• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Galli
  • Kaupsamningur
  • Riftun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2019 í máli nr. E-3585/2017:

Smári Jónsson

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

gegn Víkurverki ehf.

(Haukur Örn Birgisson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem var dómtekið 13. desember 2018, var höfðað 9. nóvember 2017 af Smára Jónssyni, […], gegn Víkurverki ehf., Víkurhvarfi 6 í Kópavogi.

       Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 4.829.415 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. ágúst 2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

       Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og að því frágengnu að krafan verði lækkuð verulega. Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

       Frávísunarkröfu stefnda var hafnað með úrskurði 13. apríl 2018.

I

       Mál þetta verður rakið til kaupa stefnanda á hjólhýsi af gerðinni Adria Adora 542 UL, fastanúmer ML-P59, af stefnda 6. júlí 2017. Stefnandi greiddi 4.829.415 krónur fyrir hjólhýsið og ýmsan aukabúnað. Hjólhýsið var afhent 14. júlí og liggur fyrir að starfsmenn stefnda könnuðu ástand þess fjórum dögum fyrir afhendingu.

       Hinn 20. júlí 2017 hugðist stefnandi nota hjólhýsið í fyrsta sinn og fór með það til Hvammstanga. Hann kveður rafmagni hafa slegið út þegar skrúfað hafi verið frá krana í eldhúsi og hafi hann haft samband við starfsmann stefnda sem sagði honum að koma með hjólhýsið á verkstæði stefnda þegar heim væri komið. Fyrir liggur verkbeiðni frá 24. júlí sama ár þar sem sagði: „Húsið er splunku nýtt, fékk það afhent fyrir viku síðan. Vatnsdæla virkar ekki. Stjórnborðið fyrir salernistankinn, virkar ekki, sýnir ekki hversu mikið er komið í tankinn. Borðið, þó það sé læst sígur það niður, ath.“ Um viðgerðina sagði meðal annars: „Öryggi farið, var bleyta í tengingum fyrir dælu. Skipt var um borðfót.“ Að lokinni viðgerð var hjólhýsið afhent stefnanda. Stefnandi hugðist fara í ferðalag um verslunarmannahelgina og ók hjólhýsinu að Seljalandsfossi 4. ágúst 2017. Þar sló rafmagni út þegar skrúfað var frá krana á snyrtingu í hýsinu. Stefnandi keypti nýtt öryggi á Hellu og skipti um, en það bar ekki árangur og varð ekki frekar úr fyrirhuguðu ferðalagi stefnanda þessa helgi. Stefnandi fór á ný með hjólhýsið í viðgerð hjá stefnda og liggur fyrir verkbeiðni frá 8. ágúst 2017 þar sem sagði: „Húsið er splunku nýtt. Var hjá okkur 24.7.2017. Vatnsdæla virkar ekki. Vatnsdælan sprengir öryggi þegar baðvaskur er notaður. Stjórnborðið fyrir salernistankinn virkar ekki, sýnir ekki hversu mikið er komið í tankinn.“ Um viðgerðina sagði meðal annars: „Slær ekki út hjá okkur, dælt mörgum tönkum i gegn […] skipt um pumpu í vatnstank.“ Var samkvæmt þessu skipt um vatnsdælu, en stefndi kveður það hafa verið gert umfram skyldu þar sem bilun hafi ekki fundist. Stefnandi sótti hjólhýsið 9. ágúst 2017 á verkstæði stefnda og kveðst hafa prófað það stuttu síðar, en þá hafi rafmagni slegið út á ný þegar skrúfað var frá vatni. Stefnandi hafði í kjölfarið samband við sölustjóra stefnda og kvaðst hún ætla að bera vandamálið undir verkstæðisformann stefnda. Ekki var haft samband við stefnanda á ný og fór hann aftur með hjólhýsið á verkstæði stefnda hinn 10. ágúst 2017. Hann kveðst hafa sýnt starfsmönnum stefnda hvað gerðist þegar skrúfað væri frá vatninu og hafi þá gosið upp blár rafmagnsblossi úr rafmagnstöflu sem var undir rúmi í hjólhýsinu. Starfsmenn stefndu tóku hjólhýsið á ný til viðgerðar, en ekki liggur fyrir verkbeiðni eða önnur gögn sem varða viðgerðina. Stefndi kveður að við skoðun hafi komið í ljós annmarki á rafmagnstengingu við sjónvarp sem hafi verið gert við.

