• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Kaupsamningur
  • Riftun
  • Vanefndir

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2019 í máli nr. E-588/2018:

Alithia Maria Jonsson

(Ólafur V. Thordersen lögmaður)

gegn

Edmunds Induss

Patreki Andra Haukssyni

Samúel Jóa Björgvinssyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem var dómtekið 11. desember 2018, var höfðað 15. febrúar 2018 af Alithiu Mariu Jonsson […], gegn Edmunds Induss […], Patreki Andra Haukssyni […] og Samúel Jóa Björgvinssyni […].

       Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til að greiða henni 24.156.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2017 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað.

       Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Að því frágengnu er þess krafist „að krafa stefnanda verði lækkuð og þá er vaxta og dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt“, svo sem það er orðað í kröfugerð í stefnu.

       Stefndu kröfðust upphaflega frávísunar málsins en féllu frá þeirri kröfu við fyrirtöku 6. júní 2018.

I

       Mál þetta á rætur að rekja til þess að með kaupsamningi 11. ágúst 2017 keyptu stefndu 81% hlutafjár í félaginu DDD ehf. af stefnanda. Stuttu áður höfðu stefndu lýst yfir áhuga á kaupunum og höfðu fengið söluvagn félagsins lánaðan um verslunarmannahelgina 2017 í því skyni að selja kleinuhringi á Flúðum. Umsamið kaupverð var 26.000.000 króna og skyldu annars vegar greiddar 2.000.000 króna við afhendingu hins selda hlutafjár og hins vegar gefið út skuldabréf sem næmi 24.000.000 króna, sbr. 2. grein samningsins. Skuldabréfið skyldi dagsett 11. ágúst 2017 og skyldu gjalddagar vera tólf, fyrsta hvers mánaðar. Fyrsti gjalddagi skyldi vera 1. september 2017 og var gert ráð fyrir því að skuldabréfið bæri 12,15% vexti. Stefndu greiddu 2.000.000 króna við undirritun kaupsamnings 1. ágúst 2017, en hafa ekki gefið út fyrrgreint skuldabréf eða innt frekari greiðslur af hendi.

       Hinu selda var lýst í 3. grein samningsins og kemur þar fram að hinn seldi hlutur sé í félaginu DDD ehf. sem reki smásölu á kökukleinuhringjum undir merkjum Don‘s Donuts í verslun sinni að Dalvegi 24, sem og í söluvögnum sínum. Tekið var fram að með kaupum á hlutnum fylgi „samsvarandi eignarhlutdeild í tækjum, búnaði og öðrum lausafjármunum félagsins“. Jafnframt fylgi „samsvarandi réttur með í kaupum til vörumerkis, viðskiptavildar, skilta, merkinga og markaðsefnis“, sem og „samsvarandi hlutdeild í vörulager félagsins“. Fram kom í 4. grein að félagið væri keypt „í núverandi ástandi og fjárhag sem kaupendur hafa kynnt sér og gera ekki athugasemdir við“. Fjallað var um afhendingu hins selda í 5. grein sem skyldi fara fram 11. ágúst 2017 og var tekið fram að frá þeim tíma léti seljandi af störfum hjá félaginu. Vikið var að skyldum, kvöðum og ábyrgðum seljanda í 6. grein og sagði þar meðal annars að seljandi ábyrgðist skuldir sem kynnu að hvíla á félaginu umfram 500.000 krónur gagnvart kaupanda, sem og að seljandi skyldi við afhendingu hafa greitt leigu fyrir „leigutímabilið júlí 2018“. Fjallað var um skyldur, kvaðir og ábyrgðir kaupanda í 7. grein, svo sem um skyldu þeirra til að leysa seljanda undan kvöð gagnvart leigusala. Þá var í 8. grein mælt fyrir um heimild seljanda til að hafa afskipti af rekstrinum og taka hann yfir vegna vanefnda kaupenda. Samningurinn var undirritaður af stefnanda sem seljanda og stefndu sem kaupendum. Vottar voru Jónas Ingi Ragnarsson, sem hafði umsjón með bókhaldi félagsins, og Grétar Sigurðsson, sambýlismaður stefnanda.

       Fyrir liggur að nokkru eftir kaupin kom upp ágreiningur milli aðila og funduðu þeir í byrjun nóvember 2017. Með bréfi 8. nóvember 2017 lýstu stefndu því yfir að þeir riftu kaupsamningnum. Því til stuðnings var meðal annars vísað til þess að engin gögn eða bókhald hefðu verið lögð fram vegna DDD ehf. þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, að undanskildum gömlum gögnum frá Don‘s Donuts sem nú væri gjaldþrota. Væri því til að mynda ekki unnt að sannreyna að fyrirtækið ætti í reynd þau tæki og tól sem nota ætti til rekstursins. Þá lægi ekki fyrir húsaleigusamningur vegna húsnæðis fyrirtækisins og hvíldu ýmsar áætlanir á fyrirtækinu þar sem skýrslum hefði ekki verið skilað til opinberra aðila. Þá virtist engin heimild liggja fyrir til notkunar á vörumerkinu Don‘s Donuts og hefðu stöðuleyfi ekki reynst vera fyrir hendi vegna veitingavagna fyrirtækisins. Jafnframt hefði húsaleiga ekki verið greidd í samræmi við kaupsamning aðila. Þá væru bifreiðar fyrirtækisins ekki í aksturshæfu ástandi og væri önnur þeirra án númera og ekki skráð á fyrirtækið. Hefðu annmarkar komið í ljós fljótlega eftir afhendingu hins selda, en úrbætur ekki staðið til boða þar sem seljandi hefði farið úr landi. Þar sem stefnandi hefði vanrækt skyldu sína til að afhenda nauðsynleg gögn þrátt fyrir ítrekuð tilmæli ættu stefndu ekki annarra kosta völ en að rifta kaupunum, sbr. 22. og 25. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Væri hið selda haldið stórfelldum göllum, sbr. IV. kafla laganna og riftun heimil samkvæmt 30. gr. þeirra.

       Með bréfi stefnanda 22. nóvember 2018 var því mótmælt að uppfyllt væru skilyrði til riftunar kaupanna. Vísað var til þess að 81% af hlutafé í DDD ehf. hefði verið afhent stefndu í samræmi við kaupsamning aðila og hefði jafnframt fylgt samsvarandi eignarhlutdeild í tækjum, búnaði og annað sem gerð væri grein fyrir í 3. grein samningsins. Væri bókhald félagsins aðgengilegt hjá bókara þess sem hefði jafnframt annast bókhald fyrir stefndu í kjölfar eigendaskipta. Jafnframt hefði listi yfir tæki og tól verið afhentur stefndu við afhendingu hins selda hlutafjár. Þá lægi fyrir munnlegur húsaleigusamningur vegna húsnæðis fyrirtækisins og hefði það verið rætt við kaupsamningsgerð. Hefðu stefndu ekki óskað eftir því að gerður yrði skriflegur leigusamningur. Félagið hefði verið skuldlaust á kaupsamningsdegi og væri rangt að skýrslum hefði ekki verið skilað til opinberra aðila. Þá komi fram í 4. málsgrein 6. greinar samningsins að stefnandi ábyrgist að engar skuldir umfram 500.000 krónur hvíli á félaginu, en stefndu hafi ekki sett fram kröfur á þessum grunni. Þá hafi stefndu haft afnot af vörumerkinu Don‘s Donuts sem sé ekki skráð vörumerki og notkun þess ekki háð skráningu. Því var alfarið hafnað að stöðuleyfi hefðu ekki verið fyrir hendi vegna veitingavagna fyrirtækisins, en eftir því sem stefnandi best viti hafi leyfin verið tekin til endurskoðunar vegna gruns um ólögmæta starfsemi stefndu í vögnunum. Hvað varðar húsaleigu hafi stefnandi greitt leigu vegna júlí 2017 og væri tilvísun til „leigu fyrir leigutímabilið júlí 2018“ í 6. grein samningsins augljós prentvilla. Önnur bifreiða félagsins hafi ekki verið skráð á félagið á afhendingardegi en bætt hafi verið úr því og stefndu einnig fengið lykla að vögnum og bifreiðum félagsins. Stefndu hafi haft umráð félagsins frá 11. ágúst 2017, en ekki gert athugasemdir fyrr en með fyrrgreindu bréfi 8. nóvember sama ár. Þar sem vanefndum væri ekki til að dreifa af hálfu stefnanda var skorað á stefndu að inna af hendi greiðslur samkvæmt kaupsamningnum. Þessu bréfi var ekki svarað og krafa stefnanda var áréttuð með bréfi 30. nóvember 2017, en því var ekki heldur svarað. 

