• Lykilorð:
  • Fjárdráttur
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 28. febrúar 2019 í máli nr. S-16/2019:

Ákæruvaldið

(Grímur Hergeirsson fulltrúi)

gegn

Pétri Ármanni Hjaltasyni

(Unnar Steinn Bjarndal lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 7. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 4. janúar sl., á hendur Pétri Ármanni Hjaltasyni,   

 

I.             [a]ðallega fyrir fjárdrátt en til vara fyrir umboðssvik

með því að hafa í starfi sínu sem útibússtjóri Sparisjóðsins á Suðurlandi,  bankanúmer 1169 á Selfossi, á tímabilinu 29. apríl 2011 til 4. desember 2014 ýmist millifært sjálfur, tekið út í reiðufé eða fyrirskipað starfsmönnum Sparisjóðsins að millifæra peninga af reikningum Sparisjóðsins og eftir atvikum viðskiptamanna Sparisjóðsins, ýmist á eigin reikninga eða reikninga annarra í eigin þágu, í 13 tilvikum samtals að fjárhæð 9.338.000 kr. með þeim hætti sem að neðan greinir:

 

1.              Með því að hafa millifært eða látið millifæra 104.720 kr. þann 29. apríl 2011 af reikningi A, nr. […] á reikning B, nr. […] vegna utanlandsferðar ákærða.

2.              Með því að hafa látið millifæra 305.000 kr. þann 20. maí 2011 af reikningi A, nr. […] á reikning Sparisjóðs Suðurlands nr. […] og í kjölfarið látið millifæra sömu fjárhæð af nefndum reikningi Sparisjóðsins á reikning C, nr. […] vegna utanlandsferðar ákærða með C.

3.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 1.500.000 kr. þann 3. október 2012 af reikningi Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] inn á reikning D nr. […] vegna skuldbindinga sem ákærði hafði persónulega stofnað til við D.

4.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 115.000 kr. þann 17. apríl 2013 af reikningi Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] inn á reikning E  nr. […] vegna kaupa ákærða […] sem var í eigu E.

5.              Með því að hafa tekið út 4.000.000 kr. í reiðufé þann 17. september 2013 af reikningi F nr. […] en ákærði kvaðst hafa afhent G umrætt fé, og með því að hafa í kjölfarið, þann 7. febrúar 2014 millifært eða látið millifæra 4.500.000 kr. af reikningi  Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] inn á nefndan reikning F.

6.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 200.000 kr. þann 25. júní 2014 af reikningi Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] inn á reikning H, nr. […] vegna skuldbindinga sem ákærði hafði persónulega stofnað til við H.

7.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 1.700.000 kr. þann 25. júní 2014 af reikningi Sparisjóðsins á Suðurlandi nr.  […] inn á reikning I, nr. […], vegna kaupa ákærða […] sem var í eigu I.

8.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 55.000 kr. þann 4. júlí 2014, af reikningi J nr. […] inn á reikning H vegna skuldbindinga sem ákærði hafði persónulega stofnað til við H en nefndur reikningur J var kominn á afskriftalista Sparisjóðsins.

9.              Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 89.288 kr. þann 9. júlí 2014 af reikningi A, nr. […], inn á reikning Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] og í kjölfarið millifært eða látið millifæra sömu fjárhæð inná reikning K  nr. […] vegna viðgerðar á bifreið í eigu ákærða.

10.          Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 300.000 kr. þann 26. september 2014 af reikningi A, nr. […], inn á reikning ákærða hjá Sparisjóðnum á Suðurlandi nr. […].

11.          Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 232.000 kr. þann 31. október 2014 af reikningi L nr. […] inn á reikning H, nr. […] vegna skuldbindinga sem ákærði hafði persónulega stofnað til við H en nefndur reikningur L var kominn á afskriftalista Sparisjóðsins.

12.          Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 163.527 kr. þann 27. nóvember 2014 af reikningi A, nr. […], inn á reikning Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] og í kjölfarið millifært eða látið millifæra sömu fjárhæð inná reikning K nr. […] vegna viðgerðar á bifreið í eigu ákærða.

13.          Með  því að hafa millifært eða látið millifæra 73.465 kr. þann 4. desember 2014 af reikningi A, nr. […] inn á reikning Sparisjóðsins á Suðurlandi nr. […] og í kjölfarið millifært eða látið millifæra sömu fjárhæð inná reikning K nr. […] vegna viðgerðar á bifreið í eigu ákærða.

 

Teljast brot ákærða samkvæmt fyrsta ákærulið aðallega varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með síðari breytingum en til vara við 249. gr. almennra hegningarlaga.

 

II.                       fyrir umboðssvik

með því að hafa þann 24. ágúst 2014 í starfi sínu sem útibússtjóri Sparisjóðsins á Suðurlandi,  bankanúmer 1169 á Selfossi, millifært eða látið millifæra 30.000 kr. af reikningi A, nr. […] inn á reikning M nr. […] en ákærði naut umboðs til þess að ráðstafa fjármunum af reikningum A í krafti stöðu sinnar sem útibússtjóri Sparisjóðsins.

 

Telst brot ákærða samkvæmt öðrum ákærulið varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Í ákæru eru tilgreindar eftirfarandi einkaréttarkröfur:

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir Jónína Guðmundsdóttir, lögmaður, kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða Sparisjóði Vestmannaeyja,  Bárustíg 15, 900 Vestmannaeyjum, bankanr. 1167, vegna Sparisjóðsins á Suðurlandi,  Austurvegi 6, 800 Selfossi, bankanr. 1169 bætur að fjárhæð kr. 6.687.000 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 4.500.000 frá 7. febrúar 2014 til 24. júní 2014, af kr. 6.400.000 frá 25. júní 2014 til 3. júlí 2014, af kr. 6.455.000 frá 4. júlí 2014 til 30. október 2014 en af kr. 6.687.000 frá þeim degi til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Tjónþoli gerir jafnframt þær kröfur að kærði verði dæmdur til að greiða lögmannskostnað tjónþola við að koma bótakröfunni á framfæri og vegna hagsmunagæslu við meðferð málsins fyrir dómi, skv. tímaskýrslu og málskostnaðarreikningi sem lagt verður fram við meðferð málsins. Krafan er gerð með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

 

Í málinu gerir Sunna Ósk Friðbertsdóttir, lögmaður, kröfu um að ákærða verði dæmdur til þess að greiða Landsbankanum hf.,  Austurstræti 11, 155 Reykjavík, kr. 6.233.000, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 104.720 frá 29. apríl 2011 til 20. maí 2011, af kr. 409.720 frá 20. maí 2011 til 8. júlí 2011, af kr. 1.359.720 frá 8. júlí 2011 til 3. október 2012, af kr. 2.859.720 frá 3. október 2012 til 4. október 2012, af kr. 2.911.720 frá 4. október 2012 til 17. apríl 2013, af kr. 3.026.720 frá 17. apríl 2013 til 25. júlí 2013, af kr. 5.576.720 frá 25. júlí 2013 til 9. júlí 2014, af kr. 5.666.008 frá 9. júlí 2014 til 24. ágúst 2014, af kr. 5.696.008 frá 24. ágúst 2014 til 26. september 2014, af kr. 5.996.008 frá 26. september 2014 til 27. nóvember 2014, af kr. 6.159.535 frá 27. nóvember 2014 til 4. desember 2014 en af kr. 6.233.000 frá 4. desember 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun

 

 

Við þingfestingu málsins var af hálfu bótakrefjenda lögð fram bókun þess efnis að Landsbankinn hefði með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 29. mars 2015, tekið yfir eignir og skuldir Sparisjóðs Vestmannaeyjar. Því tæki Landsbankinn við aðild Sparisjóðsins í málinu.

Ákærði mætti við þingfestingu málsins, ásamt Unnari Steini Bjarndal lögmanni, sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Þá samþykkti ákærði framkomnar einkaréttarkröfur, bæði hvað varðar bótaskyldu, sem og fjárhæð krafnanna. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Við ákvörðun refsingar ákærða þykir rétt að líta til þess gögn málsins bera með sér að rannsókn málsins hafi verið lokið á haustmánuðum 2016, en líkt og að framan greinir var ákæra gefin út í byrjun árs 2019. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess ákærða verði kennt um framangreindan drátt á rannsókn málsins, sem teljast verður verulegur, enda hafi hann frá upphafi rannsóknar verið samvinnufús og játað brot sín. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Að öllu framangreindu virtu sem og að virtum atvikum máls þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans og þykir að virtu umfangi málsins hæfilega ákveðin 342.550 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk ferðakostnaðar verjanda, 41.360 kr.

Í gögnum málsins er að finna tvö skjöl með yfirskriftinni „Bótakrafa og greinargerð“. Að mati dómsins uppfylla áðurnefnd kröfuskjöl bótakrefjanda skilyrði 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008, um greinargerð kröfuhafa. Líkt og að framan greinir hefur Landsbankinn tekið yfir aðild bótakrefjanda Sparisjóðsins á Suðurlandi í málinu. Hvað varðar kröfu sem sett var fram við rannsókn málsins í nafni Sparisjóðsins á Suðurlandi, er ljóst að krafa bótakrefjanda telst studd nægilegum gögnum og á að öllu leyti rætur sínar að rekja til sakarefnis máls þessa. Hvað varðar kröfu sem sett var fram við rannsókn málsins í nafni Landsbankans, verður ekki fram því litið að hluti kröfunnar varðar háttsemi sem ekki er lýst í ákæru, nánar tiltekið kröfuliðir 1.g., 2 og 4, í sundurliðun í greinargerð bótakrefjanda og varða því ekki sakarefni máls þessa, en liðirnir nema samtals kröfu að fjárhæð 3.502.000 kr. Með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, eru ekki skilyrði til að dæma framangreinda kröfuliði í máli þessu. Að öðru leyti telst krafa bótakrefjanda eiga rætur sínar að rekja til sakarefnis máls þessa og telst hún studd nægilegum gögnum. Þá hefur ákærði og samþykkt framangreindar kröfur, bæði hvað varðar bótaskyldu sína sem og fjárhæð krafnanna. Ákærði hefur verið fundinn sekur um brot þau sem greinir í ákæru og ber ábyrgð á tjóni því er af brotum hans hlaust. Að framangreindu virtu, sem og með vísan til 11. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, þykir rétt að fallast á kröfu bótakrefjanda, líkt og greinir í dómsorði. Samkvæmt gögnum málsins voru umræddar bótakröfur kynntar ákærða í skýrslutöku hjá lögreglu þann 13. desember 2016. Miðast útreikningur dráttarvaxta við það. Málskostnaður vegna einkaréttarkröfu brotaþola er hæfilega ákveðin 334.000 kr, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Pétur Ármann Hjaltason, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði sakarkostnað samtals 383.910 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal lögmanns, 342.550 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts og ferðakostnað verjanda, 41.360 krónur.

Ákærði greiði Landsbankanum hf., vegna Sparisjóðsins á Suðurlandi,  bætur að fjárhæð 9.368.000 krónur, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 104.720 kr. frá 29. apríl 2011 til 20. maí 2011, af 409.720 kr. frá þeim degi til 3. október 2012, af 1.909.720 kr. frá þeim degi til 17. apríl 2013, af 2.024.720 kr. frá þeim degi til 7. febrúar 2014, af 6.524.720 frá þeim degi til 24. júní 2014, af 8.424.720 kr. frá 25. júní 2014 til 3. júlí 2014, frá 8.479.720 frá 4. júlí 2014 til 8. júlí 2014, frá 8.569.008 frá 9. júlí 2014 til 24. ágúst 2014, frá 8.599.008 kr. frá þeim degi til 26. september 2014, af 8.899.008 kr. frá þeim degi til 31. október 2014, af 9.131.008 kr. frá þeim degi til 26. nóvember 2014, af 9.294.535 kr. frá 27. nóvember 2014 til 4. desember 2014, af 9.368.000 frá þeim degi til 13. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Landsbankanum hf., 334.000 kr. í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.