• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2018 í máli nr. S-660/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kristni Viðari Oddssyni

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. nóvember 2018, á hendur Kristni Viðari Oddssyni, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot, með því að hafa:

 

1.      Sunnudaginn 4. febrúar 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Ögurhvarf.

 

2.      Föstudaginn 15. júní 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Gullinbrú í Reykjavík, við Fjallkonuveg.

 

3.      Miðvikudaginn 4. júlí 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Klukkurima í Reykjavík, við Langarima, og að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn án þess að nota öryggisbelti.

 

Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr. og brot í lið 3 auk þess við 1. mgr. 71. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hans, dagsettu 1. nóvember 2018, hefur ákærði nú í fjórða skipti gerst sekur um að aka sviptur ökurétti. Nú síðast gerðist hann sekur um slíkt brot með dómi Héraðsdóms Reykjaness, dagsettum 12. janúar 2018. Þar áður hafði hann gerst sekur um sams konar brot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 22. júní 2016, og var þá ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð frá og með uppkvaðningu dómsins.

            Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni málsins, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Kristinn Viðar Oddsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

 

Þórhildur Líndal