• Lykilorð:
  • Skaðabótamál

 

    

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Föstudaginn 28. desember 2018

 

Mál nr.            E-991/2012:

Stefnandi:       LBI ehf.

                        (Kristinn Bjarnason lögmaður

                        Þórir Júlíusson lögmaður

                        Pétur Örn Sverrisson lögmaður)

 

Stefndu:          Sigurjón Þorvaldur Árnason

                        (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

                        Halldór Jón Kristjánsson

                        (Gunnar Viðar lögmaður)

                        Jón Þorsteinn Oddleifsson

                        (Einar Þór Sverrisson lögmaður)

                        QBE International Insurance Ltd. og

                        QBE Corporate Ltd.

                        (Viðar Lúðvíksson lögmaður

                        Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður)

 

Dómarar:         Skúli Magnússon héraðsdómari, Arnaldur Hjartarson héraðsdómari og         Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 3. desember sl. Stefnandi er LBI ehf., áður Landsbanki Íslands hf., Sóltúni 26, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór Jón Kristjánsson, með óþekkt lögheimili í Kanada, Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., bæði með lögheimili að Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, Bretlandi.

            Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndu Sigurjón og Halldór verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 9.782.821.834 krónur og 10.840.714 evrur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að stefndi Jón Þorsteinn greiði stefnanda sameiginlega með stefndu Sigurjóni og Halldóri 6.812.736.587 krónur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum. Stefnandi krefst þess að stefndi QBE International Insurance Ltd. verði dæmdur til að greiða sameiginlega með stefndu Sigurjóni, Halldóri og Jóni Þorsteini 20.454.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og áður greinir. Þá krefst stefnandi þess að stefndi QBE Corporate Ltd., vegna QBE Syndicate 1886, verði dæmdur til að greiða sameiginlega með sömu stefndu 5.644.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og áður greinir. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

            Stefndi Halldór krefst sýknu af kröfum stefnanda. Aðrir stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara lækkunar. Stefndi Halldór krefst einungis sýknu af kröfum stefnanda. Stefndu krefjast einnig málskostnaðar, en stefndi Jón Þorsteinn krefst auk þess álags á málskostnað með vísan til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Stefndu hafa við aðalmeðferð málsins vakið athygli á ýmsum annmörkum á málatilbúnaði stefnanda sem þeir telja, gegn mótmælum stefnanda, að eigi að leiða til sjálfkrafa frávísunar málsins.

 

Yfirlit yfir meðferð málsins

            Mál þetta höfðaði stefnandi, áður Landsbanki Íslands hf., upphaflega gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og Jóni Þorsteini, auk fjögurra nafngreindra manna sem allir sátu í bankaráði bankans á árinu 2008, til greiðslu skaðabóta vegna nánar tiltekinna fjárgreiðslna 6. október 2008. Þá var einnig stefnt 24 vátryggjendum, þ.á m. stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., sem selt höfðu stefnanda ábyrgðartryggingu vegna krafna sem stofnast kynnu vegna bótaskyldrar háttsemi stjórnenda og starfsmanna bankans í janúar 2008. Svo sem nánar er gerð grein fyrir síðar hefur stefnandi fallið frá kröfum gegn þeim mönnum sem sátu í bankaráði Landsbanka Íslands hf. svo og 22 af 24 af téðum vátryggjendum.

Mál þetta hefur, eftir meðferð á reglulegu dómþingi, að mestu verið rekið samhliða tveimur öðrum málum, þingfestum 29. september 2011, sem stefnandi hefur höfðað til greiðslu skaðabóta og vátryggingabóta vegna ráðstafana á vegum Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008. Var annað málið, þ.e. mál nr. E-3826/2011 í málaskrá héraðsdóms, höfðað gegn stefndu Sigurjóni og Halldóri auk þeirra vátryggjenda sem stefnt var til varnar í þessu máli. Hitt málið, þ.e. mál nr. E-3827/2011, var höfðað gegn sömu aðilum auk eins annars nafngreinds fyrrverandi starfsmanns stefnanda. Skýrslutökur við aðalmeðferð fóru fram í einu lagi í þágu málanna þriggja samkvæmt samkomulagi aðila.

            Með úrskurði héraðsdóms 27. júní 2013 var máli þessu vísað frá dómi að kröfu þriggja stefndu, einkum með vísan til þess að tjón stefnanda væri vanreifað og grundvöllur fjárhæðar kröfugerðar hans í reynd getgátur. Meðal gagna málsins þá var stefna í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP sem stefndu QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd. og aðrir vátryggjendur höfðu lagt fram í þinghaldi 22. janúar 2013. Ber stefnan með sér að hafa verið þingfest 21. júní 2012 eða röskum fimm mánuðum eftir að stefnandi höfðaði mál þetta. Með dómi Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 491/2013 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Var í forsendum Hæstaréttar meðal annars vísað til þess að ekki væri unnt að gera þá kröfu til stefnanda að hann hefði þegar í stefnu brugðist við hugsanlegum vörnum af hálfu varnaraðila, enda væri ekkert því til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að hann gerði það með öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins. Eftir að málið var tekið til efnismeðferðar í héraði hafa verið kveðnir upp ýmsir úrskurðir um gagnaöflun sem að nokkru hafa komið til kasta Hæstaréttar, svo sem nánar er lýst í dómi réttarins 17. október 2017 í máli nr. 625/2017.

            Í þinghaldi 27. júní 2017 lýstu allir aðilar, aðrir en stefndu QBE International Insurance Ltd. og aðrir vátryggjendur, gagnaöflun lokið með fyrirvara um að frekari gögn yrðu ekki lögð fram. Með úrskurði héraðsdóms 11. desember 2017, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 16. janúar sl., var synjað beiðni stefndu QBE International Insurance Ltd. og annarra vátryggjenda um yfirmat eða frekari gagnaöflun. Í sama þinghaldi var fært til bókar að við næstu fyrirtöku málsins væri gert ráð fyrir því að gagnaöflun yrði lýst lokið og aðalmeðferð málsins ákveðin. Í þinghaldi 27. febrúar sl. lýsti dómari gagnaöflun lokið. Í þinghaldi 2. maí sl. var tilhögun aðalmeðferðar rædd og ákveðinn dagur fyrir upphaf aðalmeðferðar. Hófst hún með skýrslutökum fyrir dómi 29. október sl. sem fóru einnig fram í þágu tveggja annarra mála, líkt og áður greinir.

            Við fyrirtöku málsins eftir upphaf aðalmeðferðar 12. nóvember sl. féll stefnandi frá öllum kröfum gegn fjórum fyrrum bankaráðsmönnum Landsbanka Íslands hf. og 22 af hinum stefndu vátryggjendum með samþykki hlutaðeigandi stefndu. Jafnframt lagði stefnandi fram bókun um lækkun dómkrafna gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og Jóni Þorsteini um 4.174.618.524 krónur en kröfur gegn þeim stefndu vátryggjendum sem eftir stóðu, QBE International Insurance Ltd. og og QBE Corporate Insurance Ltd., voru óbreyttar. Í þinghaldi degi síðar lögðu stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd. fram bókun þar sem fullyrt var að niðurfelling og lækkun krafna stefnanda gagnvart öðrum vátryggjendum hefði byggst á samkomulagi, sem ekki hefði verið lagt fram, og væri ekkert vitað um efni þess. Voru meðal annars færð að því rök að af þessum sökum væri málatilbúnaður stefnanda svo óskýr og vanreifaður að vísa bæri málinu frá án kröfu með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennra reglna réttarfars. Aðrir stefndu skoruðu á stefnanda að leggja fram umrætt samkomulag og áskildu sér rétt til að halda fram nýjum og breyttum málsástæðum í ljósi breyttrar stöðu málsins.

            Í þinghaldi 16. nóvember sl. gaf skýrslu fyrir dómi sem vitni Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarmaður í Pricewaterhouse Coopers ehf. Undir skýrslutökunni var Vignir meðal annars spurður um lyktir málshöfðunar stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækinu og hvort því máli hefði lokið með sátt utan réttar þar sem mælt hefði verið fyrir um bótagreiðslur til stefnanda. Er vikið nánar að skýrslu Vignis, svo og aðilaskýrslu Ársæls Hafsteinssonar framkvæmdastjóra stefnanda í forsendum úrskurðarins. Í þinghaldi 21. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun um niðurfellingu þeirrar málsástæðu að Landsbanki Íslands hf. hefði ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um eiginfjárhlutfall og ýmsum málsástæðum því tengdu. Í sama þinghaldi lögðu stefndu, aðrir en vátryggjendur, fram bókun þar sem tekið var undir fyrri bókun vátryggjenda um að vísa bæri málinu frá kröfu vegna þess óskýrleika sem upp væri kominn í framhaldi af samkomulagi stefnanda og 22 vátryggjenda um niðurfellingu krafna gegn þeim síðastnefndu. Í þinghaldinu vakti dómsformaður athygli lögmanna á því að þeim gæfist kostur á að reifa sjónarmið sín um sjálfkrafa frávísun málsins við munnlegan flutning þess.

            Við upphaf munnlegs flutnings málsins 3. desember sl. lagði stefnandi fram bókun um endanlegar dómkröfur sínar. Var þar tekið tillit til þeirrar lækkunar sem færð hafði verið til bókar 12. nóvember sl. auk greiðslu að fjárhæð 158.995.015 króna sem nánar var gerð grein fyrir í bókuninni. Jafnframt var fallið frá kröfu gegn stefndu Sigurjóni og Halldóri vegna kaupa stefnanda á eigin bréfum í Landsvaka hf. 6. október 2008 og ætlaðs tjóns stefnanda að fjárhæð 10.546.970 bandaríkjadala. Við munnlegan flutning málsins spurði dómsformaður lögmenn stefnanda að því hvernig lyktir í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP horfðu við málatilbúnaði stefnanda. Af því tilefni var því lýst yfir af hálfu stefnanda að lyktir í því máli hefðu ekki haft nein áhrif á sakarefni málsins. Af hálfu allra stefndu var yfirlýsingu stefnanda mótmælt og vakin athygli á því að samkomulag stefnanda við endurskoðunarfyrirtækin tvö hefði ekki verið lagt fram í málinu. Lægi því ekkert fyrir um hvaða greiðslur stefnandi hefði þegar þegið vegna þess tjóns sem hann teldi sig hafa orðið fyrir vegna ætlaðrar saknæmnrar háttsemi stefndu Sigurjóns, Halldórs og Jóns Þorsteins.

            Í munnlegum málflutningi lögmanns stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd. var vísað til þess að í öðru þeirra mála, sem rekið hefur verið samhliða máli þessu, hefði stefnandi lækkað kröfur sínar um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulags síns við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Hefði stefnandi þannig í reynd viðurkennt að hafa þegið greiðslur vegna sama tjóns og um ræði í máli þessu án þess þó að fram hefði komið hvaða greiðslur stefnandi hafi þegið í reynd. Væri því uppi sú staða í málinu að alls óljóst væri um endanlegt tjón stefnanda. Af hálfu stefnanda var lögð á það áhersla að jafnvel þótt litið yrði svo á að greiðslur vegna lykta umrædds máls hans gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefðu þýðingu fyrir sakarefni málsins hefði stefnandi lækkað kröfur sínar í þeim mæli að slíkar greiðslur hefðu enga þýðingu. Þá var vísað til þess að ekki hefði verið skorað á stefnanda að leggja umrædda sátt fram.

 

Yfirlit yfir efnishlið málsins

            Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 26. september 2013 og úrskurði héraðsdóms 27. júní 2013 er gerð grein fyrir atvikum málsins og helstu ágreiningsefnum um efni þess. Líkt og þar kemur nánar fram byggjast kröfur stefnanda gegn stefndu Sigurjóni, og Halldóri á því að þeir beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna þriggja ráðstafana sem gerðar voru á vegum stefnanda, þá Landsbanka Íslands hf., 6. október 2008 eða daginn áður en Fjármálaeftirlitið ákvað að taka yfir vald hluthafafundar stefnanda og skipa honum skilanefnd með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Þá er stefndi Jón Þorsteinn talinn bera skaðabótaábyrgð á síðari tveimur ráðstöfunum af þeim þremur sem gerðar voru á vegum stefnanda og síðar greinir. Kröfur stefnanda gegn hinum stefndu vátryggjendum byggjast á ábyrgðartryggingu vegna stjórnenda og starfsmanna Landsbanka Íslands hf. sem þeir seldu stefnanda í lok janúar 2008.

            Í fyrsta lagi er hér um að ræða kaup á skuldabréfum af verðbréfasjóðum Landsvaka hf., þá dótturfélagi stefnanda, fyrir samtals 19.980.925.818 krónur, þó þannig að í endanlegri kröfugerð sinni hefur stefnandi fallið frá kröfum vegna kaupa á eigin skuldabréfum að fjárhæð 11.718.856 bandaríkjadala. Er um þessa breytingu á kröfugerð stefnanda vísað til samkomulags sem gert var við Landsvaka hf. 25. október 2008. Stefnandi hefur einkum vísað til þess að þessi viðskipti hafi farið fram eftir að lokað hafði verið fyrir viðskipti í sjóðum Landsvaka hf. og kröfurnar hafi verið keyptar á yfirverði. Stefndu Sigurjón og Halldór hafi verið upplýstir um stöðu sjóða Landsvaka hf. sem stjórnarmenn í félaginu og því mátt vera ljóst að virði skuldabréfakrafna sem keyptar voru hafi verið mun minna virði en kaupverðið.

            Í annan stað er um að ræða greiðslu láns til 6. nóvember 2008 samkvæmt „viðskiptasamningi um reikningslánalínu“ dagsettum 30. janúar 2007 til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 7.200.000.000 króna. Stefnandi hefur lagt áherslu á að lánið hafi verið veitt í andstöðu við ákvæði lánssamningsins sem gerði ráð fyrir því að svonefnd ádráttarbeiðni þyrfti að berast fyrir kl. 13:30 til þess að útgreiðsla gæti átt sér stað sama dag, en ekki hafi verið óskað eftir láninu fyrr en með tölvupósti kl. 15:57. Einnig hafi lánið verið greitt út eftir lokun greiðslukerfis fyrir stórar greiðslur eða kl. 18:38 samkvæmt fyrirmælum stefnda Jóns Þorsteins. Þá hafi lánið verið greitt eftir að ljóst var að bankinn var ófær um að standa við skuldbindingar sínar og í öllu falli við aðstæður þar sem afar brýnt var fyrir hagsmuni bankans að halda aftur af allri greiðslu lausafjár eins og kostur væri. Stefnandi vísar til þess að hann hafi síðar selt kröfu sína gegn Straumi og einungis fengið um 39,2% af fjárhæð kröfunnar greidd, en að öðru leyti er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir afmörkun á þessum þætti tjóns stefnanda. Stefnandi leggur áherslu á að greiðsluskylda hafi ekki hvílt á Landsbanka Íslands hf. að því varðar umrædda greiðslu. Hafi stefndu Sigurjón, Halldór og Jón Þorsteinn borið ábyrgð á greiðslunni, ýmist með beinum fyrirmælum eða með þegjandi samþykki.

            Í þriðja lagi vísar til stefnandi til uppgjörs á viðskiptum við MP banka hf. að fjárhæð 7.518.710.126 krónur, þar sem starfsmenn stefnanda hafi fallist á riftunaryfirlýsingu síðargreinda bankans á kaupum hans á skuldabréfum af stefnanda samkvæmt samningi 21. maí 2008. Með samningnum hafi MP banki hf. keypt skuldabréf af stefnanda að jafnvirði 10 milljarða króna til nota í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Umræddan dag, þ.e. 6. október 2008, hafi MP banki hf. lýst yfir riftun viðskiptanna með vísan til breytinga á reglum Seðlabankans um endurhverf viðskipti sem hefðu haft það í för með sér að gildi bréfanna í endurhverfum viðskiptum hefði orðið mun minna en lagt hafði verið til til grundvallar í samningi aðila. Afstöðu MP banka hf. hafi upphaflega verið hafnað af starfsmönnum stefnanda en hún að lokum samþykkt með tölvubréfi deildarstjóra á lögfræðisviði stefnanda kl. 16:33. Greiðslan hafi verið afgreidd samkvæmt sérstakri beiðni starfsmanns í fjárstýringu stefnanda, sem stefndi Jón Þorsteinn veitti forstöðu, kl. 18:38. Þá hafi verið búið var að loka svonefndu stórgreiðslukerfi og skuldabréfin enn í vörslum Seðlabanka Íslands. Hafi stefnandi ekki fengið bréfin afhent fyrr en tveimur dögum síðar. Einnig vísar stefnandi til þess að á þessum tíma hafi öllum hlutaðeigandi verið ljóst að Landsbanki Íslands hf. væri fyrirsjáanlega ógreiðslufær og því afar brýnt að greiða ekki út lausafé úr bankanum nema greiðsluskylda væri hafin yfir allan vafa. Hafi stefndu Sigurjón, Halldór og Jón Þorsteinn borið ábyrgð á greiðslunni, ýmist með beinum fyrirmælum eða með þegjandi samþykki.

            Stefnandi beinir kröfum sínum vegna allra þriggja framangreindra ráðstafana sameiginlega að stefndu Sigurjóni og Halldóri, en svo sem áður greinir hefur stefnandi fallið frá öllum kröfum gegn fjórum fyrrum bankaráðsmönnum og málsástæðum tengdum þeim. Stefnandi byggir á því að eigi síðar en 29. september 2008 hafi stefndu vitað eða mátt vita að stefnandi væri í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og frá 3. október þess árs hafi þeim verið ljóst að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, einkum vegna krafna breska fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Evrópu. Hafi stefndu Sigurjóni og Halldóri, sem bankastjórum, borið skylda til að gefa fyrirmæli um að engar greiðslur skyldu inntar af hendi af hálfu bankans nema skuldbindingar væru lögmætar og sannanlega fyrir hendi og tryggt væri að öllum formskilyrðum væri fullnægt fyrir útgreiðslu fjármuna. Þá hafi stefnda Jóni Þorsteini við þessar aðstæður, sem forstöðumanni fjárstýringar, borið að tryggja að engar greiðslur yrðu inntar af hendi nema vegna skuldbindinga sem ótvírætt hvíldu á bankanum og að uppfylltum öllum formskilyrðum. Stefnandi vísar einnig til þess að stefndu hafi borið að tryggja að eignir bankans yrðu til reiðu fyrir lánardrottna Landsbanka Íslands hf. við þær aðstæður sem komnar voru upp. Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefndu Sigurjóni og Halldóri á almennu sakarreglunni og 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda Jóni Þorsteini á almennu sakarreglunni.

            Áður hefur verið gerð grein fyrir málsástæðum stefndu um sjálfkrafa frávísun málsins sem fram komu við aðalmeðferð málsins og andmælum stefnanda við þeim. Verður vikið nánar að sjónarmiðum aðila um þessi atriði í niðurstöðum dómsins eftir því sem tilefni er til. Með hliðsjón af úrlausn málsins og með vísan til 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. grunnök e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, eins og töluliðnum var breytt með 10. gr. laga nr. 78/2015, er ekki ástæða til þess að reifa heildstætt málsástæður og lagarök aðila um efnishlið málsins eða skýrslutökur við aðalmeðferð málsins.

           

Niðurstaða

            Svo sem áður greinir er mál þetta höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Var málinu vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 27. júní 2013 sem taldi að mjög skorti á að stefnandi hefði gert reka að því að fá tjón sitt staðreynt með þeim úrræðum sem honum væru tæk að lögum, svo sem með öflun mats samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 meðferð einkamála. Væri tjón stefnanda því vanreifað og grundvöllur fjárhæðar kröfugerðar hans í reynd getgátur. Í forsendum fyrrgreinds dóms Hæstaréttar 26. september 2013, þar sem téður úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til efnismeðferðar, kemur meðal annars fram að því hafi verið haldið fram fyrir Hæstarétti að ætlað fjárhagslegt tjón stefnanda væri vanreifað þar sem ekki hefði verið tekið tillit til ýmissa þátta sem áhrif hefðu á tjón hans. Var þar meðal annars vísað til máls sem stefnandi hefði höfðað á hendur endurskoðendum sínum til heimtu skaðabóta vegna sömu atvika og um ræddi í því máli sem hér er til úrlausnar.

            Í forsendum dóms Hæstaréttar var vísað til þess að ekki væri unnt að gera þá kröfu til stefnanda að hann hefði þegar í stefnu brugðist við hugsanlegum vörnum af hálfu varnaraðila, enda væri ekkert því til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að hann gerði það með öflun frekari sönnunargagna undir rekstri málsins. Þá tók Hæstiréttur fram að þótt fram kæmi í kæru stefnanda til réttarins að enn væri ekki að fullu ljóst um umfang tjóns hans, væru ekki efni til þess að vísa málinu frá á þeirri forsendu að ætluð bótaskylda stefndu væri enn ekki orðin til, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Að lokum var því slegið föstu að ákvæði 4. mgr. 94. gr. þeirra laga stæðu ekki í vegi fyrir málshöfðun stefnanda þótt hann hefði áður höfðað dómsmál gegn öðrum aðilum og haft þar uppi aðrar kröfur en gerðar væru í málinu.

            Í samræmi við framangreindar forsendur Hæstaréttar verður að leggja til grundvallar að við höfðun máls þessa hafi umfang ætlaðs tjóns stefnanda enn ekki verið að fullu staðreynt, meðal annars vegna hugsanlegra bótagreiðslna frá öðrum aðilum en stefnt var til varnar í máli þessu. Hins vegar hafi stefnandi átt þess kost að afla frekari gagna undir rekstri málsins til ákvörðunar á tjóni sínu og framsetningar endanlegrar kröfugerðar á þeim grunni. Var því með dómi Hæstaréttar einungis tekin afstaða til þess hvort málatilbúnaður stefnanda væri þá í þeim búningi að málið væri tækt til efnismeðferðar. Sú ályktun verður einnig dregin af forsendum Hæstaréttar að stefnanda hafi þá verið verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að staðreyna tjón sitt að fullu og setja á þeim grundvelli fram endanlega kröfugerð gegn stefndu svo málið yrði dómtækt. Í samræmi við almennar reglur réttarfars verður sömuleiðis að leggja til grundvallar að stefnanda hafi borið að hefjast handa við slíkar aðgerðir svo fljótt sem kostur var þannig að stefndu gæfist nægilegt færi til að halda uppi vörnum.

A

Í þinghaldi 22. janúar 2013 lögðu hinir stefndu vátryggjendur fram stefnu í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Ber stefnan með sér að hafa verið þingfest 21. júní 2012 eða röskum fimm mánuðum eftir að stefnandi höfðaði mál þetta. Fer ekki á milli mála að tilvísun í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar til máls stefnanda „á hendur endurskoðendum sínum til heimtu skaðabóta“ vísar til umrædds máls.

            Í umræddu máli var PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP stefnt til greiðslu 83.170.680.018 króna auk 11.188.670 bandaríkjadala og 64.931.514 evra. Var á því byggt að félögin hefðu bakað stefnanda tjón með athöfnum og athafnaleysi við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum Landsbanka Íslands hf. svo og með ráðgjöf sem þau veittu bankanum varðandi tiltekna þætti í reikningsskilum. Í stefnu málsins var vísað til þess að saknæm og ólögmæt háttsemi endurskoðendanna allt frá árinu 2005 og fram að áritun um könnun á árshlutareikningi bankans um mitt ár 2008 hefði, með samverkandi hætti, leitt til tjóns fyrir stefnanda. Tjónið, sem stefnandi krafðist bóta fyrir í málinu, taldi hann hins vegar einkum mega rekja til tiltekinna ráðstafana sem bankinn greip til eftir að hálfsársuppgjör bankans var áritað af endurskoðendum 28. júlí 2008, en þær hefðu leitt til þess að verulegir fjármunur runnu út úr bankanum. Hafi því orðið mun minna af eignum í búinu til ráðstöfunar til kröfuhafa en ella hefði orðið. Einkum byggði stefnandi á því, varðandi ætlað tjón sitt, að allir fjármunir sem greiddir voru út úr bankanum eftir áritun endurskoðenda 28. júlí 2008 fram til 7. október þess árs, og ekki hefði reynst unnt að endurheimta, teldust til tjóns stefnanda.

            Í umræddri stefnu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur er nánari grein gerð fyrir þeim einstöku ráðstöfunum sem stefnandi taldi hafa valdið sér tjóni. Meðal þessara ráðstafana er greiðsla til Straums-Burðarás fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 7.200.000.000 króna sem fram fór 6. október 2008, kaup á skuldabréfum af sjóðum Landsvaka hf. sama dag og greiðsla til MP banka hf. að fjárhæð 7.518.710.126 krónur 6. og 7. október 2008. Er því hér um að ræða sömu ráðstafanir og stefnandi telur hafa valdið sér tjóni í máli þessu. Í stefnu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum er raunar tekið fram að stefnandi hafi höfðað sérstakt mál, meðal annars gegn þeim sem sátu í bankaráði Landsbanka Íslands hf., vegna allra framangreindra ráðstafana. Segir enn fremur að niðurstaða í því máli liggi ekki fyrir og því sé alls óvíst hvort nokkuð muni greiðast upp í kröfuna. Liggur þannig einnig fyrir að stefnandi hefur sjálfur vísað til þess máls sem hér er til meðferðar í málatilbúnaði sínum gegn umræddum endurskoðunarfyrirtækjum.


 

B

Svo sem áður greinir gáfu meðal annars skýrslu við aðalmeðferð málsins Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarmaður í PricewaterhouseCoopers ehf. Í aðilaskýrslu Ársæls kom fram að máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefði lokið með samkomulagi um niðurfellingu þess. Spurður um hvort stefnandi hefði þegið bætur frá endurskoðunarfyrirtækjunum á grundvelli samkomulagsins kvað Ársæll sér óheimilt að upplýsa um efni þess sem bundið væri trúnaði. Við skýrslutöku af Vigni Rafni Gíslasyni var hann spurður um lyktir máls stefnanda gegn fyrrgreindum félögum og þá sérstaklega hvort stefnandi hefði fengið greiddar bætur á grundvelli samkomulags um niðurfellingu málsins. Vignir Rafn vísaði til þess að hér væri um að ræða trúnaðarmál milli einkaaðila. Um hafi verið að ræða „hagsmunamat“ og málið hafi því verið fellt niður.

            Svo sem áður greinir spurði dómsformaður lögmenn stefnanda, við munnlegan flutning málsins, að því hvort og þá hvernig lyktir í umræddu máli stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur horfðu við sakarefni málsins. Af þessu tilefni var því lýst yfir af hálfu stefnanda að lyktir í því máli hefðu ekki haft nein áhrif á sakarefni þessa máls. Af hálfu annarra aðila var þessari yfirlýsingu stefnanda hins vegar mótmælt. Var í því sambandi vísað til þess að í öðru þeirra mála sem rekið hefur verið samhliða máli þessu, þ.e. í máli nr. E-3827/2011, hefði stefnandi nokkrum dögum áður lækkað kröfur sínar um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulags síns við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Hafi stefnandi þannig í reynd viðurkennt að hafa þegið greiðslur vegna sama tjóns og um ræði í málinu.

C

Umrætt mál stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP var að meginstefnu höfðað á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og fór því um afmörkun tjóns samkvæmt þeim reglum. Hið sama á við um það mál sem hér er til úrlausnar og gildir þá einu þótt skaðabótaábyrgð stefndu Sigurjóns og Halldórs í málinu sé einnig reist á 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt þessu á hér við sú grunnregla skaðabótaréttar að stefnandi eigi rétt á því að fá tjón sitt að fullu bætt að fullnægðum skilyrðum skaðabótaábyrgðar, en bresti hins vegar heimild til þess að afla sér ávinnings umfram það úr hendi stefndu. Leiðir af þessu að bætur fyrir tjónið, sem stefnandi kann að hafa þegið frá þriðja aðila, eiga að leiða til lækkunar hugsanlegra skaðabóta til hans í máli þessu. Af almennum reglum réttarfars leiðir einnig að stefnanda sem tjónþola ber að gera viðhlítandi grein fyrir tjóni sínu, þ.á m. með tilliti til greiðslna sem hann hefur hlotið frá þriðja manni og koma eiga til lækkunar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. ágúst 2006 í máli nr. 403/2006 og dóm Hæstaréttar 30. ágúst 2005 í máli nr. 312/2005.

            Svo sem áður greinir leitaðist stefnandi, með fyrrgreindri málshöfðun sinni gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur, við að fá meðal annars sama tjón bætt og er til úrlausnar í þessu máli. Fyrir liggur að umrætt mál var fellt niður í kjölfar samkomulags sem mun hafa verið gert í febrúar 2017. Við munnlegan flutning málsins hefur verið vísað til þess að í áðurnefndu máli nr. E-3827/2011, sem rekið hefur verið samhliða þessu máli, hafi stefnandi lækkað kröfu sína um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulagsins og þar með viðurkennt að hafa hlotnast hagsmunir á þeim grunni.

            Stefnandi hefur engin rök fært fram fyrir því að bætur sem hann kann að hafa þegið á grundvelli umræddrar málshöfðunar gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP séu af einhverjum ástæðum þess eðlis að þær eigi ekki að leiða til lækkunar skaðabótakröfu hans í máli þessu. Er því ekki fallist á þá fullyrðingu stefnanda að sakarefni málsins hafi verið þess eðlis að lyktir í því hafi ekki getað haft þýðingu fyrir mat á endanlegu tjóni stefnanda í því máli sem hér er til úrlausnar. Dómurinn telur þar af leiðandi að sú skylda hafi hvílt á stefnanda að gera grein fyrir, svo fljótt sem kostur var, hvers kyns bótum sem hann þáði vegna þess tjóns sem málarekstur hans gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur byggðist á, enda gat stefnandi eðli málsins samkvæmt ekki gengið út frá því að stefndu væri kunnugt um fyrrgreint samkomulag og þýðingu þess. Átti þetta enn frekar við með því að í greinargerð stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., sem lögð var fram 22. janúar 2013, var sérstaklega vakin athygli á því að hugsanlegar greiðslur í máli stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur ættu að koma til frádráttar kröfum stefnanda í málinu. Svo sem áður greinir lauk stefnandi hins vegar gagnaöflun sinni 27. júní 2017 án þess að láta þess að nokkru getið fyrir dóminum að hann hefði í febrúar þess árs lokið máli sínu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur, vegna meðal annars sama tjóns og deilt er um í fyrirliggjandi máli, og hlotið greiðslur frá þeim. Var sá háttur við rekstur málsins af hálfu stefnanda í andstöðu við grunnreglur íslensks réttarfars.

D

Samkvæmt framangreindu getur dómurinn ekki, gegn mótmælum stefndu, fallist á það með stefnanda að stefndu verði að una við einhliða yfirlýsingu hans, sem fyrst kom fram við munnlegan flutning málsins, um að hann hafi tekið fullt tillit til hvers kyns greiðslna sem hann hafi hlotið frá þriðja manni vegna þess tjóns sem hann krefst bóta fyrir í máli þessu. Við þær aðstæður sem uppi eru í málinu verða stefndu heldur ekki látnir bera hallann af því að hafa ekki skorað á stefnanda, samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, að upplýsa um greiðslur á grundvelli umrædds samkomulags við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP.

            Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að verulega skorti á að stefnandi hafi nú, að lokinni aðalmeðferð málsins, gert fullnægjandi grein fyrir endanlegu tjóni sínu vegna þeirra ráðstafana sem hann telur stefndu Sigurjóni, Halldóri og Jóni Þorsteini til sakar í máli þessu. Við þær aðstæður að efnisdómur yrði lagður á málið væri þannig alls óvíst hvort og að hvaða leyti stefnandi fengi tjón sitt ofbætt og hagnaðist þannig á vanreifun málsins, sbr. til hliðsjónar fyrrgreinda dóma Hæstaréttar 17. ágúst 2006 og 30. ágúst 2005. Með hliðsjón af grunnrökum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennum reglum réttarfars eru þessir annmarkar enn fremur svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa málinu í heild sinni sjálfkrafa frá dómi.

             Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu hverjum um sig málskostnað, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til álags á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laganna að kröfu stefnda Jóns Þorsteins. Hefur við ákvörðun málskostnaðar verið tekið tillit til virðisaukaskatts, svo og þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö fyrrgreind mál, sem að nokkru lúta að sambærilegum ágreiningsefnum.

            Af hálfu stefnanda fluttu málið lögmennirnir Kristinn Bjarnason, Þórir Júlíusson og Pétur Örn Sverrisson.

            Af hálfu stefnda Sigurjóns flutti málið Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda Halldórs flutti málið Gunnar Viðar lögmaður.

            Af hálfu stefnda Jóns Þorsteins flutti málið Einar Þór Sverrisson lögmaður.

            Af hálfu stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., fluttu málið lögmennirnir Viðar Lúðvíksson og Hildur Ýr Viðarsdóttir.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt Arnaldi Hjartarsyni héraðsdómara og Hrefnu Sigríði Briem viðskiptafræðingi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

            Stefnandi, LBI ehf., greiði stefndu, Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Halldóri Jóni Kristjánssyni, hvorum um sig 9.000.000 krónur í málskostnað, stefnda Jóni Þorsteini Oddleifssyni 21.000.000 krónur í málskostnað, en stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., hvorum um sig 4.500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Skúli Magnússon

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson

 

                                                                        Hrefna Sigríður Briem