• Lykilorð:
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

              Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 14. mars 2018 í máli

                                                        nr. S-2/2018:

         Ákæruvaldið

         (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

         gegn

         X

        (Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 7. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 9. janúar sl., á hendur X, kennitala […], […], […]:

            „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot í Fjarðabyggð, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 29. september 2017, undir áhrifum áfengis, ekið bifreiðinni […], frá heimili sínu, um […] og […] og þar upp malarveg sem liggur að snjóflóðavarnargörðunum fyrir ofan byggðina í .. og síðan aftur niður þann veg, án nægilegrar aðgæslu, með þeim afleiðingum að missti hann stjórn á bifreiðinni, sem lenti við það utan vegar og valt. Við þetta hlaut farþegi í aftursæti bifreiðarinnar, […], kennitala […], viðbeinsbrot vinstra megin.  Vínandamagn í blóði kærða mældist  1,67 ‰.

            Telst þetta varða  við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög og 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

            Skipaður verjandi Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður krefst fyrir hönd ákærða vægustu refsingar sem lög leyfa, en einnig krefst hann hæfilegrar málflutningsþóknunar.

 

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru. Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði og læknisvottorð.

            Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og nefndum rannsóknargögnum, er nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til laga í ákærunni.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í nefndri ákæru.

 

II.

            Ákærði, sem […] ára, hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins ekki áður sætt refsingum.

            Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir ölvunarakstur og hegningarlagabrot.

            Að ofangreindu virtu og með hliðsjóna af 77. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi og 160.00 krónar sekt til ríksissjóðs. Eftir atvikum og þar sem ákærði hefur við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, hreinskilningslega játað brot sitt og lýst iðran, þykir fært að frest fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði skal greiða sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella ellefu daga fangelsi.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga ber að svipta ákærða ökurétti í átján mánuði frá birtingu dómsins að telja.

            Í ljósi málsúrslita, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti lögreglustjóra er um að ræða útlagðan kostnað að fjárhæð 48.081 krónu, en að auki fellur þar til þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 179.189 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson fulltrúi.          

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Ákærði, X, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella ellefu daga fangelsi.

            Ákærði er sviptur ökurétti í átján mánuði frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 227.270 krónur í sakarkostnað, þar með talda málflutningsþóknuna skipaðs verjanda síns, Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns, 179.189 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

                                                                

                                                                 Ólafur Ólafsson