• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Vátrygging
  • Viðurkenningardómur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2019 í máli nr. E-1523/2017:

A

(Haukur Örn Birgisson lögmaður)

gegn

Verði tryggingum hf.

(Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar 2019, var höfðað 9. maí 2017 af A, [..., ...] á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík, til viðurkenningar á bótaskyldu.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu B æðaskurðlæknis hjá stefnda samkvæmt lögum nr. 111/2000, vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þann 30. júní 2014 í meðferð hjá B. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu með hliðsjón af tímaskýrslu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu, úr tryggingu sem B skurðlæknir hefur hjá stefnda, vegna afleiðinga inntöku lyfs sem læknirinn ávísaði henni 30. júní 2014. Í lyfinu er efnið kínín, sem stefnandi hefur ofnæmi fyrir og fékk hún sterk ofnæmisviðbrögð af töku lyfsins sama kvöld og varð fárveik.

Stefnandi lýsir atvikum svo að hún hafi leitað til læknisins m.a. vegna fótaóeirðar og hafi hann þá ráðlagt henni að taka lyfið Quinine Sulphate. Stefnandi kveðst þá hafa nefnt við lækninn að hún hefði fyrir um 20 árum fengið sterk ofnæmisviðbrögð við kíníni (kínínsúlfati) en læknirinn hafi talið að í ljósi þess hversu langt var liðið frá því atviki þá ætti það að vera stefnanda að meinalausu að taka lyfið. Stefnandi hafi því farið eftir ráðleggingum læknisins og hafi tekið inn lyfið að kvöldi sama dags.

Stefndi kveður lækninn hafa tekið stefnanda til rannsóknar og skoðunar á móttöku sinni í [...] í tilefni af miklum óþægindum vegna æðahnúta í fótum. Hann hafi greint mein hennar við ómskoðun og talið að unnt yrði að framkvæma aðgerð til að bæta úr einkennum og óþægindum af þeim og afráðið hafi verið að stefnandi myndi undirgangast aðgerð í október 2014. Stefndi kveður stefnanda í lok viðtalsins hafa fært í tal við lækninn að hún fengi slæm sinadráttarköst í fótleggina og af því tilefni hafi hann upplýst að einungis eitt lyf dygði til þess að vinna gegn sinadráttarköstum, það væri kínín (Quinine Sulphate). Læknirinn hafi því látið stefnanda í té lyfseðil þar sem lyfinu var ávísað í 200 mg töflum með fyrirmælum um að taka skyldi eina í samræmi við umtal. Það umtal hafi verið að taka skyldi eina töflu við sinadráttarkasti. Ein slík tafla dygði oft til að lina kastið og hefði oft fyrirbyggjandi áhrif líka og drægi úr tíðni kasta lengi vel á eftir. Ekki þyrfti af þeim sökum að taka lyfið að staðaldri, með slíku mælti hann ekki. Stefndi kveður lækninn ekki reka minni til þess að stefnandi hafi greint honum frá því að hafa áður fengið ofnæmisviðbrögð við lyfinu og staðhæfi hann jafnframt að hann hafi aldrei í sínu starfi mælt með því að sjúklingur tæki lyf sem hann hefði ofnæmi fyrir né myndi hann mæla með slíku.

Stefnandi kveður afleiðingar af inntöku lyfsins hafa verið heiftarlegar. Fljótlega eftir inntöku hafi hún fundið fyrir mikilli vanlíðan og skjálfta auk verkja í baki og ógleði. Hún hafi leitað á bráðamóttöku Landspítalans um nóttina þar sem hún hafi í framhaldinu verið lögð inn á gjörgæslu vegna ofnæmislosts og bráðrar nýrnabilunar. Vegna nýrnaskaðans hafi hún í kjölfarið þurft að fara margsinnis í nýrnavél og blóðskilvindu í 5–8 klst. í senn og settir hafi verið upp leggir í háls og nára auk þvagleggs. Í framhaldinu hafi verið haldinn fundur með lækni á deildinni þar sem staðfest hafi verið að um ofnæmisviðbrögð væri að ræða vegna lyfsins Quinine Sulphate. Stefnandi hafi verið færð yfir á nýrnadeild spítalans 6. júlí 2014 og hafi haldið áfram að fara í nýrnavél og blóðskilvindu. Hún hafi jafnframt verið komin með hækkuð hjartaensím og fengið væga hjartabilun í legunni. Henni hafi lengi verið óglatt, stöðugt verið að kúgast og hafi átt í erfiðleikum með öndun. Í legunni hafi hún fengið mikla máttminnkun og taugaverki niður hægri fót og hafi síðan þurft að liggja inni á meltingardeild Landspítalans í tæpan mánuð.

Af hálfu stefnanda var lækninum sent bréf 19. janúar 2015 þar sem óskað var upplýsinga um tryggingafélag hans vegna afleiðinga þess atviks sem hér um ræðir. Þá óskaði lögmaður stefnanda með bréfi 22. janúar 2015 eftir rannsókn embættis landlæknis á því hvort tilhlýðilega hefði verið staðið að veitingu heilbrigðisþjónustu í umræddu tilviki. Í greinargerð læknisins til embættisins, dags. 20. október 2015, kom fram að hann minntist þess ekki að það hefði komið fram hjá stefnanda að hún væri með ofnæmi fyrir umræddu lyfi. Auk þess tók hann fram að það kæmi skýrt fram á fylgiseðli sem notendur lyfsins fengju afhentan samhliða lyfinu sjálfu að ekki megi taka lyfið ef sjúklingur er með undirliggjandi ofnæmi fyrir því. Í bréfi lögmanns stefnanda til embættis landlæknis 24. nóvember 2015 kom fram að stefnandi hefði greint dóttur sinni frá samtali sínu við lækninn sama dag og hefði dóttir hennar verið undrandi á því að læknirinn hefði ávísað henni lyfinu þrátt fyrir að stefnandi hefði látið hann vita af ofnæminu. Stefnandi hefði hins vegar treyst sérfræðikunnáttu læknisins, hann hefði ávísað henni lyfinu og hún fylgt læknisráðum hans. Stefnandi ætli lækninum það ekki að hafa ávísað röngu lyfi af ásetningi og hljóti því að hafa verið um yfirsjón af hans hálfu að ræða við ávísun lyfsins.

Í áliti landlæknis 8. janúar 2016 var niðurstaðan á þá leið að ekki hefði verið sýnt fram á mistök eða vanrækslu læknisins. Að mati embættisins væri ljóst að í umræddu tilviki stæði orð gegn orði og embættið hefði ekki tök á að úrskurða hvor væri réttari; framburður stefnanda eða framburður læknisins. Auk þess var þar tekið fram að embættið teldi að nokkur ábyrgð hvíldi á notendum heilbrigðisþjónustu, að þeir kynntu sér þau lyf sem ávísað væri, m.a. með lestri fylgiseðla, og forðuðust þannig inntöku lyfja sem þeim kynni að verða ávísað vegna yfirsjónar læknis.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2016, hafnaði stefndi bótaskyldu úr sjúklingatryggingu læknisins með vísan til álits landlæknis og jafnframt vegna þess að stefndi teldi málsatvik ekki falla að hugtaksskilyrðum laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Enn fremur var vísað til 3. mgr. 3. gr. laganna, en þar kemur fram að bætur samkvæmt lögunum greiðist ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu og dóttir hennar bar vitni. Þá kom B læknir fyrir dóminn og gaf vitnaskýrslu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu B læknis hjá stefnda, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, vegna líkamstjóns síns í júní 2014 í meðferð hjá lækninum. Rétt til bóta samkvæmt lögunum eigi þeir sem verði fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi, m.a. hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfi sjálfstætt. Tjón sem verði vegna eiginleika lyfs sé undanskilið gildissviði laganna í 3. mgr. 3. gr. þeirra, en sú undantekning eigi ekki við um tilvik stefnanda. Í sérstökum athugasemdum með umræddri grein í frumvarpi til laganna komi skýrt fram að undantekningin nái ekki til tjóns sem verði vegna þess að læknir gefi röng eða ófullnægjandi fyrirmæli um töku lyfja eða starfsfólki verði á mistök við lyfjagjöf. Sjúklingur eigi rétt á að fá bætur fyrir tjón af þessum orsökum samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laganna. Bótaréttur sé einnig fyrir hendi hljótist heilsutjón af lyfi og því hefði mátt afstýra með annarri jafngildri meðferð, nema það hefði haft í för með sér sambærilega hættu á að sjúklingur hlyti tjón af lyfinu, sbr. 3. tölulið 2. gr. laganna. Hið síðastnefnda geti einkum átt við þegar lyf hafi hættuleg aukaáhrif þó að það sé notað á réttan hátt. Sú þrönga undanþága frá bótarétti sem 3. mgr. 3. gr. fjalli um varði tjón af völdum skaðlegra eiginleika lyfja sem bætt sé samkvæmt réttarreglum um skaðsemisábyrgð. Það eigi ekki við hér. 

Stefnandi eigi rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli 1. og 3. töluliðar 2. gr. laganna, enda hafi læknirinn sannanlega ávísað röngu lyfi, í ljósi upplýsinga sem honum hafi verið gefnar um ofnæmi stefnanda, sem hafi svo haft í för með sér umræddar afleiðingar. Um hlutlæga bótareglu sé að ræða þar sem ekki sé gerð krafa um sök. Í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu komi fram að lögunum sé ætlað að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann ætti samkvæmt almennum skaðabótareglum og gera honum auðveldara fyrir að ná rétti sínum. Rökin fyrir þessu úrræði hafi m.a. verið sönnunarvandkvæði sjúklinga, bæði vegna læknisfræðilegra álitamála og þess að oft séu ekki aðrir til frásagnar en þeir sem eigi hendur sínar að verja þegar tjónþoli haldi því fram að mistök hafi orðið. Í 2. gr. komi fram að greiða skuli bætur án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til eins af fjórum töluliðum ákvæðisins. Tjónið sé bótaskylt samkvæmt 1. og 3. tölulið 2. gr. laga nr. 111/2000. Samkvæmt 1. tölulið sé tjón bótaskylt ef ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Það sé einnig bótaskylt samkvæmt 3. tölulið, sem við á þegar mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

Læknirinn, sem sérfræðingur, hafi mátt vita að stefnandi myndi fá ofnæmisviðbrögð við lyfinu þar sem hún hefði orðið fyrir því áður. Hann hafi mátt vita að ekki væri óhætt að ávísa þessu tiltekna lyfi í ljósi sögu stefnanda. Að taka svo gífurlega mikla áhættu á kostnað heilsu stefnanda til að lækna fótaóeirð geti ekki talist vera meðferð sem grundvallist á fræðilegum niðurstöðum eða viðurkenndri reynslu, sbr. 6. gr. siðareglna lækna frá árinu 2005. Læknirinn hafi ávísað lyfinu til stefnanda gegn betri vitund. Tilraun hans til að varpa ábyrgðinni yfir á stefnanda með því að segja að hún hefði átt að lesa fylgiseðilinn með lyfinu og þar með að segja að hún hefði ekki átt að hlusta á læknisráð hans sé fráleit. Stefnandi hafi einfaldlega treyst ráðleggingum læknisins, enda sé hann sérfræðingur á sínu sviði.

Af gögnum málsins sjáist að stefnandi hafi við komu á Landspítalann greint frá því að hún hafi látið lækninn vita að hún hefði fengið ofnæmiskast af umræddu lyfi áður. Í sjúkraskrá stefnanda frá 5. júlí 2014 komi fram að ástæða komu á gjörgæsludeild sé: HUS (hemolytic uremic syndrome) v. ofnæmis. Þar segi að stefnandi hafi fengið kíníntöflu hjá lækni úti í bæ vegna fótaóeirðar. Hafi hún sagt lækninum að hún hefði einu sinni tekið kínín fyrir 20 árum og orðið mjög veik af því, en hann hafi skrifað upp á þetta samt sem áður og sagt henni að prófa. Í göngudeildarskrá ritaðri 5. september 2014 af meðferðarlækni stefnanda, C, yfirlækni nýrnalækninga hjá LSH og prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, segi m.a. að stefnanda hafi verið ráðlagt að taka kínín vegna fótaóeirðar en hún hafi reyndar haft sögu um ofnæmi fyrir lyfinu. Eftir að hafa tekið eina töflu hafi hún strax fundið fyrir mikilli vanlíðan og skjálfta. Hún hafi þegar í stað verið flutt á bráðamóttöku Landspítala þar sem grunur hafi verið um sýklasótt eða ofnæmislost og hafi hún svo verið flutt á gjörgæslu til frekari meðferðar. Staðfest hefði verið með rannsókn að kínín væri orsökin. Í skráningu læknisins sé nánar lýst alvarlegum veikindum stefnanda í kjölfar atviksins í fjögurra vikna sjúkrahúslegu og endurhæfingarmeðferð.

Verði ekki fallist á að tilvik stefnanda eigi undir 1. og/eða 3. tölulið 2. gr. laganna krefjist hún bóta á grundvelli 4. töluliðar sömu greinar, þ.e.a.s. að tjónið hafi hlotist af fylgikvilla sem sé meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í fræðigrein sem birtist í 10. tölublaði 88. árgangs Læknablaðsins árið 2002, Alvarlegar aukaverkanir kíníns: Sjö sjúkratilfelli, sé því lýst að kínín geti valdið aukaverkunum sem stafi af ofnæmisviðbrögðum gegn lyfinu og að ónæmisblóðflagnafæð (immune thrombocytopenia) sé þekktust þeirra. Á síðustu árum hafi verið lýst tilfellum af blóðkornafæð (pancytopenia), blóðstorkusótt (disseminated intravascular coagulation, DIC) og blóðlýsu- og nýrnabilunarheilkenni (hemolytic-uremic syndrome, HUS). Fundist hafi kínínháð mótefni gegn blóðflögum, kleyfkyrningum og rauðum blóðkornum í sermi slíkra sjúklinga.

