• Lykilorð:
  • Skilorð
  • Tolllagabrot
  • Upptaka

 

 

 

    

 

 

 

D Ó M U R

26. febrúar 2019

 

 

 

Mál nr.            S-124/2018:

Ákærandi:        Lögreglustjórinn á Suðurlandi

                        (Elimar Hauksson fulltrúi)

 

Ákærðu:          Halldór Ingimar Finnbjörnsson

                        (Kristján Stefánsson lögmaður)

                        Vilhjálmur Magnússon

                        (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Dómari:           Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari

 

 

 

 


Árið 2019, þriðjudaginn 26. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Ragnheiði Thorlacius, héraðsdómara, kveðinn upp í máli nr. S-124/2018:

 

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurlandi)

gegn

Halldóri Ingimar Finnbjörnssyni

(Kristján Stefánsson lögmaður)

og

Vilhjálmi Magnússyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 21. júní 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 1. febrúar 2019, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 23. maí 2018, á hendur Halldóri Ingimar Finnbjörnssyni  og Vilhjálmi Magnússyni,  

 

I.        Gegn ákærðu báðum fyrir tollalagabrot

með því að hafa föstudaginn 6. nóvember 2015 með komu flutningaskipsins Dettifoss, sem ákærðu voru skipverjar á, til landsins að Mjóeyri á Reyðarfirði, smyglað hingað til lands samtals 213,5 lítrum af sterku áfengi (31-50% vínandi), 0,7 lítrum af líkjör (22-30% vínandi), 26,2 lítrum af léttvíni (undir 22% vínandi), 179 kartonum af vindlingum, 37.784 grömmum af munntóbaki og 5.750 grömmum af neftóbaki án þess að gera tollayfirvöldum grein fyrir varningnum, heldur flutt eða séð til þess að hann yrði fluttur í gámi frá borði og fjarlægt út fyrir geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur á hafnarsvæði við Mjóeyri á Reyðarfirði, þangað sem þeir síðan sóttu varninginn þriðjudaginn 10. nóvember 2015 og komu honum fyrir í bifreiðinni […] og óku á brott áleiðis til Reykjavíkur uns lögregla stöðvaði för ákærðu síðdegis þann sama dag á Suðurlandsvegi, skammt vestan við Vík í Mýrdal, en framangreindur varningur fannst við leit lögreglu í bifreiðinni umrætt sinn.

Telst brot ákærðu varða við 1. mgr. 170. gr., sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr. sbr. 2. mgr. sbr. 1. mgr. 69. gr. tollalaga nr. 88, 2005.

 

I.       Gegn ákærða Vilhjálmi fyrir tollalagabrot

með því að hafa einhvern tíma skömmu fyrir þriðjudaginn 10. nóvember 2015, sem skipverji á skipinu Dettifossi, flutt með sér til landsins 7 lítra af sterku áfengi (31-50% vínandi) og 868 grömm af munntóbaki, og ekki gert tollyfirvöldum grein fyrir varningnum með tilskyldum hætti við komuna til landsins en umræddur varningur fannst við leit lögreglu á heimili ákærða að […]

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 170. gr., sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88, 2005.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum ólöglega innflutta varningi (munaskrá lögreglu nr. 113305, 113306, 113307, 113308, 113309, 113310, 113311, 113312, 113313, 113314, 113315, 113316, 113317, 113318, 113319, 113320, 113321, 113322, 113324, 113325, 113326, 113327, 113328, 113329, 113330, 113331, 113332, 113333, 113334, 113335, 113336, 113337, 113338, 113339, 113340, 113341, 113342, 113343, 113344, 113346, 113347, 113349, 113350, 113351, 113352, 113353, 113354, 113355, 113356, 113357, 113358, 113359, 113360, 113361, 113362, 113363, 113364, 113365, 113366, 113367, 113368) samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88, 2008 [sic] og jafnframt til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Mál þetta var eins og áður greinir þingfest þann 21. júní 2018. Ákærðu mættu ekki fyrir dóm en samkvæmt þeirra ósk voru þeim skipaðir verjendur og málinu frestað til 23. ágúst sama ár. Að beiðni verjanda ákærðu var þinghaldinu frestað til 6. september sama ár og var þá lögð fram yfirlýsing ákærðu um að þeir neituðu sök í máli þessu. Var málinu frestað til 18. október sama ár til framlagningar greinargerða ákærðu. Þann dag var mætt af hálfu ákærðu og upplýst að greinargerðum yrði ekki skilað en óskað var eftir að lagðar yrðu fram ljósmyndir af haldlögðum munum í þeim umbúðum sem þeir voru í þegar haldlagning fór fram. Að þinghaldinu loknu tók dómari við meðferð máls þessa. Í þinghaldi 29. nóvember 2018 lagði ákæruvaldið fram ljósmyndir og var málinu frestað til aðalmeðferðar 1. febrúar 2019. 

            Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.

Ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara, verði hann sakfelldur, að honum verði ekki gerð refsing.

Ákærði Vilhjálmur Magnússon krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara, verði hann sakfelldur, að honum verði ekki gerð refsing. Til þrautavara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa.

Verjendur ákærðu krefjast málsvarnarlauna og að þau greiðist úr ríkissjóði.    

             

Málsatvik

            Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að miðvikudaginn 11. nóvember 2015, klukkan 13:37, hafi lögreglu borist upplýsingar um ætlað smygl sem ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson ætti aðild að. Lutu upplýsingar lögreglu að því að ákærði Halldór hafi komið á Egilsstaði að morgni umrædds dags, tekið bifreið á leigu og ekið til Reykjavíkur. Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að nafn ákærða Halldórs kom fram á samningi um leigu bifreiðarinnar […]. Samkvæmt áðurnefndum samningi, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna málsins, var um að ræða bifreið af gerðinni MMC Pajero með leigutíma frá klukkan 08:50 þann 10. nóvember 2015 til klukkan 12:00 daginn eftir. 

            Í frumskýrslu kemur fram að lögreglumaður hafi séð þegar bifreiðinni […] var ekið í gegnum Vík í Mýrdal um klukkan 16:11 áðurnefndan dag og veitt því athygli að í bifreiðinni voru tveir karlmenn og segir í skýrslunni að svo hafi virst sem mikið af dóti væri í aftursæti bifreiðarinnar og í farangursgeymslu. Lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar, sem ákærði Halldór ók umrætt sinn, um kílómeter vestan við Vík. Í framhaldinu var ákærði Halldór handtekinn grunaður um ólöglegan innflutning til lands. Ákærði Vilhjálmur Magnússon, sem sat í farþegasæti bifreiðarinnar að framan, var einnig handtekinn grunaður um sömu sakir. Aðkomu lögreglu að bifreiðinni var lýst þannig í frumskýrslu lögreglu: „Þegar litið var inn í jeppabifreiðina virðist aftursæti og farangursrými vera fullt af einhverju sem ekki var hægt að greina en um var að ræða eitthvað sem pakkað var inn í svarta ruslapoka.  Voru ákærðu fluttir á lögreglustöðina í Vík og í framhaldinu á lögreglustöðina á Selfossi þar sem ákærðu nutu aðstoðar tilnefndra verjanda í skýrslutökum hjá lögreglu. Segir í frumskýrslu að við leit í bifreiðinni […], sem fram hafi farið að viðstöddum ákærða Halldóri og verjanda, hafi fundist 22 plastpakkningar í aftursæti bifreiðarinnar og 35 plastpakkningar í farangursrými. Lagði lögregla hald á framangreindan varning. Í rannsóknargögnum kemur fram að gerð hafi verið húsleit á heimilum ákærðu og að við leit á heimili ákærða Vilhjálms hafi fundist 12 flöskur í fataskáp í svefnherbergi og 40 neftóbaksdósir í plastpoka í ísskáp.

            Í frumskýrslu lögreglu eru tvær ljósmyndir, annars vegar mynd tekin inn um opna afturhurð bifreiðarinnar […]. Á myndinni má sjá farangur í aftursæti bifreiðarinnar sem náði upp undir efri brún höfuðpúða framsæta og hafði plast verið breytt yfir. Hins vegar mynd tekin inn um opinn afturhlera bifreiðarinnar. Á myndinni má sjá farangur sem náði upp undir efri brún höfuðpúða aftursæta og hafði teppi hafði verið breytt yfir. Þá sýnir þriðja myndin í frumskýrslu pakkningar sem teknar höfðu verið úr bifreiðinni, þ.e. úr aftursæti og farangursgeymslu.

            Í framlagðri ljósmyndamöppu lögreglu eru 17 ljósmyndir sem sýna framangreindar pakkningar bæði inni í bifreiðinni og á gólfi, þ.a. er ein mynd sem sýnir umræddar pakkningar opnar.  

            Ákærðu mættu fyrir dómi við upphaf aðalmeðferðar, neituðu sök en notfærðu sér rétt sinn til að neita að gefa skýrslu um sakarefnið. Teknar voru skýrslur af vitnunum A lögreglumanni og B áhafnafulltrúa hjá Eimskip. Framburðir vitna verða ekki raktir, en vikið að þeim í niðurstöðukafla að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar málsins. 

 

Forsendur og niðurstaða

Ákæruliður I.

               Ákærðu Halldóri Ingimar Finnbjörnssyni og Vilhjálmi Magnússyni er gefið að sök tollalagabrot, þ.e. að hafa, sem skipverjar á flutningaskipinu Dettifossi, við komu skipsins til Reyðarfjarðar föstudaginn 6. nóvember 2015, smyglað til landsins talsverðu magni af áfengi og tóbaki, eins og nánar greinir í ákæru, án þess að gera tollyfirvöldum grein fyrir varningnum, heldur flutt eða séð til þess að varningurinn yrði fluttur frá borði eins og nánar er lýst í ákæru, en ákærðu voru stöðvaðir af lögreglu í bifreiðinni […] með framangreindan varning innanborðs skammt vestan við Vík í Mýrdal.

               Ákærðu mættu fyrir dóm við upphaf aðalmeðferðar málsins og neituðu sök. Ákærðu nýttu sér rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 að gefa ekki skýrslu um sakarefnið. Hins vegar lögðu ákærðu fram yfirlýsingar, dags. 31. janúar 2019, þar sem nánar er gerð grein fyrir afstöðu þeirra til sakarefnis í máli þessu. Í upphafi yfirlýsinganna er samhljóða ákvæði, þ.e. ákærðu lýstu því yfir að þeir muni ekki bæta við framburð sinn eða breyta honum. Þá lýstu báðir ákærðu yfir sakleysi sínu í máli þessu og tóku fram að þeir hafi ekki verið skipverjar á flutningaskipinu Dettifossi föstudaginn 6. nóvember 2015 og þeim þar með ómögulegt að hafa brotið af sér með þeim hætti sem tilgreint sé í ákæru.

               Við upphaf aðalmeðferðar lögðu ákærðu fram tölvupóst frá vitninu B, áhafnarfulltrúa hjá Eimskipi, og áhafnalista MS Dettifoss vegna ferða skipsins 22. október, 5. nóvember og 19. nóvember 2015. Segir í áðurnefndum tölvupósti að ákærðu hafi ekki verið skráðir á áhafnarlista í ferð skipsins dagana 5.-18. nóvember 2015. Framangreint staðfesti vitnið B í skýrslu sinni fyrir dómi og greindi frá því að ákærðu hafi ekki verið á launaskrá á umræddum tíma.  

               Um sakfellingu ákærðu byggir ákæruvaldið á framburði ákærðu hjá lögreglu þegar þeir voru yfirheyrðir að viðstöddum tilnefndum verjendum um atvik sem lýst er í fyrri tölulið ákæru, ákærði Halldór skömmu fyrir miðnætti þriðjudaginn 10. nóvember 2015 og ákærði Vilhjálmur skömmu eftir miðnætti miðvikudaginn 11. sama mánaðar. Í málinu liggja frammi ítarlegar samantektir af skýrslutökunum og einnig hefur dómari kynnt sér hljóðupptökur af þeim.  

               Vitnið A lögreglumaður ritaði frumskýrslu málsins og staðfesti efni hennar fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa fengið upplýsingar um að bílaleigubifreið með skráningarnúmerið […] væri á leið frá Austfjörðum og að í bifreiðinni væri mikið magn af varningi sem hafi verið smyglað til landsins. Tveimur eða þremur klukkustundum síðar hafi vitnið orðið vart við ferðir umræddrar bifreiðar og stöðvað för hennar. Í framhaldinu hafi hann handtekið bæði ökumann bifreiðarinnar og farþega. Kvaðst vitnið hafa farið í þá aðgerð þar sem að hann hafi haft traustar upplýsingar og rökstuddan grun um að eitthvað ólöglegt væri í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt þegar varningurinn var tekinn úr bifreiðinni og pakkningar opnaðar á Selfossi. Vitninu var minnistætt að allt hafi verið pakkað í svarta plastpoka sem hafi verið merktir með gælunöfnum eða þess háttar.

                Í áðurnefndum yfirlýsingum ákærðu segir ennfremur að þeir hafi verið saman á ferð þegar lögregla hafi stöðvað för þeirra. Þá segir: „Í bifreiðinni var ótilgreindur fjöldi pakka sem voru auðkenndir. Mér er ókunnugt um innihald þeirra og get því hvorki staðfest það magn sem í ákæru greinir né hvað um var að ræða.“ Ákærðu lýstu því báðir í skýrslutökum hjá lögreglu hvernig þeir hafi aflað hins haldlagða varnings. Ákærði Halldór kvað þá hafa sankað að sér umræddum varningi á lengri tíma. Um hafi verið að ræða áfengi, að megninu til vodka, eitthvað af gini, romm, rauðvín og eitthvað af líkjör og „svoleiðis“. Þetta hafi verið keypt í erlendum höfnum auk þess sem þeir hafi keypt í skipinu. Ákærði Vilhjálmur kvað varninginn vera samansafn og svaraði því neitandi að varningurinn væri úr einum túr. Um hafi verið að ræða margar tegundir, vodka, viskí og margar tegundir af tóbaki, Winston, Capri og President snus. Hafi varningurinn verið keyptur í Rotterdam og Svíþjóð og að hluta til í skipinu líka.  Ákærði Halldór kvað þá félaga hafa séð um að koma varningnum frá borði og hafi hann verið geymdur fyrir utan girðingu við höfnina á Mjóeyri og kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir að umræddur geymslustaður hafi verið fyrir utan tollgirðingu. Ákærði Vilhjálmur kvað varninginn hafa verið geymdan á hafnarsvæðinu fyrir utan tollsvæði. Hann hafi ekki tekið þátt í að flytja varninginn frá borði en verið með meðákærða Halldóri í að pakka varningnum um borð í skipinu. Báðir ákærðu viðurkenndu að tollyfirvöldum hafi ekki verið gerð grein fyrir varningi þeim sem þeir sóttu til Reyðarfjarðar að morgni þriðjudagsins 10. nóvember 2015 og komu síðan fyrir í bifreiðinni […].

               Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir sannað að ákærðu Halldór og Vilhjálmur hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í fyrri tölulið ákæru. Ekki er fallist á það með verjendum að sýkna beri ákærðu þar sem ekki liggi fyrir hvaða hluta þess varnings sem tilgreindur er í ákæru ákærðu hafi verið heimilt að koma með til landsins tollfrjálst. Vísast í því sambandi til 1. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005 en þar er farmönnum gert skylt við komu til landsins frá útlöndum að gera ótilkvaddir grein fyrir tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis. Þá segir í 4. mgr. 27. gr. sömu laga  að sérhver farmaður skal ótilkvaddur gera tollgæslu skriflega grein fyrir öllum varningi sem hann hefur fengið erlendis eða í ferðinni, hvort sem varningurinn er tollskyldur eður ei. Eins og rakið hér að framan lýstu ákærðu því við yfirheyrslur hjá lögreglu hvernig þeir hafi með leynd komið öllum hinum haldlagða varningi á land í Reyðarfirði á svæði sem óheimilt var að geyma ótollafgreiddar vörur á, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2005, og án þess að gera tollayfirvöldum grein fyrir varningnum. Bendir það ekki til þess að meðal þess sem lögregla lagði hald á hafi verið áfengi og tóbak sem þeim hafi verið heimilt að flytja til landsins tollfrjálst. Samkvæmt því og öllu framansögðu hafa ákærðu með umræddri háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 170. gr., sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr., sbr. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 69. gr. tollalaga nr. 88/2005.

               Verjendur ákærðu vísuðu í málflutningi sínum til þess að ákæra í málinu uppfyllti ekki skilyrði 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einnig höfnuðu þeir því að þannig háttaði til í máli þessu að heimilt væri að líta til 1. mgr. 180. gr. sömu laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 verið skýrð á þann veg að lýsing á þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða refsiákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Þannig mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Þó svo fallist sé á það með ákærðu að lýsing í ákæru um öflun hins haldlagða varnings í skipinu hafi ekki verið í samræmi við framburð ákærðu hjá lögreglu er það mat dómsins að um slíkt misræmi sé ekki að ræða milli verknaðarlýsingar og heimfærslu brotsins í ákæru að ákæran uppfylli ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þá er til þess að líta að ákærðu gafst kostur á að verjast á þessum grundvelli og var þessi þáttur málsins sérstaklega reifaður af hálfu verjenda í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. 

               Varðandi framangreindar athugasemdir verjanda er óumdeilt í máli þessu að ákærðu voru ekki í áhöfn flutningaskipsins Dettifoss föstudaginn 6. nóvember 2015 eins og í ákæru greinir. Vísast í því sambandi til þess sem að framan er rakið um áhafnarlista Dettifoss í ferð skipsins dagana 5.-18. nóvember 2015 og framburðar vitnisins B. Ákærðu voru hins vegar í áhöfn skipsins 22. október 2015 samkvæmt áhafnarlista sem ákærðu lögðu fram og þann 3. nóvember sama ár samkvæmt áhafnarlista sem fylgdi rannsóknargögnum málsins. Þá staðfesti vitnið B að ákærðu hefðu komið í land þann 4. nóvember 2015 og verið á launaskrá dagana 1.- 4. nóvember sama ár. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 180. gr.  laga nr. 88/2008, þykir mega sakfella ákærðu samkvæmt fyrri tölulið ákæruskjals þó svo dagsetning komu Dettifoss til Reyðarfjarðar sé ranglega greind í ákæru enda var vörn ekki áfátt hvað þetta atriði varðaði. 

 

Ákæruliður II.

               Ákærða Vilhjálmi Magnússyni er gefið að sök tollalagabrot með því að hafa, einhvern tíma skömmu fyrir þriðjudaginn 10. nóvember 2015, sem skipverji á flutningaskipinu Dettifossi, flutt til landsins sjö lítra af sterku áfengi og 868 grömm af munntóbaki, án þess að gera tollayfirvöldum grein fyrir varningnum með tilskildum hætti, en varningurinn fannst við leit lögreglu á heimili ákærða. Ákærði neitar sök. 

               Um sakfellingu ákærða byggir ákæruvaldið á framburði ákærða hjá lögreglu þegar hann var yfirheyrður að viðstöddum tilnefndum verjenda um atvik sem tilgreind eru í öðrum tölulið ákæru, en eins og áður greinir var ákærði yfirheyrður skömmu eftir miðnætti miðvikudaginn 11. nóvember 2015. Í málinu liggur frammi ítarleg samantekt af skýrslutöku af ákærða Vilhjálmi og eins og áður greinir hefur dómari kynnt sér hljóðupptöku af henni.

               Í rannsóknargögnum málsins kemur fram að gerð hafi verið húsleit á heimili ákærða Vilhjálms síðla kvölds þann 10. nóvember 2015 og lagt hald á áfengi og tóbak eins og nánar greinir í ákæru. Fyrir liggur að ákærði var ekki viðstaddur framangreinda leit en gaf skriflegt leyfi fyrir henni. Í áðurnefndri yfirlýsingu ákærða, dags. 31. janúar 2019, sem hann staðfesti fyrir dómi að hafa undirritað, kemur fram að hann kannist við að eiga þau 868 grömm af munntóbaki sem tilgreind eru í síðari tölulið ákæru. Hins vegar vísar ákærði til þess að umrætt áfengi hafi aldrei verið borið undir hann og hann ráði af lestri munaskýrslu að umrætt áfengi hafi verið gjafaflöskur frá vinum eins og það er orðað í yfirlýsingunni. Í vettvangsskýrslu um leit á heimili ákærða kemur fram að áður en leit hófst hafi eiginkona ákærða framvísað öllum þeim varningi sem var í húsinu, þ.e. ekkert saknæmt fannst aukalega í leit lögreglu, eins og segir í skýrslunni. Í yfirheyrslu hjá lögreglu var ákærði inntur eftir því áfengi sem haldlagt var á heimili hans umrætt sinn. Kvaðst  hann hafa komið heim með eitthvað af áfengi frá borði sem hafi verið tollafgreitt og að hann reikni með að þeir [þ.e. lögregla, innskot dómara] hafi ekki tekið það. Hins vegar hafi eitthvað áfengi á heimili hans ekki verið tollafgreitt. Kvað hann konu sína hafa vitað um það en tók fram að hún ætti engan þátt átt í því. Hvorki í rannsóknargögnum né í yfirheyrslu yfir ákærða Vilhjálmi kemur fram að það áfengi sem haldlagt var á heimili hans hafi verið borið sérstaklega undir hann en slíkt hefði verið eðlilegt miðað við framangreindan framburð hans um að einhver hluti áfengis á heimili hans hafi verið tollafgreitt eins og lög kveða á um.  

               Með vísan til þess sem að framan er rakið, og eins og málatilbúnaði ákæruvaldsins er háttað, þykir gegn neitun ákærða og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ósannað að ákærði hafi gerst sekur um að hafa ekki með tilskyldum hætti gert tollayfirvöldum grein fyrir sjö lítrum af sterku áfengi (31-50% vínandi) við komu til landsins eins og honum er gefið að sök í öðrum tölulið ákæru. Verður ákærði því sýknaður að þeim hluta annars töluliðs ákæruskjals. Hins vegar þykir, með vísan til margnefndrar yfirlýsingar ákærða og rannsóknargagna málsins, sannað að ákærði hafi við komu til landsins ekki gert tollyfirvöldum með tilskyldum hætti grein fyrir 868 grömmum af munntóbaki eins og nánar greinir í öðrum tölulið ákæru. Samkvæmt öllu framansögðu hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 170. gr., sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005

 

Ákvörðun refsingar

               Ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson hefur verið fundinn sekur um brot gegn tollalögum. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dags. 25. maí 2018, og yfirlýsingu fulltrúa ákæruvaldsins fyrir dómi hefur ákærði ekki sætt refsingum. Með tilliti til umfangs brotsins þykir hæfileg refsing ákærða vera 30 daga fangelsi. Með tilliti til þess hversu mál þetta hefur dregist í meðförum lögreglu, án þess að ákærða verði þar um kennt, þykir mega ákveða að fullnustu refsingar skuli frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

               Ákærði Vilhjálmur Magnússon hefur verið fundinn sekur um brot gegn tollalögum. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dags. 25. maí 2018, og yfirlýsingu fulltrúa ákæruvaldsins fyrir dómi hefur ákærði ekki sætt refsingum. Með tilliti til umfangs brotsins þykir hæfileg refsing ákærða vera 30 daga fangelsi. Með tilliti til þess hversu mál þetta hefur dregist í meðförum lögreglu, án þess að ákærða verði þar um kennt, þykir mega ákveða að fullnustu refsingar skuli frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Upptökukröfur

               Með vísan til niðurstöðu fyrri töluliðar ákæru og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 ber að fallast á kröfu ákæruvaldsins um upptöku á hinum haldlagða varningi, nánar tiltekið samkvæmt munaskrá lögreglu nr.  113305, 113306, 113307, 113308, 113309, 113310, 113311, 113312, 113313, 113314, 113316, 113317, 113318, 113320, 113321, 113322, 113324, 113325, 113326, 113327, 113328, 113329, 113330, 113331, 113332, 113333, 113334, 113335, 113336, 113337, 113338, 113339, 113340, 113341, 113342, 113343, 113344, 113346, 113347, 113349, 113350, 113351, 113352, 113353, 113354, 113355, 113356, 113357, 113358, 113359, 113360, 113361, 113362, 113363, 113364, 113365, 113366, 113367 og 113368 vegna ákæruliðar I. og vegna ákæruliðar II, munaskrá lögreglu nr. 113319.

               Með vísan til niðurstöðu síðari töluliðar ákæru er hafnað upptökukröfu ákæruvaldsins á sjö lítrum af sterku áfengi (31-50% vínandi), munaskrá lögreglu nr. 113315.

 

Sakarkostnaður

                    Með vísan til niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr.  235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skal ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson greiða sakarkostnað er hlaust af þætti hans í máli þessu, þ.e. þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins 122.760 krónur og málsvarnarlaun verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 674.560 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum og ferðakostnað lögmannsins að fjárhæð 37.620 krónur. 

               Með vísan til niðurstöðu málsins og sömu lagagreinar og þess að ákærði Vilhjálmur Magnússon hefur í máli þessu aðeins verið sýknaður að óverulegum hluta þeirra saka sem á hann eru bornar í máli þessu, verður honum gert að greiða sakarkostnað sem hlaust af þætti hans í máli þessu, þ.e. þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins 105.400 krónur og málsvarnarlaun verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 674.560 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

               Elimar Hauksson fulltrúi lögreglustjórans á Suðurlandi flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

  Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

               Ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

               Ákærði Vilhjálmur Magnússon sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Halldór Ingimar Finnbjörnsson greiði samtals 834.940 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar lögmanns 674.560 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 37.620 krónur í ferðakostnað.

Ákærði Vilhjálmur Magnússon greiði samtals 779.960 krónur  í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns 674.560 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

               Gerðir eru upptækir samtals 213,5 lítrar af sterku áfengi (31-50% vínandi), 0,7 lítrar af líkjör (22-30% vínandi), 26,2 lítrar af léttvíni (undir 22% vínandi), 179 karton af vindlingum, 37.784 grömm af munntóbaki, 5.750 grömm af neftóbaki og 868 grömm af munntóbaki sem lagt var hald á við rannsókn málsins, sbr. munaskrá lögreglu nr. 113305, 113306, 113307, 113308, 113309, 113310, 113311, 113312, 113313, 113314, 113316, 113317, 113318, 113319, 113320, 113321, 113322, 113324, 113325, 113326, 113327, 113328, 113329, 113330, 113331, 113332, 113333, 113334, 113335, 113336, 113337, 113338, 113339, 113340, 113341, 113342, 113343, 113344, 113346, 113347, 113349, 113350, 113351, 113352, 113353, 113354, 113355, 113356, 113357, 113358, 113359, 113360, 113361, 113362, 113363, 113364, 113365, 113366, 113367 og 113368.

               Hafnað er kröfu um upptöku á sjö lítrum af sterku áfengi (vínandi 31-50%), sem haldlagt var á heimili ákærða Vilhjálms Magnússonar, sbr. munaskrá lögreglu nr. 113315.

 

Ragnheiður Thorlacius