• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skjalafals
  • Tilraun
  • Upptaka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2018 í máli nr. S-701/2017:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Merab Matiashvili

 

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni 1. desember 2017, á hendur Levani Shavgulidze, fæðingardagur [---], með dvalarstað að Arnarholti í Reykjavík og Merab Matiashvili, fæðingardagur [---], með dvalarstað á hótel Airport Inn í Keflavík.

 

I.

Fyrir tilraun til skjalafals og brots gegn útlendingalögum með því að hafa, fimmtudaginn 26. október 2017, í afgreiðslu Póstsins, Pósthússtræti 5, Reykjavík, tekið á móti og haft í vörslum sínum póstsendingu nr. LL510194857IE, Írlandi, sem ákærðu töldu að innihéldi fölsuð slóvakísk persónuskilríki, sem þeir höfðu áður aflað sér í því skyni að nota til að draga dul á persónuauðkenni sín og uppruna, en tollyfirvöld höfðu haldlagt skilríkin og komið fyrir gervipakka í stað þeirra. Annars vegar var um ræða ökuskírteini nr. KA-04617-66 og kennivottorð nr. SK678751, ánafnað Kocur Richard, fd. 6.04.1982 og hins vegar ökuskírteini nr. KA-04518-66 og kennivottorð nr. SK798431, ánafnað Vladimir Nedved, fd. 19.07.1967. Öll framangreind persónuskilríki reyndust grunnfölsuð, þ.e. frá rótum.

 

            Telst þessi háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga og h-lið 2. mgr., sbr. 6. mgr. 116. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

 

II.

Gegn ákærða Levani fyrir þjófnað, með því að hafa:

 

1. Mánudaginn 14. ágúst 2017, í verslun Costco að Kauptúni 3, Garðabæ, stolið ýmis konar, samtals að söluandvirði kr. 67.388,- sem ákærði kom fyrir í bakpoka sem hann hafði meðferðis og gekk með út úr versluninni en starfsmenn verslunarinnar höfðu þá afskipti af honum.

            Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2. Þriðjudaginn 24. október 2017, í verslun Hagkaups að Hagasmára 1, Kópavogi, stolið heyrnartólum, að andvirði kr. 14.495,- sem ákærði stakk í hliðartösku sem hann hafði meðferðis og gekk út úr versluninni eftir að hafa greitt fyrir aðrar vörur á afgreiðslukassa.

 

            Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Þá er þess krafist að ákærðu verði, með heimild í 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 149/2009, dæmdir til að sæta upptöku á þeim fölsuðu slóvakísku ökuskírteinum og kennivottorðum sem frá er greint í ákærulið I.

 

       Þáttur ákærða Levani Shavgulidze var klofinn frá máli þessu, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 og dæmdur sérstaklega.

       Ákærði Merab krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði eru sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

       Ákærði Merab Matiashvili er fæddur í febrúar 1980. Hann hefur ekki áður sætt refsingu hér á landi svo vitað sé.

       Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur gengist greiðlega við broti sínu. Með hliðsjón af sakarefni þessa máls og að virtri dómaframkvæmd þykir refsing ákærða Merab hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs annars vegar ökuskírteini nr. KA-04617-66 og kennivottorð nr. SK678751, ánafnað Kocur Richard með fæðingardag 6. apríl 1982 og hins vegar ökuskírteini nr. KA-04518-66 og kennivottorð nr. SK798431, ánafnað Vladimir Nedved með fæðingardag 19. júlí 1967.

       Ákærði greiði þóknun tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Svanhvítar Yrsu Árnadóttur lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 63.240 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

       Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Merab Matiashvili, sæti fangelsi í 30 daga.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs annars vegar ökuskírteini nr. KA-04617-66 og kennivottorð nr. SK678751, ánafnað Kocur Richard með fæðingardag [---] og hins vegar ökuskírteini nr. KA-04518-66 og kennivottorð nr. SK798431, ánafnað Vladimir Nedved með fæðingardag [---].

       Ákærði greiði þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Svanhvítar Yrsu Árnadóttur lögmanns, 63.240 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir