• Lykilorð:
  • Fasteignakaup
  • Gjaldþrotaskipti
  • Lögmannsþóknun
  • Skiptastjóri
  • Söluþóknun

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 8. mars 2019 í máli nr. X-21/2018:

 

Íbúðalánasjóður

(Hafsteinn Viðar Hafsteinsson lögmaður)

gegn

Davíð Guðmundssyni

(sjálfur)

 

Mál þetta hófst með því að varnaraðili, sem er skiptastjóri í þrotabúi B, sendi kröfu til dómsins með bréfi 30. nóvember sl. sem barst dómnum 3. desember. Þar er óskað eftir úrlausn um ágreining undir skiptum samkvæmt 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Sóknaraðili er Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, og varnaraðili Davíð Guðmundsson lögmaður, Lágmúla 5, 7. hæð, 108 Reykjavík.

 

Sóknaraðili krefst þess að skiptakostnaður í þrotabúi B verði í heild úrskurðaður 1.110.000 krónur. Til vara krefst hann þess að skiptakostnaður verði lækkaður verulega frá kröfu skiptastjóra. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

 

Varnaraðili krefst þess að öllum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði niðurstaða skiptastjóra þrotabús B um upphæð skiptakostnaðar. Krafist er málskostnaðar og álags á hann.

 

Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning þriðjudaginn 12. febrúar sl.

 

II.

Sóknaraðili leggur áherslu á að sjóðurinn sé sjálfstæð ríkisstofnun sem starfi samkvæmt lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál. Starfsemi sjóðsins felist meðal annars í því að veita einstaklingum lán til fasteignakaupa til eigin nota með veði í viðkomandi eign. Af lánastarfsemi sóknaraðila leiði að hann geti neyðst til að ganga að veðum sínum, á grundvelli laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu eða í kjölfar gjaldþrots skuldara á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

 

Þrotabú stefnanda var tekið til skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. júní 2014 og var varnaraðili skipaður skiptastjóri sama dag. Beiðandi var þrotamaður sjálf. Fasteign, sem var að helmingi í eigu þrotamanns, fór í nauðungarsöluferli sem var að endingu stöðvað, enda var á veðhafafundi þann 3. september 2015 samþykkt af veðhöfum að selja fasteignina á 37.000.000 kr. Eigandi hins helmings eignarinnar var dánarbú D, sem var maki þrotamanns, og gekk salan eftir.

 

Þegar kom að því að loka þrotabúinu og gera upp söluna runnu að sögn sóknaraðila á hann tvær grímur enda þá ljóst að kostnaður skiptastjóra, bæði þrotabús og dánarbús, af sölu fasteignarinnar væri langt umfram það sem sóknaraðili kveðst eiga að venjast í sambærilegum málum. Sóknaraðili telur hefðbundna söluþóknun fasteignasala á almennum markaði þannig 1,5–2% en í tilfelli varnaraðila sé framkomin krafa nærri 16%, að teknu tilliti til þess að þrotabúið átti aðeins helming af söluverði eignarinnar, eða 18.500.000 kr. Varnaraðili mótmælir þessari framsetningu og bendir á að hann hafi ekki tekið að sér sölumeðferð á eigninni heldur hafi það verið fasteignasalan Eignahúsið, enda sé sérstakur liður í frumvarpi skiptastjóra dánarbúsins vegna þóknunar fasteignasölu. Krafa skiptastjóra þrotabúsins byggist á tímaskýrslu, en hana hafi sóknaraðili ekki kynnt sér nægjanlega vel að mati varnaraðila og það sé ekki fyrr en með greinargerð í þessu máli sem varnaraðili hafi áttað sig á þeim forsendum sem sóknaraðili telji að byggja eigi á við útreikning skiptaþóknunar.

 

Skiptastjóri dánarbús D kom með sambærilega kröfu um skiptakostnað og varnaraðili en á endingu munu hafa náðst samningar þar um skiptakostnað upp á 1.650.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Sambærilegu boði hafnaði varnaraðili og var það að endingu niðurstaða, á veðhafafundi 18. nóvember 2016, að sættir væru fullreyndar og ákveðið að vísa ágreiningi um skiptakostnað til héraðsdóms og greiða það til sóknaraðila sem óumdeilt væri að tilheyrði honum. Jafnframt var gert samkomulag þess efnis að skiptastjóri héldi eftir þeirri fjárhæð sem hann krefðist í kostnað og að hann myndi greiða sóknaraðila mismun ef héraðsdómur úrskurðaði skiptastjóra lægri fjárhæð. Varnaraðili kveðst hafa hafnað sambærilegu boði vegna þess að vinna hans hafi alls ekki verið sambærileg vinnu skiptastjóra dánarbúsins.

 

Varnaraðili kveður það skipta máli að sóknaraðili hafi samþykkt tímaskýrslu skiptastjóra á veðhafafundi 3. september 2015, þ.e. vegna vinnu til þess tíma. Þá hafi í vinnu skiptastjóra falist daglega umsjón með fasteigninni, m.a. á þeim tíma sem þrotamaður hafi neitað að fara út úr eigninni, meðan beðið hafi verið eftir skipun skiptastjóra í dánarbúi D. Þá hafi skiptastjóri annast samskipti við fasteignasöluna og samskipti við hlutaðeigendur vegna yfirvofandi nauðungarsölu. Öll þessi vinna hafi verið í fullu samráði við fyrirsvarsmann sóknaraðila á þeim tíma og verið samþykkt.

 

Sóknaraðili kveðst frá þessum tíma hafa ýtt reglulega við skiptastjóra um að koma umræddum ágreiningi í þann farveg sem samþykkt var á veðhafafundinum þann 18. nóvember 2016. Fátt hafi verið um svör, svo sem rakið hafi verið í aðfinnslum sem sóknaraðili sendi til Héraðsdóms Reykjavíkur með tilkynningu 2. júlí 2018. Það hafi ekki verið fyrr en aðfinnslur sóknaraðila voru teknar fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. nóvember sl. sem skiptastjóri brást við og sendi tilkynningu 30. nóvember 2018 til héraðsdóms um ágreininginn. Í kjölfarið var málið vegna aðfinnslna fellt niður utan réttar.

 

III.

Aðalkrafa sóknaraðila miðast við að skiptakostnaður ákvarðist 3% af heildarsöluvirði fasteignarinnar að […], en það sé tvöfalt hærra en hefðbundin þóknun fasteignasala við sölu fasteigna í einkasölu. Séu það 6% af þeim hluta söluverðs fasteignarinnar sem kom í hlut þrotabúsins. Verði ekki fallist á þá kröfu er þess krafist að krafa skiptastjóra verði lækkuð verulega.

 

Stærsta verkefni skiptastjóra hafi verið að selja fasteignina. Þá ætti skiptastjóri einnig að hafa fengið greidda tryggingu, 250.000 kr., fyrir skiptakostnaði. Sóknaraðili telur því aðalkröfu sína vera sanngjarna og eðlilega miðað við eðli og umfang þrotabúsins en ljóst megi vera að ekki þurfi meira en 100 klst. vinnu til að selja fasteign og ljúka skiptum á einföldu þrotabúi, eins og við eigi í þessu máli. Sé sá háttur sem hafður var á í málinu í andstöðu við 2. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Um frekari rökstuðning fyrir aðalkröfu sóknaraðila og raunar einnig varakröfu vísar hann til þess að skiptastjóri hafi ekki unnið að skiptum búsins með hagsmuni veðhafa og kröfuhafa að leiðarljósi á eins hagkvæman hátt og mögulegt hafi verið, m.v. fyrirliggjandi tímaskýrslur. Þannig sé mikið um tvíverknað hjá skiptastjóra og dánarbúi maka þrotamanns. Þá telur sóknaraðili að aðeins hafi þurft að ráðstafa fasteigninni að […] og loka svo búinu sem eignalausu að öðru leyti.

 

Þá sé ljóst að tímaskýrsla sú sem fyrir liggur í málinu sé um margt óljós um það í hverju vinna sé fólgin eða hve umfangsmikil hún er. Hafa beri í huga að talsverður tími sé liðinn frá því að umrædd vinna fór fram og upphaflegar athugasemdir bárust frá sóknaraðila, en þær tafir séu alfarið á ábyrgð skiptastjóra.

 

Sóknaraðili bendir á að þegar hafi skiptastjóra db. D verið greiddar 1.650.000 kr. í skiptakostnað vegna sölu fasteignarinnar. Sóknaraðili telur að það vinnulag sem virðist hafa viðgengist á milli skiptastjóranna tveggja sé óeðlilegt, enda fráleitt að það þurfi tvo skiptastjóra til að vinna í fjölmarga tíma við að ráðstafa einni fasteign, og eðlilegra hefði verið að aðilar hefðu skipt með sér verkum eða annar skiptastjórinn séð um sölu fasteignarinnar.

 

Vegna þeirrar tilvísunar skiptastjóra til rökstuðnings fyrir kostnaði að fram hafi komið gallakrafa af hálfu kaupenda fasteignarinnar vill sóknaraðili benda á að ekki hafi verið haft neitt samráð við hann um það hvort fallast ætti á umrædda kröfu eða leggja í vinnu við að svara þeirri kröfu. Telur sóknaraðili að slíkt hefði verið eðlilegt enda hafi hann verið sá eini sem fékk eitthvað út úr fasteigninni af veðhöfum. Telur sóknaraðili að vinna skiptastjóra hafi að þessu leyti verið í andstöðu við ákvæði 129. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til meginreglna skiptaréttar og laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, einkum ákvæða 2. mgr. 122. gr. og 129. gr. laganna.

 

Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

 

IV.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði krafa skiptastjóra varnaraðila um skiptakostnað að upphæð 2.949.272 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Upphæð dómkröfunnar byggir varnaraðili á þeim tímaskýrslum sem liggja til grundvallar. Þá liggi fyrir í málinu að á veðhafafundi 3. september 2015 hafi legið frammi tímaskýrsla varnaraðila og hafi hún verið samþykkt af sóknaraðila.

 

Seinni tíma sinnaskipti sóknaraðila vegna breytinga á fyrirsvari heimili ekki afturköllun á fyrra samþykki og beiðni sóknaraðila um að varnaraðili skyldi hafa umsjá með fasteigninni, m.a. vegna þess að þrotamaður bjó enn í fasteigninni og hugðist leigja fasteignina. Afturköllun á umboði varnaraðila hefði sóknaðili þurft að tilkynna sérstaklega og ekki hafi verið fullnægjandi að koma með athugasemdir við umfang verksins, sem hafi verið innan umboðs, við úthlutun á söluandvirði.

 

Þá hefði sóknaraðili, sem var eini veðhafinn sem fékk úthlutað af söluandvirði fasteignarinnar, þurft að tilgreina umsjónarmann fasteignar hygðist hann gera breytingar á veitingu umboðs. Það hafi ekki verið gert. Þá liggi fyrir í málinu, bæði við framvindu skipta og nú með framlagningu greinargerðar sóknaraðila, að engar athugasemdir séu gerðar við tímaskýrslur varnaraðila heldur virðist niðurstaða sóknaraðila grundvallast á hlutfalli af söluandvirði fasteignarinnar sem varnaraðili kannast ekki við að sé venja við þrotameðferð, enda hafi varnaraðili ekki séð um sölumeðferð fasteignarinnar heldur hafi það verið hlutverk hans að gæta hagsmuna þrotabúsins annars vegar og hins vegar að gæta hagsmuna veðhafa við sölumeðferðina til að tryggja að sem hæst verð fengist fyrir fasteignina. Sé óumdeilt í þessu máli að söluandvirði fasteignarinnar hafi verið mjög hagfellt, einkum í ljósi þeirra gallakrafna sem upp hafi komið eftir afhendingu. Öll samskipti hafi því verið á könnu varnaraðila.

 

Gerð er krafa um að varnaraðila verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins auk álags á málskostnað.

 

Í ljósi framangreinds byggir varnaraðili á því að samkvæmt 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu skilyrði fyrir kröfu um málskostnað uppfyllt auk þess sem skilyrði 1. mgr. og 3. mgr. 131. gr. sömu laga séu uppfyllt fyrir því að dæmd sé krafa um álag á málskostnað.

 

Byggir varnaraðili einkum á því að sóknaraðila hafi með engu móti getað dulist að vinna skiptastjóra hafi falið í sér umtalsvert meiri vinnu en bara tengda sölu á fasteign búsins og að tímaskýrslur vegna vinnu skiptastjóra hafi legið frammi á fundum skiptastjóra án þess að sóknaraðili hafi nokkru sinni gert athugasemd við umfang verksins heldur þvert á móti samþykkt tímaskýrslu skiptastjóra á veðhafafundi 3. september 2015. Þá sé augljós aðstöðumunur aðila í þessu máli þar sem sóknaraðili hafi ekki viljað sætta málin á grundvelli vinnuframlags heldur krafist þess að skiptastjóri takmarkaði skiptakostnað við hlutfall af söluandvirði fasteignarinnar, sem enginn grundvöllur sé fyrir enda tók varnaraðili ekki að sér sölumeðferð fasteignarinnar.

 

Þá grundvallast krafa um málskostnað og álag á málskostnað einnig á þeirri staðreynd að ekki séu reiknaðir dráttarvextir á ágreiningsupphæðina frá útgreiðslu söluandvirðis þann 21. desember 2016 og að varnaraðili hefur ekki lagt fram tímaskýrslu eftir 22. febrúar 2016.

 

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til meginreglna skiptaréttar og laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

 

Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á 129. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, auk þess sem krafa um álag á málskostnað er byggð á 1. mgr. og 3. mgr. 131.gr. sömu laga.

 

IV.

Sóknaraðili leggur meginþunga á það að skiptastjóri, þ.e. varnaraðili, eigi að miða þóknun sína við hlutfall af söluandvirði eignarhluta í fasteign þrotabús B. Þar telur hann ríflegt að miða við 3% af söluverðmæti heildareignarinnar sem þá þýðir að þóknun skiptastjóra fyrir öll störf í þágu þrotabúsins næmi 1.110.000 krónum auk virðisaukaskatts, alls 1.376.000 krónum.

 

Þessu hefur skiptastjóri mótmælt og kveðst aldrei hafa gefið til kynna og hvað þá samþykkt að skiptaþóknun hans skyldi miðuð við hlutfall af söluvirði eignarinnar.

 

Dómurinn telur óhjákvæmilegt að miða við að skiptastjóri hafi áskilið sér þóknun fyrir störf sín sem skiptastjóri, samkvæmt tímagjaldi skrifstofu sinnar. Bæði er það undir hefðbundnum skiptum ótvírætt meginreglan auk þess sem fram kemur í gögnum málsins að skiptastjóri hafi á skiptafundi 3. september 2015 lagt fram tímaskýrslu sína, en á fundinum, sem m.a. fulltrúi sóknaraðila sótti, var kauptilboð í fasteignina samþykkt með þeim áhrifum að aðrir veðhafar en sóknaraðili fengu enga fullnustu krafna sinna af veðandlaginu, sbr. 129. gr. laga nr. 21/1991. Á fundinum var í samræmi við þetta bókað að tryggingarréttindi þeirra féllu niður um leið og þrotabúið hefði móttekið greiðslu fyrir eignarhlutann að frádregnum greiðslum til lögveðshafa og vinnu skiptastjóra umfram skiptatryggingu. Samkvæmt framlögðum tímaskýrslum í málinu nú hefur skiptakostnaður, miðað við stöðuna á veðhafafundinum, numið þá alls 1.031.325 krónum auk virðisaukaskatts, eða alls 1.278.845 krónum.

 

Dómurinn telur að þarna hafi sóknaraðili því ekki getað velkst í vafa um á hvaða forsendum skiptaþóknun yrði reiknuð og að hún hafi þarna stefnt í að verða umtalsverð, en þarna voru þegar áfallin um 44% af þeirri heildarþóknun sem skiptastjóri hefur farið fram á. Fyrir liggur einnig í málinu að fasteignasalan Eignahúsið annaðist söluna sjálfa og skjalagerð vegna hennar og þáði fyrir það 223.790 krónur auk virðisaukaskatts, a.m.k. af eignarhluta dánarbús D og væntanlega þá sömu fjárhæð fyrir eignarhluta þrotabúsins. Væntanlega hefur þar verið greitt hlutfall af verðmæti, eins og þvert á móti, altíðkanlegt er þegar þóknun fasteignasala er reiknuð, en það er þó ekki upplýst í málinu hvaða háttur var þar hafður á.

 

Miðað við að á skiptafundinum 3. september 2015 var ákveðið að samþykkja framkomið tilboð í fasteignina verður að telja með nokkrum ólíkindum hversu mikill skiptakostnaður féll á eftir það, sbr. framangreint um þegar áfallinn kostnað við samþykki tilboðsins.

 

Af framlögðum tímaskýrslum verður ráðið að frágangur á málinu hefur tekið sinn tíma og að skiptastjórn hafi eftir skiptafundinn verið í miklu sambandi við fasteignasöluna og starfsmenn sóknaraðila, sýslumann, aðra veðhafa og átt nokkur tíð samskipti við skiptastjóra dánarbús D. Samskipti við sóknaraðila eru skráð í um tólf skipti frá skiptafundinum til 18. desember 2015.

 

Engin gögn eru um að starfsmenn eða fulltrúar sóknaraðila hafi á einhverjum tíma spurst fyrir um áfallandi skiptakostnað á tímabilinu og engar athugasemdir voru sjáanlega gerðar á skiptafundinum 3. september 2015. Á þeim fundi mátti sóknaraðila þó vera ljóst, að mati dómsins, að skiptastjóri ætlaði sér þóknun samkvæmt tímagjaldi og að sóknaraðili væri sá eini sem myndi bera eitthvað úr býtum við sölu fasteignarinnar og hið eina sem myndi þá rýra uppskeru hans væru áfallnar og áfallandi lögveðskröfur, þar með talinn skiptakostnaður varðandi eignina og meðferð hennar. Því er ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til sóknaraðila að fylgjast með áföllnum skiptakostnaði. Í því sambandi verður litið til þess að sóknaraðili verður vafalaust talinn sérfróður á þessu sviði og ekki verður að mati dómsins dregið í efa að hann hafi á að skipa sérfróðum einstaklingum í fullnusturéttarfari.

 

Sóknaraðili hefur ekki byggt á því að hluti af skiptakostnaði eins og hann birtist á tímaskýrslum varði að einhverju leyti aðra hagsmuni og önnur störf skiptastjóra en þau sem beinlínis hafi tengst fasteigninni þannig að þau ættu þá að falla utan lögveðsréttar, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hefur sá kostnaður enda ekki verið sundurliðaður sérstaklega af varnaraðila eða slík krafa gerð af hálfu sóknaraðila. Er því óhjákvæmilegt að ganga út frá því að sá skiptakostnaður sem dómurinn samþykkir verði greiddur af sóknaraðila þótt hann hafi ekki verið skiptabeiðandi, í þeim skilningi að samþykktur skiptakostnaður dragist frá söluandvirði eignarhluta þrotabúsins í fasteigninni, eins og þegar hefur verið gert með fyrirvara um niðurstöðu þessa máls. Verður þannig ekki annað séð en að út frá þessu gangi báðir aðilar málsins.

 

Eins og fyrr segir er skiptakostnaður við fyrstu sýn, miðað við ásýnd búsins og áætlað umfang búskiptana, nokkuð úr hófi. Með vísan til framangreinds verður þó að telja að greiða beri þann kostnað sem skiptastjóri hefur gert kröfu um. Það athugist í því sambandi að skiptastjóri dánarbús D gerði í öndverðu keimlíka kröfu og varnaraðili þótt gögn liggi ekki fyrir um það og fékk að lokum greidda þóknun að fjárhæð 1.650.000 krónur með inniföldum virðisaukaskatti. Krafan virðist því ekki vera úr lausu lofti gripin, en í því sambandi skal jafnframt áréttað að sóknaraðili hefur enga tilraun gert þannig að máli skipti eða hafi kallað á viðbrögð varnaraðila, eftir atvikum með frekari gagnaöflun, til að benda með rökstuddum hætti á að einstakir þættir í tímaskráningu skiptastjóra standist ekki. Í þeirri stöðu telur dómurinn, þrátt fyrir framangreind sjónarmið, ekki forsendur til að hrófla með einum eða öðrum hætti við skráningunni, þ.e. þeirri forsendu fyrir kröfu skiptastjóra. Þá verður tímagjald það sem skiptastjóri miðar við talið hóflegt, en sóknaraðili hefur reyndar engar athugasemdir gert við það.

 

Dómurinn telur því óhjákvæmilegt að fallast á kröfu varnaraðila og staðfesta ákvörðun skiptastjóra um skiptakostnað.

 

Með vísan til málsatvika, m.a. fjárhæðar þóknunar þeirrar sem skiptastjóri hefur áskilið sér andspænis umfangi búsins og þess tíma sem það tók skiptastjóra að vísa ágreiningi aðila til dóms, sem verður að teljast aðfinnsluvert, verður málskostnaður milli aðila felldur niður.

 

Fyrir sóknaraðila flutti málið Hafsteinn Viðar Hafsteinsson lögmaður en varnaraðili, sem er lögmaður, flutti málið sjálfur.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Kröfum sóknaraðila, Íbúðalánasjóðs, er hafnað og niðurstaða varnaraðila, Davíðs Guðmundssonar, skiptastjóra þrotabús B, um upphæð skiptakostnaðar er staðfest.

 

Málskostnaður milli aðila fellur niður.