• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2018 í máli nr. S-655/2018:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóni Gauta Magnússyni

(Ólafur Karl Eyjólfsson lögmaður)

            Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. nóvember 2018, á hendur Jóni Gauta Magnússyni, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

 

1.      Fimmtudaginn 14. september 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 85 ng/ml) austur Grjótháls í Reykjavík, að Hálsabraut, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og að hafa haft í vörslum sínum 0,40 g af kókaíni, sem lögreglumenn fundu við öryggisleit á ákærða og við leit í bifreiðinni [...].

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

2.      Miðvikudaginn 3. október 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Bústaðaveg í Reykjavík, við Perluna.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

              Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Krafist er upptöku á 0,40 g af kókaíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 1. nóvember 2018, hefur ákærði í tvígang gerst sekur um ölvunarakstur og/eða akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Annars vegar gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. nóvember 2010 vegna hins síðarnefnda brots. Hins vegar hlaut ákærði dóm, meðal annars fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. desember 2015. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði nú gerst sekur um sams konar brot í þriðja sinn innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Að öðru leyti hefur sakaferill ákærða ekki þýðingu í málinu.

Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni þessa máls, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja. Þá er, jafnframt með vísan til lagaákvæða í ákæru, gert upptækt til 0,40 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar lögmanns, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 87.014 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir, aðstoðarsaksóknari.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jón Gauti Magnússon, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Upptækt er gert til ríkissjóðs 0,40 g af kókaíni.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar lögmanns, 105.400 krónur og 87.014 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal