• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Sönnun

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 28. mars 2019 í máli nr. S-32/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

Mál þetta, sem dómtekið var 15. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 21. ágúst 2018, á hendur A, kt. […], […], […]:

„fyrir heimilisofbeldi og brot á barnaverndarlögum í […], framið á sameiginlegu heimili sínu, móður sinnar, fósturföður og systkina að […], […], miðvikudaginn 7. febrúar 2018, um kvöldmatarleytið, með því að hafa, ráðist á fósturföður sinn, B, þar sem hann sat í sófa í stofu hússins og gripið með báðum höndum í föt B, yfir brjóstkassa og þrýst honum niður í sófann, með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli í bringubeini, eymsli í brjóstkassa við bringubein og verk í hægri öxl.

Á meðan þetta átti sér stað var C, þá 6 ára gömul, dóttir B, við hlið hans í stofunni og varð vitni að átökunum og fór að hágráta, en allt framangreint var ruddalegt, ósiðlegt, móðgandi og vanvirðandi gagnvart stúlkunni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. breytingarlög.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Við þingfestingu málsins, þann 19. október sl., neitaði ákærði A alfarið sök, líkt og við aðalmeðferð málsins.

Skipaður verjandi, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, hefur í greinargerð, líkt og við flutning við aðalmeðferð málsins, hinn 15. febrúar sl., krafist þess fyrir hönd ákærða að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, en jafnframt andmælir hann heimfærslu til laga. Þar um vísar hann m.a. til þess, að því er varðar heimfærslu til 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, að hin ætluðu brot ákærða hafi ekki átt sér stað á sameiginlegu heimili hans og nefndra brotaþola, sbr. að því leyti greinargerð með frumvarpi að ákvæðinu, en einnig í ljósi umsagna þar um. Verjandinn byggir á því að ákærði haldi í raun sjálfstætt og fullbúið heimili í bílskúr á lóð fasteignarinnar að […] og hafi hann því í raun verið gestkomandi á heimili móður sinnar og stjúpföður, brotaþolans B, að kveldi 7. febrúar 2018. Jafnframt byggir verjandi ákærða á því, að skilyrðum nefnds lagaákvæðis sé ekki fullnægt að því er varðar tengsl, og þar sem önnur atriði ákvæðisins séu ekki tiltekin í ákæru eigi þau ekki við, og þá ekki að því er varðar systur hans, brotaþolann C, sbr. ákvæði 152. gr. laga nr. 88/2008.

Skipaður verjandi byggir jafnframt m.a. á því að sakir gegn ákærða séu ósannaðar, sbr. ákvæði 109. gr. laga nr. 88/2008, en einnig byggir hann á því að alvarleiki ætlaðrar háttsemi ákærða í greint sinn hafi ekki verið slíkur að líta beri á atferlið sem sjálfstætt brot gegn systur hans og þá samkvæmt tilvitnuðu ákvæði barnaverndarlaga í ákæruskjali.

Skipaður verjandi byggir á því til vara að ákærði verði aðeins dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfi og að hún verði þá skilorðsbundin, sbr. að því leyti m.a. ákvæði 78. gr. hegningarlaganna. 

Að lokum krafðist verjandi ákærða þess að allur sakarkostnaður yrði lagður á ríkissjóð, a.m.k. að hluta til, en verjandinn krafðist enn fremur hæfilegra málsvarnarlauna, auk ferðakostnaðar.

 

I.

Málavextir:

1.         Samkvæmt frumskýrslu barst lögreglumönnum á […] erindi, miðvikudagskvöldið 7. febrúar 2018, kl. 19:00, þess efnis að brotaþolinn B hefði tilkynnt um líkamsárás, sem hann hefði orðið fyrir á heimili sínu að […], af hálfu stjúpsonar síns, ákærða í máli þessu.

Samkæmt nefndri lögregluskýrslu, sem rituð er af D lögregluvarðstjóra, fór hann á vettvang ásamt lögreglumanninum E og liggur fyrir að þeir hittu þar strax fyrir í anddyri nefnds íbúðarhúss brotaþolann B.

Í skýrslunni er því lýst að B hafi verið með sýnilega en minni háttar blæðandi áverka undir nefi vinstra megin. Er m.a. haft eftir B að stjúpsonur hans, ákærði, hafi skömmu áður veist að honum að ófyrirsynju þar sem hann hafi setið í stofusófa, en að undanfarinn hafi þó verið sá að hann hafi innt ákærða eftir því hvort hann hefði ekki efni á því að kaup sinn eigin mat.

Í skýrslunni segir frá því að nefnd stúlka, brotaþolinn C, hafi verið sjónarvottur að umræddum samskiptum B og ákærða, en jafnframt er skráð að ekki hafi verið um einstakt atvik að ræða þar sem áður hefði kastast í kekki millum þeirra á heimilinu.

Í skýrslunni segir frá því að lögreglumennirnir hafi heyrt á tal húsfreyjunnar Fí síma, en tekið er fram að hún hafi verið í uppnámi og þá sökum þess að hún hafi óttast um hagi sonar síns, ákærða, þar sem hann hefði skömmu áður farið frá heimilinu fótgangandi. Samkvæmt skýrslunni var brotaþolanum B leiðbeint á vettvangi um viðeigandi úrræði og þá eftir atvikum að bera fram formlega kæru á hendur ákærða, að fara fram á brottvísun hans af heimilinu ellegar að honum yrði gert að sæta nálgunarbanni. Loks hafi B verið ráðlagt að leita sér læknisaðstoðar.

Í frumskýrslunni er greint frá því að lögreglumennirnir hafi náð símasambandi við ákærða eftir að þeir fóru af vettvangi, en að auki hafi þeir hitt hann að máli síðar um kvöldið, og þá eftir að hann hafði komið sér fyrir í íverustað sínum í bílskúrnum við nefnt íbúðarhús. Greint er frá því að ákærði hafi þá verið allsgáður, kurteis og í ágætu jafnvægi. Haft er eftir ákærða að hann hafi átt í átökum við stjúpföður sinn, B, fyrr um kvöldið, en tekið er fram að ákærði hafi verið með sýnilega áverka á viðbeini hægra megin, sem hann hafi þó gert lítið úr og m.a. afþakkað aðstoð. Um tilefni átakanna er haft eftir ákærða að B hafi „eitthvað verið að pirra hann“ og jafnframt að þetta hafi ekki verið í fyrsta skiptið sem komið hefði til árekstra þeirra í millum, og að almennt væru samskipti þeirra best þegar þau væru sem minnst.

 

2.         Samkvæmt rannsóknargögnum hélt lögreglan áfram rannsókn sinni, en brotaefninu er lýst sem líkamsárás og hótunum á heimili og loks sem heimilisofbeldi. Liggur fyrir að þann 8. febrúar nefnt ár var brotaþolinn B boðaður til skýrslutöku, ásamt tilnefndum réttargæslumanni sínum, en í framhaldi af því var ákærði yfirheyrður um kæruefnið þann 9. febrúar og loks húsfreyjan og vitnið F, en hún gaf skýrslu um málsatvik þann 12. febrúar sama ár. Skýrslur þessar voru allar teknar upp með hljóði og mynd og eru viðeigandi diskar á meðal málsgagna.

 

Við nefndar lögregluyfirheyrslur kom m.a. fram að ákærði og móðir hans, vitnið F, hefðu verið saman í kvöldskóla þann 7. febrúar nefnt ár, og að móðirin hefði við heimkomu þeirra að […] boðið ákærða til kvöldverðar, en þá án vitneskju brotaþolans og eiginmannsins B. Liggur fyrir að er þetta gerðist hafi auk B stúlkan C, þá 6 ára, verið á heimilinu. Verður ráðið að eftir stutta viðveru í íverustað sínum, bílskúrnum, hafi ákærði komið inn í íbúðarhúsið og að þar, í eldhúsinu, hafi hann átt í orðaskiptum við B, sem þá hafi m.a. látið fyrrnefnd orð falla um matarkaup fullvinnandi manna, en að skömmu síðar hafi samskipti þeirra tveggja haldið áfram í stofunni og að þar hafi sá atgangur orðið sem varðar sakarefni þessa máls.

 

4.         Samkvæmt gögnum tilkynnti lögreglan barnaverndarnefnd um nefndan atburð. Af því tilefni liggur fyrir skýrsla G þroskaþjálfa um viðtal sem hún átti m.a. við stúlkuna C. Skýrslan er dagsett 20. febrúar 2018, en þar er m.a. vikið að því álitaefni hvort ofanlýstur atgangur ákærða og föður hennar, brotaþolans B, hefði haft sýnileg eftirköst fyrir stúlkuna. Greint er frá því í skýrslunni að stúlkan hafi munað eftir atganginum á heimilinu, en tekið er fram að hún hafi haft orð á því að hún hefði orðið hrædd, en jafnframt að hún bæri kvíðboga fyrir því að slíkir atburðir myndu endurtaka sig.

 

5.         Að fyrirlagi lögreglu var aflað læknabréfs frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands um áverka brotaþolans B. Bréfið er dagsett 8. apríl 2018, en efni þess var unnið upp úr sjúkraskrám samkvæmt vætti bréfritarans H læknis. Í læknabréfinu segir m.a. frá því að B hafi fyrst leitað til læknis þann 8. febrúar nefnt ár og þá vegna þeirra áverka sem hann hefði lýst að til væru komnir vegna árásar stjúpsonar síns kvöldið áður. Um sýnilega áverka B segir í bréfinu: …

Í læknabréfinu er lýst skoðun á B þann 16. febrúar sama ár, en þar um segir: …

Þá er í læknabréfinu lýst skoðun á B 16. mars nefnt ár, en þar um segir: …

Loks er í læknabréfinu greint frá horfum vegna lýstra áverka B, en þar um segir: ..

 

6.         Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu og því sem fram kom fyrir dómi hófu brotaþolinn B og vitnið F sambúð á árinu […]. Liggur fyrir að í lok ársins […] fluttust þau ásamt tveimur börnum sínum, þ. á m. stúlkunni C, svo og syni F frá fyrra hjónabandi, ákærða, í einbýlishúsið að […].

Húseignin […] var reist á árinu […], en eignin er 113,1 fm. Bílskúr, 34,4 fm, er áfastur húseigninni, en hann mun hafa verið reistur á árinu […]. 

Óumdeilt er að ekki er innangengt frá einbýlishúsinu í bílskúrinn. Þá er einnig óumdeilt að í bílskúrnum hefur verið innréttuð tveggja herbergja íbúð, þ. á m. með eldhúsinnréttingu og snyrtingu.

Ágreiningslaust er að þegar hjónin B og F fluttist að […] var ákærði 16 ára og að honum var þá búinn íverustaður í bílskúrnum. Hefur hann haldist þar við allt til þessa dags.

 

II.

Framburður ákærða og vitna:

1.         Ákærði hefur fyrir dómi neitað sök. Ákærði lýsir atvikum í aðalatriðum í samræmi við það sem rakið var í I. kafla hér að framan, þ. á m. að hann hafi ásamt móður sinni verið á kvöldnámskeiði, að þau hafi komið í einbýlishúsið að […] um kvöldmatarleytið og að hún hefði þá boðið honum til kvöldverðar. Hann hafi því fylgt henni inn í íbúðarhúsið, í stað þess að fara í íbúð sína í bílskúrnum, en er til hafi komið hafi lítið verið til matarkyns, og af þeim sökum hafi hann aðeins borðað brauðmeti, sem hann hafi fundið í ísskápnum í eldhúsinu.

Ákærði greindi frá því að er þetta gerðist hafi stjúpfaðir hans, B, setið inni í stofu og verið að horfa á sjónvarpið, en við þær aðstæður hafi hann látið fyrrgreind orð falla og sagði ákærði nánar þar um: „... hann byrjað að tuða í mér eitthvað yfir því að ég ætti að kaupa mér sjálfur mat, að ég sé í fullri vinnu sjálfur. Ég svona pæli ekkert í því fyrst og held bara áfram að borða ... en B heldur þessu tuði áfram.“ Ákærði sagði að þessi samskipti hefðu þróast á þann veg að hann hefði gengið inn í stofuna og stillt sér upp fyrir framan B, þar sem hann hafi setið í litlum tveggja sæta sófa, en því sem næst gerðist lýsti hann þannig:

Ég tek svona í peysuna á honum, með báðum höndum, hann var svona í flíspeysu, sem var aðeins rennt frá, ég halla mér svona yfir hann og tek í peysuna framan til á brjóstkassanum, hann sat bara og var alltaf að reyna að hundsa mig, og ég held honum bara, held bara í peysuna hans og klára að segja honum bara að ég vilji að hann hætti að skipta sér af mér og bara að ég kæri mig ekki um þetta endalausa tuð ... og ég vildi bara fá einhverja athygli hans og gerði það með þessum hætti. Og þegar ég gerði það, þá reynir hann fyrst að ýta mér í burtu og hristist eitthvað til, og svo bara hættir hann, og ég klára að tala við hann, og hækkaði róminn. Þegar maður er reiður þá er þetta sem maður gerir stundum … sleppi honum svo og fer ég út að labba.

Ákærði sagði að þessi síðastgreinda atburðarás hefði staðið yfir í u.þ.b. hálfa mínútu, og bar að B hefði setið allan þann tíma í sófanum og í raun ekki svarað honum og þar af leiðandi hundsað hann. Ákærði staðhæfði að ekki hefði verið um eiginleg átök að ræða þar sem hann hefði aðeins tekið í peysu B og þá framan á bringunni, en þá hefði B brugðist við og reynt að ýta honum frá sér í fyrstu, en síðan hætt því andófi. Ákærði kvaðst hins vegar hafa haldið áfram í peysu B og jafnframt staðið og talað yfir honum.

Ákærði kvaðst á verknaðarstundu ekki hafa litið svo á að hann hefði með lýstri háttsemi ráðist á stjúpföður sinn, B, og vísaði til þess að hann hefði frekar haldið honum, og áréttaði hann neitun sína á sakarefni ákæru. Nánar aðspurður játaði ákærði í aðalatriðum verknaðarlýsingu ákærunnar, að því frátöldu að hann kannaðist ekki við að hafa þrýst B niður í sófann. Þá kvaðst hann ekkert geta sagt til um þá áverka B, sem lýst er í ákæru og læknabréfi, en sagði að tök hans í greint sinn hefðu ekki verið harkaleg. Kvaðst ákærði helst telja að B hefði fengið áverka sína þegar hann sjálfur hefði verið að ýta á móti og þá einnig vegna rennilássins á eigin peysu. Þá ætlaði hann jafnframt að hans eigin áverkar hefðu komið til með sama hætti.

            Ákærði skýrði frá því að systir hans, C, hefði verið á vettvangi þegar atburður þessi gerðist og ætlaði hann helst að hún hefði verið á vappi á milli eldhússins og stofunnar. Í raun kvaðst ákærði ekkert hafa fylgst með gjörðum systur sinnar í greint sinn, en hann kvaðst a.m.k. ekki minnast þess að hún hefði farið að gráta. Ákærði kvaðst hins vegar ekki véfengja frásögn stúlkunnar líkt og hún var skráð eftir skýrslutöku í Barnahúsi, líkt og síðar verður rakið, og þ. á m. um að hún hafi verið sjónarvottur að atganginum í stofunni. Ákærði vísaði þó til eigin frásagnar hér að framan um atburðarásina og kvaðst helst ætla að stúlkan hefði orðið hrædd eftir á og þá vegna viðbragða móður þeirra, vitnisins F. Ákærði staðhæfði að samband þeirra systkininna hefði ætíð verið gott og bar að það hefði ekkert breyst í kjölfar þessa atburðar.

 

            Fyrir dómi áréttaði ákærði að hann héldi sérheimili í fyrrnefndum bílskúr, sem eins og fyrr var rakið er áfastur einbýlishúsinu að […]. Ákærði kvaðst ekki vera með leigusamning, en í þess stað greiddi hann móður sinni mánaðarlega 50 þúsund krónur og þá sem eins konar þvottagjald. Ákærði vísaði til og áréttaði að um sé að ræða fullbúna íbúð í bílskúrnum, en enn fremur vísaði hann til þess að ekki sé innangengt á milli húshlutanna. Ákærði kvaðst því fara um garðpallinn og að garðhurðinni er hann legði leið sína í íbúðarhúsið, heimili móður sinnar og stjúpföður, en hann kvaðst ekki hafa haft lykil að hurðinni, sem væri læst á nóttunni. Engu að síður kveðst hann telja sér heimilt að ganga um íbúðarhúsið og þá með leyfi móður sinnar. Ákærði skýrði frá því að hann neytti í raun sjaldan matar í húsakynnum móður sinnar og stjúpföður, enda liti hann ekki á sig sem heimilismann í því húsnæði.

            Ákærði skýrði frá því að nær frá upphafi kynna þeirra B hefðu lítil samskipti verið með þeim, en þar um vísaði hann helst til þess virðingarleysis og nöldurs sem B hefði viðhaft. Ákærði vísaði jafnframt til þess að í gegnum tíðina hefði komið til árekstra þeirra í millum og bar að það hefði m.a. leitt til þess að hann hefði eitt sinn kastað matardisk í vegg og í annað skiptið hefði hann eyðilagt heimilistæki í eldhúsinu. Ákærði sagði að eftir nefndan atburð, þann 7. nóvember sl., hefðu samskipti þeirra tveggja í raun alveg fallið niður. Vísaði ákærði til þess að það hefði verið hans leið til þess að bæta sig, en þá einnig til þess að koma í veg fyrir að leiðindaatburðir endurtækju sig.

 

Brotaþolinn og vitnið B lýsti aðstæðum og upphafi samskipta hans við ákærða umrætt kvöld með líkum hætti og hér að framan hefur að nokkru verið rakið. Vitnið kvaðst þannig hafa verið í stofu heimilisins, að horfa á sjónvarpið, þegar hann hafi látið fyrrnefnd orð falla við ákærða, varðandi matarkaup hans og þá í ljósi þess að hann væri fullvinnandi. Vitnið kvaðst í raun á þeirri stundu ekki hafa haft vitneskju um að eiginkona hans, vitnið F, hefði boðið ákærða til kvöldverðar og því hefðu þessi orð hans ekki verið réttlát í garð stjúpsonar síns, ákærða. Vitnið kvaðst í raun hafa bætt um betur, en þar um vísaði hann til þess að þegar ákærði hefði verið á leiðinni út úr húsinu hefði ákærði sagt honum að þegja, en hann þá svarað um hæl: „Það segir mér enginn að þegja í mínum húsum eða á þessu heimili.“ Vitnið sagði að er þessi síðastgreindu orðahnútar áttu sér stað hefði eiginkona hans og móðir ákærða verið í stofunni, en einnig dóttir þeirra, C. Vitnið bar að ákærði hefði brugðist við nefndum orðum í reiði og æsingi. Hefði ákærði  þannig ráðist á hann þar sem hann hafi hálflegið á bakinu í þriggja sæta stofusófa. Vitnið sagði að ákærði hefði fyrst gripið í peysu sem hann var íklæddur og þá framan á bringunni, rétt fyrir neðan hálskragann, en í framhaldi af því hefði ákærði tekið um báðar hendur hans og haldið þeim upp með líkama hans. Hann lýsti þessum atgangi nánar þannig: „Hann kemur og bara ... leggst ofan á mig og tekur hendurnar ... ég reyni fyrst að spyrna á móti.“ Vitnið kvaðst fljótlega hafa afráðið að taka ekki á móti ákærða og því hafi hann legið kyrr, en ákærði þrátt fyrir það haldið honum svolitla stund niðri; „og bara öskrar á mig. Ég held að ég hafi ekki svarað neinu.“ Vitnið sagði að viðskiptin í sófanum hefðu varað í um 2-3 mínútur, en eftir það kvað hann ákærða hafa rokið út úr húsinu, en áður viðhaft líflátshótanir í hans garð, líkt og hann hefði áður gert í þeirra samskiptum.

            Vitnið áréttaði að dóttir hans, C, hefði verið á vettvangi er nefndur atburður gerðist og ætlaði að það hefði verið rétt sem eftir honum væri haft í skýrslugjöf hjá lögreglu, þ.e. að stúlkan hefði verið við hlið hans í sófanum þegar ákærði réðist að honum. Vitnið staðhæfði að stúlkan hefði orðið „skíthrædd“ vegna atgangs ákærða og m.a. farið að gráta. Vegna þessa kvaðst vitnið þegar allt var um garð gengið hafa farið með stúlkuna í stutta stund til frændfólks og bar að hún hefði þá róast og jafnað sig. Vitnið sagði að í raun væri mjög gott samband á milli þeirra systkininna, en staðhæfði jafnframt að lítið mætti út af bregða og staðhæfði að stúlkan yrði hálfsmeyk þegar ákærði æstist í skapi, sem enn kæmi fyrir.

            Brotaþolinn B taldi að þau hjónin hefðu keypt saman fasteignina að […] á árinu […] og staðfesti jafnframt að eftir búferlaflutninga fjölskyldunnar hefði ákærða strax verið búið aðsetur í hinum sambyggða bílskúr. Vitnið staðfesti jafnframt að ekki væri innangengt millum húshlutanna og að ákærði greiddi leigu fyrir afnotinn, 50 þúsund krónur á mánuði, og þá til móður sinnar, sem væri skráð fyrir eigninni. Vitnið bar að af þessum sökum legði ákærði leið sína inn um svalahurðina og bar að það hefði hann gert flesta daga fyrir hinn umrædda atburð og þá m.a. til þess að borða með fjölskyldunni, jafnframt því sem hann hefði hafst við í húseigninni. Vitnið bar að úr þessum íverustundum ákærða hefði dregið hin síðustu misserin og þá ekki síst eftir margnefndan atburð og atgang.

            B lýsti að öðru leyti samskiptum sínum við ákærða með líkum hætti og áður hefur verið rakið, en hann áréttaði að ákærði kæmi enn inn á heimilið og staðhæfði að á þeim stundum viðhefði hann stundum ógnandi hegðan í sinn garð, líkt og hann hefði gert fyrir þann atburð sem hér um ræðir.

 

            Vitnið F, móðir ákærða, lýsti aðdragandanum að þeim atburðum sem urðu á heimili hennar umrætt kvöld með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið og þar á meðal að brotaþolinn F, eiginmaður hennar og stjúpfaðir ákærða, hefði ekki haft vitneskju um að hún hafði boðið ákærða til kvöldverðar. Vitnið sagði að engu að síður hefði B byrjað að viðhafa óþarfa og „leiðindar tuð“ gegn ákærða og þá varðandi matarkaup hans. Er þetta gerðist kvaðst vitnið hafa setið hjá B í stofusófanum, líkt og dóttir þeirra, C, en staðhæfði að stúlkan hefði verið farin úr stofunni þegar atgangur byrjaði, en hins vegar komið á nýjan leik á meðan á honum stóð, en þá aðeins undir lokin.

Vitnið bar að ákærði hefði snöggreiðst vegna fyrrnefndra orða B og kvaðst hafa fylgst með því þegar hann hefði gengið til stjúpföður síns, þar sem hann hafi setið í hallandi stöðu í sófanum og verið að horfa á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu. Vitnið kvaðst einnig hafa fylgst með því þegar ákærði hefði tekið um hendur B, sem þá hafi verið nærri brjóstkassanum, og ýtt honum niður í sófann og þá með þeim orðum að hann ætti að hætta fyrrnefndu orðbragði. Vitnið sagði að ákærði hefði haldið B niðri smástund, sem hefði í vörn sinni tekið á móti, en framhaldinu lýsti vitnið þannig: „... og þeir renna einhvern veginn svona í andlitið á honum (B) ... og þá vessar eitthvað smávegis úr nefinu á B.“ Vitnið sagði að ákærði og B hefðu báðir verið mjög æstir þegar atburður þessi gerðist. Vitnið bar að atgangur þeirra hefði varað í um 3-4 mínútur og sagði að B hefði svarað fyrir sig með orðum og m.a. hótað kærum, líkt og hann hefði áður gert í samskiptum þeirra tveggja. Vitnið bar að ákærði hefði að lokum brugðist við, en þá með því að rjúka út úr húsinu. Vitnið áréttaði að skömmu áður en atganginum lauk hefði dóttir hennar, C, komið á ný inn í stofuna og staðhæfði að þá hefði B blásið atburð þennan upp og þá með því að segja við stúlkuna: „A var að meiða mig. Vitnið bar að stúlkunni hefði verið brugðið í fyrstu, en kvaðst ætla að það hefði ekki síst verið vegna óttaviðbragða hennar sjálfrar og þá vegna viðbragða ákærða eftir að hann hafði farið út úr húsinu. Vitnið sagði enn fremur að stúlkan hefði ætíð verið ofsalega hrædd þegar pabbi hennar, brotaþolinn B, sýndi hræðslumerki eða yrði reiður, en bar að í greint sinn hefði stúlkan einnig sýnt óttamerki vegna komu lögreglumanna á heimilið. Vitnið staðhæfði að stúlkan hefði jafnað sig fljótt á þessum atburði og staðhæfði að í raun hefði hann ekki haft áhrif á hana. Vitnið sagði frá því að stúlkan væri hænd að bróður sínum, ákærða, og bar að það hefði ekkert breyst eftir nefndan atburð.

Vitnið F skýrði frá því fyrir dómi að til margra ára hefðu samskipti ákærða og brotaþolans B verið slæm. Af þesssum sökum kvaðst hún er fjölskyldan fluttist í einbýlishúsið að […] hafa komið ákærða fyrir í bílskúrnum, enda hefði hann áður verið nýttur sem leiguíbúð: „... ég gaf honum bara leyfi til að vera þarna, og þá þannig að þeir tveir, B og A, þyrftu ekki að vera undir sama þaki ... hann, (ákærði) bjó aldrei eftir það inni hjá okkur.

Vitnið greindi frá því að öll fjölskylda hennar væri skráð með lögheimili á nefndri eigin, […]. Vitnið kvaðst ekki hafa gert leigusamning við ákærða vegna aðstöðu hans bílskúrnum, en bar að þau hefðu samið sín í millum um að hann greiddi fyrir rafmagn, hita og sameiginlegan internetaðgang heimilisins, en einnig þvottagjald, enda annist hún þann þáttinn, samtals 50 þúsund krónur á mánuði. Vitnið bara að ekki væri um eiginlegar leigugreiðslur að ræða af hálfu ákærða.

Vitnið skýrði frá því að fyrir nefndan atburð hefði komið til atgangs millum ákærða og eiginmanns hennar og bar að hinir fyrri atburðir hefðu í raun verið alvarlegri. Vitnið staðhæfði að upp á síðkastið hefði ástandið heldur lagast og sagði að svo virtist vera að með þeim tveimur væri þegjandi samkomulag um að sniðganga alveg hvor annan, auk þess sem ákærði héldi sig nú enn meira en áður í aðstöðu sinni í bílskúrnum, en þar væri hann einn á báti.

 

            Samkvæmt gögnum gaf stúlkan C skýrslu í Barnahúsi við rannsókn lögreglu, undir stjórn dómara, en að viðstöddum tilnefndum réttargæslumanni, og þá um atvik máls, að kveldi 7. febrúar 2018. Í skýrslunni greinir stúlkan frá því að hún hafi fylgst með atgangi hálfbróður síns og föður, ákærða og B, umrætt kvöld. Skýrði hún m.a. frá því að upphafið hafi verið á þá leið að þeir tveir hefðu átt í samræðum, að ákærði hefði reiðst vegna orða eða spurninga B, en eftir það hefði hún fylgst með samskiptum þeirra í stofunni og þá helst í stofusófanum. Stúlkan skýrði frá því að er þetta gerðist hefði bróður hennar, ákærði, legið hátt rómur. Að auki hafði hún orð á því að bæði ákærði og faðir hennar hefðu talað strangt. Við þessar aðstæður kvaðst stúlkan hafa heyrt föður sinn segja við bróður sinn, ákærða, að hann ætti að haga sér vel. Stúlkan lýsti nánar aðstæðum og atgangi þeirra nánar þannig: „Við vorum inni í stofunni ... ég sat í sófanum og pabbi sat í sófanum ... A kom bara eitthvað og pabbi var bara sitjandi í sófanum að horfa á fréttir og veður eða eitthvað, ég man það ekki alveg og þá kom hann bara og hann láta svona leggjast í sófann og svo ýtti hann honum bara ... og pabbi rykkti eitthvað svona, til að toga sig upp en A ýtti honum aftur til baka og bolurinn hans A rifnaði og hérna rennilásinn rifnaði hérna hjá pabba ... A togaði eitthvað svona í ... rykti eitthvað svona í peysuna ... og það kom smá svona blóð ... Og sófinn færðist eitthvað til og teppið færðis allt og all í rugli og mamma þurfti að laga.

Fram kom hjá brotaþolanum C að hún hefði fylgst með því er ákærði hefði rokið út úr húsinu og bar að hann hefði þá jafnframt skellt á eftir sér útihurðinni. Þá kvaðst hún minnast þess er lögreglumenn komu á heimilið og bar að það hefði gerst eftir að faðir hennar hafði hringt eftir aðstoð. Jafnframt kvaðst hún hafa veitt því eftirtekt að móðir hennar hefði grátið.

Stúlkan lýsti líðan sinni er atvik máls gerðust og bar að henni hefði liðið svolítið illa, en sagði nánar þar um: „Ég var svolítið hrædd reyndar þegar A fór út og ég var eitthvað bara titraðist mjög mikið og samt ég fór eða þú veist sat við hliðina á pabba og knúsaði hann bara ennþá á sjónvarpið ... Ég sat bara hjá pabba alveg við hliðina á honum, en ég titraði soldið lengi ... og svo fór hann bara í stóran göngutúr.“ Stúlkan greindi loks frá því að atburður sem þessi hefði ekki verið einsdæmi, en í því sambandi nefndi hún einkum eitt tilvik, en þó án þess að geta greint frá því frekar þar sem langt væri um liðið.

 

Fyrrnefndir lögreglumenn staðfestu fyrir dómi áðurnefnd rannsóknargögn, þar á meðal frumskýrslu. Var frásögn þeirra í samræmi við efni þessara gagna, en m.a. kom fram í vætti þeirra að brotaþolinn C hefði verið þögul á vettvangi. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra frekar.

 

III.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa að kveldi 7. febrúar 2018 á sameiginlegu heimili sínu, móður sinnar, fósturföður og systkina ráðist á fósturföður sinn, B, og valdið honum áverkum með áðurlýstum hætti og þá þannig að ung systir hans og dóttir brotaþolans B hafi verið vitni að átökunum og að þessi framganga hans hafi verið ruddaleg, ósiðleg, móðgandi og vanvirðandi gagnvart stúlkunni.

Í ákæru er lýst háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sbr. breytingarlög nr. 23/2016, en þar er um að ræða ákvæði um heimilisofbeldi sem tók gildi 30. mars 2016.

Jafnframt er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Í 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaganna segir að hver sá sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Þá segir í 3. mgr. lagagreinarinnar að hver sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

 

Ákvæði 1. mgr. 218. gr. b hljóðar svo, eftir fyrrnefnda lagabreytingu:

            „Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

 

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er vegna, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga.

Í dómaframkvæmd hafa fyrirmæli þessa lagaákvæðis verði skýrð svo að verknaðarlýsing í ákæru verði að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverðu háttsemi honum er gefin að sök og við hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur.

Að álit dómsins er fullnægt ofangreindum formskilyrðum í ákæru.

 

Verjandi ákærða mótmælir því að háttsemi ákærða, þótt sönnuð teljist, geti varðað við nefnd ákvæði 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaganna og enn fremur við ákvæði í 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum um ofbeldi í nánum samböndum (heimilisofbeldi) sem tekið var í lög með 4. gr. laga nr. 23/2016.

            Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 23/2016 segir m.a:

Með ákvæðinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, er verði 218. gr. b, þar sem ofbeldi í nánum samböndum verði sérstaklega lýst refsivert. [...] Ákvæðið er nýmæli og hefur við samningu þess verið höfð hliðsjón af norskum hegningarlagaákvæðum um sama efni, [...]. Með ákvæðinu er lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Athyglin er þannig færð á það ógnar- og óttaástand sem getur skapast og jafnframt á þá viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmátt sem þolandi upplifir við slíkar aðstæður.

            Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er það gert að skilyrði að háttsemi sé endurtekin eða alvarleg svo hún verði refsiverð samkvæmt ákvæðinu. Með því að háttsemi sé endurtekin er vísað til þess að hún hafi staðið yfir í lengri eða skemmri tíma þannig að telja megi að viðvarandi ógnarástand hafi skapast. Þó er ekki útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið ef það nær tilteknu alvarleikastigi. Minni háttar brot sem ekki ná því stigi gætu eftir sem áður varðað við vægari refsiákvæði eins og 1. mgr. 217. gr. laganna. [...] Þá er vernd barna sem búa við ofbeldi aukin með ákvæðinu. Ákvæðið verndar öll börn sem búa við heimilisofbeldi hvort sem verknaður eða aðferð sem beitt er til að skapa ástand ógnar, ofríkis eða kúgunar beinist beinlínis gegn þeim eða ekki.

            Í athugasemdum með ákvæðinu segir enn fremur að þar séu sérstaklega taldar upp verknaðaraðferðir sem nú þegar geta falið í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt hegningarlögum, og er þar m.a. nefnt ofbeldi (217. og 218. gr.). Ofbeldi í nánum samböndum geti hins vegar birst á fleiri vegu, svo sem í félagslegu, andlegu og „fjárhagslegu ofbeldi, sem nánar er skýrt í athugsemdunum. Í þessu ljósi sé lagt til að refsinæmi ákvæðisins verði ekki bundið við verknaði sem nú þegar geta falið í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum, heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki getur falið í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum. 

            Nánar segir um ákvæðið, í almennum athugasemdum: „Með setningu sérstaks ákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum í almenn hegningarlög felst táknræn viðurkenning löggjafans á sérstöðu slíkra brota sem og þess að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt og sé vandamál sem sporna beri við með öllum tiltækum ráðum. Er mikilvægt að þessi samfélagslega afstaða endurspeglist í löggjöf frá Alþingi og þau skilaboð send að um sé að ræða háttsemi sem ekki líðist í lýðræðislegu þjóðfélagi. [...] Í lögfestingu sérstaks refsiákvæðis sem og hækkun refsiramma vegna ofbeldisbrota í nánum samböndum felast jafnframt tiltekin varnaðar- og fyrirbyggjandi áhrif. [...]

            [...] Hefur ákvæðið það að markmiði að tryggja þeim sem þurfa að þola alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd [en] gildandi refsilöggjöf gerir. Í því sambandi er sérstaklega vert að geta þess að líkamsmeiðingaákvæði almennra hegningarlaga ná eðli málsins samkvæmt einungis til líkamlegs ofbeldis en ekki til andlegs ofbeldis, svo sem kúgana, hótana eða niðurlæginga, sem er algeng birtingarmynd ofbeldis í nánum samböndum. Er hinu nýja ákvæði ætlað að taka á þessum vanda og er með því horfið frá því að líta á ofbeldi í nánum samböndum sem samansafn einstakra tilvika og athyglin færð á þá viðvarandi ógn og andlegu þjáningu sem það hefur í för með sér. Með öðrum orðum þá verði ofbeldisbrot í nánum samböndum virt heildstætt og eftir atvikum án þess að sanna þurfi hvert og eitt tilvik fyrir sig, [...]. Er ákvæðinu þannig fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hefur yfir í lengri eða skemmri tíma þótt því verði jafnframt beitt um einstök alvarleg tilvik. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir að hinu nýja ákvæði, sem fjallað er um 4. gr. frumvarpsins, verði að meginstefnu beitt einu og sér en ekki samhliða öðrum refsiákvæðum hegningarlaga, svo sem þeim sem fjalla um líkamsmeiðingar (217. og 218. gr.) [...].

 

Ákærði neitar sök. Ákærði hefur þó lýst því fyrir dóminum að hann og brotaþolinn B, sem er stjúpfaðir hans, hafi átt í orðaskiptum umrætt kvöld. Ákærði hefur og borið að honum hafi runnið í skap af þeim sökum. Með vætti brotaþolans B, en einnig vætti móður ákærða, verður lagt til grundvallar að greind orðræða B hafi í raun verið tilefnislaus eins og á stóð.

Ákærði hefur lýst því að hann hafi í framhaldi af lýstum orðaskiptum farið að stúpföður sínum, brotaþolanum B, þar sem hann hafi setið í stofusófa og tekið hann tökum.

Með skýrum og trúverðugum framburði brotaþolans B, en einnig stúlkunnar C, svo og með hliðsjón af framburði vitnisins F, er að áliti dómsins eigi varhugavert, og þá í ljósi staðfests læknabréfs, að telja sannað að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem lýst er í fyrri hluta ákærunnar. Þá er að mati dómsins sannað með framburði nefndra vitna, að nefnd systir ákærða, brotaþolinn C, sem þá var 6 ára, hafi verið nærstödd er atvik gerðust og að hún hafi þannig verið áhorfandi að gjörðum ákærða.

Með vætti brotaþolans B, en einnig skýrum framburði nefndrar stúlku við dómsyfirheyrslu í Barnahúsi, sem þykir hafa nokkra stoð í frásögn og skýrslu vitnisins G þroskaþjálfa, er að áliti dómsins sannað að stúlkan hafi orðið hrædd og miður sín vegna lýstrar háttsemi ákærða.

Lögheimili í nefndri húseign, […], eiga auk ákærða ættimenni hans, þ. á m. nefnd systir hans, C, en einnig brotaþolinn B, sem er stjúpfaðir hans, sbr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018, sbr. áður lög nr. 21/1990 um sama efni.

Það er niðurstaða dómsins að virtum áðurlýstum aðstæðum heildstætt, að nefndir brotaþolar búi báðir með ákærða á nefndu heimili. Það er og niðurstaða dómsins að ofangreindu virtu að ákærði hafi með háttsemi sinni í greint sinn skapað ógn og ofríki og að með því hafi hann m.a. ógnað velferð brotaþolans C þegar litið er til ungs aldurs hennar. Að áliti dómsins eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 218. gr. b í almennum hegningarlögum auk 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaganna, sbr. m.a. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 113/2015. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru.

 

IV.

Ákærði, sem er […] ára, hefur samkvæmt sakavottorði áður sætt refsingum, sem áhrif hafa í máli þessu. Ákærði gekkst þannig undir viðurlagaákvörðun fyrir dómi vegna þjófnaðarbrots þann 16. apríl 2013 og var honum þá gert að greiða sekt til ríkissjóðs. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra þann 13. mars 2014 vegna brota gegn fíkniefnalöggjöfinni. Þá var ákærði þann 20. október 2015 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir alvarlega líkamsárás, sem hann framdi þegar hann var 19 ára. Þá var ákærði þann 14. ágúst 2018 dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás, en þá að virtri hinni fyrri refsingu sem hann hafði verið dæmdur til á árinu 2015.

Þau brot sem til umfjöllunar eru í þessu máli voru framin áður en dómurinn frá 14. ágúst 2018 var kveðin upp. Refsingu ákærða nú verður því að ákvarða með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þá þannig að hin skilorðsbundna fangelsisrefsing samkvæmt dóminum frá 14. ágúst 2018 verður tekin upp og dæmd í einu lagi og með í þessu máli. Við ákvörðun refsingar ákærða verður auk þessa m.a. litið til 1. töluliðs 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna.

Þykir refsing ákærða að öllu ofangreindu virtu og í ljósi nefndra hegningaraukaáhrifa hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi. Fært þykir eftir atvikum að skilorðsbinda refsinguna og þá þannig að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Að kröfu lögreglustjóra, en einnig í ljósi málsúrslita, sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, en þó ekki að fullu, að virtum andmælum skipaðs verjanda ákærða við aðalmeðferð málsins.

Samkvæmt framlögðu yfirliti lögreglustjóra, en einnig bréfi, sbr. dskj. nr. 1 og 6, ber að dæma ákærða til að greiða reikninga vegna læknisvottorðs, 20.000 krónur, vegna flugfargjalda vegna ferða í Barnahús, 127.200 krónur, og bifreiðarkostnaðar, 4.080 krónur, samtals 151.280 krónur. Á hinn bóginn verður ekki fallist á með ákæruvaldinu að ákærði verði dæmdur til að greiða reikning lögreglu vegna aðkeyptrar þjónustu vegna ritvinnslu á skýrslu í Barnahúsi að fjárhæð 54.188 krónur.

Að auki verður felldur á ákærða samkvæmt yfirlitum kostnaður vegna þóknunar réttargæslumanns á rannsóknarstigi, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig vegna ferðalaga hans, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig vegna ferðakostnaðar hans, eins og nánar segir í dómsorði.

 

Af hálfu ákæruvalds fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari, en skipaður verjandi ákærða var Gísli M. Auðbergsson lögmaður.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 fyrir uppkvaðningu dómsins.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.275.360 krónur, að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, að fjárhæð 737.800 krónur, auk útlagðs kostnaðar verjandans að fjárhæð 44.600. krónur og þóknunar réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Jónssonar lögmanns, 281.480 krónur og ferðakostnaðar hans að fjárhæð 60.200 krónur. Annar sakarkostnaður fellur á ríkissjóð.