• Lykilorð:
  • Bókhaldsbrot
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Virðisaukaskattur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2019 í máli nr. S-343/2013:

Ákæruvaldið

(Kristín Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Pétri Þór Sigurðssyni og

Lögfræðistofunni ehf.

(Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl 2019, var höfðað með ákæru Sérstaks saksóknara, dags. 10. maí 2013, á hendur:

 

„Pétri Þór Sigurðssyni, kt. [...]

[...], Reykjavík

og

Lögfræðistofunni ehf., kt. [...]

[...], Reykjavík

fyrirsvarsmaður Pétur Þór Sigurðsson, kt. [...]

 

fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, Pétur Þór Sigurðsson sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins Lögfræðistofan, kt. [...], [...] Reykjavík, með því að hafa:

 

1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar rekstrarárið 2009 til og með nóvember – desember rekstrarárið 2010, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar rekstrarárið 2009 til og með maí – júní rekstrarárið 2010 og september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2010, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 18.634.669, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Árið 2009

janúar – febrúar                                   kr.      442.319

mars – apríl                                         kr.   1.210.575

maí - júní                                             kr.   1.454.949

júlí – ágúst                                          kr.   1.147.195

september – október                           kr.   1.220.404

nóvember – desember                         kr.   1.208.767

                                                            kr.   6.684.209

Árið 2010

janúar – febrúar                                   kr.      687.716

mars – apríl                                         kr.   1.778.287

maí - júní                                             kr.   3.665.728

júlí – ágúst                                          kr.       -10.260

september – október                           kr.   1.895.548

nóvember – desember                         kr.   3.933.441

                                                            kr. 11.950.460

Samtals:                                              kr. 18.836.669

 

2. Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald einkahlutafélagsins, rekstrarárin 2009 og 2010.

 

Framangreind brot ákærða Péturs samkvæmt ákæru teljast varða við 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

 

a)      1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)      1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

 

Framangreind brot ákærða Lögfræðistofan ehf. samkvæmt ákæru teljast varða við:

 

a)      8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)      40. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærðu krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara krefjast ákærðu vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefjast þeir þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

            Í þinghaldi 21. júní 2013 óskaði sækjandi að leiðrétt yrði með bókun samtala í sundurliðun í 1. tl. ákæru og tiltók að þar bæri að standa 18.634.669 kr. í stað 18.836.669 kr.

Undir rekstri málsins tók Héraðssaksóknari við saksókn þess, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 47/2015 um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum.

Í þinghaldi 7. apríl 2017 lagði verjandi ákærðu fram skriflega greinargerð. Verður fjallað um málsástæður ákærðu í niðurstöðukafla eftir því sem efni standa til.

 

 

I.

Rannsókn máls þessa hófst formlega með tilkynningu sem send var ákærða Lögfræðistofunni ehf. þann 19. október 2011, þess efnis að hafin væri rannsókn á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum ákærðu. Niðurstaða rannsóknarinnar hefði m.a. leitt í ljós að ákærðu hefðu vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstrarárin 2009 og 2010 auk þess sem bókhald hefði ekki verið fært.

Ákærði Pétur Þór var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra 17. nóvember 2011. Afþakkaði hann að hafa verjanda viðstaddan. Var honum kynnt sakarefnið og að hann væri grunaður um að hafa sem fyrirsvarsmaður skattaðila vanframtalið skattskylda veltu og útskatt framangreind rekstrarár.

Með bréfi, dags. 13. desember 2011, var skýrsla skattrannsóknarstjóra send ákærða Lögfræðistofunni ehf. og ákærða Pétri Þór sem fyrirsvarsmanni skattaðila veittur frestur til 27. desember 2011 til að tjá sig um efni hennar. Engar athugasemdir bárust skattrannsóknarstjóra.

 

            Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 10. janúar 2012, var skýrsla embættisins send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á sköttum. Þennan sama dag var ákærðu tilkynnt bréflega um lok rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og að málið hefði verið sent ríkisskattstjóra. Jafnframt var tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð í málinu og ákærðu gefinn kostur á að tjá sig um hana áður en til hennar kæmi. Var frestur veittur í því skyni í 30 daga frá dagsetningu bréfsins en engar athugasemdir bárust.