       Hinn 10. ágúst 2017 sendi stefnandi tölvubréf til stefnda og tók fram að vegna galla á hjólhýsinu og vanhalda á viðgerðum óskaði hann eftir því að rifta kaupunum. Sagði þar meðal annars orðrétt: „Frá fyrsta degi hefur verið vandræði með rafmagnið, hann sprengt öryggi og salerni ekki virkað. Viðgerðum hjá ykkur hefur ekki tekist að koma í veg fyrir vandann. Ljóst er að markmiðum mínum með kaupunum verður ekki náð.“ Óskað var eftir endurgreiðslu kaupverðs og að eigendaskipti færu fram hið fyrsta. Ekki verður séð að stefndi hafa svarað þessu tölvubréfi. Stefnanda var tilkynnt að viðgerð á hjólhýsinu væri lokið 11. ágúst og sótti hann hýsið til stefnda. Degi síðar, eða 12. ágúst, fór hann með hjólhýsið út á land og kveður hann að rafmagni hafi þá slegið út á ný. Samdægurs sendi hann stefnda annað tölvubréf og tók fram að hjólhýsið hefði farið þrisvar sinnum í viðgerð frá afhendingu. Þá sagði: „Við notkun vagnsins laugardaginn 12. ágúst kom í ljós að ef vatnsdæla er notuð þá slær sjónvarpið út.“ Vísað var til þess að samkvæmt lögum nr. 48/2003 um neytendavernd mætti seljandi reyna viðgerð tvisvar sinnum og væri farið fram á endurgreiðslu kaupverðs eða nýjan vagn. Þessu erindi var ekki svarað af hálfu stefnda og skilaði stefnandi hjólhýsinu til hans 16. ágúst 2017. Honum var þá tjáð að reynt yrði að gera við hjólhýsið á ný og var honum boðið að fá annað hýsi lánað, en hann afþakkaði það. Hinn 19. sama mánaðar fékk stefnandi skilaboð um að hann gæti sótt hjólhýsið til stefnda, en það gerði hann ekki þar sem hann taldi viðgerðir á hýsinu fullreyndar og að sumarfrí fjölskyldunnar hefði þegar farið fyrir lítið. Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 28. ágúst 2018 og var krafa stefnanda um endurgreiðslu vegna riftunar þar áréttuð. Stefndi svaraði ekki þessu bréfi.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi byggir á því að hjólhýsið hafi allt frá afhendingu verið gallað í skilningi a- og c-liða 1. mgr. 16. gr. laga nr. 48/2003. Hafi hjólhýsið þannig engan veginn uppfyllt kröfur sem hafi mátt gera um gæði þess og eiginleika, hvorki samkvæmt samningi aðila né samkvæmt lögbundnum viðmiðum, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna. Þá hafi hjólhýsið alls ekki svarað til þeirra upplýsinga sem seljandi hafi veitt um eiginleika þess, enda hvergi verið getið um að kaupendur mættu búast við ítrekuðu rafmagnsleysi eða blossum í rafmagnstöflu hýsisins við notkun þess.

       Vísað er til þess að stefnandi hafi tilkynnt stefnda um gallann 20. júlí 2017, eða tæpri viku eftir að hýsið var afhent. Þá hafi hann fyrst upplýst stefnda 10. ágúst sama ár um að hann færi fram á riftun á kaupsamningi aðila. Stefndi hafi því verið upplýstur frá fyrsta degi um að hjólhýsið væri gallað og að stefnandi hygðist bera gallann fyrir sig, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003. Hafi stefndi reynt fjórum sinnum að bæta úr augljósum göllum í rafmagnskerfi hjólhýsisins en án árangurs. Verði stefnanda ekki gert að taka við hjólhýsinu gegn vilja sínum, enda eigi stefndi ekki rétt á að bæta úr sama galla oftar en tvisvar, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Hafi stefnandi því ekki átt annarra kosta völ en að rifta samningi aðila um kaupin og fá kaupverðið endurgreitt, sbr. 32. gr. laganna. Geti gallinn ekki talist óverulegur í skilningi ákvæðisins þar sem hjólhýsið hafi verið með öllu ónothæft án rafmagns, auk þess sem telja verði að eldhætta stafi af hinu gallaða rafkerfi.

