• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi og sekt
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 5. febrúar 2019 í máli

nr. S-256/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Elmari Þór Sveinarssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, var dómtekið 10. september sl. Það var fyrst höfðað 19. desember 2017 með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, á hendur Elmari Þór Sveinarssyni, […];

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 8. september 2017, verið með í vörslum sínum 09,85 grömm af kókaíni, en efni þessi fundust á ákærða við líkamsleit í fangelsinu á lögreglustöðinni á Akureyri.

Telst þetta brot varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 36.072, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001“

 

Mál nr. S-261/2017 var sameinað þessu.  Það höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra á hendur ákærða 29. desember 2017:

„fyrir fíkniefnabrot, með því að hafa mánudaginn 12. júní 2017, verið með í vörslum sínum í söluskyni á […] á Akureyri, 581,26 grömm af maríhúana, en lögreglan fann efnin í bakpoka sem lögreglan sá ákærða henda frá sér við […].

Telst þetta brot varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 35.212, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001“

 

Mál nr. S-63/2018 var sameinað þessu. Það höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra á hendur ákærða 2. maí 2018:

            „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 10. febrúar 2018, verið með í vörslum sínum 0,32 grömm af kókaíni, en lögreglan fann efnin við leit á ákærða þegar verið var að færa hann í fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri.

Telst þetta brot varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 37.171, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001“

 

„Mál nr. 85/2018 var sameinað þessu. Það höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, 5. júní sl. á hendur ákærða:

I.

Með því að hafa þriðjudaginn 23. mars 2018, ekið bifreiðinni […] undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 20ng/ml og í þvagsýni mældist kókaín), suður Oddeyrargötu á Akureyri og vestur Þingvallastræti, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Kaupang við Mýrarveg.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. gr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

II.

Með því að hafa, þennan sama dag, verið með í vörslum sínum 9,68 grömm af amfetamíni og 7,96 grömm af kókaíni en ákærði var með ofangreind efni í vösum sínum þegar lögreglan stöðvaði akstur hans við Kaupang, eins og lýst er í ákærulið I.

Telst þetta brot varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana-og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 37.443, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. En jafnframt er gerð sú krafa að ákærði verði sviptur ökurétti samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Við þingfestingu neitaði ákærði sök samkvæmt ákæru 29. desember 2017.  Málinu var frestað til aðalmeðferðar en fresta þurfti henni vegna fjarveru vitna.  Við fyrirtöku 10. september sl., breytti sækjandi þessari ákæru í þá veru að ákærði hefði ekki haft efnin í vörslum sínum í söluskyni og játaði þá ákærði sök samkvæmt ákærunni.  Ákærði hefur játað sök samkvæmt öðrum ákærum í málinu. Með játningum hans, sem ekki er ástæða til að draga í efa að séu sannleikanum samkvæmar, telst játning hans nægilega sönnuð eins og henni er lýst í ákærum með framangreindri breytingu og varðar við tilgreind refsiákvæði í ákærum.

Þann 10. nóvember 2009 var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi og sviptur ökurétti í fjóra mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  Þann 20. apríl 2012 var hann dæmdur í fangelsi í 8 mánuði, þar af 6 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár fyrir brot gegn 2. mgr.218. gr. almennra hegningarlaga.  Var eldri skilorðsdómur þá dæmdur upp.  Ákærði lauk afplánun þessa dóms 7. júní 2013.  Eftir það hefur ákærði sætt sektum, fyrst 8. janúar 2016, 14.000 krónur fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og hann þá einnig sviptur ökurétti í 12 mánuði, frá 8. janúar 2016.  Þann 11. júlí 2016 var hann dæmdur til greiðslu 70.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og sviptur ökurétti í 6 mánuði frá 8. janúar 2017.  Þessi refsing var hegningarauki við sáttina frá 8. janúar 2016.  Þar var um að ræða ítrekun á broti því sem dæmt hafi verið þann 10. nóvember 2009, enda hófst fyrningartími ítrekunaráhrifa þess dóms ekki fyrr en við lok afplánunar 7. júní 2013.  Loks sætti ákærði þann 28. ágúst 2018 sekt að fjárhæð 260.000 krónur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var sviptur ökurétti í 24 mánuði frá 28. ágúst 2018.  Var þar um að ræða aðra ítrekun á akstri undir áhrifum fíkniefna.  Ber nú að tiltaka refsingu ákærða sem hegningarauka við síðastgreinda sátt, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga en að öðru leyti eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga og 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.  Þykir mega skilorðsbinda hana að fullu eins og nánar greinir í dómsorði.  Þá verður ákærði dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og komi 8 daga fangelsi í stað hennar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja og sviptur ökurétti í eitt ár frá 28. ágúst 2010 að telja.  Þá verður ákærði dæmdur til að greiða útlagðan sakarkostnað, 146.403 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að meðtöldum virðisaukaskatti og áætlaðan útlagðan ferðakostnað hans, allt eins og greinir í dómsorði.  Fallast ber á kröfu um upptöku efna.  

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Ákærði, Elmar Þór Sveinarsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði og greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.  Fresta skal  fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Fangelsi í átta daga komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 28. ágúst 2020 að telja. 

Ákærði greiði 479.363 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 252.960 krónur og áætlaðan ferðakostnað hans 80.000 krónur. 

Gerð eru upptæk 9,13 grömm af kókaíni, 581,26 grömm af maríhúana og 9,68 grömm af amfetamíni.

                                                         Erlingur Sigtryggsson