim. Að þessu virtu komast fyrr­­greindar máls­­ástæður að í málinu. Vitnið Einar Pétursson, starfsmaður stefn­anda, kom ekki að gerð fyrrgreindrar yfir­­lýsingar innheimtustýringar og gat ekki borið um hvaða forsendur lágu henni til grundvallar. Þá leiddi stefnandi ekki önnur vitni til að skýra bak­færslurnar eða efni yfirlýsingar­innar og gögn sem henni fylgdu. Bakfærslu­kvitt­anirnar eru dagsettar 16. og 18. maí 2018, sem er eftir að mál þetta var höfðað og stuttu áður en skjölin voru lögð fram. Skjölin bera því ekki með sér að vera sam­­tíma­gögn um bak­færslur sem hefði verið eðlilegt í almennu tilliti í máli af þessum toga. Bak­færslukvittanirnar eru gefnar út af stefnanda en ekki forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Nöfn starfs­manna koma ekki fram á bak­færslukvitt­unum gagn­stætt því sem almennt á við um greiðslu­kvitt­anir sem liggja fyrir í málinu. Þá er ósamræmi í greiðslu­­­­auðkennum samkvæmt yfirliti nr. I um inn­borganir á lánið og yfirliti nr. II um bak­­færslur, sbr. fyrrgreinda yfir­lýsingu inn­heimtu­stýringar. Að mati dóms­­­ins eru fyrr­greind sóknar­gögn svo ófull­komin að ekki fæst sam­rýmst því sem ætlast má til um gæði og áreiðanleika gagna sem stafa frá fjár­mála­­stofnun til fram­­lagn­ingar í þágu með­­­­­ferðar máls fyrir dómi og ætlað er að sýna fram á lögvarða kröfu á hendur skuld­ara. Af þessu leiðir að stefnandi hefur ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að krafa hans á hendur stefnda sé ekki þegar greidd.

Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.  

Með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ræðst af málskostnaðaryfirliti stefnda, 1.013.173 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. 

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Jónsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Björn Þorri Viktorsson lögmaður.

Daði Kristjánsson, héraðsdómari og dómsformaður, kveður upp dóm þennan ásamt með­dómsmönn­unum Ástráði Haraldssyni héraðsdómara og Sigurbirni Einars­syni við­skipta­fræðingi.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Einar Dagbjartsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.

       Stefnandi greiði stefnda 1.013.173 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Daði Kristjánsson

                                                                                    Ástráður Haraldsson

                                                                                    Sigurbjörn Einarsson