• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2018 í máli nr. S-597/2018:

 

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Cristian Andres Catano

( Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)

                                   

I

            Mál þetta, sem dómtekið var 23. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 27. september síðastliðinn, á hendur Cristian Andres Catano, kennitala 000000-0000, [...], Reykjavík, „fyrir eftirgreind brot framin að kvöldi laugardagsins 19. ágúst 2017 í Reykjavík:

 

I.

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa utandyra í Veltusundi, bitið í fingur lögreglumannsins A og í fingur lögreglumannsins B, sem voru að sinna skyldustörfum sínum, og í lögreglubifreið á leið á lögreglustöðina við Hverfisgötu 115-117 sparkað í bringu lögreglumannsins A.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Vopnalagabrot, með því að hafa í vörslum sínum á almannafæri hníf með 10 cm löngu blaði en lögreglan fann hnífinn við leit á ákærða eftir handtöku hans, sbr. lið I.

Telst þetta varða við 1. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er gerð krafa um að haldlagður hnífur, sbr. II. lið ákærunnar, verði gerður upptækur, sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“

 

       Ákærði neitar að hafa bitið í fingur lögreglumanna en játar sök að öðru leyti. Hann hefur samþykkt upptökukröfuna. Ákærði krefst vægustu refsingar. Hann krefst þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

 

 

 

II

       Málavextir eru þeir að lögreglumenn voru við eftirlit í borginni að kvöldi 19. ágúst 2017. Á þeim stað, sem í ákæru greinir, komu þeir auga á ákærða. Hann var eftirlýstur og hugðust þeir því handtaka hann. Við það tók ákærði á rás og lögreglumenn á eftir honum. Þeir náðu honum og í átökum við ákærða beit hann lögreglumenn, eins og segir í skýrslu. Eftir að hann hafði verið færður í lögreglubifreið, sparkaði hann í lögreglumann, eins og segir í skýrslunni. Við leit á ákærða fannst hnífurinn sem krafist er upptöku á.

       Lögreglumaðurinn, sem fyrr er nefndur í ákærunni, fór á slysadeild og kvaðst hafa fengið spark í bringu auk þess sem hann hefði verið bitinn í vísifingur hægri handar. Hefði sami maður verið að verki í bæði skiptin. Í læknisvottorði segir að við skoðun hafi ekki verið sjáanleg ytri áverkamerki á brjóstkassa og engin eymsli voru þar. Við skoðun á útlimum var ekki að finna merki um áverka.

 

III

       Við aðalmeðferð neitaði ákærði sem fyrr að hafa bitið lögreglumenn en játaði sök að öðru leyti. Hann kvað þrjá eða fjóra lögreglumenn hafa handtekið sig og lagt í götuna. Einn þeirra hefði haft annan fótinn á höfði hans. Eftir það hefði hann verið handjárnaður og færður í lögreglubíl. Þar kvaðst hann hafa beðið lögreglumann um að draga upp um sig buxurnar. Lögreglumaður hefði þá ýtt honum inn í bílinn og við það hefði hann sparkað aftur fyrir sig.

       Fyrstnefndur lögreglumaður bar að tilkynnt hefði verið að ákærði væri eftirlýstur. Lögreglumenn sáu hann og höfðu tal af honum. Í fyrstu hefði ákærði gefið upp rangt nafn og sagst heita Jón. Lögreglumenn sögðust vita betur og spurðu ákærða hvort hann hefði strokið. Við það hefði ákærði tekið á rás en þeir gripið hann. Ákærði var tekinn lögreglutökum og færður í götuna. Lögreglumaðurinn kvað þá hafa verið að eiga við annan handlegg ákærða er honum hefði tekist að bíta í hönd hans. Hann kvaðst svo hafa verið að snúa höfði ákærða frá er hann hefði bitið í hönd annars lögreglumanns er var hinum megin við ákærða. Þá kvað lögreglumaðurinn ákærða hafa sparkað framan í sig í lögreglubílnum.

       Síðarnefndur lögreglumaður bar að ákærði hefði verið handtekinn eftir að hafa reynt að villa á sér heimildir. Ákærði hefði streist mikið á móti og hefði hann verið lagður í götuna. Ákærði hefði bitið í vinstri hönd sína, en ekki mundi hann eftir að greina nánar frá bitinu. Lögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa borið áverka eftir bitið. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða bíta aðra.

       Lögreglumaður, sem var á vettvangi, bar að ákærði hefði í fyrstu reynt að villa á sér heimildir og svo tekið á rás. Lögreglumenn hafi náð að handsama hann og færa í götuna. Þarna hafi verið margt fólk og kvaðst lögreglumaðurinn hafa fengið fyrirmæli um að halda því frá. Hann kvaðst hafa heyrt fyrrnefndan lögreglumann kalla að ákærði væri bíta sig í fingurinn. Hann kvaðst þá hafa snúið sér við og séð ákærða, sem lá á maganum, vera með kjaftinn, eins og hann orðaði það, að reyna að bíta síðarnefnda lögreglumanninn. Hann kvaðst ekki hafa séð lögreglumann með fót á höfði ákærða, þeir hefðu báðir verið fyrir aftan hann. Þá kvaðst hann ekki hafa séð ákærða bíta fyrstnefndan lögreglumann. Hann kvað ákærða hafa verið að sparka í allar áttir í lögreglubifreiðinni en ekki séð hann sparka í lögreglumann.

       Annar lögreglumaður, sem var á vettvangi, bar að ákærði hefði verið handtekinn eftir að hafa reynt að komast undan. Ákærði hefði látið illa. Lögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa séð ákærða bíta lögreglumenn en þeir hefðu sagt sér það eftir á.

 

IV

       Ákærði hefur játað að hafa sparkað í lögreglumann og verður hann sakfelldur fyrir það. Brot hans varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði játað vopnalagabrot sem hann verður sakfelldur fyrir og varðar brot hans við þau ákvæði vopnalaga sem í ákæru greinir. Þá verður þar greindur hnífur gerður upptækur, en ákærði hefur samþykkt upptökuna.

       Ákærði hefur neitað að hafa bitið lögreglumenn eins og hann er ákærður fyrir. Fyrstnefndur lögreglumaður ber að ákærði hafi bitið hann eins og rakið var. Lögreglumaður, sem var á vettvangi, ber að hafa heyrt lögreglumanninn kalla að ákærði væri að bíta sig en hann hefði ekki séð það. Lögreglumaðurinn leitaði læknis en hann sá ekki áverka á honum eftir bit. Samkvæmt þessu er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi bitið fyrstgreindan lögreglumann og verður hann sýknaður af því.

       Síðarnefndur lögreglumaður bar að ákærði hefði bitið sig, eins og rakið var. Framburður hans fær stuðning í framburði fyrstgreinds lögreglumanns sem bar að hafa séð ákærða bíta lögreglumanninn. Einnig bar lögreglumaður, er var á vettvangi, að hafa séð ákærða reyna að bíta lögreglumanninn. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sannað sé, gegn neitun ákærða, að hann hafi bitið síðarnefndan lögreglumann eins og hann er ákærður fyrir. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það og varðar brot hans við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

       Á sakavottorði ákærða eru tilgreind tvö brot sem ekki hafa áhrif á refsingu hans nú, enda framin og afgreidd áður en hann varð 18 ára. Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.

       Þess er krafist að ákærði greiði kostnað vegna framangreinds áverkavottorðs. Hér að framan var þess getið að samkvæmt vottorðinu sáust ekki áverkamerki á lögreglumanninum. Við flutning málsins var þar af leiðandi ekki byggt á vottorðinu og er ekki rétt að dæma ákærða til að greiða fyrir það. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun fyrri verjanda en hvorutveggja er ákvarðað með virðisaukaskatti í dómsorði. Með hliðsjón af úrslitum málsins skal skipta greiðslu málsvarnarlauna og þóknunar eins og í dómsorði greinir, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008.           

 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Christian Andres Catano, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Upptækur er hnífur sem í ákæru greinir.

        Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 316.200 krónur, og málsvarnarþóknun fyrri verjanda síns, Björgvins H. Björnssonar lögmanns, 168.640 krónur að þremur fjórðu hlutum en að einum fjórða skulu þau greidd úr ríkissjóði sem og annar sakarkostnaður.

                                                                       

Arngrímur Ísberg