• Lykilorð:
  • Aðilaskýrsla
  • Gagnaöflun
  • Vitni

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 19. desember 2018 í máli nr. V-17/2018:

Anna Kolbrún Árnadóttir

Bergþór Ólason

Gunnar Bragi Sveinsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Reimar Snæfells Pétursson hrl.)

gegn

Báru Halldórsdóttur

(Auður Tinna Aðalbjarnardóttir hdl.)

 

Mál þetta hófst með beiðni til dómsins, dagsettri 6. desember sl., sem barst sama dag. Sóknaraðilar eru Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Eftir að hafa gefið sig fram degi eftir að beiðnin barst dómnum, og upplýst um tengsl sín við málið, var Báru Halldórsdóttur, veitt staða varnaraðila.

 

Dómari óskaði staðfestingar á því að lögmennirnir Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson hefðu tekið að sér að gæta hagsmuna varnaraðila í málinu eins og fram hafði komið í fjölmiðlum. Eftir að sú staðfesting barst föstudaginn 14. desember sl. upplýsti dómurinn lögmenn varnaraðila um það hvaða skýrslum sóknaraðilar hefðu óskað eftir. Um hæl barst tilkynning frá lögmönnunum um að varnaraðili hygðist mótmæla kröfu sóknaraðila. Eftir þingfestingu málsins 17. desember sl. fór fram munnlegur málflutningur vegna þessa ágreinings og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

 

I.

Krafa sóknaraðila er að fram fari vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna um atvik sem urðu 20. nóv. sl. á veitingastofunni Klaustri við Kirkjutorg 4 í Reykjavík.

 

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

 

II.

Sóknaraðilar þessa máls sátu saman umræddan dag á veitingahúsinu Klaustri í miðborg Reykjavíkur. Miðað við kröfur lögmanns sóknaraðila hafa þau setið þar á bilinu frá 18:45, 20. nóvember sl. til 01:00 aðfaranótt 21. nóvember. Sóknaraðilar kveða aðliggjandi borð hafa staðið auð og enga aðra gesti hafa verið nálæga.

 

Beiðendur kveðast hafa treyst því og haft réttmætar væntingar til þess að samræður þeirra í greint skipti sættu ekki njósnum, upptöku eða annarri vinnslu óviðkomandi aðila. Hafi samræður þeirra borið þess merki og hafi ýmis mál verið rædd, sum í alvöru en önnur í hálfkæringi eins og gangi.

 

Þann 28. nóv. sl. birtust fréttir á vefmiðlunum dv.is og stundin.is, byggðar á upptökum, þar sem svo virðist sem símtæki hafi verið staðsett nærri því horni sem sóknaraðilar sátu í, ásamt á stundum fleirum, og samtöl þeirra tekin upp. Föstudaginn 7. desember sl. gaf varnaraðili sig fram og kvaðst hafa tekið upp samtölin umrætt sinn og látið í kjölfarið fjölmiðla hafa upptökurnar, þar sem henni hefði blöskrað talsmáti umræddra.

 

Sóknaraðilar telja að sumt í fréttum hafi verið ónákvæmt, og jafnvel rangt í veigamiklum atriðum, um efni samræðnanna.

 

Beiðni sóknaraðila barst dómnum 6. desember sl. en þá hafði varnaraðili ekki stigið fram. Þó að það hefði hún gert daginn eftir héldu sóknaraðilar beiðni sinni til streitu og töldu nauðsynlegt að kalla fyrir nafngreind vitni, auk þess sem gerð var krafa um að dómari legði fyrir vitnin að hafa meðferðis upptökur úr öryggismyndavélum fyrir framangreint tímabil svo hægt yrði að átta sig betur á málsatvikum. Umræddar upptökur eru að sögn sóknaraðila úr myndavél eða -vélum Alþingis, Dómkirkjunnar og veitingahússins þar sem samræðurnar fóru fram.

 

III.

Beiðendur telja sýnt að þessi njósnaaðgerð, eins og þeir kalla hana, hafi a.m.k. falið í sér refsivert brot sem þeir eigi sókn sakar í. Varnaraðila og eftir atvikum öðrum sem hafi framkvæmt þessa aðgerð geti ekki hafa dulist að samtalinu hafi ekki verið beint að henni eða þeim, efni þess hafi verið einkamálefni þeirra sem í því tóku þátt og þá hljóti afhending upptökunnar til fjölmiðla að jafngilda birtingu þess. Aðgerðin hafi því falið í sér brot gegn 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þeir sem misgert sé við geti einir saksótt slík mál í einkarefsimálum, sbr. 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga.

 

Beiðendur telja enn fremur sýnt að í þessari aðgerð hafi falist saknæm og ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu þeirra. Þeir geti því krafið varnaraðila, eða eftir atvikum aðra þá sem á henni beri ábyrgð, um miskabætur og aðrar fébætur vegna þeirra afleiðinga sem aðgerðin hefur haft fyrir líf þeirra og störf.

 

Eigi málshöfðun með refsi- og bótakröfum að geta orðið raunhæf sé óhjákvæmilegt að varpa skýrara ljósi á aðgerðirnar og atvik málsins, þótt varnaraðili hafi gefið sig fram. Því fari beiðendur fram með kröfu um að leiða fyrirsvarsmenn og starfsmenn veitingastofunnar fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæður á veitingastofunni þann dag sem upptakan hafi verið framkvæmd. Þá sé þess óskað að í vitnakvaðningu verði lagt fyrir fyrirsvarsmenn og starfsmenn veitingastofunnar, Alþingis og Dómkirkjunnar að hafa meðferðis upptökur úr öryggismyndavélum til sýningar fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Að auki sé sú ályktun dregin að hver sá sem hafi eftir atvikum framkvæmt upptökuna með varnaraðila kunni að hafa keypt veitingar með notkun greiðslukorts og ætlunin sé því sú að í kvaðningu verði einnig lagt fyrir fyrirsvarsmenn og starfsmenn veitingastofunnar að hafa meðferðis afrit greiðslukortakvittana sem komi til álita til framlagningar í dómi, sbr. sama ákvæði.

 

Hagsmunir beiðenda af því að fá þessar upplýsingar ráði úrslitum um möguleika þeirra til málshöfðunar og fullnægi því skilyrði 2. ml. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni. Hagsmunir beiðenda af því að sönnunarfærslan fari fram áður en upptökum í öryggismyndavélum hefur verið eytt fullnægi einnig skilyrðum 1. ml. ákvæðisins um að þoli ekki bið.

 

IV.

Varnaraðili byggir á því að þótt hægt væri hugsanlega að líta svo á að sóknaraðilar hefðu, þegar beiðni þeirra var rituð, átt lögvarða hagsmuni í málinu, hafi sú staða gjörbreyst eftir að varnaraðili gaf sig fram og játaði fúslega þátt sinn í málinu. Eftir það hafi þessir hagsmunir sóknaraðila ekki lengur verið fyrir hendi, og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna beiðninni.

 

Þá telur varnaraðili beiðni sóknaraðila ekki fullnægja formkröfum sem settar séu í XII. kafla laga nr. 91/1991, þar sem í beiðni sóknaraðila hafi ekki verið með fullnægjandi hætti greint frá því hverja aðra en aðila gagnabeiðni hefði getað varðað að lögum. Sú tilgreining hafi borist of seint og sé í raun enn óljós, eins og tilgangurinn með þeim skýrslum sem fyrirhugaðar séu.

 

Málflutningur varnaraðila varð svo ekki skilinn öðru vísi en svo að varnaraðili teldi að sóknaraðilum væru tæk önnur úrræði heldur en það sem þeir óskuðu hér eftir.

 

Þá telur varnaraðili jafnframt hugsanlegt að þau brot sem sóknaraðilar telji að varnaraðili hafi gerst sek um séu refsiverð og þess eðlis að ákæruvaldið eigi þar sókn sakar, en slíkt girði fyrir sönnunarfærslu samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 77. gr. laganna.

 

V.

Sóknaraðili byggir beiðni sína til dómsins á 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómstólar hafa litið svo á að ákvæðið feli í sér undantekningu frá meginreglum og hefur því verið beitt í samræmi við það, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar í málinu nr. 474/2017. Því sjónarmiði hefur verið hreyft að í ákvæðinu felist raunar neyðarregla, einkum til að tryggja að sönnunargögn fari ekki forgörðum.

 

Dómstólar hafa játað aðilum ríkan rétt til þess að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar og hefur verið litið svo á að almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Þó að mál hafi ekki verið höfðað, eins og hér um ræðir, hefur þessi regla m.a. leitt til þess að alla jafnan er orðið við beiðnum málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laganna, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Öðru máli gegnir um þá aðstöðu sem lýst er í 2. mgr. ákvæðisins, þ.e. um vitnaskýrslur, m.a. vegna framangreindra sjónarmiða um að reglan sé til að bregðast við sérstökum aðstæðum sem upp kunna að koma. Vegna þess eru gerðar nokkuð strangar kröfur í ákvæðinu, þ.e. að hætta sé á að kostur fari forgörðum á því að afla sönnunar um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni aðila eða að það verði verulega erfiðara síðar. Er honum þá heimilt, eins og segir í ákvæðinu, að leita sönnunar um atvikið fyrir dómi með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Aðila er með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um það hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. 

 

Þessi nálgun löggjafans á málið tekur ljóslega mið af meginreglum íslensks réttarfars um það hvernig mál verða almennt borin fyrir dómstóla. Dómurinn verður einnig að líta svo á að við túlkun á ákvæðinu, og þó einkum beitingu þess, verði að sýna varfærni í ljósi þeirrar meginreglu að sönnunarfærsla skal að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem mun fara með og leysa úr máli, sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki betur séð en að Landsréttur leggi mikla áherslu á þetta atriði, sbr. úrskurð réttarins í máli nr. 774/2018 frá 6. nóvember sl. Þó að í 2. mgr. 47. gr. segi að meginregla 1. mgr. girði ekki fyrir að byggt sé í máli á sönnunargagni sem aflað hefur verið áður en mál var höfðað hefur meginreglan þýðingu við beitingu 2. mgr. 77. gr., sbr. framangreint. Ákvæði 2. mgr. er að mati dómsins árétting meginreglunnar enda væru ákvæði XII. kafla laganna til lítils nýt ef sönnunargögn sem aflað væri eftir ákvæðum kaflans gætu ekki haft sönnunargildi í dómsmáli.

 

Sóknaraðilar sendu beiðni sína til dómsins fimmtudaginn 6. desember sl. Ekki er gerður ágreiningur um að daginn eftir eða föstudaginn 7. desember sté varnaraðili Bára Halldórsdóttir fram í fjölmiðlum og upplýsti alþjóð um að hún hefði umrætt kvöld hljóðritað samtal gesta á veitingahúsinu, m.a. á milli sóknaraðila þessa máls. Lögmaður sóknaraðila sendi dómnum samdægurs tölvuskeyti þar sem hann áréttaði beiðnina og kvað hana ekki einvörðungu beinast að því að freista þess að upplýsa um þann einstakling sem hefði staðið að hljóðrituninni heldur að leiða allar aðstæður aðrar í ljós og hvernig atvikum var í raun og veru háttað á og við staðinn umrætt kvöld. 

 

Varnaraðili hefur vísað til þess að með því að hún hafi gefið sig fram og játað á sig þá háttsemi, sem sóknaraðilar telja ámælisverða og jafnvel refsiverða, skorti sóknaraðila nú lögvarða hagsmuni af beiðni sinni.

 

Ljóst virðist að þeir hagsmunir sóknaraðila að upplýsa hver það var sem stóð fyrir umræddri upptöku, eins og staðan var þegar beiðni sóknaraðila barst dómnum, séu ekki lengur til staðar. Þótt umfjöllun fjölmiðla og yfirlýsingar varnaraðila utan réttar hafi ekki sama gildi og sönnunarfærsla fyrir dómi, eins og lögmaður sóknaraðila benti á, er til þess að líta að skýrsla verður ekki tekin af varnaraðila fyrir dómi á þessu stigi málsins og hefur það enda aldrei staðið til. Varnaraðili er, miðað við málatilbúnað sóknaraðila, sá einstaklingur sem væntanlega mun að óbreyttu standa frammi fyrir málssókn af þeirra hálfu, og mun þá hafa aðilastöðu en ekki stöðu vitnis. Því verður, eðli máls samkvæmt, ekki tekin vitnaskýrsla af varnaraðila í sérstöku vitnamáli og varnaraðili mun ekki heldur gefa aðilaskýrslu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 672/2017, enda engin krafa heldur uppi um slíkt.

 

Því verður litið til þess hvort ákvæði 2. mgr. 77. gr. heimili að teknar verði skýrslur af þeim vitnum sem sóknaraðilar hafa óskað eftir að gefi skýrslu fyrir dómi og hafi meðferðis upptökur úr öryggismyndavélum, þ.e. hvort sóknaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af slíkri framkvæmd. Ekki verður þannig fallist á að sóknaraðilar hafi lagt beiðni sína í þá veru of seint fram þótt umræddir aðilar hafi ekki verið sérstaklega tilgreindir í beiðni til dómsins. Verður enda talið að heimilt sé endranær að bæta við hugsanlegum vitnum, sem óskað er að gefi skýrslur ef tilefni gefst til undir rekstri sérstaks vitnamáls og að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Bent hefur verið á að engin gögn hafa verið lögð fram um að einhverjar tilraunir hafi verið gerðar til að afla þessara gagna án atbeina dómsins. Ekkert liggur fyrir um að haft hafi verið samband við viðkomandi vitni sem sóknaraðilar hafa óskað eftir að verði leidd fyrir dóminn með beiðni um að þau gögn sem óskað er upplýsinga um verði varðveitt. Fyrir liggur að Persónuvernd mun að því er virðist hafa hafið rannsókn á málinu og ekki loku fyrir það skotið að stofnunin muni í rannsóknarskyni afla þeirra gagna sem óskað er eftir í vitnamáli þessu, þótt vitaskuld verði ekkert fullyrt um það.

 

Dómur telur ekki hægt að líta svo á að sóknaraðilar hafi sýnt fram á að upptökur úr myndavélum veitingahússins, Alþingis og Dómkirkjunnar muni óhjákvæmilega fara forgörðum ef ekki verður virkjuð sú neyðarheimild sem fram kemur í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, eða að slá megi því föstu að sú verði ella raunin. Sóknaraðilar hafa vísað til þess að upptökur úr öryggismyndavélum séu jafnan geymdar í 90 daga og eigi það a.m.k. við um upptökur frá myndavélum Alþingis. Dómurinn bendir og á reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Ekki verður séð að sóknaraðilar hafi með markvissum hætti kannað eða látið reyna á þá möguleika sem gætu falist í lokasetningu 2. mgr. 7. gr. reglnanna, sbr. 1. gr. reglna nr. 869/2014 um breytingar á reglunum, þar sem segir að upplýsingar sem verða til við rafræna vöktun megi ekki geyma lengur en 90 daga, en ein undanþágan frá því, sem sett var inn með breytingarákvæðinu, er ef upplýsingar eru nauðsynlegar til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Þá verður og staldrað við 12. gr. reglnanna, en þar segir í 1. mgr. að sá sem sætt hefur rafrænni vöktun eigi rétt á að skoða gögn, svo sem að fá að hlusta á hljóðupptökur sem til verða um hann við vöktunina, í samræmi við þágildandi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. II. ákvæði til bráðabirgða með núgildandi lögum nr. 90/2018 um gildi eldri reglugerða og 14. gr. laganna.

 

Varðandi lögvarða hagsmuni sóknaraðila telur dómurinn að rökstuðningur í beiðni þeirra mætti vera skýrari. Það markast þó af þeirri augljósu staðreynd að ekki er vitað hvernig atvikum var háttað eða hvort einhverjir aðrir aðilar en varnaraðili hafi komið að málum, eins og sóknaraðilar virðast telja líklegt. Slíkar kenningar og vangaveltur verða þó að mati dómsins að byggjast á einhverju öðru en því að hlutaðeigendur telji þetta eða hitt líklegt án þess að það sé rökstutt sérstaklega og með afmörkuðum hætti hvers vegna slíkar grunsemdir séu uppi. Þá verður ekki séð að á því sé brýn þörf fyrir sóknaraðila að upplýst verði þegar á þessu stigi hverjar aðferðir hafi verið viðhafðar við upptöku eða upptökur í umrætt sinn og það hvort hugsanlegt sé að varnaraðili hafi átt sér vitorðsmenn, en ekkert í málinu á þessu stigi bendir til þess að svo sé.

 

Dómurinn áréttar að þau úrræði sem ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 gera ráð fyrir eru, vegna framangreindra sjónarmiða, háð ströngum skilyrðum hvað varðar lögvarða hagsmuni og skýrleika um það í hvaða skyni beiðni er sett fram. Ákvæðum kaflans er ekki ætlað að veita þeim er telur sig hafa lögvarða hagsmuni í einhverjum skilningi ríkari rétt til sönnunarfærslu og skýrslutöku af einstaklingum en viðkomandi hefði ella í venjulegu dómsmáli. Því þarf að liggja fyrir með skýrum hætti hvaða atvik er verið að leita sönnunar um og af hverju.

 

Dómurinn telur því að öllu framangreindu virtu að sóknaraðilar hafi ekki í málatilbúnaði sínum fært viðhlítandi rök fyrir því að skilyrðum sé fullnægt til að beita undantekningarheimild 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 til sönnunarfærslu fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. síðari málslið 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfum sóknaraðila því hafnað.

 

Með vísan til atvika málsins, m.a. þess að þegar beiðni sóknaraðila var send dómnum hafði varnaraðili ekki gefið sig fram, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Hagsmuna varnaraðila gættu lögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, sem flutti málið fyrir varnaraðila. Fyrir sóknaraðila flutti málið Reimar Pétursson lögmaður.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, sem fékk málinu úthlutað 11. desember sl., kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Kröfu sóknaraðila, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að fram fari vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna um atvik sem urðu 20. nóvember sl. á veitingastofunni Klaustri, við Kirkjutorg 4 í Reykjavík, sbr. nánari útlistun í úrskurði þessum, er hafnað.

 

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                                   

                        Lárentsínus Kristjánsson