       Fyrir liggur að félagið Don‘s Donuts ehf., sem hafði undir höndum sams konar rekstur og DDD ehf. og var meðal annars rekið af stefnanda, var tekið til gjaldþrotaskipta og er skiptum lokið. Skiptastjóri fyrstnefnds félags kom fyrir dóm að beiðni lögmanns stefndu og tók meðal annars fram að til greina kæmi að taka skiptin upp á ný þar sem hann hefði fengið bókhald félagsins afhent kvöldið áður.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

       Stefnandi byggir á því að stefndu beri að inna af hendi greiðslu í samræmi við ákvæði fyrirliggjandi kaupsamnings sem sé skuldbindandi samkvæmt meginreglum samninga- og kauparéttar. Stefndu hafi ekki gefið út það skuldabréf sem sé vísað til í 2. málsgrein 2. greinar samningsins og hafi þeir því vanefnt skuldbindingar sínar. Því er mótmælt að vanefndum hafi verið til að dreifa af hálfu stefnanda sem geti heimilað riftun kaupanna.

       Dómkrafan er skýrð með þeim hætti að krafist sé greiðslu á þeirri fjárhæð sem skuldabréfið hafi átt að nema og áfallinna samningsvaxta vegna tímabilsins 11. ágúst til 1. september 2017 sem nemi 156.164 krónum, þ.e. 24.000.000 x 12,15% / 365 x 19. Nemi krafan því samtals 24.156.164 krónum. Þá sé krafist dráttarvaxta frá fyrsta ógreidda gjalddaga skuldabréfsins, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 og er einkum vísað til 1. mgr. 6. gr. og 5. gr. laganna. Vísað er til þess að stefnandi hafi ítrekað krafið stefndu um greiðslu kröfunnar, þar með talið með innheimtubréfi 30. nóvember 2017 en það hafi ekki borið árangur. Um lagarök er meðal annars vísað til reglna samninga- og kauparéttar um skuldbindingargildi samninga og meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.           

 

Málsástæður og lagarök stefndu

       Stefndu vísa til þess að stefnandi þurfi að leggja nægilega skýran grunn að málatilbúnaði sínum svo unnt sé að leysa úr kröfu hans, en það hafi hann ekki gert. Byggt er á því að kaupsamningur aðila sé ekki í gildi þar sem stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningnum. Vegna þessa hafi stefndu ekki gefið út skuldabréf í samræmi við kaupsamninginn og sé engin skuld til staðar. Þar sem stefnandi hafi ekki efnt kaupsamninginn að fullu geti hann ekki átt fjárkröfu á hendur stefndu.

       Hafi engin gögn eða bókhald verið lagt fram vegna félagsins DDD ehf. þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Hafi aðeins verið lögð fram gögn sem varði Don‘s Donuts ehf. sem sé gjaldþrota. Þar sem bókhald félagsins liggi ekki fyrir geti stefndu ekki staðreynt að stefnandi eigi fyrirtækið og gildi hið sama um þau tæki og tól sem hafi átt að fylgja hinu selda. Þá hafi engum skýrslum verið skilað til opinberra aðila og hafi ýmsar áætlanir hvílt á félaginu við meinta afhendingu. Hafi ekki legið fyrir húsaleigusamningur vegna húsnæðis félagsins og húsaleiga ekki verið greidd til júlí 2018 eins og lofað hafi verið í kaupsamningi. Þá hafi engin stöðuleyfi reynst vera fyrir hendi vegna veitingavagna félagsins. Jafnframt hafi bifreiðar félagsins ekki verið í aksturshæfu ástandi, en önnur þeirra hafi jafnframt verið án númera og ekki verið skráð á hið selda félag. Þá hafi lyklar að bifreiðunum ekki verið afhentir fyrr en rúmum tveimur mánuðum eftir meinta afhendingu hins selda. Jafnframt virðist ekki vera til staðar heimild til notkunar á vörumerkinu Don‘s Donuts, en einkahlutafélagið Don‘s Donuts ehf., sem hafi verið rekstrarfélag hins umdeilda reksturs, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Varakrafa um sýknu að svo stöddu er byggð á því að leysa þurfi úr kröfu stefndu um riftun kaupanna áður en dómur verði felldur á kröfu stefnanda. Þrautavarakrafa um lækkun dómkröfu stefnanda er sögð byggð á öllum sömu málsástæðum. Um lagarök er meðal annars vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar, sem og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

III

Niðurstaða

       Í máli þessu er deilt um hvort stefnandi hafi vanefnt kaupsamning aðila frá 11. ágúst 2017 með það verulegum hætti að það veiti stefndu rétt til riftunar. Það liggur fyrir að stefndu fengu afhent 81% hlutafjár í félaginu DDD ehf. í samræmi við kaupsamning og höfðu umsjón með starfsemi félagsins frá þeim tíma. Þeir greiddu 2.000.000 króna við gerð kaupsamnings, en hafa ekki gefið út skuldabréf að fjárhæð 24.000.000 króna líkt og þeim bar að gera samkvæmt 2. grein samningsins.

       Í samræmi við meginreglur kröfuréttar bera stefndu sönnunarbyrðina fyrir því að uppfyllt sé það meginskilyrði riftunar að um verulega vanefnd stefnanda sé að ræða. Stefndu telja vanefndir stefnanda fyrst og fremst felast í því að bókhald félagsins DDD ehf. hafi ekki verið lagt fram. Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að Jónas Ingi Ragnarsson, sem færði bókhald félagsins, hafi verið með bókhaldsgögn og að stefndu hafi getað nálgast þau hjá honum. Stefndu var meðal annars bent á þetta í fyrrgreindu bréfi stefnanda frá 22. nóvember 2017 þar sem riftun kaupanna var mótmælt. Fram kom í skýrslu Jónasar Inga fyrir dómi að bókhald félagsins hefði verið í möppum á starfsstöð félagsins að Dalvegi 24. Það hefði staðið til að hann héldi áfram að færa bókhald félagsins og hefði hann rætt við stefndu eftir kaupsamning aðila, en ekki hefði orðið af því að hann hæfi vinnu fyrir þá. Hann minntist þess að afi eins stefndu hefði viljað sjá eldri bókhaldsgögn vegna Don‘s Donuts og hefði hann farið með þau til hans. Það liggur ekkert fyrir um að stefndu hafi óskað eftir bókhaldsgögnum frá Jónasi Inga, eins og þeim var bent á að gera, eða að þeim hafi með einhverjum hætti verið meinaður aðgangur að slíkum gögnum. Að teknu tilliti til þessa, sem og þess að tekið var fram í 4. grein kaupsamningsins að félagið væri keypt í núverandi ástandi og fjárhag sem kaupendur hefðu kynnt sér og gerðu ekki athugasemdir við, verður ekki fallist á að stefnandi hafi vanefnt kaupsamning aðila með því að afhenda stefndu ekki bókhaldsgögn. Þá hafa stefndu ekki bent á tiltekin tæki og tól, sem áttu að fylgja kaupunum en gerðu það ekki, og getur sú röksemd, að ekki hafi verið unnt að staðreyna að tiltekin tæki væru eign stefnanda, ekki stutt rétt þeirra til riftunar.

       Röksemd stefndu, um að ýmsar áætlanir hafi hvílt á fyrirtækinu þar sem skýrslum hafi ekki verið skilað til opinberra aðila, er ekki studd neinum gögnum. Þá kom fram í 4. málsgrein 6. greinar samningsins að seljandi ábyrgist að skuldir sem kunni að hvíla á félaginu nemi ekki hærri fjárhæð en 500.000 krónum en komi annað í ljós beri seljandi ábyrgð á þeim og hafi kaupendur heimild til skuldajafnaðar. Ekki verður séð að stefndu hafi beint kröfu að stefnanda á þessum grunni eða með öðrum hætti látið reyna á þetta ákvæði. Sú röksemd stefndu að ekki hafi legið fyrir húsaleigusamningur vegna húsnæðis félagsins að Dalvegi 24 er jafnframt haldlaus. Það kom meðal annars fram í skýrslu stefnda Edmunds fyrir dómi að stefndu hefðu greitt leigu vegna húsnæðisins. Þá kom fram í fyrrgreindu bréfi stefnanda frá 22. nóvember 2017 að munnlegur samningur væri í gildi við nafngreindan leigusala og ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að gera skriflegan samning. Það verður ekki séð að stefndu hafi leitast við að gera slíkan samning eða lent í vandkvæðum vegna skorts á heimild til að nýta húsnæðið. Þá verður að fallast á með stefnanda að misritun hafi verið að finna í 4. málsgrein 6. greinar samningsins þar sem sagði að seljandi skuli „við afhendingu hafa greitt leigu fyrir leigutímabilið júlí 2018“ og að þar hafi með réttu átt að vísa til júlí 2017. Kaupsamningur var gerður 11. ágúst 2017 og verður að telja fjarstæðukennt að seljandi hlutafjár í félagi, sem hyggst hætta öllum afskiptum af rekstri þess, taki að sér að greiða húsaleigu tæpt ár fram í tímann. Þá kom fram í skýrslu stefnda Edmunds fyrir dómi að stefndu hefðu ekki gert kröfu um að stefnandi gengist undir skuldbindingu af þessu tagi og verður ekki séð að þetta atriði hafi verið rætt við kaupsamningsgerð. Skortur á að inna greiðslu vegna húsaleigu af hendi í samræmi við texta kaupsamningsins getur í ljósi þessa ekki talist vanefnd af hálfu stefnanda. Að sama skapi liggur ekkert fyrir um að stöðuleyfi hafi ekki verið fyrir hendi vegna veitingavagna félagsins, en stefndu bera sönnunarbyrði fyrir því líkt og öðrum röksemdum sínum. Þá liggur ekkert fyrir um að stefndu hafi verið meinað að nota vörumerkið Don‘s Donuts, sem er ekki skráð samkvæmt II. kafla laga nr. 45/1997 um vörumerki, þannig að það brjóti í bága við 3. grein samningsins. Jafnframt geta röksemdir um að bifreiðar félagsins hafi ekki verið í aksturshæfu ástandi og að önnur þeirra hafi ekki verið skráð á félagið ekki stutt rétt stefndu til riftunar. Stefnandi kveðst hafa lagfært skráningu umræddrar bifreiðar og engin gögn liggja fyrir sem gefa til kynna að ástand bifreiðanna hafi verið í ósamræmi við samkomulag aðila.

       Samkvæmt framangreindu hafa stefndu ekki sýnt fram á að stefnandi hafi vanefnt kaupsamning aðila með verulegum hætti þannig að réttur til riftunar sé til staðar. Verður því ekki fallist á sýknukröfu stefndu, en hún er eingöngu byggð á þessum grunni. Þá er ekki tilefni til að fallast á varakröfu stefndu um sýknu að svo stöddu, enda ekki um það að ræða að sá tími sé ókominn sem krefja megi stefndu um efndir þeirrar fjárkröfu sem um ræðir, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu hafa ekki teflt fram tölulegum mótmælum við fjárkröfu stefnanda sem byggist á kaupsamningi aðila, en kröfðust til þrautavara lækkunar á kröfunni og sagði í kröfugerð að kröfu um vexti og dráttarvexti væri mótmælt. Í greinargerð voru ekki færð efnisleg rök fyrir kröfunni og var ekki skýrt á hvaða grunni kröfu stefnanda um vexti og dráttarvexti væri mótmælt eða að hverju mótmælin lytu. Lögmaður stefndu var inntur eftir nánari skýringum á þessu við munnlegan málflutning, en hann tefldi ekki fram efnislegum röksemdum eða skýrði kröfuna nánar. Að teknu tilliti til þessa er óhjákvæmilegt að fallast á kröfu stefnanda eins og hún er sett fram, þar með talið hvað varðar upphafstíma dráttarvaxta. Samkvæmt þessu verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnanda 24.156.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2017 til greiðsludags.

       Að teknu tilliti til þessara úrslita verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

       Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndu, Edmunds Induss, Patrekur Andri Hauksson og Samúel Jói Björgvinsson, greiði sameiginlega stefnanda, Alithiu Mariu Jonsson, 24.156.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2017 til greiðsludags.

       Stefndu greiði sameiginlega stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir