• Lykilorð:
  • Endurgreiðslukrafa
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2019 í máli nr. E-1518/2018:

Svanhildur Dagný Karlsdóttir

(Benedikt Ólafsson lögmaður)

gegn

Tómasi Hallgrímssyni Ísfeld og

Guðmundi Erni Hallgrímssyni

(Árni Sigurgeirsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl 2019, var höfðað 24. febrúar 2018 af Svanhildi Dagnýju Karlsdóttur, Snægili 14, Akureyri, á hendur Tómasi Hallgrímssyni Ísfeld, Kagsåkollegiet 126, 2680 Søborg, Kaupmannahöfn, Danmörku, og Guðmundi Erni Hallgrímssyni, Vamdrupvej 1 C, 2610 Rødovre, Danmörku, til greiðslu skuldar.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu greiði henni óskipt gjaldfallna skuld að fjárhæð 1.660.531 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 25. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndu krefjast þess endanlega aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og samhliða varakröfu að krafan beri ekki dráttarvexti fyrr en frá uppkvaðningu dóms. Stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi. Í greinargerð kröfðust stefndu þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Dómurinn hafnaði þeirri kröfu með úrskurði 8. október 2018.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi og Hallgrímur Þorsteinn Tómasson höfðu um árabil búið saman í óvígðri sambúð þegar Hallgrímur Þorsteinn lést 20. júní 2015. Stefndu eru synir hans og einkaerfingjar. Þeir fengu leyfi til einkaskipta eftir föður sinn 27. nóvember 2015 og kveða þeir skiptum hafa lokið 1. apríl 2016. Málið höfðar stefnandi til endurgreiðslu fjármuna sem hún kveðst hafa lagt út fyrir dánarbúið og stefndu á tímabilinu 10. desember 2015 til 4. september 2017.

Hallgrímur Þorsteinn og stefnandi munu hafa haft aðskilinn fjárhag. Stefnandi kveður þess ekki alltaf hafa verið nákvæmlega gætt hvort þeirra lét fé af hendi til ýmissa sameiginlegra þarfa eða hvort þeirra var skráð eða talið kaupandi/eigandi að keyptum hlutum. Meðal annars hafi þau keypt, átt og rekið þriggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi í Alicante á Spáni þar sem þau hafi dvalið mikið í frítíma sínum. Íbúðin hafi verið skráð á nafn Hallgríms og hafi kaupverð hennar að stórum hluta verið greitt með bankaláni frá spænskum banka sem Hallgrímur hafi tekið. Til að standa í skilum með greiðslur af láninu og til að standa undir rekstri íbúðarinnar hafi þau stofnað bankareikning við Banco Popular Espanol í Alicante á Spáni á nafni Hallgríms og hafi þau bæði lagt fé inn á þann reikning, yfirleitt með gjaldeyriskaupum og millifærslum frá Íslandi. Reikningurinn hafi verið skuldfærður fyrir afborgunum af láninu sem tekið hafði verið til íbúðarkaupanna og einnig fyrir rekstrarkostnaði íbúðarinnar. Það hafi oft komið í hlut stefnanda að sjá um þessar innborganir og millifærslur, en hún hafi ekki haft prókúru á reikninginn og aldrei tekið fé út af honum.

Stefndu kveða fasteign föður síns á Spáni hafa verið í fastri leigu á veturna en í skammtímaleigu á sumrin og hafi leiga verið greidd inn á bankareikning á Spáni. Leigan hafi verið á vegum íslensks leigumiðlara á Spáni sem hafi séð um reksturinn, sótt reikninga á fasteignina og séð til þess að láta stefndu vita af stöðu mála.

Stefndu kveða stefnanda hafa látið sig vita að hún hefði áhuga á því að kaupa fasteignina undir lok árs 2015 og að hún hafi nýtt sér bústaðinn endurgjaldslaust sumarið 2016. Hún hafi gert sitt fyrsta og eina kauptilboð í eignina 27. október 2016. Það hafi runnið út 3. nóvember s.á. án þess að hún fengi gagntilboð, en stefndu hafi fundist verðið fjarri verðmæti fasteignarinnar. Stefnandi hafi með bréfi 25. september 2017 krafist endurgreiðslu millifærslna inn á reikning látins föður stefndu á Spáni auk útfararkostnaðar. Þá fyrst hafi stefndu orðið ljóst að stefnandi teldi sig eiga kröfu á hendur þeim vegna meintra innlagna á reikninginn.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Við andlát Hallgríms Þorsteins hafi stefnandi haldið áfram að sjá um greiðslur inn á bankareikning hans á Spáni til að forða því að lán vegna íbúðarinnar lenti í vanskilum. Hún hafi vonast til þess að fá að eignast íbúðina með samningum við stefndu og þá reiknað með því að þær greiðslur sem hún sjálf innti af hendi eftir lát Hallgríms Þorsteins kæmu til frádráttar við greiðslu á kaupverðinu.

Krafa stefnanda sundurliðist þannig:

Greitt með 20 millifærslum frá Arion banka inn á reikning HÞT

í Banco Popular Espanol á tímabilinu 10.12.2015 til 04.09.2017

samtals EUR 11.100 að andvirði í ISK við millifærslu:           1.410.222 krónur

Innlagt beint á sama reikning 25.09.2015, 02.10.2015,

19.05.2016 og 24.05.2016 samtals EUR 2.030, reiknað

á gengi útgáfudags stefnu (1 EUR = ISK 123,3049):                  250.309 krónur

Samtals:                                                                                     1.660.531 króna

Stefndu hafi tekið á sig sameiginlega sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins þegar þeir hafi sótt um leyfi til einkaskipta 27. nóvember 2015, sbr. 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1991. Þeir hafi fengið íbúðina til eignar með dánarbússkiptunum. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir því að fá íbúðina keypta. Í kauptilboði hennar í íbúðina 27. október 2016 komi fram að hluti kaupverðs sé þegar greiddur með innborgunum á reikning dánarbúsins á Spáni, en kauptilboðinu hafi ekki verið svarað.

Stefnandi hafi lagt út fjármunina sem málsóknin byggist á í góðri trú um að hún fengi þá endurgreidda við kaup á íbúðinni. Stefndu hafi verið það ljóst, eða mátt vera það ljóst, að ekki væri um gjafagerning að ræða og hafi féð komið þeim að fullum notum. Stefnandi eigi því skýlausan rétt á endurgreiðslu þeirra fjármuna sem hún hafi lagt út fyrir dánarbúið. Með bréfi til stefndu, dags. 25. september 2017, hafi þeir verið krafðir um endurgreiðslu. Svar hafi borist 10. október 2017 með tölvupósti til lögmanns stefnanda þar sem stefndu hafni alfarið greiðslu kröfunnar.

Stefnandi vísi um kröfur sínar til endurgreiðsluréttar og almennra reglna kröfuréttarins um efndir á greiðslu fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti byggist á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um ábyrgð stefndu á greiðslu skuldbindinga sem hvíli á dánarbúinu er vísað til 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1991. Um varnarþing sé vísað til 3. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 og byggist krafa um málskostnað á 130. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefndu

Aðalmálsástæða stefndu sé sú að þeir hafi aldrei fengið umræddar fjárhæðir. Greiðsla inn á ótilgreindan reikning í öðru landi geti vart talist greiðsla til stefndu sem þeim beri að endurgreiða. Stefndu hafi ekki aðgang að bankareikningnum og því hafi greiðslan aldrei borist þeim og þeim verið ómögulegt að nýta féð, hafi það skilað sér. Stefndu sé ómögulegt að endurgreiða féð þar sem þeir hafi ekki aðgang að því.

Greiðsla inn á ótilgreindan reikning látins manns á bankareikning erlendis eftir andlát hans myndi ekki kröfu á erfingja þegar greiðandi sé grandsamur um andlátið. Í 5.tl. 28 gr. laga um skipti á dánarbúum segi:

„að erfingjar hafi tekið að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku“

Yfirlýsing stefndu um að gangast við skuldbindingum hins látna miðist við þær kröfur sem til hafi verið við andlát hans, hafi orðið til vegna andláts hans eða samkvæmt gagnkvæmum samningum við erfingja, en ekki við kröfur sem verði til eftir andlát vegna einhliða gerninga þriðja manns sem grandsamur sé um andlátið. Forsenda ábyrgðarinnar sé að erfingjar gangist við þeim skuldbindingum sem hvílt hafi á hinum látna við andlát hans. Meint greiðsla stefnanda sé til hans, en mögulegt samningssamband hennar vegna fyrirhugaðra kaupa hennar hefði verið við stefndu. Þó að erfingjar gangist við ákveðnum skuldbindingum dánarbús, þá verði dánarbú og erfingjar ekki að sama lögaðilanum.

Málatilbúnaður stefnanda sé óskýr. Stefnandi hafi millifært féð í þeirri von að það myndi dragast frá kaupverði fasteignarinnar sem hún hugðist kaupa, en hafi ekki gert stefndu grein fyrir millifærslum sínum og engar kröfur gert á hendur þeim fyrr en í ljós kom að hún næði ekki að knýja fram kaup á eigninni. Almenna reglan um endurgreiðslu ofgreidds fjár sé sú að þeir sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eigi ekki rétt til skuli endurgreiða þá. Endurgreiðsluskylda takmarkist við þau tilvik þar sem greitt sé fyrir mistök eða þegar skuldari telji sig hafa verið skuldbundinn til greiðslu en hafi ekki verið það í raun. Málatilbúnaður stefnanda byggi í engu á því að hún hafi fyrir mistök greitt inn á reikning látins sambýlismanns síns eða að hún hafi talið sér skylt að gera það. Virðist hún hafa greitt inn á reikninginn í þeim eina tilgangi að eignast kröfu á stefndu til að geta nýtt sér í samningaviðræðum um kaup á fasteigninni. Hún hafi engan fyrirvara gert við greiðslurnar eða látið vita af því að hún væri að greiða kröfurnar, en henni hefði verið í lófa lagt að gera það. Hún hafi enga greiðsluskyldu borið og hafi vitað það fullvel. Óskiljanlegt sé hvers vegna stefnandi hafi ákveðið að greiða jafnvirði krafnanna sjálf inn á bankareikning í stað þess að láta stefndu vita.

Stefnandi virðist hafa lagt sig fram um að halda frá stefndu upplýsingum um kröfur vegna fasteignarinnar og eigin greiðslur. Hún hafi opnað greiðsluseðla, sem komið hafi í pósti til hins látna, án heimildar. Hún hafi ekki gefið stefndu upp netaðgang að heimabanka hins spænska banka, sem vísbendingar séu um að hún hafi haft aðgang að, þar sem hún segist hafa séð um þennan hluta fjármála. Hún viti um eftirstöðvar láns við kauptilboðsgerð, en stefndu hafi verið þær upplýsingar ókunnar. Greiðslurnar séu ekki föst fjárhæð mánaðarlega heldur séu mismunandi fjárhæðir. Stefndu hafi enga skýringu fengið á þeim fjárhæðum, en líklegasta skýringin sé sú að stefnandi hafi fengið upplýsingar um stöðu lána og greiðslur og haldið þeim frá stefndu. Því sé óvíst hvaða kröfur stefnandi telji sig hafa verið að greiða. Í ljósi þess að stefnandi hafi opnað bréf til hins látna, án þess að koma þeim til stefndu eða umboðsmanns þeirra, sé óvíst hvaða aðrar upplýsingar um fasteignina og/eða bankareikninga hafi borist á fyrrum heimili hins látna án þess að hafa skilað sér til stefndu. Stefnandi hafi einhliða ákveðið að greiða inn á reikninginn, að því er virðist í gróðavon. Sjónarmið um sök greiðanda eigi því við að fullu og ljóst sé að hún hafi greitt kröfurnar vitandi vits um að henni bæri engin skylda til þess og allt önnur, ólögvarin, sjónarmið séu að baki greiðslunum. Við þá sök bætist að hún hafi hagað greiðslum þannig að þær væru stefndu ókunnar og inn á reikning sem þeir hafi ekki haft aðgang að. Hin almennu sjónarmið um að greiðslur hafi átt sér stað fyrir misgáning eða mistök, eða átt sér stað í þeirri trú að þær væru réttmætar, eigi ekki við í þessu tilfelli. Stefnandi hafi nýtt sér fasteignina sumarið 2016 og þá verið í samskiptum við stefndu vegna afnotanna. Hún hafi ekkert minnst á greiðslur og kröfur sínar á hendur stefndu eða reynt að koma á samkomulagi og hafi ekkert greitt fyrir afnot af eigninni.

Stefnandi hafi glatað kröfu sinni fyrir tómlæti. Hún byggi á því að hún hafi greitt í þeirri trú að greiðslur hennar myndu dragast frá kaupverði fasteignarinnar. Í fyrsta lagi hafi hún greitt af eigninni í um ár áður en hún hafi gert tilboð. Kauptilboð hennar 27. október 2016 hafi ekki verið samþykkt, hún hafi ekki fengið gagntilboð og ekki gert nýtt tilboð í eignina. Þá hefði henni mátt vera það ljóst að hennar eigin forsendur fyrir millifærslunum væru rangar. Skýringar stefnanda eigi því ekki við um greiðslur eftir að kauptilboði hennar hafi í raun verið hafnað og þá hefði verið tilefni til að gera fyrirvara við greiðslurnar. Hún hafi ekki haft uppi neina kröfu á hendur stefndu fyrr en með bréfi 25. september 2017, eða um ári síðar.

Komi í ljós að stefnandi hafi greitt framangreindar greiðslur en þær hafi verið nýttar við rekstur fasteignarinnar byggi stefndu á því, auk alls framangreinds, að þeir beri ekki greiðsluskyldu þar sem endurgreiðsla væri þeim þungbær og óréttlát. Stefndu hafi ekki haft aðgang að greiðslunum eða vitund um þær. Þess vegna hafi athafnir þeirra og gjörðir varðandi fasteignina og bankareikninginn verið bundnar þeirri trú að lán væru í skilum. Stefndu hafi aðeins haft óljósa hugmynd um hver greiðslubyrði lánanna væri á mánuði og treyst upplýsingum frá umboðsmanni á Spáni. Fasteignin hafi verið í leigu og leiguverð m.a. ákveðið út frá því að það nægði til að standa straum af afborgunum lána. Hafi greiðslur frá stefnanda skilað sér og verið nýttar til greiðslu áhvílandi lána þá þýði það að leigutekjur hafi ekki skilað sér eða ekki verið fullnægjandi. Þá hefðu stefndu brugðist við með aukinni sumarleigu eða með því að leigja eignina hærra verði. Með greiðslum sínum hafi stefnandi skapað þær aðstæður að ekki hafi komið í ljós að leigugreiðslur hefðu ekki skilað sér eða verið fullnægjandi, og þar með valdið stefndu tjóni. Hvort og að hve miklu leyti stefndu hafi orðið fyrir tjóni af völdum greiðslnanna komi ekki í ljós fyrr en þeir komist inn á bankareikninginn. Stefndu séu báðir námsmenn og efnalitlir. Rökstuðningur stefnanda fyrir endurgreiðslu sé mjög fátæklegur og aðeins byggt á því að hún eigi rétt á því að fá þetta endurgreitt af því að greiðslan hafi ekki verið gjöf.

Varakröfur styðjist við það að krafa stefnanda um 250.309 krónur sé eingöngu studd ljósrituðum reikningum á spænsku sem séu algjörlega ófullnægjandi gögn um meinta greiðslu. Ekki verði skilið af lestri skjalanna hvað um sé að ræða eða að greiðsla hafi farið fram. Taka verði tillit til þess að atvik séu tilkomin fyrir einhliða ákvörðun stefnanda og til þess hvort og að hvaða marki féð hafi raunverulega nýst stefndu. Einnig beri að líta til þess að ósanngjarnt sé að stefndu beri fulla endurgreiðsluskyldu þar sem þeir hefðu hagnýtt fasteignina með öðrum hætti ef þeir hefðu vitað af greiðslum stefnanda. Krafan geti ekki verið hærri en sú fjárhæð sem verið hafi stefndu til hagsbóta á reikningi látins föður þeirra á Spáni að frádregnum þeim skaða sem mögulega hafi orðið vegna hennar. Greiðsluskylda verði ekki til fyrr en þeir fái aðgang að bankareikningnum samkvæmt spænskum lögum eða með öðrum leiðum. Krafan beri ekki dráttarvexti fyrr en frá þeim degi að þeir fái slíkan aðgang, en frá uppkvaðningu dóms berist slík gögn ekki eða skýri þau ekki málið með fullnægjandi hætti. Krafa stefndu um málskostnað byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða

Málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram. Í málinu krefur stefnandi stefndu um endurgreiðslu fjármuna sem hún hafi lagt inn á bankareikning á Spáni sem var í eigu föður stefndu eftir andlát hans, en óumdeilt er að stefndu eru einkaerfingjar hans og ábyrgðust eignir og skuldir við einkaskipti.

Stefndu halda því fram að ósannað sé að greiðslurnar hafi skilað sér inn á bankareikning þeirra á Spáni. Við meðferð málsins fyrir dómi var því margoft frestað að beiðni stefndu til að afla bankayfirlits eða annarra gagna frá Spáni sem þeir kváðust vilja leggja fram í málinu, en gagnaöflun var þó lýst lokið af þeirra hálfu án þess að slík gögn kæmu fram. Stefnandi hefur lagt fram myndrit af kvittunum fyrir fimm innlögnum á bankareikning númer 0075 1260 68 073 í hinum spænska banka, samtals að fjárhæð 2.030 evrur, annars vegar í lok september og byrjun október 2015 og hins vegar í maí 2016, svo sem lýst er í stefnu. Þær bera með sér að bankareikningurinn er á nafni Hallgríms Tómassonar eða dánarbús hans og að það er stefnandi sem leggur inn á reikninginn. Þá hefur stefnandi lagt fram staðfestingu frá starfsmanni Arion banka um 20 símgreiðslur frá stefnanda inn á sama bankareikning á Spáni á nafni Hallgríms, á tímabilinu frá 10. desember 2015 til 4. september 2017, samtals 11.100 evrur. Stefndu hafa engin gögn lagt fram sem sýni annað en að greitt hafi verið inn á reikninginn svo sem framlögð sönnunargögn stefnanda bera með sér. Telst stefnandi samkvæmt þessu hafa greitt inn á bankareikning í eigu stefndu svo sem lýst er í stefnu. Breytir þar engu þótt eyðublöð sem innlagnir á Spáni eru ritaðar á séu ekki á íslensku.

Stefnandi hefur lýst því að tilgangur hennar með þessum innborgunum hafi verið sá að forða því að bankalán sem dánarbúinu, og þar með stefndu, bar að greiða lenti í vanskilum, en afborganir voru skuldfærðar á bankareikninginn. Stefnandi greiddi þannig að eigin frumkvæði skuldir dánarbúsins, og þar með stefndu, vegna lánsins. Fyrir liggur að stefnandi óskaði eftir því að kaupa íbúðina af stefndu, m.a. með yfirtöku eftirstöðva lánsins, og upplýsti stefndu um stöðu þess og um innborganir sínar eigi síðar en í kauptilboði sínu. Stefndu hafa lýst því að þeir hafi átt í erfiðleikum með að nálgast upplýsingar um stöðu skulda eða eigna sinna og dánarbúsins á Spáni. Að því virtu voru stefndu ófærir um að gæta hagsmuna sinna að þessu leyti, stefnandi varði þá tjóni með innborgunum sem komið hafa þeim að notum og var sú háttsemi ekki í andstöðu við bein fyrirmæli þeirra. Stefnanda var þessi óbeðni erindisrekstur heimill og hefur hún með greiðslum sínum inn á bankareikninginn eignast kröfu á hendur stefndu, sem þeim ber að greiða.

Kröfunni hélt stefnandi til haga í kauptilboði í október 2016 og í kröfubréfi í september 2017 og hefur hún ekki glatast fyrir tómlæti. Stefndu hafa engar líkur leitt að því að síðbúin vitneskja um innborganir hafi valdið þeim tjóni svo sem þeir halda fram eða stutt það gögnum hvernig endurgreiðsla yrði þeim þungbær og óréttlát. Það stóð þeim sjálfum nær en öðrum að afla upplýsinga um eignir sínar og skuldir, svo og um önnur atvik sem tengjast útleigu á íbúðinni sem þeir erfðu eftir föður sinn.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á dómkröfu stefnanda og stefndu gert að greiða henni óskipt umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum svo sem krafist er, samkvæmt lögum nr. 38/2001, frá því að mánuður var liðinn frá kröfubréfi.

Samkvæmt niðurstöðu málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað óskipt. Með hliðsjón af efni og umfangi málsins, útlögðum kostnaði og að teknu tilliti til málflutnings um frávísunarkröfu stefndu er málskostnaður ákveðinn 1.200.000 krónur.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Tómas Hallgrímsson Ísfeld og Guðmundur Örn Hallgrímsson, greiði stefnanda, Svanhildi Dagnýju Karlsdóttur, óskipt 1.660.531 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 25. október 2017 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir