• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 27. júní 2018 í máli nr. S-9/2018:

Ákæruvaldið

(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

(Ásmundur Jónsson lögmaður)

gegn

A

(Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 8. nóvember 2017, á hendur A, kennitala […], nú til heimilis að […] á […],

            „fyrir líkamsárás á […] með því að hafa snemma morguns sunnudaginn 12. nóvember 2017, að […], […], slegið B eitt hnefahögg í andlitið með krepptum hnefa hægri handar, með þeim afleiðingum að neðri kjálki brotnaði á tveimur stöðum.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu brotaþola B er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 2.013.582, úr hendi ákærða, með vöxtum samkvæmt 8. gr.  vaxtalaga nr. 38/2001, frá 12. nóvember 2017, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða, til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, fyrir að halda fram bótakröfu þessari.“

 

            Skipaður verjandi, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, hefur í greinargerð og við flutning málsins fyrir dómi krafist þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, og er á því byggt að um neyðarvarnarverk hafi verið að ræða. Til vara krefst verjandinn þess að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

            Verjandinn krefst þess jafnframt að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni. Loks krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði og þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans.

 

I.

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum eru helstu málsatvik þau að aðfaranótt sunnudagins 12. nóvember 2017 voru ákærði, A, brotaþolinn B og vitnið C að skemmta sér ásamt fleira fólki í einbýlishúsinu að […] á […]. Þeir voru allir gestkomandi og þekktust í raun ekkert fyrir, en fyrr um nóttina höfðu þeir verið á skemmtistöðum í bæjarfélaginu.

            Fyrir liggur að þegar komið var fram undir morgun voru nefndir aðilar í stofu íbúðarhússins.  Nánar tiltekið og samkvæmt frásögn ákærða og C voru þeir tveir í tungusófa, en hann var einn af þremur slíkum í stofunni. Við þessar aðstæður staðhæfa þeir að brotaþoli hafi komið að þeim.

            Brotaþoli hefur við meðferð málsins lítið getað tjáð sig um málsatvik sökum minnisleysis, en fyrir liggur að ákærði og C kvöddu til lögreglu og sjúkraliðsmenn kl. 8:14, vegna áverka sem brotaþoli hafði þá skömmu áður hlotið.

            Samkvæmt staðfestum skýrslum hittu lögreglumenn, sem fóru á vettvang, vitnið C fyrir utan íbúðarhúsið og vísaði hann þeim til stofu þar sem fyrir voru ákærði og brotaþoli, og lá sá síðarnefndi þar fyrir í fyrrnefndum sófa og var með hljóðum.

            Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að ákærði hafi strax verið skilinn frá brotaþola. Tekið er fram að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis, en að hann hafi verið stöðugur í göngulagi og hreyfingum og að auki rólegur í fasi. Greint er frá því að ákærði hafi strax verið yfirheyrður um málsatvik, en ekki er getið um að áður hafi verið gætt réttarfarsákvæða, sbr. ákvæði 64. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Tekið er fram í skýrslunni að ákærði hafi ekki verið með sýnilega áverka, en að hann hafi verið blóðugur á höndum, auk þess sem föt hans hafi verið með blóðkámi.

            Í nefndri skýrslu er greint frá því að brotaþoli hafi verið lítt viðmælandi sökum ölvunar, auk þess sem hann hafi kvartað mikið undan sársauka. Fram kemur að vegna ástands brotaþola hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöð til frekari skoðunar. Er haft eftir nafngreindnum lækni að brotaþoli væri að líkindum tvíkjálkabrotinn og er frá því greint að strax hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að flytja hann með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík. Gekk það eftir.

            Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að eftir hinar fyrstu aðgerðir hafi lögreglumenn farið á ný í nefnt íbúðarhús og að þá hafi þeir m.a. tínt saman föggur brotaþola og rætt við aðila sem þar voru staddir. Skráð er að enginn þeirra hafi séð hvernig brotaþoli hlaut greinda munnáverka. Fyrir liggur að lögreglumennirnir tóku ljósmyndir, klukkan 9:28, þ. á m. í umræddri stofu og við fyrrnefndan tungusófa, en í myndatexta og merkingu á einni myndanna er m.a. vísað á lítinn blóðpoll á gólfinu við hlið tungusófans.

            Af rannsóknargögnum lögreglu verður ráðið að grunsemdir hafi strax vaknað um að ákærði væri valdur að áverkum brotaþola, en jafnframt að nokkur aðdragandi hafi verið að viðskiptum þeirra tveggja.

 

2.         Á meðal rannsóknargagna lögreglu er vottorð Heilsugæslunnar á […], dagsett 29. desember 2017, um brotþolann, B. Vottorðið er ritað af yfirlækni heilsugæslustöðvarinnar, en fyrir dómi kom fram að við ritun þess hefði verið stuðst við samtímaskráningu læknis, sem var á vakt er brotaþoli kom á heilsugæslustöðina umræddan morgun. Í vottorðinu segir m.a. um ástand og áverka brotaþola:

Almennt: Grannvaxinn, sjáanlega ölvaður, blóðug skyrta, óstöðugur á fótum. Fylgir fyrirmælum og er rólegur. Ekki sjáanlegir áverkar á andliti. …

Munnhol: hægri neðri tanngarður: stallur, þegar tekið er í mandibulu og henni þrýst létt niður heyrist smellur og neðri partur mandibulu þeim megin sést hreyfast. sé í munnholi coagulerað sár fyrir neðan stall og því ekki aktív blæðing.

Álit og plan :.. kjálkabrot: … þarf líklega skurðaðgerð. …

 

            Eins og fyrr sagði var brotaþoli fluttur á Landspítalann í Reykjavík þann 12. nóvember 2017, en á meðal gagna lögreglu eru sjúkraskrár og nótur spítalans um brotaþola. Segir þar m.a. frá því að brotþoli hafi verið ölvaður við komu, en einnig að hann hafi haft orð á því að hann hefði neytt smávegis af spítti og tekið inn 1 stk. E-pillu. Um áverka brotaþola og meðferð segir hins vegar nánar:

Fengin tölvusneiðmynd sem sýnir tvíbrotna mandibulu, á corpus mandibulu hægra megin og við angulus vinstra megin. Fór samdægurs í aðgerð þar sem D kjálkakirurg festi brotið með titaniumplötum á báðum stöðum. … Útskrifaðist daginn eftir á verkjalyfjum og Kåvepenin og var fyrirhugð saumataka eftir viku og fljótandi fæði í mánuð og endurkoma hjá D eftir þörfum.

 

            Á meðal rannsóknargagna er áverkavottorð E, heilsugæslulæknis á […], sem dagsett er 20. desember 2017. Í vottorðinu segir frá því að læknirinn hafi skoðað ákærða þann 17. nóvember sama ár og að hann hafi þá sérstaklega gætt að tilteknum áverkamerkjum á fótleggjum ákærða, sem hann og móðir hans höfðu að sögn veitt athygli 13. sama mánaðar. Nánar segir um þetta í vottorðinu:

Á mánudag sást að sögn móður og sjúklings rautt far eftir fót á innanverðum lærum í sömu hæð báðum megin og var bólginn og rauður hér. Var með léttan sársauka þá og fann sársauka við gang sem hvarf á nokkrum dögum. Kemur til skoðunar vegna kæru um líkamsárás, en nú 5 dagar síðan árásin varð.

Skoðun: Ekki sést mar, rispur eða roði á húð á lærum né fótleggjum. Létt eymsl við hreyfingu á innanverðu læri ofarlega báðum megin. Annað finnst ekki við skoðun.

 

3          Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu bar brotaþoli fram kæru á hendur ákærða á lögreglustöðinni á […] þann 8. desember 2017 og gaf hann þá jafnframt skýrslu um málsatvik.

            Í kjölfar nefndrar kæru hélt lögregla áfram rannsókn máls þessa og þá helst með öflun áðurrakinna heilsugæslu- og sjúkrahússgagna, enda hafði þá þegar verið tekin skýrsla af ákærða, þann 16. nóvember, en viðstaddur þá yfirheyrslu var tilnefndur verjandi, sem síðar var skipaður til starfans fyrir dómi. Að auki hafði verið tekin skýrsla af vitninu C, þann 7. desember nefnt ár. Allar þessar skýrslur voru teknar með hljóði og mynd og eru diskar þar um á meðal málsgagna.

 

II.

            Fyrir dómi hefur ákærði játað að hafa slegið brotaþola, B, einu hnefahöggi í andlitið, líkt og lýst er í ákæru. Þá véfengir hann ekki að brotaþoli hafi kjálkabrotnað við höggið. Ákærði neitar hins vegar refsi- og skaðabótaábyrgð vegna athæfisins og vísar þar um til neyðarvarnarverks.

            Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum máls að morgni 12. nóvember 2017. Ákærði ætlaði að klukkan hefði verið eitthvað yfir 6 þegar atvik máls gerðust, en hann kvaðst þá hafa legið fyrir í tungusófa í stofu áðurnefnds íbúarhúss. Nánar tiltekið hafi hann legið á hliðinni og nær því á magnum, en þá jafnframt átt orðaskipti við vitnið C, sem setið hafi nærri miðju sófans. Ákærði kvaðst hafa haft fætur sína á tungunni en verið með höfuðið nærri sófabakinu, og þannig snúið andliti sínu að C. Ákærði lýsti aðstæðunum nánar og þá m.a. með hliðsjón af ljósmyndum sem lögreglan hafði tekið á vettvangi. Það var ætlan ákærða að hann hefði verið búinn að vera í greindri stöðu í u.þ.b. 5-10 mínútur þegar hann hafi fundið fyrir „fóthöggi“, sem komið hafi á læri hans. Um sama leyti kvaðst ákærði hafa heyrt gerandann, þ.e. brotaþola, öskra að sér og þá um að hann ætti að þegja og að hann skyldi láta það vera að svara fyrir sig. Ákærði bar að brotaþoli hefði m.ö.o. komið að hlið tungusófans og þannig komið aftan að honum þar sem hann hafði komið sér fyrir. Ákærði sagði að brotaþoli hefði við þessar aðstæður trampað eða sparkað frá sér, en sagði að hann hefði þá verið án skófatnaðar. Ákærði lýsti gjörðum brotaþola nánar þannig: „... hann sparkar standandi, og lyftir upp hnéinu og ýtir eða sparkar með hælnum ... aftan í vinstra lærið á mér, þetta voru nokkur spörk.“ Ákærði kvaðst hafa undrast þetta athæfi brotaþola og í fyrstu reynt að hunsa gjörðir hans, enda í raun ekkert þekkt til hans og bar að þeir hefðu ekki einu sinni verið málkunnugir. Er þetta gerðist kvaðst ákærði líttilega hafa fundið til áfengisáhrifa, en ekki gert sér grein fyrir ölvunarástandi brotaþola.

            Ákærði skýrði frá því að athæfi brotaþola hefði verið óþægilegt og hafi hann þannig fundið fyrir sársauka, en af þeim sökum hefði hann beðið brotaþola um að láta af háttseminni. Ákærði bar að brotaþoli hefði ekki sinnt tilmælum hans. Þá kvað hann vitnið C einnig hafa látið orð falla af þessu tilefni og þá um að þeir tveir hefðu ekki verið að gera neitt sérstakt. Ákærði sagði að er hér var komið sögu hefði hann sagt við brotaþola: „Hættu þessu, og þetta er vont, sárt.“ Var það ætlan ákærða að brotaþoli hefði er það gerðist verið búinn að veitast honum með lýstum hætti alls 4-7 sinnum. Og vegna þessa og þar sem brotaþoli hefði ekki hætt kvaðst hann hafa sagt við hann: „Ef þú gerir þetta aftur ... og ef þú hættir ekki, … þá lem ég þig til baka.“ Ákærði kvaðst hafa brugðist við með lýstum hætti í þeirri von að brotaþoli myndi sjá að sér og staðhæfði að á þeirri stundu hefði hann ekki haft í hyggju að standa við orð sín. Ákærði sagði að eftir að hann hefði látið greind orð falla hefði brotaþoli látið af athæfinu í stutta stund, en síðan tekið upp hina fyrri iðju. Ákærði kvaðst af þessum sökum hafa brugðist við og staðið upp úr sófanum og eftir það verið til hliðar við tungu hans, en þá um leið staðið andspænis brotaþola. Ákærði kvaðst á nefndu augnabliki ekki hafa hugleitt að forða sér af vettvangi þrátt fyrir að ekkert hefði hindrað hann í því að gera það, og sagði: „... það var líka möguleiki á því að labba burt.“ Ákærði bar að engin orðaskipti hefðu farið á milli hans og brotaþola við nefndar aðstæður, en hann kvaðst hins vegar hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli lyfti upp báðum höndum sínum og var með kreppta hnefa og sagði: „... og (brotaþoli) er tilbúinn til þess að halda áfram .. hann var frekar æstur … ég fer strax í sjálfsvörn … og ég er tilbúinn að gefa höggið.“

            Ákærði skýrði frá því að þegar hér var komið sögu hefði atburðarásin verið mjög hröð og sagði: „… ég er bara hræddur og ég byrjaði að panika, vissi ekki hvað ég átti að gera.“ Nánar lýsti hann næstu andartökum og sagði að nærri því; „um leið og hann (brotaþoli) lyfti höndum, þá geri ég högg, vinstra megin kjálkans … slæ ég hann ... bara hægri krókur, hliðar megin, ... vinstra megin á kjaftinn og hann fellur á gólfið ... bara aftur á bak.“ Ákærði áréttaði að engin orð hefðu fallið við greindar aðstæður og staðhæfði jafnframt að hann hefði aðeins slegið brotaþola þetta eina högg. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hann hefði í orðræðu sinni við þá lögreglumenn sem komu á vettvang þá um morguninn haft á orði að hann hefði lagt brotaþola á gólfið, en í framhaldi af því slegið til hans. Að því leyti áréttaði ákærði frásögn sína fyrir dómi, en jafnframt efni þeirrar framburðarskýrslu, sem hann hafði áður gefið hjá lögreglu, þann 16. nóvember 2107.

            Fyrir dómi útskýrði ákærði ofangreind viðbrögð nánar og áréttaði að hann hefði helst óskað þess að brotaþoli hefði látið af athæfi sínu. Þá lét hann þess getið að hann hefði heyrt sögusagnir um að brotaþoli hefði sumarið 2017 gengið um götur í bæjarfélaginu ölvaður með sveðju í hendi og jafnframt heyrt ávæning af því að hann væri árasárgjarn og viðhefði illmælgi og sagði: „… ég var hræddur við þessa manneskju.“ Enn fremur vísaði ákærði til aldursmunar þeirra og sagði að það atriði hefði aukið á ótta hans.

            Fyrir dómi skýrði ákærði jafnframt viðbrögð sín í greint sinn þannig að hann hefði á yngri árum orðið fyrir einelti í grunnskóla, en af þeim sökum hafi hann notið aðstoðar sálfræðings. Ákærði staðhæfði að eineltinu hefði ekki linnt eftir að hann lauk skólagöngunni, en bar að brotaþoli hefði þó ekki komið þar við sögu á neinn hátt, en sagði: „… mér fannst þetta bara svo sárt að vera búinn að lifa þetta svona lengi og hafa átt í erfiðleikum með að eignast vini. Þetta var bara svo sársaukafullt að verða fyrir stríðni og ég vildi bara standa upp fyrir mér einhvern tímann, bara einu sinni ... þetta bara gerist svo fljótt og ég bara, algjört lost … og það víst endaði ekki vel … og mér líður illa út af þessu.“ Ákærði staðhæfði að kæmu slíkar aðstæður upp aftur myndi hann bregðast öðruvísi við og þá t.d. með því að ganga af vettvangi. Ákærði bar að auk þessa hefði hann haft vitneskju um að brotaþoli hefði beitt systur hans einelti mörgum árum fyrr, en staðhæfði að það atriði hefði þó ekki ráðið úrslitum um gjörðir hans umræddan morgun. Ákærði kvaðst eftir nefndan atburð hafa flutt úr bæjarfélaginu, en hann kvaðst þá hafa verið187 cm á hæð og 70 kg.

            Um atvik máls umræddan morgun staðhæfði ákærði að frá því að brotaþoli hóf að angra hann og meiða með áðurlýstum hætti og þar til hann veitti honum hnefahöggið hefðu liðið u.þ.b. 5 mínútur. Og eftir að brotaþoli hafði fallið á gólfið kvaðst ákærði í fyrstu ekki hafa áttað sig á því að ekki var allt með felldu með hann, að öðru leyti en því að hann hefði legið þar rotaður. Ákærði kvaðst hafa gætt að brotaþola eftir u.þ.b. 20 mínútur og þá m.a. reynt að koma honum til meðvitundar og fært hann í einn sófann í stofunni. Ákærði sagði að við þessar tilfæringar hefði brotaþoli komst til meðvitundar, en í framhaldi af því kvaðst hann hafa reist hann við í sófanum. Við nefndar aðstæður kvaðst ákærði fyrst hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli átti erfitt um mál. Þá var það ætlan hans að blóð hefði fyrst komið frá brotaþola u.þ.b. 30 mínútum eftir að hann féll á gólfið. Ákærði sagði að er hér var komið sögu hefði brotaþoli kvartað um verk í munni. Ákærði kvaðst vegna þessa alls hafa aðstoðað brotaþola inn á snyrtingu og gefið honum vatn að drekka, en þá veitt því eftirtekt að mjög mikið blóð kom frá munni hans. Í framhaldi af því kvaðst ákærði hafa fært brotaþola að fyrrnefndum tungusófa og var það ætlan hans að þá hefði komið frá honum það blóð sem var á gólfinu, sem lögreglumenn hefðu síðar veitt athygli og myndað. Vegna ástands brotaþola kvaðst ákærði hafa beðið vitnið C að hringja eftir aðstoð sjúkraliða, en að auki kvaðst hann sjálfur hafa hringt eftir aðstoð lögreglu nokkru síðar þar sem dráttur hefði orðið á komu hinna fyrrnefndu og nefndi í því sambandi um klukkustund.

            Ákærði skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði verið miður sín vegna nefnds atburðar, en af þeim sökum hafi hann lagst fyrir í tungusófanum eftir að brotaþoli hafði verið fluttur af vettvangi. Ákærði kvaðst því hafa verið sofandi þegar lögreglan kom á ný á vettvang, líkt og sjá hafi mátt á þeim ljósmyndum sem þá voru teknar.

Ákærði skýrði frá því fyrir dómi að vegna margnefnds athæfis brotaþola hefði hann hlotið áverka aftan á vinstra læri og að hann hefði af þeim sökum fundið til verkjar við gang í u.þ.b. 4-7 daga. Ákærði sagði að móðir hans hefði veitt helti hans eftirtekt, en í framhaldi af því og að ráðum hennar hefði hann leitað til læknis, sbr. áðurrakið læknisvottorð.

 

            Brotaþoli, B, fæddur […], skýrði frá því fyrir dómi að minnisglöp hans varðandi atvik máls umrædda nótt væru nær algjör. Vísaði brotaþoli þar um til eigin ölvunarástands og þess andlitshöggs, sem hann hafði þá orðið fyrir,  en hann kvaðst hafa „steinrotast.“ Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

            Brotaþoli kvaðst muna það helst að hann hefði farið í heimahús í […], í svokallað eftirpartí, en hann kvaðst hafa þekkt þar nokkra gesti. Brotaþoli kvaðst ráma til þess að hafa séð til ákærða í hófinu, en hann kvaðst aðeins hafa kannast við hann í sjón, en sagði að þeir hefðu ekki verið málkunnugir. Brotaþoli kvaðst hafa verið í grunnskóla með systur ákærða, en kannaðist ekki við að hafa beitt stúlkuna einelti.

            Nánar aðspurður kannaðist brotaþoli ekki við að hafa átt í samskiptum eða útistöðum við ákærða umrædda nótt eða þá morguninn. Þá kannaðist brotaþoli ekki við að hann hefði fáeinum mánuðum fyrir umræddan atburð viðhaft ógnandi hegðan utandyra í bæjarfélaginu. Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki minnast þess að hafa sparkað í ákærða og þá ekki að hann hefði fengið höfuðhögg frá ákærða. Brotaþoli kvaðst aðeins minnast þess þegar lögreglumenn voru að stumra yfir honum, en að auki þegar hann hafi verið á heilsugæslustöðinni, í sjúkraflugvél og loks þegar hann var kominn á sjúkrahús í Reykjavík.

            Fyrir dómi lýsti brotaþoli áverkum sínum í samræmi við áðurrakin heilsufarsgögn og staðfesti m.a. að eftir aðgerð hefði hann þurft að dvelja í um einn sólarhring á sjúkrahúsi, en að eftir það hefði hann þurft að vera á fljótandi fæði í u.þ.b. mánuð. Brotaþoli kvaðst hafa náð ágætri heilsu, en bar að hann fyndi stöku sinnum fyrir verkjum í kjálka. Er atvik máls gerðust kvaðst brotaþoli hafa verið 180 cm á hæð og 60 kg.

 

            Vitnið C, fæddur […], kvaðst umrædda nóttu hafa haldið til í heimahúsi eftir næturskemmtan, í næturhófi, ásamt fjölda annarra gesta. Vitnið kvaðst minnast þess að það hefði verið komið fram undir morgun þegar það hefði séð til ferða brotaþola þar sem hann hafi gengið niður stiga í stofunni, en þá jafnframt veitt því eftirtekt að skapsmunir hans voru í þyngra lagi af ókunnum ástæðum og sagði: „Hann er eitthvað að blaðra út í loftið, en ég er ekkert að taka mark á honum.“ Vitnið kvaðst ekki minnast þess að brotaþoli hefði truflað það með háttalagi sínu og þá ekki með öskrum eða hávaða. Vitnið kvað brotaþola hafa verið talsvert ölvaðan, en það kvaðst hvorki hafa þekkt hann né ákærða fyrir, enda aldrei hitt þá áður.

            Er atvik máls gerðust kvaðst vitnið hafa setið í tungusófa í stofunni við hlið ákærða þegar brotaþoli hefði komið að þeim. Vitnið bar að við þessar aðstæður hefði brotaþoli „eitthvað byrjað að sparka í“ ákærða. Vitnið kvaðst hafa ætlað að brotaþoli hefði látið eigin pirring bitna á ákærða, en það lýsti athæfi hans nánar gagnvart ákærða þannig: „Hann bara svona traðkaði með ilinni ...“ Vitnið bar að ákærði hefði legið eða setið við hlið þess í áðurnefndum tungusófa er atburður þessi gerðist, en það kvaðst þá hafa verið að brúka eigin síma, en þó fylgst með spörkum brotaþola og sagði: „... þetta voru alveg þó nokkuð mörg spörk sko, ... í lappirnar á honum ... þetta var alveg í þá áttina að meiða einhvern, ... þetta var alls ekki laust  ... en hann var pottþétt í sokkum, held ég, en ég pældi ekkert í því.“ Nánar aðspurt treysti vitnið sér ekki til að segja til um hvar í lappir ákærða brotaþoli sparkaði.

            Vitnið kvaðst líkt og ákærði hafa beðið brotaþola um að láta af athæfinu en án árangurs. Vitnið kvaðst ekki minnast sérstakra orðaskipta millum ákærða og brotaþola, en það lýsti viðbrögðum þess fyrrnefnda og atvikum eftir þetta nánar þannig: „... og svo stendur A upp, fer að honum og þeir detta ... eða hrasa ... eitthvað í gólfið, ég er ekki að horfa þangað, en þeir detta … á bak við sófann, og svo heyri ég að A er eitthvað að biðjast afsökunar á þessu og þá lít ég við og þá er B í sófa ... út í horni ... og það blæðir úr honum og hann er bara alveg í sjokki.“

            Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða slá til brotaþola í greint sinn. Nánar aðspurt treysti vitnið sér ekki til að fullyrða um að það hefði séð þá tvo liggja á gólfinu, en þó vera nokkuð visst um að þeir hefðu a.m.k. hrasað. Vitnið kvaðst raunar ekki hafa fylgst með ákærða og brotþola undir lok viðskipta þeirra og vísaði til þess að þeir hafi þá verið til hliðar við umræddan tungusófa og nærri litlu borði, en þar um vísaði vitnið til ljósmynda lögreglu af vettvangi. Vitnið kvaðst því í raun aðeins hafa fylgst með atburðarásinni út undan sér og áréttaði að það hefði þá verið að nota eigin síma. Þá kvað vitnið aðeins þá þrjá hafa verið í stofunni þegar atburður þessi gerðist, fyrir utan ókunnan einstakling sem þar hefði sofið ölvunarsvefni í sófa.

            Vitnið kvaðst vegna sýnilegra áverka og ástands brotaþola eftir nefnd viðskipti hafa hringt eftir aðstoð lögreglu.

            Vitnið kvaðst hafa átt orðastað við lögreglumenn er þeir komu á vettvang.

 

            Vitnið F, yfirlæknir á Heilsugæslunni á […], staðfesti efni áðurrakins læknisvottorðs um brotaþola. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð brotaþola, en sagði að efni vottorðsins hefði verið í samræmi við frumnótur, sem upphaflega hefðu verið ritaðar af afleysingalækni. Vitnið sagði að gögnin hefðu borið með sér að strax hefði verið uppi grunur um kjálkabrot brotaþola, sem síðar hefði verið staðfest á sjúkrahúsi í Reykjavík. Vitnið sagði að slíkur áverki gæti komið til af falli eða höggi og bar að ekki væri óalgengt að kjálkar einstaklinga brotnuðu báðum megin vegna lögunar þeirra.

 

            G lögreglumaður staðfesti fyrir dómi efni áðurrakinnar frumskýrslu, þ. á m. varðandi aðstæður og aðgerðir á vettvangi. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið mjög ölvaður og ósáttur við ákærða, en það kvaðst strax hafa ályktað að um brot væri að ræða og þá vegna sýnilegrar skekkju í tanngómi. Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki verið íklæddur skófatnaði þegar það hefði komið að honum í íbúðinni, þar sem hann hafi legið í sófa í stofunni. Vitnið kvaðst hafa fært brotaþola í skó um leið og sjúkraliðar færðu hann út úr húseigninni.

            Vitnið skýrði frá því að ákærði hefði verið mjög rólegur á vettvangi, en einnig greinargóður í svörum og samvinnuþýður. Vitnið sagði að hann hefði ekki verið „ofurölvi“ og bar að það sama hefði gilt um vitnið C.

            Vitnið kvaðst um einni klukkustund eftir fyrstu komu þess á brotavettvang hafa farið þangað aftur og þá tekið þær ljósmyndir sem fyrir liggja í málinu. Vitnið kvaðst m.a. hafa tekið mynd af litlum blóðpolli, sem það hefði séð á gólfi við hlið tungusófa í stofunni. Vitnið kvaðst við vettvangsathugun að öðru leyti ekki hafa séð hvar viðskipti ákærða og brotaþola höfðu átt sér stað. Vitnið staðfesti að fjórði aðilinn á vettvangi hefði ávallt verið sofandi í sófa í stofunni, en það kvaðst hafa ályktað að hann hefði ekkert komið við sögu í þessu máli.

 

            H lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang ásamt nefndum lögreglumanni og lýsti vitnið atvikum máls með líkum hætti og áður er rakið úr frumskýrslu lögreglu. Vitnið kvaðst hafa ályktað að málsatvik lægju í raun ljós fyrir eftir að hafa hlýtt á frásögn ákærða á vettvangi. Vitnið bar að húsráðandi og fáeinir gestir hefðu verið á efri hæð hússins er atvik gerðust og bar að komið hefði í ljós að þeir hefðu ekki orðið vitni að viðskiptum ákærða og brotaþola í greint sinn.

            Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki verið þekktur fyrir ofbeldi, en bar að hann hefði nokkrum mánuðum fyrir þennan atburð verið handtekinn ölvaður utan dyra þar sem hann hefði sveiflað sveðju í kringum sig, en bar að athæfið hefði í raun ekki beinst að einum eða neinum.

 

            Vitnið D, kjálkaskurðlæknir á Landspítlanum, staðfesti fyrir dómi að það hefði gert aðgerð á brotaþola í greint sinn og staðfesti m.a. áðurrakta aðgerðarlýsingu og þ. á m. að brotaþoli hefði verið tvíkjálkabrotinn. Vitnið sagði að slíkur áverki gæti komið til vegna höggs á kjálkabein.

 

            I, móðir ákærða, kvaðst hafa heyrt um atvik máls eftir hádegið umræddan dag og þá einnig heyrt frásögn hans um eymsl í fæti. Þá um kvöldið kvaðst það og hafa séð lítinn marblett á læri ákærða, sem hafi verið aftan til og fyrir ofan hnéð. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því eftirtekt að ákærði haltraði vegna þessa.

 

            E læknir kvaðst hafa hitt ákærða þann 17. nóvember sl. og þá heyrt frásögn hans um viðskipti við tiltekinn aðila, en þá enn fremur að hann hefði þá hlotið mar og eymsli. Vitnið staðfesti efni áðurrakins vottorðs og þar á meðal að áverkar ákærða hefðu ekki verið sýnilegir. Vitnið kvaðst því ekki hafa metið áverka ákærða mikla.

 

            J, hjúkrunarfræðingur á göngu- og endurkomudeild Landspítalans, staðfesti efni komunótu og meðferðarseðlis sjúkrahússins vegna komu brotaþola. Vitnið bar að brotaþoli hefði m.a. verið ölvaður við komu, en sagði að brotaþoli hefði enn fremur haft orð á því að hann hefði kvöldið áður neytt fíkniefna. Vitni bar að framkoma og viðmót brotaþola hefði verið í samræmi við neyslulýsingu hans.

 

            K, hjúkrunarfræðingur á sömu stofnun, gaf vitnaskýrslu fyrir dómi, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hennar.

 

 

 

III.

            Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 12. nóvember 2017, í tilgreindu íbúðarhúsi, slegið brotaþola, B, hnefahögg í andlitið með krepptum hnefa hægri handar með þeim afleiðingum að neðri kjálki brotnaði á tveimur stöðum, eins og í ákæru er nánar lýst.

            Við alla meðferð málsins hefur ákærði játað verknaðarlýsingu ákæru, en neitað refsi- og skaðabótaábyrgð og vísar hann þar um til neyðarvarnarverks, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara vísar ákærði til 1. mgr. 70. gr. og 1. tl., 4. tl. og 9. tl. 74. gr. gr., en við flutning að auki til 3. mgr. 218. gr. b í sömu lögum.

 

            Óumdeilt er að ákærði og brotaþoli voru báðir gestkomandi í umræddu einbýlishúsi er atvik máls gerðust og jafnframt að þeir þekktust í raun ekkert fyrir. Enn fremur er óumdeilt að þeir voru báðir undir áhrifum áfengis er fundum þeirra bar saman undir morgun í stofu íbúðarinnar. Þó verður að leggja til grundvallar, sbr. m.a. vitnisburð lögreglumanna, að brotaþoli hafi verið sýnu verr á sig kominn að því leyti, en hann hefur lýst yfir nær algjörum minnisglöpum.

            Að virtum framburði ákærða, sem stoð hefur í frásögn vitnisins C, er að áliti dómsins nægjanlega sannað að brotaþoli hafi veist að ákærða að tilefnislausu þar sem hann lá fyrir í sófa og þá með því að trampa eða stíga ítrekað allharkarlega á fætur hans. Að virtu áðurröktu læknisvottorði verður ráðið að ákærði hafi vegna þessa ekki hlotið alvarlega áverka.

            Að virtum framburði ákærða, sem einnig hefur stoð í frásögn vitnisins C, er að áliti dómsins nægjanlega sannað að atvik máls hafi gengið allhratt fyrir sig undir lok lýstra samskipta og þá eftir að ákærði hafði haft á orði að hann myndi berja frá sér léti brotaþoli hann ekki afskiptalausan. Verður lagt til grundvallar að ákærði hafi í kjölfar þess að brotaþoli lét ekki af háttsemi sinni sprottið á fætur og að hann hafi eftir það staðið andspænis brotaþola, til hliðar eða nærri bakhlið umrædds sófa, og er brotaþoli hafi við þessar aðstæður lyft upp höndum sínum hafi ákærði nær samstundis slegið hann með krepptum hnefa hnefahöggi í andlitið.

            Þegar framangreint er virt verður ekki annað séð en að ákærði hafi a.m.k. látið fram hjá sér fara tækifæri til að víkja af vettvangi og komast þannig hjá frekari samskiptum við brotaþola. Verður í því viðfangi og ekki horft fram hjá því að vitnið C var á vettvangi þegar atvik máls gerðust.

            Þegar ofangreint er virt í heild er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að ákærði hafi verið í, eða mátt telja sig vera í, slíkri hættu af hálfu brotaþola að virða megi honum til neyðarvarnar, sbr. 1. mgr. ellegar 2. mgr. 12. gr. hegningarlaganna, að hafa slegið frá sér með greindum hætti. Verður kröfum ákærða að þessu leyti því hafnað og þykir hann hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

 

 

IV.

            Ákærði, sem er fæddur árið […], hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingu.

            Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a. að horfa til þess að atlaga hans að brotaþola, sem var […] ára þegar atburðurinn gerðist, olli honum talsverðu heilsutjóni, sbr. 1. tl. 70. gr. hegningarlaganna. Á hinn bóginn þykir mega horfa til aðdraganda árásarinnar, þ. á m. að framkoma brotaþola gagnvart ákærða var vítaverð og tilefnislaus, sbr. að því leyti ákvæði 1. og 4. tl. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19, 1940, og enn fremur að ákærði var mjög ungur að árum er atvik gerðust.

            Að öllu þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, sem bundin verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir.

 

            Brotaþoli hefur krafist skaðabóta, eins og lýst er í ákæru. Bótakrafan var fyrst lögð fram hjá lögreglu, en hún var birt ákærða 8. janúar sl.

            Bótakrafan er sundurliðuð. Er í fyrsta lagi um að ræða miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna. Í öðru lagi er krafist endurgreiðslu reikninga vegna útlagðs lækniskostnaðar að fjárhæð 13.582 krónur. Loks er krafist málskostnaðar vegna lögmannsþjónustu, að fjárhæð 499.730 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnaðar lögmanns brotaþola. Bótakrafan var rökstudd frekar við flutning málsins af Ásmundi Jónssyni, lögmanni brotaþola.

            Af hálfu ákærða er bótakröfunni mótmælt, þ. á m. sem vanreifaðri og of hárri.

 

            Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola. Ber ákærði bótaábyrgð samkvæmt almennri sakarreglu skaðabótaréttar á tjóni brotaþola. Ekki verður fallist á að skipta beri sök þannig að brotaþoli eigi að bera hluta tjónsins sjálfur.

            Að ofangreindu virtu verður fallist á röksemdir ákæruvalds og brotaþola um að ákærði hafi bakað sér skyldu til að greiða miskabætur samkvæmt 26. laga nr. 50/1993 um skaðabætur. Ákveðast þær eftir atvikum 500.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Þá er eins og áður er rakið þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða reikninga brotaþola vegna útlagðs lækniskostnaðar. Krafa þessi er órökstudd og er henni því að kröfu ákærða vísað frá dómi. Á hinn bóginn er fallist á að ákærði greiði brotaþola málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðin 252.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en því til viðbótar skal hann greiða útlagðan ferðakostnað lögmanns hans, Ásmundar Jónssonar, 41.510 krónur.

            Í samræmi við málsúrslit ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti lögreglustjóra, 34.750 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, en einnig ferðakostnað hans, eins og í dómsorði greinir.

            Málið flutti af hálfu ákæruvalds Helgi Jensson fulltrúi, Gísli M. Auðbergsson, lögmaður og skipaður verjandi ákærða, og lögmaður brotaþola, Ásmundur Jónsson.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, A, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði brotaþola, B, 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 12. nóvember 2017 til 8. febrúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði brotaþola 252.960 krónur í málskostnað, auk 41.510 króna vegna ferðakostnaðar lögmanns hans.

            Ákærði greiði 694.630 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 632.240 krónur, en einnig ferðakostnað hans að fjárhæð 28.050 krónur.