• Lykilorð:
  • Líkamsárás

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 11. janúar 2019 í máli nr. S-34/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknar)

 gegn

 Elvari Pálssyni

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 21. september sl., á hendur Elvari Pálssyni, kennitala […], […], […]:

            fyrir líkamsárás á […], með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 30. júní 2018 á skemmtistaðnum […], […], […], slegið A, tvö högg í líkama og hendi með skefti af álskóflu, með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli og bólgu á handarbak hægri handar, eymsl og roða á vinstri olnboga og eymsl og roða á síðu vinstra megin.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 303.100, auk vaxta  skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. júní 2018. Hafi krafan ekki verið greidd þann 14. september 2018, er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til hans kemur. Auk þess er krafist fjárhæðar samsvarandi virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.“

 

Skipaður verjandi, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, krefst þess að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin, en jafnframt krefst hann þess að fjárhæð einkaréttarkröfu verði lækkuð. Þá krefst hann hæfilegra málflutningslauna með hliðsjón af eigin tímaskýrslu, auk ferðakostnaðar.

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og háttsemi hans er lýst í ákæru.

Lýst játning ákærða er í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu, þ. á m. frumskýrslu þar sem m.a. er greint frá viðbrögðum gesta og lögreglumanna við atgangi ákærða og síðan handtöku hans klukkan 03:25, en óumdeilt er að hann var þá mjög ölvaður eftir að hafa fallið á nokkurra mánaða bindindi eftir áfengismeðferð. Játning ákærða hefur einnig stoð í ljósmyndum lögreglu af umræddu álskólfuskafti og af áverkamerkjum brotaþola, en einnig læknisvottorði, sem ritað var að beiðni lögreglu. Í síðastgreinda skjalinu er lýst skoðun á brotaþola, sem fram fór aðfaranótt 30. júní sl., en það er í samræmi við það sem segir í ákæruskjali. 

            Með játningu ákærða og með vísan til alls ofangreinds er að álit dómsins eigi ástæða til að efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm. Er því nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst, en brot hans er þar réttilega heimfært til laga.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali.

 

II.

            Ákærði, sem er […] ára, á baki talverðan sakarferil, sem nær allt aftur til ársins 2007. Þær refisákvarðanir sem áhrif hafa á refsingu ákærða nú eru, að hann var þann 10. apríl 2015 m.a. dæmdur fyrir líkamsárás, en það brot framdi hann þann 9. nóvember 2013. Með þessum dómi var ákærði einnig dæmdur fyrir endurtekin fíkniefnakstursbrot og fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni, en vegna þessa alls var hann dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisrefsingar, sem var skilorðsbundin til tveggja ára, auk þess sem hann var dæmdur til að greiða sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti ævilangt. Næst var ákærði dæmdur þann 20. maí 2016 fyrir fíkniefna- og sviptingarakstur, sem hann gerðist sekur um þann 5. apríl það ár. Með nefndum brotum rauf ákærði skilorð hins fyrra dóms og var því sá dómur tekin upp, sbr. ákvæði 60. gr. hegningarlaganna, í stað þess að láta skilorðið haldast, og var ákærða því gerð refsing í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Var ákærði því dæmdur í sex mánaða fangelsi, en þar af voru fjórir mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára, en einnig var hann dæmdur til að greiða sekt til ríkissjóðs og loks var ævilöng ökuréttarsviptin hans áréttuð. Þessi síðast greindi dómur var birtur ákærða 1. júni 2016, en ákærði lauk fullnustu hins óskilorðsbundna hluta hans með samfélagþjónustu þann 30. maí 2018. Þá stóðst hann skilorðshluta dómsins, sbr. að því leyti ákvæði 61. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt sakavottorði var ákærði síðast dæmdur þann 1. mars 2017, til þess að greiða sekt til ríkissjóðs, m.a. fyrir að aka ökutæki sviptur ökuréttindum.

 

            Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur í máli þessu gerst sekur um líkamsárás, sem heimfærð er undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaganna, sbr. að því leyti 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga.

            Eins og áður sagði játaði ákærði brot sitt skýlaust fyrir dómi, en jafnframt lýsti hann yfir eindreginni iðran, líkt og hann hafði áður gert samkvæmt rannsóknarskjölum lögreglu. Þá hefur ákærði fallist á bótaskyldu. Á hinn bóginn leysir ölvunarástand ákærði á verknaðarstundu hann ekki undan refsingu eða réttlætir hátternið, sbr. ákvæði 17. hegningarlaganna.

            Að öllu ofangreindu virtu og þar sem hagir ákærða virðast hafa breyst til betri vegar að undanförnu, en hann er nú í fastri vinnu og hefur fyrir ungri fjölskyldu að sjá, sbr. m.a. ákvæði 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, þykir refsing hans að virtum sakarferli eftir atvikum hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar segir í dómsorði.

 

III.

            Jón Jónsson lögmaður lagði fram einkaréttarkröfu við lögreglurannsókn málsins og er henni lýst hér að framan. Krafan sundurliðast nánar þannig: a) komugjald á sjúkrahús, 3.100 krónur og b) miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur.  

Lögmaðurinn rökstuddi kröfuna fyrir dómi og vísaði m.a. til 26. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993.

            Fyrir dómi hefur ákærði, eins og fyrr sagði, fallist á bótaskyldu, en hann krafðist aftur á móti lækkunar kröfunnar.

            Áverkum brotaþola er m.a. lýst í áður greindu læknisvottorði og er ekki vafi á að hann hefur um nokkra hríð verið hrjáður af verkjum vegna athæfis ákærða. Á hann rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna háttseminnar, sbr. ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að þessu virtu og atvikum máls að öðru leyti þykja miskabæturnar hæfilega ákveðnar 275.000 krónur, ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir, en bótakrafan var birt ákærða 16. ágúst sl. Gegn andmælum ákærða og þar sem a-liður nefndrar bótakröfu er eigi nægjanlega rökstuddur með skilríkjum ber að vísa þeim þætti kröfunnar frá dómi. Ákærði verður hins vegar dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað sökum þess að hann varð að halda kröfu sinni fram, og þykir sá kostnaður hæfilega ákvæðin 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda við alla meðferð málsins, fyrir lögreglu og dómi, en einnig útlagðan ferðakostnað, eins og nánar segir í dómsorði og þá með hliðsjón af tíma- og verkskýrslu.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:    

            Ákærði, Elvar Pálsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði A, 275.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 30. júní 2018 til 16. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. sömu laga. Að auki greiði ákærði A málskostnað að fjárhæð 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Ákærði greiði sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 421.600 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað hans að fjárhæð 37.400 krónur.