• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. S-792/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Lýdíu Rún Sófusdóttur

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

            Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. nóvember 2018, á hendur Lýdíu Rún Sófusdóttur, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot í Reykjavík á árinu 2018, nema annað sé tekið fram, með því að hafa:

 

I

            Miðvikudaginn 4. október 2017 ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti um Langarima við Laufrima uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

II

            Að kvöldi þriðjudagsins 14. nóvember 2017 í Kópavogi ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml) um Dalveg uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar á Dalvegi á móts við Castello.

 

III

            Fimmtudaginn 25. janúar ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti um Gullinbrú að Stórhöfða uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

IV

            Miðvikudaginn 21. mars ekið sömu bifreið svipt ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 0,78 ‰) um Höfðabakka við Bíldshöfða uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

V

            Að kvöldi mánudagsins 30. apríl 2018 ekið sömu bifreið svipt ökurétti um Borgarveg við Spöngina uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

VI

            Fimmtudaginn 3. maí ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti um Langarima við Lyngrima uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

            Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í lið II. auk þess við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, en brot í lið IV. auk þess við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

            Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

            Verjandi ákærðu krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærða hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærða sé sek um þá háttsemi sem henni er gefið að sök og eru brot hennar rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærða er fædd í [...]. Ákærða er í máli þessu sakfelld fyrir að aka sex sinnum svipt ökurétti, þar af í eitt skipti undir áhrifum áfengis og í eitt skipti undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 14. nóvember 2018, á ákærða sakaferil að baki en hún hefur nokkrum sinnum gengist undir sektargreiðslur, fyrst og fremst vegna brota á umferðarlögum. Til að mynda gekkst ákærða undir tvær lögreglustjórasáttir hinn 4. nóvember 2015 vegna ölvunaraksturs og aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá gekkst ákærða undir greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur og akstur svipt ökurétti með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 16. nóvember 2016. Nú síðast var ákærðu gert að greiða sekt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. nóvember 2017 fyrir hraðakstur, svipt ökurétti.

            Við ákvörðun refsingar verður því samkvæmt framasögðu við það miðað að ákærða hafi nú í þriðja skipti innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gerst sek um að aka undir áhrifum áfengis- og/eða ávana- og fíkniefna, og jafnframt í þriðja sinn svipt ökurétti. Brot samkvæmt ákæruliðum 1-2 voru framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. nóvember 2017 og verður ákærðu því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. sömu laga.

            Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 105 daga.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærða svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

            Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 99.226 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Haukur Gunnarsson saksóknarfulltrúi fyrir hönd Elínar Hrafnsdóttur aðstoðarsaksóknara.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærða, Lýdía Rún Sófusdóttir, sæti fangelsi í 105 daga.

            Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

            Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánsonar lögmanns, 126.480 krónur og 99.226 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal