• Lykilorð:
  • Vátryggingarsamningur
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember í máli nr. E-828/2018:

A

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður)

gegn Sjóvá-Almennum tryggingar hf.

(Guðjón Ármannsson lögmaður)

 

 

I.       Dómkröfur

Mál þetta var þingfest 15. mars 2018 en tekið til dóms 18. september 2018 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi, A, [...], krefst þess aðallega að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., verði dæmdur til að greiða henni 4.824.000 krónur, auk dráttarvaxta á þá fjárhæð frá 27. febrúar 2017 til greiðsludags.

Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.424.000 kr., auk dráttarvaxta á þá fjárhæð frá 27. febrúar 2017 til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi greiði henni 1.584.000 kr., auk dráttarvaxta á þá fjárhæð frá 27. febrúar 2017 eða lægri fjárhæð. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

 

II.    Málavextir

Atvik málsins eru þau að stefnandi slasaðist í vélsleðaslysi 12. mars 2014 þegar hún var á ferðalagi í [...]. Á slysdegi var stefnandi handhafi American Express greiðslukorts frá Íslandsbanka og hafði þar af leiðandi þá tryggingu sem rétthafar kortsins njóta.

Stefnandi krafðist í kjölfarið bóta úr ferðatryggingu stefnda vegna. Félagið hafnaði hins vegar bótaskyldu á þeim grundvelli að engin gögn hefðu borist sem sönnuðu að slys hefði átt sér stað erlendis. Eftir að gagna hafði verið aflað var bótaskylda stefnda samþykkt.

Í kjölfarið  sendi stefnandi inn matsbeiðni, dags. 18. apríl 2016, þar sem farið var fram á að læknir mæti þær afleiðingar sem hún byggi við vegna slyssins. Í matsgerð læknis sem aðilar málsins stóðu sameiginlega að því að afla, dags. 16. desember 2016, var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri 33 stig og jafnframt að varanleg örorka hennar samkvæmt 5. gr. sömu laga væri 40%. Matsgerðin er á þá leið að miskastigin skiptast í 25 stig vegna heilaáverka og 8 stig vegna áverka á mjöðm og öxl.

Í kjölfar niðurstöðu matsgerðarinnar gerði stefnandi kröfu um greiðslu úr ferðatryggingu American Express korts með bréfi, dags. 7. febrúar 2017, og var höfuðstóll skaðabótakröfunnar 12.000.000 kr.

Með bréfi, dags. 27.febrúar 2017, samþykkti stefndi að greiða stefnanda 2.376.000 kr., auk lögfræðikostnaðar og kostnaðar við öflun gagna. Upphæðin var greidd vegna varanlegs miska sem, eins og áður hefur komið fram, var metinn 33 stig. Fjárhæð greiðslu stefnda var byggð á grein 4.1.4 í skilmálum vátryggingarinnar, en þar segir að algjörlega varanleg lömun útlims bætist sem missir þess útlims. Önnur varanleg örorka 16% og hærri sé einnig bætt, en þær bætur fari eftir mati sem gert er með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig. Við ákvörðun bótanna lækkaði stefndi vátryggingarfjárhæð vegna aldurs stefnanda á slysdegi með vísan til gr. 4.2.2 í skilmálunum. 

Stefnandi mótmælti þessum útreikningi og fór fram á hærri bætur en stefndi hafnaði þeirri kröfu. Stefnandi tók því við greiðslunni með fyrirvara um frekari kröfugerð af sinni hálfu.

Í framhaldinu vísaði stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum þann 24. mars 2017, þar sem hún taldi túlkun stefnda á skilmálum ferðatryggingarinnar ekki samræmast orðalagi viðkomandi ákvæða. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekki rétt til frekari bóta úr greiðslukortatryggingunni en í úrskurði nefndarinnar frá 4. júlí 2017 sagði meðal annars:

„Við slysið hlaut M áverka á höfði, vinstri öxl og mjaðmahnútu eins og ítarlega er rakið í fyrirliggjandi matsgerð. Engir þessara áverka eru meðal þeirra áverka sem tilgreindir eru í gr. 4.1.3. og leiða til þeirrar örorku sem þar er getið. Þegar af þeirri ástæðu á M ekki rétt til örorkubóta vegna þeirra tilvika sem getið er í þessari grein vátryggingarskilmálanna. Áverkar M höfðu ekki í för með sér algera varanlega lömun útlims. Á hinn bóginn varð hún fyrir öðrum áverkum sem metnir voru til varanlegrar örorku með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig eins og mælt er fyrir um gr. 4.1.4., eða samtals 33 stig.  Á M rétt til bóta fyrir varanlega örorku skv. þessari grein skilmálanna og í samræmi við metinn miska. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en óumdeilt sé að M hafi fengið greiddar bætur fyrir varanlega örorku í samræmi við skilmálaákvæði og fyrirliggjandi mat á miskastigi.

Gr. 4.2. í vátryggingarskilmálunum hefur fyrirsögnina „Takmarkanir á bótaskyldu vegna töluliðar 4.1.“ Í gr. 4.2.2. segir, sé vátryggður 60 ára eða eldri, að vátryggingarfjárhæðir verði nánar tilgreindir hundraðshlutar af hámarksfjárhæðum þeim sem tilgreindar eru í gr. 4.1.1. og 4.1.3. Þannig verður vátryggingarfjárhæðin 60% af vátryggingarfjárhæðinni sem tilgreind er í 4.1.3.  þegar vátryggður er 66 eða 67 ára á slysdegi. Þegar gr. 4.1.3 og 4.1.4 eru lesnar saman fer ekki á milli mála að vátryggingarfjárhæð sú sem tilgreind er í 4.1.3 á einnig við um þá örorku sem metin er á grundvelli 4.1.4. M var 66 ára gömul þegar slysið bar að höndum við ákvörðun bóta til hennar var V rétt að miða vátryggingarfjárhæðina við 60% af þeirri vátryggingarfjárhæð  sem tilgreind er í gr. 4.1.3. Ekki liggur annað fyrir en V hafi lækkað vátryggingarfjárhæðina í samræmi við fyrirmæli greinarinnar. Verður því að telja að M hafi fengið bætur úr hendi V fyrir varanlega örorku í samræmi við ákvæði vátryggingarskilmálanna. Hún á því ekki rétt á frekari bótum úr ferðaslysatryggingunni.

Gr. 4.3 í hinum umdeildu skilmálum ber fyrirsögnina „Sjúkrakostnaður á ferðalagi erlendis“. Samkvæmt gr. 4.3.1. bætir félagið  læknis- og sérfræðikostnað, sjúkrahúsvist, hjúkrun, lyfjakostnað og meðferð samkvæmt læknisvottorði viðkomandi sjúkrastofnunar, vegna þess að vátryggður veikist eða slasast í ferðinni. Þá segir í gr. 4.3.5. að tilkynna skuli SOS INTERNATIONAL“ svo fljótt sem verða má um alvarleg slys eða veikindi vátryggðs á ferðalagi erlendis. Þótt að það megi fallast á að ákvæði skilmálans um þann sjúkrakostnað sem vátryggingin tekur til séu ekki eins skýrir og best verður á kosið þykir engu að síður ljóst af fyrirsögn ákvæðisins og orðalagi þess að öðru leyti að einungis sé bættur sjúkrakostnaður sem stofnast meðan á ferð erlendis stendur en ekki eftir að hinn vátryggði er kominn til Íslands. Óumdeilt mun vera að stofnað var hér á landi til þess sjúkrakostnaðar sem M krefst greiðslu á.“

 

III. Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir stefnukröfu sína á því að samkvæmt skilmálum ferðatryggingarinnar sem við eiga í málinu þá eigi greiðsla vátryggingabóta til hennar að vera hærri og því eigi hún rétt á greiðslu í samræmi við stefnukröfur. Af hálfu stefnanda er byggt á því að hún eigi rétt á greiðslu vátrygginga að fjárhæð 12.000.000 kr. vegna eðlis þeirra áverka sem hún varð fyrir og í því tilviki myndi lækkun vegna aldurs koma til. Byggist sú krafa einkum á fyrirliggjandi örorkumati svo og viðkomandi skilmálum og því að tjón stefnanda sé verulegt og varanlegt.

Varakrafa stefnanda byggist á því að samkvæmt skilmálum ferðatryggingarinnar sé ekki heimild fyrir því að draga aldursstuðul frá fjárhæð ef stuðst er við gr. 4.1.4 svo sem uppgjörsgreiðsla stefnda gerir. Byggir stefnandi kröfu sína á þeim forsendum sem gefnar eru upp í ákvæðum skilmála tryggingarinnar. Samkvæmt þeim eigi takmarkanir samkvæmt gr. 4.2.2 ekki við í þessu tilviki, þar sem skýrt segi í greininni að gr. 4.2.2 snúi að gr. 4.1.1 og 4.1.3 en öðru ekki.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að ákvörðun bóta sé gerð á röngum forsendum. Fjallað sé um ferðaslysatryggingu og sjúkrakostnað í 4. gr. skilmálanna. Útreikningur þeirrar fjárhæðar sem stefnandi fékk greidda sé reiknuð á þá leið að fjárhæðin skerðist vegna aldurs. Samkvæmt orðalagi gr. 4.2.2 í skilmálanum segir að ef vátryggður sé 60 ára eða eldri verði vátryggingafjárhæðir þeir hundraðshlutar af hámarksfjárhæðum sem tilgreindir séu í töluliðum 4.1.1 og 4.1.3. Aldur stefnanda sé 66 ára á slysadegi og því miðað við 60%. Skýrlega sé mælt fyrir um að ákvæðið eigi við ef um er að ræða 4.1.1 eða 4.1.3. Samkvæmt niðurstöðu stefnda eru stefnanda reiknaðar bætur samkvæmt gr. 4.1.4 og gr. 4.2.2 notuð til lækkunar. Stefnandi telur hins vegar að samkvæmt orðalagi skilmálans falli grein 4.1.4. ekki undir ofangreint takmörkunarákvæði skilmálans.

Stefnandi byggir á því að í gr. 4.1.4 skilmálans sé sagt að önnur varanleg örorka 16% og hærri sé einnig bætt og ákvarðist bæturnar eftir mati sem gert sé með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig. Þá sé einnig tekið fram að ekki sé tekið tillit til starfs eða starfshæfni. Samkvæmt mati sem að stefnandi undirgekkst sé um að ræða 40% varanlega örorku og 33 miskastig.

Stefnukröfur stefnanda sundurliðast annars þannig:

Aðalkrafa: Miðað er við gr. 4.1.3 í skilmálunum. Varanleg örorka * aldursstuðull – greiddar bætur. 12.000.000 * 60% - 2.376.000 = kr. 4.824.000

Varakrafa: Miðað er við ákvæði 4.1.4. í skilmálunum. Varanleg örorka * örorka – greiddar bætur. 12.000.000 * 40% - 2.376.000 =  kr. 2.424.000

Þrautavarakrafa: Miðað er við ákvæði 4.1.4 í skilmálunum. Varanleg örorka * miskastig – greiddar bætur. 12.000.000 * 33% - 2.376.000 = kr. 1.584.000

Þrautaþrautavarakrafa: Miðað er við ákvæði 4.1.3 í skilmálunum. Varanleg örorka * aldursstuðull – greiddar bætur. 12.000.000 * 60% - 2.376.000 = kr. 504.000.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum samningaréttarins svo og skilmálum viðkomandi vátryggingar svo sem rakið er í stefnu. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda og mótmælir öllum málsástæðum sem settar eru fram í stefnu. Stefndi byggir á því að hann hafi að fullu gert upp þá kröfu sem leiðir af tryggingunni sem málið varðar. Er þar vísað til fullnaðargreiðslu frá 27. febrúar 2017. Stefnandi eigi því engar frekari kröfur á hendur stefnda. Stefndi vísar til fyrirliggjandi rökstuðnings úrskurðarnefndar vátryggingamála frá 4. júlí 2017. Stefndi gerir þær röksemdir að sínum og færir fram sem málsástæður til stuðnings sýknukröfu sinni í þessu máli. Stefndi vísar jafnframt til þeirra sjónarmiða sem hann hefur sett fram í aðdraganda málsins í samskiptum sínum við stefnda.

Stefndi bendir á að óumdeilt sé í málinu að um réttarsamband aðila gildi vátryggingarskilmálar American Express korts Íslandsbanka sem tóku gildi 1. október 2013. Í 4. grein skilmálanna sé fjallað um ferðaslysatryggingu og sjúkrakostnað. Í grein 4.1 sé kveðið á um „slys á ferðalagi“ en þar segir að bætur greiðist í tilvikum sem talin eru upp í greinum 4.1.1 til 4.1.5 ef vátryggður verður fyrir slysi á vátryggingartímabili. Þá sé í grein 4.1.1 tilgreind fjárhæð dánarbóta og í grein 4.1.2 er fjallað um hverjir eigi rétt til þeirra dánarbóta. Í grein 4.1.3 er þess getið að bætur fyrir varanlega örorku geti numið allt að 12.000.000 króna eftir örorkustigi frá 16% til 100%. Í grein 4.1.4 kemur svo fram að varanleg lömun útlims bætist sem missir þess útlims. Þá segir að varanleg örorka 16% og hærri sé einnig bætt, en þær bætur fari eftir mati sem gert er með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi við slysið hlotið áverka á höfði, vinstri öxl og mjaðmahnútu eins og ítarlega sé rakið í fyrirliggjandi matsgerð. Engir þessara áverka eru meðal þeirra áverka sem tilgreindir eru í grein 4.1.3. Ætti því að vera hafið yfir vafa að stefnandi á ekki rétt til bóta vegna þeirra tilvika sem getið er um í grein 4.1.3 í skilmálunum. Stefnandi varð hins vegar fyrir áverkum sem metnir voru til varanlegrar örorku á grundvelli taflna örorkunefndar, samtals 33 stig. Stefnandi hafi fengið greiddar bætur í samræmi við það, sbr. uppgjörið frá 22. mars 2017.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi verið 66 ára gömul þegar hún varð fyrir slysinu sem mál þetta er sprottið af. Samkvæmt skilmálum tryggingar hafi stefnda því verið rétt að miða vátryggingarfjárhæðina við 60% af þeirri vátryggingarfjárhæð sem tilgreind sé í grein 4.2.3 í skilmálunum. Stefndi mótmælir harðlega þeim skýringarkostum sem stefnandi setur fram um að lækkun geti ekki komið til greina í þessu tilviki. Ekkert í eðli þeirra áverka sem stefnandi varð fyrir geti heldur leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnandi eigi „rétt á greiðslu vátrygginga að fjárhæð kr. 12.000.000“. Telur stefndi raunar vanreifað hvað stefnandi eigi við með þessari málsástæðu. Þá ítrekar stefndi að samkvæmt skýrum ákvæðum skilmála hafi honum verið heimilt að skerða greiðslur á grundvelli aldursstuðuls svo sem gert var. Fyrirliggjandi skilmálar séu algerlega skýrir hvað þetta varðar.

Stefndi ítrekar að lokum að bætur vegna varanlegrar örorku í skilningi skaðabótalaga greiðast ekki úr umþrættri tryggingu enda eru bætur úr henni ekki gerðar upp á grundvelli skaðabótalaga.

 

IV. Niðurstaða

Í þessu máli reynir á að hvaða marki stefnandi eigi rétt til bóta úr ferðaslysatryggingu hjá stefnda umfram það sem stefndi hefur þegar samþykkt að greiða stefnanda, 2.376.000 kr., auk lögfræðikostnaðar og kostnaðar við öflun gagna. Þar sem ágreiningurinn snýr alfarið að túlkun skilmála vátryggingarinnar sem gildir um atvik málsins er óhjákvæmilegt að taka hér upp orðrétt þau ákvæði þeirra sem á reynir: 

      „4.1. Slys á ferðalagi

Verði vátryggður fyrir slysi á ferðalagi á vátryggingartímabilinu greiðast bætur í eftirfarandi tilvikum:

      [...]

4.1.3. Varanleg örorka, allt að 12.000.000 kr., eftir örorkustigi frá 16% til 100% svo sem hér greinir:

- algjör, varanlegur missir sjónar á öðru auga eða báðum 100%

- missir handar við úlnlið eða ofar 100%

- algjör, varanleg lömun annarrar eða beggja handa 100%

- missir fótar við ökkla eða ofar 100%

- algjör, varanleg lömun annars eða beggja fóta 100%

- algjör, ólæknandi vitskerðing 100%

- algjör, ólæknandi lömun 100%

- algjört, ólæknandi heyrnarleysi 100%

- algjört, ólæknandi heyrnarleysi á öðru eyra 30%

- missir þumalfingurs hægri handar 20%

4.1.4. Algjör varanleg lömun útlims bætist sem missir þess útlims. Önnur varanleg örorka 16% og hærri er einnig bætt en þær bætur fara eftir mati sem gert er með hliðsjón af töflum Örorkunefndar um miskastig. Ekki er tekið tillit til starfs eða starfshæfni.

[...]

 

Í lið 4.2 er síðan fjallað sérstaklega um takmarkanir á bótaskyldu vegna töluliðar 4.1. Fjallað er um að dánarbætur vegna töluliðar 4.1.1 í lið 4.2.1 vegna einstaklings sem er innan 18 ára aldurs þegar hann slasast takmarkist við 10% af dánarbótum. Í 4.2.2. er síðan sérstaklega tiltekið að ef vátryggður er 66-67 ára verði vátryggingarfjárhæðir 60% af hámarksfjárhæðum sem ,,tilgreindar eru í töluliðum 4.1.1 og 4.1.3 hér að framan“.

Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að aðalkrafa hennar byggist á því að hún eigi rétt til greiðslu samkvæmt lið 4.1.3 í skilmálunum, að frádreginni lækkun vegna aldurs samkvæmt ákvæði 4.2.2., þar sem hún hafi orðið fyrir algjörri, ólæknandi vitskerðingu vegna slyssins en samkvæmt ákvæðinu eigi hún rétt á bótum vegna varanlegrar örorku, allt að 12.000.000 kr., eftir örorkustigi frá 16% til 100%.

Stefndi hefur mótmælt aðalkröfu stefnanda og vísað til þess að hún hafi við slysið hlotið áverka á höfði, vinstri öxl og mjaðmahnútu eins og ítarlega sé rakið í fyrirliggjandi matsgerð. Engir þessara áverka séu meðal þeirra áverka sem tilgreindir eru í grein 4.1.3 og því ætti að vera hafið yfir vafa að stefnandi eigi ekki rétt til bóta vegna þeirra tilvika sem getið er um í grein 4.1.3 í skilmálunum.

Í niðurstöðu matsgerðar Ragnars Jónssonar læknis frá 16. desember 2016 sem aðilar hafa staðið sameiginlega að því að afla kemur fram að stefnandi hafi fengið höfuðhögg í slysinu 12. mars 2014 og það sé hafið yfir allan vafa að hún hafi fengið heilablæðingu af þeim völdum. Í matsgerð kemur fram að afleiðingar þessarar blæðingar séu skert minni, þvoglumælgi og persónuleikabreyting, en auk þess hafi hún greinst með afrifubrot vinstri mjaðmahnútu vegna slyssins og tognun á vinstri öxl.

Í matsgerðinni var varanlegur miski stefnanda metinn 33 stig með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar. Var vitræn skerðing vegna heilaskaða metin til alls 25 miskastiga en 8 stig voru vegna áverka á öxl og mjöðm. Þá var varanleg örorka stefnanda metin 40% þar sem vinnugeta hennar sé skert vegna afleiðinga slyssins.

Aðalkrafa stefnanda byggir sem fyrr segir á því að hún eigi rétt til 100% af þeirri bótafjárhæð sem greinir í lið 4.1.3 í vátryggingarskilmálunum. Af orðalagi þessa töluliðar skilmálanna er aftur á móti ljóst að slíkur bótaréttur miðast við að vitskerðing stefnanda hafi orðið algjör og ólæknandi. Þar sem ekki verður ráðið af gögnum málsins að svo hátti til í tilviki stefnanda verður að hafna aðalkröfu hennar að þessu leyti.

Varakrafa stefnanda byggist á því að hún eigi rétt til bóta samkvæmt ákvæði 4.1.4 í vátryggingarskilmálunum. Verður ekki annað ráðið af stefnu en að hún telji sig eigi rétt til 40% af bótafjárhæðinni sem um ræðir þar sem varanleg örorka hennar hafi verið metin 40%, en auk þess eigi ekki að beita aldursstuðli í ákvæði 4.2.2. um ákvæði 4.1.4. Er þrautavarakrafa stefnanda af sama meiði að þessu leyti en sú krafa byggist einnig á þeirri forsendu að ekki skuli beitt aldursstuðli.

Varakrafa- og þrautavarakrafa stefnanda byggjast á því að í ákvæði 4.2.2 í skilmálunum sé einungis tiltekið að vátryggingarfjárhæðir takmarkist við 60% af hámarksfjárhæðum sem tilgreindar eru í ákvæðum 4.1.1 og 4.1.3 í skilmálunum. Þar sem ekki sé beinlínis vísað til ákvæðis 4.1.4. í ákvæði 4.2.2, sem fjallar um takmörkun bótafjárhæðar, geti ákvæði 4.2.2 ekki átt við um bótagreiðslu samkvæmt 4.1.4.

Þegar leyst er úr ágreiningi milli neytenda og vátryggingarfélags um túlkun skilmála vátryggingarsamnings af þeim toga sem um ræðir í þessu máli verður að jafnaði að horfa aðallega til orðalags skilmálanna. Ef orðalag eða framsetning skilmála er að einhverju leyti óljós verður að mati dómsins að skýra vafa um það vátryggingarfélagi í óhag, enda er það endranær félagið sem semur slíka skilmála einhliða. Af sömu ástæðu leiðir að ef í skilmálunum eru sérstök ákvæði, sem eru ekki alls kostar í samræmi við almenn ákvæði, þá verða slík sérstök ákvæði einnig að ganga framar, að því marki sem slík niðurstaða er neytanda í hag. 

Eins og rakið er hér að framan er í fyrirsögn ákvæðis 4.2, um takmarkanir á bótaskyldu, vísað almennt til ákvæðis 4.1. Að sama skapi verður ekki litið hjá því að þegar fjallað er nánar um efnislegt umfang þessara takmarkana í ákvæði 4.2.2 er einungis vísað til ákvæða 4.1.1. og 4.1.3. og þeirra hámarksfjárhæða sem þar eru greindar. Í ákvæðinu er þannig ekki vísað til ákvæðis 4.1.4 sem bótagreiðsla stefnda til stefnanda byggðist á, en í því ákvæði er ekki vísað til neinna hámarksfjárhæða.

Í samræmi við þau sjónarmið um túlkun vátryggingarsamninga sem hér hefur verið lýst verður að fallast á það með stefnanda að ákvæðum 4.2.2 verði ekki beitt til þess að takmarka fjárhæðir bóta sem greiddar eru samkvæmt ákvæði 4.1.4.

Dómurinn telur þó ekki efni til að fallast á varakröfu stefnanda að þessu leyti enda byggist sú krafa á því að 40% varanleg örorka hennar verði lögð til grundvallar við ákvörðun bóta samkvæmt ákvæði 4.1.4 í skilmálunum. Í þessu ákvæði skilmálanna er þó ekki kveðið á um að varanleg örorka skuli lögð til grundvallar við útreikning bóta heldur er þar, samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins, miðað við að ákvörðun bóta fari eftir mati sem gert sé með hliðsjón af töflum örorkunefndar um miskastig.

Þar sem þrautavarakrafa stefnanda byggist á útreikningi miskastigs í samræmi við fyrrnefnt ákvæði 4.1.4 er hins vegar fallist á þá kröfu stefnanda, að stefndi greiði henni alls 1.584.000 kr. í samræmi við lið 4.1.4 í skilmálum vátryggingarinnar sem um ræðir, án þess að skerðingu vegna aldurs verði beitt samkvæmt ákvæði 4.2.2.

Í stefnu hefur stefnandi sett fram þrautavarakröfu sína með þeim hætti að stefndi greiði 1.584.000 kr., „auk dráttarvaxta á þá fjárhæð frá 27.02.17 eða lægri fjárhæð“. Í þessari kröfu stefnanda um dráttarvexti er hundraðshluti vaxta ekki tilgreindur. Við þessa kröfugerð er heldur ekki fullnægt skilyrðum 11. gr. laga nr. 38/2001. Verður því þessum þætti kröfugerðarinnar vísað frá héraðsdómi, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar frá 19. febrúar 2010 í máli nr. 58/2010 og 14. desember 2011 í máli nr. 629/2011.

Með vísan til þessara úrslita málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem telst hæfilega ákveðinn 850.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.

 

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, [A], alls 1.584.000 krónur. Kröfu stefnanda um dráttarvexti er vísað frá dómi. Þá er stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem er ákveðinn 850.000 kr.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

 

 

.