• Lykilorð:
  • Skaðabótamál

 

 

 

 

D Ó M U R

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 27. júní, 1. og 5 júlí 2011 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 28. nóvember sl. Stefnandi er LBI ehf., áður Landsbanki Íslands hf., Sóltúni 26, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór Jón Kristjánsson, með óþekkt lögheimili í Kanada, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Baugatanga 7, Reykjavík, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., bæði síðastnefndu með lögheimili að Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, Bretlandi.

            Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndu Sigurjón, Halldór og Sigríður Elín verði dæmd til að greiða stefnanda sameiginlega 10.525.381.476 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að stefndi QBE International Insurance Ltd. verði dæmdur til að greiða sameiginlega með stefndu Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu 20.454.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og áður greinir. Þá krefst stefnandi þess að stefndi QBE Corporate Ltd., vegna QBE Syndicate 1886, verði dæmdur til að greiða sameiginlega með sömu stefndu 5.644.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og áður greinir. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

            Stefndi Halldór krefst sýknu af kröfu stefnanda. Aðrir stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara lækkunar kröfu stefnanda. Stefndu krefjast einnig málskostnaðar. Þá hafa stefndu við aðalmeðferð málsins vakið athygli á ýmsum annmörkum á málatilbúnaði stefnanda sem þeir telja, gegn mótmælum stefnanda, að eigi að leiða til sjálfkrafa frávísunar málsins.

            Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en dómur var kveðinn upp.


Helstu ágreiningsefni og meðferð málsins

          Í máli þessu krefur stefnandi, sem áður bar heitið Landsbanki Íslands hf., stefndu Sigurjón, Halldór og Sigríði Elínu um greiðslu skaðabóta vegna ætlaðrar vanrækslu þeirra í júní 2008 þegar lán Fjárfestingarfélagsins Grettis hf., sem var í eigu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs stefnanda og stórs hlutahafa í bankanum, féll í gjalddaga án þess að bankaábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri innheimt eða aðrar ráðstafanir gerðar til að halda ábyrgðinni við. Er ágreiningslaust að lánið, að fjárhæð 18.471.904.917 krónur, féll í gjalddaga 18. júní 2008 og 27. sama mánaðar féll fyrrgreind ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. niður. Stefndu Sigurjón og Halldór störfuðu sem bankastjórar stefnanda, en stefnda Sigríður Elín sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Byggja þau sýknukröfu sína einkum á því að í málinu liggi ekki fyrir sönnum um saknæma háttsemi þeirra, en einnig er vísað til skyldu stefnanda til að kaupa ábyrgðartryggingu til verndar stefndu vegna starfa þeirra í þágu bankans. Krafa stefnanda gegn stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. byggist á ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur og starfsmenn sem félögin sömdu um við stefnanda í janúarlok 2008 með gildistökudag 1. febrúar þess árs. Í málatilbúnaði vátryggjenda hefur annars vegar verið lögð áhersla á að stefnandi hafi ekki gætt að tilkynningum innan samningsbundinna fresta sem leiði til þess að ábyrgð samkvæmt tryggingunni sé ekki fyrir hendi. Hins vegar er vísað til þess að til grundvallar kaupum stefnanda á tryggingunni hafi legið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem leiði til þess að vátryggingarsamningurinn sé ógildur. Með aðilum er ágreiningur um ýmis nánari málsatvik í aðdraganda þess að umrædd bankaábyrgð féll niður. Þá er einnig deilt um stöðu stefnanda í janúar 2008 þegar samið var um fyrrgreinda vátryggingu og réttmæti ýmissa upplýsinga sem stefnandi lét hinum stefndu vátryggjendum í té við umsókn um trygginguna.

            Mál þetta hefur, eftir meðferð á reglulegu dómþingi, að mestu verið rekið samhliða tveimur öðrum málum sem stefnandi hefur höfðað til greiðslu skaðabóta og vátryggingabóta vegna tiltekinna ráðstafana stjórnenda og starfsmanna stefnanda á árinu 2008 sem hann telur hafa valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Var annað málið, þ.e. mál nr. E-3826/2011 í málaskrá héraðsdóms, einnig þingfest 29. september 2011, höfðað gegn stefndu Sigurjóni og Halldóri auk sömu vátryggjendum og stefnt var til varnar í þessu máli. Hitt málið, þ.e. mál nr. E-911/2012, þingfest 8. mars 2012, var upphaflega höfðað gegn sömu aðilum auk eins annars nafngreinds fyrrverandi starfsmanns stefnanda og fjórum fyrrverandi bankaráðsmönnum. Skýrslutökur við aðalmeðferð fóru fram í einu lagi í þágu málanna þriggja samkvæmt samkomulagi aðila.

A

Mál þetta var þingfest 29. september 2011 og lauk meðferð þess á reglulegu dómþingi 27. september 2012. Eftir að málið var tekið til efnismeðferðar í héraði hafa verið kveðnir upp ýmsir úrskurðir um gagnaöflun sem að nokkru hafa komið til kasta Hæstaréttar, svo sem nánar er lýst í dómi réttarins 17. október 2017 í máli nr. 627/2017. Með úrskurði héraðsdóms 11. desember 2017, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 16. janúar 2018, var synjað beiðni stefndu QBE International Insurance Ltd. og annarra stefndra vátryggingafélaga um yfirmat eða frestun til frekari gagnaöflunar. Í sama þinghaldi var fært til bókar að við næstu fyrirtöku málsins væri gert ráð fyrir því að gagnaöflun yrði lýst lokið og aðalmeðferð málsins ákveðin. Í þinghaldi 27. febrúar sl. lýsti dómari gagnaöflun lokið, en þá höfðu allir aðilar aðrir en hin stefndu vátryggingafélög lýst gagnaöflun lokið fyrir sitt leyti. Í þinghaldi 2. maí sl. var ákveðinn dagur fyrir upphaf aðalmeðferðar sem hófst með skýrslutökum fyrir dómi 29. október sl. í samræmi við það sem áður hafði verið ákveðið.

            Við fyrirtöku málsins, eftir að aðalmeðferð hófst, 12. nóvember sl. féll stefnandi frá kröfum gegn 22 af 24 stefndum vátryggjendum með samþykki hlutaðeigandi stefndu. Jafnframt lagði stefnandi fram bókun um lækkun dómkrafna gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu um 4.174.618.524 krónur en kröfur gegn þeim stefndu vátryggjendur sem eftir stóðu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd., voru óbreyttar. Í þinghaldi degi síðar lögðu stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd. fram bókun þar sem fullyrt var að niðurfelling og lækkun krafna stefnanda gagnvart öðrum vátryggjendum hefði byggst á samkomulagi, sem ekki hefði verið lagt fram, og væri ekkert vitað um efni þess. Voru meðal annars færð að því rök að af þessum sökum væri málatilbúnaður stefnanda svo óskýr og vanreifaður að vísa bæri málinu frá án kröfu með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennra reglna réttarfars. Aðrir stefndu skoruðu á stefnanda að leggja fram umrætt samkomulag og áskildu sér rétt til að halda fram nýjum og breyttum málsástæðum í ljósi breyttrar stöðu málsins.

            Í þinghaldi 16. nóvember sl. gaf vitnaskýrslu fyrir dómi Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarmaður Pricewaterhouse Coopers ehf. Undir skýrslutökunni var Vignir Rafn meðal annars spurður um lyktir málshöfðunar stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækinu og hvort því máli hefði lokið með sátt utan réttar þar sem mælt hefði verið fyrir um bótagreiðslur til stefnanda. Er vikið nánar að skýrslu Vignis, svo og skýrslu Ársæls Hafsteinssonar framkvæmdastjóra stefnanda, í niðurstöðum dómsins um formhlið málsins. Í þinghaldi 21. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun um niðurfellingu þeirrar málsástæðu að með brottfalli ábyrgðar Kaupthing Luxembourg A.S. og eftirfarandi gerð nýs lánssamnings hefði verið brotið gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Í sama þinghaldi lögðu stefndu, aðrir en vátryggjendur, fram bókun þar sem tekið var undir áður fram komna bókun vátryggjenda um að vísa bæri málinu frá án kröfu vegna þess óskýrleika sem upp væri kominn í framhaldi af samkomulagi stefnanda og 22 vátryggjenda um niðurfellingu krafna gegn þeim síðastnefndu. Í þinghaldinu vakti dómsformaður athygli lögmanna á því að þeim gæfist kostur á að reifa sjónarmið sín um sjálfkrafa frávísun málsins nánar við munnlegan flutning þess.

            Við upphaf munnlegs flutnings 26. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun um endanlegar dómkröfur sínar, þar sem tekið hafði verið tillit til lækkunar samkvæmt bókun stefnanda 12. sama mánaðar. Eftir að hafa hlýtt á málflutning stefndu óskaði dómsformaður eftir því að lögmenn stefnanda fjölluðu sérstaklega um það hvernig lyktir í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP horfðu við málatilbúnaði stefnanda og reifun hans á tjóni, meðal annars með hliðsjón af fyrrgreindum framburði Vignis Rafns Gíslasonar fyrir dóminum.

            Við framhald munnlegs málflutnings næsta dag lagði stefnandi fram bókun um lækkun dómkröfu sinnar gagnvart stefnda Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu um 1.500.000.000 krónur. Í bókun stefnanda kom fram að hann mótmælti því að kröfufjárhæð væri vanreifuð að einhverju leyti og byggði á því á að lyktir í máli gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefðu ekki þýðingu fyrir úrlausn sakarefnis málsins. Þá kom fram að þótt stefnandi hefði þegar lækkað kröfu sínar á hendur stefndu langt umfram skyldu, og meðal annars tekið tillit til málaloka fyrrgreinds máls, hefði stefnandi nú ákveðið að lækka kröfu sína enn frekar. Segir því næst orðrétt í bókun stefnanda: „Er tilgreind lækkun kröfufjárhæðarinnar verulega umfram þá hagsmuni sem komu í hlut stefnanda við samkomulag um niðurfellingu dómsmáls stefnanda á hendur PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP í febrúarmánuði 2017. Er lækkun kröfufjárhæðarinnar, sem stefnandi gerir umfram skyldu, sett fram í því skyni að eyða öllum mögulegum vafa um reifun á tjónsfjárhæð í málinu. Breyting kröfugerðarinnar er hinum stefndu einstaklingum til hagsbóta og er stefnanda því breytingin heimil, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 in fine.“ Einnig benti stefnandi á að stefndu hefðu ekki, undir rekstri málsins, lagt fram áskoranir um framlagningu samkomulags milli stefnanda og PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP á grundvelli 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991 og væri bókunin einungis gerð vegna ábendingar dómsins. Einnig kom fram að ef stefndu mótmæltu staðhæfingu stefnanda sem ósannaðri og/eða kæmu fram með áskorun um framlagningu tilgreinds samkomulags myndi stefnandi bregðast við því með framlagningu skjalsins. Kæmi ekki fram slík áskorun eða krafa af hálfu stefndu bæri að leggja ofangreinda staðhæfingu stefnanda til grundvallar um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Að lokum sagði í bókuninni að stefnandi lýsti því yfir að skjalið yrði lagt fram ef dómurinn teldi það nauðsynlegt til skýringar á málinu, sbr. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

            Við áframhaldandi munnlegan flutning málsins var því mótmælt af hálfu stefndu, einkum stefndu  QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd., að stefnandi hefði gert viðhlítandi grein fyrir tjóni sínu með fyrrgreindum hætti. Þvert á móti hefði hann í reynd viðurkennt að hafa þegið greiðslur vegna sama tjóns og um ræði í málinu án þess þó að fram hefði komið fjárhæð greiðslunnar. Væri því uppi sú staða að alls óljóst væri um endanlegt tjón stefnanda. Einnig var vísað til þess að mál stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefði lotið að öllum þeim þremur málum sem rekin væru samhliða fyrir réttinum. Væri stefnanda ekki í sjálfsvald sett að ráðstafa greiðslu sem hann hefði þegið frá téðum fyrirtækjum inn á kröfu að eigin vali enda væri enn óvissa um hvort kröfur stefnanda næðu fram að ganga og þá að hvaða marki.

B

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefndu Sigurjón, Halldór og Sigríður Elín auk Ársæls Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra stefnanda. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi varaformaður bankaráðs, Andri Sveinsson, fyrrverandi bankaráðsmaður, Svafa Grönfeldt, fyrrverandi bankaráðsmaður, Þorgeir Baldursson, fyrrverandi bankaráðsmaður, Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Gunnar Viðar, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Pétur Örn Sverrisson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Herdís Hallmarsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í slitastjórn stefnanda, Brynjólfur Helgason, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Lárus Finnbogason, fyrrverandi nefndarmaður í skilanefnd, Lárentsínus Kristjánsson, fyrrverandi nefndarmaður í skilanefnd, William Fall, fyrrverandi bankastjóri Straums-Burðarás fjárfestingarbanka hf., Óttar Pálsson, fyrrverandi starfsmaður sama banka, Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs, Þórður Ólafur Þórðarson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Ólafur Páll Gunnarsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Hannes J. Hafstein, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Jóhann Tómas Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður MP banka hf., Árni Þór Þorbjörnsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Árni Maríasson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Bjarki Diego, fyrrverandi starfsmaður Kaupþings banka hf., Sigurður Óli Hákonarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landsvaka hf., Þórir Örn Ingólfsson, fyrrverandi, starfsmaður stefnanda, Hlynur Þór Björnsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Kjartan Þórólfsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Margrét Guðrún Valdimarsdóttir, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóri MP banka hf., Gunnar Þorvaldur Andersen, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Kristján Gunnar Valdimarsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Sindri Sveinsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Sigurjón Guðbjörn  Geirsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Einar Þór Harðarson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Júlíus S. Heiðarsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Marcus Smithson, fyrrverandi starfsmaður stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Sigurður Sturla Pálsson, starfsmaður Seðlabanka Íslands, Pasi Hakkinen, fyrrverandi starfsmaður vátryggingamiðlarans Howden, Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri, Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri, Kolbrún Guðlaugsdóttir, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Elvar Örn Unnsteinsson, lögmaður, Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarmaður PricewaterhouseCoopers ehf., Jón Arnar Baldurs, löggiltur endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður, Jón Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður, Stefán Héðinn Stefánsson, framkvæmdastjóri, Jóhann Unnsteinsson, löggiltur endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður og Margrét Pétursdóttir, löggiltur endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður. Er gerð grein fyrir þessum skýrslum við reifun málsatvika, svo og í niðurstöðum dómsins, að því marki sem þykir hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins.

 

Yfirlit helstu málsatvika

            Hinn 26. júní 2007 veitti stefnandi Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. lán að fjárhæð 17.000.000.000 krónur samkvæmt „viðskiptasamningi um reikningslánalínu“ og var lánið ætlað til uppgreiðslu þriggja eldri lána félagsins hjá bankanum. Ekki er um það deilt að á þessum tíma var fjárfestingarfélagið eingöngu eða að langstærstu leyti í eigu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs stefnanda og annars af stærstu eigendum hans. Lánið var samþykkt af stefndu Sigríði Elínu með áritun upphafsstafa á svonefnt ákvörðunarblaðs sem útbúið var af Árna Maríassyni. Gengdi Árni stöðu viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði bankans og hafði meðal annars umsjón með málefnum fjárfestingarfélagsins af hálfu bankans. Í beiðninni kemur fram að fjárfestingarfélagið sé einn stærsti viðskiptavinur bankans og gjalddagi reikningslánalínunnar sé til 18. desember 2007. Í tengslum við lánveitinguna gaf Kaupthing Luxembourg S.A. út bankaábyrgð 27. júní 2007 að sömu fjárhæð til tryggingar á öllum skuldbindingum félagsins hjá bankanum. Skyldi ábyrgðin gilda í sex mánuði frá útgáfudegi og var heimilt að framlengja ábyrgðina í aðra sex mánuði með skriflegu samþykki, sbr. 4. gr. ábyrgðarskjalsins. Þá var lánið einnig tryggt með sjálfsskuldarábyrgð Björgólfs Guðmundssonar að fjárhæð 15.000.000.000 krónur sem einnig stóð til tryggingar allra skulda fjárfestingarfélagsins hjá bankanum.

            Fyrir dómi kannaðist stefnda Sigríður Elín, sem verið hafði yfirmaður fyrirtækjasviðs bankans, við að hafa samþykkt fyrrgreint ákvörðunarblað fyrir sitt leyti og ritað á það athugasemd um að skoða þyrfti hvort samþykki bankaráðs væri þörf með hliðsjón af því að áhættan af láninu væri á Kaupthing Luxembourg S.A. Fyrir dómi skýrði hún þessa athugasemd sína á þá leið að þar sem erlendi bankinn hefði í reynd borið alla áhættu af láninu hefði hún ekki talið víst að nauðsynlegt hafi verið að leggja málið fyrir bankaráð samkvæmt grein 7.5 í starfsreglum bankaráðs. Í greinargerð hennar er því lýst að hún hafi allt að einu talið samþykkt sína byggjast á ákvörðun bankaráðs 30. mars 2007 þar sem samþykkt var tiltekin lánafyrirgreiðsla til fjárfestingarfélagsins.

            Í málinu er óumdeilt að með viðauka við áðurlýstan lánssamning, dagsettum 27. desember 2007, var reikningslánalína fjárfestingarfélagsins framlengd um sex mánuði, þ.e. til 18. júní 2008 auk þess sem hún var hækkuð úr 17.000.000.000 krónum í 18.471.904.917 krónur. Til grundvallar láninu lá ákvörðunarblað, dagsett 27. desember 2007, sem fyrrgreindur Árni Maríasson staðfesti fyrir dómi að hafa unnið. Ber beiðnin með sér að hafa verið samþykkt af honum svo og stefndu Sigríði Elínu. Þá er í handrituðum texta á beiðninni vísað til „samþ. bankaráðs 21/12´07“. Með lánsbeiðninni fylgdi greinargerð á einni blaðsíðu þar sem meðal annars kom fram að áfram yrðu fyrir hendi núverandi tryggingar, meðal annars „framlenging í 6 mánuði á ábyrgð KAUP LUX“ sem væri hækkuð úr 17 í 18 milljarða króna.

            Hinn 27. desember 2007 endurnýjaði Kaupthing Luxembourg S.A. umrædda bankaábyrgð til sex mánaða með nýju ábyrgðarskjali og var hún jafnframt hækkuð í 18.000.000.000 krónur. Samkvæmt 4. gr. ábyrgðarskjalsins skyldi ábyrgðin renna út eftir sex mánuði frá útgáfudegi ábyrgðarinnar eða hinn 27. júní 2008. Í málinu er umdeilt hvort bankaábyrgðin, sem fyrrgreindur Árni Maríasson annaðist fyrir hönd stefnanda, var meðal fylgiskjala umræddrar lánsbeiðni og bar stefnda Sigríður Elín fyrir dómi að hún hefði ekki séð skjalið þegar hún samþykkti framlengingu lánsins með áritun upphafsstafa sinna á ákvörðunarblaðið. Í málinu liggur fyrir fundargerð lánanefndar stefnanda 9. janúar 2008, þar sem lánið er fært til bókar og kemur þar fram að lánið hafi einnig verið samþykkt í bankaráði 21. desember 2007. Samkvæmt fundargerð bankaráðs 21. desember 2007 var þar fjallað, til upplýsingar, um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila, sbr. gr. 12.5 í starfsreglum fyrir bankaráð, án þess að nafn Fjárfestingarfélagsins Grettis ehf. eða umrætt lán væri þar sérstaklega tiltekið. Af hálfu stefnanda er hins vegar á því byggt að lánið hafi ekki verið samþykkt í bankaráði fyrr en 28. janúar 2008. Samkvæmt fundargerðum, sem lagðar voru fram í málinu, voru stefndu Sigurjón, Halldór og Sigríður Elín viðstödd alla þrjá fyrrgreinda fundi.

            Í stefnu er ítarleg grein gerð fyrir versnandi stöðu Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. og Björgólfs Guðmundssonar á árinu 2008, einkum með tilliti til þróunar lykileigna félagsins í Eimskipafélaginu hf. og Icelandic Group hf. Er því þar haldið fram að fjárfestingarfélagið hafi í reynd verið ógjaldfært í júní það ár, en eigið fé félagsins miðað við 30. þess mánaðar hafi þá verið neikvætt um 19.443.009.000 krónur. Segir einnig að bú fjárfestingarfélagsins, og einnig Eignarhaldsfélagsins Grettis hf. sem tók yfir hluta af lánum fjárfestingarfélagsins, hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta 7. maí 2009 og sé búist við því að endurheimtur úr þeim búum sameiginlega verði u.þ.b. 1% af fjárhæð krafna í búið. Við aðalmeðferð dómsins kom skiptastjóri félaganna fyrir dóm og staðfesti að skiptum væri enn ólokið. Væri skiptameðferð hins vegar mjög langt komin og búist við því að 3,9% greiddist upp í almennar kröfur í búunum. Af hálfu stefndu Sigurjóns, Halldórs og Sigríðar Elínar er því mótmælt að fjárfestingarfélagið hafi verið ógjaldfært á umræddum tíma eða þeim hafi mátt vera það ljóst. Um vitneskju þeirra um fjárhagslega stöðu félagsins er nánar fjallað í niðurstöðum dómsins.

            Svo sem áður greinir var Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. lýst sem einum af stærstu viðskiptavinum stefnanda í fyrrgreindum ákvörðunarblöðum vegna lánsins. Í málinu liggur einnig fyrir minnisblað starfsmanns stefnanda 2. apríl 2008 um beiðni fjárfestingarfélagsins um frekari lánafyrirgreiðslu og kemur þar fram að heildarskuldir samstæðu Björgólfs Guðmundssonar, aðaleiganda félagsins, við stefnanda nemi 40.800.000.000 krónum, ársreikningur fjárfestingarfélagsins liggi ekki fyrir, en eigið fé félagsins sé talið neikvætt um 15-16 milljarða króna. Í skýrslum fyrir dómi kom fram að félagið hefði verið meðal þeirra stóru viðskiptavina bankans sem sérstaklega var fylgst með sumarið 2008 í ljósi versnandi stöðu. Í stefnu er vísað til þess að stofnaður hafi verið vinnuhópur starfsmanna sem meðal annars hafi skoðað málefni fjárfestingarfélagsins ásamt stefnda Sigurjóni. Í skýrslu sinni fyrir dómi hafnaði stefndi Sigurjón því að slíkur vinnuhópur hefði verið settur á fót. Hins vegar staðfesti hann að þróun Eimskipafélagsins hf. hefði meðal annars verið til sérstakrar skoðunar hjá starfsmönnum bankans, en samkvæmt gögnum málsins voru hlutir í því félagi meðal stærstu eigna fjárfestingarfélagsins. Í skýrslu áðurnefnds Árna Maríassonar kom einnig fram að hann og tveir aðrir nafngreindir starfsmenn, auk stefnda Sigurjóns, hefðu haft mál Eimskipafélagsins hf. til sérstakrar skoðunar og nefndi sérstaklega í því sambandi dagsetningarnar 14. og 15. júní 2008.

            Í framburði Árna Þór Þorbjörnssonar, fyrrum yfirlögfræðings fyrirtækjasviðs stefnanda, kom fram að unnið hefði verið markvisst í stórum áhættuskuldbindingum stefnanda frá byrjun sumars 2008, meðal annars vegna Eimskipafélagsins hf. og Fjárfestingarfélagsins Grettis hf., án þess þó að um hafi verið að ræða sérstök fyrirmæli yfirstjórnar vegna þessara félaga eða annarra viðskiptavina bankans sem komnir voru í vandræði. Samkvæmt skýrslu Árna Þórs fór þessi vinna fram í samstarfi nokkurra starfsmanna þótt deila mætti um hvort rétt hefði verið að ræða um eiginlegan vinnuhóp. Samkvæmt framburði hans voru stefndu Sigurjón og Sigríður Elín meðvituð um þetta starf án þess að þau skiptu sér af daglegum störfum starfsmannanna. Aðspurður kvað Árni Þór það hafa verið vitneskja umræddra starfsmanna að gjalddagi væri á lánalínu fjárfestingarfélagsins 18. júní 2008 og taldi hann sig muna eftir samskiptum við stefnda Sigurjón vegna málsins en ekki aðra stjórnendur. Aðspurður um hver hefðu verið viðbrögð stefnda Sigurjóns við umræðum um að ábyrgðin myndi renna út umræddan dag kvaðst Árni Þór ekki muna sérstaklega eftir því en sagðist telja líklegt að áhersla hefði verið lögð á að „ná framlengingunni“. Hann svaraði því einnig að hann teldi að ekki hefði verið ólíklegt að einn af þeim möguleikum sem voru ræddir hefði verið að fullnusta ábyrgðar Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Slík ákvörðun hefði formlega verið í hans valdi en málið hins vegar þess eðlis að ekki hefði komið til greina að ganga að  ábyrgðinni án samþykkis yfirmanna.

            Á gjalddaga lánsins 18. júní 2008 var lán fjárfestingarfélagsins ekki greitt. Liggur fyrir tölvuskeyti dagsett kl. 11.01 þann dag frá starfsmanni fjárstýringar stefnanda um að ekki hafi reynst unnt að skuldfæra á félagið. Ber skeytið einnig með sér að hafa meðal annars verið sent öllum starfsmönnum á fyrirtækjasviði stefnanda. Í því sambandi hafa stefndu Sigurjón og Halldór vakið athygli á því að þeir hafi ekki verið meðal viðtakenda skeytisins. Aðspurður um skeytið bar áðurnefndur Árni Þór fyrir dóminum að hann teldi að á þessum tíma hefði verið byrjað að vinna í framlengingu láns fjárfestingarfélagsins og einnig ábyrgðarinnar. Hann gat þó ekki svarað því afdráttarlaust hvort einhver ákvörðun hefði verið tekin um framlengingu lánsins fyrir 18. júní 2008. Aðspurður um hver hefði, nánar tiltekið, verið að vinna að framlengingu lánsins kvaðst Árni Þór ekki muna eftir því en lán af þessari stærðargráðu hefðu verið háð ákvörðun lánanefndar eða þá bankaráðs. Í skýrslu áðurnefnds Árna Maríassonar fyrir dómi kom einnig fram að hann teldi að unnið hefði verið að framlengingu lánsins á þessum tíma. Hann gat hins vegar ekki staðfest hvaða starfsmenn bankans hefðu haft það verkefni með höndum eða hvenær hann hefði fengið upplýsingar um að til stæði að framlengja lánið.

            Ekki er um það deilt að hinn 27. júní 2008 féll ábyrgð Kaupthing Luxembourg S.A. niður án þess að hún hefði þá verið fullnustuð eða samið um framlenginu hennar. Í skýrslu Árna Maríassonar, umrædds viðskiptastjóra stefnanda með málefnum fjárfestingarfélagsins,  kom efnislega fram að hann myndi ekki eftir að hafa áttað sig á því að umrædd ábyrgð væri við það að renna út eftir gjalddaga lánsins 18. júní 2008. Þá gat hann ekki staðfest að hann hefði tilkynnt einhverjum yfirmönnum sínum að ábyrgðin rynni út innan skamms. Aðspurður um hvort kerfi bankans hefðu ekki falið í sér einhvers konar tilkynningu um ábyrgðina og eindaga hennar, svaraði téður Árni því til að svo hefði ekki verið. Hins vegar kom fram í skýrslu hans að ástæða þess að ekki hefði verið gengið að ábyrgðinni hefði eflaust verið sú að staðið hefi til að framlengja lánið. Svo sem áður greinir gat hann hins vegar hvorki svarað því hvaða starfsmenn bankans hefðu haft þetta verkefni með höndum né hvenær hann hafði upplýsingar um slíka ákvörðun.

            Í skýrslu sinni fyrir dómi bar áðurnefndur Árni Þór Þorbjörnsson að honum hefði verið ljóst að ábyrgðin rynni út 27. júní 2008. Hann kvaðst hafa skýrt stefnda Sigurjóni frá þessu en gat hins vegar ekki staðfest hvenær hann hefði gert það, þ.e. hvort það hefði verið fyrir eða eftir eindaga ábyrgðarinnar 27. júní 2008. Samkvæmt skýrslum stefndu Sigurjóns, Halldórs og Sigríðar Elínar höfðu þau enga vitneskju um að umrædd ábyrgð lánsins rynni út 27. júní 2008. Af hálfu stefnda Sigurjóns er lögð á það áhersla í þessu sambandi að hann hafi að mestu verið erlendis á þeim tíma sem hér um ræði, þ.e. frá 14. júní 2008, en stefndi Halldór bendir á að málefni fyrirtækjasvið hafi ekki fallið undir hann samkvæmt skipuriti bankans og hafi hann ekkert haft með nánari meðferð umrædds lánamáls að gera. Af hálfu stefndu Sigurjóns og Sigríðar Elínar er viðurkennt að þau hafi orðið þess áskynja að ábyrgðin var tímabundin til umrædds dags, en það hafi einungis verið eftir að hún var runnin út hinn 27. júní 2008. Samkvæmt skýrslu stefnda Sigurjóns brást hann við þessum upplýsingum í júlí 2008 með því að hefja viðræður við tiltekinn fyrirsvarsmann Kaupþings banka hf., móðurfélags Kaupthing Bank Luxembourg S.A., um að ábyrgðin yrði endurnýjuð þannig að unnt yrði að endurnýja lán fjárfestingarfélagsins á þeim grundvelli. Þá vísar hann einnig til þess að síðar, eða í lok september 2008, hafi hann leitast við að tryggja hagsmuni stefnanda með því afla aukinna ábyrgða fyrir láninu úr hendi Björgólfs Thors Björgólfssonar, sonar Björgólfs Guðmundssonar og annars stærstu eigenda bankans, meðan enn var unnið að því að afla ábyrgðar Kaupthing Luxembourg A.S.

            Hinn 25. júlí 2008 var gerður nýr samningur um fjölmyntalán til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. um lán hjá stefnanda til 2. janúar 2009 sem í stefnu er sagt hafa verið að jafnvirði 18.400.000.000 króna til 2. janúar 2009. Kemur þar einnig fram einnig að láninu hafi verið varið til greiðslu umrædds láns með gjalddaga 18. júní 2008. Lánið var tryggt með frekari sjálfskuldarábyrgð Björgólfs Guðmundssonar sem átti einungis að taka gildi að því tilskildu að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. gæfi ekki út nýja ábyrgð til tryggingar lánasamningnum. Samkvæmt tölvuskeyti nafngreinds starfsmanns Kaupþings banka hf., móðurfélags Kaupthing Bank Luxembourg S.A., 27. júlí 2008 til Árna Þórs Þorbjörnssonar var staðfest, fyrir hönd bankans, að ábyrgðin „sem renna átti út 27. júní sl.“ hefði verið framlengd til 10. ágúst þess árs. Jafnframt var lýst yfir vilja til að framlengja ábyrgðina til 5. janúar 2009 þegar búið væri að ganga frá tryggingum sem Kaupþing banki hf. teldi fullnægjandi.

            Stefnandi vísar til þess að þegar lánssamningurinn 25. júlí 2008 var undirritaður hafi hvorki legið fyrir samþykki bankaráðs né lánanefndar fyrir þessum framlengingum á lánunum. Hins vegar er ágreiningslaust að lánveitingin var samþykkt síðar á fundi bankaráðs 5. september 2008. Í sérstakri bókun bankaráðs frá fundinum, sem fjallaði m.a. um lánveitingar til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. og Eignarhaldsfélagsins Grettis ehf., kom meðal annars fram að áformað væri að fá bankaábyrgð frá Kaupthing Luxembourg S.A. að fjárhæð 18.000.000.000 krónur til tryggingar láninu. Í drögum að fundargerð fyrir lánanefndarfund sem halda átt þann 8. október 2008 er framangreind lánveiting einnig nefnd undir liðnum „mál samþykkt utan funda“.

            Hinn 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að víkja frá störfum stjórn stefnanda, taka yfir vald hluthafafundar hans og setja yfir bankann skilanefnd. Slitameðferð á stefnanda hófst 22. apríl 2009. Sambærileg ákvörðun var tekin um Kaupþing banka hf. 9. sama mánaðar. Hafði þá enn ekki verið gengið frá fyrirhugaðri endurnýjun bankaábyrgðar af hálfu Kaupþings banka hf. eða áðurgreinds dótturfélags hans. Ekki er um það deilt að umrætt dótturfélag var selt, sameinað öðrum banka og var því ekki tekið til slita. Vísar stefnandi til þess að umrætt félag hafi í reynd haldið áfram í rekstri og hefði því verið unnt að innheimta fjárhæð lánsins að fullu úr hendi þess ef ábyrgðin hefði ekki verið látin falla niður 27. júní 2008 fyrir vanrækslu stefndu Sigurjóns, Halldórs og Sigríðar Elínar.

            Ekki er um það deilt að með skiptingu eigna Landsbanka Íslands hf. milli stefnanda og Nýja Landsbanka Íslands hf. samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, sem ekki er ástæða til að rekja nánar, hafi umrætt lán Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. verið áfram í eigu stefnanda. Stefnandi vísar til þess í stefnu að hann hafi lækkað bótafjárhæð úr 18.000.000.000 krónum í 16.200.000.000 krónur og þannig tekið fullt tillit til frádráttar vegna mögulegrar endurheimtu við gjaldþrotaskipti. Svo sem áður greinir hefur stefnandi lækkað kröfur sínar enn frekar undir meðferð málsins. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir reifun tjóns stefnanda. Af sömu ástæðum þykir ekki þörf á því að fjalla sérstaklega um efni og atvik við gerð áðurnefnds vátryggingasamnings stefnanda við stefndu, QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd. o.fl., umfram það sem fram kemur í reifun málsástæðna og lagaraka málsaðila svo og niðurstöðu dómsins.


 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

            Kröfur stefnanda á hendur stefndu Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu byggja á því að þau hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að hlutast ekki til um að innheimta fyrrnefnda bankaábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á láni stefnanda til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. sem féll í gjalddaga. Stefnandi telur að háttsemi stefndu hafi verið gáleysisleg þar sem þeim mátti vera ljóst að fjárhagsstaða bæði félagsins og Björgólfs Guðmundssonar, sem gengist hafði í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldbindinga félagsins gagnvart stefnanda, væri verulega veik þessum tíma. Þá hafi stefndu vanrækt að upplýsa bankaráð stefnanda um þessa stöðu málsins þannig að það gæti gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja hagsmuni bankans. Stefndu Sigurjóni og Halldór hafi borið samkvæmt reglum bankans að leggja málið fyrir bankaráð til umfjöllunar þegar fyrir lá að félag formanns bankaráðs stefnanda var í stórfelldum vanskilum og bankaábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að renna út. Hvorki hafi þó verið gengið frá framlengingu á ábyrgðinni með lögformlegum hætti né tryggt að hún fengist yfirleitt.

            Stefnandi byggir á því að ótvíræð skylda hafi hvílt á stefndu að grípa til allra þeirra ráðstafana sem mögulegar voru til að innheimta kröfur á hendur fjárfestingarfélaginu og ganga að þeim ábyrgðum og tryggingum sem unnt var, þ. á m. bankaábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Með því að innheimta ekki bankaábyrgðina þegar vanskil urðu á láni félagsins 18. júní 2018, þannig að ábyrgðin rann út þann 27. sama mánaðar, hafi stefndu sýnt af sér gáleysi sem valdið hafi stefnanda tjóni.

            Um orsakatengsl og sennilega afleiðingu vísar stefnandi til þess að hin saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu hafi leitt til þess að bankaábyrgð að fjárhæð 18.000.000.000 krónur var ekki innheimt þrátt fyrir vanskil á láni sem hún átti að tryggja. Fyrir liggi þannig að athafnaleysi stefndu leiddi til þess að stefnandi fékk ekki greiðslu frá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna ábyrgðarinnar sem annars hefði komið til aðilans. Hið saknæma athafnaleysi téðra stefndu, að innheimta ekki ábyrgðina, hafi því verið nauðsynlegt skilyrði fyrir því að tjónið varð og í öllu falli samverkandi tjónsorsök. Þá sé tjónið augljóslega sennileg afleiðing af háttseminni þar sem háttsemin var til þess fallin að auka líkur á því að stefnandi yrði fyrir tjóni.

            Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur þessum stefndu á almennu sakarreglunni og 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Kröfur stefnanda um vexti og dráttarvexti eru reistar á 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Kröfur sínar gegn stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. reisir stefnandi á því að skuldbindandi vátrygging sé til staðar og að hún nái til allra þeirra tjónsatvika sem áður eru rakin. Byggir stefnandi á því að samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga eigi hann beina kröfu á hina stefndu vátryggjendur. Kröfur á hendur þessum stefndi byggi á því að ábyrgð þeirra á milli sé hlutfallslega skipt en óskipt með öðrum stefndu allt að þeirri fjárhæð sem hlutur þeirra í tryggingafjárhæðinni er, líkt og nánar hafi verið skýrt með bókun um endanlegar kröfur.

