• Lykilorð:
  • Skuldamál
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 7. september 2018 í máli nr. E-46/2017:

Arion banki hf.

(Sigurður Guðmundsson hrl.)

gegn

Halldóri Þormari Halldórssyni

(Einar Sigurjónsson hdl.)

I

            Mál þetta, var höfðað 4. október 2017 og tekið til dóms 31. ágúst sl.

            Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

            Stefndi er Halldór Þormar Halldórsson, Hlíðarvegi 22, Siglufirði.

            Dómkröfur

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 18.264.666 japönsk jen (JPY) og 192.342 svissneska franka (CHF) ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. október 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Atvik máls

            Hinn 31. ágúst 2007 gerði stefndi samning við Sparisjóð Siglufjarðar þess efnis að sparisjóðurinn lánaði honum 18.000.000 japönsk jen og 190.000 svissneska franka. Í samningi stefnanda og Sparisjóðsins Siglufjarðar kemur fram að samningurinn sé í formi „kúluláns“ til sex ára og að hann falli í heild sinni í gjalddaga 5. október 2013. Stefndi átti að greiða vexti af helmingi höfuðstóls lánsfjárhæðarinnar. Stæði hann við greiðslur vaxta var honum heimilt að framlengja helming lánsfjárhæðarinnar í 20 ár frá gjalddaga lánsins. Þá er í samningnum ákvæði um niðurfellingu hluta höfuðstóls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Lánið skyldi bera LIBOR-vexti (London Inter Bank Offerd Rate) eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni að viðbættu 2% álagi. Í samningnum eru nánari fyrirmæli um það hvernig vextir skuli reiknaðir. Yrðu vanefndir á samningnum er lánveitanda heimilt að gjaldfella samninginn án fyrirvara, uppsagnar eða tilkynningar og bæri stefnda þá að greiða dráttarvexti af skuldinni í samræmi við lög 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Heimilt er samkvæmt samningnum að reikna vanskilavexti af allri skuldinni frá því hún félli fyrst í gjalddaga.

            Hinn 9. mars 2009 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánasamningsins þannig að næsti vaxtagjalddagi yrði 5. maí 2010 og jafnframt um það samið að uppsafnaðir vextir frá 5. mars 2009 til 5. apríl 2010 bættust við höfuðstól lánsins. Eftir þessa breytingu nam höfuðstóll lánsins þeim fjárhæðum sem fram koma í kröfugerð stefnanda. Stefndi stóð ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og hefur hann raunar ekki greitt neitt til stefnanda eða fyrirrennara hans samkvæmt lánasamningnum.

            Hinn 15. október 2015 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna AFL-sparisjóðs ses og stefnanda, en AFL-sparisjóður ses varð til við samruna Sparisjóðs Siglufjarðar og Sparisjóðs Skagafjarðar. Samrunninn tók gildi 15. október 2015 og hefur stefnandi því tekið við réttindum og skyldum sparisjóðsins.

 

III

Málsástæður og lagarök

            Af hálfu stefnanda er á því byggt að samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefnanda að greiða kröfuna. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í fjögur ár fyrir þingfestingu málsins. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

            Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ákvæði í samningi aðila sem snúa að sérstökum yfirlýsingum lántaka séu sett til hagsbóta fyrir stefnanda og það ákvæði hafi verið sett til hagsbóta fyrir stefnanda, ekki stefnda, í þeim tilgangi að auðvelda honum að meta lánshæfi stefnda.

Stefndi hafi ekki staðið skil á greiðslum samkvæmt samningnum en í honum sé ákvæði sem heimili stefnanda að gjaldfella hann en það hafi stefnanda ekki verið skylt. Stefnandi andmælir því að krafa hans sé niður fallin fyrir fyrningu líkt og stefndi beri fyrir sig. Krafan hafi öll fallið í gjalddaga 5. október 2013 og þann dag hafi fyrningarfrestur byrjað að líða og skipti því engu máli hvort um samninginn gildi eldri lög um fyrningu nr. 14/1905 eða núgildandi lög nr. 150/2007 enda ekki liðin fjögur ár frá gjalddaga þegar mál þetta var höfðað. Varðandi umfjöllun stefnda í þá veru að staðgengill sparissjóðsstjóra hafi óskað eftir því við stefnanda að hann greiddi 2.500.000 krónur á þremur árum og að þeim tíma liðnum félli skuld samkvæmt samningnum niður vísar stefnandi til þess að ósannað sé að slíkur samningur hafi verið gerður.

Af hálfu stefnda er á því byggt að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti. Í því efni vísar stefndi til þess að hann hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Hann hafi ekki innt neinar greiðslur af hendi, hann hafi ekki lagt fram gögn til þess að stefnanda væri unnt að meta getu hans til að standa við samninginn en slíkt sé skilyrði sbr. f. lið 5. gr. samningsins og þá hafi árangurslaust fjárnám verið gert hjá honum 9. desember 2011. Því sé ljóst að stefndi hafi frá upphafi vanefnt samninginn af sinni hálfu og því hafi stefnanda eða fyrirrennara hans, í samræmi við ákvæði samningsins, borið að gjaldfella hann og innheimta með innheimtuaðgerðum og málsókn. Tómlæti lánveitanda og síðar stefnanda sé algert í þessu efni en stefnandi hafi yfirtekið starfsemi lánveitanda 15. október 2015 og ekki gert neina sannanlega tilraun til að innheimta kröfu sína fyrr en með birtingu stefnu í október 2017 og þá hafi verið liðin meira en 10 ár frá gerð samningsins.

Stefndi vísar til þess eldri að lög um fyrningu skulda og kröfuréttinda nr. 14/1905 gildi um samning aðila en í núgildandi lögum sé ákvæði sem mæli fyrir um að þau taki ekki til fjárskuldbindinga sem til urðu fyrir gildistöku þeirra laga. Í 4. gr. laga nr. 14/1905 sé ákvæði þess efnis að á 10 árum fyrnist kröfur samkvæmt skuldabréfi, dómi eða opinberri sátt, enda sé skuldabréf útgefið, dómur genginn, eða sátt gerð eftir að krafa féll í gjalddaga. Samningur aðila geti ekki fallið hér undir enda sé hann ekki skuldabréf og því fyrnist hann ekki á 10 árum heldu fjórum en það sé almennur fyrningarfrestur sbr. 3. gr. nefndra laga nr. 14/1905. Horfa verði svo á mál þetta að samningurinn hafi fyrnst á fjórum árum þar sem stefnandi hafi ekkert aðhafst við innheimtu samningsins. Stefndi heldur því fram að samningurinn hafi allt að einu verið fyrndur þegar liðin voru sex ár frá útgáfu hans, hinn 5. október 2013 enda komi fram í samningnum sjálfum að hann sé til sex ára. Í síðasta lagi hafi samningurinn fyrnst 1. september 2017 en þá voru liðin 10 ár frá útgáfu hans. Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki rofið fyrningarfrestinn fyrr en með stefnu sem birt var 4. október 2017. Stefndi ítrekar að samningurinn hafi verið vanefndur af hans hálfu frá upphafi og stefnanda og áður fyrirrennara hans hafi borið í samræmi við ákvæði samningsins að hefja innheimtuaðgerðir og málssókn á hendur honum.

Stefndi byggir á því að nokkru áður en stefnandi yfirtók lánveitanda, hafi þáverandi skrifstofustjóri sparisjóðsins og staðgengill sparisjóðsstjóra óskað eftir því við stefnda að hann gerði samning um greiðslu á 2.500.000 krónum sem greiða ætti á þremur árum gegn því að eftirstöðvar samningsins yrðu felldar niður. Ekkert hafi hins vegar orðið af gerð þessa samkomulags en stefndi kveðst ekki vita hvers vegna skjalagerð vegna þessa drógst á langinn. Stefndi telur þetta benda til þess að lánveitandinn, AFL-sparisjóður hafi talið stöðu sína gagnvart samningnum mjög ótrygga, enda um margra ára tómlæti að ræða gagnvart mögulegum kröfuréttindum sparisjóðsins. Í raun sé um að ræða 16 til 18 ára gamla skuld sem aldrei hafi verið gerð tilraun til að innheimta og ekki unnt að líta á slíkt nema sem algert tómlæti af hálfu lánveitanda sem leitt hafi til þess að upphaflegur lánveitandi og síðar stefnandi hafi að fullu glatað réttindum sínum. Yfirtaka stefnanda á AFL-Sparisjóði breyti hér engu enda geti stefnandi ekki öðlast meiri réttindi en sparisjóðurinn átti. Telur stefndi allt þetta leiða til þess að dæma beri samninginn ógildan og óinnheimtanlegan sakir fyrningar.

Við munnlegan flutning málsins kom fram í máli lögmanns stefnda að efni gætu verið til þess að vísa málinu frá án kröfu en í því sambandi vísaði hann til þess að dómkröfur stefnanda væru ekki í íslenskum krónum og krafa stefnanda einnig verulega vanreifuð.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til brottfallinna laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Varðandi málskostnað vísar hann til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Að framan er því lýst að fyrirrennari stefnanda og stefndi gerðu með sér lánasamning. Óumdeilt er að samningurinn hefur nánast frá upphafi verið vanefndur af hálfu stefnda og hann engar greiðslur innt af hendi vegna hans líkt og honum bar. Stefndi kom samningnum þó í skil með því að gerð var á honum skilmálabreyting 9. mars 2009 sem áður er vikið að.

Um samning þennan gilda brottfallin lög um fyrningu nr. 14/1905 en samkvæmt þeim lögum var almennur fyrningarfrestur fjögur ár sbr. 3. gr. laganna. Stefnanda var ekki skylt að gjaldfella samninginn þó svo honum hafi verið það heimilt vegna vanskila stefnda. Samningurinn var með einn lokagjalddaga sem greiða átti 5. október 2013. Stefna máls þess var birt fyrir stefnda 4. október 2017, rétt tæpum fjórum áður eftir gjalddaga kröfunnar og samvæmt því eru kröfur samkvæmt samningnum ófyrndar.

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi og fyrirrennari hans hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við innheimtu krafna sinn að rétt sé að fallast á með stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Krafa stefnanda er fjárkrafa sem líkt og áður er getið hafði ekki skemmri fyrningartíma en fjögur ár. Þrátt fyrir að stefnandi hafi ekkert aðhafst við innheimtu kröfu sinnar eftir að hún fór í vanskil eftir breytingu sem gerð var á samningi aðila á árinu 2009 verður ekki talið að krafan sé niður fallin sökum tómlætis en hér verður að horfa til þess að krafan er fjárkrafa sem hafði einn lokagjalddaga á árinu 2013.

Af hálfu stefnda var vísað til þess við munnlegan flutning málsins að til greina kæmi að vísa málinu frá dómi án kröfu. Vísaði stefndi til þess að dómkröfur stefnanda séu í erlendri mynt en í d. lið 80. gr. laga um meðferð einkamála sé tekið fram að dómkröfur skuli vera í krónum. Ekki er um það deilt að samningur aðila var gerður í erlendri mynt og átti stefndi að standa stefnanda skil á greiðslu þeirra fjárhæða í erlendri mynt sem í dómkröfu stefnanda greinir. Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað í dómum sínum fallist á dómkröfur í erlendri mynt og má í sem dæmi nefna dóm réttarins í máli nr. 40/2017. Krafa stefnanda um dráttarvexti samkæmt lögum um vexti og verðtryggingu er reist á ákvæðum í samningi aðila. Að þessu virtu og því að kröfur stefnanda eru skýrar eru ekki efni til að fallast á með stefnda að rétt sé að vísa málinu frá án kröfu. Dómkröfur stefnanda eru því teknar til greina að fullu.

Með hliðsjón af málsatvikum öllum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Sigurður Guðmundsson lögmaður rak þetta í upphafi af hálfu stefnanda en síðar Kristján B. Thorlacius lögmaður. Stefndi skilaði sjálfur greinargerð í málinu en Einar Sigurjónsson lögmaður flutti málið munnlega fyrir hans hönd.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Halldór Þormar Halldórsson, greiði stefnanda, Arion banka hf. 18.264.666 japönsk jen (JPY) og 192.342 svissneska franka (CHF) ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. október 2013 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

                                                            Halldór Halldórsson