       Fjárkrafa stefnanda er byggð á því að kaupsamningi aðila hafi verið rift með tölvubréfi 10. ágúst 2017 þar sem krafist var riftunar og endurgreiðslu kaupverðs. Hafi stefnandi skilað hjólhýsinu til stefnda 16. ágúst 2017 og stefndi haft umráð þess frá þeim tíma. Beri stefnda að endurgreiða stefnanda kaupverðið, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 48/2003. Hafi stefnandi sannanlega tilkynnt stefnda að hann myndi bera fyrir sig gallann 10. ágúst 2017 og miðist upphafsdagur kröfu um dráttarvexti við það, sbr. 2. mgr. 50. gr. laganna. Til nánari stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglna kauparéttar og 15., 16., 27., 30., 32., 49. og 50. gr. laga nr. 48/2003.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

       Stefndi byggir á því að skilyrði riftunar samkvæmt lögum nr. 48/2003 séu ekki fyrir hendi. Sé ósannað að hjólhýsið hafi verið haldið annmarka sem geti leitt til riftunar, en annmarkinn hafi í öllu falli verið smávægilegur og þegar verið lagfærður stefnanda að kostnaðarlausu. Annmarki hafi verið á rafmagnstengingum í hjólhýsinu og hafi stefndi boðist til að bæta úr honum á eigin kostnað án verulegs óhagræðis fyrir stefnanda og innan hæfilegs tíma, sbr. 29. og 30. gr. laga nr. 48/2003. Hafi stefndi í alla staði fullnægt skilyrðum laganna hvað varði úrbætur og af þeim sökum séu skilyrði til riftunar ekki uppfyllt.

       Hafi stefnandi þrisvar komið með hjólhýsið á verkstæði stefnda. Stefndi hafi í öll skiptin tekið það til skoðunar stefnanda að kostnaðarlausu. Í fyrsta skiptið hafi verið gert við borðfót og skúffu og bleyta fundist í tengingum við vatnsdælu sem hafi getað skýrt það að öryggi hefði farið. Slíkt geti gerst við almenna notkun á hjólhýsinu og hafi ekkert á þeim tímapunkti gefið til kynna að annað amaði að hýsinu. Hafi engin viðgerð farið fram á rafmagnstengingum. Í annað skipti sem stefnandi hafi komið með hýsið hafi hann kvartað yfir því að rafmagni hefði slegið út við notkun á baðvaski og sjálfur talið að vatnsdæla virkaði ekki. Hafi starfsmenn stefnda dælt mörgum tönkum af vatni í gegnum hýsið og rafmagni aldrei slegið út, eins og sjá megi af upplýsingum um vinnu á fyrirliggjandi verkbeiðni. Í þeim eina tilgangi að koma til móts við stefnanda hafi verið skipt um vatnsdælu, en engar viðgerðir á rafmagnstengingum hafi átt sér stað. Í þriðja skiptið hafi stefnandi kvartað yfir því að öryggi hefði slegið út þegar hann kveikti á sjónvarpi í hýsinu. Við athugun stefnda hafi loks komið í ljós annmarki á rafmagnstengingum sem hafi verið gert við. Hafi hýsið í framhaldinu verið prófað með öllum mögulegum tækjum og rafmagni aldrei slegið út við athugun stefnda. 

       Byggt er á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hjólhýsið hafi verið haldið einhvers konar annmarka eða galla og að stefnda hafi ekki tekist að bæta úr þeim galla í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 48/2003. Það sé rangt og ósannað að stefndi hafi tvisvar, hvað þá oftar, reynt að lagfæra sama galla á rafmagnstengingum hýsisins án árangurs, en slík sönnun sé forsenda fyrir rétti til riftunar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Hafi stefndi boðið stefnanda úrbætur, sem hann hafi þegið, og bætt úr þeim annmarka sem hafi fundist í rafmagnstengingum hýsisins í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2003. Þá leiði af 3. mgr. 29. gr. laganna að séu boðnar úrbætur í samræmi við lögin geti stefnandi ekki krafist afsláttar eða riftunar. Jafnframt er byggt á því að hafi hjólhýsið verið haldið annmarka eða galla þá hafi sá annmarki verið óverulegur í skilningi 1. mgr. 32. gr. laganna. Sé kostnaður við að lagfæra annmarkann svo óverulegur að stefnandi geti ekki byggt riftunarkröfu sína á honum. Sá sem beri fyrir sig galla í viðskiptum beri sönnunarbyrðina fyrir því að söluhlutur sé gallaður og hvert umfang og eðli gallans sé. Úrræði kaupanda til þess að færa sönnur á slík atriði felist í því að dómkveðja matsmann, en stefnandi hafi ekki aflað eða lagt fram nein sönnunargögn í málinu sem renni stoðum undir fullyrðingar hans og riftunarkröfu.

       Verði stefndi ekki sýknaður er þrautavarakrafa um lækkun á fjárkröfu stefnanda byggð á sömu málsástæðum. Þá geti það ekki fallið í hlut stefnda að greiða stefnanda umkrafið kaupverð fyrir hýsið enda hafi verðmæti þess rýrnað frá því að stefnandi keypti það og verði að taka tillit til afskrifta, notkunar og almennrar verðrýrnunar. Jafnframt er dráttarvaxtakröfu stefnanda, þar með talið upphafsdegi, mótmælt.

III

Niðurstaða

       Aðila greinir á um hvort uppfyllt séu skilyrði til riftunar á kaupum stefnanda á hjólhýsi frá stefnda sem fram fóru í júlí 2017. Um er að ræða neytendakaup og gilda því ákvæði laga nr. 58/2003, þar með talið um það hvenær söluhlutur telst vera gallaður, úrræði neytanda vegna galla og heimild seljanda til úrbóta á söluhlut, sbr. IV. og VI. kafla laganna.

       Það er óumdeilt að hjólhýsið, sem var afhent stefnanda 14. júlí 2017, fór þrisvar í viðgerð hjá stefnda á tímabilinu 24. júlí til 10. ágúst sama ár. Leggja verður til grundvallar að rafmagni hafi slegið út í hjólhýsinu með þeim afleiðingum að vatnsdæla virkaði ekki þegar við fyrstu notkun þess, 20. júlí 2017. Stefnandi kveðst hafa lýst því fyrir starfsmönnum stefnda að þetta hafi gerst þegar skrúfað hafi verið frá krana í eldhúsi. Í lýsingu í verkbeiðni frá 24. júlí, sem fyllt var út af stefnda, var ekki berum orðum vísað til þessa en í upplýsingum um viðgerðina segir: „Öryggi farið, var bleyta í tengingum við dælu.“ Þá kom fram í skýrslu Kjartans Jóns Bjarnasonar, verkstæðisformanns stefnda, fyrir dómi að vatnsdælan hefði verið prófuð eftir viðgerð og að hún hefði virkað. Þegar stefnandi fór í annað sinn í ferðalag með hjólhýsið 4. ágúst 2017 og skrúfaði frá krana á snyrtingu sló rafmagni á ný út þannig að vatnsdæla virkaði ekki. Hjólhýsið fór í annað skipti í viðgerð til stefnda og segir í verkbeiðni frá 8. sama mánaðar: „Vatnsdæla virkar ekki. Vatnsdælan sprengir öryggi þegar baðvaskur er notaður.“ Samkvæmt skráðum upplýsingum um viðgerðina sló rafmagni ekki út við notkun vatnstanks, en aftur á móti var skipt um vatnsdælu. Fram kom í skýrslu verkstæðisformanns stefnda fyrir dómi að hann hefði beðið starfsmenn, sem hann var í símasambandi við, að skipta um dæluna í því skyni að tryggja að bilun kæmi ekki upp á ný. Það er ágreiningslaust að stefnandi fór með hjólhýsið í þriðja skipti í viðgerð hjá stefnda tveimur dögum síðar, eða 10. ágúst 2017. Verkbeiðni eða önnur gögn sem varða ástæðu þessa og það hvernig viðgerðin var framkvæmd liggja aftur á móti ekki fyrir. Það féll í hlut stefnda að skrá upplýsingar sem þessar og verður að leggja til grundvallar þann framburð stefnanda að rafmagni hafi á ný slegið út þegar skrúfað var frá vatni í hjólhýsinu. Hafi hann rætt þetta símleiðis við sölustjóra stefnda og átt von á því að verkstæðisformaður hefði samband, en það hafi hann ekki gert. Hafi stefnandi því farið með hjólhýsið á verkstæði stefnda og sýnt starfsmönnum hvað gerðist þegar skrúfað væri frá vatni. Hafi þá blossi gosið upp úr rafmagnstöflu undir rúmi. Fyrir dómi kannaðist verkstæðisformaður stefnda við að slíkur blossi kæmi ef öryggi færi. Hann varð sjálfur ekki vitni að atvikinu þar sem hann var í sumarfríi en var í símasambandi við starfsmenn á verkstæðinu. Hann skýrði nánar svo frá að við þessa þriðju viðgerð hefði fyrst komið fram að rafmagni slægi út við notkun á vatnsdælu og sjónvarpi samtímis. Hafi komið í ljós við skoðun á úrtaki fyrir sjónvarp að jarðtenging væri léleg þar sem pinni væri illa skautaður og hefði kolast. Hefði það verið lagað og prófanir farið fram. Að hans mati ætti þetta ekki að tengjast vatnsdælu, en það væri þó ekki útilokað þegar um væri að ræða lélegt samband. Fyrir liggur að stefndi sótti hjólhýsið 11. ágúst 2017, en aðila greinir á um hvort viðgerðin hafi verið fullnægjandi. Stefnandi byggir á því að við notkun á vatnsdælu degi síðar hafi rafmagni slegið út enn á ný. Gerð er grein fyrir þessu í tölvubréfi hans til stefnda frá 14. sama mánaðar sem var ekki svarað.

       Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að annmarki hafi verið á hjólhýsinu þar sem rafmagni sló ítrekað út þegar skrúfað var frá vatni með þeim afleiðingum að vatnsdæla virkaði ekki. Fyrir liggur að rafmagnstöflur í hjólhýsinu voru sundurgreindar og að vandinn var einskorðaður við rafmagn vegna vatnskerfis sem nýttist því ekki sem skyldi, svo sem fyrir salerni og vaska. Hentaði hjólhýsið því ekki í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir og hafði ekki þá eiginleika sem stefnandi mátti vænta, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 48/2003. Að þessu virtu var hjólhýsið ekki í samræmi við kröfur 15. gr. og telst því vera gallað, sbr. a- og c-liði 1. mgr. 16. gr. laganna. Stefnda, sem seljanda hjólhýsisins, var heimilt að bæta á eigin kostnað úr gallanum en réttur til úrbóta er takmarkaður við tvö skipti vegna sama galla nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæta frekari úrbætur, sbr. 3. mgr. 29. gr. og 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 48/2003. Í athugasemdum við 30. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2003 sagði að eðlilegt þætti að „kveða skýrt á um leyfilegan fjölda úrbóta eða afhendinga seljanda til að tryggja réttarstöðu neytanda“ og væri að norskri fyrirmynd lagt til að seljandi gæti bætt úr sama galla tvisvar. Byggðist það meðal annars á því að þrjár tilraunir til úrbóta eða nýrrar afhendingar af hálfu seljanda myndu í flestum tilvikum taka óhæfilega langan tíma.  