            Um gildi vátryggingarinnar byggir stefnandi á því að kröfur hans falli þar undir, um þær hafi verið tilkynnt og krafið í samræmi við lög nr. 30/2004, skilmála vátryggingarinnar og þær hafi verið settar fram á gildistíma tryggingarinnar, innan viðeigandi fresta. Samkvæmt H-lið IV. hluta skilmálanna hafi tryggingin tekið til allra krafna sem settar væru fram allt að 72 mánuðum eftir að viðkomandi stjórnendur létu af störfum. Í öllu falli hafi verið til staðar einhliða 12 mánaða viðbótartilkynningarfrestur til 31. janúar 2010.

            Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að hvernig sem á málið sé litið hafi stefnandi sent tilkynningu um kröfurnar til vátryggingamiðlarans Howden, sem rétts viðtakanda samkvæmt ákvæðum skilmálanna, innan tilkynningartímabilsins. hafi það verið gert innan allra fresta sem mælt var fyrir um í skilmálum vátryggingarinnar og lögum nr. 30/2004, sbr. 51. gr. laganna, enda gert án tafar eftir að stefnanda urðu atvik málsins kunn. Í öllu falli sé ljóst að fyrningarfrestir laganna, sem stangist á við ákvæði skilmálanna og myndu ella takmarka rétt stefnanda, víki fyrir skýrum samningsákvæðum, sbr. 1-lið 2. mgr. 3. gr. laganna.

            Stefnandi byggir jafnframt á því að engin skilyrði laga eða skilmála vátryggingarinnar fyrir riftun, uppsögn eða niðurfellingar vátryggingarsamnings aðila séu uppfyllt í málinu. Hvorki stefnandi né aðrir hafi vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart hinum stefndu vátryggjendum í aðdraganda að töku vátryggingarinnar né í kjölfar hennar. Þvert á móti hafi stefnandi uppfyllt allar sínar skyldur og aðhafst í fullu samræmi við ákvæði skilmálanna og þeirra laga sem um þá giltu. Vaxtakröfu gagnvart hinum stefndu vátryggjendum byggir stefnandi á ákvæðum 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. ákvæði 50. gr. laga nr. 30/2004. 

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda Sigurjóns

            Stefndi Sigurjón vísar í fyrsta lagi til þess að um sé að ræða beina málshöfðun samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Hinir stefndu vátryggjendur hafi ekki óskað eftir samaðild vátryggðu vegna vátryggingaþáttar málsins. Fyrir liggi að stefnandi hafi samið við hluta þeirra vátryggjenda, sem upphaflega var stefnt í málinu, án aðkomu stefnda Sigurjóns í andstöðu við skilmála vátryggingarinnar. Málatilbúnaður stefnanda sé að svo komnu máli svo óljós, bæði um skaðabóta- og vátryggingaþáttinn, að vísa beri málinu sjálkrafa frá dómi.

            Stefndi Sigurjón vísar til þess að um bótaábyrgð hans fari samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, en ekki almennu skaðabótareglunni. Samkvæmt 135. gr. laganna sé hluthafafundur einn bæri til að ákveða málshöfðun til heimtu skaðabóta samkvæmt 1. mgr. 134. gr. þeirra. Hluthafavald stefnanda hafi verið hjá Fjármálaeftirlitinu frá 7. október 2008 til apríl 2009, en frá þeim degi hjá skilanefnd til 31. desember 2011. Frá 1. janúar 2012 hafi hluthafavaldið verið hjá slitastjórn. Ákvörðun um málshöfðun hafi aldrei réttilega verið tekin af þessum aðilum. Samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995 hafi fyrningarfrestur skaðabótakrafna hafist við lok reikningsársins 2008. Skaðabótakrafa stefnanda hafi því verið fyrnd í árslok 2010 og verði hún hvorki lífguð við né framlengd með afturvirkri lagasetningu, svo sem 31. gr. laga nr. 68/2010.

            Stefndi Sigurjón leggur áherslu á að saknæmi háttsemi hans verði að meta út frá þeim lögum og reglum sem hann var bundinn af í starfi sínu. Lánveitingin til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. í júní 2007 og desember þess árs hafi farið fram í samræmi við reglur bankans. Stefndi Sigurjón vísar til þess að engin skjalleg sönnunargögn liggi fyrir sem sanni vitneskju hans um að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri tímabundin. Þá hafi ekkert á þessa leið komið fram í skýrslutökum fyrir dómi. Í þessu sambandi mótmælir stefndi Sigurjón því að yfirlýsing Árna Þór Þorbjörnssonar 17. desember 2012 verði lögð til grundvallar enda sé um að ræða utanréttarvottorð í ósamræmi við önnur gögn málsins. Stefndi Sigurjón telur að ástæða þess að umrædd ábyrgð var ekki innheimt hafi verið óhappatilviljun eða uppsöfnuð og nafnlaus mistök starfsmanna á fyrirtækjasviði. Þá vísar hann til þess að fjárhæð tjóns sé með öllu ósönnuð.

            Stefndi Sigurjón vísar til þess að stefnandi hafi verið skuldbundinn til að kaupa hefðbundna stjórnendatryggingu honum til verndar vegna krafna sem kynnu að vera hafðar uppi gegn honum vegna starfa sinna í þágu stefnanda. Samkvæmt stefnu sé á því byggt að stefndi Sigurjón hafi valdið tjóni stefnanda af gáleysi. Stefndi Sigurjón telur að hann sé vátryggður vegna þessa tjóns og hafi stefnandi viðurkennt það með því að taka á móti bótum frá hluta vátryggjenda. Án tillits til þess hvort vátryggingin sé skuldbindandi telur stefndi Sigurjón hins vegar að sýkna eigi hann á grundvelli 3. mgr. 19. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með vísan til þess að ábyrgðartrygging hafi tekið til starfs hans í þágu stefnanda. Hafi vátryggingin runnið út eða sé óskuldbindandi fyrir vátryggjendur eigi stefndi jafnháa skaðabótakröfu sem sé hæf til að mæta kröfu stefnanda án sjálfstæðs dóms. Að síðustu byggir stefndi sýknukröfu sína á því að fella beri skaðabótakröfu stefnanda niður á grundvelli lækkunarreglna 24. gr. laga nr. 50/1993 og 3. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995. Þá mótmælir hann vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda Halldórs

            Stefndi Halldór tekur undir sjónarmið stefnda Sigurjóns um sjálfkrafa frávísun málsins. Kröfugerð stefnanda sé vanreifuð og að óskýrleiki hafi aukist eftir að sátt var gerð við hluta vátryggjenda. Þá hafi orðið óhóflegar tafir á málinu og óhófleg skjalaframlagning hafi gert stefnda óhægt um vik við að verjast kröfum stefnanda svo gangi gegn 69. gr. stjórnarskrár. Stefndi byggir á því að samkomulag stefnanda við hluta vátryggjenda og niðurfelling krafna gegn þeim raski grundvelli málsins í verulegum atriðum. Óvíst sé hver áhrifin séu gagnvart þeim vátryggjendum sem eftir séu í málinu. Stefndi sé vátryggður og eigi að njóta réttinda samkvæmt vátryggingunni. Stefndi byggir á því að samkomulag stefnanda við hluta vátryggjenda feli í sér brot á skilmálum vátryggingarinnar sem eigi einnig að valda því að kröfur stefnanda séu ekki dómtækar.

            Að því er varðar saknæmi vísar stefndi Halldór til þess að uppbygging og skipulag stefnanda hafi falið í sér að hver starfseining hafi unnið eftir fastmótuðu kerfi heimilda og ábyrgðar. Rekstraráhætta sé eðlilegur hluti af starfsemi stefnanda. Stefndi byggir á því að hann hafi hvorki þekkt til fyrrgreinds ábyrgðarskjals né vitað að um tímabundna ábyrgð var að ræða. Stefndi hafi ekki haft það hlutverk að fylgjast með gildistíma ábyrgða eða annast um innheimtu. Stefndi vísar til þess að hann hafi ekki vitað um vanskil þeirra lána sem ábyrgðinni var ætlað að tryggja. Hann mótmælir því jafnframt að hafa vitað eða mátt vita um ógjaldfærni fjárfestingarfélagsins eða þeirra lögaðila og einstaklinga sem að baki félaginu stóðu eða voru í eignasafni þess. Hann mótmælir því einnig að hafa leynt bankaráð stefnanda upplýsingum um þessi atriði.

            Stefndi Halldór leggur áherslu á að verkaskipting milli bankastjóra hafi falið í sér að málefni fyrirtækjasviðs hafi ekki verið á ábyrgð hans. Sérfræðingar á fyrirtækjasviði hafi einir búið yfir upplýsingum um ábyrgðina og þeirra hlutverk hafi verið að gæta að tímafrestum og innheimtu. Stefndi byggir á því að eftir að formaður bankaráðs stefnanda hafi orðið eigandi að Fjárfestingarfélaginu Gretti hf. hafi ákvarðanir þurft að fara fyrir bankaráð og að því hafi verið fylgt eftir.

            Stefndi Halldór vísar einnig til þess að sá lánssamningur sem ábyrgðin átti að tryggja hafi verið gerður upp að fullu, með gerð annars lánssamnings í júlí 2008, og því hafi ekkert tjón orðið. Stefndi byggir á því að hafi ný lánveiting til félagsins hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda geti slíkt ekki verið á ábyrgð hans þar sem bankaráð stefnanda tók þá ákvörðun um lánið. Stefndi telur að kröfur stefnanda feli í reynd í sér að um hlutlæga ábyrgð hans sé að ræða. Í öllu falli er byggt á því að ef sök telst vera til staðar hjá stefnda geti aðeins verið um einfalt gáleysi að ræða. Þá sé enginn fótur fyrir því að neinar athafnir eða athafnaleysi stefnda hafi verið ólögmætt.

            Stefndi Halldór vísar til þess að stefnandi byggi málatilbúnað sinn aðeins á einföldu gáleysi hans, en ekki ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Stefndi verði því ekki dæmdur til skaðabóta í ljósi 3. mgr. 19. gr. laga nr. 50/1993. Sjónarmið vátryggjenda um gildi vátryggingar geti ekki breytt þeirri stöðu.  

            Stefndi Halldór byggir á því að krafa stefnanda um skaðabætur hljóti að þurfa að byggjast á 134. gr. laga nr. 2/1995. Áskilnaður sé um ásetning eða stórfellt gáleysi í ákvæðinu. Stefndi tekur einnig undir málsástæðu stefnda Sigurjóns um að ekkert liggi fyrir í málinu um að hluthafafundur stefnanda hafi tekið ákvörðun um málshöfðun samkvæmt 135. gr. laganna og krafa stefnanda sé því fyrnd. Sú breyting sem gerð hafi verið með lögum 68/2010 feli í sér afturvirkni laga sem standist ekki, meðal annars gagnvart ákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Stefndi byggir einnig á því að tjón stefnanda sé ósannað enda séu allar líkur á því að innheimta gagnvart Kauphting Bank Luxembourg S.A. hefði ekki borið árangur.

            Stefndi Halldór mótmælir málsástæðum stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate. Ltd. um að ekki sé fyrir hendi gild vátrygging. Hann vísar til þess að endurnýjun vátryggingarinnar í janúar 2008 hafi byggst á þeim gögnum sem tilgreind hafi verið í vátryggingarsamningi. Stefndi byggir á því að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis, skýrsla Deloitte, skýrsla Lynx eða álíka skýrslur, sem lagðar hafa verið fram í málinu, geti ekki talist sönnunargögn um þær ályktanir og staðhæfingar sem þær hafa að geyma. Stefndi telur að ferlið við gerð matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem stefndu vátryggjendur öfluðu undir meðferð málsins, hafi verið haldið slíkum ágöllum að matsgerðin verði ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn í málinu. Þá geti hún ekki falið í sér neina sönnun að því marki sem hún byggir niðurstöður sínar á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu Deloitte, skýrslu Lynx eða öðrum álíka skýrslum. Stefndi telur einnig að umrædd matsgerð sé háð slíkum fyrirvörum að hún geti ekki talist sönnunargagn í máli þessu. Þá miðist matsspurningar við árslok 2007 en ekki það níu mánaða uppgjör 2007 sem umsókn stefnanda um vátryggingu byggðist á. Sé matsgerðin einnig þýðingarlaus af þessum sökum. Stefndi byggir á því að ótvírætt sé að vátryggingin sé í gildi þar sem engar rangar upplýsingar hafi verið gefnar í umsókn um endurnýjun vátryggingarinnar eða þeim skjölum sem henni fylgdu.

            Stefndi Halldór byggir á því að þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að einhver atriði í umsókn eða fylgiskjölum hafi reynst röng geti það ekki varðað ógildi vátryggingarinnar. Stefndu vátryggjendur afsali sér þeim rétti í lið I í vátryggingarsamningi. Byggt er á því að hafi villur verið til staðar hafi slíkt verð saklaust og engin sviksemi þar að baki.

            Fari svo ólíklega að dómurinn telji að vátrygging sé ekki gild leiði það til þess að stefnandi hafi brotið gegn ráðningarsamningi við stefnda Halldór þar sem stefnandi skuldbatt sig til að kaupa og viðhalda starfsábyrgðartryggingu stefnda til hagsbóta. Byggt er á því að sú vanefnd eigi að leiða til sýknu stefnda af kröfum stefnanda. Þá tekur stefndi undir málsástæður stefnda Sigurjóns um brottfall eða lækkun skaðabóta samkvæmt II. og III. kafla laga nr. 50/1993.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefndu Sigríðar Elínar

            Stefnda Sigríður Elín vísar til þess að hún hafi verið starfsmaður stefnanda og beri hún ekki hlutlæga ábyrgð á mistökum sem kunni að hafa orðið í starfsemi hans. Þvert á móti gildi um háttsemi hennar sú meginregla að starfsmenn verði ekki skaðabótaskyldir gagnvart vinnuveitanda sínum nema stórkostlegt gáleysi eða ásetningur komi til. Sönnunarbyrðin fyrir sök stefndu hvíli á stefnanda sem hafi ekki tekist slík sönnun.

            Stefnda vísar til þess að lánveitingar til bankaráðsmanna, eða félaga á þeirra vegum, hafi heyrt undir bankaráð stefnanda. Hefði því þurft ákvörðun bankaráðs til að ganga að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A., enda hefði slík ákvörðun haft í för með sér viðurhlutamiklar afleiðingar. Stefnda hafi hins vegar ekki verið í beinum samskiptum við bankaráðið heldur hafi það verið bankastjórar stefnanda.

            Stefnda leggur áherslu á að henni hafi verið ókunnugt um að fyrrgreind ábyrgð var einungis veitt til sex mánaða. Hún hafi aldrei haft ábyrgðarskjalið sjálft undir höndum og verið ókunnugt um nánara efni þess. Sé fram komið í málinu að sá starfsmaður sem aflaði skjalsins og hafði það undir höndum hafi verið Árni Maríasson, starfsmaður á fyrirtækjasviði stefnanda. Að öðru leyti hafi ekki verið upplýst hvaða starfsmenn stefnanda fengu skjalið afhent eða þekktu til efni þess. Þá liggi ekki fyrir hvernig skjalið var skráð inn í kerfi bankans. Í öllu falli hafi stefndu verið ókunnugt um að ábyrgðin rann út 27. júní 2008.

            Stefnda mótmælir því að henni hafi borið að ganga eftir því að Kaupthing Luxembourg S.A. gæfi út nýja ábyrgð. Þá hafi hún ekki verið í sambandi við fyrirsvarsmenn þess banka eða móðurfélag hans, Kaupþings banka hf. Stefnda tekur einnig undir sjónarmið stefndu Sigurjóns og Halldórs um að ekkert liggi fyrir um að tjón hafi orðið af ætluðum mistökum við meðferð ábyrgðarinnar. Þannig hafi lánið síðar verið endurnýjað auk þess sem ekkert liggi fyrir um að útgefandi ábyrgðarinnar hefði greitt hana. Sjálfskuldarábyrgð Björgólfs Guðmundssonar hafi þannig mögulega verið verðmætari á þessum tíma en umrædd bankaábyrgð. Stefnda tekur einnig undir sjónarmið téðra stefndu um að kröfugerð stefnanda sé óljós, tjón vanreifað og eigi að vísa málinu frá dómi án kröfu.

            Stefnda tekur undir málsástæður stefnda Sigurjóns og Halldórs um að stefnandi hafi verið skuldbundin til að tryggja henni skaðleysi vegna hugsanlegs tjóns sem hún kynni að valda í störfum sínum fyrir stefnanda. Hún tekur einnig undir málsástæður þeirra um að umrædd vátrygging sé gild. Verði allt að einu fallist á að vátryggingin sé ógild eigi hún jafnháa kröfu gegn stefnanda til skuldajafnaðar, svo sem byggt sé á af hálfu stefndu Sigurjóns og Halldórs. Vísar hún sérstaklega til þess að hún hafi enga ábyrgð borið á töku vátryggingarinnar eða komið að gerð samnings um hana. Hún tekur einnig undir sjónarmið þeirra um brottfall skaðabótaábyrgðar eða lækkun kröfu með vísa til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 50/1993. Þá telur hún að krafa stefnanda hafi fallið niður fyrir tómlæti, en stefna í málinu hafi ekki verið birt fyrr en rúmum þremur árum eftir atvik málsins. Hafi þetta komið niður á möguleikum hennar til varna.

           

Helstu málsástæður og lagarök stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd.       

            Stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate. Ltd. vísa til þess að stefnandi hafi óskað eftir stjórnendatryggingu hjá vátryggjendum með umsókn 9. janúar 2008. Howden Insurance Brokers hafi verið ráðgjafi stefnanda. Því hafi verið lýst yfir í umsókninni, fyrir hönd stefnanda og allra vátryggðra, í kjölfar könnunar og með sérstöku samþykki allra vátryggðra (þ. á m. meðstefndu), að allar upplýsingar í umsókn og fylgigögnum væru sannar og réttar. Með umsókninni hafi fylgt fjárhagsupplýsingar stefnanda fyrir árin 2006 og 2007 auk glærukynningar og annarra gagna sem lutu að rekstri bankans. Á þessum grundvelli hafi þessi stefndu fallist á að veita trygginguna sem skyldi taka gildi 1. febrúar 2008 og gilda til 31. janúar 2009.

Umrædd trygging hafi einungis tekið til krafna sem kæmu fram á vátryggingartímabilinu. Tryggingin hafi runnið út 31. janúar 2009 án þess að nokkrar tilkynningar eða kröfur, sem lúti að málinu, væru gerðar. Tryggingin hafi hvorki verið endurnýjuð né framlengd. Krafa vegna málsins hafi fyrst komið fram í lok ársins 2010.

Stefndu hafi orðið ljóst að röng svör höfðu verið gefin við um helmingi spurninga í umsókn um trygginguna og í nær öllum fylgigögnum sem stöfuðu frá stefnanda. Þeim hafi einnig orðið ljóst að við töku tryggingarinnar höfðu þeir ekki verið upplýstir um atriði sem skipti vátryggjendur verulegu máli að vera upplýstir um. Stefndu hafi hafnað allri ábyrgð samkvæmt tryggingunni og lýst jafnframt yfir ógildi hennar, riftun og uppsögn með bréfi 31. desember 2010.

Þessir stefndu vísa til þess að sýkna meðstefndu eigi einnig að leiða til sýknu af kröfu stefnanda gegn félögunum. Er tekið undir málsástæður meðstefndu um að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð þeirra. Hvað sem líði hugsanlegri skaðabótaábyrgð meðstefndu beri hins vegar að sýkna stefndu af kröfu stefnanda vegna atvika við gerð vátryggingarsamnings svo og vegna skilmála vátryggingarsamningsins sjálfs.

Stefndu benda á eðli þeirrar vátryggingar sem hér sé um að ræða, þ.e tryggingu sem feli í sér svonefnda „kröfugerðarreglu“. Málsforræði varðandi trygginguna sé í höndum stefnanda og téðra stefndu. Sönnunarfærsla stefndu byggir einkum á málflutningsyfirlýsingum stefnanda sjálfs, dómum, skýrslum sem stefnandi óskaði eftir frá Deloitte, matsgerð dómkvaddra matsmanna o.fl. Við túlkun skilmála tryggingarinnar eigi að hafa hliðsjón af því að skilmálarnir stafa frá vátryggingamiðlaranum Howden Insurance Brokers sem hafi verið ráðgjafi stefnanda.

Stefndu leggja áherslu á að stefnandi og meðstefndu hafi brotið gróflega gegn upplýsingaskyldu sinni og sú mynd sem dregin hafi verið af góðum rekstri og lágmarks vátryggingaráhættu stefnanda hafi verið alröng. Í þessu sambandi er vísað til þess að stefnandi hafi sjálfur viðurkennt stórfelldar misfellur í rekstri sínum og viðurkennt berum orðum málsástæður stefndu um rangar upplýsingar í ársreikningum og öðrum reikningsskilum bankans. Markaðsmisnotkun starfsmanna stefnanda hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem aflað hafi verið undir meðferð málsins, séu staðfestar stórkostlegar misfellur í rekstri og reikningsskilum stefnanda. Sérfræðingar hafi komust að sömu niðurstöðum. Rannsóknarnefnd Alþingis hafi komist að sömu niðurstöðum og hið sama eigi við um skýrslu lögfræðistofunnar Lynx. Gangi öll gögn málsins í sömu átt að þessu leyti og hafi engin gögn verið lögð fram um hið gagnstæða.

            Umræddir stefndu vísa til þess að skyldan til að veita bæði réttar og fullnægjandi upplýsingar samkvæmt lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga sé þríþætt: Í fyrsta lagi skylda til að svara spurningum rétt, í öðru lagi skylda til að veita upplýsingar að eigin frumkvæði og í því þriðja skylda til að leiðrétta rangar upplýsingar. Enginn vátryggjandi vilji vátryggja banka þar sem bankastjórar stunda markaðsmisnotkun, eigið fé er undir lögmæltum mörkum, bankinn eigi eigin hluti langt umfram lögleyfð mörk, áhættuskuldbindingar eru langt yfir mörkum, tengdir aðilar eru ranglega tilgreindir, ársreikningar og önnur reikningsskil röng o.s.frv. Hvert og eitt atriðanna hefði leitt til þess að tryggingin hefði ekki verið veitt. Það sé þó ekki skilyrði fyrir því að ábyrgð stefndu falli niður að þeir hefðu ekki veitt trygginguna ef réttar og tæmandi upplýsingar hefðu verið veittar.

            Að því er varðar rangar upplýsingar stefnanda í umsókn um trygginguna vísa þessir stefndu til þess að ranglega hafi verið svarað spurningu um hverjir áttu meira en 10% í stefnanda. Mikið hafi skort á svör um hverjir sátu í stjórnum félaga á vegum stefnanda. Rangt svar hafi verið gefið við spurningunni um hugsanlegar breytingar á tekjum. Sama hafi átt við spurninguna hvort opinber könnun eða rannsókn hefði verið framkvæmd af hálfu eftirlitsaðila. Rangt svar hafi verið gefið við spurningu um vitneskju um hugsanlegar kröfur í trygginguna. Verulega hafi skort á tilgreiningu dótturfélaga í svari við spurningu um það atriði.

            Þessir stefndu vísa til þess í ársreikningnum, árshlutareikningum og ársskýrslum stefnanda hafi rangt verið farið með eigið fé og laust fé, framkvæmd áhættuferla, stórar áhættuskuldbindingar, eiginfjárhlutfall og að einungis einn hluthafi ætti yfir 10% af hlutafé í bankanum. Rangar upplýsingar hafi einnig verið í glærukynningu, fréttatilkynningum og öðru efni.

            Stefndu telja einnig að upplýsingar sem höfðu verulega þýðingu fyrir mat á áhættunni hafi ekki verið veittar. Þannig hafi markaðsmisnotkun verið stunduð innan bankans, í það minnsta frá nóvember 2007. Eiginfjárhlutfall stefnanda hafi verið undir mörkun. Stefnandi hafi einnig brotið gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar. Eignarhald á, og veðtaka í, eigin hlutum hafi verið langt umfram lögbundið hámark, meðal annars í tengslum við aflandsfélög bankans. Stefnandi hafi átt í verulegum lausafjárvandræðum og stefnt í greiðsluþrot. Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við rekstur bankans sem ekki hafi verið upplýst um. Endurskoðun hafi verið ábótavant og upplýsingar í reikningsskilum rangar og ófullnægjandi. Meðferð peningamarkaðssjóða hafi verið í andstöðu við reglur. Lánveitingar hafi verið áhættusamar og í bága við lög og reglur. Áhættustýring hafi verið gölluð og svonefndu  

CAMELS-mati ábótavant við mat á afskriftum og virðisrýrnun lána. Stefndu vísa hér einnig til þess að stefnanda hefði borið að gefa þeim upplýsingar um kaupréttarsamninga starfsmanna bankans, þ.á m. kaupréttarsamning stefnda Sigurjóns.

            Stefndu vísa til 19. og 20. gr. laga nr. 30/2004 sem mæli fyrir  um að ábyrgð vátryggjanda falli niður, hvort sem brot gegn upplýsingaskyldu voru sviksamleg eða framin af gáleysi. Þeir telja að meðstefndu teljist til vátryggingataka og verði því allar mótbárur hafðar uppi einnig gagnvart þeim. Í öllu falli verði þau samsömuð stefnanda sem vátryggingataka. Stefndu vísa einnig til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga um svik, óheiðarleika og ósanngjarna samningsskilmála. Þeir vísa einnig til brostinna forsendna samkvæmt óskráðum reglum því til stuðnings að vátryggingarsamningur sé ógildur.

            Stefndu byggja einnig á því að vátryggingarsamningi hafi verið rift og/eða sagt upp samkvæmt heimild í 21. gr. laga nr. 30/2001, en þetta hafi verið heimilt án tillits til huglægrar afstöðu stefnanda við töku tryggingarinnar. Stefndu vísa til þess að kröfur stefnanda hafi fyrst komið fram eftir að vátryggingartímabilið var liðið 31. janúar 2009, en hér hafi verið um að ræða svonefnda kröfugerðartryggingu (e. claims made insurance). Viðbótartilkynningarfrestur hafi ekki verið veittur, enda sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda. Þar að auki hafi skilyrði fyrir viðbótarfresti ekki verið uppfyllt. Grein III.H í vátryggingarsamningi eigi ekki við sem mæli fyrir um fimm skilyrði. Þremur af þessum skilyrðum sé ekki fullnægt í málinu.

            Stefnandi hafi haft uppi kröfur vegna sama meinta tjóns í dómsmáli á hendur endurskoðunarfyrirtækjum PricewaterhouseCoopers. Þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um sáttagreiðslur frá félögunum til stefnanda leiði það til sýknu, sýknu að svo stöddu eða frávísunar krafna stefnanda vegna vanreifunar.

            Vegna samkomulags stefnanda við hluta vátryggjenda telja umræddir stefndu einnig að greiðslur úr „Grunntryggingunni“ (Primary layer) hafi ekki verið tæmdar. Því geti ekki komið til greiðslu úr „Fyrstu viðbótartryggingu“ (First excess layer) eða „Annarri viðbótartryggingu“ (Second excess layer). Þá vísa stefndu einnig til undaþágu frá ábyrgð sinni samkvæmt grein IV.B í skilmálunum („Investment Performance Endorcement/Exclusion“) og þess að engin ábyrgð stofnist sé talið að háttsemi meðstefndu hafi falið í sér grófa mynd gáleysis eða ásetning.

            Stefndu vísa til þess að stefnandi hafi í engu fjallað um efni vátryggingarsamnings og ábyrgð stefndu á þeim grundvelli. Þannig sé í engu fjallað um það með hvaða hætti háttsemi stefndu teljist „ólögmæt háttsemi“ (e. Wrongful Act) í skilningi samningsins. Þá er vísað til þess að stefnandi geti ekki, sem vátryggingataki, einnig verið tjónþoli samkvæmt tryggingunni, ekki síst í ljósi þess að stefnandi hafi stofnað til tryggingarsamnings með röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Þá vísa stefndu til þess að frestur samkvæmt 51. gr. laga nr. 30/2004 hafi verið liðinn.

            Að lokum vísa stefndu QBE Int. Insurance Ltd. og QBE Corporate. Ltd. til ýmissa annmarka á dómkröfum stefnanda og útreikningum. Samanlögð heildarfjárhæð krafna stefnanda sé langt umfram hámark vátryggingar. Stefnandi hafi ranglega haft uppi kröfur í breskum pundum, en ekki evrum. Síðari breyting dómkrafna í evrur hafi verið óheimil, enda óvíst hvert gengi gjaldmiðlanna verði. Þá telja stefndu að allar sönnur skorti fyrir ætluðu tjóni stefnanda og hafi engin gögn verið lögð fram um það í málinu. Stefnandi virðist ranglega hafa uppi kröfur á gegn téðum stefndu sameiginlega. Framsetning dómkrafna stefnanda sé lítt skiljanleg og geti leitt til ólíkra niðurstaðna. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé algjörlega órökstudd og röng. Stefndu leggja í öllu falli áherslu á að ábyrgð vátryggjenda sé hlutfallsleg og geti samkomulag einhverra vátryggjenda við stefnanda ekki áhrif á aðra vátryggjendur.


 

Niðurstaða um formhlið málsins

            Svo sem áður greinir lækkaði stefnandi kröfur sínar gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu í þinghaldi 12. nóvember sl. samhliða niðurfellingu málsins gegn 22 af 24 stefndum vátryggjendum. Nam lækkunin hámarksgreiðslu sem hver og einn vátryggjandi hefði þurft að greiða samkvæmt vátryggingarsamningi. Er því haldlaus sú málsástæða stefndu að þessi lækkun kröfunnar, sem var til hagsbóta fyrir áðurnefnd stefndu og hafði engin áhrif á kröfur stefnanda gegn stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., leiði til þess að tjón stefnanda sé vanreifað eða málið af öðrum ástæðum ekki dómtækt. Í þinghaldi 26. nóvember sl. gerði stefnandi þá breytingu á kröfum sínum gegn stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. að gjaldmiðli fjárhæða var breytt úr sterlingspundum í evrur. Ekki er annað komið fram en að sú breyting hafi verið til hagsbóta fyrir téða stefndu og þar af leiðandi heimil samkvæmt almennum reglum réttarfars. Getur þessi breyting á kröfugerð stefnanda því ekki leitt til þess að málinu verði vísað sjálfkrafa frá dómi.

            Því er áður lýst að stefnandi höfðaði mál gegn fyrrum ytri endurskoðendum sínum, PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Ber stefnan með sér að hafa verið þingfest 21. júní 2012 eða stuttu áður en stefnandi höfðaði mál þetta. Að mati dómsins er hafið yfir vafa að í því máli laut skaðabótakrafa stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækjunum meðal annars að því tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna þeirra atvika sem talin eru stefndu Sigurjóni, Halldóri og Sigríði Elínu til sakar í máli þessu. Fram er komið fram að umrætt mál var fellt niður á grundvelli samkomulags í febrúar 2017. Verður bókun stefnanda og lækkun krafna hans í þinghaldi 28. nóvember sl. ekki skilin á aðra leið en að hann hafi með því viðurkennt að hafa þegið hagsmuni úr hendi PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP vegna þess tjóns sem hann sækir að fá bætt með málshöfðun sinni.

            Dómurinn telur að sú skylda hafi hvílt á stefnanda að gera grein fyrir, svo fljótt sem kostur var, hvers kyns bótum sem hann þáði vegna þess tjóns sem málarekstur hans gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur byggðist á, enda gat stefnandi eðli málsins samkvæmt ekki gengið út frá því að stefndu væri kunnugt um fyrrgreint samkomulag og þýðingu þess. Svo sem áður greinir lauk stefnandi hins vegar gagnaöflun sinni 27. júní 2017 án þess að láta þess að nokkru getið fyrir dóminum að hann hefði í febrúar þess árs lokið máli sínu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur, vegna meðal annars sama tjóns og deilt er um í fyrirliggjandi máli, og hlotið greiðslur frá þeim. Var sá háttur við rekstur málsins af hálfu stefnanda í andstöðu við grunnreglur íslensks réttarfars.

            Þrátt fyrir framangreinda annmarka á rekstri málsins af hálfu stefnanda telur dómurinn að horfa verði til þess að við aðalmeðferð málsins hefur stefnandi, í framhaldi af athugasemdum stefndu og eftir ábendingu dómsins, lækkað kröfu sínar með vísan til samkomulags í fyrrgreindu máli gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Hefur hann einnig lýst sig reiðubúinn til að leggja samkomulagið fram ef áskorun stefndu þess efnis kæmi fram. Af hálfu stefndu hefur hins vegar ekki verið skorað á stefnanda að leggja samkomulagið fram. Að öllu virtu eru umræddir annmarkar á meðferð málsins af hálfu stefnanda því ekki þess eðlis að þeir hafi gert stefndu erfiðara fyrir að halda uppi fullum vörnum í málinu. Er kröfugerð stefnanda, svo og reifun hans á endanlegu tjóni, því nægilega skýr, sbr. grunnrök d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. nr. 91/1991, til að efnisdómur verði felldur á kröfur hans.

            Í ljósi ítrekaðra fordæma Hæstaréttar er haldlaus sú málsástæða tiltekinna stefndu að um málsókn stefnanda hafi gilt b-liður 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög sem felld var á brott með 15. gr. laga nr. 68/2010 um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.), sbr. einnig 31. gr. laganna. Einnig er haldlaus sú málsástæða tiltekinna stefndu að ákvörðun um málshöfðun hafi ekki verið tekin af þar til bærum aðila, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 2/1995. Þá eru ekki efni til að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi með vísan til ákvæða 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga eða af öðrum ástæðum sem stefndu hafa byggt á.

 

Niðurstaða um efnishlið málsins

          Svo sem áður er rakið var lán stefnanda til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. upphaflega veitt 26. júní 2007, en það lán, að fjárhæð 17.000.000.000 krónur, var tekið til endurfjármögnunar eldri lána félagsins hjá bankanum. Ekki er um það deilt að á þeim tíma var aðaleigandi fjárfestingarfélagsins formaður bankaráðs stefnanda, Björgólfur Guðmundsson, sem jafnframt var einn aðaleigandi Samson eignarhaldsfélags ehf. ásamt syni sínum, Björgólfi Thor Björgólfssyni. Af hálfu stefnanda er þó hvorki á því byggt að upphafleg veiting lánsins til félagsins verði metin stefndu Sigurjóni, Halldóri eða Sigríði Elínu til sakar né að svo hátti til um þá endurnýjun lánsins 27. desember 2007 sem áður er gerð grein fyrir. 

          Af fyrirliggjandi gögnum málsins um fjárhagslega stöðu Fjárfestingarfélagsins Grettis hf., svo og skýrslum fyrir dómi, verður ráðið að staða félagsins hafi í júní 2008 verið orðin veik og þeim starfsmönnum stefnanda, sem komu að málefnum félagsins, það ljóst. Gat ekki farið á milli mála að endurnýjun lánsins, án viðhlítandi ábyrgðar þriðja aðila eða sambærilegrar tryggingar, sem áfram takmörkuðu áhættu bankans, gekk gegn hagsmunum stefnanda. Er því hafið yfir vafa að mistök áttu sér stað innan bankans þegar umrædd ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. var ekki fullnustuð í framhaldi af greiðslufalli lánsins 18. júní 2008 eða aðrar viðeigandi ráðstafanir gerðar til að tryggja hagsmuni bankans vegna lánsins. Á þetta því frekar við að fram er komið að málefni fjárfestingarfélagsins, og tengdra fyrirtækja, voru til sérstakrar skoðunar innan bankans auk þess sem hér var um að ræða verulega skuld fyrirtækis í eigu formanns bankaráðs. Er þessi niðurstaða einnig í samræmi við framburð stefnda Sigurjóns fyrir dómi sem skilja verður á þá leið að umrædd ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi skipt sköpum um að lánastaða fjárfestingarfélagsins gagnvart bankanum yrði áfram viðunandi. Er þetta einnig í samræmi við þá eftirfarandi háttsemi hans og tiltekinna annarra starfsmanna stefnanda í júlí 2008 að vinna að því að afla nýrrar ábyrgðar frá Kaupþingi banka hf., móðurfélagi Kaupthing Bank Luxembourg S.A., í tengslum við framlengingu lánsins.

          Þótt mistök hafi átt sér stað innan stefnanda í framhaldi af áðurnefndu greiðslufalli Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. 18. júní 2008 er ekki þar með sagt að stefndu Sigurjón, Halldór eða Sigríður Elín hafi þar átt hlut að máli. Þannig verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að skilyrðum saknæmis þurfi að vera fullnægt með tilliti til háttsemi hvers og eins þessara stefndu og er því ekki nægilegt að staðreynt sé að ótilgreind mistök hafi orðið innan bankans við meðferð á lánamáli félagsins í framhaldi af fyrrgreindu greiðslufalli þess 18. júní 2008.

          Áður hefur verið gerð grein fyrir því að téð lán var síðar endurnýjað með nýjum lánssamningi 25. júlí 2008, án þess að þá lægi fyrir samþykki bankaráðs eða lánanefndar, og þá einnig án þess að fyrir lægi ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. út lánstímann. Hins vegar er málatilbúnaður stefnanda ekki grundvallaður á því að þessi lánveiting verði metin umræddum stefndu til sakar. Koma ákvarðanir um endurnýjun lánsins eftir gjalddaga þess því ekki til skoðunar nema að því marki sem þær styðja við málsástæður stefnanda um saknæma háttsemi téðra stefndu vegna þeirrar bankaábygðar sem rann út 27. júní 2008 og áður er gerð grein fyrir.

          Af hálfu stefnanda hefur því verið hreyft við munnlegan flutning málsins að áðurnefnd stefndu hafi vanrækt skyldur sínar við að haga kerfum og verkferlum innan bankans þannig að mistök yrðu ekki við fullnustu ábyrgða, svo sem þeirrar sem um ræðir í máli þessu. Umrædd málsástæða kom fyrst fram við munnlegan flutning málsins. Gegn mótmælum stefndu getur hún ekki komist að í málinu. Þá hefur stefnandi undir rekstri málsins fallið frá þeirri málsástæðu að með háttsemi sinni hafi téð stefndu brotið gegn 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar.

A

Í málinu krefst stefnandi skaðabóta úr hendi fyrrum starfsmanna sinna vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi þeirra í starfi á tíma þegar stefnandi starfaði sem banki í fullum rekstri. Áður er rakið að stefndu Sigurjón og Halldór störfuðu sem bankastjórar stefnanda og Sigríður Elín sem yfirmaður fyrirtækjasviðs þegar atvik málsins gerðust. Fer því um mat á ábyrgð stefndu Sigurjóns og Halldórs samkvæmt 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, en í 1. mgr. greinarinnar kemur meðal annars fram að framkvæmdastjórum sé skylt að bæta hlutafélagi það tjón, er þeir hafa valdið félaginu í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Ágreiningslaust er aftur á móti að stefnda Sigríður Elín var ekki framkvæmdastjóri í skilningi laga nr. 2/1995. Verður ábyrgð hennar því eingöngu reist á hinni almennu skaðabótareglu, eins og hún horfir við henni sem einum af yfirmönnum bankans. Í þessu felst jafnframt að við mat á skaðabótaábyrgð stefndu Sigríðar Elínar ber einnig að horfa til þess hvort sanngjarnt sé að krefja hana um bætur þegar litið er til sakar og stöðu hennar sem starfsmanns, svo og atvika að öðru leyti, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

          Í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 50/1993 segir að reglur frumvarpsins um bótaábyrgð starfsmanns séu gerðar á grundvelli þess sjónarmiðs að meginreglan sé sú að vinnuveitandi beri endanlega bótaábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur þegar hann er við vinnu í þágu vinnuveitandans. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins, sem síðar varð að áðurnefndri 23. gr. laganna, er því enn fremur slegið föstu að regla 3. mgr. greinarinnar feli í sér vægari bótareglu en gildi um ábyrgð starfsmanna eftir almennum bótareglum. Af þessu leiðir að meira þarf til að koma svo að millistjórnandi á borð við stefndu Sigríði Elínu beri skaðabótaábyrgð gagnvart vinnuveitanda sínum en við á um framkvæmdastjóra samkvæmt sérreglu 134. gr. laga nr. 2/1995. Síðastnefnda lagákvæðið áskilur þannig aðeins einfalt gáleysi, jafnvel þótt ákvæðið hafi verið skýrt þannig í framkvæmd að horfa verði til þess við mat á saknæmi að viðskiptaákvarðanir hljóti jafnan að fela í sér vissa áhættu, sbr. dóm Hæstaréttar 14. janúar 2010 í máli nr. 350/2009 og dóm Hæstaréttar 2. október 2003 í máli nr. 40/2003. Mál það sem hér er til úrlausnar lýtur aftur á móti ekki að slíkri viðskiptaákvörðun heldur ætluðum mistökum við framkvæmd lánssamnings og viðbrögðum við greiðslufalli eins af stærstu viðskiptavinum bankans.

          Í málinu verður einnig að horfa til þess að því er ekki haldið fram að téð stefndu hafi með háttsemi sinni gagngert leitast við að skaða hagsmuni stefnanda eða afla sér eða öðrum ávinnings á kostnað hans. Þegar af þessari ástæðu verður ekki lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða ásetning stefndu til að valda stefnanda tjóni. Auk þess er því ekki haldið fram af hálfu stefnanda að undanþágur frá ábyrgð samkvæmt skilmálum í svonefndri stjórnendatryggingu sem hann samdi um við stefndu QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd. o.fl. í janúar 2008, sbr. einkum grein IV.B („Investment Performance Endorcement/Exclusion“), sem lýtur að sérlega ámælisverðri háttsemi, eigi við um stefndu Sigurjón, Halldór eða Sigríði Elínu.

B

Stefndi Sigurjón sat í lánanefnd stefnanda. Staðfesti hann fyrir dómi að hafa tekið þátt í afgreiðslu lánanefndar á erindi Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. 9. janúar 2008. Fyrir fund lánanefndar var lagt áðurlýst ákvörðunarblað, dagsett 27. desember 2007, sem unnið var af fyrirtækjasviði stefnanda. Ber blaðið með sér að hafa verið samþykkt af stefndu Sigríði Elínu og Árna Maríassyni, starfsmanni á fyrirtækjasviði. Í skjalinu kemur meðal annars fram að Fjárfestingarfélagið Grettir hf. sé einn stærsti viðskiptavinur bankans. Lagt er til í skjalinu að lánsbeiðni fjárfestingarfélagsins verði samþykkt. Fyrir dómi staðfesti stefndi Sigurjón að hafa lesið skjalið en lagði áherslu á að í því væri ekki að finna neina umfjöllun um að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefði „einhverja sérstaka eiginleika um það að hún renni út“. Einungis segði í skjalinu að um væri að ræða bankaábyrgð. Að mati dómsins er þessi frásögn stefnda Sigurjóns ekki fyllilega í samræmi við efni umrædds skjals þar sem segir orðrétt: „Áfram núverandi tryggingar, framlenging í 6 mánuði á ábyrgð KAUP LUX.“ Gaf þessi setning því til kynna að einhver tímamörk væru á ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og mátti stefnda Sigurjóni vera það ljóst.

          Að öllu jöfnu verður ekki gerð sú krafa til framkvæmdastjóra viðskiptabanka að hann þekki til allra nánari atriða undirliggjandi ábyrgða í lánssamningum, enda þótt þeir kunni að varða háar fjárhæðir og hafi verið bornir upp fyrir lánanefnd þar sem viðkomandi á sæti. Í þessu tilviki háttaði hins vegar svo til að um var að tefla óvenjulega lánveitingu í þeim skilningi að um verulega lánsfjárhæð var að ræða til eins stærsta viðskiptavinar bankans sem auk þess var í eigu formanns bankaráðs. Við þetta bættist að í grein 7.5 í starfsreglum fyrir bankaráð var áskilið að bankaráð tæki ákvarðanir um öll viðskiptaerindi bankaráðsmanna eða fyrirtækja sem þeir væru í fyrirsvari fyrir og vörðuðu tilteknar fjárhæðir. Ljóst er að umrætt lán til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. féll undir þessa reglu, enda hafði komið fram í ákvörðunarblaðinu að samtals væri um 18.350.000.000 króna lán að ræða. Ákvörðun um lánveitinguna þurfti því að bera upp á bankaráðsfundi. Aðspurður um hvort bankastjórar hefðu lagt málið fyrir bankaráð staðfesti stefndi Sigurjón fyrir dómi að svo hefði verið þótt almennt séð hefði hann ekki annast kynningu slíkra mála.

          Samkvæmt 68. gr. laga nr. 2/1995 fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn hlutafélags, en í þeim efnum annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur. Það kemur því í hlut framkvæmdastjóra hlutafélags að bera upp þau erindi á stjórnarfundum sem kynna þarf stjórn félags. Hjá stefnanda voru, eins og áður segir, starfandi tveir framkvæmdastjórar, þ.e. stefndu Sigurjón og Halldór, en samkvæmt óumdeildri verkaskiptingu innan bankans féllu verkefni fyrirtækjasviðs undir stefnda Sigurjón. Að þessu virtu var það á ábyrgð stefnda Sigurjóns að kynna bankaráði tillögu lánanefndar um lánveitinguna. Við undirbúning slíkrar kynningar, eftir atvikum í samráði við stefndu Sigríði Elínu, bar stefnda einnig að kanna hvað fælist í þeim orðum ákvörðunarblaðsins, sem hann staðfesti fyrir dómi að hafa áður séð og samþykkt í lánanefnd 9. janúar 2008, um framlengingu á ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um sex mánuði. Átti þetta því frekar við að hagsmunir bankans af ábyrgðinni voru verulegir miðað við fjárhæð lánsins og ábyrgðarinnar. Fyrir dómi kvaðst stefndi Sigurjón aftur á móti ekki hafa skoðað þetta atriði neitt frekar og hefði hann einfaldlega treyst því skjali sem komið hefði frá fyrirtækjasviði. Kvaðst hann hafa skilið það skjal á þann veg að ábyrgðin væri ótímabundin. Eins og áður segir var þessi skilningur stefnda Sigurjóns þó ekki forsvaranlegur miðað við efni ákvörðunarblaðsins. Með hliðsjón af framangreindum skyldum hans gagnvart bankaráði og hagsmunum stefnanda gat hann heldur ekki látið hjá líða að kanna þetta atriði nánar.

          Í málinu er einnig fram komið að á vegum stefnanda var staða Fjárfestingarfélagsins Grettis hf., svo og tengdra félaga, til sérstakrar skoðunar í júní 2008 og kom stefndi Sigurjón að þeirri vinnu. Við mat á vitneskju stefnda Sigurjóns á málefnum fjárfestingarfélagsins má meðal annars líta til minnisblaðs starfsmanns stefnanda, dagsett 2. apríl 2008, sem stefndi Sigurjón lagði sjálfur fram í málinu. Þar er rætt um stöðu fjárfestingarfélagsins, því lýst sem einum af stærri viðskiptavinum bankans og eigið fé sagt neikvætt um 16.000.000.000 til 17.000.000.000 krónur. Undir skjalið rita stefndu Sigurjón og Halldór upphafsstafi sína en á það er jafnframt handskrifað að skjalið hafi verið lagt fyrir bankaráð 7. apríl 2008.

          Eins og áður greinir varð greiðslufall á láni Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. 18. júní 2008 og rann bankaábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. út 27. sama mánaðar án þess að stefnandi hefði gengið að bankaábyrgðinni eða fengið hana endurnýjaða. Af skýrslum fyrir dómi verður dregin sú ályktun að a.m.k. Árna Maríassyni og Árna Þór Þorbjörnssyni hafi verið ljóst, fyrir gjalddaga lánsins, að það yrði ekki greitt á tilskildum tíma vegna erfiðrar stöðu félagsins. Var Árni Maríasson sá starfsmaður stefnanda sem hafði beina umsjón með láninu og Árni Þór Þorbjörnsson, yfirlögfræðingur á fyrirtækjasviði, sá starfsmaður stefnanda sem komið hafði að undirbúningi skjala við lánveitinguna. Stefnda Sigríður Elín, Árni Maríasson og Árni Þór Þorbjörnsson báru þó öll fyrir réttinum að ákvörðun um að ganga að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hefði í reynd ekki verið í þeirra höndum. Tveir síðarnefndu starfsmennirnir báru enn fremur að staðið hefði til að lánið yrði framlengt með nýjum lánssamningi. Að mati dómsins kann þessi framburður starfsmannanna að skýra hvers vegna þeir hófust ekki handa við innheimtu lánsins, eftir atvikum með fullnustu áðurgreindrar bankaábyrgðar.

          Þegar öll atvik málsins eru virt heildstætt telur dómurinn fram komið að fyrirhuguð framlenging lánsins hafi í reynd verið í höndum stefnda Sigurjóns að öllu verulegu leyti. Fær sú niðurstaða einnig stoð í þeirri eftirfarandi háttsemi stefnda Sigurjóns að leitast við að fá nýja ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. gefna út, meðal annars með viðræðum við tiltekinn fyrirsvarsmann Kaupþings banka hf., eftir að umrædd ábyrgð var niður fallin 27. júní 2008.

          Svo sem áður greinir mátti stefnda Sigurjóni vera ljóst að umrædd ábyrgð var í reynd forsenda fyrir því að hagsmunir stefnanda væru áfram tryggðir og bar honum að þekkja til þess grundvallaratriðis að um væri að ræða tímabundna ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Þótt ekki sé fram komin sönnun um að stefnda Sigurjóni hafi beinlínis verið gert ljóst, fyrirfram, af undirmönnum sínum að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. væri við það að falla niður, verður fyrrnefnd meðferð málsins af hans hálfu því talin honum til vanrækslu. Er þá einnig litið til þess að gera verður ráð fyrir því að stefnda Sigurjóni hafi, líkt og öðrum starfsmönnum stefnanda sem komu að máli fjárfestingarfélagsins, verið ljóst fyrir gjalddaga lánsins að það yrði ekki greitt á tilskildum tíma. Með því að gera ekki viðeigandi ráðstafanir til þess að ábyrgðin yrði framlengd áður en hún rann út, t.d. með því að virkja hana með tilkynningu til Kaupthing Bank Luxembourg S.A., voru möguleikar stefnanda á því að framlengja ábyrgðina skertir og áhætta hans af endurnýjun lánsins aukin verulega. Samkvæmt ölllu framangreindu er fullnægt skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög um gáleysi stefnda Sigurjóns í starfi hans, sem framkvæmdastjóra stefnanda, vegna þeirrar háttsemi hans sem áður er lýst. Hins vegar telur dómurinn ekkert komið fram um að stefnda Sigurjóni hafi borið að bera leggja álitamál um fullnustu ábyrgðar Kaupthing Bank Luxembourg A.S. undir bankaráð áður en hún rann út 27. júní 2008 og þannig vanrækt skyldur sínar með þeim hætti.

C

Samkvæmt 7. tölulið 3. gr. ráðningarsamnings stefnda Sigurjóns við stefnanda, 21. apríl 2003 bar stefnanda meðal annars að kaupa „hefðbundna stjórnendatryggingu vegna starfa Sigurjóns hjá bankanum“. Í greinargerð stefnda Sigurjóns er meðal annars á því byggt að stefnandi hafi samkvæmt þessu verið skuldbundinn gagnvart stefnda til að hafa ábyrgðartrygginguna í gildi á ráðningartíma hans. Ef stefnandi hafi ekki keypt ábyrgðartryggingu eða viðhaldið henni réttilega gagnvart vátryggjendum, þá hafi stefnandi vanefnt ráðningarsamninginn við stefnda og eigi hann við þær aðstæður jafnháa bótakröfu á hendur stefnanda sem nota megi til skuldajafnaðar við skaðabótakröfu hans í máli þessu.

          Svo sem áður er rakið byggir stefnandi ekki málatilbúnað sinn á því að stefndi Sigurjón hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í þeim mæli að tjón af hans völdum falli undir undanþáguákvæði þeirrar stjórnendatryggingar sem stefnandi samdi um við stefndu, QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd. o.fl., í janúar 2008, sbr. einkum grein IV.B („Investment Performance Endorcement/Exclusion“) sem fjallar um sérlega ámælisverða háttsemi ábyrgðartryggðra stjórnenda og starfsmanna. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af því sem áður er rakið um eðli umræddrar vanrækslu stefnda Sigurjóns, telur dómurinn að hér sé um að ræða tjón af völdum háttsemi sem téður stefndi mátti með réttu treysta að rúmaðist innan þeirrar hefðbundnu stjórnendatryggingar sem stefnandi skuldbatt sig til að taka með áðurgreindum ráðningarsamningi við hann. Er þá einnig litið til þess að stefnandi var stór banki á íslenskan mælikvarða og í lófa lagið að gæta ítrustu hagsmuna sinna með áskilnaði um takmarkaðri skaðleysisyfirlýsingu gagnvart stefnda Sigurjóni, til dæmis með ítarlegri ákvæðum í ráðningarsamningi, stæði vilji stefnanda til þess.

          Vegna fyrrnefndrar skuldbindingar stefnanda um að halda stefnda Sigurjóni skaðlausum vegna tjóns, sem hann kynni að valda í störfum sínum, telur dómurinn að stefnandi hafi firrt sig rétti til að krefja téðan stefnda um bætur vegna þeirrar háttsemi hans sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. september 2016 í máli nr. 641/2015. Verður stefndi Sigurjón ekki látinn bera hallann af því að stefnandi hafi með einhverjum hætti vanrækt skyldu sína til að tryggja honum fullnægjandi vernd með kaupum á umræddri tryggingu. Geta málsástæður hinna stefndu vátryggjenda á þá leið að umrædd stjórnendatrygging í þágu stefnda Sigurjóns sé ógild þar af leiðandi ekki haggað gildi þeirrar einkaréttarlegu skuldbindingar stefnanda sem hér er um að ræða þannig að þýðingu hafi fyrir niðurstöðu málsins. Ber að sýkna stefnda Sigurjón af kröfu stefnanda af þessari ástæðu.

D

Svo sem áður greinir heyrðu málefni fyrirtækjasviðs ekki beint undir stefnda Halldór sem annan af bankastjórum stefnanda. Fyrir liggur að stefndi Halldór tók þátt í samþykkt lánsins til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. í desember 2007, sem síðar var samþykkt endanlega af bankaráði stefnanda á fundi 28. janúar 2008, sem hann sat einnig. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um aðkomu stefnda Halldórs að meðferð lánamálsins í júní 2008, hugsanlegri framlengingu lánsins eða innheimtu. Þá er ekkert komið fram sem styður málsástæðu stefnanda um að stefnda Halldóri hafi borið að hafa frumkvæði að því að leggja lánamál fjárfestingarfélagsins fyrir bankaráð stefnanda í júní 2008. Að mati dómsins hefur stefnandi því engin haldbær rök fært fyrir saknæmri háttsemi stefnda Halldórs sem ber að sýkna af kröfu stefnanda af þeirri ástæðu.

E

Í málinu liggur fyrir að stefnda Sigríður Elín þekkti vel til málefna Fjárfestingarfélagsins Grettis hf., sem var meðal stærstu lántaka bankans, og var ein þeirra sem undirbjuggu og lögðu umsókn félagsins um endurnýjun umrædds láns fyrir lánanefnd bankans í desember 2007. Af þeim gögnum sem lágu til grundvallar lánveitingunni verður ráðið að ábyrgð Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi verið bundin við sex mánuði. Í málinu er ekki fram komin sönnun um að stefnda hafi fengið sérstaka tilkynningu um eindaga ábyrgðarinnar, enda þótt henni hafi daglega borist tölvuskeyti með almennu yfirliti um lán í vanskilum.

          Svo sem áður greinir telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að stefndu Sigríði Elínu hafi mátt vera kunnugt um greiðslufall fjárfestingarfélagsins 18. júní 2008 og þá hafi tilefni verið fyrir hana, sem yfirmanns fyrirtækjasviðs, að huga að hagsmunum bankans í ljósi þeirra aðstæðna sem komnar voru upp. Eins og aðkomu stefnda Sigurjóns að málefnum fjárfestingarfélagsins var háttað á umræddum tíma mátti stefnda hins vegar gera ráð fyrir því að unnið væri að því að tryggja hagsmuni bankans með endurnýjun lánsins með sambærilegum hætti og áður hafði verið gert. Þá lá fyrir að undirmaður hennar á fyrirtækjasviði, Árni Maríasson, hafði umsjón með lánamálum fjárfestingarfélagsins og bar að fylgjast sérstaklega með stöðu þess.

          Ekki er fram komið að stefndu Sigríði Elínu hafi sérstaklega verið gerð grein fyrir því af téðum Árna, eða öðrum undirmönnum sínum, að umrædd bankaábyrgð myndi falla niður stuttu eftir gjalddaga lánsins. Samkvæmt skýrslum fyrir dómi upplýsti stefnda Sigríður Elín stefnda Sigurjón um stöðu málsins eftir að umrædd bankaábyrgð var fallin niður. Í ljósi stöðu Sigríðar Elínar er haldlaus sú málsástæða stefnanda að henni hafi borið að bera málið upp við bankaráð. Að öllu virtu telur dómurinn að háttsemi stefndu hafi einungis verið með þeim hætti að ósanngjarnt yrði að hún bæri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 50/1993. Verður stefnda Sigríður Elín því sýknuð af kröfu stefnanda þegar af þeirri ástæðu.

F

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að lögmæt skilyrði skorti til að fella skaðabótaábyrgð á stefndu Sigurjón, Halldór eða Sigríði Elínu gagnvart stefnanda sem fyrrverandi vinnuveitanda þeirra. Svo sem áður greinir er krafa stefnanda gegn stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. á því reist að félögin beri ábyrgð á kröfu stefnanda gegn téðum stefndu upp að því marki sem nánar er kveðið á um í vátryggingarsamningi aðila með gildistökudag 1. febrúar 2008.

          Í 1. lið I. kafla fyrrgreinds samnings er kveðið á um að tryggingin feli í sér skyldu hinna stefndu vátryggingafélaga til að greiða fyrir hönd stjórnenda „allt TJÓN sem stafar af KRÖFU vegna ÓLÖGMÆTRAR ATHAFNAR [...] sem nýtur vátryggingaverndar“ að uppfylltum tilteknum nánari skilyrðum. Um hugtakið tjón vísar samningurinn til skilgreiningar í I. lið II. kafla samningsins, en þar er kveðið á um að hugtakið tjón merki „sérhver fjárhæð sem STJÓRNENDUM ber lagaleg skylda til að greiða vegna hvers kyns ÓLÖGMÆTRAR ATHAFNAR sem nýtur tryggingarverndar samkvæmt samningnum“. Með því að niðurstaða dómsins er sú að engin krafa hafi stofnast til handa stefnanda gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri eða Sigríði Elínu liggur ekki fyrir „tjón“ sem nýtur vátryggingaverndar samkvæmt áðurlýstum skilmálum vátryggingarsamningsins. Hefur stefnandi því ekki fært að því viðhlítandi rök að fullnægt sé skilyrðum 1. liðar I. kafla samningsins til þess að stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., verði dæmdir til greiðslu vátryggingabóta til handa stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu verða þessir stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort umræddur vátryggingarsamningur sé ógildur vegna rangra upplýsinga, sem stefnandi hefur í reynd viðurkennt með málfutningsyfirlýsingum í áðurgreindu dómsmáli gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP, svo og með ýmsum ummælum í stefnu málsins, að hafa veitt þessum stefndu við gerð vátryggingarsamningsins í janúar 2008.

            Eftir úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu hverjum um sig málskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði. Hefur við ákvörðun málskostnaðar verið tekið tillit til virðisaukaskatts, svo og þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö fyrrgreind mál, sem að nokkru lúta að sambærilegum ágreiningsefnum.

            Af hálfu stefnanda fluttu málið lögmennirnir Kristinn Bjarnason, Þórir Júlíusson og Pétur Örn Sverrisson.

            Af hálfu stefnda Sigurjóns flutti málið Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda Halldórs flutti málið Gunnar Viðar lögmaður.

            Af hálfu stefndu Sigríðar Elínar flutti málið Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður.

            Af hálfu stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., fluttu málið lögmennirnir Viðar Lúðvíksson og Hildur Ýr Viðarsdóttir.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Arnaldi Hjartarsyni héraðsdómara og Hrefnu Sigríði Briem viðskiptafræðingi.


 

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Sigurjón Þorvaldur Árnason, Halldór Jón Kristjánsson, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., eru sýkn af kröfum stefnanda, LBI ehf.

            Stefnandi greiði stefndu, Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Halldóri Jóni Kristjánssyni, hvorum um sig 9.000.000 krónur í málskostnað, stefndu Sigríði Elínu Sigfúsdóttur 21.000.000 krónur, en stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., hvorum um sig 4.500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Skúli Magnússon

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson

 

                                                                        Hrefna Sigríður Briem