Þann 26. apríl 2012 var skýrsla skattrannsóknarstjóra send ákærða Lögfræðistofunni ehf. og boðuð skattbreyting á grundvelli hennar. Frestur var veittur til 1. september s.á. til að koma að andmælum við boðuðum breytingum en engin slík bárust.

Hinn 14. september 2012 úrskurðaði ríkisskattstjóri um breytingar á virðisaukaskatti ákærða Lögfræðistofunnar ehf. vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2009 og 2010. Í úrskurðinum kemur fram að gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna umræddra uppgjörstímabila og því sætt áætlun að því er varðaði skattskylda veltu og útskatt.

Fram kom að skattrannsóknarstjóri hefði fengið afhenta sölureikninga sem gefnir hefðu verið út en ekkert bókhald, enda hefði ákærði Pétur Þór upplýst við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að bókhald hefði ekki verið fært. Þá sagði í úrskurðinum að ákærði Pétur Þór hefði ekki afhent skattrannsóknarstjóra nein gögn vegna kostnaðar sem hann kynni að hafa haft af starfsemi sinni á umræddu tímabili. Hefði hann óskað eftir fresti til að skila á gögnum þar að lútandi, sem ekki hefðu borist. Með úrskurðinum var lögð til grundvallar sú niðurstaða skattrannsóknarstjóra, sem ekki hafði verið andmælt, að ákærði hefði vanrækt að telja fram skattskylda veltu vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2009 og 2010, samtals 72.168.122 kr. Vanframtalinn útskattur hafi verið 18.890.052 kr. Í úrskurðinum kom fram að ákærða hefði verið ákvarðað 10% álag á vangreiddan virðisaukaskatt, eða 680.656 kr. vegna rekstrarársins 2009 og 1.208.350 kr. vegna rekstrarársins 2010.

Ákærði skaut úrskurðinum ekki til yfirskattanefndar og bera gögn með sér að hann hafi greitt skattinn af endurákveðnum stofni með álagi.

 

Þann 19. september 2012 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til embættis sérstaks saksóknara vegna meintra brota á ákvæðum laga um virðisaukaskatt, ákvæðum laga um bókhald og eftir atvikum almennum hegningarlögum. Segir í bréfi að málið sé sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum Lögfræðistofunnar ehf. varðandi rekstrarárin 2009 og 2010.

Hinn 29. janúar 2013 mætti ákærði Pétur Þór til skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara og afþakkaði að hafa verjanda viðstaddan. Í upphafi skýrslutökunnar kom fram að ákærði, sem væri fyrirsvarsmaður ákærða Lögfræðistofunnar ehf., hefði stöðu sakbornings.

Til samræmis við leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts vegna ákærða Lögfræðistofunnar ehf. fyrir árin 2009 og 2010, sem ákærði Pétur Þór sendi með skattframtölum félagsins í ágúst 2012, voru gerðar breytingar hjá ríkisskattstjóra í apríl 2013 á skattskilum félagsins á þá leið að skattskyld velta og útskattur var færður á milli uppgjörstímabila eins og nánar greinir í gögnum málsins. Ekki urðu breytingar á heildarfjárhæð skattskyldrar veltu og útskatts umrædd ár.

Ákæra í málinu var gefin út af sérstökum saksóknara 10. maí 2013.

 

II.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Pétur Þór hafa rekið Lögfræðistofuna ehf. Hann hafi átt félagið að fullu, verið fyrirsvarsmaður þess og til skamms tíma rekið það sem fyrirtæki utan um lögfræðiþjónustu sem hann veitti. Hafi enginn annar komið að rekstrinum og fjárhagslegum málefnum þess.

Aðspurður um ástæðu þess að virðisaukaskattsskýrslum fyrir árin 2009 og 2010 hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma kvaðst ákærði hafa litið til þeirrar sérstöku stöðu sem uppi hefði verið eftir hrunið. Hafi hann talið að hann ætti, eins og þeir sem sóttu um úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010 vegna fjárhagserfiðleika, rétt á að komið væri til móts við ákærða Lögfræðistofuna ehf. með því að veita félaginu greiðslufrest. Hafi hann skammast sín fyrir að hafa ekki skilað virðisaukaskattinum á sínum tíma en aldrei hafi staðið annað til en að standa skil á honum. Þrátt fyrir það ætti hann ekki að vera verr staddur en þeir sem um úrræðið sóttu.

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá skattrannsóknarstjóra þar sem hann svaraði því til að vanskilin hefðu stafað af „trassaskap“ hans. Kvað ákærði að sennilega hefði verið um misskilning að ræða. Hafi hann þar vísað til bókhaldsins og kannaðist ákærði við að hafa haldið gögnunum til haga á skrifstofu sinni og m.a. skráð í dagbók. Bókhaldið hafi svo verið fært af endurskoðanda hans síðar.

Ákærði kannaðist við sölureikninga sem eru á meðal gagna málsins. Kvaðst hann hafa afhent þá eftir að rannsókn málsins hófst. Hefði hann sjálfur fyllt út reikningana og þeir væru réttir. Þá kannaðist ákærði við að endurskoðandi hans hefði undir rannsókn málsins afhent innskattsgögn og taldi þau vera rétt enda í samræmi við bókhald og ársreikninga félagsins. Ákærði kvað hins vegar þær fjárhæðir sem tilgreindar voru í ákæru vera „út í bláinn“. Þá voru tilteknar færslur samkvæmt leiðréttingarskýrslum ákærða bornar undir hann og leitað svara við því hvers vegna útskattur samkvæmt útgefnum reikningum hefði verið færður inn á þau tímabil sem raun bar vitni. Kvaðst ákærði ekki kunna skýringar á því hvers vegna opinber gögn væru ekki rétt.

Þá var ákærði inntur eftir því hvers vegna röð útgefinna reikninga sem lægju fyrir í málinu væri ekki samfelld. Kvaðst hann telja að númeraröðin hefði verið óslitin en myndi ekki hvort auð eyðublöð hefðu verið þar inni á milli. Ekki hefðu verið gefnir út aðrir reikningar en þeir sem væru í gögnum málsins.

 

 

III.

            Ákærðu krefjast frávísunar málsins á þeim grunni að útreikningar sem byggt sé á í málinu séu óskiljanlegir og rangir, misræmi sé á milli ákæru og framlagðra gagna og málið sé ekki rannsakað með fullnægjandi hætti.

            Krafa um frávísun var nú sett fram við upphaf málflutnings verjanda ákærðu. Hún var áður sett fram í þinghaldi 15. janúar 2014 en þá fór annar dómari með málið. Frávísun málsins var synjað með úrskurði 5. júní 2015. Í úrskurðinum er vísað til þess að samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 sé það markmið sakamálarannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að henni lokinni að ákveða hvort sækja skuli mann til saka samkvæmt 152. gr. laganna. Ákærandi hafi hér álitið að fram hefði farið fullnægjandi rannsókn og höfðað málið að svo búnu. Sé sú ákvörðun hans hluti af valdheimildum sem ákæruvaldinu séu fengnar að lögum, sbr. einkum XXII. kafla laganna, og sæti ekki endurskoðun dómstóla. Samkvæmt 108. gr. laganna beri ákæruvaldið hins vegar sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem teljist vera honum í óhag. Leiði af því að sýkna beri ákærða, takist ekki að sanna sök á hann.

            Með vísan til framangreindra röksemda, svo og með hliðsjón af því að ekkert nýtt hefur komið fram frá því að krafan var tekin til úrskurðar sem áhrif gæti haft fellst dómurinn ekki á frávísun málsins.

            Þá er ekki fallist á það með ákærða Pétri Þór að ákæran uppfylli ekki kröfur um skýrleika, sbr.152. gr. laga nr. 88/2008, að teknu tilliti til leiðréttingar á augljósri villu með bókun í þingbók 21. júní 2013. Tekur verknaðarlýsing og sundurliðun í ákæru mið af þeirri stöðu er var á eindaga tilgreindra uppgjörstímabila á árunum 2009 og 2010. Koma greiðslur eftir það tímamark einkum til skoðunar í tengslum við ákvörðun refsingar.

           

            Ákærði Pétur Þór krefst frávísunar ákæruliðar 1 á grundvelli reglunnar ne bis in idem. Byggir hann á því að hann hafi sætt tvöfaldri refsingu eða málsmeðferð í skilningi 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar hann í þessu sambandi einkum til hinnar tvíþættu málsmeðferðar og telur að ekki ráði úrslitum sú staðreynd að ákærði hafi í reynd ekki sætt refsingu hjá skattyfirvöldum. Í þessu sambandi vísar ákærði til dóms Landsréttar frá 16. nóvember 2018 í máli nr. 82/2018.

            Dómurinn fellst ekki á kröfu ákærða um frávísun á þessum grunni og telur framangreindan dóm ekki hafa fordæmisgildi við úrlausn þess ágreiningsefnis sem hér um ræðir. Í tilvitnuðu máli var aðstaðan sú að ákærða, sem hafði með höndum sjálfstæða atvinnustarfsemi, hafði verið gert að greiða álag á vantalinn skattstofn. Ágreiningur var um hvort rétt væri að vísa frá hluta sakargifta á hendur honum er lutu að gjaldárunum 2006 og 2007, en hann hafði ekki verið beittur álagi á tekjuskattsstofn þeirra ára. Taldi Landsréttur svo vera og vísaði til þess að hin tvíþætta málsmeðferð sem hefði getað endað með álagi á gjaldstofna réði úrslitum um það álitaefni en ekki hvort málsmeðferðinni hefði lokið með beitingu álags. Aðstaðan sem er uppi í máli þessu er sú að málsmeðferðin laut ekki að ákærða persónulega og henni lauk ekki með ákvörðunum skattyfirvalda er snertu hann heldur ákærða Lögfræðistofuna ehf. sem skattaðila sem var gert að greiða álag á vantalinn skattstofn.

 

Ákærði Pétur Þór krefst sýknu á þeim grunni að ekki sé fram komin lögfull sönnun í málinu. Byggir hann á því að verulega skorti á rannsókn málsins og að framlögð gögn séu fullnægjandi. Þá hafi verið verulegir annmarkar á rannsókninni þar sem horft hafi verið fram hjá veigamiklum atriðum sem horft gætu til sýknu eða mildunar refsingar. Jafnframt sé grundvöllur ákæru og fjárhæðir í þeim efnum rangar.

Ágreiningslaust er að ákærði Pétur Þór var eini eigandi, starfsmaður og stjórnarmaður Lögfræðistofunnar ehf. Stjórnarmenn einkahlutafélags bera almennt ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þar á meðal ber þeim að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags. Bar ákærði í krafti stöðu sinnar sem fyrirsvarsmaður félagsins ábyrgð á rekstri þess og að skattskil væru í samræmi við lög.

Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á framangreindum annmörkum en samanlagt telur hann þá leiða til þess að ósannað sé að virðisaukaskattur, rétt á lagður, hafi verið í vanskilum á þeim tíma sem um getur í ákærunni.

Á þetta fellst dómurinn ekki. Ber í þessu sambandi að hafa í huga að rannsókn skattyfirvalda og beiting viðurlaga vegna skattalagabrota lýtur öðrum lagareglum en rannsókn af hálfu lögreglu, í þessu tilviki sérstaks saksóknara, sem síðar getur orðið grundvöllur ákæru og sakfellingar fyrir dómi. Þá er markmið rannsóknar skattyfirvalda annað en markmið lögreglurannsóknar. Þrátt fyrir að rannsókn skattyfirvalda sé grundvöllur rannsóknar lögreglu ber henni við rannsókn sína skylda til að leggja sjálfstætt mat á sönnunargögn málsins og kalla eftir viðbótargögnum ef þörf krefur. Tilgangurinn er sá að ákæranda sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008.

Meðal gagna málsins eru yfirlit sérstaks saksóknara yfir vanframtalda virðisaukaskattsskylda veltu og vangoldinn virðisaukaskatt vegna rekstrar ákærða Lögfræðistofunnar ehf. fyrir rekstrarárin 2009 og 2010. Þau yfirlit byggjast á upplýsingum úr tekjubókhaldi ríkisins eins og það var 5. desember 2012, rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins og útgefnum sölureikningum sem ákærði Pétur Þór afhenti undir rannsókn málsins. Þá var tekið tillit til mögulegs innskatts Lögfræðistofunnar ehf., félaginu til hagsbóta, þó ekki verði séð að gögn þar að lútandi hafi legið fyrir, eins og áður greinir.

Eins og sést af yfirlitunum voru leiðréttingarskýrslur ákærða Pétur Þórs ekki lagðar til grundvallar að öllu leyti en byggt á útgefnum sölureikningum sem ákærði hafði afhent. Í V. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er fjallað um það hvernig haga skuli uppgjöri skattskyldrar veltu. Segir í 2. mgr. 13. gr. laganna að ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar teljist hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu. Það misræmi í fjárhæðum í ákæru sem ákærði vísar til stafar af tilfærslum ákæruvaldsins á útskatti, eins og hann var samkvæmt leiðréttingarskýrslum ákærða, yfir á rétt tímabil lögum samkvæmt. Gildir hér einu þó að ríkisskattstjóri hafi til samræmis við innsendar leiðréttingarskýrslur breytt álagi á ákærða Lögfræðistofuna ehf. og að tekjubókhaldið eins og það stendur í dag endurspegli þær breytingar. Þá ber að hafa í huga að tilfærslurnar raska ekki tölulegri niðurstöðu í málinu.

Með vísan til framangreinds telur dómurinn ekkert fram komið um að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og engin efni til að líta svo á að töluleg framsetning í ákæru með tilliti til skattfjárhæða sé röng.

 

Þá byggir ákærði á því að innborgunum ákærða inn á virðisaukaskatt hafi ekki verið ráðstafað eins og hagkvæmast hafi verið út frá hagsmunum Lögfræðistofunnar ehf.

Á þetta fellst dómurinn ekki. Innborgunum ákærða inn á skattskuld hans var ráðstafað af innheimtumanni ríkissjóðs upp í kostnað, höfuðstól og að lokum dráttarvexti og álag í samræmi við viðtekna venju. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000 og dóms Landsréttar 4. maí 2018 í máli nr. 4/2018 þar sem vísað er til þess að það leiði af eðli máls og sé í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir en álag og dráttarvextir séu lögbundnar greiðslur sem greiða beri eftir ákveðnum reglum og verði hluti af viðkomandi skattskuld.

 

Einnig reisir ákærði sýknukröfu sína á því að það stríði gegn jafnræðisreglu að ákæra og refsa í málinu þar sem sams konar brot hafi verið gerð refsilaus með ákvæðum laga nr. 24/2010.

Dómurinn fellst ekki á kröfu um sýknu á þessum grunni. Tilgangur framangreindra laga var ekki sá að hrófla við refsinæmi skattalagabrota heldur að gera einstaklingum og lögaðilum kleift að sækja um greiðslufrest á vangoldnum skatti. Þeir aðilar þurftu auk þess að uppfylla tiltekin lagaskilyrði til þess að eiga kost á þeim úrræðum sem lögin buðu upp á. Ákærði sótti ekki um úrræðið fyrir hönd Lögfræðistofunnar ehf. Eru því ekki forsendur til þess að meta hvort jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin gegn honum. Þá verður ekki á það fallist að ákærði hafi með réttu mátt hafa væntingar til sambærilegrar meðferðar óháð umsókn um úrræðið. Til hliðsjónar vísast til dóms Landsréttar frá 4. maí 2018 í máli nr. 4/2018.

           

            Samkvæmt því sem rakið hefur verið stendur eftir í málinu refsikrafa ákæruvaldsins gagnvart ákærða Pétri Þór einum vegna meiri háttar brota gegn skattalögum og er háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt er refsing lögð við því ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Sömu skyldu ber fyrirsvarsmaður félags. Brot samkvæmt ákvæðinu er fullframið á eindaga vantalinna gjalda.

Samkvæmt 24. gr. laga um virðisaukaskatt er hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir og skulu skráningarskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða þann virðisaukaskatt sem þeim ber að standa skil á.

Ákærði kannast við að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti þau uppgjörstímabil sem í ákæru greinir á árunum 2009 og 2010. Gildir einu um refsinæmi vanskilanna þó að ákærði hafi greitt eftir eindaga enda voru brot hans þá fullframin. Kann það aðeins að hafa áhrif við mat á því hvort sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt verði beitt.

Ákærði átti ótvíræðum skyldum að gegna í krafti stöðu sinnar sem eigandi og fyrirsvarsmaður Lögfræðistofunnar ehf. Bar hann þannig ábyrgð á því að skattskil félagsins væru í samræmi við lög. Verður skýrt ráðið af svörum hans hjá skattrannsóknarstjóra varðandi skil á virðisaukaskatti að hann hafi ákveðið að skila ekki virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila rekstraráranna 2009 og 2010 og hafi eingöngu verið um „trassaskap“ að ræða. Á sama veg svaraði hann í skýrslutökum hjá sérstökum saksóknara. Framburður ákærða hér fyrir dómi um að svör hans megi trúlega rekja til misskilnings fær að mati dómsins ekki staðist.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Þegar litið er til fjárhæða verða brot ákærða talin meiri háttar og heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

 

            Ákærðu eru gefin að sök bókhaldsbrot með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald Lögfræðistofunnar ehf., rekstrarárin 2009 og 2010. Í skýrslutöku af ákærða Pétri Þór hjá skattrannsóknarstjóra kvað hann bókhald félagsins hafa verið í skötulíki og að það hefði ekki verið fært. Hins vegar væru gögnin fyrir hendi og hygðist hann leita til endurskoðanda. Þá kom fram hjá ákærða í skýrslu hans hjá sérstökum saksóknara að ástæða þess að bókhaldið hefði ekki verið fært væri „trassaháttur“. Ynni KPMG að því að ljúka bókhaldsvinnu. Hér fyrir dómi kannaðist ákærði við þennan framburð sinn.

            Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald eru einkafélög bókhaldsskyld. Ber bókhaldsskyldur maður og fyrirsvarsmaður lögaðila ábyrgð á því að bókhald sé fært með lögboðnum hætti, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 145/1994 skal í bókhaldi skrá viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, enda sé það í samræmi við góða bókhaldsvenju. Önnur atvik skulu skráð svo fljótt sem unnt er eftir að þau eiga sér stað.

Með því að uppfylla ekki lögboðna skyldu sína brutu ákærðu gegn 1. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994. Jafnframt braut ákærði Pétur Þór gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

 

III.

            Ákærði Pétur Þór hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi.

Mál þetta hefur dregist úr hófi hér fyrir dómi. Ákæra í málinu var gefin út 10. maí 2013 en aðalmeðferð í því fór fram 12. apríl 2019. Ástæður frestunar voru ýmsar og voru bæði að frumkvæði dómsins, m.a. er beðið var dóms í sambærilegum málum hjá Mannréttindadómstól Evrópu og æðra rétti hér innanlands, en einnig ítrekað af ástæðum er vörðuðu ákærða og verjanda hans. Þykir við ákvörðun refsingar rétt að taka tillit til framangreindra tafa að nokkru leyti.

Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Að framangreindu virtu þykir fært að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Einnig ber að dæma ákærða til sektargreiðslu og verður miðað við fésektarlágmark samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en óumdeilt er að ákærði greiddi skattskuld sína að fullu eftir eindaga. Er þá frádregið 10 % álag, sbr. 27. gr. laga nr. 80/1988. Að þessu virtu er fjárhæð sektar ákveðin 37.300.000 krónur, sem ákærða ber að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í tólf mánuði. Ákærða Lögfræðistofunni ehf. ber með vísan til fyrri málsliðar 40. gr. laga nr. 145/1994 að greiða sekt til ríkissjóðs sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur og ber að greiða hana innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber ákærðu að greiða sameiginlega allan sakarkostnað málsins sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Björgvins Þorsteinssonar, og þykir hæfilega ákveðinn 2.740.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Vinna verjandans einskorðaðist við rekstur málsins fyrir dómi. Við ákvörðun málsvarnarlauna er stuðst við tímaskráningu verjanda að nokkru leyti en jafnframt litið til þess að umfang málsins er í reynd ekki mikið og er í þessum efnum litið til sambærilegra mála. Tekið er tillit til vinnu í tengslum við kröfu ákærðu um að ákæruvaldinu yrði gert að afla tiltekinna gagna svo og kröfu þeirra um frávísun málsins.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, Pétur Þór Sigurðsson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði 37.300.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 360 daga.

            Ákærði Lögfræðiþjónustan ehf. greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. 

            Ákærðu greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar lögmanns, 2.740.400 krónur.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)