• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. október 2018 í máli nr. S-33/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

X

(Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 2. október sl., var höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 6. apríl 2018 á hendur X, fæddum […] til heimilis að […], A fyrir líkamsárás „með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 30. júlí 2017, í I A við […] á A, veist að Y, kt. […], og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að Y hlaut heilahristing, stirðleika og eymsli í hálsi og herðum, bólgu undir vinstra auga yfir kinnbeini og gagnauga og sjóntruflanir á vinstra auga.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Sveinbjörn Claessen hdl. kröfu f.h. brotaþola um að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð 1.217.004 krónum (svo) auk vaxta af 104.720 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalag nr. 50/1993 og af 1.112.284 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júlí 2017 til 9. september 2017 en mað (svo) dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.217.004 krónum frá þeim degi til greiðsludags.“

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega. Jafnframt andmælir ákærði hækkun bótakröfu frá því sem í ákæru greinir. Loks krefst hann þess að allur sakarkostnaður þar með talin hæfilega málsvarnarlaun verjanda greiðist úr ríkissjóði.

Við aðalmeðferð málsins krafðist brotaþoli þess að ákærði yrði dæmdur til að greiða honum 3.609.599 krónur auk vaxta af 2.216.535 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og af 1.393.064 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júlí 2017 til 4. maí 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.217.004 frá 9. september 2017 til 4. maí 2018 en af 3.609.599 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

II

Atvik máls

Hinn […] 2017 var haldinn dansleikur í I á A. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að klukkan 03:04 hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu í I vegna líkamsárásar. Lögreglumenn, sem staddir voru í nágrenninu, héldu á staðinn og hittu brotaþola í eldhúsi þar sem hann var að kæla á sér vangann. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis, viðræðugóður og ekki áberandi ölvaður. Brotaþoli hafi greint frá því að hann hafi verið staddur á dansgólfinu og átt stutt orðaskipti við stúlku sem þar var. Hann hafi síðan verið sleginn í tvígang í andlitið. Eftir höggin hafi hann áttað sig á því að hann þekkti stúlkuna frá fyrri tíð og það hafi verið kærasti hennar sem sló hann. Í skýrslunni er greint frá því að brotaþoli hafi kvartað undan höfuðverk og ógleði og því hafi verið ákveðið að fara með hann á heilsugæslu til skoðunar þar sem hann var skilinn eftir en vinir hans hafi ætlað að sækja hann að skoðun lokinni. Loks er frá því greint í skýrslunni að vitnið B hafi gefið sig fram við lögreglu í eldhúsinu og staðfest að brotaþoli hafi verið kýldur á dansgólfinu og að ákærði hafi verið þar að verki.

Brotaþoli mætti á lögreglustöðina í […] 2017 og lagði þar fram kæru á hendur ákærða og þann dag var einnig tekin af honum skýrsla og í henni lýsir hann atburðarrásinni auk þess sem hann lýsir þeim áverkum sem hann varð fyrir.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu […] 2017 þar sem hann neitar því að hafa slegið brotaþola í andlitið en hann hafi hins vegar ýtt við honum. Sama dag tók lögregla skýrslu af vitnunum D og B. Hinn […] 2018 ræðir lögregla við dyravörð sem var á umræddum dansleik en hann var ekki við störf þetta kvöld og haft er eftir dyravarðinum að hann hafi séð brotaþola í nokkru uppnámi og brotaþoli hafi greint honum frá því að hann hefði verið sleginn. Öðru hafi hann ekki orðið vitni að.

III

Framburður fyrir dómi

     Ákærði greindi frá því að það hafi verið mikið af fólki á dansleiknum og dansgólfið hafi verið „pakkað“ og hann aldrei séð svona mikið af fólki þarna. Hann kvaðst ekki þekkja brotaþola en á þessum tíma hafi hann af afspurn vitað hver hann var án þess þó að hann þekkti hann í sjón. Hann hafi vitað að brotaþoli og unnusta hans hafi fyrir einhverjum tíma verið í sambandi. Ákærði bar að hann hafi verið að leita að konunni sinni og séð hana á dansgólfinu. Hann hafi gengið til hennar og þegar hann kom til hennar hafi brotaþoli staðið hjá henni. Hann hafi tekið í konu sína en brotaþoli þá einhvern veginn verið á milli þeirra og hann hafi þá ýtt lítillega við honum með báðum höndum. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir því að brotaþoli og kona hans hafi heilsast skömmu áður en hann kom til þeirra. Eftir að hann ýtti við brotaþola hafi hann og kona hans gengið á brott og farið heim. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en þó ekki það miklum að hann myndi ekki eftir atvikum, raunar drekki hann aldrei svo mikið að hann muni ekki það sem gerist. Ákærði bar að lýsing á dansgólfinu hafi verið eins og venjulegt er þegar dansleikir fara fram.

Brotaþoli kvaðst ekki hafa þekkt ákærða á þessum tíma en vitað hver hann var enda samfélagið lítið. Hann hafi eftir […] sem hann tók þátt í farið í matarboð og í framhaldi af því á dansleik ásamt […] sínum. Brotaþoli bar að hann hafi verið staddur á dansgólfinu þegar að honum gekk stúlka í hvítum bol, D. Ákærði hafi komið að D og þau átt í einhverjum orðaskiptum og stúlkan þá farið. Ákærði hafi þá snúið sér að honum og slegið hann þungt hnefahögg í gagnauga. Honum hafi sortnað fyrir augum en þó ekki fallið og hann þá strax fengið annað högg á sama stað. Ákærði hafi undirbúið þriðja höggið en þá hafi einhverjir gengið á milli. Allt þetta hafi gerst svo snöggt að hann hafi varla verið búinn að átta sig á því hvaða stúlka þetta var en hann þekki D en þau hafi átt í sambandi fyrir […] árum síðan. Að sögn vitnisins kom vitnið B til hans og sagði honum að hann hefði séð hvað gerðist. Hann hafi séð þegar vitnið D gekk til hans og séð að ákærði stóð á dansgólfinu og horfði illilega á hann. B hafi sagt að hann hafi ætlað að ganga til þeirra en hrasað á leiðinni og því ekki tekist að koma í veg fyrir þetta. B hafi jafnframt sagt honum nafn árásarmannsins, í raun staðfest hver hann var. Eftir þetta hafi hann hugsað um að koma sér í skjól og á leiðinni hafi hann og B hitt dyravörð og B hafi sagt honum hvað gerðist. Síðan hafi þeir farið inn í eldhús IA og hann þar hringt í lögreglu en hann hafi gert sér grein fyrir því að eitthvað slæmt hefði gerst. Lögreglan hafi síðan ekið honum á slysadeild. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis svo neinu nemi en hann hafi þetta kvöld drukkið fjóra litla bjóra. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða kýla sig með krepptum hnefa en sú mynd fari ekki úr höfði hans. Vitnið bar að hann ætti ekki gott með að lýsa afleiðingum árásarinnar en hún hafi í raun sett líf hans úr skorðum. […]

Vitnið D, unnusta ákærða bar að hún hafi verið á gangi á dansgólfinu og þar hafi hún hitt brotaþola og heilsað honum. Um leið hafi ákærði komið þar að og hún yfirgefið dansgólfið. Meira hafi hún varla um þetta atvik að segja en hún hafi ekki séð nein högg eða átök. Að sögn vitnisins var mjög mikið af fólki á dansleiknum en lýsing þar hafi verið eins og gengur og gerist á dansleikjum sem þessum. Aðspurð um framburð sinn hjá lögreglu þar sem eftir henni er haft að ákærði hafi komið að henni og gripið í hana segir hún það rétt en það hafi verið maður á milli þeirra. Vitnið staðfesti að hún hafi verið í sambandi við brotaþola fyrir nokkrum árum síðan. Hún kvað ákærða hins vegar ekki afbrýðisamari en gengur og gerist en um þetta hafi hún verið spurð af lögreglu í tilefni af framburði annars vitnis. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað af ætlaðri líkamsárás fyrr en daginn eftir þegar hringt var í hana en ákærði hafi ekki nefnt þetta við hana.

Vitnið B kvaðst hafa verið á umræddum dansleik. Hann hafi verið staddur á dansgólfinu skammt frá brotaþola þegar hann sá vitnið D standa skammt frá honum. Lýsti vitnið aðstæðum þannig að einungis fáir metrar, tveir til þrír, hafi verið frá honum að ákærða og svipuð fjarlægð á milli ákærða og brotaþola. En fullt af fólki á milli þeirra allra. Hann hafi séð ákærða fyrir aftan D og honum fundist hann vera reiður á svip og líkamstjáning hans þannig að það leit út fyrir að hann ætti eitthvað sökótt við brotaþola. Hann hafi því talið að eitthvað væri að fara að gerast en honum hafi fundist eins og ákærði væri öfundsjúkur vegna þess að konan hans var að dansa við annan mann. Hann hafi ætlað að ganga til ákærða og brotaþola í þeim tilgangi að koma í veg fyrir átök en ekki tekist þar sem mikið var af fólki á milli þeirra og á leið sinni hafi hann hrint stúlku í gólfið. Þegar hann var búinn að reisa hana upp hafi hann séð brotaþola eins og hann hefði fengið högg og fólk komið til að stía þeim í sundur. Hann hafi þá gengið á milli ákærða og brotaþola og ekkert hafi gerst eftir það. Á þessum tíma hafi ákærði verið kominn mun nær brotaþola en þegar hann sá þá fyrst og brotaþoli litið út eins og að hann hefði orðið fyrir höggi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt högg. Vitnið taldi að hann hafi spurt ákærða að því hvað hann væri að gera en ekki fengið neitt svar. Eftir þetta hafi hann farið inn í eldhús þar sem brotþoli var kominn. Að sögn vitnisins var hann undir áhrifum áfengis en ekki mikið. Vitnið lýsti því að hann hafi séð ákærða í þannig stöðu að hann hafi verið búinn að slá högg en hann hafi verið með höndina dregna til baka en hann hafi þó ekki séð krepptan hnefa. Vitnið kvað ákærða vera kunningja sinn og þeir oft verið á sama dansleik. Hann kvaðst ekki áður hafa séð ákærða í átökum. Þá kvaðst hann kannast við brotaþola.

Vitnin E og F lögreglumenn komu á vettvang eftir að brotaþoli var kominn inn í eldhús. Framburður þeirra var í öllum aðalatriðum á sömu lund. Fram kom hjá þeim að brotaþoli hafi verið í uppnámi og kvartað undan ógleði og svima. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis en vel viðræðuhæfur. Eingöngu tveir lögreglumenn hafi verið á vakt þetta kvöld og þau tekið ákvörðun um að sinna brotaþola frekar en að reyna að hafa uppi á ákærða en þau hafi fengið nafn hans frá kunningja brotaþola sem var með honum inni í eldhúsinu en vitnið F bar að brotaþoli hafi líka greint frá nafni gerandans.

Vitnið G sálfræðingur staðfesti vottorð sem hún ritaði og er meðal gagna málsins. Þá greindi hún nánar frá því hverjar afleiðingar árásins hefur haft fyrir brotaþola svo og hverjar batahorfur hans eru.

Vitnið H, heimilislæknir staðfesti vottorð sem hún ritaði og lýsti nánar einkennum hjá brotaþola, […].

IV

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök að hafa slegið brotaþola í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Af hálfu ákæruvalds er í málinu aðallega byggt á framburði brotaþola sem að mati ákæruvaldsins fær stoð í framburði vitnisins B. Ákærði neitar sök og byggir kröfu um sýknu á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til sektar hans. Þá heldur ákærði því fram að rannsókn lögreglu hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála en ekki verði annað ráðið en rannsóknin hafi aðallega beinst að því að afla gagna um afleiðingar árásar þeirrar sem brotaþoli varð fyrir.

Að framan er rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og af honum verður ráðið að brotaþoli er einn til frásagnar um það að ákærði hafi í tvígang slegið hann hnefahögg í andlitið en ekkert þeirra vitna sem leidd voru fyrir dóminn sáu ákærða slá brotaþola.

Af framburði ákærða og vitna má ráða að dansgólfið var allt að því fullt af fólki á þeim tíma sem atvik máls áttu sér stað. Þannig lýsti vitnið B því að hann hafi átt erfitt með að komast fáeina metra að ákærða og brotaþola sökum þess að fólk var þar á milli. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda tókst ekki að finna fleiri vitni að því sem gerðist. Raunar verður af gögnum málsins ekki séð að lögregla hafi kannað hvort aðrir sem þarna voru staddir hafi séð hvað gerðist en það kann þó að vera að leit að vitnum hafi einfaldlega reynst árangurslaus.

Ákærði hefur eins og áður er fram komið staðfastlega neitað sök, bæði hér fyrir dómi og hjá lögreglu. Framburður hans hefur verið staðfastur og ekki í honum misræmi svo neinu nemi. Stendur þá eftir hvort framburður brotaþola, sem að mati dómsins er trúverðugur, fái næga stoð í framburði vitnisins B til þess að fram sé komin lögfull sönnun um sekt ákærða. Vitnið B lýsti því að hann hafi af svipbrigðum og líkamstjáningu ákærða talið að ákærði ætti eitthvað sökótt við brotaþola. Vitnið kvað ákærða vera kunningja sinn en hann hafi aldrei séð hann í átökum. Vitnið sá hins vegar ekki neina árás á brotaþola og rennir lýsing hans á því hvað hann taldi vera að fara að gerast ekki nægum stoðum undir framburð brotaþola þannig að sekt ákærða sé hafin yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Ásgeirs Arnar Blöndal lögmanns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá ber og að greiða úr ríkissjóði 19.891 krónu vegna ferðakostnaðar verjanda.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Sigurður Hólmar Kristjánsson saksóknarfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ásgeirs Arnar Blöndal lögmanns, 452.600 krónur, og ferðakostnaður lögmannsins, 19.891 króna.

Einkaréttarkröfu, Y, er vísað frá dómi.

 

                                                     Halldór Halldórsson