• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember í máli nr. S-166/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Valtý Breka Björgvinssyni og

(Ómar Örn Bjarnþórsson lögmaður)

Þórarni Jónasi Ásgeirssyni

(Sigurður Freyr Sigurðsson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 16. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 23. mars 2018, á hendur Valtý Breka Björgvinssyni, kt. 000000-0000, [...], [...] og Þórarni Jónasi Ásgeirssyni, kt. 000000-0000, [...],[...],fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 17. apríl 2016, veist að A, ákærði Valtýr með því að hafa, inni á skemmtistaðnum American Bar í Austurstræti 8-10 í Reykjavík, slegið A með krepptum hnefa í andlit, ákærðu Valtýr og Þórarinn í kjölfarið ráðist í félagi að A með höggum utan við skemmtistaðinn, eftir að dyraverðir höfðu vísað þeim út af staðnum, og ákærði Valtýr með því að hafa haft sig meira í frammi svo A féll í jörðina allt með þeim afleiðingum að hann fingurbrotnaði á litla fingri vinstri handar, hlaut mar á kinn vinstra megin, bólgu fyrir aftan vinstra eyra og yfirborðsáverka á hálsi.

 

       Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir A, kt. 000000-0000, kröfu um að ákærðu verði in solidum gert að greiða brotaþola skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 943.062, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 900.000 krónum frá 17. apríl 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er birt, en dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr., 6. gr. sömu laga af 943.062 frá þeim degi til greiðsludags.

       Þá er þess jafnframt krafist að ákærðu verði in solidum gert að greiða brotaþola málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómara eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu í málinu.“

 

       Ákærðu neita sök og krefjast sýknu en til vara vægustu refsingar. Þeir krefjast þess að bótakröfunni verði vísa frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

        Samkvæmt lögregluskýrslu komu lögreglumenn að nefndum skemmtistað á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þær sáu hóp manna vera að slást og fóru að skakka leikinn. Þarna voru ákærðu að slást við brotaþola. Í skýrslunni er rakið það sem haft var eftir aðilum og vitnum á vettvangi en það verður ekki rakið hér heldur þess getið, eftir því sem þörf er á, í næsta kafla þegar reifaður verður framburður ákærðu og vitna fyrir dómi. Hið sama á við um skýrslur er lögregla tók við rannsókn málsins.

        Meðal gagna málsins er mynddiskur úr myndavél sem er inni á skemmtistaðnum. Á honum sjást viðskipti ákærðu og brotaþola. Lögreglumaður skoðaði diskinn og ritaði skýrslu um það. Í henni segir orðrétt: „Á upptöku CH12 klukkan 04:11:45 sést hvar Þórarinn er að ganga í gegnum dansgólfið og virðist rekast utan í A. Ekki er að sjá að Þórarinn hafi ýtt við A viljandi. A snýr sér við og ýtir í bakið á Þórarni. Við það byrja Þórarinn og A að munnhöggvast og ýta hvor í annan í einhvern tíma.

        Klukkan 04:12:55 sést hvar Þórarinn rekur höfuðið á sér, að því er virðist, viljandi utan í höfuðið á A. Þórarinn fer síðan frá A og snýr frá honum þegar A tekur sig til og slær Þórarinn þungu höggi í höfuðið. Koma aðilar á milli og stöðva átök þeirra. Á þessum tíma er Valtýr kominn að og fer hann að hjálpa Þórarni. Klukkan 04:13:29 fer Valtýr að A og slær hann í andlitið með hnefahöggi. A slær þá Valtý til baka með tveimur höggum í andlitið. Dyraverðir koma að og vísa Þórarni og Valtý út af staðnum.

        Á upptöku CH6 klukkan 04:15:18 sést þegar Þórarni og Valtý er vísað út af staðnum. Á eftir þeim kom A. Hann stóð í smátíma hjá dyravörðum. Klukkan 04:15:35 virðist sem einhver átök eigi sér stað. Eftir það sést ekkert í mynd þar sem átök eiga sér stað fyrir utan það svæði sem myndavélin nær yfir. Klukkan 04:16.55 sést hvar Valtýr ætlaði að fara inn á staðinn til að forðast lögreglu en er handtekinn.“

        Brotaþoli fór á slysadeild þessa nótt og samkvæmt læknisvottorði skýrði hann svo frá að tveir menn hefðu ráðist á hann fyrir utan skemmtistað í miðbænum eftir stimpingar þar inni. „Hann er sleginn vinstra megin í andlitið og fær áverka á kinn þeim megin, svolitlar blóðnasir. Hann var sleginn með þungt í höfuðið fyrir aftan vinstra eyra. Litli fingur á vinstri hendi er illa farinn og er hann aumur þar yfir nærhluta hans. Atburðarrásin hvað varðar fingurinn er óljós.“ Samkvæmt vottorðinu bar brotaþoli þá áverka er í ákæru greinir.

 

 

 

III

        Ákærði Valtýr kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum og séð þar brotaþola og meðákærða í átökum. Ákærði kvaðst hafa gengið á milli og lent í stimpingum en ekki kvaðst hann muna nákvæmlega hvernig það hefði gengið fyrir sig en síðan hefði þeim verið hent út. Þar hefðu stimpingar haldið áfram við brotaþola og kvaðst ákærði hafa endað í götunni. Ákærði kvað brotaþola hafa rifið í sig og hefði hann dottið á brotaþola.

        Við aðalmeðferð málsins var sýnt myndband af vettvangi á skemmtistaðnum og viðurkenndi ákærði að vera sá er sæist slá brotaþola. Ákærði kvað brotaþola hafa átt upptökin að átökunum fyrir utan skemmtistaðinn og hefði hann veist að ákærðu báðum. Ákærði kvað brotaþola hafa veist að sér en hann hefði reynt að hrinda honum frá sér. Brotaþoli hefði þá gripið í ákærða sem kvað þá báða hafa fallið í jörðina við það. Ákærði kvað meðákærða ekki hafa verið þarna nálægt þegar þetta gerðist.

        Ákærði Þórarinn kvaðst hafa verið á dansgólfinu þegar brotaþoli hefði ítrekað gengið utan í hann. Í framhaldinu hefði komið til orðaskaks þeirra á milli sem hefði endað með því að ákærði kvaðst hafa nuddað höfðinu utan í brotaþola og gengið í burtu, eins og hann orðaði það. Brotaþoli hefði þá kýlt ákærða í hnakkann en þeim hefði verið stíað í sundur. Þessu næst hefðu orðið átök milli brotaþola og meðákærða en ákærði kvaðst ekki hafa séð þau. Ákærðu og brotaþola hefði svo verið vísað út af skemmtistaðnum. Fyrir utan hefði orðið ágreiningur milli ákærðu og brotaþola, eins og hann orðaði það. Meðákærði og brotaþoli hefðu tekist á en annar maður hefði komið og dregið sig afsíðis þar sem þeir hefðu farið að kíta. Þetta hefði endað þannig að maðurinn hefði slegið ákærða í höfuðið og hann lent götunni. Ákærði kvaðst ekki hafa séð þegar brotaþoli og meðákærði féllu í götuna.

        Brotaþoli bar að hafa verið á skemmtistaðnum og hefði piltur gengið harkalega utan í hann. Þeir hefðu farið að rífast og hefði pilturinn, sem brotaþoli kvað vera ákærða Þórarin, skallað hann eða ýtt í hann með hausnum. Brotaþoli kvaðst hafa kýlt frá sér. Skömmu síðar hefði ákærði Valtýr komið og kýlt brotaþola fyrir aftan eyrað. Ákærðu hefði nú verið vísað út og brotaþoli var beðinn um að fara. Þegar hann kom út kvaðst hann hafa séð að ákærðu biðu þar eftir honum. Brotaþoli kvað þá hafa ráðist að sér og farið að kýla sig, aðallega í andlitið, en hann kvaðst hafa reynt að verjast og slá frá sér og lenti eitt högg á ákærða Þórarni. Ákærði Valtýr og brotaþoli hefðu tekist á og fallið í jörðina í þeim átökum. Við fallið í jörðina kvað brotaþoli fingur sinn hafa brotnað enda hefðu þeir tekist þar á. Skömmu síðar hefði lögreglan komið og handtekið ákærðu sem hefðu streist á móti.

        Vinur brotaþola sem var á vettvangi bar að hafa verið vísað út af skemmtistaðnum ásamt öðrum. Fyrir utan staðinn hefðu ákærðu beðið og hefði verið reynt að ræða við þá og róa þá en annar þeirra hefði ráðist á brotaþola. Vinurinn kvaðst hafa reynt að róa annan manninn en hinn hefði farið að slást við brotaþola. Lögreglan hefði svo komið og handtekið mennina sem hefðu ráðist á brotaþola. 

        Stúlka, sem þekkir ákærða Þórarin og var á vettvangi, bar að hafa verið á skemmtistaðnum þegar stimpingarnar byrjuðu milli þriggja pilta en svo hafi sá fjórði bæst í hópinn. Þeir hafi verið að berja hver annan og hrinda hver öðrum, eins og hún orðaði það. Hún kvaðst ekki hafa séð hver átti upptökin en þeir hefðu allir verið að slást. Ákærðu hefðu verið handteknir en ekki fjórði pilturinn sem hefði hlaupið inn á skemmtistaðinn. Þessi maður hefði barið ákærða Þórarin í höfuðið. Hún kvað ákærða Þórarin hafa verið handtekinn við annan skemmtistað en þann sem ákærðu og brotaþoli voru á.

        Önnur stúlka, sem var á skemmtistaðnum og þekkir brotaþola, bar að hafa farið út á eftir piltum sem höfðu verið til vandræða inni. Fyrir utan hefði einn piltur ráðist á brotaþola og svo hefði annar ráðist á hann. Þá hefði piltur komið brotaþola til hjálpar og rifið annan árásarmanninn af honum. Þegar það gerðist hefði brotaþoli legið í jörðinni og skömmu síðar hefði lögreglan komið. Hún kvaðst telja að sömu tveir piltar og voru handteknir, hefðu ráðist á brotaþola. Hún lýsti slagsmálunum þannig að fyrst hefði annar pilturinn ráðist á brotaþola og kýlt hann nokkrum sinnum og síðan komið honum í jörðina. Þá hefði hinn pilturinn komið og veist að brotaþola en þá hefði piltur komið brotaþola til hjálpar. Hún kvað brotaþola ekki hafa átt upptök að átökunum heldur varist með því að ýta árásarmanninum til baka.

        Leigubifreiðastjóri, sem var á vettvangi, bar að hafa séð stimpingar fyrir utan skemmtistaðinn. Hann kvað sig minna að tveir eða fleiri hefðu verið á móti einum. Lögreglan hefði handtekið tvo menn sem höfðu verið í slagsmálunum og kvað hann sig ráma í að þeir hefðu verið árásarmennirnir og ráðist á einn mann. Þessir menn hefðu átt upptökin og hefði annar þeirra byrjað að hrinda þessum eina. Síðan hefði annar maður bæst við sem árásarmaður.

        Piltur, sem var á vettvangi og hafði verið yfirheyrður af lögreglu, kvaðst hafa verið í röð fyrir utan nefndan skemmtistað. Hann kvaðst lítið muna eftir atburðum nema hvað þrír eða fjórir menn hefðu verið í átökum. Hjá lögreglu hafði hann borið að þrír eða fjórir menn hefðu ráðist á árásarþola sem hefði reynt að verja sig. Hann kvaðst hafa séð að lögreglan handtók tvo þeirra sem ráðist höfðu á árásarþola. Pilturinn kvaðst hafa gefið rétta skýrslu á sínum tíma.

        Lögreglumaður, sem kom á vettvang og ritar frumskýrslu máls, staðfesti hana. Hún kvaðst hafa verið að koma úr öðru máli ásamt félaga sínum. Þær hefðu séð slagsmál, farið á vettvang og skakkað leikinn. Þarna hefðu verið fjórir piltar en hún kvað að þarna hefði verið þvaga og hún því ekki áttað sig á hver hefði ráðist á hvern. Hún kvað ákærðu hafa verið á staðnum og hefðu þeir verið æstir og ekki tilbúnir að hætta. Brotaþoli hefði legið í jörðinni og verið mjög rólegur. Ákærðu hefðu verið æstir og fljótlega verið settir í járn. Á vettvangi hefðu lögreglumenn fengið þær upplýsingar að ákærðu hefðu svo til fyrirvaralaust ráðist á brotaþola sem hefði reynt að róa þá en þeir ekki haft áhuga á því. Hún kvað sig minna að annar ákærðu hefði verið kominn yfir götuna þegar hann var handtekinn.

        Annar lögreglumaður sem einnig kom á vettvang bar að hafa séð þrjá menn í slagsmálum og hefðu þeir legið í götunni. Tveir þessara manna voru handteknir en lögreglumenn fengu þær upplýsingar á vettvangi að þeir væru gerendur í slagsmálunum.

        Læknir, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Hann kvað áverka brotaþola geta samrýmst líkamsárás þeirri er hann lýsti. Hann kvað fingurinn frekar hafa brotnað við það að snúið hefði verið upp á hann. Ólíklegra væri að hann hefði brotnað við það að slasaði hefði slegið frá sér. Þá kvað hann það ólíklega skýringu að fingurinn hefði brotnað við fall.

 

IV

        Eins og rakið hefur verið kom til átaka milli ákærðu og brotaþola inni á skemmtistaðnum. Í þeim átökum sló ákærði Valtýr brotaþola hnefahögg í andlitið eins og hann er ákærður fyrir og ákærði hefur viðurkennt. Verður ákærði sakfelldur fyrir það.

        Fyrir utan skemmtistaðinn héldu átökin áfram og bar brotaþoli að ákærðu hefðu ráðist á sig og slegið sig en hann hefði varist. Í þessum átökum hefðu hann og ákærði Valtýr fallið í götuna og við það hefði fingurinn brotnað. Þessi lýsing fær að hluta til stuðning í framburði ákærða Valtýs sem kannast við að hafa verið í stimpingum við brotaþola og hefðu þeir fallið í götuna. Ákærði Þórarinn bar hins vegar að hafa verið dreginn í burtu en brotaþoli og meðákærði hefðu tekist á.

        Í kaflanum hér að framan var einnig rakinn framburður annarra vitna. Annars vegar eru vitnin leigubifreiðastjóri og hins vegar fólk sem var á vettvangi, væntanlega að skemmta sér. Þessum vitnunum ber nokkuð saman um að tveir menn hefðu ráðist á brotaþola og að lögreglumenn hefðu handtekið mennina, en það eru ákærðu í málinu. Lögreglumenn, sem komu á vettvang, báru að þá hefðu ákærðu og brotaþoli verið í slagsmálum, eins og rakið var. Þeir hefðu handtekið ákærðu enda fengið þær upplýsingar hjá vitnum að þeir hefðu ráðist á brotaþola. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sannað sé með framburði vitna, gegn neitun ákærðu, að þeir hafi ráðist á brotaþola eins og þeim er gefið að sök í ákærunni og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Ákærðu réðust á brotaþola í sameiningu fyrir utan skemmtistaðinn og verða afleiðingar árásarinnar metnar þeim báðum til sakar. Brot ákærðu er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

        Ákærðu hefur ekki áður verið refsað. Refsing þeirra er hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.

        Bótakrafa brotaþola sundurliðast svo að krafist er 43.062 króna vegna sjúkrakostnaðar og miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur. Gögn hafa verið lögð fram til stuðnings kröfunni um greiðslu sjúkrakostnaðar og verður hún tekin til greina. Miskabætur eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Krafan skal bera vexti eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Dráttarvextir reiknast frá þeim degi er 30 dagar voru liðnir frá þingfestingu. Þá skulu ákærðu greiða brotaþola málskostnað eins og í dómsorði greinir.

        Ákærðu verða dæmdir til að greiða sakarkostnað eins og í dómsorði greinir. Þá skal hvor þeirra greiða verjanda sínum málsvarnarlaun sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti í dómsorði. Þá verður ákærði Þórarinn dæmdur til að greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

       

        Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærðu, Valtýr Breki Björgvinsson og Þórarinn Jónas Ásgeirsson, sæti, hvor um sig, fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsinganna og falli þær niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Ákærðu greiði óskipt A 443.062 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 400.000 krónum frá 17. apríl 2016 til 24. maí 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 443.062 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.

        Ákærðu greiði óskipt 78.580 krónur í sakarkostnað.

        Ákærði, Valtýr Breki, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns, 653.480 krónur.

        Ákærði, Þórarinn Jónas, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, 653.480 krónur og þóknun lögmanns síns á rannsóknarstigi, Agnars Þórs Guðmundssonar lögmanns, 54.000 krónur.

 

                                                                                    Arngrímur Ísberg