       Eins og hér er ástatt verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi frá upphafi kvartað yfir sama galla á hjólhýsinu, þ.e. að rafmagni hefði slegið út við notkun á vatni. Þessum annmarka var meðal annars lýst í tölvubréfum stefnanda frá 10. og 14. ágúst 2017 sem ekki var svarað af hálfu stefnda. Skiptir þar ekki sköpum hvort stefnandi hafi vísað til notkunar á vatni á salerni eða í eldhúsi eða tekið fram hvort rafmagnstæki á borð við sjónvarp hafi verið í gangi er rafmagni sló út, en rétt hefði verið fyrir starfsmenn stefnda að leita eftir upplýsingum um slíkt teldu þeir það geta haft þýðingu. Af hálfu stefnda fóru fram úrbætur á hjólhýsinu 24. júlí og 8. og 10. ágúst 2017. Skilja verður málatilbúnað stefnda með þeim hætti að loks við þriðju viðgerðina, sem engin gögn liggja fyrir um, hafi líkleg orsök þess að rafmagni sló út fundist. Það fellur í hlut stefnda sem seljanda hjólhýsisins og þess sérfróða aðila sem tók að sér viðgerð á því að finna orsök þeirrar bilunar sem ítrekað kom upp og stefnandi lýsti þannig að rafmagni slægi út eða öryggi færi. Að teknu tilliti til þessa leitaðist stefndi við að bæta úr sama galla oftar en tvisvar sinnum og rúmast það ekki innan réttar hans til úrbóta samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 48/2003.

       Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/2003 getur neytandi krafist afsláttar af kaupverði verði ekki af úrbótum eða nýrri afhendingu samkvæmt 29. og 30. gr. laganna. Þá segir í 32. gr. að í stað afsláttar geti neytandi rift kaupum nema galli sé óverulegur. Að teknu tilliti til þess að heimild stefnda til úrbóta var fullreynd og nýr söluhlutur var ekki boðinn var stefnanda rétt að rifta kaupunum að því skilyrði uppfylltu að gallinn teldist ekki óverulegur. Við mat á því hvort stefnanda hafi verið heimilt að rifta kaupunum vegna gallans er unnt að líta til sams konar viðmiða og við lausafjárkaup, enda er vísað til þeirra viðmiða í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2003. Að mati dómsins var umræddur galli, sem lýsti sér í því að rafmagni sem knýr vatnskerfi sló ítrekað út, stefnanda til verulegs óhagræðis og mátti stefnda vera ljóst að annmarki af þessu tagi hefði verulega þýðingu fyrir hann. Verður að telja að vatnskerfi, svo sem fyrir salerni og vaska, sé mikilvægur eiginleiki hjólhýsis í augum kaupanda og að stefnda hafi sem seljanda mátt vera það fullljóst. Þá verður ekki séð að riftun kaupanna leiði til verulegs óhagræðis fyrir stefnda, sem hefur haft hjólhýsið í sínum vörslum frá 16. ágúst 2017, í samanburði við óhagræði stefnanda.

       Að þessu virtu eru skilyrði til riftunar samkvæmt 32. gr. laga nr. 48/2003 uppfyllt og ber stefnda að endurgreiða stefnanda kaupverð hjólhýsisins, sem nam 4.829.415 krónum. Stefndi hefur ekki fært haldbær rök fyrir þrautavarakröfu sinni um lækkun á dómkröfu stefnanda, en hjólhýsinu var skilað til stefnda um mánuði eftir afhendingu þess og liggur ekkert fyrir um að teljandi breytingar hafi orðið á ástandi þess. Þá hafði stefnandi ekki afrakstur af hjólhýsinu eða veruleg not af því í skilningi 1. mgr. 50. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 50. gr. laganna ber stefnda að endurgreiða kaupverðið með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi sem stefnandi tilkynnti honum að hann myndi bera gallann fyrir sig. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2003 er tekið fram að upphafstími vaxta miðist samkvæmt þessu við annað tímamark en samkvæmt lögum um lausafjárkaup. Með tölvubréfi stefnanda 10. ágúst 2017 gerði hann stefnda grein fyrir því að vegna galla á hjólhýsinu sem ekki hefði tekist að laga vildi hann rifta kaupunum. Þá lýsti hann nánar gallanum og óskaði eftir endurgreiðslu kaupverðs, sem og að eigendaskipti færu fram hið fyrsta. Ber í samræmi 2. mgr. 50. gr. laga nr. 48/2003 að miða upphafstíma dráttarvaxta við þennan dag. A

       Að virtum úrslitum málsins ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. 

            Dóm þennan kveða upp Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari ásamt Ingiríði Lúðvíksdóttur héraðsdómara og Valgarði Zóphaníassyni bifvélavirkja.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Víkurverk ehf., greiði stefnanda, Smára Jónssyni, 4.829.415 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. ágúst 2017 til greiðsludags.

       Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.