• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 7. nóvember 2018 í máli nr. E-58/2017:

Arion banki hf.

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)

gegn

Jómundi Ólasyni

(Björn Jóhannesson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl., er höfðað af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur Jómundi Ólasyni, Hreimsstöðum í Borgarbyggð, til greiðslu skuldar.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 21.218.950 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  frá 16. maí 2013 til greiðsludags.

 

Stefndi krafðist þess í greinargerð aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 9. febrúar 2018. Stefndi krefst þess til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en að öðrum kosti verði þær stórlega lækkaðar. Stefndi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.   

 

II.

Málsatvik

Stefndi var með veltureikning nr. 0354-26-002326 í Sparisjóði Mýrasýslu og er hin umstefnda skuld til komin vegna heimildar sem stefnandi veitti honum til að yfirdraga reikninginn upp að tiltekinni fjárhæð og stofna þannig til skuldar við stefnanda. Síðasta yfirdráttarheimild sem stefnandi samþykkti féll niður hinn 20. apríl 2009, án þess að til framlengingar kæmi. Þar sem stefndi greiddi ekki yfirdráttarskuldina á þeim degi var reikningnum lokað í kjölfarið, eða hinn 29. janúar 2010. Nam þá uppsöfnuð skuld veltureikningsins 21.218.950 krónum.

 

Stefnandi tók hinn 1. júlí 2010 við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum Sparisjóðs Mýrasýslu vegna samruna félaganna.

 

III.

Stefnandi kveður kröfu sína vera til komna vegna skuldar stefnda á umræddum veltureikningi. Hafi stefndi fengið samþykkta yfirdráttarheimild á reikningnum upp að tiltekinni fjárhæð og stofnað þannig til skuldar við stefnanda. Hafi síðasta yfirdráttarheimild sem stefnandi samþykkti fallið niður 20. apríl 2009 án þess að til framlengingar kæmi og hafi stefnda því borið að greiða kröfuna á þeim degi. Þar sem það hafi þó ekki gerst hefði reikningnum verið lokað í kjölfarið, eða nánar tiltekið 29. janúar 2010. Hafi uppsöfnuð skuld veltureikningsins þá numið stefnufjárhæð málsins. Stefndi hafi reglulega fengið send yfirlit frá stefnanda um stöðu reikningsins á hverjum tíma, en stefnandi viti ekki til þess að gerðar hafi verið athugasemdir við þau yfirlit. Samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefnda að greiða kröfuna. Það hafi hann ekki gert þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

 

Stefnandi tekur fram að frá og með 1. júlí 2010 hafi stefnandi tekið við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum Sparisjóðs Mýrasýslu vegna samruna félaganna.

 

IV.

Stefndi vísaði til þess í greinargerð sinni að engin gögn lægju fyrir í málinu um stofnun eða tilvist skuldarinnar og væri henni því mótmælt. Við munnlegan málflutning tók lögmaður hans hins vegar fram að úr þessu hefði verið bætt af hálfu stefnanda með framlagningu gagna þar um og því ekki lengur á því byggt. Þá tók hann jafnframt fram að með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar væri sýknukrafa stefnda ekki lengur á því byggð, með vísan til laga nr. 121/1994 um neytendalán, að ekki hefði verið gerður skriflegur lánssamningur við stefnda vegna yfirdráttarins. Enn væri hins vegar á því byggt að ekki yrði annað af gögnum ráðið en að Sparisjóður Mýrasýslu, forveri stefnanda, hefði lítt sinnt skyldum sínum sem lánveitandi í samræmi við ákvæði c-, d- og e-liða 3. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, þegar yfirdráttarlánið til stefnda hefði verið veitt.

 

Stefndi kvaðst og í greinargerð byggja kröfur sínar á því að krafa stefnanda væri alfarið fallin niður fyrir fyrningu og tómlæti af hálfu stefnanda. Við munnlegan flutning málsins tók lögmaður stefnda hins vegar fram að með hliðsjón af gögnum sem stefnandi hefði lagt fram eftir að greinargerð stefnda var skilað væri nú eingöngu á því byggt af hálfu stefnda að krafan væri fallin niður vegna tómlætis, auk þess sem leiða ætti til lækkunar að einhver ótilgreindur hluti vaxta af stefnukröfunni væri niður fallinn vegna fyrningar.

 

V.

Niðurstaða     

Í sinni endanlegu mynd sýnast varnir stefnda nú í fyrsta lagi byggjast á því að við veitingu yfirdráttarheimildarinnar til stefnda hafi stefnandi ekki gætt sem skyldi að ákvæðum laga um neytendalán nr. 121/1994. Eigi það einkum við um ákv. b-, c- og d-liða 3. gr., sbr. lög nr. 179/2000, er lúta m.a. að vaxtastigi og umsömdum gjöldum á greiðslutíma samnings. Eins og fram kemur í lokamálslið d-liðs 3. gr. var lánveitanda heimilt að upplýsa lántaka um breytingar á vöxtum og umsömdum gjöldum m.a. með reikningsyfirlitum. Í málinu liggja fyrir reikningsyfirlit frá árinu 1991 til ársloka 2016, sem bera með sér að hafa verið send stefnda. Hafa yfirlitin að geyma sundurliðaðar upplýsingar um innborganir og úttektir, þar á meðal vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar. Á öllum yfirlitunum kemur fram að athugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, en að öðrum kosti teljist reikningurinn réttur. Hefur stefndi í sjálfu sér ekki mótmælt því að honum hafi borist umrædd yfirlit heldur vísað til þess að ekkert liggi fyrir þar um. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að stefndi hafi gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu stefnanda á vöxtum og kostnaði sem til féllu á þessum tíma. Að þessu virtu verður ekki fallist á dómkröfur stefnda til sýknu eða lækkunar á þessum grundvelli.

 

Í annan stað styður stefndi dómkröfur sínar við það að skuldin hafi fallið niður vegna tómlætis stefnanda við innheimtu hennar og að hluta vegna fyrningar á vöxtum. Fyrir liggur að umræddum reikningi stefnda hjá stefnanda var lokað 29. janúar 2010 og höfðu áfallnir skuldavextir þá mánaðarlega verið lagðir við uppsafnaðan höfuðstól skuldarinnar. Töldust þeir þar með hluti höfuðstólsins, sem fyrnist á 10 árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt þessu, og þar sem dráttarvaxtakrafa stefnanda nær eingöngu til fjögurra ára tímabils áður en mál þetta var þingfest hinn 16. maí 2017, verður ekki séð að vextir hafi að neinu leyti fallið niður fyrir fyrningu.

 

Af fyrirliggjandi reikningsyfirlitum verður ráðið að eftir að umræddum reikningi stefnda hjá stefnanda var lokað hafi stefnandi um hver áramót fengið sent yfirlit yfir stöðu skuldarinnar hverju sinni. Hafði stefndi því enga forsendu til að ætla að stefnandi hefði, áður en formleg innheimta skuldarinnar hófst með útsendingu innheimtubréfs í janúar 2016, fallið frá kröfu sinni á hendur honum. Þegar af þeirri ástæðu eru heldur engin efni til að líta svo á að skuldin hafi fallið niður sökum tómlætis af hálfu stefnanda.

 

Að öllu framangreindu virtu verða dómkröfur stefnanda að fullu teknar til greina. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en við uppkvaðningu hans var gætt ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Jómundur Ólason, greiði stefnanda, Arion banka hf., 21.218.950 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  frá 16. maí 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon