• Lykilorð:
  • Höfundarréttur
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2019 í máli nr. S-662/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X og

Y

(Lárus Sigurður Lárusson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 21. mars 2019, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. nóvember 2018, á hendur:

 

                        „X, kt. [...],

                        [...], [...]

                                    og

Y, kt. [...]

[...], [...]

 

fyrir brot gegn höfundalögum með því að hafa frá byrjun árs 2017 og fram til ársins 2018 í gegnum facebooksíðuna „M“ gert höfundavarið efni aðgengilegt almenningi með því að selja og afhenda aðgangskassa ([...]), ásamt því að bjóða upp á og aðstoða við uppsetningu þeirra og við að koma kaupendum í áskrift hjá erlendum aðilum þannig að kaupendur slíkra aðgangskassa gátu gert ólögmæt eintök af höfundavörðu efni, án heimildar, án þess að inna af hendi tilskilið endurgjald til rétthafa og án heimildar til endursölu á aðgangi, tekið á móti útsendingum sjónvarpsstöðva (þar á meðal Sky, Sky Sports 1-5, Sky Movies, BBC, HBO 1-3, Cartoon Network, The Disney Channel, Niclelodeon, ESPN, Canal+) og öðru höfundavörðu efni.

Mál 007-2017-4318

 

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 3. gr., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar sem og að allir aðgangskassar ([...]) sem tilheyra ákærðu og félögum á þeirra vegum verði gerðir upptækir skv. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 2. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73/1972.“

 

            Verjandi ákærðu krefst þess að þeir verði sýknaðir en til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

            Dómari tók við meðferð málsins 28. febrúar 2019 en hafði fram að þeim tíma engin afskipti haft af rekstri þess.

 

I.

            Með bréfi dagsettu [...] 2017 kærði N, meint brot ákærðu á höfundalögum nr. 73/1972. Í kærunni er gerð grein fyrir tilgangi félagsins, sem sé að gæta réttinda og hagsmuna félagsaðila sinna á Íslandi en meðlimir í samtökunum séu m.a. öll stærri kvikmyndahús, stærstu sjónvarpsstöðvar og fjölmiðlar landsins. Félagsmenn hafi einkarétt til dreifingar og sýningar á langstærstum hluta þeirra kvikmynda, sjónvarpsþátta og tölvuleikja sem sé að finna á íslenskum markaði. Þá sé N samstarfsaðili að [...], hagsmunasamtökum bandaríska kvikmyndaiðnaðarins.

            Tildrög kærunnar séu þau að svo virtist sem ákærðu hefðu um nokkurt skeið staðið að sölu á aðgangi að miklum fjölda erlendra sjónvarpsrása sem og sölu á tæknibúnaði, í þeim tilgangi að taka á móti útsendingum þeirra sjónvarpsstöðva og selja áskrift að þeim. Hafi markaðssetning á brotastarfseminni farið fram með opinberum hætti á vefsíðu á Facebook, undir heitinu „M“. Hafi ákærðu enga heimild frá hinum erlendu sjónvarpsstöðvum til endursölu áskriftar að dagskrá þeirra og því höfundavarða efni sem sé sýnt þar. Þá hafi þeir engar heimildir frá rétthöfum þess höfundavarða efnis sem sýnt sé á fyrrnefndum sjónvarpsrásum, til þess að selja aðgang að því efni hér á landi. Í kærunni eru taldar upp sjónvarpsrásir sem ákærðu selji m.a. aðgang að en þær sýni allar sjónvarpsþætti og kvikmyndir, auk útsendinga frá íþróttaviðburðum, sem rétthafar hafi jafnan greitt háar fjárhæðir fyrir sýningarrétt á hér á landi. Þá bjóði ákærðu upp á aðgang að svokallaðri VOD-þjónustu, sem sé aðgengileg með framangreindum tækjabúnaði sé aðgangsgjald greitt. Hafi ákærðu boðið þjónustu sína um nokkurt skeið eins og sjá megi á vefsíðu þeirra.

Félagið telji að með því að veita og selja aðgang að sýningum á höfundavörðu efni, án heimildar rétthafa þess, brjóti ákærðu gróflega gegn réttindum þeirra, auk þess sem þeir veiti öðrum hvatningu í verki og orðum til þess að gera slíkt hið sama. Telji kærandi að háttsemin feli í sér ólögmæta dreifingu á höfundavörðu efni. Ákærðu hafi hins vegar ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir áskoranir kæranda þar um.

Af gögnum málsins verður ráðið að áskorunum þess efnis sem að framan getur hafi verið beint til ákærðu frá lögmanni N með bréfi dagsettu [...] 2016. Bréfinu var svarað af lögmanni ákærðu [...] 2017 og þar kemur fram að þeir telji starfsemi sína vera löglega og að þeir hyggist ekki bregðast við í samræmi við áskoranir N.

 

Ákærðu gáfu skýrslu hjá lögreglu [...] 2017 að viðstöddum verjanda og voru skýrslurnar hljóðritaðar. Báru ákærðu um að þeir héldu úti síðunni M í gegnum félagið [...]. Á síðunni auglýstu þeir til sölu aðgangskassa sem þeir flyttu inn frá [...]. Hafi þeir flutt inn [...] kassa og hafið sölu á þeim [...] 2016. Þeir hafi selt aðgangskassana á [...] krónur með virðisaukaskatti og kostnaði og hafi greiðslan farið fram með millifærslu inn á reikning, fyrst tiltekinn i-reikning en síðar reikning fyrirtækisins. Þeir hafi leiðbeint fólki sem þurfti á því að halda um það hvernig ætti að tengja aðgangskassann og útvega sér áskrift. Kváðust þeir ekki hafa selt áskriftir heldur hefði fólk þurft að kaupa þær sjálft í gegnum netið, en til þess notaði það aðgangskassana. Hafi þeir á Facebooksíðunni bent fólki á áskriftarleiðir sem væru fáanlegar á netsíðum. Komið hafi fyrir að fólk treysti sér ekki til þess að fara sjálft inn á síðurnar og ganga frá áskrift og hafi þeir þá veitt aðstoð við það. Hafi þeir þá sent út beiðni og gengið frá greiðslum fyrir fólkið og fylgt endurnýjunum áskrifta eftir með sama hætti. Í flestum tilvikum hafi kaupendur séð um þetta sjálfir og því ekki verið í neinum samskiptum við ákærðu eftir afhendingu aðgangskassanna. Þá kváðust ákærðu ekki hafa fengið ágóða af áskriftargjaldi, sem hefði verið um [...] krónur. Hafi fólk millifært fjárhæðina og þeir komið henni áfram til þess aðila sem hélt úti áskriftarsíðunni. Fram kom að áskriftir væru keyptar af aðila á O sem héti F, en frekari upplýsingar hefðu þeir ekki um hann, og samskiptin hefðu átt sér stað með því að senda tölvupóst á tiltekið netfang, sem þeir hefðu ekki á takteinum. Fram kom í skýrslu ákærða Y, sem að mestu leyti sá um samskipti við fólk á vefsíðunni, að aðeins lítill hluti kaupenda hefði þurft á tækniaðstoð að halda. Ríflega helmingur hafi notað þá sem milliliði til að koma á áskrift við hinn erlenda aðila og ganga frá greiðslu. Kvaðst ákærði hafa haldið utan um nöfn þeirra sem hefðu þurft á slíkri aðstoð að halda.

 

II.

Í skriflegum greinargerðum ákærðu er gerð grein fyrir helstu málsástæðum sem ákærðu reisa vörn sína á. Telja ákærðu að á skorti að verknaðarlýsing í ákæru uppfylli skilyrði 152. gr. laga nr. 88/2008 um skýrleika og leggja í mat dómsins hvort það varði frávísun málsins frá dómi án kröfu.

Krafa um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að ekki sé komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærðu. Hafi ákærðu staðfastlega neitað sök og hafni því sem röngu og ósönnuðu að þeir hafi selt viðskiptamönnum sínum áskrift heldur aðeins flutt inn og selt aðgangskassa í samræmi við þær reglur sem gildi um slíka starfsemi í Evrópu. Þá hafi þeir aðstoðað við uppsetningu og milligöngu um áskrift að efni sem kaupendur þjónustunnar sóttust eftir. Enginn fjárhagslegur ávinningur hafi falist í þeirri milligöngu. Telja ákærðu að óheimilt sé að leggja skorður við frelsi til að veita þjónustu sem þessa á hinum frjálsa markaði og vísa þeir í þessu sambandi til tveggja dóma Evrópudómstólsins þar sem m.a. er fjallað um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/84/EB um lögverndun þjónustu, svo sem sjónvarps- og útvarpsútsendingar, sem byggð er á eða fólgin í skilyrtum aðgangi.

Þá reisa ákærðu kröfu sína um sýknu á því að saknæmisskilyrði séu ekki uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 54. gr. höfundalaga. Ákærðu hafi auk þess verið í góðri trú um að starfsemi þeirra væri lögmæt. Sambærileg starfsemi hafi verið starfrækt átölulaust. Hafi þeir ekki reynt að leyna starfseminni heldur hafi hún verið auglýst á opinberum vettvangi.

 

III.

Við upphaf aðalmeðferðar lýstu ákærðu því yfir að þeir hygðust ekki gefa skýrslu fyrir dómi en um rétt þeirra til þess vísaðist til 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Aðspurðir af dómara kváðu þeir rétt vera að þeir hefðu engu við framburð sinn hjá lögreglu að bæta.

Verður hér á eftir gerð grein fyrir framburði vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

A, stjórnarformaður N, lýsti í upphafi tilgangi félagsins sem væri fyrst og fremst sá að gæta hagsmuna félagsmanna, m.a. að höfundarrétti þeirra. Kvað hann upphaf málsins mega rekja til ábendinga um að grunur léki á því að aðilar væru að selja áskriftarpakka. Hafi hann sjálfur keypt áskrift og sannfærst um að starfsemin væri á skjön við lög, þ.e. að þeir byðu aðgang að efni án heimildar. Hafi [...] farið og keypt aðgangskassa og fengið leiðbeiningar hjá ákærðu. Taldi hann að það hefði verið í [...] 2017. Minnti hann að greitt hefði verið fyrir búnaðinn og áskriftargjald.

Í kjölfarið hafi hann falið lögmanni að rita ákærðu bréf þar sem farið var fram á að þeir létu af háttseminni en það hafi ekki borið árangur. Vitnið kvað yfirgnæfandi hluta þess efnis sem hefði verið aðgengilegt hafa verið efni sem rétthafar hefðu tryggt sér og greitt fyrir. Hafi verið kallað eftir staðfestingu þess efnis frá rétthöfum.

B rannsóknarlögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu og helstu rannsóknaraðgerðum. Rætt hafi verið við nokkra kaupendur aðgangskassa, en þeir hefðu verið valdir af spjallþræði á Facebooksíðu ákærðu, M. Hafi þessir kaupendur fengið ákveðna þjónustu og greitt fyrir hana. Hafi þeir neitað því að hafa selt áskrift og kváðust aðeins hafa opnað fyrir hana í nokkrum tilvikum. Áskriftaraðili hafi að þeirra sögn verið á O en þeir hafi ekki veitt frekari upplýsingar um þann aðila.

C kvað þau hjón hafa séð Facebooksíðu þar sem fram kom hvernig nálgast mætti erlent efni í gegnum netsíður. Hafi [...] haft áhuga á efninu, en hann gaf skýrslu á rannsóknarstigi. Hafi vitnið farið til ákærða Y sem hafi sett aðgangskassann upp og leiðbeint henni um hvað gera ætti til að tengja við sjónvarpið heima. Taldi vitnið að hún hefði keypt þetta árið 2017. Hafi hún greitt fyrir aðgangskassann og eins mánaðar áskrift. Eftir það hafi verið greitt fyrir einn mánuð í senn.

D kvaðst hafa unnið aðgangskassa og áskrift í leik á Facebooksíðu ákærðu. Þeir hafi komið til hans með búnaðinn og sett hann upp. Hafi hann haft aðgang að fjölda sjónvarpsrása, kvikmynda o.fl., en hann hafi ekki haldið áfram með þetta. Taldi vitnið þetta hafa verið árið 2015 eða 2016 en þegar lögreglan hefði haft samband hefði hann ekki verið með aðganginn lengur.

E kvaðst hafa fundið síðu á Facebook fyrir nokkrum árum, en þar hefðu aðilar boðið aðgangskassa til sölu til þess að ná ákveðnum sendingum. Hafi verið hægt að velja ólíkar áskriftarleiðir. Hafi vitnið farið heim til annars ákærða sem hafi sýnt honum hvernig ætti að gera þetta en ákveðin vefslóð hafi verið valin og stillt í aðgangskassann. Hafi þeir virkjað fyrstu áskriftina fyrir hann og hafi hann verið með hana enn er lögreglan hafði samband við hann. Vitnið kvaðst hafa fengið tölvupóst þegar endurnýja þurfti áskriftina en ákærði hefði sagt honum að áskriftaraðilinn væri erlendur. Hafi hann greitt sérstaklega fyrir áskriftina, fyrst þegar hann sótti aðgangskassann og síðan þegar hann fékk tölvuskeyti um endurnýjun.

 

IV.

Niðurstaða

Ákærðu er gefið að sök brot gegn höfundalögum sem í ákæru eru sögð hafa átt sér stað frá byrjun árs 2017 og fram til ársins 2018. Meint brot voru fólgin í því að gera höfundavarið efni aðgengilegt almenningi í gegnum Facebooksíðuna „M“ með þeim hætti sem nánar verður tilgreindur síðar.

Í málinu er ágreiningslaust að ákærðu stóðu að Facebooksíðunni, settu þar inn færslur og áttu í samskiptum þar við ótiltekinn fjölda fólks, en hluti samskiptanna liggur fyrir í gögnum málsins.

Eins og áður greinir kusu ákærðu að tjá sig ekki fyrir dómi en vísuðu til lögregluskýrslu sinnar. Með heimild í 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 mun dómurinn byggja á framburði þeirra á rannsóknarstigi.

Af hálfu ákærðu er bent á óskýrleika í ákæru hvað varðar tilgreiningu á tímabili hinna meintu brota. Meðal gagna málsins eru skjáskot af samskiptum á Facebooksíðunni á tímabilinu [...] 2016. Í skýrslutöku hjá lögreglu kom fram hjá þeim að þeir hefðu byrjað að selja aðgangskassa [...] 2016 en þeir hefðu flutt inn [...] slíka. Þá voru samskipti af Facebooksíðunni frá þeim tíma borin undir ákærðu og ein frá því í [...], en af efnislegu innihaldi og röð samskipta við þann aðila verður ráðið að þau voru frá árinu 2017.

Þá má ljóst vera þegar gögn málsins eru borin saman við framburð vitna í málinu að þau keyptu aðgangskassa af ákærðu árið 2016 en vitnin C og E nutu aðstoðar ákærðu eftir það, eða í [...]2017, í tengslum við greiðslu áskriftar. Telur dómurinn gögn málsins þannig bera með sér að tímabil hinna meintu brota sé frá [...] 2016 til [...]2017. Er vörnum ákærða ekki áfátt þrátt fyrir þessa ónákvæmni. Um annað telst ákæran vera nægjanlega skýr og vörnum ákærðu í engu áfátt, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

Við upphaf aðalmeðferðar lagði sækjandi fram gögn sem stafa frá rétthöfum og varða það sjónvarpsefni sem kærendur málsins töldu ákærðu stuðla að ólögmætu aðgengi að, en verjendur ákærðu vöktu athygli á því í greinargerð sinni að þessi gögn skorti. Er því ekki uppi í málinu ágreiningur um réttindi rétthafa til sýninga á því efni hér á landi.

 

Ákærðu hafa gengist við því að hafa selt og afhent [...] manns aðgangskassa sem þeir buðu til sölu á vefsíðu sem þeir héldu úti. Þeir hafi jafnframt aðstoðað kaupendur, sem eftir því leituðu, við að tengja kassanna og/eða við að óska eftir áskrift hjá tilteknum aðila á O með þeim hætti sem áður er lýst.

Samkvæmt seinni hluta verknaðarlýsingarinnar er ákærðu gefið að sök að hafa með háttsemi sinni stuðlað að því að kaupendur aðgangskassanna gætu notfært sér höfundavarið efni með ákveðnum hætti án heimildar rétthafa.

Hin ætlaða saknæma háttsemi ákærðu er samkvæmt ákæru talin vera fólgin í því að þeir hafi með framangreindum hætti gert höfundavarið efni aðgengilegt almenningi.

Í 1. mgr. 2. gr. höfundalaga segir að höfundur hafi einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni. Þá segir í 3. mgr. að verk teljist gert aðgengilegt almenningi þegar eintök af því eru boðin til sölu, leigu eða láns eða er dreift til almennings á annan hátt, eintök af því eru sýnd opinberlega eða verkið er flutt opinberlega. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins telst það m.a. vera opinber flutningur þegar verki er miðlað til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi eða gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem hann sjálfur kýs.

Með 1. gr. laga nr. 9/2016 varð sú breyting á höfundalögum að efnisinntak 3. gr. laganna var flutt í framangreinda 1. mgr. 2. gr. laganna. Tilvísun í ákæru til 3. gr. höfundalaga á því ekki við en til hliðsjónar vísast til dóms Landsréttar frá 20. apríl 2018 í máli nr. 76/2018.

 

Með lögum nr. 9/2006 um breytingu á höfundalögum var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22 maí 2001, oft kölluð tilskipun um höfundarrétt í upplýsingasamfélaginu, innleidd í íslensk lög. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu segir að tilgangur tilskipunarinnar hafi verið að taka af öll tvímæli um einkarétt höfunda til miðlunar verka sinna gegnum netið. Þar segir jafnframt að samkvæmt norrænum rétti hafi birtingarréttur höfunda verið talinn fela í sér þrennt, þ.e. rétt til opinbers flutnings, rétt til opinberrar sýningar eintaks og til dreifingar eintaks. Þessari þrískiptingu var viðhaldið samkvæmt 3. mgr. 2. gr. höfundalaga þó tekið hafi verið upp orðalagið að gera verk aðgengilegt almenningi í stað hugtaksins birting, til samræmis við orðalag tilskipunarinnar. Um miðlunarrétt höfundar er fjallað í 4. mgr. ákvæðisins en í greinargerðinni segir að skýrt sé kveðið á um að sá réttur falli undir réttinn til opinbers flutnings.

 Við mat á því hvort að ákærðu hafi með háttsemi sinni gert höfundarréttarvarið efni aðgengilegt almenningi ber að líta til þess að aukin áhersla hefur verið lögð á höfundarrétt og vernd rétthafa slíks efnis vegna þeirra áskorana sem takast þarf á við í stafrænum heimi svo unnt verði að tryggja rétthöfum viðhlítandi vernd. Hefur túlkun hugtaka, á borð við að gera verk aðgengileg almenningi og miðlun til almennings, verið rúm í þeim málum þar sem ákvæði framangreindrar tilskipunar hafa verið til umfjöllunar hjá dómstóli Evrópusambandsins.

 

Eins og áður segir buðu ákærðu til sölu aðgangskassa, en heiti vefsíðunnar vísaði til notagildis tækisins. Í 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla er að finna eftirfarandi skilgreiningu á aðgangskassa: „Aðgangskassi er tæki sem er ætlað að taka á móti og vinna úr öllum þáttum stafrænna útsendinga og senda til sjónvarpstækja, þar á meðal þegar við á að veita aðgang að hljóð- og myndmiðlunarefni sem einungis er aðgengilegt gegn endurgjaldi.“ Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2011 er að finna frekari útlistun á tilgangi aðgangskassa og kemur þar m.a. fram að í stafrænum aðgangskassa er afkóðun sjónvarpsmerkis til þess að notandinn geti horft á efnið aðeins eitt af mörgum hlutverkum aðgangskassans. Aðgangskassi þjóni annars vegar þeim tilgangi að umbreyta stafrænu merki yfir í hliðrænt, svo að almenningur geti áfram nýtt núverandi sjónvarp uns það er endurnýjað með stafrænu tæki, og hins vegar þeim tilgangi að stýra aðgangi að læstri dagskrá.

Samkvæmt þessu er aðgangskassi oft á tíðum nauðsynlegur búnaður ætlaður í ákveðnum tilgangi. Ákæruvaldið byggir hins vegar á því að með markaðssetningu kassanna á vefsíðu sinni hafi ákærðu ýtt undir og beinlínis með eftirfarandi aðstoð sinni gert kaupendum kleift að nýta þá með ólögmætum hætti. Jafngildi það því að gera höfundarréttarvarin verk aðgengileg með því að miðla þeim til almennings.

Gögn málsins og framburðir vitna sýna að aðgangskassarnir voru auglýstir með ákveðnum hætti og með sérstakri áherslu á það hvernig mætti nota þá, þ.e. til þess að geta horft á afþreyingarefni í miklum mæli, m.a. af erlendum sjónvarpsstöðvum og VOD-leigu, gegn greiðslu áskriftargjalds. Vitni báru um að það hefði verið aðdráttaraflið og ástæða kaupanna.

Dómurinn telur að ákærðu hafi verið ljóst að með þeirri háttsemi sinni að beina kaupendum til þess erlends aðila sem hélt úti umræddri efnisveitu eða -síðu og að aðstoða fólk við að gerast áskrifendur að henni væru þeir að brjóta gegn rétthöfum. Sú staðreynd að ákærðu hafa ekki upplýst um hver sá aðili er þykir að mati dómsins veita vísbendingu um huglæga afstöðu ákærðu.

 

Ákærðu er ekki gefið að sök eða því haldið fram að þeir hafi selt áskriftir sjálfir eða verið samstarfsaðilar þess sem hélt úti efnisveitunni. Þá er því ekki haldið fram að ákærðu hafi átt við aðgangskassana eða sett í þá búnað til að auðvelda eða opna fyrir tiltekinn aðgang kaupenda inn á efnisveitur. Miðaði rannsóknin enda ekki að því að upplýsa um þessi tilteknu atriði.

Í málflutningi sækjanda var vísað til dóms dómstóls Evrópusambandsins frá 26. apríl 2017 í máli C-527/2015 þar sem reyndi á túlkun á því hvort aðili sem seldi aðgangskassa með tiltekna eiginleika hefði gert höfundarréttarvarið efni aðgengilegt almenningi í skilningi fyrrnefndrar tilskipunar 2001/29/EB en fyrir lá að ótilgreindur fjöldi kaupenda hafði með notkun kassans aðgang að slíku efni.

Við mat á framangreindu leit dómurinn til nokkurra atriða, m.a. til fjárhagslegs ávinnings af sölu aðgangskassanna, markaðssetningar, fjölda kaupenda og þar með útbreiðslu á aðgengi svo og búnaðar á aðgangskassanum sem sérstaklega hafði verið komið fyrir og eiginleika hans. Fyrir lá að kaupendur aðgangskassanna höfðu með búnaðinum beinan aðgang að efni án þess að greiða fyrir það, en auk þess höfðu þeir aðgang að sérstökum áskriftarveitum eða síðum sem krafðist þá samþykkis þeirra er hélt þeim úti.

Hér á landi hefur ekki fyrr reynt sérstaklega á álitaefni sem þetta. Dómurinn lítur svo á að það sem hafi ráðið úrslitum í framangreindum dómi hafi verið heilstætt mat á framangreindum atriðum og ekki síst sú staðreynd að söluaðili aðgangskassanna markaðssetti þá og útbjó með tiltekna eiginleika sem gerðu það að verkum að kaupandi fékk beinan aðgang að höfundavörðu efni án aðkomu þriðja aðila. Braut söluaðilinn þannig gegn einkarétti höfunda til að gera verk sín aðgengileg almenningi.

Eins og verknaðarlýsingu er háttað í ákæru telur dómurinn að háttsemi ákærðu verði ekki heimfærð undir 2. gr. höfundalaga. Eins og málið liggur fyrir dóminum eru ákveðin atriði er varða refsinæmi verknaðarins óljós eða ósönnuð. Ekki var lagt hald á búnaðinn eða hann rannsakaður, þó ekki verði annað ráðið en að vitni hafi haft hann undir höndum. Þá verður ekki séð að gerð hafi verið tilraun til þess að óska eftir því að ákærðu sýndu hvernig þeir höguðu aðstoð sinni við áskriftir og þannig upplýsa um hversu langt hún hafi í reynd gengið. Hefur það að mati dómsins verulega þýðingu þegar metið er hvort verk hafi verið gert aðgengilegt með því að flytja það opinberlega, sbr. 3. tl. 3. mgr. og 1. tl. 4. mgr. 2. gr. höfundalaga. Ber að skýra vafa um það ákærðu í hag. Telur dómurinn háttsemi ákærðu bera einkenni hlutdeildar í broti annars manns, en rannsóknin var takmörkuð við þátt ákærðu, eins og áður segir og ákæru hagað til samræmis við það.

Í ákæru er einnig vísað til 1. mgr. 48. gr. höfundalaga. Samkvæmt ákvæðinu eru taldar upp í fjórum liðum aðgerðir sem teljast vera óheimilar án samþykkis Útvarpsstofnunar. Telur dómurinn háttsemi ákærðu, eins og henni er lýst í ákæru, ekki verða heimfærða undir ákvæðið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verða ákærðu sýknaðir af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök og til samræmis við það er kröfu um upptöku hafnað.

Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að leggja allan sakarkostnað á ríkissjóð, en hann nemur málsvarnarlaunum skipaðra verjenda ákærðu, Sævars Þórs Jónssonar og Lárusar S. Lárussonar, allt fram til þess tíma er sá síðarnefndi tók við vörn fyrir ákærðu báða, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna er litið til vinnu þeirra á rannsóknarstigi og höfð hliðsjón af tímaskýrslu. Þá er litið til þess að vinna lögmannanna var að einhverju leyti samþætt en af tímaskýrslu verður ekki annað séð en að gert hafi verið ráð fyrir því hagræði t.d. við ritun greinargerðar. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til virðisaukaskatts.

Að mati dómsins var ástæða til að gæta nákvæmni við lagatilvísanir í ákæru, einkum á það við 2. gr. og 1. mgr. 48. gr. höfundalaga, en ekki verður séð að það hefði verið vandkvæðum bundið. Þykir það hafa getað aukið á skýrleika og vera til þess fallið að gera varnir ákærðu markvissari.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                       

D ó m s o r ð :

            Ákærðu, X og Y, eru sýknaðir af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru.

Allur sakarkostnaður málsins, sem er 632.400 króna málsvarnarlaun Lárusar Sigurðar Lárussonar lögmanns, skipaðs verjanda ákærðu og 252.960 króna málsvarnarlaun Sævars Þórs Jónssonar lögmanns, skipaðs verjanda ákærða Y á fyrri stigum, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)