• Lykilorð:
 • Aðild
 • Framsal kröfu
 • Kröfuréttur
 • Orsakatengsl
 • Skip
 • Sönnun
 • Sönnunarbyrði
 • Útgerð
 • Vátrygging
 • Vátryggingarsamningur
 • Viðurkenningardómur
 • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 6. febrúar 2019 í máli nr. E-136/2018:

Birnir ehf.

(Björn Jóhannesson lögmaður)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 22. desember 2017 og dómtekið 23. janúar 2019. Stefn­andi er Birnir ehf., Þuríðarbraut 11, Bolungarvík. Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda á grund­velli þeirrar húftryggingar fiskiskipa sem Sædís ehf., kt. 000000-0000, hafði hjá stefnda vegna þess tjóns sem varð vegna bilunar í gír skipsins Ísbjörns ÍS-304, skipa­skrár­­­­­númer 2276, þann 4. desember 2014. Þá er gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

Stefndi krefst sýknu og að stefnda verði dæmdur málskostnaðar að mati réttarins.

 

II.

Málsatvik:

Frystitogarinn Ísbjörn ÍS-304, með auðkennið 2276 í skipaskrá, var húf­tryggður hjá stefnda. Vátryggingartakinn var útgerðarfélagið Sædís ehf., sem jafnframt var eig­andi skipsins, og hinn vátryggði. Heimahöfn skipsins var í Bolungarvík. Vátrygg­ingin tók meðal annars til tjóns á aðalgír skipsins að því gefnu að tjónið félli undir ákvæði í skil­­málum tryggingarinnar. Að sögn stefnanda var skipt um olíu á aðalgírnum í nóv­ember 2013 og mun hún hafa verið hrein og því gefið til kynna að ástand gírsins væri gott. Í desember 2013 var skipið skoðað af starfsmönnum fyrirtækisins Det Norske Veritas sem veitir þjónustu á sviði gæðastjórnunar, áhættu­mats o.fl. Við þá skoðun var einnig gert við eldra skrúfutjón á skipinu, sem var bóta­skylt hjá stefnda. Mun þá hafa verið gert við skrúfublöð og athugað með þétt­ingar á skrúfu og stefnis­röri og hafi starfs­­­menn stefnda haft eftirlit með þeirri viðgerð.

Með leigusamningi, dagsettum 15. febrúar 2014, leigði eig­and­i skipsins það til út­gerðarfélags í Grænlandi, Suluk Fish A/S. Útleigan var með samþykki stefnda og var áfram miðað við að eigandi skipsins væri vátryggingartaki og hinn vátryggði. Skipið var afhent til leigu­­­taka um mán­aðamótin apríl/maí 2014. Að sögn stefnanda var skipið og bún­aður þess sérstaklega yfir­farinn hér á landi fyrir þá afhendingu. Að sögn stefn­anda kom ekkert fram við þær skoðanir sem benti til annars en að skipið væri í góðu lagi, þar á meðal aðal­vél, ljósavélar, gír og annar búnaður. Leigu­taki réð áhöfn á skipið og greiddi henni laun. Áhöfnin var útlend að því frá­töldu að yfirvélstjóri, Brynjólfur Már Sveins­­son, var ís­lenskur. Við aðalmeðferð var upplýst að áhöfn skips­ins hefði verið lögskráð á Íslandi og skipið verið skráð í íslenska skipaskrá þrátt fyrir út­leigu þess til grænlenskrar útgerðar. Að sögn stefnanda hafði yfirvélstjórinn áður verið í áhöfn skips­ins, meðal annars þegar það var gert út af stefnanda sem fyrri leigu­taka skipsins. Skip­inu var í framhaldi siglt til Græn­lands. Leigutakinn nýtti skipið til fryst­ingar á grá­­lúðu sem veidd var á smábátum á græn­lensku haf­svæði við vestur­strönd Grænlands þar sem skipið var staðsett hverju sinni.

Að sögn stefnanda hringdi yfirvélstjórinn í Jón Guðbjartsson, for­svars­­mann Sæ­dísar ehf., í maí 2014 og mun þá allt hafa gengið vel með skipið. Þann 18. sept­­­­ember sama ár hringdi yfirvélstjórinn aftur í Jón en þá kom fram að aðalgír skipsins væri far­­­­inn að leka olíu. Að sögn stefnanda mun yfirvélstjórinn hafa tjáð Jóni í sím­talinu að hann þyrfti að bæta átta til tólf lítrum af olíu á gírinn á hverri vakt og ekki væri vitað hver væri orsök lekans en hann talið að væri mögulega leki með pakkdós. Að sögn stefn­­­­­­­­­­­anda mun Jón í símtalinu hafa talið mögulegt að lekinn væri um olíukæli og hafi hann spurt yfirvélstjórann um það en ekki fengið svar. Þá mun Jón hafa gefið fyrir­mæli um að kanna orsök olíulekans og beðið um að honum yrði haldið upp­lýstum. Að sögn stefnanda mun Jón einnig hafa bent yfirvélstjóranum á að láta gera við bilunina án tafar og hann lagt fyrir hann að láta leigutakann vita um lekann. Hinn 4. desember sama ár kom skipið til hafnar í Nuuk í Grænlandi með bilaðan aðalgír. Sama dag, að sögn stefn­anda, fékk Jón upp­lýsingar um stöðuna á skipinu og jafnframt að leigu­­takinn hefði kallað til starfs­menn frá Stál­smiðjunni Framtaki ehf. til að láta greina bil­unina og kanna með viðgerð á gírn­um. Þá hafði Jón samband við stefnda sama dag til að tilkynna um meint bóta­skylt tjón. Að sögn stefn­anda höfðu starfsmenn stefnda þá þegar verið búnir að fá upp­lýs­ingar um bilunina og fyrr­greinda að­komu starfsmanna Stál­­­smiðjunnar Framtaks ehf. Á þessum tíma, að sögn stefnanda, hafði Jón ekkert verið búinn að heyra frá yfirvélstjóranum eða leigutaka skipsins frá því fyrrgreint sím­tal átti sér stað 18. september 2014.

Með bréfi 26. janúar 2015 var vátryggingartaka tilkynnt að stefndi hafnaði bóta­skyldu og frekari aðkomu að málinu. Vísað var til tilkynn­ingarinnar sem stefnda hafði borist frá vátryggingartaka 4. des­­ember 2014 og upplýsinga sem hann hefði fengið frá Stál­smiðjunni Framtaki ehf. varð­andi bilunina. Tekið var fram að tveir starfsmenn stefnda hefðu 21. janúar 2015 skoðað íhluti úr aðalgírnum og að skoðunin hefði leitt í ljós að greinilegt væri að sjór hefði verið á gírnum í langan tíma. Vikið var að mögu­legum orsaka­­þáttum, meðal annars meintri rangri samsetningu pakkdósa og að ekki hefði verið smurt í kopp á milli pakk­dósa. Þá var fjallað nánar um ryð og tær­ingu á ein­­stök­um hlut­um gírs­ins. Vísað var til 9. gr. húf­­tryggingar­innar um undan­skildar áhættur, nánar til­tekið til undir­­greinar 9.3 um ófull­­­nægjandi við­hald, tæringu o.fl. Í niður­stöðunni var tekið fram að stefndi legði til grund­­­­vallar að um væri að ræða lang­varandi keyrslu gírsins á sjó­bland­­­aðri olíu með til­­­­heyrandi tær­ingu og sliti og því ætti undirgreinin við. Gilti þá einu hver orsökin væri, hvort heldur hún væri vegna rangrar samsetningar pakk­dósa eða af öðrum or­sök­­­­um. Að mati stefnda þótti ljóst að aðal­gír­inn hefði verið keyrður lengi á sjó­bland­aðri olíu og að koma hefði átt í veg fyrir það.

Vátryggingartaki skaut fyrrgreindri afstöðu stefnda til Úrskurðarnefndar í vá­trygg­­inga­­málum sem staðfesti afstöðu stefnda með áliti 21. apríl 2015. Í forsendum álits­­ins var lagt til grundvallar að vá­tryggingartaki hefði í september 2014 vitað af því að gera þyrfti við gírinn þar sem þá hefði legið fyrir að hann lak miklu magni af olíu. Tekið var fram að vátryggingartaki hefði ekki lagt fram gögn sem sönnuðu staðhæf­ingar um hvað hann teldi að hefði valdið lekanum. Taldi nefndin, miðað við gögn máls­­­ins, að tjónið á gírnum í desember 2014 hefði orðið vegna ófullnægjandi viðhalds og varð það rakið til tær­­ingar eða slits. Þá var tekið fram að slík tjón væru undanskilin bóta­­­skyldu sam­kvæmt undir­grein 9.3 í vátryggingaskilmálum.

Á árinu 2015 var reynt að gera við bilunina í aðalgírnum og framan af var unnið að viðgerð á meðan skipið var í höfn í Nuuk. Það reyndist hins vegar árangurslaust. Í októ­­ber sama ár var skipið dregið til Íslands til frekari viðgerðar. Að sögn stefnanda reyndust framan­greindar ráðstafanir o.fl. mjög kostnaðarsamar og var leigutaki skips­ins ekki í stakk búinn að greiða neitt af þeim kostn­aði. Leigutakinn var síðan tekinn til gjald­þrota­skipta í júlí 2015. Að sögn stefnanda reyndist kostnaðurinn af biluninni mjög þung byrði fyrir rekstur Sædísar ehf., eiganda skipsins. Skipið var að lokum selt úr landi að kröfu Íslandsbanka hf., sem var viðskiptabanki félags­ins og veðhafi skips­ins. Var þá ekki búið að gera við skipið og var það óhaf­fært. Að sögn stefnanda nægði söluandvirðið ekki til að standa skil á öllum áhvílandi veð­skuld­um skips­ins og blasti greiðslu­þrot við Sædísi ehf. Með skrif­legri yfirlýsingu, dag­settri 2. ágúst 2016, fram­seldu forsvars­menn Sædísar ehf. hugsanlega kröfu félags­­ins á hendur stefnda vegna um­rædds tjóns til stefnanda. Að sögn stefnanda var ástæða framsalsins sú að Sædís ehf. hafði ekki fjárhagslega burði til að halda áfram með málið gagnvart stefnda né heldur gat félagið greitt skuld sem það var í gagnvart stefnanda. Með úr­skurði Héraðs­dóms Vest­­fjarða 21. september 2016 var Sædís ehf. tekin til gjald­þrota­­skipta. Að sögn stefn­anda voru hann og Íslandsbanki hf. stærstu lánar­drottnar félags­­ins en þeir höfðu lagt því til umtals­verða fjármuni, meðal annars þegar fyrr­greindir erfiðleikar stóðu yfir hjá félaginu. Að sögn stefnanda gerðu hvorki skipta­­stjóri né Íslands­banki hf. neinar athuga­semdir við fyrr­greint framsal á kröfunni. 

Fyrirsvarsmaður stefnanda og fyrrverandi fyrirsvarsmaður Sædísar ehf., Jón Guð­bjartsson, gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Þá gáfu skýrslu vitnis Hlynur Jóns­son, fyrr­­verandi tjónamatsmaður hjá stefnda, Ægir Björgvinsson, fyrrverandi starfs­maður Stál­smiðjunnar Framtaks ehf., og Tryggvi Guðmundsson lögmaður.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda á því tjóni sem varð á gír fyrrgreinds skips í desember 2014 þegar skipið var á Grænlandsmiðum. Stefnandi vísar til þess að þáverandi eigandi skipsins, Sædís ehf., hafi verið með húf­trygg­ingu í gildi hjá stefnda á þeim tíma þegar skipið var á leigu hjá Suluk Fish A/S. Trygg­­ingunni hafi verið ætlað að tryggja eiganda skipsins fyrir skemmd­um á skipinu og fylgifé þess, sbr. vátryggingar­skírteini og vátryggingaskilmála húftryggingarinnar.

Stefnandi tekur fram að ágreiningur málsins snúist fyrst og fremst um það hvort húf­­­­trygging skipsins taki til þess tjóns sem sannanlega varð á gír skipsins í desember 2014 eða hvort undanþáguákvæði vátryggingaskilmálanna geri það að verkum að tjónið sé utan ábyrgðar tryggingarinnar.

Stefnandi vísar til vátryggingaskilmála húftryggingarinnar, en þar greinir meðal annars í undirgrein 2.1 að tryggingin taki til þess skips sem tilgreint sé í vátrygginga­skírteini tryggingarinnar, fylgifjár þess, vista og birgða, sem eðlilegar megi teljast. Til skips og fylgi­­fjár þess teljist meðal annars vélar skipsins, gangskrúfa og aðrar skrúfur, ásamt öxl­um og gírum, vindur, rafkerfi, fiskileitartæki, dýptarmælir, ratsjá, leiðsögu­tæki, loft­­­­skeyta- og kalltæki ásamt öðrum nauðsynlegum búnaði og varahlutum skips­ins. Í 6. gr. skilmálanna um gildissvið tryggingarinnar, nánar tiltekið undirgrein 6.2, komi meðal annars fram að vátryggingafélagið bæti skemmdir á skipinu sökum skyndi­­­­­­­legrar og óvæntrar óhappa­­­­tilviljunar, nema sérstök undantekning sé gerð í vá­trygg­­­ingar­samningi. Þá komi jafnframt fram í undirgrein 6.4 að félagið bæti skemmdir á skipinu sem verði raktar til yfir­sjónar eða vanrækslu skipverja eða þriðja manns. Stefn­­­andi vísar til 9. gr. skil­mál­anna en þar sé fjallað um undanþáguákvæði trygg­ingar­­innar og þar séu tilgreind til­vik sem ekki séu bætt á grundvelli tryggingarinnar. Í undir­grein 9.3 komi meðal annars fram að trygg­ingin bæti ekki skemmdir sem verði af ófullnægjandi viðhaldi, fúa, þreytu, tær­ingu, sliti eða af sambærilegum orsökum.

Stefnandi telur einsýnt af þeim gögnum og upplýsingum sem liggi fyrir í málinu, að því er varðar bilunina sem varð á gír skipsins í desember 2014, að bil­unina megi fyrst og fremst rekja til yfirsjónar og/eða vanrækslu af hálfu yfir­vél­stjóra skips­ins. Telur stefnandi að gögn málsins gefi til kynna, og það sé auk þess ágreiningslaust hjá aðilum, að olía hafi lekið út af gírnum með einhverjum hætti og að sjór komist inn í gír­inn. Stefnandi telur hins vegar að ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti hver hafi verið ástæða þess að sjór komst inn í gírinn. Þeir aðilar sem hafi skoðað gírinn eftir á, telji hins vegar líklegast að það hafi átt sér stað með pakkdós eða olíu­kæli. Að þessu virtu telur stefnandi fullvíst að skyndileg eða óvænt óhappatilviljun hafi valdið fyrr­­greind­­um olíu­leka, nánar tiltekið að pakkdós hafi gefið sig eða gat komið á olíu­kælinn sem hafi gert það að verkum að olía lak út af gírnum. Í þessu sambandi bendir stefn­andi á að mikil­vægt sé að hafa í huga að öllu reglubundnu viðhaldi á skipinu og vél­búnaði þess hafi alla tíð verið sinnt mjög vel á meðan skipið var í eigu Sædísar ehf. Því til viðbótar hafi reglulega farið fram úttektir á skipinu og búnaði þess af hálfu Det Norske Veritas o.fl.  

Stefnandi byggir á því að fyrirliggjandi gögn málsins staðfesti að Brynjólfi Má Sveinssyni heitnum, yfirvélstjóra skips­ins, sem lést 23. maí 2015, hafi verið kunnugt um það í september 2014 að gír skipsins væri farinn að leka olíu. Í því sambandi vísar stefnandi til sím­tals sem yfirvélstjórinn átti við Jón Guðbjartsson, fyrirsvarsmann þá­ver­andi eiganda skipsins, 18. september 2014. Í símtalinu hafi komið fram að aðalgír skips­ins læki olíu og að hann þyrfti af þeim sökum að bæta um það bil 8–12 lítrum á gír­inn á hverri vakt. Þá sé þetta jafnframt í samræmi við upplýsingar í véladag­bók skips­ins. Stefn­andi byggir á því að það hafi verið vanræksla af hálfu yfir­vélstjórans að hann hafi látið það við­gangast í svo langan tíma að bæta stöðugt olíu á gír­inn án þess að kanna hver væri orsök lekans og að láta ekki lagfæra bilunina. Stefn­andi telur að koma hefði mátt í veg fyrir skemmdir á gírnum ef kannað hefði verið með orsakir lek­ans og brugðist við með viðgerð þegar í stað. Stefnandi telur að óhætt sé að fullyrða að yfirvélstjóranum hafi mátt vera það ljóst að olíulekinn gæti haft alvarlegar afleið­ingar fyrir gírinn. Að því virtu hafi verið um að ræða alvarlega yfir­­sjón og vanrækslu af hálfu yfirvélstjórans.

Varðandi sönnun á tjóninu, ástæðum þess og umfangi, vísar stefnandi til þess að ítar­leg skoðun hafi farið fram á gír skipsins og íhlutum hans eftir að skipið kom til hafnar í Nuuk á Grænlandi. Starfsmenn Stálsmiðjunnar Framtaks ehf. hafi skoðað gír­inn og íhluti úr honum. Niðurstaða þeirra hafi verið sú að skemmdirnar á gírnum mætti rekja til þess að sjór hefði komist inn í gírinn og verið þar um einhvern tíma. Hins vegar hafi verið talið erfitt að segja nákvæmlega til um orsök lekans en líklegast var talið að vatn hefði komist inn með pakkdós. Víða hafi verið komin tæring og ryð í ein­staka hluta gírs­­­ins sem gefi til kynna að sjór hafi um einhvern tíma legið á slit­flötum hans. Í þessu sambandi bendir stefn­andi á að hafa verði í huga að gír skipsins hafi verið skoðaður ítar­lega áður en skipinu var siglt til Grænlands um mánaðamótin apríl/maí 2014. Einnig hafi verið skipt um olíu á gírnum í nóvember 2013. Þá hafi ekkert bent til annars en að gírinn væri í mjög góðu ásigkomulagi. Stefnandi byggir á því að fyrir liggi sönnun fyrir því að orsök olíulekans á gírnum megi rekja til bilunar í búnaði skips­­­ins sem hafi gert það að verkum að olía lak út af gírnum með þeim afleið­ing­um að gír­inn skemmdist. Í því sambandi breyti í raun engu hvort sjór hafi komist inn í gírinn með olíukæli eða með pakkdós þar sem í báðum tilvikum sé þá um að ræða bilun sem húf­trygg­ing skipsins nái yfir. Þá byggir stefnandi á því að það sé ekkert sem bendi til þess að fyrrgreinda bilun í gírnum megi rekja til ónógs viðhalds á búnaði skips­ins en það liggi hins vegar fyrir að viðbrögð yfirvélstjórans hafi í sept­ember 2014 verið með öllu óvið­unandi eftir að honum varð ljóst um lekann. Stefnandi vísar til þess að hann hafi fengið starfsmenn Skipaþjónustu Íslands ehf. til að skoða véla­­dag­bók skipsins og önnur gögn varðandi gírinn í þeim tilgangi að gefa álit á því hvað hafi orsakað bilun­ina í gírnum. Í álitsgerð þeirra komi meðal annars fram að ljóst sé að vél­stjóri skipsins hafi á margan hátt ekki sinnt skyld­um sínum, meðal annars hafi hann ekki mælt reglu­lega magn olíu á gírnum. Þá hafi vélstjórinn keyrt gírinn með of litlu magni af olíu svo dæmi séu nefnd.

Stefnandi byggir á því að undanþágur samkvæmt undirgrein 9.3 í vátrygginga­skil­málum húftryggingarinnar eigi ekki við í málinu. Stefnandi tekur fram að hann mót­­mæli ekki þeirri niðurstöðu starfsmanna Stálsmiðjunnar Framtaks ehf. að tæring hafi verið í gírnum og einstökum íhlutum hans. Stefnandi telur hins vegar engum vafa undir­­orpið að bilunin í gírnum hafi ekki orsakast af tæringu heldur sé tæringin afleið­ing þess að sjór komst inn í gírinn. Þannig orsakast bilunin alls ekki af tæringu eða öðrum þeim atriðum sem tilgreind séu í undirgrein 9.3. Tæringin sé hins vegar afleið­ing bil­unar­innar. Í undirgreininni komi fram að tryggingin bæti ekki tjón sem verði rakið til ófull­­nægjandi viðhalds. Ákvæðið eigi fyrst og fremst við um tilvik þar sem vá­­trygg­ingar­­taki sinnir ekki reglubundu og eðlilegu viðhaldi skips­ins eða fylgifé þess. Það eigi ekki við í máli þessu. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að í mál­inu liggi fyrir gögn sem sýni fram á að reglubundu og hefðbundnu viðhaldi skipsins hafi verið mjög vel sinnt. Bendir stefnandi á að skipið var allt yfirfarið hér á landi þegar það var leigt út og því siglt til Grænlands um mán­aðamótin apríl/maí 2014. Sú yfir­ferð hafi gefið til kynna að allt væri í góðu lagi, þar á meðal aðal­vél, ljósa­vélar, gír og allur annar búnaður skipsins. Þessu til við­bótar hafi verið búið að taka skipið í slipp til skoð­­­­­­unar og eftirlits af starfsmönnum Det Norske Veritas nokkrum mán­uðum fyrir fyrr­­­­greinda útleigu. Gögn málsins gefi þannig til kynna að lögmæltu og reglubundnu við­­­­haldi skipsins hafi verið mjög vel sinnt. Að þessu virtu telur stefn­andi að stefndi geti ekki undanþegið sig bóta­skyldu á grundvelli undanþágu samkvæmt undirgrein 9.3 í skilmálum tryggingar­innar. Stefnandi byggir jafnframt á því að yfirsjón eða van­ræksla af hálfu einstakra skip­verja geti ekki undir nokkrum kringumstæðum talist skortur á viðhaldi af hálfu tryggingartaka. Skemmdir sem raktar verði til yfirsjónar eða vanræksla af hálfu skip­verja eða þriðja manns beri hins vegar að bæta samkvæmt skýr­um ákvæðum í undirgrein 6.4 í skilmálum tryggingarinnar.

Samkvæmt framansögðu byggir stefnandi á því að það tjón sem varð á gír skips­ins í desember 2014 megi annars vegar rekja til skyndilegrar bilunar í búnaði skipsins sem orsakaði olíuleka af gírnum og hins vegar til vanrækslu og/eða yfirstjórnar yfir­vélstjóra skipsins að kanna ekki þegar í stað hverjar væru ástæður lekans og láta gera við bilunina. Að mati stefnanda séu þessar orsakir samtvinnaðar og báðar nauð­syn­­­legar. Að þessu virtu byggir stefnandi á því að tjón hans falli ótvírætt undir ábyrgð stefnda samkvæmt undirgreinum 6.2 og 6.4 í skilmálum tryggingarinnar.

Þessu til viðbótar vísar stefnandi til þess að meginreglan sé sú að húftryggingu skips sé ætlað að bæta allt það tjón sem verði á skipi og fylgifé þess. Frá þessari megin­­­­­­­­­reglu séu hins vegar nokkrar undantekningar í vátryggingarskilmálunum. Í því sam­­­­bandi verði að hafa í huga, út frá almennum lögskýringarsjónarmiðum, að allar slíkar undan­tekningar beri að skýra þröngt. Stefnandi byggir á því að stefndi beri sönn­­­­­­­­­unar­byrðina fyrir því að fyrrgreind undanþáguákvæði tryggingarskilmálanna eigi við. Stefnandi telur að engin sönnun liggi fyrir í þeim efnum. Þvert á móti telur stefn­­andi að það liggi fyrir sönnun á því að ástæður tjónsins megi rekja til olíuleka frá gírn­um og van­rækslu yfir­vélstjóra skipsins við að bregðast við lekanum. Því til við­bótar bendir stefn­­­andi á að allan vafa í ákvæðum vátryggingarskilmálanna beri sam­kvæmt almenn­um lög­­­skýr­ingar­­sjónarmiðum að túlka stefnda í óhag þar sem skil­málar trygg­ingar­innar séu staðlaðir og samdir einhliða af stefnda.

Að öllu framangreindu virtu byggir stefnandi á því að bótaábyrgð stefnda grund­vallist fyrst og fremst á ákvæðum laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga en einnig á ákvæðum vátryggingarskilmála sem giltu um húftryggingu skipsins. Stefn­andi tekur fram að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um bótaskyldu stefnda vegna fyrrgreinds tjóns og því séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um með­­ferð einkamála. Stefnandi tekur fram að með skriflegri yfirlýsingu, dagsettri 2. ágúst 2016, hafi Sædís ehf. framselt til hans þá kröfu sem félagið taldi sig eiga á hendur stefnda vegna umrædds tjóns. Að þessu virtu sé stefnandi réttur eigandi kröf­unnar og réttur aðili máls þessa.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 30/2004, þar með talið til ákvæða III.-VI. kafla þeirra laga. Stefnandi vísar einnig til meginreglna skaða­bóta­réttarins um bótaábyrgð, sönnunarbyrði, sönnunarfærslu og túlkun vátrygg­inga­samn­­inga. Þá vísar stefnandi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingar­gildi samn­inga. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 varð­andi varnarþing, auk ákvæða XXI. kafla sömu laga varðandi málskostnað.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi krefst í fyrsta lagi sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi vísar til þess að umrætt tjón, ef það er bótaskyld, varði þáverandi eig­anda skipsins og aðra þá sem eiga eða áttu réttindi í skipinu, svo sem veðhafa. Stefndi vísar til undirgreinar 29.1 í húftryggingarskilmálum þar sem fram komi að séu hinir vá­tryggðu hagsmunir veðsettir þá teljist vátryggingin einnig til hagsbóta fyrir veðhafa. Stefndi vísar til þess að Sædís ehf. hafi verið eigandi skipsins. Dagsetning framsalsins, 2. ágúst 2016, hafi verið rúmum mánuði áður en Sædís ehf. var lýst gjaldþrota. Í fram­salinu sé hins vegar ekki getið um afstöðu veðhafa sem þó hafi verið þörf á í ljósi fyrr­greinds skilmála um réttindi veðhafa. Að þessu virtu byggir stefnandi á því að stefndi sé ekki réttur aðili til að höfða málið og því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann.

Í öðru lagi krefst stefndi sýknu á grundvelli ákvæða skilmála þeirrar húf­trygg­ingar sem málið varðar. Stefndi vísar einkum til undirgreinar 9.3 í þessu sam­bandi en tekur jafnframt fram að önnur ákvæði skilmálanna eigi einnig við til skoðunar og fyll­ingar. Varð­andi skilmálana og túlkun þeirra þá bendir stefndi á að um sé að ræða skil­mála í atvinnurekstri, sbr.  2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2004. Að því virtu telur stefndi að það hafi takmarkaða þýðingu fyrir stefnanda að bera fyrir sig óskilgreindar skýringar­reglur um ákvæði skilmálanna. Skilmálarnir hafi verið í gildi um húftryggingar skipa um langan tíma og þar á undan hafi verið í gildi sambærilegir enskir skilmálar. Stefndi byggir á því að undirgrein 9.3 í skilmálunum skipti mestu máli fyrir úrlausn málsins. Þær reglur sem þar komi fram hafi verið í gildi um langan tíma og ekki hafi verið ágrein­ingur um túlkun þeirra varðandi tjón sem rekja megi til skorts á eðlilegri var­kárni (e. due dili­gence).

Stefndi vísar til þess að stefnandi haldi því fram sjálfur að tjónið megi annars vegar rekja til yfir­sjónar eða vanrækslu af hálfu skipverja og hins vegar að það megi rekja til bilunar í bún­aði skipsins. Stefndi telur að vart verði annar skilningur lagður á málsástæður stefn­­­anda en að hann telji að tjónið sé allt að einu bótaskylt þar sem um sé að ræða bilun og að vátryggður beri ekki ábyrgð á mistökum skipverja. Í þessu sam­­­­­bandi vísar stefndi til þess að bótasvið skilmála varðandi tjón sé skýrt afmarkað í 6. gr. skil­mál­anna. Þá verði að taka tillit til 9. gr. sömu skilmála um undanskildar áhættur. Stefndi vísar til þess að við skýringu ákvæðanna sé ekki unnt að taka út ein­stök ákvæði í 6. gr. án þess að taka tillit til ákvæða í 9. gr. Lesa verði skilmálana í heild og sam­hengi. Stefndi vísar til þess að 9. gr. feli í sér hlutlægar undanþágur frá því sem annars ætti að bæta samkvæmt 6. gr. Hlutlæg undanþága í skilmálum merki tjón sem ekki sé bætt og skipti þá huglægar ástæður eða afstaða engu máli. Ef skilyrði sam­kvæmt 9. gr. eigi við þá leiði það til þess að tjón er ekki bótaskylt hvað sem líður hug­­lægri afstöðu vátryggðs til þeirra sem hugsanlega voru valdir að tjóninu. Stefndi byggir á því að það sé augljóst í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga að ákvæði 9. gr. eigi við í máli þessu.

Að þessu frátöldu byggir stefndi á því að það liggi fyrir og sé óumdeilt að vá­tryggður vissi um olíuleka í skipinu þegar í september 2014. Að því virtu hafi vá­tryggð­­­­um borið að gera viðhlítandi ráðstafanir svo sem með því að hlutast til um að gert væri við lekann. Að mati stefnda hefði að öllum líkindum verið unnt að koma í veg fyrir tjónið ef strax hefði verið brugðist við. Ákvæði undirgreinar 11.2 eigi því vel við í þessu sambandi og taki ákvæðin bæði til hins vátryggða, starfsmanna hans og starfs­manna leigutaka skipsins. Einnig byggir stefndi á því að varúðarreglur sam­kvæmt 13. gr. skilmálanna eigi við. Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að ákvæði 33. gr. skilmálanna um sam­sömun eigi við en með því sé lagt til grund­vallar að sök starfs­­­manna vátryggðs eða manna sem vátryggður ber ábyrgð á jafn­gildi sök hans sjálfs. Stefndi áréttar að undirgreinar 6.2 og 6.4 í skilmálunum feli í sér mikilvæga vernd fyrir skips­­eiganda gagnvart tilteknum tjónum en sú vernd sé þeim takmörkunum háð sem leiðir af 9. gr. sömu skilmála.

Þessu til viðbótar vísar stefndi til 24. gr. skilmálanna og áréttar að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að tjónið falli innan gildissviðs tryggingarinnar. Stefndi tekur fram að hann telji að stefnandi hafi ekki fært fram nein rök fyrir því að tjónið hafi orðið af öðrum orsökum en þeim sem rakin hafa verið, nánar tiltekið að olía hafi lekið af aðalgírnum og að sjór hafi komist inn á gírinn. Jafnframt að þetta ástand hafa varað í langan tíma og að ekki hafi verið brugðist við fyrr en gírinn varð ónýtur og/eða stór­­laskaður.

 

IV.

Niðurstöður:

Stefndi byggir kröfu um sýknu meðal annars á aðildarskorti, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi vísar til þess að meint bótaskylt tjón varði þáverandi eiganda skipsins og aðra þá sem áttu réttindi í skipinu. Fyrir liggur að Íslandsbanki hf. var með veðrétt í umræddu skipi á þeim tíma sem meint bótaskylt tjón átti sér stað. Þá liggur fyrir að fyrirsvarsmenn Sædísar ehf. framseldu kröfu á hendur stefnda vegna fyrrgreinds tjóns með skriflegri yfir­lýsingu til stefnanda 2. ágúst 2016. Á yfir­lýsingunni var hins vegar ekki getið um af­stöðu veð­hafans. Í 29. gr. vátryggingaskilmála húftryggingar fyrir íslensk fiskiskip sem eru stærri en 300 brúttótonn (skilmáli 405), sem á við í þessu máli, er kveðið á um réttarstöðu veðhafa gagnvart stefnda. Í undirgrein 29.1 í skil­mál­unum er meðal annars miðað við að séu hinir vátryggðu hags­munir veðsettir þá teljist vá­­trygg­ingin einnig til hagsbóta fyrir veðhafa. Í skýrslu vitnisins Tryggva Guðmunds­sonar lög­manns, fyrir dómi, sem var skipta­stjóri þrotabús Sædísar ehf., kom meðal annars fram að búið var að selja skipið þegar hann kom að þrotabúinu og eina aðkoma hans að því máli hafi verið að gefa út afsal. Skipið hafi verið yfirveðsett. Hann sem skiptastjóri hafi enga aðkomu haft að framsali kröfunnar en hann fengið að vita af því seinna. Hann hafi ekki talið ástæðu til að rifta þeim löggerningi. Einu samskiptin sem hann hafði út af þessu með skipið voru samskipti hans við útibússtjóra Íslands­banka á Ísafirði varðandi peningalegt uppgjör vegna sölu skipsins.

Það er megin­regla veðréttar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/1997 um samn­ings­veð, að veð­réttur sé því ekki til fyrirstöðu að hinu veð­setta sé af­salað, nema annað leiði af samn­ingi eða ákvæðum laga. Þá er í fræðilegri um­­fjöllun á sviði veðréttar byggt á því meginviðhorfi, sem á sér stoð í dönskum rétti og vísað er til í greinargerð með frumvarpi sem varð að fyrrgreindum lögum, að heimildir veð­sala, sem kröfu­­hafa, til þess að ráðstafa veðsettri kröfu takmarkist með þeim hætti, að hags­mun­um veð­haf­ans sé ekki stefnt í hættu. Í vátryggingaskilmálum stefnda vegna fyrr­greindrar húf­trygg­ingar eru ekki gerðar tak­markanir á heimild vátrygg­ingar­taka á því að framselja kröfu á hendur félaginu, sem vátryggjanda, vegna hagsmuna veðhafa. Þá verða slíkar tak­­markanir ekki leiddar af lögum nr. 30/2004. Með málshöfðun þessari er einungis verið að krefjast viður­kenn­ingar á bóta­skyldu stefnda. Stefnandi fékk kröf­una á hendur stefnda framselda frá réttum vátryggingartaka sem jafnframt var hinn vá­tryggði. Framsalinu hefur ekki verið rift samkvæmt framburði skiptastjóra. Ekkert liggur fyrir um að Íslandsbanki hf., kröfu­hafi þrotabúsins og veðhafi í skipinu, hafi gert nokkrar athuga­semdir við fram­salið. Þá verður eigi séð að réttindi veðhafans hafi á nokkurn hátt verið skert eða þeim stofnað í hættu með framsalinu. Að framan­­greindu virtu verður ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort stefnda beri að bæta umrætt tjón samkvæmt vátryggingaskilmálum fyrrgreindrar húftryggingar. Ágreiningslaust er að tjón varð á aðalgír skipsins og að húftrygg­ingin var í gildi þegar það átti sér stað. Í 6. gr. skil­mál­anna er kveðið á um það sem tryggingafélaginu ber að bæta samkvæmt tryggingunni varð­andi skemmdir á skipinu o.fl. Í undir­grein 6.2 er tiltekið að félaginu beri að bæta skemmdir sökum skyndilegrar og óvæntrar óhappatilviljunar, nema sérstök undan­tekning sé gerð í vátryggingar­samn­ingnum. Þá er í undirgrein 6.4 til­tekið að félaginu beri að bæta skemmdir sem raktar verði til yfir­­sjónar eða vanrækslu skipverja eða þriðja manns. Í 9. gr. skil­mál­anna er kveðið á um undanskildar áhættur og er um að ræða hlut­­lægar undanþágur frá því sem annars ætti að bæta sam­­kvæmt tryggingunni, meðal annars samkvæmt 6. gr. samningsins. Skipta þá ekki máli huglægar aðstæður eða afstaða tjónþolans. Sam­kvæmt undirgrein 9.3 eru undan­skildar áhættur meðal annars skemmdir af ófull­nægjandi viðhaldi, fúa, þreytu, tæringu, sliti eða sam­bæri­­leg­um orsök­um. Ákvæði 6. og 9. gr. skilmálanna, þar með talið undirgreinarnar, ber að skýra með hliðsjón hvert af öðrum. Þessu til viðbótar er í 11. gr. skil­málanna kveðið á um skyldur vátryggðs varð­andi tilkynn­ingu um tjón, ráð­staf­anir vegna tjóns o.fl. Sam­kvæmt undirgrein 11.2 ber vátryggðum meðal annars að reyna að afstýra tjóni eða draga úr því ef hætta er á því að vátrygg­ingar­atburðurinn muni bera að höndum. Einnig er í 13. gr. skilmálanna kveðið á um varúðarreglur. Sam­­kvæmt undirgrein 13.1 ber vátryggðum meðal annars að hafa reglu­bundið eftirlit með skipi. Þá er félaginu, samkvæmt undirgrein 13.3, heimilt að lækka eða fella niður ábyrgð félagsins hafi hinn vátryggði vanrækt að hlíta varúðar­reglum eða öðrum fyrir­mælum í vátrygg­ingar­samn­ingi. Þessu enn fremur til viðbótar er í 33. gr. skilmálanna kveðið á um reglur um sam­sömun, nánar tiltekið að ákvæði skil­mál­­anna sem kveði á um að réttur vátryggðs til bóta skerð­ist eða falli niður vegna athafna eða athafnaleysis vá­tryggðs, eigi einnig við um bóta­rétt vátryggðs vegna sam­svar­andi háttsemi starfs­manna hans, sbr. 2. og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004. Sam­kvæmt almennum sjónar­mið­um í vá­trygg­ingar­rétti, sbr. og 24. gr. skil­mál­­anna, er það hins vá­tryggða að sýna fram á að tjón falli undir vá­trygg­ingar­samn­ing, þar með talið að undanskilin áhætta eigi ekki við um tjón­. Við mat á réttar­stöðu aðila er nauð­syn­legt að taka mið af skil­málunum í heild og í sam­hengi, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 261/2002. Þá ber að taka tillit til þess að um er að ræða skilmála í atvinnurekstri, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2004. Að því virtu hafa skýr­ingar­sjónarmið sem lúta að að­­stöðu­­mun aðila takmarkaða þýðingu fyrir úr­lausn máls­ins, sbr. og greinargerð með frum­­varpi sem varð að fyrrgreindum lögum.

Stefnandi byggir á því að rekja megi tjónið annars vegar til skyndilegrar bilunar í búnaði skips­ins og hins vegar til vanrækslu og/eða yfirsjónar yfirvélstjóra skipsins að kanna ekki þegar í stað hverjar væru ástæður lekans og láta gera við bilunina og því sé tjónið bótaskylt, sbr. undir­greinar 6.2 og 6.4 í skilmálunum. Þá séu orsak­irnir sam­tvinnaðar og báðar nauð­synlegar. Tjón sem rekja má til skorts á hæfilegri hirðu er ekki bóta­skylt sam­kvæmt undir­grein 9.3 í skil­mál­unum eins og það ákvæði hefur verið túlk­að í réttar­­­­framkvæmd og skiptir þá ekki máli hvort tjónið verði á löng­um eða stutt­um tíma, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 161/1973, sem birtur er í dóma­safni 1976, bls. 755. Þá er það vá­­­­tryggðs að sýna fram á og sanna orsök tjóns, sbr. fyrrgreinda sönn­unar­reglu og dóm Hæsta­­­réttar í máli nr. 397/1998.

Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að ekki sé ágreiningur um að um­rætt skip fékk almennt gott viðhald áður en það var af­hent hin­um grænlenska leigu­taka í apríl/maí 2014. Samrýmist það skýrslu sem liggur fyrir meðal gagna máls­ins um úttekt Det Norske Veritas á skipinu í des­ember 2013. Í ódagsettri skoðunarskýrslu Skipaþjónustu Íslands, sem stefnandi lagði fram, og byggir meðal annars á athugun á véladagbók skipsins, kemur hins vegar fram að byrjað var að bæta 100 lítrum af olíu á gírinn 8. september 2014. Næstu daga á eftir og fram til 14. sama mánaðar var bætt 70 lítrum af olíu á gírinn. Eftir það, á tímabili frá 18. september 2014 til 22. október sama ár, var nánast daglega bætt olíu á gírinn og var magnið á bilinu 9-40 lítrar í hvert skipti, samtals 644 lítrar. Einnig liggur fyrir samkvæmt sömu skýrslu að á hluta tíma­bils­ins var notuð olía af annarri gerð en átti að nota.

Aðalgír í skipi er búnaður sem ætlað er að yfirfæra afl frá aðalvél til skrúfu skips og minnka jafnframt snúningshraða á skrúfuási miðað við snúningshraða aðalvélar. Til­gangur með notkun smurolíu í aðalgír er að minnka mótstöðu sem er á milli tann­hjóla í gír, minnka slit á tannhjólum og legum og fjarlægja varma sem myndast í gír. Aðalgír á ekki að leka smurolíu ef allt er í lagi við venjulegar aðstæður og að jafnaði á ekki að vera nauðsynlegt að bæta smurolíu á gír. Leki á smurolíu í aðalgír skips er alvar­leg bilun. Hið sama á við ef sjór lekur inn í aðalgír en þá myndast ryð og tæring með þeim afleiðingum að skemmdir verða á gírnum og hann verður með tímanum ónot­­­­hæfur og leiðir til þess að ekki er unnt að sigla skipi með eigin vélarafli.

Vitnið Hlynur Jónsson, fyrrverandi tjónamatsmaður hjá stefnda, bar meðal annars um það fyrir dómi að hann hefði skoðað íhluti úr gírnum í janúar 2015 í starfsstöð Stál­­­smiðjunnar Fram­­­taks ehf. Að mati vitnisins var eina skýr­ingin á því að gír­inn bil­aði sú að sjór hefði lekið með pakkdósum inn í gírinn og sennilega á sama stað og olían lak út af gírn­um. Þá hefðu ummerkin um tjónið bent til þess að það hafi gerst á löng­­­­um tíma, á mán­uði eða einhverjum mánuðum. Ryð hefði verið inni í gírnum í nokkurn tíma og það væri í hæsta máta óeðlilegt. Ryðið hefði myndast í gírnum vegna sjó­­blandaðrar olíu. Aðrar orsakir fyrir ryðmynduninni kæmu ekki til greina. Um væri að ræða hluti sem væru óvarðir fyrir tæringu. Ekkert skyndilegt eða óvænt hefði fram­kallað ryðið eða tæringuna. Bar Hlynur einnig um að athugun þeirra sem komu að mál­­­­inu hefði leitt í ljós að talið væri lík­legt að sjór hefði komist inn í gírinn inn um pakk­­dósir. Þessu til viðbótar bar Hlynur um að það hefði verið mjög óeðlilegt að bæta hefði þurft yfir 100 lítrum af olíu á gír­inn á því stutta tímabili sem hér um ræðir.

Vitnið Ægir Björgvinsson, fyrrverandi starfsmaður Stálsmiðjunnar Framtaks ehf., bar meðal annars um það fyrir dómi að sjór hefði komist inn í gírinn og valdið tæringu í honum. Um væri að ræða skemmdir í gírnum sem hefðu myndast á löngum tíma, ein­hverjum mánuðum og jafn­vel ári. Pakkdósir hefðu verið slitnar vegna aldurs og þá hefðu þær ekki snúið rétt. Því væri líklegt að sjór hefði komist inn í vélarrúmið og þar með gírinn. Þá gæti ástæða þess að olía lak af gírnum skýrst af því að pakk­dósirnar voru slitnar. Sjó­blönduð olía hefði átt að sjást á olíukvarða ef vélstjóri í vélar­rúmi hefði athugað það. Þá bar Ægir einnig um að það hefði verið óeðli­legt ástand á gírnum að bæta hefði þurft yfir 100 lítrum af olíu á hann og það hefði auk þess ekki verið gott fyrir gírinn að nota hann í einhvern tíma ef svo mikið magn af olíu vantaði á hann. 

Í málinu liggur ekki fyrir nákvæm skýring á því hvers vegna olía lak af aðal­gírnum og sjór komst inn í hann. Stefnandi hefur ekki lagt fram matsgerð til að skýra það nánar og ber hann hallann af því. Þrátt fyrir framangreint má leiða líkur að því, miðað við það sem fram kom hjá vitnunum Hlyni og Ægi, að röng staða pakkdósa hafi orsakað leka á sjó inn í aðalgírinn og þá hafi slit í pakk­dósum orsakað leka á olíu af gírnum. Í málinu er upplýst að aðalgírinn var ryðgaður og ekki er ágreiningur um að það var vegna þess að sjór hafði lekið inn og blandast olíu sem ætlað var að smyrja gír­inn. Að mati dómsins bendir allt til þess að það hafi gerst á nokkurra mánaða tíma­bili, sbr. fram­burð vitnanna Hlyns og Ægis. Var því ekki um að ræða skyndilegan utan­­­­­að­kom­andi atburð heldur ryðmyndum og tæringu á löngum tíma sem leiddi til tjóns og rekja má til skorts á hæfilegri hirðu. Að þessu virtu á bótaskylda samkvæmt undirgrein 6.2 í skilmálunum ekki við í þessu sambandi vegna undanskildrar áhættu samkvæmt undir­grein 9.3 í sömu skilmálum. Þessu til viðbótar liggur fyrir í málinu, sam­kvæmt fyrrgreindri skýrslu Skipa­þjónustu Íslands, og ekki er ágreiningur um, að óeðli­­lega miklu magni af smur­olíu var bætt á aðal­­gírinn af yfirvélstjóra á tímabili frá 8. september 2014 til 22. októ­ber sama ár. Við mat á því hvort tjónið falli undir undirgrein 6.4 í skilmálunum og hvort hin hlutlæga ábyrgðar­takmörkun sam­kvæmt undirgrein 9.3 á við í þessu sambandi þá ber að líta til þess að áhöfn skipsins brást ekki eðlilega við þegar ljóst var um hinn mikla olíuleka í sept­ember og október 2014. Það að gír leki olíu getur bent til alvarlegrar bilunar og því er almennt þörf á brýnum aðgerðum svo ekki verði tjón. Líkleg orsök fyrir tjóninu getur hafa verið vanræksla yfir­vélstjórans sem stefn­andi byggir meðal annars sjálfur á að hafi verið orsakaþáttur tjóns­ins. Í því sam­bandi ber þó að hafa í huga að yfirvélstjórinn lést eftir að atvik áttu sér stað og hans hlið á atvikum liggur ekki fyrir samkvæmt gögn­­um málsins. Jafn­framt ber að hafa í huga að það er skipstjóri sem ber heildar­ábyrgð á skipi á meðan skip er á sjó og aðrir í áhöfn lúta hans stjórn, þar með talið yfir­vélstjóri, sbr. 49. og 53. gr. sjó­manna­­laga nr. 35/1985. Einnig hvílir skylda á skip­stjóra að skýra útgerðarmanni að staðaldri frá ástandi skips, sbr. 4. mgr. 13. gr. sigl­inga­­laga nr. 34/1985. Þá er óvíst hvort hags­munir hinnar græn­lensku útgerðar, leigu­taka skipsins, hafi að öllu leyti farið saman við hags­muni eiganda skips­ins, eins og á stóð, nánar tiltekið að láta færa skipið til hafnar og gera við lekann. Í því sambandi skal haft í huga að leigutakinn var að nota skipið til fryst­­ingar og pökkunar á afla o.fl. í tengslum við tímabundnar veiðar annarra minni skipa á hafsvæði yfir sumartíma þegar rofaði til með hafís. Í framburði Jóns Guð­bjarts­­sonar, fyrirsvarsmanns stefn­anda, fyrir dómi kom meðal annars fram að ekki hefði verið unnt að athafna sig á um­ræddu veiðisvæði eftir miðjan október. Þessu til við­­­bótar skal litið til þess sem vitnið Ægir Björgvinsson bar um fyrir dómi að ekki hefði verið aðstaða í Nuuk til að fram­kvæma viðgerð á aðalgír skipsins af þeirri stærðar­­­­gráðu sem um var að ræða.

Allt að einu þá liggur það fyrir að áhöfn skips­ins, þar með talið yfirvélstjóri, var á ábyrgð eig­anda skipsins og hins vá­tryggða, sbr. undirgrein 11.2 og 33. gr. í skil­mál­unum og 2. og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 30/2004. Þá skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt skipið og áhöfn þess hafi á umræddu tímabili verið undir græn­lenskri út­gerðar­­stjórn, sbr. dóma Hæsta­réttar í málum nr. 157/2003 og 209/2005. Að þessu virtu var hlutlægt séð um að ræða skort hins vá­tryggða á eðlilegri varkárni þar sem ekki var brugðist við sem skyldi um borð í skipinu þegar ljóst var um olíulekann. Bótaskylda á grundvelli undirgreinar 6.4 í skilmálunum stofnaðist því ekki þar sem fyrrgreind van­ræksla um borð í skipinu gerði það að verkum að tjónið var undan­skilið áhættu sam­kvæmt undirgrein 9.3 í sömu skil­málum og auk þess ekki bótaskylt þar sem ekki var brugðist við í samræmi við undir­grein 11.2 í skilmálunum. Þessu til viðbótar liggur fyrir að Jón Guð­bjartsson, fyrir­svars­­maður eiganda skipsins og hins vátryggða, fékk sannar­lega vit­neskju um það 18. sept­ember 2014 að aðalgírinn lak olíu. Að því virtu var brýnt af hans hálfu að hann kann­­aði frekar með lekann og að hann tryggði að gert yrði við hann. Þá hefði hann einnig átt að láta stefnda vita og setja sig í samband við græn­lensku útgerðina, leigu­taka skips­­­ins, vegna þeirrar stöðu sem upp var komin í skip­inu og tryggja fyrr­greinda við­gerð sem augljóslega var nauðsynleg. Fyrir­­­svars­maðurinn lét hins vegar nægja að gefa yfir­­vélstjóranum fyrirmæli um að greina ástæður lekans og að hann ætti að láta gera við bilunina og láta útgerðina í Græn­landi vita. Jafnframt að hann fengi að fylgjast með framvindu máls­­ins og hann yrði látinn vita ef ekki tækist að koma í veg fyrir lek­ann. Sjálfur fylgdi fyrir­svars­maður­inn þessu hins vegar ekki frekar eftir. Þá fékk hann næst fregnir af því að aðalgírinn væri bilaður 4. des­ember 2014. Að framan­greindu virtu var framganga fyrirsvars­mannsins því ekki í nægjan­­­­legu samræmi við skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt undirgrein 11.2 og 13. og 33. gr. í skil­mál­um húf­­trygg­­ingar­innar.

Að öllu framan­greindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefn­anda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Björn Jóhannesson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður.

Daði Kristjánsson héraðsdómari og dómsformaður kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Hólmfríði Grímsdóttur héraðsdómara og Finni Sturlusyni, vél­stjóra og véltæknifræðingi.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Birnis ehf.

       Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Daði Kristjánsson

                                                                                    Hólmfríður Grímsdóttir

                                                                                    Finnur Sturluson