• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Svipting ökuréttar
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 26. september 2018 í máli nr. S-73/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Glóey Runólfsdóttur

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 19. september sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra með ákæru 10. ágúst 2018 á hendur Glóey Runólfsdóttur, […], til heimilis að Fögrukinn 20, Hafnarfirði, 

,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 14. júní 2018, ekið bifreiðinni […] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,45) og svipt ökurétti ævilangt, norður Norðurlandsveg inn á bifriðastæði (sic) við Staðarskála í Hrútafirði og þaðan um Norðurlandsveg að Stað í Hrútafirði þar sem ákærða stöðvaði bifreiðina.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.”

II

       Ákærða sótti ekki þing þegar málið var þingfest 19. september sl. en hafði í birtu fyrirkalli óskað eftir að Þorgils Þorgilsson lögmaður yrði skipaður verjandi hennar. Það var og gert og honum send gögn málsins. Lögmaður ákærðu hafði samand við dóminn fyrir þingfestingu og upplýsti að ákærða hygðist ekki halda uppi vörnum í málinu og gerði kröfu um þóknun sér til handa. Málið er því dæmt með vísan til 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda er þess getið í fyrirkalli sem birt var á lögmætan hátt 23. ágúst sl. að svo mætti fara með málið.

       Þar sem ákærða hefur ekki látið málið til sín taka verður með vísan til þess sem að framan er rakið að líta svo á að hún viðurkenni háttsemi þá sem henni er í ákæru gefin að sök og telst sekt hennar nægilega sönnuð enda er ákæran í samræmi við gögn málsins og brot hennar þar réttilega fært til refsiákvæða.

Samkvæmt vottorði Sakaskrár hefur ákærða áður sætt refsingu sem áhrif hefur á ákvörðun viðurlaga í máli þessu. Í mars 2015 var ákærðu gert að greiða sekt fyrir ölvunarakstur auk þess sem hún var svipt ökurétti í 18 mánuði. Í apríl 2016 var ákærðu gert að greiða sekt fyrir ölvunarakstur og fyrir að aka svipt ökurétti. Jafnframt var hún svipt ökurétti í fjögur ár. Loks var ákærða í mars 2017 sakfelld fyrir ölvunarakstur og akstur svipt ökurétti en hún var þá dæmd í 45 daga fangelsi og svipt ökurétti ævilangt.

Samkvæmt framanrituðu er ákærða nú í fjórða sinn sakfelld fyrir akstur undir áhrifum áfengis og í þriðja skipti vegna aksturs svipt ökurétti og gætir ítrekunaráhrifa á milli brota henna. Verður ákærða því með vísan til dómvenju dæmd í 90 daga fangelsi. Þá ber með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga að ítreka ævilanga ökuréttarsviptingu ákærðu.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti sækjanda um sakarkostnað nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi 70.496 krónum og ber ákærðu að greiða þennan kostnað að viðbættri þóknun verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, sem að teknu tilliti til tímaskýrslu lögmannsins þykir hæfilega ákveðin 74.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærða, Glóey Runólfsdóttir, sæti fangelsi í 90 daga.

Ítrekuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærðu.

Ákærða greiði 144.896 krónur í sakarkostnað þar með talin 74.400 króna þóknun verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns.

 

 

                                                                             Halldór Halldórsson.