• Lykilorð:
  • Nauðgun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2019 í máli nr. S-231/2018:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

                                                (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 7. desember 2019, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 4. maí 2018, á hendur X kt. 000000-0000, [...], „fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt og að morgni sunnudagsins 11. janúar 2015, að [...], í tvígang haft samræði við Y, kt. 000000-0000, án hennar samþykkis og vilja með því að beita hana ólögmætri nauðung, með því að hafa ítrekað reynt að rífa niður nærbuxur Y og, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað híft nærbuxurnar upp aftur og sagt nei við ákærða, haft við hana samræði um leggöng. Af þessu hlaut Y roða og þrota vinstra megin og fyrir aftan þvagrásarop, smárifu hægra megin og aftan við þvagrásarop, þreyfieymsli yfir ytri skapabörmum, þrota við leggangnaop, auk þess sem slímhúð þar var hrjúf og viðkvæm.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Y, kt. 000000-0000, er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 4.000.000,- auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. janúar 2015 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Hann krefst þess að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en lækkunar hennar til vara.

Með ákvörðun 2. febrúar 2018 felldi héraðssaksóknari málið niður þar sem það, sem fram væri komið, væri hvorki nægilegt né líklegt til sakfellis. Brotaþoli kærði ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara. Hinn 27. apríl 2018 felldi ríkissaksóknari ákvörðunina úr gildi og lagði fyrir héraðssaksóknara að gefa út ákæru og skyldi lagt til grundvallar að ákærði hefði í tvígang þvingað brotaþola til samræðis.

 

Málavextir

Hinn 19. janúar 2015 kom Y, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina við [...], og kærði X, ákærða í máli þessu, fyrir kynferðisbrot sem hann hefði framið gegn sér í [...] aðfaranótt 11. janúar 2015. Skýrði hún svo frá að hún hefði farið til [...] að hitta ákærða, en hann væri fyrrverandi unnusti sinn. Þau hefðu um kvöldið haft samfarir og svo farið út að skemmta sér. Eftir það hefðu þau aftur haft samfarir. Eftir það hefði brotaþoli viljað fara að sofa en ákærði viljað frekari samfarir. Hann hafi þá reynt að rífa niður um hana nærbuxurnar en hún híft upp aftur. Hún hefði neitað samförum en ákærði sagt eitthvað, sem brotaþoli myndi ekki hvað væri, og ekki hætt. „Og á endanum bara einhvern veginn bara leyfði ég þessu að gerast“. Ákærði hefði þá haft við hana mök og hún svo farið að sofa. Einhvern tíma síðar hefði hún vaknað við að hann væri „byrjaður aftur og þá var aftur bara sama sagan“ og væri hann aftur farinn að reyna „að rífa niður nærbuxurnar“ en hún að hífa þær upp og segja ‚nei‘. „Og hann hlustaði ekki þannig hann, já bara gerði nákvæmlega það sama aftur. Og á einhverjum tímapunkti ég man ekki hvort það var í fyrra eða seinna skiptið allavega að ég fer að gráta, [...] fer bara að gráta af sársauka og svo þegar hann er búinn þá fer ég bara inn á bað og græt þar og fer svo bara aftur að sofa.“

 

Í lögregluskýrslunni sagði brotaþoli meðal annars að hún hefði eftir þetta sent honum skilaboð „á facebook og sagði honum bara það ekki vera í lagi og [...] sagði bara við hann það er til orð yfir það sem þú gerðir ég held þú vitir hvaða orð það er [...] og ég sagði bara við hann að ég hefði ekki áhuga á því að tala við hann aftur.“ Eftir þetta hefði hann sent sér sms-skilaboð  13. janúar kl. 16:00.

Í málinu liggja sms-skilaboð sem brotaþoli kveður vera þau sem ákærði hafi sent sér. Þar segir: „Mig Langar ad spjalla adeins eftir thetta.egvill saettast og eg vona thu getir fyrirgefid mer en mer thykir vaent um thig samt og vill allt besta fyrir thig ef thu vilt tala vid mig,hringiru bara ef ekki tha respecta eg tad og segji bara bless.i guess .tad er omurlega leidinlegt ad missa vin eins og thig utaf thessu. :( ... mer fannst thessi helgi mesta skemtun sem eg hef gert I langan tima en eg var samt of akafur vid thig  tharna i endann og eg veit tad og mig langar ad baeta ther tad upp ehvveginn I stadin fyrir ad haetta tala vid thig bara...“

 

Atvik málsins urðu á [...]. Fram kom hjá ákærða í skýrslutöku hjá lögreglu 27. febrúar 2015 að þar ætti heima vinur hans D en ákærði ætti til að fara til hans og gista hjá honum. D sagði í skýrslutöku hjá lögreglu 24. júní 2015 að íbúðin væri [...].

 

Brotaþoli gekkst undir skoðun á neyðarmóttöku hinn 11. janúar 2015 kl. 23:45. B læknir annaðist skoðunina. Í skýrslu um skoðunina er skráð svohljóðandi frásögn brotaþola: „Fór til [...] til að hitta fyrrverandi kærasta í gærkveldi um kl. 19. Sváfu saman og fóru seinna um kvöldið niður í bæ í [...]. Drakk sjálf 6-7 drykki, mest bjór en einnig jagermeister í burn. Fóru síðan heim til hans aftur um kl. 4.30-05. Sváfu saman aftur. Var orðin aum að neðan. Hann vildi sofa aftur hjá henni en hún sagði nei. Hann reyndi að toga niður nærbuxurnar en hún togaði þær aftur upp og það gekk í smá tíma. Hún ýtti honum í burtu og sagði nei. Hann var ekkert að gefast upp og fékk vilja sínum fram. Var þurr og segir hann hafa troðið honum inn. Grét af sársauka en hann hætti ekkert. Hann klárar sér af. Hún fer að sofa. Vakna seinna við það að hann er að byrja aftur. Hún reyndi aftur að ýta honum burtu. En gekk ekkert betur en í fyrra skiptið. Fékk vilja sínum framgengt aftur. Hann kláraði. Fór aftur að sofa. Vaknaði um morguninn um kl. 10.30. Borðaði þar. Ætlaði að fara um kl. 02 heim en þá fór bíllinn hennar ekki í gang. Fór því inn aftur og hringdi í móður sína. Foreldrar hennar báðir komu og náðu í hana og drógu bílinn á verkstæði þar í bæ. Fór strax í sturtu þegar kom heim. Lagði sig í dag. Var dofin. Vanlíðan og kastaði upp x1 lítið. Sagði móður [sinni] frá því hvað hafði gerst á leiðinni heim þegar hún fékk stund með henni einni. Sagði aftur vinkonu sinni frá þessu rétt fyrir komu. Kemur í kjölfarið með móður á nmt.“ Í skýrslunni segir að brotaþoli segist hafa verið tilfinningalega dofin allan daginn. Hún hafi reynt „að ýta þessu frá sér.“ Frásögn hennar hafi verið skýr og trúverðug.

Í lýsingu á skoðun ytri kynfæra segir í skýrslunni: „Roði og þroti vi megin og post við þvagrásarop. Smárifa hægra megin post um 1 cm frá þvagrásaropi. Þreifieymsli yfir labia major bilat. Þroti við vaginal op og slímhúð þar hrjúf og viðkvæm.“ Um leggangaskoðun segir: „Þreifieymsli hægra megin við legháls en ekki að sjá áverkamerki.“ Í niðurstöðum læknis er meðal annars eftirfarandi skráð: „Er í jafnvægi við komu og gefur góða og trúverðuga sögu. Engir áverkar á líkama. Ekki þvinguð til að neyta áfengis eða vímuefna. Það eru áverkar á ytri kynfærum sem koma heim og saman við grófar samfarir og/eða án undirbúnings eða sleipiefnis.“

 

Í málinu eru tölvubréf milli sækjanda og B læknis, 25. janúar 2018. Í bréfi sínu spyr sækjandi lækninn tveggja spurninga. Í fyrsta lagi spyr sækjandi hvort möguleg klamydia brotaþola og eða sýklalyfjameðferð við henni kunni að skýra áverka á ytri kynfærum. Læknirinn svarar að það sé ólíklegt. Þá spyr sækjandi eftirfarandi spurningar: „Í framburði brotaþola hjá lögreglu kemur fram að eftir að hafa sofið hjá kærða með samþykki í skipti nr. 2 hafi henni verið orðið illt og liðið óþægilega. Jafnframt kemur fram í skýrslu Neyðarmóttökunnar [...] í frásögn [brotaþola] að hún hafi verið orðin aum að neðan. Í ljósi þessara framburða/upplýsinga er mögulegt að þeir áverkar á ytri kynfærum, sem fram koma við skoðun sjúklings á Neyðarmóttöku hafi þá þegar verið komnir þ.e. eftir kynlífsskipti nr. 2 og þá áður en meint skipti nr. 3 og 4 áttu sér stað? Er mögulegt að henni hafi verið orðið illt og verið orðin aum eftir skipti nr. 2 vegna fyrrgreindra áverka? Er hægt að útiloka að þessir áverkar hafi verið komnir eftir kynlífsskipti nr. 1 og 2 og hafi einungis myndast við meint skipti nr. 3 og 4?“ Þessu svarar læknirinn svo: „Ekki er hægt að útiloka að umræddir áverkar á ytri kynfærum geti hafa komið við kynlífsskipti 1 eða 2.“

 

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 27. febrúar 2015 og var verjandi hans viðstaddur. Í skýrslutökunni sagði ákærði að þau brotaþoli hefðu haft einar samfarir og þær verið áður en þau hefðu farið út að skemmta sér. Kynlífið hefði ekki verið gróft heldur „mjög basic“.

Í skýrslutökunni var ákærði spurður hvort hann hefði haft samband við brotaþola með sms og neitaði hann því. Ákærða voru þá kynnt áðurrakin sms-skilaboð sem brotaþoli kveður hann hafa sent sér 13. janúar. Óskaði ákærði þá eftir hléi til að ræða við verjanda sinn. Áður en hléið var gert var hann spurður hvort hann hefði sent skilaboðin og sagði hann svo vera. Var þá gert hlé á yfirheyrslunni. Að hléi loknu sagðist ákærði vilja „leiðrétta þetta aðeins.“ Sagði hann þá svo frá að eftir að þau hefðu komið „heim af djamminu“ hefði hann fyrst viljað sofa en svo farið að reyna „að koma henni í gang aftur“. Hefði hann því farið „niður á hana [...] með höndunum“ og bætti við: „Og og já hún hefur örugglega sagt mér eitthvað að hætta og ég [...] og ég gerði það bara, ég sagði ókei ég er hættur.“ Eftir það hefðu þau farið að sofa en um morguninn „voru munnmök“. Nánar spurður sagði ákærði að hann hefði farið „inn með putta“. Það hefði ekki staðið lengi „út af því hún sagði bara hættu og ég, ég gerði það bara sem fyrst.“ Hann sagðist telja að hann hefði notað tvo fingur.

Í skýrslutökunni var ákærði spurður hvort brotaþoli hefði fengið einhverja áverka eða kvartað yfir sársauka og sagði að eftir að hann hefði verið hættur hefði hún sagt „ég held að píkan mín sé bara eitthvað handónýt eða eitthvað, ég man vel eftir að hún sagði það.“ Spurður hvað hún hefði átt við sagðist ákærði ekki vita það, en [...] þannig að það gæti alveg verið hún sé að kvarta undan einhverjum gömlum málum“.

Undir lok skýrslutökunnar var ákærði spurður hvort hann vildi bæta einhverju við og sagði hann að þetta væri „fáránlegt mál, ég [...] bjóst bara ekkert við að hún myndi fara að gera þetta út af því að hún kyssti mig bæ á leiðinni út [...] ljúflegan koss bara bæ [...] þegar hún fór út.“ Lögregluþjónn sagði þá að einhverra hluta vegna hefði hann svo sent henni „þetta“, eins og „það sé ekki í lagi“ og ákærði sagði: „já mér fannst hún [...] horfa á mig líka svona skringilega þegar hún fór út í bíl.“ Hefði sér þá liðið „náttúrulega bara fáránlega og fór út af því að mig langaði að tala við hana aftur [...] að reyna að hafa, reyna að ná hana.“

 

Í málinu liggur skjal, nefnt vottorð sálfræðings, undirritað af C sálfræðingi, dags. 22. september 2015. Segir þar að brotaþola hafi verið vísað í sálfræðilegt mat og áfallahjálp af hjúkrunarfræðingi á slysa- og bráðadeild Landspítalans, en brotaþoli hafi leitað til neyðarmóttöku vegna meints kynferðisbrots. C segir í vottorðinu að hún hafi rætt við brotaþola í síma hinn 13. janúar 2015 og hafi brotaþoli þá ætlað að leita til eigin sálfræðings. Henni hafi verið boðið að hafa samband síðar ef hún vildi og hafi hún gert það hinn 3. febrúar 2015. Hafi C síðan hitt brotaþola fjórtán sinnum á tímabilinu frá febrúar til september 2015 auk nokkurra símtala. Í samantekt vottorðsins segir: „Allt viðmót [brotaþola] bendir til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi í meintu kynferðisbroti. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að [brotaþoli] þjáðist af áfallastreituröskun [...] í kjölfar meints kynferðisbrots. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Tilfinningaleg viðbrögð hennar voru í samræmi við frásögn hennar. Eins og fram hefur komið er formlegri meðferð við áfallastreitueinkennum [brotaþola] eftir meint kynferðisbrot nú lokið með góðum árangri. [Brotaþoli] hefur verið samstarfsfús í viðtölum og lagt sig fram um að sinna krefjandi verkefnum þó oft hafi hún heldur viljað forðast þau. [Brotaþoli] hefur sýnt hugrekki við að takast á við krefjandi aðstæður og lagt sig fram í berskjöldun á raunverulegum aðstæðum (t.d. fara til [...]). [Brotaþoli] hefur einnig notið góðs af stuðningi fjölskyldu og vina í gegnum þessa meðferðarvinnu. Nú við lok formlegrar meðferðar er áætluð eftirfylgd og stuðningur a.m.k. þar til kærumáli er lokið. Þó [brotaþoli] sé að ná góðum bata af áfallastreituröskun er hún enn að takast á við afleiðingar meints kynferðisbrots í sínu daglega lífi. Ekki er hægt að segja til með vissu hver áhrif meints kynferðisbrots verða þegar til lengri tíma er litið en ljóst þykir að atburðurinn hefur haft víðtæk áhrif á líðan [brotaþola].“

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði sagðist hafa verið í sms-samskiptum við brotaþola. Þau hefðu gengið vel og ákærði boðið henni í heimsókn umræddan dag. Hún hefði komið akandi og með bjórkassa með sér. Kvöldið hefði byrjað vel, þau hefðu strax byrjað „að daðra og vera saman bara“ og fá sér í glas. Þau hefðu farið „inn í herbergi“ og haft samfarir, „með samþykki og allt í góðu með það“. Þær hefðu tekið eitthvað frá tíu mínútum til hálfrar klukkustundar, og eftir það hefðu þau farið og hitt einn félaga ákærða og „djammað“ með honum í bænum. Þau hefðu komið til baka um þrjúleytið og ákærði hefði þá farið að sofa, enda drukkinn og ekki til stórræða. Hann hefði verið „hálf getulaus bara“. Hann hefði vaknað einhvern tíma um nóttina, um klukkan fimm eða sex, og „þá kemur einn vinur minn niður“, E að nafni, og ákærði hefði farið fram að heilsa upp á hann, vildi „vera gestrisinn bara“, en brotaþoli verið áfram inni í herbergi. Ákærði hefði sagt við E að hann hefði haft samfarir við brotaþola, en aðspurður sagðist ákærði ekki hafa talað um að þetta hefði hann gert tvívegis. Ákærði hefði svo farið aftur inn í herbergi til brotaþola og verið „eitthvað svona aðeins að dunda með henni“. Þau hefðu verið eitthvað „að kúra“ og horfa á kvikmynd. Þau hefðu verið „í góðum gír þarna“. Svo hefði ákærði sofnað.

Um morguninn hefði ákærði verið frammi og beðið þess að brotaþoli færi. Hann hefði þó ekkert verið „að reka á eftir henni samt“. Hann hefði haldið „að þetta væri bara svona þynnkumál hjá henni“ og farið aftur inn í herbergi og talað við hana. Þá hefðu þau aðeins byrjað að daðra „og það endaði með því að ég er bara með henni aðeins smá tíma, og var bara aðeins að hressa hana við og svona.“ Svo hefði verið komið „stuð aftur og það endar með því að ég fer bara að putta hana með fullu samþykki alveg alla leið.“ Hann hefði aldrei tekið eftir neinum merkjum um að hann mætti það ekki. Eftir þetta hefðu þau, að því er hann minnti, sofnað, í tíu mínútur eða svo. Svo hefði hann farið fram aftur og talað við félaga sinn. Svo hefði hann farið aftur inn í herbergið og hefði spurt hvort hún vildi veita sér munnmök, sem hún hefði gert „sjálfviljug.“ Eftir það hefði hann farið aftur fram. Svo hefði hún farið út í búð og keypt sér hamborgara. Hún hefði svo komið aftur og beðið inni í herbergi. Að lokum hefði faðir brotaþola komið og náð í bifreið hennar sem hefði verið biluð. Brotaþoli hefði svo kysst sig kveðjukossi á leiðinni út.

Ákærði sagði að þau brotaþoli hefðu verið kærustupar í eitt og hálft ár. Því hefði lokið 2011 eða 2012. Þegar hann hefði haft samband við hana í þetta sinn hefði hann haft í huga að taka jafnvel þráðinn upp að nýju.

Ákærði sagði að þau hefðu einu sinni haft samfarir þetta kvöld og nóttina. Um nóttina eða morguninn hefði hann svo „puttað brotaþola“ og hann fengið munnmök einhverju síðar, en bæði hefðu sofnað þarna á milli. Samfarirnar hefðu verið „svolítið svona rösklegar“ en brotaþoli „fílaði það að hafa það fast.“ Þær hefðu hins vegar ekki verið „grófar“ heldur „venjulegar“. Nánar spurður um tímalengdina sagði hann að þær hefðu staðið í svona tíu mínútur eða aðeins meira. Ákærði sagðist hafa verið veita brotaþola ánægju þegar hann „puttaði“ hana, „hún var bara eins og hún fílaði þetta sko, hún sagði líka alveg ‚þetta er svona þægilegt en samt ekki‘, svo ég hætti bara samstundis.“ Hún hefði hins vegar ekki beðið sig um að hætta. Strax eftir það hefði brotaþoli sagt eitthvað á þá leið að „hún fyndi til eitthvað þarna“ en ákærði sagðist telja að það hefði jafnvel verið eitthvað frá því áður en hún hefði komið til sín. Aðspurður sagðist ákærði hafa verið tíu mínútur eða svo að „putta“ hana.

Ákærði sagði að brotaþoli hefði sagt við sig „að hún væri örugglega eitthvað ónýt þarna niðri, eitthvað.“ Þá hefði hún, fyrir samfarir þeirra, sagt að hún væri búin að vera með klamydiu og hefði útskýrt að hann væri þá að taka áhættu með því að hafa samfarir við hana.

Ákærði sagðist hafa verið búinn að drekka „einhverja bjóra“ og hafa verið „fullur“, en hann myndi samt eftir atburðum. Hann hefði ekki verið ofurölvi og hefði ekki neytt fíkniefna. Brotaþoli hefði einnig verið drukkin en líklega ekki ofurölvi.

Ákærði sagði að vinur sinn, D, sem ætti heima í húsinu, hefði einnig verið heima um kvöldið.

Ákærði sagði að E hefði verið talsverðan tíma og farið á eftir brotaþola. Þeir D hefðu eitthvað verið að tala saman á meðan ákærði hefði verið inni í herbergi með brotaþola.

Ákærði sagði að eftir að brotaþoli hefði verið farin hefði hann sent henni „eitthvað skeyti, en það var bara svona út af því að ég hélt að hún væri bara með einhvern móral yfir þessu“. Spurður af hverju hann hefði haldið að brotaþoli hefði verið „með móral“ sagðist ákærði ekki vita það. Kannski hefði hún verið „þunn eða eitthvað.“ Nánar spurður svaraði hann: „Æ ég veit það ekki, mér fannst það bara svona einhvern veginn. Ég veit ekki hvað það var.“ Í framhaldi af þessu sagðist ákærði ekki hafa „treyst aðstæðum“ þarna. Spurður hvers vegna hann hefði ekki treyst aðstæðum svaraði hann: „Mér fannst það bara vera eitthvað svo bara skrýtið andrúmsloft þarna inni [...] bara allan tímann þarna.“ Nánar spurður um skrýtna andrúmsloftið sagði ákærði: „Æ ég veit það ekki, kannski bara segi ég svona, en ég átti erfitt með að treysta henni á þessu tímabili.“ Ákærði var spurður hvort einnig hefði verið skrýtið andrúmsloft á meðan þau hefðu haft samfarir og hann „puttað“ hana, og svaraði: „Nei, þetta var svona voða breytt einhvern veginn, mér fannst þetta bara eftir á, þegar ég var búinn að þessu einhvern veginn. Ég svona, það er samt bara eitthvað svona smá, ég var ekki að reka hana út eða neitt þannig, vildi heldur ekkert að hún færi þannig séð. Eða ég var samt eiginlega bara að bíða eftir að hún færi.“ Skrýtna andrúmsloftið hefði eiginlega verið þegar kynferðissamskiptunum hefði verið lokið.

Ákærði sagðist hafa haft frumkvæði að því að senda brotaþola sms-skeytið eftir heimsókn hennar. Hann sagðist ekki muna nákvæmlega eftir efni þess. Spurður hvort hann hefði talað um að hann hefði verið eitthvað ágengur eða ákafur svaraði ákærði að það væri örugglega rétt. Þar hefði hann verið „örugglega að tala um þetta þegar ég var að putta hana“, þar sem hann hefði „hætt samstundis“.

Ákærði sagði rangt sem rakið er í ákæru að hann hefði rifið niður nærbuxur brotaþola en hún híft upp aftur. Hann sagðist ekki geta skýrt hvers vegna brotaþoli segði svo frá. Hann var spurður hvort hann teldi brotaþola ljúga því að hann hefði gert þetta, og sagði hann svo vera. Hann hefði enga skýringu á því að hún gerði það. „Kannski bara fílaði ekki mig sem fyrrverandi manninn hennar, eða eitthvað.“ Hann sagðist ekki vita til að hann hefði gert nokkuð á hennar hlut.

Ákærði sagðist telja áverka á kynfærum brotaþola annað hvort hafa verið frá því áður en hún hefði komið til sín eða þá komið til af þeim einu samförum sem þau hefðu stundað.

Ákærði sagði að lögregla hefði ekki óskað eftir að fá afhent sms-samskipti ákærða og brotaþola í aðdraganda þess að þau hittust umrætt sinn. Í þessum samskiptum hefði ákærði daðrað við brotaþola sem hefði svarað í sömu mynt. Hefðu samskiptin verið af kynferðislegum toga.

 Ákærði sagði að íbúðin væri ekki mjög stór og frekar hljóðbært milli veggja. Þegar hann hefði verið inni í herbergi með brotaþola hefði hann heyrt til E og D frammi en þó ekki orðaskil. Þeir gætu einnig hafa heyrt í sér og brotaþola.

Ákærði var spurður um orð sín í skýrslutöku hjá lögreglu á þá leið að hann hafi ætlað að reyna kynferðisleg samskipti að nýju, brotaþoli sagt nei og hann þá hætt og síðar sagt ‚sorrí‘.“ Ákærði sagði brotaþola ekki hafa sagt sér að hætta, en þessi orð sín hefðu verið um það er hann hefði „puttað“ hana.

Ákærði var spurður um framburð sinn hjá lögreglu á þá leið að E hafi komið og ákærði farið fram að tala við hann en brotaþoli verið inni í herbergi. Ákærði hafi ætlað aftur inn til hennar að „kúra“ en ekki náð því þar sem faðir hennar hefði verið kominn að sækja hana. Ákærði sagðist hafa farið tvisvar fram og beðið þess að hún færi og þá ekki náð að „kúra“ með henni.

Ákærði var spurður um það sem eftir honum er haft í skýrslutöku hjá lögreglu á þá leið að þau hafi sofnað og svo vaknað og þá hafi hann ætlað að reyna aftur með hana en hún neitað og hann hætt. Síðar í skýrslutökunni, eftir að ákærði hafi fengið hlé, hafi hann sagt að þau hafi komið heim af djamminu og hann reynt að sofa en svo reynt að koma henni í gang aftur með því að fara niður á hana með höndunum. Hún hafi sagt sér að hætta og hann sagt ‚ókei ég er hættur‘. Eftir það hafi þau farið að sofa. Ákærði sagði að þessi frásögn væri rétt. Hann sagðist hafa sofnað þegar hann hefði komið heim úr bænum. Ákærði sagðist hafa sagt satt og rétt frá í lögregluskýrslu og hugsanlega hefði hann munað atvik betur þá.

Ákærði var spurður um það sem fram kemur í lögregluskýrslu, að hann hafi fyrst neitað að hafa verið í samskiptum við brotaþola eftir atvikið en þegar sms-skeyti hefði verið borið undir hann hefði hann breytt framburði sínum. Ákærði sagðist ekki hafa munað eftir að hafa sent skeytið.

Ákærði var spurður um sms-skeytið. Hann sagði það hafa verið sent „meira til að reyna að ná á hana aftur eftir þetta“. Spurður hvað hann ætti við með því sagði ákærði „bara reyna að tala við hana aftur“. Brotaþoli hefði ekki viljað tala við sig. Hún hefði þó ekki sagt að hún vildi ekki tala við hann. Spurður hvernig það hefði komið fram sagði ákærði að brotaþoli hefði ekki svarað sér og því hefði hann sent skeytið. Hann var spurður hvort hann hefði hringt í brotaþola og svaraði: „Nei, nei nei, alls ekki, ég er bara að tala um þetta. Ég var ekkert búinn að reyna að ná á hana nema með þessu.“ Hann var spurður hvernig hann hefði þá vitað að hún vildi ekki tala við hann og svaraði: „Mér bara datt það í hug út af því að hún var ekkert að svara mér.“ Ákærði var spurður hvers vegna hann hefði skrifað að hann vonaði að brotaþoli gæti fyrirgefið sér, og svaraði: „Ég var bara, virðist, svolítið svona að átta mig á kvöldinu sjálfur, var bara að hugsa út í hvert einasta svona, var að hugsa út í hvert einasta svona hvað ég hefði gert rangt þarna og ég sagði það bara við hana að kannski hún væri hún með einhvern þynnkumóral yfir þessu og ég ákvað að senda henni eitthvað svona til baka.“ Ákærði var spurður hvort brotaþoli hefði verið búin að láta hann vita að hún væri ósátt, og svaraði: „Nei ekki svo ég viti.“ Ákærði var spurður hvort brotaþoli hefði sent honum einhver boð áður, en hann hefði sent sms-ið, og sagðist hann ekki muna eftir slíku. Ákærði var nánar spurður út í skilaboð sín og sagði: „Ég bara bjóst við að hún væri kannski eitthvað fúl eða eitthvað, en ég vissi það náttúrulega ekkert þannig að ég sendi þetta bara og þetta var líka út af því eftir að ég var að putta hana þarna þá sagði ég við hana ‚ókei, ég er hættur‘ [...], ég hætti samstundis, ætli ég hafi ekki bara fengið svona smá“. Ákærði sagði að hann hefði talið stemmninguna breytast eitthvað eftir að hann hefði verið að „putta“ brotaþola. Svo hefði hún útskýrt fyrir sér að hún væri eitthvað „ónýt þarna niðri“.

Ákærði var spurður um þau orð sín í lögregluskýrslu að hann hefði sagt „sorrí“ við brotaþola. Hann sagðist hafa sagt „þegar ég var að putta hana þá sagði ég við hana ‚sorrí að ég hafi verið of ákafur‘ eða eitthvað svona, og hún segir bara ‚allt í lagi‘.“ Ákærði var spurður hvort skýringin á sms-skeyti hans kynni að vera að hann sjálfur hefði verið með „móral“ eftir að hafa sett fingur í leggöng brotaþola. Ákærði sagði að það „gæti kannski passað, kannski eitthvað.“ Ákærði sagði að andrúmsloftið hefði ekki verið skrýtið þegar brotaþoli hefði veitt sér munnmök. Þá hefði það verið „bara svona casual“. Hann var spurður hvort andrúmsloftið hefði aftur orðið skrýtið eftir munnmökin og sagði hann að svo hefði ekki verið sérstaklega. Ákærði sagði aðspurður að brotaþoli hefði verið blaut er hann hefði „puttað“ hana. Hann hefði hins vegar ekki „pælt“ mikið í því, hann hefði vitað að hún myndi vilja þetta. Nánar spurður sagðist hann ekki muna hvort hún hefði verið blaut. Hún hefði hins vegar tekið þátt í því sem fram fór.

Ákærði sagðist ekki hafa tekið eftir að brotaþoli gréti og ekki eftir neinu öðru sem gefið gæti til kynna að hún væri ósátt.

Ákærði var spurður um orð E í lögregluskýrslu að ákærði hefði sagt að hann hefði tvívegis stundað kynmök með brotaþola. Hann sagði þetta misskilning E.

Ákærði sagði málið hafa gjörbreytt öllu hjá sér. Hann hefði sokkið í mikla notkun fíkniefna og loks farið í meðferð. Orðspor sitt væri komið „alveg niður í holræsi“ og vinir sínir hefðu yfirgefið sig. Fjölskylda sín liti sig ekki lengur sömu augum og áður. Kvíði og þunglyndi hefðu vaxið og hann hefði ekki treyst sér í nýtt samband. Áður hefði hann verið í [...] en verið rekinn [...]. Þá hefðu vinir brotaþola haft um sig hörð orð á förnum vegi.

Ákærði var spurður um það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu um það, er hann hefði „puttað“ brotaþola, þess efnis að það hefði ekki tekið langan tíma „því hún sagði bara hættu og ég gerði það bara sem fyrst.“ Ákærði sagðist hafa verið „rosalega stressaður í þessari skýrslutöku“ og því væri skiljanlegt að hann væri dálítið óskýr. Á þessum tíma hefði hann aðeins verið að segja að hann „hefði puttað hana í smá tíma þarna.“ Nánar spurður um smá tíma sagði hann að það hefðu verið um tíu mínútur. Ákærði sagðist aðspurður hafa gott tímaskyn.

 

Brotaþoli sagðist hafa farið til ákærða að kvöldi 10. janúar. Áður hefðu þau talað saman „á facebook“, daðrað og ákveðið að hittast. Þau hefðu farið að drekka og svo hefðu þau haft samfarir. Eftir það hefðu þau farið í samkvæmi og þaðan í bæinn. Þau hefðu komið heim til ákærða aftur „einhvern tíma um morguninn“, líklega á sjötta tímanum, og hefðu þá aftur haft samfarir. Eftir það hefði hún ætlað að fara að sofa en ákærði þá viljað frekari samfarir. Hún hefði legið á maganum og ákærði „byrjaði alltaf að reyna að rífa nærbuxurnar niður og ég var alltaf að hífa þær aftur upp“. Þetta hefði staðið í „einhvern smá tíma“ og endað með því að „hann sem sagt náði að fara svona upp á mig og [...] fékk sínu framgengt þannig.“ Brotaþoli sagðist ekki vita hvað þetta hefði tekið langan tíma „en svo hætti hann á endanum“ og þau hefðu farið að sofa. Brotaþoli hefði vaknað einhverju síðar og „hann aftur var þá eitthvað að reyna að fikta í mér og farinn að rífa nærbuxurnar aftur niður og það byrjaði aftur bara sama, ég var alltaf að reyna að taka þær aftur upp og já síðan gerði hann aftur bara það nákvæmlega sama, [...] svona aftan frá.“ Eftir þetta hefði hún farið aftur að sofa. Einhvern tíma hefði hún farið inn á baðherbergi, líklega eftir síðara skiptið. Hún hefði svo aftur vaknað við að ákærði væri að reyna eitthvað að nýju. „Nema þá bara gerði ég ekki neitt, ég bara lá þarna, tók ekki slaginn aftur.“ Brotaþoli sagðist ekki muna til þess að ákærði hefði náð að taka sig alveg úr nærbuxunum, líklega hefðu þær „verið svona á hælunum“.

Brotaþoli sagði að ákærði hefði ekki farið með fingur í leggöng sín. Sérstaklega spurð neitaði hún að ákærði hefði „puttað“ hana í tíu mínútur eða svo.

Brotaþoli sagði að þær samfarir sem þau hefðu haft með vilja beggja hefði ekki verið harkalegar heldur mjög venjulegar. Hún hefði verið blaut og tilbúin. Hún hefði ekki verið aum á eftir. Hún var spurð hvers vegna hún hefði ekki viljað frekari samfarir með ákærða og sagðist hafa verið orðin þreytt og ekki verið „í stuði til þess.“ Hún hefði verið drukkin og viljað fara að sofa. Sér hefði verið orðið „pínu illt“ eftir síðari samfarirnar sem hún hefði tekið þátt í með fullum vilja. Hún sagðist telja að hún hefði einnig sagt ‚nei‘. Hún hefði ekki öskrað. Hún hefði verið í „miklu sjokki“ á meðan á þessu hefði staðið, en eftir á byrjað á einhvers konar afneitun, „vildi bara ekki pæla í þessu“.

Brotaþoli sagði að „svolítið eftir á“ hefði ákærði beðið sig um munnmök. Hún hefði gert það en sagðist ekki muna hvort það hefði verið fyrir eða eftir að hún hefði farið og náð í hamborgara handa þeim og þau svo borðað matinn saman. Hún var spurð hvort hún hefði viljað veita munnmökin og svaraði að ákærði hefði beðið sig um þau „og miðað við það sem hafði gengið á áður þá fannst mér ég ekki hafa neitt mikið val svo ég gerði það bara.“ Hún hefði „á einhverjum tímapunkti“, líklega um tvöleytið, farið út í bifreið sína en hún þá ekki farið í gang. Brotaþoli hefði þá hringt til foreldra sinna og beðið þá um að sækja sig. Hún hefði beðið í bifreiðinni í einhvern tíma en þar hefði verið „ógeðslega kalt“ og hún því farið aftur inn í íbúðina og beðið foreldra sinna þar. Þegar hún hefði farið hefði hún kysst ákærða á munninn í kveðjuskyni. Spurð um ástæðu þess sagðist hún hafa verið „að reyna að láta eins og ekkert væri.“ Brotaþoli var spurð hvers vegna hún hefði farið og keypt mat handa manni sem hún teldi hafa nauðgað sér ítrekað. Hún svaraði: „Ég held að það hafi verið bara eitthvað svona sjokkið eftir það, ég var  einhvern veginn bara að láta eins og ekkert væri, vildi ekki búa til eitthvað vandamál“. Spurð hvers vegna hún hefði ekki farið heldur legið áfram hjá manni sem hún teldi hafa nauðgað sér svaraði brotaþoli: „Ég náttúrulega veit ekkert nákvæmlega hvað ég var að hugsa þarna en ég held að það hafi verið bara sjokkið einhvern veginn“.

Brotaþoli sagðist hafa verið „mjög aum“ í kynfærunum að öllum mökunum loknum. Þegar ákærði hefði haft við hana mök gegn vilja hennar hefði hún ekki verið tilbúin til kynmaka.

Brotaþoli var spurð hvers vegna hún hefði ekki farið fyrr burt og sagðist hún hafa drukkið áfengi um nóttina og ekki hafa verið fær um að aka. Aðspurð sagði hún að sér hefði ekki dottið í hug að hringja á leigubifreið.

Brotaþoli sagði að um morguninn hefðu þau verið inni í herberginu.

Brotaþoli sagðist hafa, annað hvort á sunnudeginum eða mánudeginum, sent ákærða skilaboð á „facebook“ þar sem hún „basically sagði honum það sem hann gerði“. Hún hefði sagt eitthvað á þá leið að til væri orð um það sem hann hefði gert og að hann vissi alveg hvaða orð það væri. Eftir þetta hefði hún „blokkað“ hann og eytt skilaboðunum. Hún hefði hins vegar fengið sms frá honum, líklega á mánudeginum. Hann hefði einnig reynt að hringja til hennar. Í sms-inu hefði hann beðið hana fyrirgefningar og sagt að hann hefði verið of ákafur við hana, og að hann vildi ekki missa vin út af þessu.

Borið var undir brotaþola þar sem eftir henni er haft í lögregluskýrslu að hún hafi í skilaboðunum sagt að þetta hefði ekki verið í lagi, að til væri orð um gerðir ákærða og hann vissi hvaða orð það væri og að brotaþoli vildi ekki tala við hann aftur. Brotaþoli staðfesti þetta. Hún sagði að það, sem hún hefði haft í huga, hefði verið að ákærði hefði nauðgað henni.

Brotaþoli var spurð hvers vegna hún hefði eytt skilaboðum sínum til ákærða og sagðist ekki hafa viljað „fá áminningu alltaf þegar ég opnaði messenger og væri að skoða önnur skilaboð eða eitthvað svoleiðis, það hafi bara verið pælingin mín þá.“ Hún hefði eytt öllum samskiptum sínum við ákærða.

Brotaþoli sagðist hafa sagt móður sinni frá atvikum og svo hringt í vinkonu sína, F. F hefði fengið sig til að átta sig á því að sér hefði verið nauðgað og hefði svo farið með henni á neyðarmóttöku. „Hún svona lætur mig svona átta mig á því hvað hafi komið fyrir“, sagði brotaþoli.

Brotaþoli sagði að D hefði verið í íbúðinni og svo hefði „einhver annar gaur“ [verið] á einhverjum tímapunkti“, líklega kvöldið áður, en hún myndi ekki meira um það. Hún sagðist ekki muna eftir að hafa heyrt í þeim.

Brotaþoli sagðist hafa verið „alveg mjög drukkin“ en ekki ofurölvi. Hún hefði alveg vitað „hvað var í gangi.“

Brotaþoli var spurð um orð sín í skýrslutöku þess efnis að ákærði hefði beðið hana afsökunar. Hún sagðist ekki muna eftir að hann hefði gert það, en hún hefði munað atvik betur hjá lögreglu en nú. Nánar spurð sagði hún að verið gæti að hann hefði sagt „sorrí“ við hana. Brotaþola var sýnd lögregluskýrsla þar sem eftir henni er haft að ákærði hafi sagt „sorrí“ og að það hefði verið vegna þess að hann hefði „fattað að hann gerði eitthvað rangt.“ Brotaþoli sagði að sig rámaði í þetta þegar hún læsi þetta í skýrslunni. Rétt væri eftir sér haft.

Brotaþoli var spurð hvort rétt væri eftir henni haft hjá lögreglu að hún hefði grátið. Hún sagði svo vera. Eflaust hefði gráturinn verið lágvær.

Brotaþoli sagði að sér liði miklu betur í dag en þegar atburðir hefðu orðið fyrir fjórum árum. Hún hefði verið greind með áfallastreituröskun. Enn væri sér erfitt að fara í fjölmenni af ótta við að rekast á ákærða.

 

Vitnið B læknir á neyðarmóttöku sagði brotaþola hafa verið auma „að neðan“ og að sjá hefði mátt áverka á ytri kynfærum. Þar hefði verið roði og þroti vinstra megin við þvagrásarop og smá rifa hægra megin neðan til. Eymsli hefðu verið í báðum börmum og þroti við leggangaop. Spurt hvernig slík rifa myndaðist svaraði vitnið að ef slímhúð væri „í þurrara lagi þá getur teygzt of mikið á henni.“ Þetta væri tilfinningaríkt svæði og konur fyndu fyrir þessu. Einstaklingur sem fengi slíka áverka „væri allavega ekki til í að stunda kynlíf  með þetta, það væri mjög ólíklegt allavega.“ Við þurrk gæti álag og tog í slímhúðina valdið sári eða rifu. Nánar spurt um rifuna sagði vitnið að hún væri „rifa í yfirborði slímhúðar.“ Aðspurt sagði vitnið að ekki væri hægt að útiloka að rifan myndaðist sem skurður eftir til dæmis nögl. Mögulegt væri að nögl gæti valdið rifunni en ekki öllum þeim áverkum sem komið hefðu í ljós í skoðuninni.

Vitnið sagði að frásögn brotaþola hefði verið skýr og trúverðug og komið vel heim og saman við áverka sem vitnið hefði séð. Vitnið sagði að mjög ólíklegt væri að áverkar sem þessir kæmu fram við samfarir þar sem konan hefði verið tilbúin til samfara og kynfæri hefðu því blotnað. Þetta væri „heldur mikill áverki til þess.“ Áverkarnir væru „í meira lagi fyrir samþykkt kynlíf.“ Vitnið sagði að kona gæti orð „aum og aðeins þrotin eftir venjulegar samfarir“ og ef eftir þær yrðu aðrar samfarir, en án samþykkis hennar, þá gætu áverkarnir orðið meiri, „og þá er það náttúrulega kannski í tengslum við það að þú blotnar ekki nógu vel og ert ekki tilbúin í samfarir og þá verða áverkarnir verri.“ Bleyta frá fyrri samförum entist eitthvað „en það er svona spurning hvað lengi“. Utan á kynfærum myndi hún endast skemur en inni í leggöngum. Vitnið sagði að mögulegt væri að konan blotnaði ekki nægilega þó hún væri fús til samfara.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði sagt sér að ákærði hefði rifið í hár hennar.

 

Vitnið C sálfræðingur staðfesti vottorð sitt. Vitnið sagði brotaþola enn njóta þjónustu sinnar og hefði vitnið síðast hitt brotaþola daginn áður. Vitnið sagði að brotaþoli hefði staðið sig mjög vel undanfarin ár í að viðhalda bata sínum og nýtt sér viðeigandi stuðnings en væri „reglulega að takast á við vanlíðan tengt þessu“. Væri janúarmánuður til dæmis sérstaklega erfiður. Einnig ætti hún til endurupplifanir í kynlífi. Batahorfur hennar væru „tiltölulega góðar“ en áfram þyrfti hún að sinna bata sínum „því lífið er bara þannig að það koma áminningar eins og mikil fjölmiðlaumfjöllun eða eitthvað slíkt og þá þarf maður að vera í stakk búinn að takast á við það.“

Vitnið sagði brotaþola hafa verið trúverðuga og ekkert hefði komið fram í samtölum þeirra sem gæfi annað til kynna.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði sagt ákærða hafa haft tvívegis samfarir við sig gegn vilja hennar og áður en hún hefði yfirgefið íbúðina hefði hún veitt honum munnmök þar sem hún hefði ekki þorað annað.

Vitnið var spurt hvort viðbrögð brotaþola við ætluðum brotum væru dæmigerð fyrir viðbrögð þeirra sem yrðu fyrir slíkum brotum. Vitnið sagði þá sem verða fyrir brotum bregðast við með ýmsum hætti og hefði vitnið heyrt svipaða lýsingu áður. Að mati vitnisins væri ekkert óeðlilegt við viðbrögð þessa brotaþola.

 

Vitnið D sagði ákærða kunningja sinn. Þegar mál þetta hefði komið upp hefði ákærði leigt hjá sér, en að öðru leyti þekktust þeir lítið. Brotaþola hefði vitnið aðeins hitt umrætt kvöld. Vitnið sagðist hafa verið heima hjá sér um kvöldið. Brotaþoli hefði komið til ákærða. Fyrst um kvöldið hefðu ákærði og brotaþoli verið í stofunni og þá verið að kyssast og slíkt. Þau hefðu einnig verið inni í herbergi en vitnið frammi í stofu. Þau hefðu svo farið út á lífið og hefði brotaþoli verið mjög ánægð með að hafa „náð að plata hann út“. Þau hefðu kannski verið úti í um tvær klukkustundir og komið þá aftur.

Um nóttina hefði vitnið farið inn í eigið herbergi og þá heyrt til brotaþola og ákærða „við athafnir“. Nánar spurt sagði vitnið sig hafa heyrt kynlífshljóð. Hefði vitnið heyrt fliss og stunur. Þetta hefði ekki verið seint, líklega um tvö eða hálf þrjú.

Vitnið hefði svo sofnað og ekki séð ákærða og brotaþola fyrr skömmu eftir hádegi daginn eftir.

Vitnið sagði að [...] hefði komið í heimsókn um kvöldið. Hefðu ákærði og brotaþoli þá verið á staðnum. [...] væri vinur ákærða en ekki vitnisins. Vitnið sagðist ekki muna eftir heimsókn um nóttina eða morguninn eftir. Vitnið hefði orðið vart við slíka heimsókn enda væri hljóðbært í húsinu [...]. Nánar spurt sagði vitnið að [...] þessi hefði komið og farið eins og honum sýndist og væru „sterkar líkur“ á að hann hefði komið um morguninn. Hjá sér væri aldrei læst.

Vitnið sagði að ákærði og brotaþoli hefðu drukkið áfengi og vitnið hefði gert eitthvað af því líka.

Vitnið sagðist hafa tekið eftir er herbergisdyr ákærða hefðu verið opnaðar og þau brotaþoli hefðu hvíslað eitthvað. Síðan hefði vitnið heyrt brotaþola kveðja með kossi og fara út. Vitnið sagðist ekki hafa orðið vart við þau frammi um morguninn.

Vitnið sagðist ekki hafa heyrt neinn gráta og ekkert sem bendi til rifrildis eða slagsmála. Þá hefði vitnið ekki heyrt nein orð eins „nei“, „hættu“ eða önnur í þá veru. Vitnið hefði ekki heyrt neitt tal yfirleitt.

Vitnið sagði ákærða ekki hafa talað sérstaklega um það hvernig nóttin hefði verið, en hann hefði litið út fyrir „að hafa verið voða heppinn þetta kvöld.“ Hann hefði verið glaður og brosandi.

Vitnið taldi sig muna atvik betur fyrir dómi heldur en það hefði gert hjá lögreglu.

 

Vitnið E sagði að sig rámaði í að hafa hitt ákærða og brotaþola í samkvæmi um kvöldið og síðan „farið til hans D“ og þau þar verið „eitthvað saman“. Vitnið hefði farið heim en síðan aftur heim til D að hitta þau daginn eftir, fyrir hádegið. Vitnið hefði setið í stofunni en þau verið inni í herbergi. Ákærði hefði komið fram og spjallað við vitnið. Ákærði hefði næst farið aftur inn í herbergið og verið þar í um klukkustund en vitnið hefði verið eitthvað áfram og spjallað við D. Vitnið sagðist hafa neytt mikils kannabiss á þessum tíma og myndi því ekki mikið frá honum. Nánar spurt hvort það væri visst um að hafa hitt D sagði vitnið að sig minnti það. Vitnið hefði verið tíður gestur í húsinu.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði farið um hádegisbil eða svo. Hún hefði verið á bifreið og einhver vandamál verið með hana.

Vitnið sagðist ekki hafa haft neina vitneskju um hvort ákærði og brotaþoli hefðu stundað kynlíf en sig hefði grunað það, án þess að velta því sérstaklega fyrir sér.

Vitnið sagði að ákærði hefði verið undir áhrifum. Vitnið var spurt hvort það hefðu verið áfengisáhrif eða fíkniefnaáhrif og svaraði: „Örugglega bæði held ég.“ Vitnið hefði ekki séð hann taka inn fíkniefni en það samkvæmi, sem þau hefðu farið í, hefði verið þess eðlis að það væri líklegt.

Vitnið sagðist muna atvik málsins betur nú en þegar það hefði gefið skýrslu já lögreglu. Nú væri það búið að rifja þau upp.

Vitnið var spurt hvort það hefði orðið vart við að eitthvað óeðlilegt væri í gangi og svaraði: „Sko, mig grunaði það þar sem að stelpan fór og hún kvaddi hann ekki eða neitt og mér fannst eins og það væri eitthvað ósætti á milli þeirra, að hún hefði ekki viljað sofa hjá honum eða eitthvað, ég veit ekki alveg hvað, ég spurði ekkert út í það, en ég hafði það á tilfinningunni að það væri eitthvað ósætti á milli þeirra“. Vitnið sagði að brotaþoli hefði rokið út án þess að kveðja. Sérstaklega spurt sagði vitnið að brotaþoli hefði ekki kysst ákærða í kveðjuskyni.

Vitnið sagðist hafa hjá lögreglu sagt það sem hann hefði vitað réttast. Borið var undir vitnið það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu um að ákærði og brotaþoli hefðu verið inni í herbergi og undir sæng er það hefði komið og að það hefði farið inn í herbergið og látið vita af komu sinni. Vitnið taldi þetta rétt. Borin var undir vitnið frásögn þess hjá lögreglu af morgninum, þess efnis að ákærði hefði komið fram eftir um fimm mínútur en fram að því hefði vitnið heyrt í ákærða og brotaþola tala saman inni í herbergi. Fimm mínútum eftir að ákærði hefði komið fram hefði brotaþoli gert það líka, kysst ákærða í kveðjuskyni og farið út. Vitnið sagðist muna „voða lítið eftir þessu, þetta er eitthvað voða óskýrt í hausnum á mér“. Vitnið hefði reykt mikið og myndi lítið. Vitnið sagði svo að rétt væri að brotaþoli hefði kvatt ákærða en að vitnið hefði talið að eitthvað ósætti væri milli þeirra.

Vitnið sagði að á sínum tíma hefði það talið skrýtið að brotaþoli kærði ákærða fyrir kynferðisbrot. Þegar vitnið horfði nú til baka teldi það eitthvað skrýtið hafa verið í gangi.

Borið var undir vitnið það sem haft er eftir því lögregluskýrslu þess efnis að ákærði hafi sagt að hann hefði að minnsta kosti tvisvar stundað kynlíf með brotaþola, á laugardeginum og sunnudagsmorgninum. Vitnið sagðist ekki muna eftir þessu.

Vitnið sagði að þeir ákærði væru ekki lengur vinir. Það væri ekki vegna þessa máls heldur vegna þess að vitnið hefði hætt notkun fíkniefna.

 

Vitnið F sagðist hafa verið vinkona brotaþola frá árinu 2014 en þekkja ákærða ekkert. Vitnið sagði brotaþola hafa hringt í sig og beðið vitnið um að hitta sig. Vitnið hefði farið til hennar og þá hefði brotaþoli sagt að hún hefði verið að skemmta sér og hafi hitt strák, farið heim með honum, sofið hjá honum, orðið þreytt, hann viljað frekari samfarir en hún neitað og viljað sofa, en hann dregið niður um hana nærbuxurnar og hún aftur upp. Hann hefði þá dregið þær aftur niður „og sem sagt nauðgar henni og gerir það þrisvar“. Í þriðja skiptið hefði hún verið búin að gefast upp. Hún hefði svo farið daginn eftir en bifreið hennar þá ekki farið í gang. Vitnið sagði að sig minnti að þá hefðu foreldrar brotaþola þurft að sækja hana. Vitnið sagðist hafa spurt: „Sem sagt, þetta var nauðgun?“ og hafa sagt brotaþola að „fara upp á slysó“ og láta skoða sig, hvort sem hún vildi leggja fram kæru eða ekki. Þær hefðu farið þangað. Annað væri í móðu.

Vitnið var spurt hvort brotaþoli hefði lýst atvikum í smáatriðum og svaraði: „Sumu, en samt ekki.“

Vitnið sagði að brotaþoli hefði lýst atvikum sem kynlífi „sem hún vildi ekki, sem hún gaf ekki samþykki fyrir.“

Vitnið var spurt um ástand brotaþola er hún hefði lýst atvikum og svaraði: „Ég hef bara aldrei séð hana eins brotna og þegar hún var að segja mér frá þessu. Hún var í rosalega miklu sjokki og svona hálftóm. Og svo eftir þetta hefur nokkurum sinnum komið upp að hún hefur hringt í mig grátandi að fá bara svona kvíðakast, endurupplifanir og bara eiga rosalega erfitt.“

Vitnið var spurt hvort brotaþoli hefði gefið einhverjar skýringar á því að hún hefði verið áfram í íbúðinni og síðar keypt mat fyrir sig og ákærða og kvatt ákærða með kossi. Vitnið sagði að brotaþoli hefði sagt að hún hefði verið „í sjokki og hún viti ekki alveg af hverju hún gerði það.“

 

Vitnið G, móðir brotaþola, sagði brotaþola hafa hringt í sig, nálægt hádegi, og óskað eftir að foreldrar hennar kæmu til [...] og sæktu hana þar sem bifreið hennar hefði verið biluð. Vitnið hefði heyrt „strax á máli hennar að það var eitthvað sem var ekki í lagi“. Vitnið hefði farið strax til manns síns og sagt að þau þyrftu að fara þegar í stað til [...] að sækja brotaþola, bifreið hennar væri biluð og eitthvað hefði komið fyrir. Þau hefðu verið farin á stað fáum mínútum síðar.

Vitnið sagði að bifreið brotaþola hefði verið fyrir utan húsið og vitnið hefði þá hringt í brotaþola sem hefði verið farin inn í húsið aftur vegna kulda. Brotaþoli hefði komið út til þeirra. Vitnið hefði litið á hana og heilsað henni með nafni en brotaþoli hefði lyft hendinni á móti sér og sagt „ekki“. Brotaþoli hefði farið inn í bifreið foreldra sinna en þeir reynt árangurslaust að koma hennar bifreið í gang, og eftir það haft samband við mann sem aðstoðað hefði við að draga bifreiðina burt. Eftir þetta hefðu þau farið heim. Brotaþoli hefði strax lokað sig af inni í herbergi og gefið „skýr skilaboð“ um að hún vildi ekki ræða málin. Upp úr kvöldmat hefði brotaþoli beðið vitnið um að koma með sér upp á spítala þar sem hún ætlaði að tilkynna um nauðgun. Brotaþoli hefði einnig sagt að hún væri búin að tala við F.

Vitnið sagði að líðan brotaþola hefði verið „mjög erfið“ frá atvikinu. Hún hefði hins vegar fengið stuðning og væri búin að standa sig mjög vel.

Vitnið sagðist hafa gefið skýrslu hjá lögreglu í nóvember 2017 og hefði vitnið þá verið búið að reka lengi á eftir því að tekin yrði skýrsla af þeim hjónum. Vitnið sagðist hafa sagt rétt frá.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki lýst atvikunum sjálfum fyrir sér. Vitnið var spurt um það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu að brotaþoli hefði ekki þorað að gráta því ef hún gréti væri hætta á að ákærði berði sig. Vitnið sagðist telja sig hafa sagt þetta við lögreglu og að það hefði hún ekki gert nema brotaþoli hefði sagt sér svo frá. Þó mjög langur tími væri liðinn frá atvikum myndi vitnið eftir þessum orðum brotaþola.

 

Vitnið H, faðir brotaþola, sagði brotaþola hafa hringt í móður sína upp úr hádegi og sagt að hún kæmi ekki bifreiðinni í gang. Foreldrar hennar hefðu farið til [...] þar sem vitnið hefði árangurslaust reynt að koma bifreiðinni í gang.

Vitnið sagði að þau G hefðu hringt í brotaþola þegar þau hefðu komið að bifreiðinni og brotaþoli hefði komið út „og virtist vera mikið niðri fyrir, kom beint inn í bílinn og vildi ekkert, mamma hennar gekk á hana og spurði hvað væri í gangi og hún vildi engu svara um það. Ekki ræða þetta.“ Brotaþoli „setti upp höndina og bara stoppaði mömmu sína af.“ Þau hefðu fengið mann til að hjálpa við að færa bifreiðina og svo hefðu þau farið til [...]. Um kvöldið hefði G sagt vitninu að brotaþoli hefði farið með henni og F vinkonu sinni á neyðarmóttöku til að gefa skýrslu vegna nauðgunar.

Vitnið sagði að auðséð hefði verið að brotaþoli tæki þetta atvik mjög nærri sér. Hún hefði orðið sveiflukennd í skapi.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði aldrei sagt sér af málinu og vitnið hefði ekki gengið á hana með það.

 

Vitnið I lögregluþjónn sagðist hafa fengið málið á sig borð vorið 2015 og hafa aflað gagna frá sálfræðingi og ritað upp rannsóknarskýrslu og slíkt. Eftir það hefði málið verið afhent fulltrúa.

Vitnið sagði gögn um sms-skeyti hafa verið í gögnum málsins er hann hefði tekið við því. Ekki hefði verið kallað eftir fyrri samskiptum ákærða og brotaþola. Vitnið sagðist ekki muna eftir að neitt hefði komið fram um í gögnum málsins sem gefið hefði tilefni til að gera það.

Vitnið sagðist ekki hafa skoðað nærbuxur brotaþola sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

 

Niðurstaða

Ljóst er að ákærði og brotaþoli höfðu umtalsverð samskipti á þeim tíma sem málið varðar. Að undangengnum einhverjum samskiptum, þar sem ákærði hefði meðal annars boðið henni í heimsókn, fór hún til fundar við hann á [...]. Fyrir liggur að þar höfðu þau samfarir, með vilja og þátttöku beggja, hvort sem þau gerðu það tvisvar, eins og brotaþoli segir, eða einu sinni, eins og ákærði segir. Þá liggur fyrir að þau fóru saman út að skemmta sér á laugardagskvöldið og komu svo aftur í íbúðina á [...], og óumdeilt er að bæði hafi verið ölvuð.

Brotaþoli fór á neyðarmóttöku þar sem B læknir skoðaði hana. Með fyrirliggjandi skýrslu um skoðunina og skýrslu læknisins fyrir dómi er sannað að brotaþoli var við skoðunina með þá áverka sem í ákæru greinir. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að brotaþoli hafi fengið áverkana eftir að hún yfirgaf vettvang málsins. Með hliðsjón af skráðum niðurstöðum læknis í skýrslu um skoðunina á neyðarmóttöku og skýrslu B fyrir dómi verður að telja mun líklegra að áverkar, eins og brotaþoli var með, komi til af samförum sem kona er ekki tilbúin fyrir, en samförum sem hún er tilbúin fyrir, þó því verði ekki slegið föstu að áverkarnir séu útilokaðir við síðarnefndu samfarirnar.

Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi og var trúverðug. Hún hefur verið sjálfri sér samkvæm um meginatriði málsins allt frá því hún tjáði sig við lækni í skoðun á neyðarmóttöku. Lýsing foreldra hennar á hegðun hennar er þau hittust í [...] og framhaldinu er einnig því til stuðnings að brotaþoli hafi orðið fyrir einhverju áfalli.

Brotaþoli segir sjálf svo frá að ákærði hafi um nóttina nauðgað sér, hún hafi eftir það sofnað en vaknað við að hann væri byrjaður aftur. Því hafi lokið með annarri nauðgun. Aftur hafi hún sofnað. Enn hafi hún vaknað við að ákærði væri að reyna eitthvað að nýju. Þá hafi hún ekki gert neitt heldur bara legið. Daginn eftir hafi hún farið út, keypt handa þeim hamborgara sem þau hafi borðað. Annað hvort fyrir það eða eftir hafi hún, eftir beiðni ákærða, veitt honum munnmök. Hún hafi hringt til foreldra sinna þar sem bifreið hennar hafi verið biluð. Hún hafi um tíma beðið inni hjá ákærða eftir foreldrum sínum og við brottför kysst hann á munninn í kveðjuskyni. Fyrir dómi var hún spurð hvers vegna hún hefði ekki farið, heldur legið áfram hjá manni sem hún teldi hafa nauðgað sér. Hún sagðist ekki vita nákvæmlega hvað hún hafi verið að hugsa en hún hafi verið í sjokki. Hún var spurð hvers vegna hún hefði farið og keypt mat fyrir sig og manninn sem hún taldi hafa nauðgað sér ítrekað og vísaði hún þá til þess að hún hefði verið í sjokki, hún hefði viljað láta eins og ekkert væri og ekki viljað búa til vandamál. Við mat á þessu verður að horfa á aðstæður allar. Ákærði og brotaþoli voru ekki ókunnugt fólk heldur höfðu þau áður verið í sambandi í eitt og hálft ár eða svo. Brotaþoli hafði farið til hans í [...] og vel farið á með þeim og þau meðal annars haft samfarir og farið saman út að skemmta sér. Bæði voru ölvuð. Sé sú frásögn brotaþola rétt, að ákærði hafi við þessar aðstæður nauðgað henni, verður að ætla að það hafi orðið henni mikið og skyndilegt áfall. Verður að hafa þetta í huga þegar lagður er dómur á athafnir hennar eða athafnaleysi á þessum tíma. Almennt verður að telja nærtækt einstaklingur, sem orðið hefur fyrir nauðgun, vilji hafa sem minnst saman að sælda við þann sem þann verknað hefur framið og vilji hvorki deila með honum rúmi né borða með honum að nauðsynjalausu. Engu að síður verður ekki litið svo á að þeir einstaklingar, sem verða fyrir broti eins og brotaþoli segist hafa orðið fyrir, hljóti allir að bregðast eins við því áfalli sem brotið veldur.

Þær athafnir og athafnaleysi brotaþola sem hér hafa verið rakin eru því vissulega ekki til styrktar að ákærði hafi brotið gegn brotaþola með þeim hætti sem í ákæru greinir. Á hinn bóginn þykir, að öllu framangreindu athuguðu, sem ekki megi draga mjög afgerandi ályktanir af þessum atriðum.

Brotaþoli segir að hún hafi sent ákærða skilaboð þess efnis að til sé orð um það sem hann hafi gert henni, hann viti vel hvaða orð það sé, og hún vilji ekki tala við hann framar. Slík skilaboð liggja ekki fyrir í málinu. Ákærði segist ekki hafa fengið þau en brotaþoli segist hafa eytt þeim. Hitt liggur fyrir að ákærði sendi brotaþola sms-skilaboð og mun það hafa verið mánudaginn 13. janúar 2015.  Í þeim skilaboðum segir ákærði að hann vilji spjalla aðeins „eftir þetta“, hann vilji sættast og hann voni að brotaþoli geti fyrirgefið sér. Sér þyki vænt um brotaþola. Vilji hún tala við sig geti hún hringt en vilji hún það ekki þá virði hann það og kveðji. Sér þyki „ömurlega leiðinlegt að missa vin eins og [hana] út af þessu“. Hann hafi skemmt sér mjög vel en viti að hann hafi verið „of ákafur við [brotaþola] þarna í endann.“ Hann vilji bæta henni það upp einhvern veginn frekar en að hætta að tala við hana.

Þessi skilaboð bera skýrlega með sér að eitthvað alvarlegt hafi komið fyrir. Samkvæmt þeim hefur eitthvað það komið fyrir sem varðar vinslitum þó ákærði vilji sættast og voni að brotaþoli geti fyrirgefið sér. Ákærði segist virða það ef brotaþoli talar aldrei við hann aftur.

Fyrir dómi gaf ákærði skýringar á skilaboðunum og sagðist hafa haldið að brotaþoli væri með „einhvern móral“, þó hann vissi ekki af hverju hann hefði haldið það. Hann vísaði til skrýtins andrúmslofts og að hann hefði ekki treyst aðstæðum. Ef frásögn ákærða af kvöldinu er rétt hafa öll kynferðissamskipti þeirra verið með samþykki beggja. Fyrir liggur að undir lok heimsóknarinnar veitir brotaþoli ákærða munnmök, kaupir mat handa þeim og kveður hann með kossi. Skilaboð ákærða í sms-skeytinu eru langt umfram það sem útskýrt verður með skrýtnu andrúmslofti eða mögulegum „móral“ sem engin skynsamleg skýring hefur komið fram um hvers vegna hefði átt að vera. Rakin voru þau skilaboð sem brotaþoli kveðst hafa sent ákærða. Sms-skeyti ákærða hefur yfirbragð viðbragða við því skeyti sem brotaþoli segist hafa sent. Hann vill sættast, hann biðst fyrirgefningar, hann segist hafa verið of ákafur við brotaþola í endann, hún geti hringt ef hún vill en hann muni virða það ef hún vill ekki tala við hann aftur. Skýringar ákærða á skeyti sínu og þeirri trú sinni að brotaþoli vilji ekki tala við sig aftur, án þess að nokkuð kynferðisbrot hafi verið framið og án þess að hann hafi fengið það skeyti sem brotaþoli segist hafa sent honum, voru óljósar og ekki trúverðugar. Samkvæmt öllu framansögðu verður að leggja til grundvallar að brotaþoli hafi í raun sent ákærða það skeyti sem hún segist hafa sent og sms-skeyti hans hafi verið viðbrögð við því.

Að öllu þessu athuguðu þykir sms-skeyti ákærða veita ákærunni verulega stoð. Hann andmælir brotaþola þar ekki heldur vill sættast, vonar að hún geti fyrirgefið og segist hafa verið of ákafur við hana.

Þegar horft er á framanritað, trúverðugan framburð brotaþola, þá áverka sem hún var með við komu á neyðarmóttöku, skoðun læknisins sem skoðaði hana á áverkunum og umrætt sms-skeyti ákærða þykir hafa verið rennt mjög verulegum stoðum undir ákæruna. Viðbrögð brotaþola, fram að því hún yfirgaf vettvanginn endanlega, þykja í ljósi þess sem um það atriði var rakið ekki veikja þær stoðir svo neinum úrslitum ráði. Þegar á allt framanritað er horft verður að telja að ákæruvaldið hafi fært lögfulla sönnun fyrir því að ákærði hafi umrætt sinn tvívegis náð fram samræði við brotaþola með því að beita hana ólögmætri nauðung eins og rakið er í ákæru. Með því braut hann gegn 1. mgr. þág. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en síðari breytingar á lagagreininni hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu.

Af sakaferli ákærða er þess að geta hér að [...] 2016 var gerð við hann sátt sem fól í sér greiðslu [...] króna sektar vegna fíkniefnalagabrots og [...] 2017 var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir framdi hann í janúar 2015 og verður refsing hans því ákveðin sem hegningarauki.

Brot ákærða var alvarlegt og beindist að fyrrverandi unnustu hans sem horfir til refsiþyngingar. Ákærði lagði fram gögn um að hann hefði verið til meðferðar á vegum SÁÁ um tveggja mánaða skeið á árinu 2018. Brotaþoli lagði fram kæru sína 19. janúar 2015 og ákærði var yfirheyrður ekki löngu síðar. Ákæra er gefin út í maí 2018 með þeim aðdraganda sem rakinn var. Ekkert hefur komið fram um að ákærða verði kennt um þann mikla drátt sem þannig varð á málinu. Hafa engar skýringar komið fram á honum. Þegar á allt er horft verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í átján mánuði og er ekki unnt að binda hana skilorði. Ákærði hefur framið ólögmæta meingerð gegn brotaþola og ber bótaábyrgð á henni. Ljóst er að málið hefur tekið brotaþola þungt og hún hefur nú glímt við afleiðingar þess í rúm fjögur ár. Batahorfur hennar að mati sálfræðings eru tiltölulega góðar. Þegar á allt er horft verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 1.200.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir en bótakrafa mun hafa verið fyrst kynnt ákærða 27. febrúar 2015. Ákærði verður dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 1.076.320 króna, 12.540 króna ferðakostnaðar verjandans, 737.800 króna þóknun skipaðs réttargæzlumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns og annan sakarkostnað sem gögnum málsins nemur 300.070 krónum. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun beggja lögmanna. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins fór Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, X, sæti fangelsi í átján mánuði.

Ákærði greiði Y 1.200.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2015 til 27. marz 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.076.320 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 12.540 króna ferðakostnað verjandans, 737.800 króna þóknun skipaðs réttargæzlumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, og 300.070 króna annan sakarkostnað.