• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Vanreifun
  • Fasteignakaup, greiðsludráttur

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2018 í máli nr. E-1922/2018:

Þrír K fasteignir ehf.

(Unnur Ásta Bergsteinsdóttir lögmaður)

gegn

Íslandssporti ehf.

(Kristján Stefánsson lögmaður)

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. október 2018 um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað 5. júní s.á. af hálfu félagsins Þrír K fasteignir ehf., Nýbýlavegi 4, Kópavogi á hendur félaginu Íslandssporti ehf., Skútuvogi 5, Reykjavík, til greiðslu fjárkröfu.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 17.147.824 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Komi til efnismeðferðar krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, auk álags á málskostnað.

Í þessum úrskurði er til úrlausnar aðalkrafa stefnda, sem hér er sóknaraðili, um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi, sem hér er varnaraðili, krefst þess að kröfu um frávísun verði hafnað. Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi gagnaðila að mati dómsins í þessum þætti málsins, auk álags á málskostnað. Varnaraðili krefst málskostnaðar að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins úr hendi sóknaraðila.

Lýsing aðila á málsatvikum

Stefnandi kveður kröfu sína á hendur stefnda eiga rætur að rekja til sölu stefnanda á fasteign að Hlíðarsmára 17 í Kópavogi til stefnda. Kaupverðið hafi ekki verið að fullu greitt og skuld stefnda við stefnanda sé ógreidd. Til haustsins 2017 hafi bæði stefndi og stefnandi verið í eigu og undir stjórn fyrirsvarsmanns stefnda og hann farið með viðurkenndar fjárkröfur milli félaganna eftir því sem honum hafi best hentað. Bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 3. apríl 2014. Stefnandi hafi á árinu 2014 veðsett Arion banka hf. skuld stefnda við sig, að fjárhæð 17.147.824 krónur. Stefnandi kveður stefnda hafa staðfest fjárhæð skuldarinnar og lofað að greiða beint inn á bankareikning stefnanda, sem handveðsettur hafi verið bankanum. Þá hafi stefndi staðfest gildi fjárkröfunnar í tölvupóstssamskiptum þáverandi forráðamanns beggja aðila við endurskoðendur á árinu 2016. Stefndi kveður málavaxtalýsingu stefnanda vera ósanna. Stefndi hafi ekki átt í fasteignaviðskiptum við stefnanda um Hlíðarsmára 17 í Kópavogi og standi stefndi ekki í skuld við stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður það óumdeilt að stefndi hafi viðurkennt að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur honum. Fyrir liggi að stefndi hafi ekki greitt skuld sína við stefnanda, þó að stefnandi hafi krafist greiðslu og sent innheimtuviðvörun. Stefnda sé skylt að greiða stefnanda fjárkröfuna þegar stefnandi krefjist þess. Það sé almenn regla í kröfurétti að gjalddagi kröfu sé þegar eftir stofnun hennar og að skuldara sé skylt að greiða skuld sína þegar kröfuhafi krefjist þess. Réttur efndatími kröfu stefnanda á hendur stefnda sé kominn, en stefndi hafi vanefnt greiðslu hennar. Stefnda hafi borið að greiða kröfuna á eindaga hennar 4. maí 2018, sbr. innheimtuviðvörun. Greiðslustaður sé óumdeildur, fjárhæð kröfunnar sé óumdeild og einnig „loforð“ stefnda um að hann standi í þeirri skuld við stefnanda. Stefnandi byggi kröfu sína á meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan eigi sér m.a. lagastoð í VI. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. 1. mgr. 49. gr. laganna. Þá sé vísað til ákvæða laga nr. 7/1936, um skuldbindingargildi samninga og meginreglu laga um að samningar skuli standa.

Málsástæður og lagarök stefnda

Frávísunarkrafa stefnda er á því reist að málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr og kröfur vanreifaðar að ógerlegt sé fyrir stefnda að grípa til viðeigandi varna. Málatilbúnaður fari gegn ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá sé fyrirsvarsmaður stefnda undir opinberum skiptum og hafi ekki aðildarhæfi. Viðskipti stefnanda við Arion banka og veðsetning á viðskiptakröfum árið 2014 geti ekki verið viðhlítandi grundvöllur að kröfugerð. Ekkert sé upplýst í málatilbúnaði stefnanda um tilurð krafna, stofndag þeirra, gjalddaga og greiðsluskyldu stefnda. Kröfur kunni að vera uppgerðar og greiddar eða fallnar niður fyrir tómlæti eða fyrningu. Framlögð tölvupóstssamskipti beri með sér að stefnandi hafi þegar nýtt kröfuna í viðskiptum með hlutabréf og hafi því ekki forræði á henni. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda. Kröfur stefnda um málskostnað séu reistar á XXI. kafla laga um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr. svo og 1. tl. og 2. tl. 131. gr. laganna. Full ástæða sé til að dæmt verði álag á málskostnað fyrir málshöfðun að ófyrirsynju.

Niðurstaða

Fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, miða að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Ákvæði 80. gr. laganna um efni stefnu eiga sér ekki síst þann tilgang að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans að því er alla þætti þeirra varðar. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda vera með þeim hætti að ógerlegt sé fyrir stefnda að taka til varna.

Í stefnu kveður stefnandi kröfu sína á hendur stefnda eiga rætur sínar að rekja til sölu stefnanda til stefnda á fasteign að Hlíðarsmára 17 í Kópavogi. Með stefnu lagði stefnandi fram afrit af tveimur skjölum sem virðist ætlað að sanna skuld stefnda við stefnanda. Annars vegar er afrit af skjali sem ber heitið „Veðsetning á almennri fjárkröfu“ og virðist dagsett annað hvort 7. eða 9. janúar 2014, og hins vegar afrit af tilkynningu til stefnda um veðsetningu almennra fjárkrafna, dagsetning er ólæsileg á árinu 2014. Í skjölunum kemur fram að Arion banka hf. séu veðsettar allar fjárkröfur veðsala, stefnanda, á hendur stefnda, Íslandssporti ehf. og að fjárkröfurnar séu tilkomnar vegna lána stefnanda til stefnda.

Við málflutning um frávísunarkröfu stefnda kom fram að lögmaður stefnanda teldi að nægilega væri gerð grein fyrir kröfum hans í stefnu, hann hafnaði því að málatilbúnaður væri óskýr eða kröfur stefnanda vanreifaðar og vísaði til þess að áskilnaður væri gerður í stefnu um frekari gagnaöflun. Hér sé um einfalt innheimtumál að ræða á skuld, viðurkenndri með undirritun fyrirsvarsmanns stefnda. Undirritun fyrirsvarsmannsins er vissulega að finna á öðru þeirra afrita sem stefnandi leggur fram, því sem ber yfirskriftina „Tilkynning um veðsetningu almennra fjárkrafna“. Þar segir nánar að undirritaður hafi móttekið tilkynninguna og kynnt sér efni hennar.

Þegar mál er höfðað til innheimtu skuldar, jafnvel þó að um einfalt innheimtumál sé að ræða, verður stefnandi að lágmarki að gera grein fyrir skuldinni í stefnu og því hvernig hún sé til komin, til dæmis með því að lýsa viðskiptum að baki henni. Leggja mætti fram með stefnu kaupsamning vegna fasteignaviðskipta eða lánsskjöl þar sem fram komi hvernig skuld hafi fallið í gjalddaga og í hverju vanskil stefnda felist. Engin slík skjöl liggja fyrir í málinu, einungis fyrrnefnd afrit af skjölum þar sem fram kemur að fjárkröfur stefnanda á hendur stefnda á grundvelli lána hafi verið veðsettar á árinu 2014. Engar skýringar eru gefnar á tengslum þeirra skjala og ætlaðra vanskila á fullri greiðslu kaupverðs fasteignarinnar að Hlíðarsmára 17 í Kópavogi, sem stefnandi kveður í stefnu vera rót kröfu sinnar. Stefnandi hefur engin gögn lagt fram um þau viðskipti, hefur ekki lýst þeim efnislega eða upplýst hvenær þau hafi átt sér stað. Með stefnu lagði stefnandi fram afrit tveggja bréfa með innheimtuviðvörun, sem send voru stefnda í apríl og maí á þessu ári, með afritum til skiptastjóra þrotabús fyrirsvarsmanns stefnda, en í þeim bréfum er ekkert minnst á slík fasteignaviðskipti. Engin tilraun er gerð til þess í stefnu að lýsa sundurliðun kröfunnar eða efnisatriðum að baki henni og bæta þau tölvupóstssamskipti sem stefnandi lagði fram í málinu síst nokkru við til reifunar á grundvelli málsins.

Samkvæmt framansögðu skortir mjög á skýrleika í málatilbúnaði stefnanda um atvik og samhengi dómkrafna og málsástæðna fyrir þeim, þannig að í bága fer við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Telst málatilbúnaður stefnanda svo vanreifaður að lagaskilyrði eru ekki fyrir hendi til að málið verði tekið til efnismeðferðar og dómur á það lagður. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á aðalkröfu stefnda og máli þessu verður vísað frá dómi. Í samræmi við þá niðurstöðu, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðinn er 300.000 krónur. Í ljósi þeirra fátæklegu og misvísandi upplýsinga sem fyrir liggja um viðskipti málsaðila eru engin efni til verða við kröfu stefnda um álag á málskostnað samkvæmt 131. gr. laga um meðferð einkamála.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Varnaraðili, Þrír K fasteignir ehf., greiði sóknaraðila, Íslandssporti ehf., 300.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir