• Lykilorð:
  • Aðild
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2019 í máli nr. E-212/2018:

Arnar Arinbjarnar

(Hilmar Magnússon lögmaður)

gegn

Munck Íslandi ehf. og til vara

(Sveinbjörn Claessen lögmaður)

Stjörnumálun ehf.

(Skarphéðinn Pétursson lögmaður)

 

             Mál þetta var höfðað 1. mars 2018 og dómtekið 12. desember 2018. Stefnandi er Arnar Arinbjarnar, Smárarima 68, Reykjavík. Aðalstefndi er Munck Íslandi ehf., Hlíðasmára 4, Kópavogi. Varastefndi er Stjörnumálun ehf., Ármúla 4-6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 9.361.110 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. október 2017 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að varastefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 9.361.110 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. október 2017 til greiðsludags.  Þá er í báðum tilfellum krafist málskostnaðar.

            Aðalstefndi gerir þær kröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

            Varastefndi gerir aðallega kröfu um sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er gerð krafa um málskostnað.

I.

            Málsatvik eru þau að á árinu 2016 gerðu aðalstefndi, sem þá hét LNS Saga ehf., og varastefndi með sér verksamning um málun innan- og utanhúss nýbyggingar að Hrólfsskálamel 1-5, Seltjarnarnesi. LNS Saga ehf. var tilgreindur sem aðalverktaki en Stjörnumálun ehf. sem undirverktaki. Undirverktaka bar að leggja til allt efni, mannafla og annað til að framkvæma verkið. Samkvæmt samningnum skuldbatt undirverktaki sig til að leysa af hendi allar skyldur og taka á sig ábyrgð á þeim verkþáttum sem hann tæki að sér gagnvart aðalverktaka með sama hætti og ábyrgð aðalverktaka væri gagnvart LL11 ehf., sem var aðalverkkaupi. 

Samningurinn var byggður á föstum einingaverðum og var samningsfjárhæðin 42.794.000 krónur. Reikningar skyldu gerðir í samræmi við framvindu og mælt magn og samkvæmt kafla 3.6 í ÍST 30:2012 um breytingar á verki. Þá sagði í 5. gr. samningsins að undirverktaki ætti rétt á sérstakri greiðslu vegna aukins kostnaðar sem af breytingu leiddi þá og því aðeins ef aðalverktaki fengi kröfu undirverktaka samþykkta hjá LL11 ehf. Í 7. gr. samningsins sagði að undirverktaka væri óheimilt að vinna fyrir LL11 ehf. á meðan samningurinn væri í gildi, nema með skriflegu samkomulagi við aðalverktaka. Að öðru leyti giltu ákvæði og skilmálar útboðsgagna. Í 8. gr. kom fram að yfirumsjón með framkvæmdum væri í höndum aðalverktaka. Undirverktaki stýrði verki sínu en skyldi í einu og öllu framkvæma verkið í samráði við verkstjórnendur aðalverktaka. Þrátt fyrir eftirlit aðalverktaka bæri undirverktaki í einu og öllu ábyrgð á framkvæmdum og gæðum á sínum verkþáttum.

Stefnandi kveður að varastefndi hafi óskað eftir því við sig að hann tæki að sér tiltekin verkefni við málun húsanna, en stefnandi er málarameistari. Stefnandi og varastefndi gerðu ekki skriflegan samning þar að lútandi en stefnandi segir að samkomulagið hafi snúið að svokallaðri framvindu verkefnisins, þ.e. spörstlun og málun gifs- og steinveggja og lofta samkvæmt uppmælingu. Stefnandi hafi gert varastefnda reikninga fyrir þetta vinnuframlag sitt. Þá segir stefnandi að aðalstefnda hafi verið kunnugt um það að stefnandi hafi unnið sem sjálfstæður undirverktaki varastefnda að þessum verkefnum.

Einnig segir stefnandi að á byggingartímanum hafi komið fram óskir frá aðalstefnda til stefnanda um að vinna að nánar sérgreindum aukaverkum, ýmist munnlega eða með tölvupósti til stefnanda. Stefnandi kveðst ekki vita hvort varastefnda hafi verið gert viðvart um aukaverkin né að beiðnir hafi borist frá aðalstefnda til varastefnda varðandi þessi tilteknu aukaverk. Að minnsta kosti hafi varastefndi ekki haft neina aðkomu að þessum aukaverkum sem reikningur stefnanda taki til.

Stefnandi hélt dagbókarskýrslur yfir aukaverkin þar sem skráður var verkdagur ásamt verktíma, efni og við hvað var unnið hverju sinni. Stefnandi vann sjálfur að mestu við verkin en hann hafði einnig starfsmenn á sínum snærum, sem komu einnig að verkinu. 

Stefnandi kveðst hafa verið í sambandi við verkstjóra aðalstefnda, Guðmund Arnarson, um aukaverkin en hann hafi verið sá aðili sem hafi séð um samskiptin og komið verkbeiðnum áleiðis til stefnanda, án atbeina varastefnda. Guðmundur hafi áritað allar verkskýrslur stefnanda er snéru að umræddum aukaverkum, utan verkskýrslna varðandi aukaverk nr. 7. Þá hafi Guðmundur staðfest sérstaklega framkvæmd nokkurra af þeim aukaverkum sem stefnandi vann að og fylgja verkskýrslum.

Lögmaður stefnanda sendi aðalstefnda bréf 28. september 2017 ásamt yfirliti yfir aukaverk með tilmælum um uppgjör þeirra. Aðalstefndi varð ekki við greiðslutilmælum og sendi stefnandi innheimtubréf 13. nóvember 2017, en fjárhæð þeirrar kröfu var aðeins lægri en stefnukrafan þar sem efniskostnaður við aukaverk 8,7 og 4 féll út. Samtals hafi vantalinn efniskostnaður verið 173.212 krónur og hækki dómkrafan sem því nemur frá því sem greinir í áður sendum innheimtubréfum og yfirlitum.

Kröfu stefnanda var hafnað með bréfi aðalstefnda, dags. 15. nóvember 2017, á þeim grunni að stefnandi hefði verið undirverktaki varastefnda og ekkert samningssamband væri á milli aðalstefnda og stefnanda. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta.

II.

            Stefnandi byggir kröfu sína á reikningi útgefnum 28. september 2017, samkvæmt framlögðum dagbókarskýrslum stefnanda er sýni sundurgreint efniskostnað og vinnuframlag stefnanda að Hrólfsskálamel 1-3, Seltjarnarnesi, á tímabilinu ágúst 2016 fram til febrúar 2017, en aðalstefndi hafi verið byggingaraðili hússins. Aukaverkin hafi verið greind í átta mismunandi verkþætti.

Stefnandi kveður fjárhæð kröfu sinnar byggða á framlögðum verkskýrslum er sýni glögglega umfang vinnu stefnanda og efniskostnað. Aðalstefndi, sem hafi verið byggingaraðili hússins, hafi haft með höndum alla verkstjórn á byggingarstað, en verkstjórinn hafi verið Guðmundur Arnarson, starfsmaður aðalstefnda. 

Stefnandi telur fjárhæð aukaverka vera sanngjarna og í fullu samræmi við vinnuframlag hans, sem sé auk þess staðfest af verkstjóra aðalstefnda, sem sé verkkaupinn. Þá sé fjárhæð tímagjalds eðlilegt og sanngjarnt og í samræmi við það sem gengur og gerist á þessum markaði. Sama sé að segja um efniskostnað, en stefnandi hafi lagt fram efni það sem á verkskýrslum greinir og sem verkstjóri aðalstefnda hafi staðfest með áritun sinni.

Verkefni stefnanda hafi falist í aukaverkum sem hafi sannanlega verið umbeðin af aðalstefnda og staðfest af verkstjóra aðalstefnda. Telur stefnandi að aðalstefndi beri ábyrgð á því að greiða fyrir umbeðin verk, sem ekki hafi staðið í sambandi við önnur verkefni sem stefnandi vann fyrir varastefnda sem undirverktaki. Þau verkefni hafi verið allt annars eðlis.

Telji aðalstefndi að ekkert samningssamband hafi verið milli hans og stefnanda, heldur einungis varastefnda, hafi aðalstefnda borið að beina verkbeiðnum til varastefnda en ekki stefnanda. Með því að gera það ekki hafi aðalstefndi verið bundinn við að greiða stefnanda fyrir umbeðin verk, enda hafi verið um einstök og afmörkuð verkefni að ræða og sem stefnandi viti ekki til að varastefndi hafi skuldbundið sig til að inna af hendi á grunni þess verksamnings sem hann hafi gert við aðalstefnda. Að minnsta kosti hafi varastefndi upplýst stefnanda um að hann hafi ekki fengið greitt frá aðalstefnda fyrir þessi verk og vísi á hann um greiðsluskyldu. 

Stefnandi byggir á því að sá sem óskar eftir verki, þ.e. aðalstefndi sem verkkaupi, sé ábyrgur fyrir greiðslu þess, enda ekki á forræði og ábyrgð stefnanda þótt aðalstefndi kunni að hafa gert verksamning við annan aðila um sömu verk, sem þó sé ekkert upplýst um. Stefnandi sem verktaki verði ekki gerður ábyrgur fyrir því, en hann eigi rétt á því að fá greitt fyrir umbeðið vinnuframlag sem hann hafi innt af hendi.

Þá verði ekki séð hverju það skipti fyrir aðalstefnda hvort hann greiði stefnanda beint eða varastefnda, nema hann telji sig hafa gert samning er fríi hann greiðslu aukaverka eða að hann eigi að greiða lægra gjald en stefnandi byggi á. Að minnsta kosti hafi stefnandi ekki verið upplýstur um slíkt þegar aðalstefndi óskaði eftir vinnuframlagi hans og ljóst að hann hefði ekki ráðist í framkvæmdir ef fyrir hefði legið að hann ætti ekki að fá greitt fyrir vinnu sína með því tímagjaldi sem eðlilegt má telja og framlögðu efni.

Aðalstefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir við verk stefnanda, en það sé vel unnið og því sé lokið. Öll aukaverk hafi verið unnin að beiðni verkstjóra aðalstefnda og honum ljóst hvað unnið var við hverju sinni, enda hafi hann verið á verkstað allan tímann og ekki gert neinar athugasemdir við framlögð verkskýrsluyfirlit sem hafi verið afhent meðan á verki stóð og sem hann hafi staðfest með áritun sinni, en þar hafi verið sundurgreind þau verkefni sem unnið var við hverju sinni, fjöldi vinnutíma og efniskostnaður. 

Stefnandi telur að fjárhæð tímagjalds sé eðlilegt og sanngjarnt og að vinnuframlag hans sé í fullu samræmi við þau verk sem unnin voru, sbr. inntak reglu 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.   

Dráttarvaxta er krafist frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að fjárkrafan var sett fram með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 28. september 2017.

Verði aðalstefndi sýknaður af kröfum stefnanda byggir stefnandi kröfur sínar á hendur varastefnda á framlögðum dagskýrslum og því að varastefndi sem aðalverktaki beri ábyrgð á því að greiða undirverktaka sínum fyrir þau verk sem verkkaupi hafi óskað eftir og unnin hafi verið í þágu varastefnda og með hans vitneskju. 

Varastefndi hafi ekki gert sérstakar athugasemdir við dagskýrslur stefnanda eða hrakið þær að öðru leyti. Verði talið að aðal- og varastefndi hafi gert með sér verksamning, sem hafi tekið á greiðslum fyrir aukaverk líkt og aðalstefndi heldur fram, sé ljóst að varastefndi sé ábyrgur fyrir uppgjöri við stefnanda. Hafi varastefndi ekki gert neinar athugasemdir við það að stefnandi hafi unnið umrædd aukaverk og sem honum hafi mátt vera fullkunnugt um og komi honum vissulega til tekna í uppgjöri við aðalstefnda.

Eðli málsins samkvæmt hljóti að liggja samningur milli aðal- og varastefnda um framkvæmd aukaverka, ella hefðu þau ekki verið umbeðin af hálfu aðalstefnda eða þá að aðalstefndi sé greiðsluskyldur gagnvart stefnanda, sbr. aðalkrafa. Stefnandi sé ekki aðili að þeim samningi stefndu um aukaverkin, heldur eigi hann beina kröfu á varastefnda sem aðalverktaka, líkt og aðalstefndi hafi haldið fram. Um uppgjör milli stefndu fari samkvæmt samningi þeirra og hafi aðalstefndi af þeim sökum vísað á varastefnda um skyldu hans til að greiða fyrir aukaverk stefnanda þar sem þau hafi verið umbeðin innan þeirrar heimildar sem aðalstefndi taldi sig hafa vegna samnings síns við varastefnda. Stefnanda sé líka kunnugt um að varastefndi hafi unnið önnur aukaverk fyrir aðalstefnda, en þau sem nú er stefnt fyrir.    

Stefnandi telur að það liggi í hlutarins eðli að annar hvor aðilinn, aðal- eða varastefndi eigi að greiða fyrir vinnuframlag stefnanda, enda hafi stefnandi ekki unnið að þessum verkum að eigin frumkvæði, heldur samkvæmt beiðni aðalstefnda og með fullri vitund og vilja varastefnda. Varastefndi hafi heldur engar hömlur lagt á stefnanda við framkvæmd aukaverkanna og samþykkt þau þar með í verki.

Hvernig svo sem samningssambandi stefndu sé háttað geti það aldrei leitt til þess að stefnandi eigi ekki að fá greitt fyrir vinnu sína, enda sé hann ekki aðili að þeim samningi og bindi hann ekki. Aukaverkin séu í þágu varastefnda í uppgjöri hans við aðalstefnda, líkt og lögmaður aðalstefnda hafi staðfest við stefnanda með bréfi 15. nóvember 2017.

Að öðru leyti er vísað til málsástæðna varðandi aðalstefnda, að breyttu breytanda, um greiðsluskyldu varastefnda og sönnur fyrir fjárhæð kröfu stefnanda.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir skuldbindinga og að gerða samninga skuli efna og meginreglna verktakaréttarins um ábyrgð verkkaupa til greiðslu verkkaups, hvort sem það telst hafa verið aðal- eða varastefndi. Vísað er til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og laga nr. 91/1991, einkum 19. gr. varðandi kröfugerðina.

Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

            Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að stefnandi eigi ekki kröfu á hendur honum vegna þeirra verka sem um ræðir, aukaverka 1-8, enda sé ekkert samningssamband milli þeirra tveggja. Það beri því að sýkna aðalstefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Óumdeilt sé að aðalstefndi og varastefndi hafi gert með sér samning um framkvæmd samnings- og aukaverka að Hrólfsskálamel 1-5. Með samningnum hafi verklaun varastefnda verið ákveðin vegna hvors tveggja. Undir framkvæmd verksins hafi varastefndi síðan ráðið stefnanda sem undirverktaka sinn og að það virðist óumdeilt að stefnandi hafi unnið þau aukaverk sem mál þetta snýst um, sem aðalstefndi hafi falið varastefnda að leysa af hendi.

Það verklag varastefnda að ráða stefnanda sem undirverktaka sinn hafi verið gert með samþykki aðalstefnda, sbr. gr. 3.2.1 í ÍST 30:2012. Í því felist bersýnilega að varastefndi beri ábyrgð gagnvart stefnanda á greiðslu verklauna vegna þeirra þátta sem sá fyrrnefndi óski eftir að sá síðarnefndi vinni. Aðalstefndi komi hvergi þar nærri. Stefnandi hafi því verið á verkstað sem fulltrúi varastefnda. 

Aðalstefndi vísar til þess að í stefnu sé því haldið fram að ekkert „sérstakt samkomulag“ hafi legið fyrir milli stefnanda og varastefnda um að sá fyrrnefndi tæki að sér aukaverk heldur hafi munnlegt samkomulag þeirra einungis náð til framvinduverka. Í framhaldinu byggi stefnandi á því að aðalstefndi hafi óskað beint eftir því við stefnanda að hann ynni aukaverkin sem um ræðir. Á þetta geti aðalstefndi ekki fallist.

Í fyrsta lagi sé það svo að stefnandi hafi sent varastefnda dagskýrslur sínar vegna aukaverkanna sem síðan hafi útbúið reikning á grundvelli skýrslnanna og sent aðalstefnda. Að mati aðalstefnda staðreynir þetta fyrirkomulag að verksamningur stefnanda og varastefnda hafi tekið bæði til samnings- og aukaverka sem féllu til á Hrólfsskálamel enda hefði stefnandi annars sjálfur reikningsgert verkin og sent aðalstefnda. Það blasi í reynd við. Engin leið hafi verið fyrir varastefnda að útbúa reikningana nema með aðkomu og þátttöku stefnanda sem hafi sent honum dagskýrslur sínar. Þetta fyrirkomulag staðfesti aðkomu hvers aðila að verkinu, nánar tiltekið að aðalstefndi hafi verið verkkaupi varastefnda og stefnandi undirverktaki hans, þ.e. varastefnda. Ekkert samningssamband hafi stofnast milli aðalstefnda og stefnanda. 

Í annan stað sé til þess að líta að stefnandi hafi beint beiðnum um aukaverk til varastefnda, ekki stefnanda líkt og fullyrt sé í stefnu. Því til staðfestingar bendir aðalstefndi á framlagðan tölvupóst, dags. 23. nóvember 2016. Með póstinum, sem sendur hafi verið til fyrirsvarsmanns varastefnda og afrit á stefnanda, hafi aðalstefndi farið þess á leit við varastefnda að unnin yrðu nánar tilgreind aukaverk. Beiðnin hafi beinst sannanlega að varastefnda, enda samningssambandið þar á milli. Sama eigi við um tölvupóst frá 8. desember 2016 vegna aukaverks 2. 

Varðandi þennan þátt málsins hafnar aðalstefndi þeim málatilbúnaði stefnanda að undirritanir verkstjóra aðalstefnda, Guðmundar Arnarsonar, á dagskýrslur jafngildi beiðnum aðalstefnda um að verk yrðu unnin. Með undirritunum sínum hafi Guðmundur staðfest að framkvæmd verkanna væri lokið af stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur staðfest þennan skilning og verklag með tölvupósti sínum 30. janúar 2017, þar sem hann biðji Guðmund um að staðfesta að eftirfarandi aukaverk hafi verið unnin af honum. Þessi aðferðafræði sé alvanaleg og sé eðlileg við framkvæmd verka á borð við það sem hér um ræðir. Í undirritunum verkstjórans felist sannanlega ekki formleg beiðni til stefnanda um vinnu tiltekinna verka enda hafi verkstjórinn ekki slíkt stjórnunarvald á verkstað.

Jafnvel þótt litið verði svo á að aðalstefndi hafi óskað eftir því við stefnanda að hann ynni tiltekin verk lítur aðalstefndi svo á að samskiptin hafi skýrlega verið hluti af samtali milli aðila um framkvæmd og aukaverk samkvæmt verksamningi aðal- og varastefnda. Undir engum kringumstæðum geti það hafa átt að misskiljast og alls ekki með þeim hætti að með beiðni um framkvæmd á aukaverki hafi aðalstefndi rift verksamningnum við varastefnda og gert nýjan samning við stefnanda.

Loks bendir aðalstefndi á að enginn samningur, hvorki munnlegur né skriflegur, hafi verið gerður milli hans og stefnanda um neina þætti framkvæmdarinnar sem um ræðir enda væri slík samningsgerð í beinni andstöðu við gr. 3.2.3 í ÍST 30:2012. Í þeirri grein staðalsins sé kveðið á um að undirverktaki, stefnandi hér, geti ekki gert neins konar samning um verkið við verkkaupa, aðalstefnda hér. Aðalstefndi hafi að sjálfsögðu verið fullmeðvitaður um þetta, hafandi gert skriflegan verksamning við varastefnda. Aukinheldur komi fram í fyrrnefndri grein staðalsins að öll fyrirmæli eða óskir frá verkkaupa um breytingar á verkinu skuli fara um hendur aðalverktakans, varastefnda hér. Í þessu felist að aðalstefnda hafi borið að beina öllum fyrirmælum um aukaverk að varastefnda, sem og hann gerði. 

Þá bendir aðalstefndi á að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um ætlað samkomulag þeirra um framkvæmd þeirra aukaverka sem um ræðir. Sönnunarbyrði um slíkan samning og efni hans hvíli á stefnanda. Þvert á móti hafi aðalstefndi nú staðreynt með framlögðum gögnum að beiðnum um framkvæmd aukaverka hafi verið beint að varastefnda sem í framhaldinu hafi falið stefnanda að vinna verkin. Varastefnda beri eðli máls samkvæmt að gera upp við undirverktaka sinn vegna þessa. Stefnanda sé ekki tækt að beina kröfu um uppgjör að aðalstefnda vegna vanefnda varastefnda.

Með vísan til alls framangreinds krefst aðalstefndi þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda á grundvelli aðildarskorts.

Verði ekki fallist á framangreint og komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að beint samningssamband sé milli aðalstefnda og stefnanda, þannig að aðalstefndi beri ábyrgð á greiðslu kostnaðar vegna vinnu stefnanda við aukaverk 1-8, byggir aðalstefndi málatilbúnað sinn á því að kröfur stefnanda á hendur sér eigi ekki við rök að styðjast. Um það vísast til eftirfarandi:

Aukaverk 1: Samkvæmt tímaskráningu stefnanda sé um að ræða 77 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 6.500 krónur, samtals að fjárhæð 620.620 krónur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 95.913 krónur. Krafan telji í heildina 716.533 krónur. Aðalstefndi byggir á því að hann hafi þegar greitt kostnað vegna aukaverksins sem um ræðir. Það hafi hann gert með greiðslu útgefins reiknings varastefnda nr. 296 að fjárhæð 578.460 krónur þann 4. nóvember 2016. Sá reikningur byggist á sömu dagskýrslum og stefnandi leggi fram í máli þessu til grundvallar kröfunni sem hann beini nú að aðalstefnda. Mismunurinn liggi í ólíku tímagjaldi en tímagjaldið í reikningi varastefnda byggist á verksamningi aðila, 5.500 krónur á klukkustund auk virðisaukaskatts. Stefnandi byggi reikningsgerð sína á röngu tímagjaldi og sé því mótmælt. Það sama eigi við um aðrar kröfur í málinu.

Aðalstefndi bendir á að reikningur varastefnda byggist á tímaskýrslum frá stefnanda sjálfum. Engin leið hafi verið fyrir varastefnda að krefja aðalstefnda um greiðslu kostnaðarins nema að fengnum gögnum frá stefnanda sjálfum um þá vinnu sem hann innti af hendi. Aðalstefndi hafi sannanlega greitt reikninginn. Með hliðsjón af því innheimtufyrirkomulagi sem stefnandi hafi sjálfur lagt upp með hafi hann mátt treysta því og trúa að greiðslustaður væri reikningur varastefnda. Krafan vegna aukaverks 1 sé uppgerð.

Aðalstefndi telur að dagskýrslur stefnanda vegna aukaverks 1, sem eru að baki kröfu vegna aukaverks 1, virðist hafa verið endurskrifaðar fyrir birtingu stefnu málsins. Það megi sjá með samanburði við dagskýrslur sem fylgdu reikningi varastefnda í ágúst 2016, sbr. reikning dags. 26. ágúst 2016 að fjárhæð 578.460 krónur. Aðalstefndi þekki ekki hvað búi að baki en telur ljóst að þessi framkvæmd stefnanda ýti undir málatilbúnað aðalstefnda í greinargerð þessari að varastefndi beri ábyrgð á greiðslu verklauna til handa stefnanda.

Aukaverk 2-6: Í málinu hafi verið lagðar fram dagskýrslur og útreikningur stefnanda á kostnaði vegna vinnu hans á aukaverkum 2-6. Rétt eins og með reikning 296, vegna aukaverks 1, sé varastefndi útgefandi reikninga nr. 391, 403, 404, 405 og 406 vegna aukaverka 2-6. Að baki öllum reikningunum liggi sömu dagskýrslur stefnanda og stefnandi leggi nú fram til stuðnings kröfu sinni vegna aukaverka 2-6. Með vísan til fyrri umfjöllunar bendir aðalstefndi á að engin leið hafi verið fyrir varastefnda að útbúa reikningana nema með aðkomu og þátttöku stefnanda sem hafi sent honum dagskýrslur sínar.  

Um afdrif framannefndra reikninga bendir aðalstefndi á að hann hafi gert athugasemdir við reikningana eins og þeir hafi verið settir fram. Ástæðan hafi m.a. verið sú að reikningarnir innihéldu verkliði sem tilheyrðu samningsverkinu, ýmsum aukaverkum hafi beinlínis verið hafnað auk þess sem athugasemdir hafi verið gerðar við tímaskráningu einstakra verkliða. Úr hafi orðið að sátt náðist milli aðal- og varastefnda um eftirstöðvar krafna samkvæmt aukaverkunum. Varastefndi hafi kreditfært alla reikningana og gefið út nýjan reikning, nr. 444, samtals að fjárhæð 2.511.960 krónur. Reikningurinn hafi verið greiddur á reikning varastefnda með tveimur greiðslum; annars vegar 31. mars 2017 að fjárhæð 1.089.000 krónur og hins vegar 12. maí 2017 að fjárhæð 1.422.960 krónur. Allar kröfur stefnanda vegna aukaverka 2-6 séu því uppgerðar.

Með vísan til fyrri umfjöllunar byggir aðalstefndi á því að stefnandi hafi sjálfur falið varastefnda að krefja aðalstefnda um greiðslu kostnaðar vegna aukaverka 2-6. Varastefndi hafi samið við aðalstefnda um uppgjör. Telji stefnandi sig eiga óuppgerðar kröfur vegna aukaverkanna beri honum að beina spjótum sínum að varastefnda.

Aukaverk 7: Aðalstefndi segir að honum hafi á engum tímapunkti borist krafa vegna þessa þáttar málsins, hvorki frá stefnanda né varastefnda. Aðalstefndi mótmælir kröfunni eins og hún er sett fram. Í fyrsta lagi séu framlagðar dagskýrslur óundirritaðar af fyrirsvarsmanni aðalstefnda og verkliðir því ósamþykktir sem slíkir. Í annan stað sé tímaskriftum mótmælt sem ónákvæmum og umfram það sem geti talist eðlilegt miðað við umfang verksins. Sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda. Þá sé tímagjald of hátt og órökstutt. Í því sambandi sé bent á að tímagjald samkvæmt verksamningi aðal- og varastefnda sé 5.500 krónur auk virðisaukaskatts. 

Aukaverk 8: Aðalstefnda hafi borist reikningar varastefnda nr. 402 og 407 í febrúar 2017 vegna þessa aukaverks. Varastefndi hafi kreditfært reikningana 1. apríl s.á. þar sem aðalverkkaupi, LL11 ehf., hafi ekki samþykkt aukaverkið sem slíkt. Aðalstefndi vísar til þess að samkvæmt 5. gr. verksamnings aðalstefnda og varastefnda eigi undirverktaki ekki rétt á greiðslu vegna aukins kostnaðar nema að fengnu samþykki LL11 ehf. Þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á inntak ætlaðs samnings hans og aðalstefnda byggir aðalstefndi á því að sama ákvæði gildi um stefnanda. Greiðsluskylda aðalstefnda sé því háð samþykki LL11 ehf. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir og geti stefnandi því ekki átt réttmæta kröfu um greiðslu kostnaðarins. Þá mótmælir aðalstefndi kröfunni sem of hárri, tímaskriftir séu ónákvæmar og umfram það sem eðlilegt geti talist miðað við umfang verksins auk þess sem tímagjald sé of hátt.

Um lagarök vísast til laga nr. 91/1991, almennra reglna verktaka-, samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og staðals ÍST 30:2012.

Málskostnaðarkrafa aðalstefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

            Varastefndi mótmælir þeirri lýsingu aðalstefnda að þar sem ekki sé að finna nema munnlegan samning milli hans og stefnanda um aukaverkin, þá hljóti þau að falla undir aukaverk samkvæmt verksamningi varastefnda. Varastefndi hafi engan einkarétt átt á að vinna aukaverk, kæmu þau til. Varastefndi hafi vissulega unnið aukaverk, enda til hans sérstaklega leitað í þau skipti. Hvernig aðalstefndi hafi kosið að semja við aðra undirverktaka um aukaverk sé varastefnda algerlega óviðkomandi.

Gögn málsins og lýsing stefnanda sé mjög skýr um að verkbeiðnir vegna aukaverka hafi ýmist verið sendar til varastefnda eða beint til annarra undirverktaka, þ. á m. stefnanda.

Það sé líka rökrétt hjá stefnanda að þar sem ekkert fast samningssamband hafi verið á milli varastefnda og aðalstefnda varðandi aukaverk almennt, heldur einungis um þau sértæku aukaverk sem sérstaklega hafi verið beint til varastefnda, þá hafi hann mátt ganga út frá því að þegar aðalstefndi leitaði beint til hans, væru þær verkbeiðnir um aukaverk varastefnda óviðkomandi. Hins vegar hafi reikningsfyrirkomulag farið úr skorðum varðandi aukaverk í upphafi, þar sem bæði stefnandi og varastefndi hafi haldið að þeir væru að verða við fyrirmælum aðalstefnda sem svo hafi ekki verið raunin. Því hafi varastefndi kreditfært þá reikninga sem aðalstefndi vildi. Síðan hafi aðalstefndi samið beint við varastefnda vegna hans aukaverka.

Varastefndi kveður að aukaverk komi til jafnt og þétt á verktíma og séu oft unnin samhliða, en ekki einungis í lok verktíma. Ekkert óeðlilegt sé því að aukaverk séu unnin á sömu dögum og stefnandi sé einnig með menn á verkstað sem vinni annars vegar í samningsverkum og hins vegar í aukaverkum.

Reyndar sé það augljóst að eina ástæða þess að varastefndi þurfti að ráða stefnanda og menn hans til vinnu hafi verið að varastefndi hafi ekki haft sjálfur mannskap í öll þessi aukaverk.

Stefnandi og aðrir á hans vegum hafi því verið mikið á verkstað og ekkert eðlilegra en að aðalstefndi leitaði til stefnanda, sem hafi verið á staðnum, og samið við hann um frekari aukaverk, þar sem varastefndi hafi ekki getað tekið þau að sér. Helsta skýringin á því hafi reyndar verið sú að verkið tafðist í marga mánuði vegna aðalstefnda og vegna annarra samninga og verka hafi varastefndi þurft að takmarka fjölda manna í þessu verki við samningsverkin að langmestu leyti.

Varastefndi útilokar ekki að í vissum tilvikum virðist sem misskilningur hafi orðið á milli hans og stefnanda. Þannig kunni stefnandi að hafa að hluta til lagt fram í máli þessu vinnuskýrslur sem hann áður hafi sent varastefnda vegna aukaverka sem varastefndi tók að sér en stefnandi vann og hafi fengið greitt. Varastefndi hafi þó þurft að fara dýpra í sínar eigin vinnuskýrslur en unnt var áður en greinargerð varastefnda var lögð fram, til þess að ganga úr skugga um hvort svo sé 100%. Verði það staðfest síðar muni varastefndi eðlilega koma leiðréttingu til dómsins og aðila máls.

Varastefndi kveðst að vissu leyti taka undir gagnrýni aðalstefnda varðandi vinnuskýrslur stefnanda. Nánar tiltekið að verklýsingar séu heldur knappar og t.d. sé ekki hægt að sjá nákvæmlega hvaða málarar hafi verið að vinnu hvar og á hvaða tíma. Geri þessi framsetning varastefnda erfiðara fyrir og kalli á miklu meiri vinnu við samanburð á vinnuskýrslum stefnanda og svo varastefnda hins vegar.

Nánar um aukaverk stefnanda byggir varastefndi á eftirfarandi málsástæðum:

 

Aukaverk 1. Hér telur varastefndi líklegt að misskilningur hafi orðið. Reyndar passi fjárhæðir ekki nákvæmlega saman á milli reiknings stefnanda og varastefnda og því sé varastefndi ekki 100% viss, en telur þó miðað við mjög svipaða greiðslu á sama tíma, eða 1. september 2016, til stefnanda að hér sé um sömu vinnu að ræða sem hafi verið gerð upp. En varastefndi vekur athygli á að hér sé um að ræða rétt ríflega 550 þúsund krónur af níu milljóna króna kröfu stefnanda.

Aukaverk 2-6. Varastefndi segir að það sé rétt sem aðalstefndi greinir frá, að varastefndi hafi kreditfært þessa reikninga alla. Ástæðan hafi verið að aðalstefndi og varastefndi hafi ekki verið sáttir við þann hátt sem myndast hafði á fyrirkomulagi reikninga, vinnuskýrslna og uppgjörs fyrir aukaverk. Um 900 tímar hafi verið unnir í aukaverk í þeim þætti verksins sem aðilar þessa máls komu saman að. Þegar óánægjan hafi komið upp hafi mikil vinna verið lögð í það af hálfu aðalstefnda og varastefnda saman að greina nákvæmlega hvaða verk varastefndi hafi unnið sjálfur og í hverju verkið fólst og í samvinnu hafi orðið til mjög greinargóð samantekt. Hún hafi verið sett upp í excel-skjali sem starfsmaður aðalstefnda hafi haldið utan um. Í því skjali megi skýrlega sjá að stefndu hafi verið sammála um að varastefndi hefði unnið um 200 tíma í þessum aukaverkum sem um er deilt í þessu máli.

Útistandandi séu því um 700 tímar sem ekki tengdust varastefnda og hafi ekki verið sérstaklega ræddir frekar í þessum viðræðum, eðlilega.

Stefnandi sé væntanlega að krefjast greiðslu á þeim tímum, en það geti varastefndi ekki lagt mat á, heldur einungis aðalstefndi.

Í  ljósi þessa hafi reikningar verið kreditfærðir, en alls ekki til þess að gefa út einn nýjan reikning, nr. 444, sem hafi átt að ljúka greiðslu allra aukaverka, hver sem vann þau, heldur hafi aukaverk varastefnda verið í þessum hluta, gerð upp með greiðslu á 198 tímum. Þannig hafi aðalstefndi jafnframt líka greitt aðra reikninga samkvæmt samkomulaginu, vegna beinnar vinnu varastefnda sjálfs utan verksamnings. Í lokin hafi verið gert upp með reikningi 444, en útskýringar á þeirri fjárhæð séu til í tölvupósti frá aðalstefnda. En það uppgjör sé samkomulag vegna óvissu aðila um endanlega tölu unninna tíma varastefnda í verkinu, sem sannanlega hafi verið viðbót frá verksamningi, alls 139,5*5500+vsk., sem geri 2.511.960 krónur.

Varastefndi telur að það standist heldur enga skoðun að halda því fram að 700 tímar, sem eftir séu ógreiddir og komi ekki varastefnda við, en séu samþykktir, bæði að umfangi og vinnu, séu gerðir upp með 2,5 milljónum króna til hans, enda hafi það ekki verið svo. Þær varnir aðalstefnda að mótmæla umfangi og vinnu stefnanda geti af sömu ástæðu, þ.e. þessir liðir séu þegar samþykktir af aðalstefnda með áritun verkstjóra og úttektaraðila, ekki haldið heldur.

 

Mergur málsins sé að þessi aukaverk séu ekki unnin af varastefnda, hann hafi ekki verið beðinn um þessa vinnu og tengist hann þar að leiðandi þessu uppgjöri aukaverka á milli stefnanda og aðalstefnda ekki neitt. Um það hafi aðalstefndi og varstefndi reyndar verið orðnir sammála, að því er forsvarsmaður varastefnda hélt, og að minnsta kosti hafi verið komið á og staðfest fullnaðaruppgjör þeirra á milli fyrir verkið. Komi það varastefnda því mjög á óvart hversu langt aðalstefndi gangi í að gefa í skyn, þótt það sé varla sagt berum orðum, að það gæti hugsanlega kannski verið að varastefndi hefði þegið greiðslur frá aðalstefnda sem stefnandi ætti rétt á. Eða þá hinn möguleikinn sem aðalstefndi opnar á, að varastefndi hafi samið um að níu milljóna króna krafa stefnanda félli niður, gegn örsmárri hlutagreiðslu, 2,5 milljónum króna, til varastefnda. Varastefndi fullyrðir að hvorug leiðin hafi verið farin og að varastefndi hafi engar greiðslur fengið né haldið sem stefnandi átti rétt til.

Varastefndi telur aðila í raun vita að lítill hluti kröfu stefnanda sé misskilningur, en rest eigi að beinast að og greiðast af aðalstefnda, þótt tímagjald kunni reyndar að vera of hátt eða aðalstefndi hafi aðrar lækkunarástæður, en það sé í raun varastefnda algerlega óviðkomandi.

Aukaverk 7. Varastefndi segir að hann átti sig engan veginn á því um hvað þessi krafan snúist, en viti það eitt að hún virðist byggjast á skriflegu samkomulagi milli stefnanda og aðalstefnda.

Varakrafa um stórkostlega lækkun stefnukrafna er byggð á sömu sjónarmiðum og liggja til grundvallar kröfu um sýknu að breyttu breytanda. Verði varastefndi talinn eiga að greiða stefnanda einhverja kröfufjárhæð, þá telur varastefndi að lækka verði kröfur stefnanda að teknu tilliti til þess sem þegar hefur verið rakið og að stærsti hluti stefnukrafna falli undir beint samningssamband á milli aðalstefnda og stefnanda.

Um lagarök vísar varastefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum til sjónarmiða um skuldbindingargildi verksamninga og efndir og lok kröfuréttinda. Þá vísast til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum III. kafla þeirra.

Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

V.

            Eins og rakið hefur verið gerðu aðalstefndi og varastefndi á árinu 2016 með sér verksamning um málun innan- og utanhúss að Hrólfsskálamel 1-5, Seltjarnarnesi. Samkvæmt verksamningnum var aðalstefndi aðalverktaki en varastefndi undirverktaki og var sérstaklega tiltekið að nýjasta útgáfa ÍST 30 væri hluti af verksamningnum. Varastefndi fékk síðan stefnanda í máli þessu til að vinna við verkið og var það með fullri vitund aðalstefnda og hreyfði hann aldrei athugasemdum við því. Ekki var gerður skriflegur samningur milli stefnanda og varastefnda. 

Stefnandi vann tiltekin aukaverk, ýmist þannig að aðalstefndi beindi beiðni um verk til stefnanda sjálfs eða til varastefnda, eða þeirra beggja. Er óumdeilt að stefnandi vann þessi aukaverk og hefur hvorki aðalstefndi né varastefndi hnekkt dagskýrslum stefnanda og var tímagjald stefnanda sanngjarnt og eðlilegt, en tímagjaldið sem tiltekið er í verksamningi aðalstefnda og varastefnda bindur ekki stefnanda. Hins vegar er ágreiningur um það hvort aðalstefnda eða varastefnda beri að greiða stefnanda fyrir þau aukaverk sem hann vann.

Þar sem stefnandi var undirverktaki varastefnda stofnaðist ekki beint réttarsamband á milli stefnanda og aðalstefnda. Fyrir liggur að varastefndi gaf út reikninga á hendur aðalstefnda fyrir aukaverkum sem stefnandi vann, sem styður það að ekki var réttarsamband á milli stefnanda og aðalstefnda um þau aukaverk sem stefnandi sannanlega vann. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um að þessir reikningar varastefnda vegna aukaverka sem stefnandi vann hafi verið kreditfærðir, eins og varastefndi heldur fram. Þá liggur enn fremur fyrir að stefnandi hafði enga aðkomu að viðræðum sem áttu sér stað milli aðalstefnda og varastefnda um uppgjör á umræddum aukaverkum. Auk þess væri samningur milli aðalstefnda og stefnanda um aukaverk í andstöðu við grein 3.2.3 í ÍST30, sem var hluti verksamningsins milli aðalstefnda og varastefnda.  Að öllu þessu virtu verður að líta svo á að varastefndi sé ábyrgur gagnvart stefnanda um greiðslu fyrir þá vinnu sem ágreiningslaust er að stefnandi innti af hendi, en varastefndi kann síðan að eiga kröfu á hendur aðalstefnda.

Með vísan til alls framangreinds er aðalstefndi sýkn af kröfum stefnanda en varastefndi verður dæmdur til að greiða reikning stefnanda, dags. 28. september 2017, að fjárhæð 9.351.110 krónur. Dráttarvextir skulu reiknast frá 28. október 2017.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma varastefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Rétt þykir að málskostnaður milli stefnanda og aðalstefnda falli niður, enda var stefnanda í ljósi afstöðu aðalstefnda og varastefnda vandi á höndum við ákvörðun þess á hvorn aðila höfða átti málið.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir ásamt meðdómendunum Hjalta Sigmundssyni, húsasmíðameistara og byggingartæknifræðingi, og Jóni Höskuldssyni héraðsdómara.

 

D ó m s o r ð:

            Aðalstefndi, Munck Íslandi ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Arnars Arinbjarnar.

Varastefndi, Stjörnumálun ehf., greiði stefnanda 9.361.110 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. október 2017 til greiðsludags.

Málskostnaður milli aðalstefnda og stefnanda fellur niður.

Varastefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir

Hjalti Sigmundsson

Jón Höskuldsson