Í athugasemdum með 4. tölulið 2. gr. í frumvarpi til laga nr. 111/2000 segi m.a. að þegar metið sé hvort fylgikvilli sé meiri en sanngjarnt sé að sjúklingur þoli bótalaust skuli m.a. líta til þess hversu algengur slíkur kvilli sé og hvort eða að hve miklu leyti gera megi ráð fyrir hættunni á fylgikvilla í sjúkdómstilfellinu sem um sé að ræða. Því meiri sem hættan sé á fylgikvilla eftir eðlilega meðferð þeim mun meira tjón verði sjúklingurinn að bera bótalaust. Í fyrrnefndri fræðigrein um alvarlegar aukaverkanir kíníns komi fram að efnið geti valdið aukaverkunum sem stafi af ofnæmisviðbrögðum gegn lyfinu. Tjón stefnanda hafi því hlotist af fylgikvilla/aukaverkunum vegna ofnæmisviðbragða hennar gegn lyfinu. Í ljósi þess hve gífurlegar afleiðingarnar hafi verið liggi fyrir að tjón stefnanda sé meira en svo að sanngjarnt sé að hún þurfi að þola það bótalaust.

Burtséð frá því hvort læknirinn telji sig hafa fengið upplýsingar frá stefnanda um ofnæmi hennar eða ekki, þá hafi honum engu að síður borið að fletta upp sjúkraskrá hennar og kanna hvort hún væri með ofnæmi fyrir þessu tiltekna lyfi áður en hann ávísaði því. Í 14. gr. fyrrgreindra siðareglna lækna segi að lækni beri að halda skrá með þeim gögnum sem skipt geti máli við sjúkdómsgreiningu og meðferð sjúklinga og um samskipti við sjúklinga. Jafnframt segi í 4. mgr. 9. gr. siðareglnanna að læknir skuli gæta ítrustu varkárni við ávísun lyfja, en sú hafi því miður ekki verið raunin hér. Í 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna segi að læknir beri ábyrgð á greiningu og ráðleggingum um meðferð sjúklings en sjúklingur veiti lækni nauðsynlegar upplýsingar um heilsufar sitt og ástand.

Stefnandi hafi glímt við mikinn kvíða og depurð í kjölfar umrædds atburðar og þurfi enn að taka inn kvíðastillandi lyf, auk þess sem hún hafi jafnframt tekið þunglyndislyf um tíma eftir umræddan atburð. Hún sofi illa og svitni mikið um nætur. Hún hafi þurft að leita aðstoðar sjúkraþjálfara reglulega vegna þessa og hafi fyrst um sinn fengið aðstoð heimahjúkrunar. Hún hafi lengi verið með brjóstverki, kviðverki, mikla ógleði og litla matarlyst. Þá hafi hún farið í fjórar vikur í endurhæfingu í desember 2014 í Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði vegna þessara afleiðinga. Stefnandi sé nú á magalyfjum vegna tjónsins sem hún hafi orðið fyrir og eigi erfitt með að halda hægðum. Hún sé enn þreklítil og oft með svima og finni fyrir jafnvægisleysi. Nýrnastarfsemin sé lakari en áður og stefnandi sé í eftirliti hjá nýrnalækni. Fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn staðfesti afleiðingar hinnar röngu lyfjagjafar.

Vísað sé til laga nr. 111/2000 varðandi skyldu stefnda til að greiða bætur úr sjúklingatryggingu, og vísað til meginreglna vátryggingaréttar og til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, þá sérstaklega 44. gr. þeirra laga varðandi aðild málsins. Vísað sé um málskostnað til ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um rétt stefnanda til að leita viðurkenningar á bótaskyldu til 2. mgr. 25. gr. laganna og um varnarþing til 33. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Málatilbúnaði stefnanda sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Hvorki sé sannað að atvik hafi gerst með bótaskyldum hætti né að fullnægt sé skilyrðum laga til að reynt geti á bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ábyrgð stefnda verði ekki víðtækari, enda til laganna vitnað í skilmála tryggingarinnar.

Það eigi ekki við rök að styðjast að víkja eigi frá ákvæðum 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 vegna framgöngu læknisins. Það sé með öllu ósannað að nokkuð hafi verið út á ráðgjöf hans að setja, enda hafi hann borið um það að hann minnist þess ekki að fram hafi komið í viðtali við stefnanda að hún hafi verið með ofnæmi fyrir kíníni, og hafi hann fullyrt að hann hefði aldrei mælt með notkun lyfs sem sjúklingur hefði ofnæmi fyrir. Læknirinn hafi á tæplega þrjátíu ára ferli aldrei hitt fyrir sjúkling sem sé með kínínofnæmi þannig að vafalítið hefði það verið honum minnisstætt ef stefnandi hefði gert grein fyrir slíku í viðtali hjá honum. Sýnist í þessum efnum með nokkrum ólíkindum að ætla lækni það að mæla með notkun lyfs við slíkar aðstæður.

Sjúklingatrygging taki ekki til tjóns sem einvörðungu verði rakið til eiginleika lyfs, líkt og hér um ræði. Slíkt tjón myndi miklu frekar falla undir lög um skaðsemisábyrgð, eins og segi í lögskýringargögnum. Bótaréttur vegna lyfjanotkunar geti einungis komið til sé lyfið meðorsök tjónsins. Engri annarri orsök sé til að dreifa í máli þessu og því sé bótarétti ekki til að dreifa.

Sakir sem bornar séu á lækninn af hálfu stefnanda séu allar því marki brenndar að á grunnskilyrðið bresti. Það að læknirinn hafi mælt með töku lyfsins þrátt fyrir vitneskju um ofnæmi. Hann hafi ekki gert það enda hafi honum ekki verið kunnugt um ofnæmi stefnanda. Í því ljósi hafi hann hvorki gefið röng né ófullnægjandi fyrirmæli um töku lyfsins. Af þessum sökum reyni ekki á skilyrði laga nr. 111/2000 sem greiðsluskylda grundvallast á, að ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Á þetta hafi ekki skort.

Með læknismeðferð sinni og ráðgjöf hafi læknirinn enga gríðarlega áhættu tekið á kostnað heilsu stefnanda enda grunnforsendan ekki til staðar. Til þess að taka áhættu vitandi vits þurfi grandsemi, sem ekki sé fyrir hendi. Því fari mjög fjarri að læknirinn hafi ávísað lyfi til stefnanda gegn betri vitund. Engar forsendur séu til slíkra ályktana enda fjarri öllum veruleika að lækninum hafi verið einhver akkur í því að tefla í tvísýnu með heilsu stefnanda.

Bókun í sjúkraskrá stefnanda hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi, um að stefnandi hafi greint frá því að læknirinn hefði ráðlagt henni að prófa kínín, feli ekki í sér frekari sönnur en fullyrðing stefnanda í stefnu, sbr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Bókunin byggist á orðum stefnanda og sé skráð 4. júlí 2014, eftir að stefnandi varð fyrir ofnæmisviðbrögðum að kvöldi 30. júní sama árs.

Í máli þessu reyni ekki á ákvæði 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000, þar sem ofnæmiseinkenni stefnanda hafi ekki lotið að fylgikvilla sjúkdóms. Við rýningu hugtaksskilyrða 2. gr. og lögskýringargagna blasi slíkt við, enda um fylgikvilla lyfjagjafar að ræða sem falli ekki undir töluliðinn. Það verði enn augljósara þegar horft sé á samhengi þessa töluliðar og annarra í 2. gr. við 3. mgr. 3. gr. laganna. Lögin verði ekki túlkuð og metin nema sem ein heild og verði ekki lesin svo sem stefnandi byggi á.

Fyrir liggi að læknirinn hafi veitt stefnanda svo góða læknisþjónustu sem hann hafi haft tök á byggða á skoðun hans og rannsóknum sem og þeim upplýsingum sem stefnandi hafi látið í té. Í því ljósi og þar sem málsatvik tengd veikindum stefnanda falli fyrst og fremst undir reglu 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000, en ekki undir töluliði 2. gr. sömu laga, beri að sýkna stefnda.

Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt byggist á því að stefndi reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi og sé því nauðsyn á að fá álagið dæmt.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um bótaskyldu vegna afleiðinga af inntöku stefnanda á lyfi sem læknirinn B ávísaði til hennar 30. júní 2014. Þótt stefnandi hafi ekki aflað matsgerðar hafa verið leiddar að því nægar líkur, með þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggja fyrir í málinu, að hún hafi orðið fyrir tjóni og hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dæmt um viðurkenningarkröfu sína, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram. Óumdeilt er að kröfu stefnanda er réttilega beint að stefnda og að bótaskylda á grundvelli skilmála vátryggingar læknisins hjá stefnda ræðst af því hvort skilyrði laga nr. 111/2000 til bótaskyldu eru uppfyllt, sbr. d-lið 9. gr., 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 12. gr. laganna. Aðila greinir á um hvort hér sé um að ræða tjónsatvik sem lögin taka til, en sönnunarbyrði um það hvílir samkvæmt almennum reglum í upphafi á stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um sjúklingatryggingu eiga rétt til bóta sjúklingar, sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hjá heilbrigðisstarfsmanni sem m.a. starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu landlæknis til starfans, sbr. 2. gr. laganna. Í 2. gr. laganna kemur fram að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi „að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers“ af þeim tilvikum sem tiltekin eru í fjórum töluliðum ákvæðisins. Þeirra á meðal eru tilvik þegar ætla má að „komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði“, sbr. 1. tölulið 2. gr. laganna. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 111/2000 kom fram að tilgangur fyrirhugaðra breytinga frá gildandi rétti væri að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann ætti samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná rétti sínum. Rök fyrir úrræði sem tryggði sjúklingum víðtækari rétt til bóta væru meðal annars þau að sönnunarvandkvæði í þessum málaflokki væru oft meiri en á öðrum sviðum. Sjúklingatrygging yrði að taka til fleiri tjónsatvika en þeirra sem leiddu til bótaskyldu eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

Lyfjaofnæmi er þekktur fylgikvilli flestra ef ekki allra lyfja. Lyfjaofnæmi getur valdið vægum einkennum, en stundum er ofnæmið svo alvarlegt að inntaka lyfsins getur verið lífshættuleg. Þegar um alvarleg ofnæmisviðbrögð er að ræða og sterkur grunur er um að ákveðið lyf sé orsakavaldur eru sjúkragögn merkt og einstaklingar upplýstir um ofnæmi sitt. Fyrir liggur að stefnandi er með þekkt ofnæmi fyrir nokkrum lyfjum, þar á meðal lyfinu sem læknirinn ávísaði henni 30. júní 2014 og inniheldur efnið kínín. Upplýsingar um ofnæmi stefnanda fyrir kíníni höfðu samkvæmt gögnum málsins þegar verið færðar í sjúkraskrá stefnanda 11. júlí 2012.

Með upphafsákvæði 2. gr. laga nr. 111/2000 er slakað á þeim kröfum sem almennt eru gerðar um sönnun orsakatengsla í skaðabótarétti og samkvæmt lögskýringargögnum dugar í þeim efnum að sýnt sé fram á að líklegra sé að tjónið stafi af rannsókn eða meðferð en öðrum orsökum. Upplýst er í máli þessu að hér hafi sjúklingur með þekkt ofnæmi fyrir ákveðnu lyfi fengið því ávísað, tekið það inn og veikst alvarlega. Það leikur að mati dómsins enginn vafi á því að orsakasamband er á milli inntöku lyfsins og þeirrar sjúkdómsmyndar sem lesa má um í sjúkraskrá og hefur stefnandi því axlað sönnunarbyrði sína að þessu leyti. Ofnæmisviðbrögðum af þessum toga hefur verið ítarlega lýst í ritrýndum tímaritum og er íslensk samantekt í Læknablaðinu um þetta meðal gagna málsins.

Stefndi vísar til stuðnings sýknukröfu sinni einkum til 3. mgr. 3. gr. laganna. Þar segir að bætur samkvæmt lögunum greiðist ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Ljóst er af lögskýringargögnum að sú undantekning frá bótaskyldu tekur ekki til tjóns af því að læknir gefi röng eða ófullnægjandi fyrirmæli um töku lyfja eða ef starfsfólki verða á mistök við lyfjagjöf, heldur er með ákvæðinu undanþegið tjón af skaðlegum eiginleikum lyfja sem bæta ber samkvæmt reglum um skaðsemisábyrgð. Tjón stefnanda er, svo sem að framan er lýst, að rekja til ofnæmis hennar fyrir lyfinu, sem hún tók inn að ávísun læknis, og eru þau áhrif lyfsins einstaklingsbundin. Verður því ekki fallist á að tjónið sé að rekja til eiginleika lyfsins í skilningi 3. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, fer embætti landlæknis með eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna má beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu og skal landlæknir gefa skriflegt álit þar sem tilgreint sé efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, sem dregin skal saman í lok álits. Í gögnum málsins kemur fram að embætti landlæknis hafi óskað eftir greinargerð læknisins og gögnum sem kynnu að hafa þýðingu við meðferð málsins 29. janúar 2015, en nokkur dráttur hafi orðið á svari. Í greinargerð læknisins, sem borist hafi 25. október s.á., hafi komið fram að hann minntist þess ekki að fram hefði komið í viðtali við stefnanda að hún hefði ofnæmi fyrir lyfinu. Ráðið verður af því sem fram kemur í áliti landlæknis að engin gögn hafi fylgt greinargerð læknisins til embættisins, s.s. samtímafærslur hans um það sem fram fór í viðtalinu í sjúkraskrá, sem honum er skylt að færa í samræmi við II. kafla laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Slík gögn hafa heldur ekki verið lögð fram í þessu máli. Læknirinn upplýsti fyrir dómi að hann hefði ekki haft þann sjálfvirka aðgang að miðlægri sjúkraskrá sem æskilegt væri þegar stefnandi kom til viðtals við hann, en kvaðst færa upplýsingar um heimsóknir sjúklinga í eigið kerfi í [...].

Sú niðurstaða embættis landlæknis í kvörtunarmáli stefnanda að ekki hafi verið sýnt fram á mistök eða vanrækslu af hálfu læknisins byggist á því að orð standi gegn orði og ekkert verði því ályktað um mistök í þessum efnum. Ályktun um að tjón stefnanda falli ekki undir lög nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, verður þó ekki dregin af þeim rökstuðningi, svo sem stefndi vill byggja á.

Einstaklingar leita til læknis með einkenni eða vandamál í von um að læknirinn geti greint undirliggjandi vanda og hugsanlega ráðið á honum bót með aðgerð og/eða lyfjameðferð. Hlutverk lækna er að taka góða sjúkrasögu og ræðst framhaldið af henni. Þessi samskipti eru færð í sjúkraskrá sem í eru mikilvægar persónulegar upplýsingar um fyrra heilsufar, aðgerðir, ættarsögu og lyfjameðferð, svo eitthvað sé nefnt. Að spyrja um ofnæmi er hluti af sjúkraskrá og þar af leiðandi sögutöku læknisins. Ef fyrirhuguð er skurðaðgerð eða lyfjameðferð er afar mikilvægt að spyrja um ofnæmi. Dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, leggur til grundvallar að það sé hlutverk læknis að spyrja um lyfjaofnæmi áður en lyfi er ávísað, sem og að tryggja rétta skráningu ofnæmis í sjúkraskrá, sama hvort um ofnæmi er að ræða eða ekki.

Um atvik við ávísun lyfsins og ráðleggingar læknisins eru aðeins stefnandi og læknirinn til frásagnar, enda hafa engin samtímagögn verið lögð fram um viðtal og skoðun læknisins, sem fyrr segir. Stefnandi kveður lækninn hafa ráðlagt töku lyfsins í ljósi þess hversu langt var um liðið frá því að hún fékk einkenni ofnæmis fyrir lyfinu. Þessum framburði hafnaði læknirinn alfarið fyrir dómi og fullyrti að ef sjúklingur hefði upplýst um ofnæmi við lyfi þá hefði hann ekki ávísað því og ráðlagt inntöku þess. Læknirinn kvaðst hvorki minnast þess að stefnandi hefði upplýst hann um lyfjaofnæmi né að hann hefði spurt stefnanda hvort hún væri með lyfjaofnæmi. Í greinargerð stefnda er á því byggt í þessu sambandi að á þrjátíu ára ferli hefði læknirinn aldrei hitt sjúkling með kínínofnæmi og því væri vafalaust að honum væri það minnisstætt ef stefnandi hefði gert grein fyrir slíku í viðtali. Í framburði sínum fyrir dómi kvaðst læknirinn hafa heyrt um alvarleg veikindi stefnanda frá samstarfsmanni á [...] skömmu eftir að þau komu upp, næstu daga eftir heimsóknina, en ekki varð ráðið að sú vitneskja hefði orðið til þess að hann gæti betur rifjað upp samskipti þeirra.

Eins og framburði læknisins fyrir dómi var háttað, sem og gögnum málsins, leikur vafi á um hvort læknirinn hafi gætt þeirra atriða, sem fyrr er getið og lækni ber að gæta áður en lyfi er ávísað, og þar með hvort meðferð stefnanda hafi verið hagað eins vel og unnt hefði verið. Sem fyrr sagði hafa ekki verið lögð fram nein samtímagögn, þ.e. færslur sem skráðar voru í kerfi [...] samkvæmt framburði læknisins, um viðtal hans við stefnanda umrætt sinn. Þykir stefnandi hafa leitt nægar líkur að því að meðferð hennar hafi ekki verið eins vel hagað og unnt hefði verið, sbr. 1. tölulið 2. gr. laga nr. 111/2000, og verður stefndi að bera hallann af því að annað er ósannað. Eru því uppfyllt skilyrði þess lagaákvæðis til greiðslu bóta.

Auk 1. töluliðar 2. gr. laganna vísar stefnandi til 3. töluliðar og 4. töluliðar ákvæðisins. Samkvæmt 3. tölulið skal greiða bætur ef mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings. Ekki hefur verið sýnt fram á að fyrir stefnanda hefði önnur lyfjameðferð gert sama gagn og sú sem reynd var og á þessi töluliður því ekki alls kostar við hér. Á hinn bóginn er það mat dómsins að nægilega sé sýnt fram á það með gögnum málsins að tjónið sem hlaust af lyfjameðferðinni sé meira en svo, í skilningi 4. töluliðar 2. gr. laganna, að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Hafnað er þeirri málsástæðu stefnda að ofnæmiseinkenni stefnanda hafi ekki orðið vegna fylgikvilla sem ákvæði 4. töluliðar 2. gr. tekur til. Leiðir þetta til sömu niðurstöðu um bótaskyldu stefnda vegna tjóns stefnanda, óháð því hvort meðferð hafi verið eins vel hagað og unnt hefði verið, sbr. fyrri umfjöllun um 1. tölulið ákvæðisins.

Stefndi vísar í greinargerð sinni til þess að synjun hans á viðurkenningu á bótaskyldu hafi stuðst við álit landlæknis, en þar er m.a. vísað til ábyrgðar sem hvíli á notendum heilbrigðisþjónustu á því að kynna sér þau lyf sem ávísað sé, m.a. með lestri fylgiseðla með lyfjum, og forðist sjúklingar þannig inntöku lyfja sem þeim kynni að vera ávísað vegna yfirsjónar læknis. Við málflutning hreyfði lögmaður stefnda í þessu sambandi þeirri málsástæðu, sem ekki var mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu gagnaðila, að bótaréttur stefnanda skyldi skerðast eða falla niður vegna eigin sakar hennar. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 111/2000 er heimilt að lækka eða fella niður bætur ef sjúklingur er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Svo sem áréttað er í frumvarpi um þetta ákvæði hefur venjulegt (einfalt) gáleysi engin áhrif á bótarétt sjúklings, heldur er það skilyrði skerðingar að sjúklingur sé meðvaldur að tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Svo sem fram er komið verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um það sem fram fór í viðtali stefnanda og læknisins umrætt sinn. Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði lesið fylgiseðilinn og af framburði hennar og málatilbúnaði að öðru leyti þykir ljóst að hún vissi um aukaverkanir lyfsins og ofnæmi sitt. Stefnandi kveðst hafa tekið lyfið inn að ráðleggingu læknisins, þrátt fyrir þá vitneskju, sem hún hafi talið lækninn einnig vera upplýstan um. Samræmist sú frásögn því sem fært er í sjúkraskrá stefnanda, og haft mun eftir henni eða dóttur hennar, í frásögn af tilefni komu á sjúkrahús þegar ofnæmiseinkennin komu fram. Ekki verður á það fallist að í því felist stórkostlegt gáleysi, hvað þá ásetningur til að valda eigin tjóni, að hlíta ráðleggingu læknis um lyfjatöku. Er málsástæðu stefnda um eigin sök stefnanda því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að bótaskylda sé fyrir hendi vegna tjóns stefnanda sem er afleiðing af inntöku lyfsins sem læknirinn ávísaði til hennar. Samkvæmt vátryggingu læknisins hjá stefnda er vátryggt gegn bótaskyldu sem fellur á vátryggðan þegar sjúklingur verður tjóni, sem vátryggður ber ábyrgð á samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Á stefnandi samkvæmt því rétt á bótum úr hendi stefnda á grundvelli tryggingarinnar og verður fallist á viðurkenningarkröfu hennar í málinu.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hauks Arnar Birgissonar, sem eftir efni og umfangi málsins er hæfileg ákveðin ein milljón króna og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samkvæmt úrslitum málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða sömu fjárhæð í málskostnað sem renni í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. sömu laga.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn sem dómsformaður. Meðdómendur voru Hildur Briem héraðsdómari og María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir yfirlæknir.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefnandi, A, eigi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu B æðaskurðlæknis, kt. 290161-2589, hjá stefnda, Verði tryggingum hf., samkvæmt lögum nr. 111/2000 vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þann 30. júní 2014 í meðferð hjá lækninum.

Stefndi greiði 1.000.000 króna í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Hauks Arnar Birgissonar lögmanns, 1.000.000 króna.

                                                            Kristrún Kristinsdóttir

                                                            Hildur Briem

                                                            María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir