• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Útivist
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2019 í máli nr. S-593/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Rafal Jan Sobolewski

 

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 25. september 2018, á hendur Rafal Jan Sobolewski, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir þjófnaðarbrot, með því að hafa:

 

1.    Föstudaginn 23. júní 2017, í verslun Bónus í Kjörgarði, Laugavegi 59, Reykjavík, stolið söluvarningi samtals að verðmæti 5.210 krónur.

2.    Miðvikudaginn 12. júlí 2017, í verslun ÁTVR, Austurstræti 10A, Reykjavík, stolið vodkaflösku að verðmæti 2.699 krónur.

3.    Sunnudaginn 17. desember 2017, í verslun Bónus í Kjörgarði, Laugavegi 59, Reykjavík, stolið rakvélablöðum að verðmæti 898 krónur.

 

            Telst framangreind háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Vegna 2. tl. ákæru gerir Erla Skúladóttir, f.h. Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, kt. 410169-4369, þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur samtals að fjárhæð 2.699 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. júlí 2017 til 19. ágúst 2017, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

            Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en ákæra og fyrirkall á hendur honum var birt í Lögbirtingarblaði hinn 28. nóvember 2018 með heimild í 3. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem fyrir liggur að ákærði dvelur ekki á skráðu lögheimili. Verður málið því dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

            Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 19. september 2018, hefur ákærði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi fyrr.

            Þrátt fyrir lítið verðmæti þjófnaðarandlaga verður við ákvörðun refsingar horft til þess að um þrjú aðskilin brot er að ræða, sbr. framangreinda ákæruliði. Með hliðsjón af því og sakarefni málsins þykir refsing ákærða þannig hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Í málinu er höfð uppi skaðabótakröfur af hálfu ÁTVR vegna annars ákæruliðar. Þykir bótakrafan nægjanlega rökstudd og verður tekin til greina, ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafsdagur dráttarvaxta er miðaður við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá birtingu ákæru, sbr. og 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Bótakrefjanda verður ekki dæmdur málskostnaður, enda tók sækjandi að sér mætingu fyrir hans hönd við þingfestingu málsins.

            Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:       

            Ákærði, Rafal Jan Sobolewski, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr.    4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði bótakrefjanda, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, 2.699 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júlí 2017 til 28. desember 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

 

                                                            Þórhildur Líndal