• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Kaupsamningur
  • Kaupverð
  • Lausafjárkaup
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. desember 2018 í máli nr. E-897/2018:

Sigurplast ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

gegn

Forvirki ehf.

(Magnús Davíð Nordahl lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess þann 7. nóvember sl., er höfðað af stefnanda, Sigurplasti ehf., Völuteigi 17-19 Mosfellsbæ, með stefnu birtri 7. mars 2018 á hendur stefnda, Forvirki ehf., Stigahlíð 6, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 74.400 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 74.400 krónum frá 10. apríl 2017 til greiðsludags.  

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda.

Í öllum tilvikum sé þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Ágreiningsefni og málsatvik

Krafa stefnanda er til komin vegna viðskipta hins stefnda félags við stefnanda en stefnandi rekur plastverksmiðju þar sem framleidd eru ílát og umbúðir úr plasti. Frá sjónarhóli stefnanda þá hafi stefndi keypt hjá stefnanda sellópoka án fyrirvara um verð. Krafa stefnanda byggi á framlögðum reikningi, útgefnum 1. mars 2017, en með gjalddaga 10. apríl 2017, að fjárhæð 74.400, er ekki hafi fengist greiddur hjá stefnda.

Frá sjónarhóli stefnda eru málsatvik hins vegar á þá leið að hið stefnda félag hafi byrjað viðskipti við stefnanda í mars 2014, en viðskiptin hafi falið í sér kaup stefnda á sellópokum frá stefnanda í mismunandi stærðum, sbr. framlagðan fyrsta reikning frá 5. mars 2014. Stefndi hafi síðan verið í nokkuð reglulegum viðskiptum við stefnanda um vöruna, en umsamið einingarverð á hverjum poka að stærð 9*20 hafi lengst af verið stöðugt, eða um 7 krónur, sem hafi verið innan framleiðnimarka stefnda, sbr. framlagða reikninga á tímabilinu 24. september 2014 til 10. júní 2016. Stefndi telji því að myndast hafi viðskiptavenja á milli málsaðila sem fylgt hafi verið um lengri tíma.

Þann 10. júní 2016 hafi verið gefinn út reikningur nr. 161427 fyrir pöntun stefnda á 5.000 einingum af sellópokum að stærð 9*20. Einingarverðið hafi verið tilgreint sem 7.20 krónur, en samtals hafi reikningurinn hljóðað upp á 44.640 krónur. Atvik hafi verið með sambærilegum hætti 1. nóvember 2016. Þá hafi stefnandi afhent stefnda pöntun er einnig hafi hljóðað upp á 5.000 einingar af sellópokum að stærð 9*20. Með reikningi nr. 162716 hafi á hinn bóginn komið í ljós að einingarverð hafði hækkað frá  7.20 í 13.33 krónur og reikningurinn hljóðað upp á 82.646 krónur er jafnist á við 85% hækkun frá hinu almenna verði. Stefndi hafi verið grandlaus við afhendingu og honum hafi ekki verið gert viðvart um að einingarverð hefði hækkað svo frá fyrri viðskiptum.

Stefndi hafi vakið athygli stefnanda á umræddri verðhækkun samkvæmt reikningi og mótmælt henni, með vísan til þess að hið nýja verð væri töluvert yfir umsömdu verði. Ekki hafi komið fram nein skýring af hálfu stefnanda á hinu nýja verði fyrr en stefndi hafi krafist útskýringa. Þann 15. febrúar 2018 hafi loks borist svar stefnanda í tölvupósti um að hækkunin á einingarverði stafaði af hækkun frá framleiðanda ásamt hækkun á flutningi og launum. Reikningur stefnanda nr. 162716 var síðan að lokum lækkaður aðeins eftir ábendingu frá hinu stefnda félagi og nýr reikningur nr. 163679 þá gefinn út sem liggur til grundvallar kröfu stefnanda. Samkvæmt hinum leiðrétta reikningi sé einingarverðið tilgreint sem 12 krónur og hljóði reikningurinn nú upp á 74.400 krónur, sem jafnist á við 67% hækkun frá meðalverði í fyrri viðskiptum aðila.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Krafan byggi á reikningi, dags. 1. mars 2017, en með gjalddaga 10. apríl 2017, að fjárhæð 74.400, er sé stefnufjárhæð í málinu auk dráttarvaxta og kostnaðar. Umsaminn gjalddagi í viðskiptum aðila sé 10. apríl 2017 og sé stefnufjárhæð og dráttarvextir miðað við það. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Stefnandi hafi gert tilraunir til innheimtu kröfunnar hjá stefnda, sbr. fyrirliggjandi innheimtubréf. Því sé þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefnanda af innheimtuviðvörun og milliinnheimtu í samræmi við það. Stefnandi byggi kröfuna á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um vexti styðji stefnandi við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, en um varnarþing vísist til 33. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu á því að reikningur stefnanda brjóti bersýnilega gegn góðri viðskiptavenju aðila og meginreglum samningaréttar um trúnað og tillitsskyldur í viðskiptasambandi. Geti stefnandi því ekki reist kröfu sína á honum. Hafi aðilar átt áralangt og traust samningssamband er hafi byggt á stöðugu og sanngjörnu einingar verði, en umsamið verð hafi verið um sjö krónur fyrir sellópoka að stærðinni 9*20.

Stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu á reikningi, dags. 1. mars 2017, að fjárhæð 74.400 krónur. Sá reikningur sé vegna 5.000 eininga af sellópokum að stærð 9*20. Ástæða þess að sá reikningur hafi ekki verið greiddur á réttum tíma sé sú að ágreiningur hafi verið um fjárhæð hans, sbr. tölvupóstssamskipti aðila, dags. 15. febrúar 2018, þar sem komi fram að stefndi hafi beðið um leiðréttingu á reikningnum. Reikningurinn hafi verið leiðréttur en þó aðeins að takmörkuðu leyti. Hinn leiðrétti reikningur hafi jafnast á við 67% hækkun á einingarverði á þeim fimm mánuðum sem liðið hafi á milli reikninga fyrir sama magn af sellópokum. Stefnda hafi ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða verðbreytingu og enginn reikningur legið fyrir við móttöku, enda hefði stefndi ekki kvittað fyrir móttöku vörunnar á slíku yfirverði. Það hafi verið stefnanda í lófa lagið að sinna tillitsskyldu sinni gagnvart stefnda við afhendingu.

Stefndi vísi til þess að hann hafi mótmælt reikningi stefnanda sem leggi grunn að kröfu hans. Mótmælin hafi verið sett fram bæði í orðsendingum og í samskiptum við sölustjóra stefnanda eftir því sem tilefni hafi gefist til, sbr. framangreinda tölvupósta, dags. 15. febrúar 2018. Þá hafi stefndi jafnan staðið í skilum með skuldbindingar sínar við stefnanda að frátöldum þeim reikningi sem deilt sé hér um, sbr. framlagt yfirlit.

Krafa stefnanda styðjist ekki við annað en hinn umdeilda reikning en í stefnu sé ekki að finna rökstuðning fyrir greiðslu að lægri upphæð sem dæmd yrði að álitum. Stefnandi sé bundinn af þeim málsástæðum sem þegar séu komnar fram og geti ekki gegn mótmælum stefnda byggt kröfu sína á öðrum grundvelli en þegar hafi verið gert. Þar sem framlagður reikningur stefnanda í málinu sé rangur sé einsýnt að sýkna beri stefnda í málinu. Tilgreint einingaverð á reikningnum hafi falið í sér 67% hækkun frá fyrri viðskiptum aðila, en stefndi hafi á engu tímamarki samþykkt þessa hækkun. Stefndi hafi verið í góðri trú og mátt gera ráð fyrir sama eða svipuðu verði og áður, enda um ítrekuð viðskipti að ræða og þó nokkra viðskiptasögu á milli aðila. Þá hafi ekki liðið langur tími á milli pantana, eins og áður hafi komið fram, sbr. gögn um það.   

Ef svo ólíklega vill til ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda sé krafist verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda og byggi sú varakrafa hér á sömu málsástæðum og sýkna.

 

Niðurstaða.

Málsatvik liggja ljós fyrir og sættir hafa verið reyndar í málinu en án árangurs. Ágreiningur snýr einkum að því að stefndi hefur ekki viljað greiða uppsett verð fyrir þá vöru sem hann óumdeilt pantaði og fékk síðan afhenta hjá stefnanda, eins og rakið er að framansögðu, sbr. fyrirliggjandi reikning frá 1. mars 2017, með gjalddaga 10. apríl 2017, að fjárhæð 74.400 krónur. Telur stefndi að hann hafi mátt ætla að sú vara sem hann hafi verið að panta hjá stefnanda í umrætt sinn myndi kosta um sjö krónur stykkið, eins og hún hafi óumdeilt jafnan kostað í fyrri viðskiptum málsaðila frá því sumarið 2016. Í það sinn sem hér um ræðir er einingarverðið hins vegar 12 krónur og er raunar lækkað verð með afslætti eftir umkvartanir stefnda. Stefnandi kvaðst þannig hafa viljað koma til móts við stefnda, en staðan verið sú að um óvæntar hækkanir hafi verið að ræða á innkaupsverði vörunnar, en frekari afsláttur myndi þýða að stefnandi væri að selja vöruna með tapi. Liggur fyrir í málinu að stefnandi kynnti umræddar verðhækkanir ekki sérstaklega fyrir stefnda þegar eða eftir að hann pantaði vöruna. Stefndi innti stefnanda heldur ekki eftir verði hvorki þegar hann pantaði eða móttók vöruna, né áður en hann hagnýtti sér hana áður en honum barst reikningur stefnanda.

Að mati dómsins verður hér einkum að líta til þess að ósannað er að fyrir hendi hafi verið samningssamband á milli aðila um tiltekið verð á umræddri vöru, eða þá að sérstök viðskiptavenja hafi myndast um slíkt, eins og stefndi heldur fram. Þótt það hefðu ótvírætt talist vera vandaðri viðskiptahættir af hálfu stefnanda að gera viðskiptamönnum sínum sérstaka grein fyrir svo umtalsverðri og skyndilegri hækkun á söluverði umræddrar vöru, þá hefur hann þó reynt að koma hér til móts við stefnda, það er með því að veita honum 10% afslátt af kaupverðinu, en upphaflegur reikningur hljóðaði upp á 82.646 krónur. Enn fremur verður hér að líta til þess að stefndi gerði ekki fyrirvara um kaupverð og eftir að það lá fyrir gerði hann heldur engar ráðstafanir til þess að greiða með fyrirvara um endurkröfu, né heldur greiddi hann það endurgjald til stefnanda inn á kröfu hans sem stefndi sjálfur virðist þó óumdeilt telja vera eðlilegt með tilliti til fyrri viðskipta, til að reyna að firra sig mögulegum vanefndaafleiðingum.

Er það því mat dómsins að með hliðsjón af öllu framansögðu þá verði stefndi hér að bera hallann af því að hafa engan fyrirvara gert um kaupverð umræddrar vöru, sem vissulega gat tekið breytingum eins og stefnandi hefur nægilega útskýrt, sem og af því að hafa síðan ekki gripið til þeirra ráðstafana sem þó eru fyrir hendi þegar kaupandi söluvöru telur að verðlagning hennar fái ekki staðist af hálfu seljandans. Enn fremur þykir með hliðsjón af öllu framansögðu hér ekki hafa vera sýnt fram á það að umrætt endanlegt söluverð geti þá talist hafa verið bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 45., sbr. 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, þannig að slíkt fyrirbyggi fulla efndaskyldu stefnda samkvæmt efni kröfunnar. Verður með hliðsjón af þessu að fallast á endanlega höfuðstólskröfu stefnanda í málinu, eins og hún liggur hér fyrir í málinu. Hvað varðar hins vegar dráttarvaxtakröfu stefnanda, þá þykir dóminum þó jafnframt vera hér sýnt fram á það að þrátt fyrir allt framangreint hafi umkvartanir stefnda um upphaflegt verð þó átt við nokkur rök að styðjast, sem endurspeglast í því að stefnandi kemur til móts við hann á síðari stigum með því að lækka þá kröfu sína. Með hliðsjón af þessu þykir hér eðlilegast að miða verði dráttarvaxtakröfu stefnanda við þingfestingardag málsins, 22. mars 2018, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, enda liggur ekki ljóst fyrir í málinu hvenær hinn endanlegi reikningur var gefinn út. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður stefnda hér einnig gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með hliðsjón af umfangi málsins, sem og atvikum öllum, alls 70.000 krónur.

Málið fluttu Fríða Thoroddsen lögmaður fyrir hönd Bjarna Þórs Óskarssonar lögmanns, fyrir stefnanda, en Magnús Davíð Nordahl lögmaður fyrir stefnda.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóminn. 

 

 

D ó m s o r ð

Stefndi, Forvirki ehf., greiði stefnanda, Sigurplasti ehf., 74.400 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 74.400 krónum frá 22. febrúar 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 70.000 krónur í málskostnað. 

 

Dóminn kveður upp Pétur Dam Leifsson héraðsdómari.