• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 6. febrúar 2019 í máli nr. E-1246/2018:

Valbjörg ehf.

(Skúli Sveinsson lögmaður)

gegn

Ó.Ó. Verktökum ehf.

(Daníel Reynisson lögmaður)

 

I.

Mál þetta var höfðað 22. mars 2018 og dómtekið 24. janúar sl. Stefnandi er Valbjörg ehf., Ármúla 15, Reykjavík, en stefndi er Ó.Ó. Verktakar ehf., Njarðargötu 1, Reykjanesbæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.639.153 krónur, auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 2.014.342 krónum frá 24. febrúar 2018 til 9. mars 2018 og af 5.639.153 krónum frá 9. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að dómkrafa verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

 

II.

Stefnandi máls þessa rekur starfsmannaleigu, en stefndi er verktakafyrirtæki í pípulagningum. Hinn 26. júlí 2017, gerðu málsaðilar með sér samning um leigu starfsmanna. Samkvæmt 2. gr. samningsins leigir stefnandi stefnda „tvo lærða pípara“.

Eftir gerð samningsins óskaði stefndi eftir fleirum starfsmönnum til leigu frá stefnda en í tölvuskeyti, sem fyrirsvarsmaður stefnda sendi starfsmanni stefnanda 22. ágúst 2017, tekur stefndi fram að hann sé ánægður með þann starfsmann sem stefnandi hafi útvegað honum og að hann vilji fá fimm starfsmenn til viðbótar.

            Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. samningsins sem mælir fyrir um tímaskráningar, bar stefnda að senda stefnanda vinnuskýrslu með vinnustundum starfsmanna á tveggja vikna fresti 7. og 21. hvers mánaðar. Í 2. mgr. greinarinnar var tekið fram að bærust ekki vinnuskýrslur á réttum tíma yrði reikningur byggður á upplýsingum um tímaskráningu frá starfsmönnum. Samkvæmt 8. gr. samningsins bar stefnda að gera upp leigugjaldið á tveggja vikna fresti og greiddi stefnandi þá reikning næstu tveggja vikna á undan. Segir einnig í greininni að mikilvægt sé að greiðslur berist á réttum tíma svo ekki komi til þess að dráttur verði á launagreiðslum til starfsmanna. Í 14. gr. samningsins er mælt fyrir um vanefndir starfsmanna og segir þar að uppfylli starfsmaður ekki þær kröfur  sem stefndi geri og óski að láta starfsmann hætta af þeim sökum, skuli stefnanda tilkynnt um þá afstöðu og að stefnandi skuli þá hafa tækifæri til þess að bæta úr með nýjum starfsmanni.

            Óumdeilt er að stefndi sendi ekki tímaskýrslur til stefnanda fyrir tímabilin 21. desember til 20. janúar og 21. janúar til 7. febrúar 2018. Stefnandi aflaði þá tímaskýrslna frá starfsmönnunum og lagði þær til grundvallar launaútreikningi þeirra, greiddi þeim launin og gaf út reikninga til stefnda fyrir launagreiðslunum. Fyrri reikningurinn er dags. 24. janúar 2018 að fjárhæð 2.014.342 krónur og hinn síðari 9. febrúar 2018 að fjárhæð 3.624.811 krónur. Stendur ágreiningur aðila um greiðslu og réttmæti þessara reikninga.

Í gögnum málsins eru tölvuskeyti á milli starfsmanna stefnanda og fyrirsvarsmanns stefnda. Þar kemur m.a. fram, sbr. tölvuskeyti frá 24. janúar og 6., 7., 12., 13. og 15. febrúar 2018, að stefnandi hafi óskað eftir því við stefnda að hann kæmi og ræddi málin við stefnanda í tengslum við reikninga stefnanda til stefnda. Í tölvuskeyti 15. febrúar ítrekar starfsmaður stefnanda við fyrirsvarsmann stefnda að hann komi til fundar, að það sé undir stefnda komið að skila tímaskýrslum og ef tímaskýrsla berist ekki á réttum tíma verði byggt á skýrslum starfsmannanna.

Í tölvuskeytum fyrirsvarsmanns stefnda til starfsmanns stefnanda, dags. 6. febrúar 2018, lýsir stefndi óánægju sinni með samstarfið við stefnanda. Hann viti ekki lengur hvað starfsmenn hafi verið margir, þeir hafi komið og farið og sumir latir. Þá telji hann að af öllum mönnunum sem hann hafi fengið leigða séu aðeins tveir vanir pípulagningamenn, aðrir séu ófaglærðir. Tók stefndi fram að hann vildi ljúka samstarfi aðila og var uppsögnin móttekin af stefnanda samdægurs. Þá lýsir stefndi ónægju með samstarf aðila í tölvuskeyti 12. febrúar 2018.

            Stefnandi sendi stefnda innheimtuviðvörun 15. febrúar 2018. Í kjölfar þessa áttu sér stað samskipti milli lögmanna stefnanda og stefnda, m.a. bréf frá lögmanni stefnda, dags. 2. mars 2018, en með því bréfi fylgdu tímaskýrslur stefnda fyrir umrætt tímabil sem að sögn stefnda eru byggðar á upplýsingum frá starfsmönnum.

            Í tölvuskeyti fyrirsvarsmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 16. febrúar 2018, gerir stefndi athugasemdir við þá starfsmenn sem stefnandi hafi útvegað honum, en hann sé tilbúinn til þess að greiða reikningana með því skilyrði að vinnustundir tiltekins starfsmanns, sem að mati stefnda  hafi verið ómögulegur, verði felldar niður í tímaskýrslunni.  

Ekki kemur fram í gögnum málsins hversu mikið beri á milli tímaskýrslna sem stefnandi lagði til grundvallar launagreiðslum til starfsmanna og þeirra sem stefndi afhenti stefnanda 2. mars 2018. Við munnlegan flutning málsins innti dómari lögmann stefnda eftir því í hverju munurinn lægi, en lögmaðurinn kvaðst ekki hafa nákvæmar upplýsingar um þetta atriði.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Sveinn Skúlason, og fyrirsvarsmaður stefnda, Óskar Óskarsson, gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig gaf skýrslu fyrir dóminum Jón Þór Jónsson verkefnastjóri.

Óskar Óskarsson tók m.a. fram að hann hefði ekki getað mætt á fundi með stefnanda í janúar og febrúar 2018 til þess að fara yfir stöðu málsins. Þá kvaðst hann hafa kvartað munnlega við stefnanda vegna þeirra starfsmanna sem stefnandi útvegaði honum. Þetta hafi leitt til þess að hann hafi ekki fengið greitt frá viðsemjanda sínum fyrir vinnu starfsmannanna sem þeir hafi innt af hendi í nóvember og desember 2017. Þá taldi hann sig ekki þurfa að skila inn tímaskýrslum 21. janúar 2018, þar sem tímabilið sé rólegt á þessum árstíma og hann hafi því ekki haft miklar áhyggjur af skýrslugerðinni á þessum tíma. Þá hafi hann ekki mætt til fundar með stefnanda vegna mikilla anna. Hann hefði getað talað við stefnanda í síma. Hann staðfesti að hann hefði slitið samningnum við stefnanda 7. febrúar 2018. Þá hafi hann ekki sent inn tímaskýrslu 6. febrúar 2018 af persónulegum ástæðum.

Jón Þór Jónsson stýrði verklegum framkvæmdum sem fóru fram á Hverfisgötu 94 í Reykjavík. Tók hann fram að stefndi hefði verið undirverktaki þar. Tók hann fram að það hefði aðeins verið í stuttan tíma sem starfsmenn á vegum fyrirtækisins hefðu verið við störf hjá þeim. Fljótlega hefði komið í ljóst að starfsmenn sem voru að störfum fyrir stefnda hefðu ekki verið jafn góðir og þeir sem þeir voru vanir að fá í vinnu. Það hafi endað með því að óskað hafi verið eftir að starfsmennirnir kæmu ekki meira að störfum við verkefnið á Hverfisgötu. Þeir hafi einnig komið að öðru verkefni þar sem hafi þurft að vinna töluvert mikið upp eftir þá, endurvinna mjög marga hluti. Erfitt hafi verið að koma skilaboðum og leiðbeiningum til þeirra. Þeir hafi ekki átt gott með að vinna sjálfstætt. Það hafi þurft mjög ítarlega verkstjórn með þeim. Hann tók fram að gerðar hefðu verið athugasemdir við reikninga sem komu frá stefnda vegna vinnu umræddra starfsmanna og að hafnað hafi verið að greiða alla þá tíma sem stefndi hafi rukkað þá fyrir. Stefndi hafi því slegið af tímafjölda. Tók vitnið fram að hafi stefndi greitt starfsmönnum alla tímana þá hafi verkið væntanlega ekki komið vel út úr þeim viðskiptum. Þeim hafi fundist of margir tímar hafa verið skrifaðir. Menn hafi verið mjög ósáttir við það hversu illa vinnan gekk og að það hafi þurft að endurvinna hlutina eftir þá. Þá hafi Óskar, fyrirsvarsmaður stefnda, verkstýrt að einhverju leyti þeim mönnum sem voru að vinna á Hverfisgötunni, en það eigi ekki að þurfa.

 

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda á samningi aðila, dags. 26. júlí 2017, um leigu starfsmanna. Byggt er á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga, sbr. einnig 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

            Samkvæmt samningi aðila hafi stefnda borið að senda stefnanda tímaskráningar starfsmanna tvisvar í mánuði, sbr. 1. mgr. 6. gr. samningsins. Það hafi hann ekki gert, auk þess sem hann sinnti ekki áskorunum þess efnis, mætti ekki til fundar til þess að ræða málin og andmælti ekki þeim reikningum sem stefnandi gaf út þann 24. janúar og 9. febrúar 2018. Stefnandi sé skuldbundinn til þess að greiða umræddum starfsmönnum laun á réttum tíma og því ekki um annað að ræða af hálfu stefnanda en að byggja launagreiðslur til starfsmanna á þeim gögnum sem hann hafði undir höndum.

            Með þeirri vanefnd stefnda sem fólst í því að skila ekki tímaskýrslum starfsmanna á réttum tíma og að reyna ekki að bæta úr þeirri vanefnd án tafar hafi stefndi glatað efnislegum mótbárum vegna þeirra reikninga sem gerð sé krafa um greiðslu á í máli þessu. Viðkomandi starfsmenn hafi fengið laun sín greidd í samræmi við tímaskráningar sem starfsmenn skiluðu stefnanda og stefndi gæti ekki endurkrafið þá um ofgreidd laun ef um það væri að ræða. Auk þess sem því sé mótmælt að starfsmenn hafi fengið ofgreidd laun.

            Þá er því mótmælt að starfsmaður hafi verið ómögulegur eða ónothæfur. Engin slík mótmæli komu fram frá stefnda á þeim tíma sem umræddur starfsmaður eða starfsmenn voru við störf hjá stefnda. Stefnandi vísar til 14. gr. samningsins þar sem segir að tilkynna beri stefnanda með formlegum hætti ef starfsmaður teljist ekki uppfylla kröfur og þá geti stefnandi bætt úr með nýjum starfsmanni. Stefndi hafi aldrei tilkynnt stefnanda um slíkt eða óskað eftir að starfsmenn létu af störfum. Stefndi tók án athugasemda við þeim starfsmönnum sem honum voru leigðir og nýtti starfskrafta þeirra.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda um endurgjald fyrir vinnu starfsmanna sinna sé bersýnilega ósanngjörn auk þess sem stefndi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna fjártjóns sem hann varð fyrir af völdum starfsmanna stefnanda. Vísar stefndi til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi rétt sinn til að hafa uppi slíka gagnkröfu til skuldajafnaðar í greinargerð.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að reikningar stefnanda séu rangir og ótrúverðugir, enda byggi þeir á röngum tímaskýrslum. Þá hafi hæfni og gæði vinnu starfsmanna stefnanda ekki uppfyllt þær kröfur sem stefndi mátti vænta.

            Í öðru lagi er því mótmælt að leggja beri samning aðila fortakslaust til grundvallar skv. orðanna hljóðan. Það verði við úrlausn málsins að skoða óformleg samskipti sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi átt við stefnanda vegna vandamála sem tengjast starfsmönnum stefnanda á fyrri stigum. Annað sé andstætt tillits- og trúnaðarskyldum aðila í samningssambandinu. Ef samningur aðila á að vera upphaf og endir alls í málinu, þá verði að leggja til grundvallar að í 2. gr. samningsins komi fram að samið hafi verið um tvo lærða pípara. Þá skyldu hafi stefnandi vanrækt. Er á því byggt að starfsmenn á vegum stefnanda hafi ekki verið lærðir píparar. Er skorað á stefnanda að leggja fram gögn til sönnunar hinu gagnstæða. Telur stefndi með vísan til þess að færa megi rök fyrir því að hann sé einungis skuldbundinn til að greiða stefnanda fyrir vinnuframlag tveggja starfsmanna, en ekki fleiri, sbr. tölvupóst fyrirsvarsmanns stefnda 16. febrúar 2018.

Í þriðja lagi byggir stefndi einnig á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Telur stefndi að víkja megi samningi aðila til hliðar að hluta á grundvelli ákvæðisins, enda sé hann bersýnilega ósanngjarn að hluta og að staða aðila við samningsgerðina hafi verið mjög ójöfn. Er einkum vísað til þess að samningur aðila er einhliða saminn af stefnanda, sem hafði mikla yfirburðastöðu gagnvart stefnda. Eru viss samningsákvæði stefnda mjög óhagfelld, s.s. það að skv. 16. gr. samningsins undanskilur stefnandi sig allri ábyrgð á meintum mistökum starfsmanna sinna. Krefst stefndi þess sérstaklega að þessu ákvæði samningsins verði vikið til hliðar.

Með hliðsjón af þessu telur stefndi að stefnandi beri sannarlega ábyrgð á því að hafa útvegað sér vanhæfa starfsmenn og þar með á því tjóni sem stefndi hafi orðið fyrir af þeim sökum. Samkvæmt 7. gr. samnings aðila sé ljóst að umræddir starfsmenn hafi verið launþegar hjá stefnanda og því telji stefndi að stefnandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda. Grundvallast sú skaðabótaábyrgð bæði á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar, þ.e. vegna þeirrar háttsemi stefnanda að útvega vanhæfa starfsmenn, sem og meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð vegna framgöngu starfsmanna sinna á verkstað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat stefnda að stefnandi hafi vanrækt skyldur sínar svo verulega gagnvart stefnda, að sýkna beri stefnda af dómkröfum stefnanda.

Í varkröfu sinni, um lækkun að mati dómsins, vísar stefndi til málsástæðna í aðalkröfu. Þó bendir stefndi á að áðurnefnt misræmi í tímaskýrslum, leiði eitt og sér til þess að kröfu stefnanda beri að lækka um a.m.k. 1.500.000 kr. til2.000.000 kr. að mati stefnda.

 

IV.

Í máli þessu er deilt um greiðslu tveggja reikninga fyrir vinnu starfsmanna sem stefndi leigði hjá stefnanda á tímabilinu 21. desember 2017 til 6. febrúar 2018, þegar stefndi sagði upp leigusamningi sem málsaðilar gerðu með sér hinn 26. júlí 2017. Deila aðilar um fjárhæð kröfunnar, en einnig um hvort forsendur hennar séu réttar.       Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda á fyrrgreindum leigusamningi. Telur stefnandi að stefndi hafi vanrækt að senda stefnanda tímaskýrslur, og þess vegna hafi hann í samræmi við samninginn byggt á tímaskýrslum sem starfsmenn létu honum í té. Stefndi hafa glatað mótbárum þar sem hann hafi ekki sinnt áskorunum frá stefnanda fyrr en það var orðið of seint. Þá er því mótmælt að starfsmenn hafi verið ónothæfir. Við munnlegan flutning málsins mótmælti stefnandi sýknukröfum stefnda og tók fram að stefndi hefði tekið athugasemdalaust við starfsmönnum sem stefnandi leigði honum, hefði ekki tilkynnt honum um meintar vanefndir þannig að unnt hefði verið að bæta úr, fullyrðing stefnda um að tveir starfsmenn væru ekki menntaðir pípulagningamenn sé röng og gagnkröfu væri hafnað sem ófullnægjandi og ósannaðri.

            Stefndi reisir sýknukröfu sína m.a. á því að krafa stefnanda sé ósanngjörn og að hann eigi gagnkröfu til skuldajöfnunar vegna fjártjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir af völdum starfsmannanna, reikningar stefnanda séu rangir enda reistir á röngum tímaskýrslum. Þá telur stefndi að líta verði til óformlegra samskipta málsaðila við úrlausn málsins. Þá tekur hann fram að stefnandi hafi vanrækt þá skyldu að leigja honum lærða pípara, þess vegna megi færa rök fyrir því að honum beri aðeins að greiða honum fyrir vinnuframlag tveggja starfsmanna, en ekki fleiri. Þá byggir stefndi á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og telur að víkja beri samningi aðila til hliðar að hluta, enda sé hann bersýnilega ósanngjarn. Staða aðila hafi verið ójöfn, samningur sé einhliða saminn af stefnanda. Stefnandi beri því ábyrgð á því að hafa útvegað stefnda ómögulega starfsmenn.

            Í 5. gr. leigusamningsins frá 26. júlí 2017, er mælt fyrir um tímagjald fyrir vinnu starfsmannanna og í 6. gr. er mælt fyrir um tímaskráningu. Þar segir að stefndi, sem er leigutaki samkvæmt samningnum, skuli senda stefnanda, leigusala, vinnuskýrslu á tveggja vikna fresti með vinnustundum starfsmanns/starfsmanna, 7. og 21. hvers mánaðar, en vinnustundafjöldi skuli skráður af verkstjóra stefnda eða öðrum fyrirsvarsmanni. Berist ekki skýrslur frá stefnda um vinnustundafjölda starfsmanna á réttum tíma verði reikningur byggður á upplýsingum um tímaskráningu frá starfsmönnum. Fyrir liggur að stefndi vanrækti þessa skyldu sína. Hann sendi stefnanda ekki tímaskýrslu fyrir tímabilið 21. desember 2017 til 20. janúar 2018 og ekki heldur fyrir tímabilið 21. janúar til 7. febrúar 2018. Hann sinnti heldur ekki áskorunum að mæta til fundar við fyrirsvarsmenn stefnanda vegna tímaskýrslnanna. Með vísan til samnings aðila telur dómurinn ljóst að stefnanda hafi verið heimilt að byggja greiðslur til starfsmanna á tímaskráningu starfsmannanna með þeim hætti sem hann gerði. Þá hefur engin grein verið gerð fyrir því af hálfu stefnda að hvaða leyti tímaskýrslur stefnanda séu rangar eins og haldið er fram.

            Í 2. gr. leigusamningsins tekur stefndi á leigu tvo „lærða pípara“.

Telur dómurinn að líta verði svo á að stefnandi hafi efnt samninginn gagnvart stefnda að þessu leyti, sbr. tölvuskeyti fyrirsvarsmanns stefnda til starfsmanns stefnanda, dags. 6. febrúar 2018, en þar tekur stefndi fram að af öllum mönnunum sem hann hafi fengið leigða hjá stefnanda séu tveir vanir pípulagningamenn. 

Í leigusamningi málsaðila er ekki mælt fyrir um faglega menntun annarra starfmanna. Samkvæmt gögnum málsins óskaði stefndi eftir viðbótarstarfsmönnum í gegnum starfsmannaleigu stefnanda, sbr. tölvuskeyti hans til starfsmanns stefnda 22. ágúst 2017. Ekkert liggur fyrir um að samið hafi verið um að þeir menn væru einnig lærðir pípulagningamenn. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnda að honum beri einungis að greiða stefnanda fyrir vinnuframlag tveggja manna af þessum sökum.

Samkvæmt 14. gr. í samningi aðila bar stefnda að tilkynna stefnanda ef starfsmaður uppfyllti ekki þær kröfur sem stefndi gerði til starfmanna. Skyldi stefnandi þá hafa tækifæri til þess að bæta úr með nýjum starfsmanni. Engar upplýsingar eða gögn liggja fyrir um að stefndi hafi munnlega eða skriflega gert athugasemdir varðandi starfsmennina eða kvartað við stefnanda vegna starfa þeirra fyrr en hinn 6. febrúar 2018, en þá höfðu þeir unnið hjá stefnda frá því í lok ágúst árið 2017. Stefnandi tók þannig við starfsmönnunum án athugasemda og störfuðu þeir fyrir hann til 6. febrúar 2018, þegar stefndi sagði upp leigusamningnum. Samkvæmt þessu telur dómurinn að stefndi hafi glatað mótbárum sem lúta að því að þeir starfsmenn sem stefnandi útvegaði hafi ekki fullnægt þeim menntunarkröfum sem áskildar voru.

            Stefndi telur sig eiga gagnkröfu til skuldajöfnunar vegna fjártjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir af völdum starfsmanna stefnanda. Ekkert liggur þó fyrir í gögnum málsins með hvaða hætti tjóninu var valdið eða hvaða starfsmenn hafi valdið því. Þá er engin grein gerð fyrir því að hvaða leyti hæfni og gæði vinnu þeirra hafi verið ófullnægjandi. Almennar lýsingar vitnis fyrir dómi um gæði vinnunnar nægja ekki í þessu sambandi.

Loks hefur stefndi ekki sýnt fram á að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 hafi verið fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ber, við mat á því hvort víkja beri samningi til hliðar, að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Í málatilbúnaði stefnda er fjallað um þessi skilyrði með almennum hætti án þess að gerð sé nánari grein fyrir einstökum skilyrðum. Ber að hafna þessum málsástæðum stefnda.  

Samkvæmt framansögðu er fallist á allar dómkröfur stefnanda. Ber stefnda að greiða stefnanda 5.639.153 krónur, auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 2.014.342 krónum frá 24. febrúar 2018 til 9. mars 2018 og af 5.639.153 krónum frá 9. mars 2018 til greiðsludags. Með sömu lagarökum og að framan greinir verður einnig að sýkna stefnanda af varakröfu stefnanda.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber stefnda að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefnda, Ó.Ó. Verktökum ehf., ber að greiða stefnanda, Valbjörgu ehf., 5.639.153 krónur, auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 2.014.342 krónum frá 24. febrúar 2018 til 9. mars 2018 og af 5.639.153 krónum frá 9. mars 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

                                                Ragnheiður Snorradóttir (sign.)