• Lykilorð:
  • Gagnsök
  • Landamerki
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 14. febrúar 2018 í máli nr. E-62/2016:

Óskar Gunnlaugsson

Baldur Gunnlaugsson

Vilborg Gunnlaugsdóttir

db. Ingunnar Gunnlaugsdóttur

Björn Gunnlaugsson

Guðríður Gunnlaugsdóttir

Haukur Gunnlaugsson

(Jón Jónsson hrl.)

gegn

Steinþóri Björnssyni

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Ásgeiri Sigurvinssyni (Réttargæsla)

Þórði Sigurjónssyni (Réttargæsla)

Álfheiði Hjaltadóttur (Réttargæsla)

Ólöfu B. Björnsdóttur (Réttargæsla)

Þórði Sæmundssyni (Réttargæsla)

og gagnsök.

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 20. desember 2017, höfðuðu Óskar Gunnlaugsson, Berufirði III, Djúpavogshreppi, Baldur Gunnlaugsson, Borgargarði 3, Djúpavogi, Vilborg Gunnlaugsdóttir, Hæðargarði 21, Höfn, Ingunn Gunnlaugsdóttir, Innri-Kleif, Breiðdalshreppi, Björn Gunnlaugsson, Sunnubraut 6, Höfn, Guðríður Gunnlaugsdóttir, Sæbergi 19, Breiðdalsvík, og Haukur Gunnlaugsson, Runná, Djúpavogshreppi, hinn 17. ágúst 2016 gegn Steinþóri Björnssyni, Hvannabrekku, Djúpavogshreppi, „til að þola dóm um landamerki“ og til réttargæslu var stefnt eftirtöldum eigendum jarðarinnar Flögu í Breiðdal, landnr. 158955: Ásgeir Sigurvinsson, Skúlagötu 32-34, Reykjavík, Þórður Sigurjónsson, Lúxemborg, Álfheiður Hjaltadóttir, Ásgerði 6, Reyðarfirði, Ólöf B. Björnsdóttir, Lúxemborg, og Þórður Sæmundsson, Lúxemborg. Undir rekstri málsins tók dánarbú Ingunnar Gunnlaugsdóttur við aðild hennar.

            Málið var þingfest 6. september 2016. Aðalstefndi höfðaði gagnsök á hendur aðalstefnendum með gagnstefnu birtri 6. október s.á.

            Í aðalsök krefjast aðalstefnendur þess aðallega „að viðurkennt verði með dómi að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku landnr. 159109, liggi frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, í hnit B 715210,228 – 484959,930, í farvegi Svartagilslækjar, og það [sic] eftir miðjum farvegi Svartagilslækjar allt þar til hann fellur í Svartagil við hnit C, 715788,228 – 486886,577. Þaðan liggja merki um farveg Svartagilslækjar eins og hann nær að hniti D, 716053,585 – 487659,525 og þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.“

            Til vara gera aðalstefnendur eftirfarandi dómkröfur:

            1. varakrafa:

            „Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku landnr. 159109, liggi um línu frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, og um hnit C, 715788,228 – 486886,577, þar sem Svartagilslækur fellur í Svartagil, þar til línan nær að fjallseggjum milli Berufjarðar og Breiðdals.“

            2. varakrafa:

            „Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku landnr. 159109, liggi frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, í hnit E 715271,545 – 485664,535, í farvegi Svartagilslækjar, og það [sic] eftir miðjum farvegi Svartagilslækjar allt þar til hann fellur í Svartagil við hnit C, 715788,228 – 486886,577. Þaðan liggja merki um farveg Svartagilslækjar eins og hann nær að hniti D, 716053,585 – 487659,525, og þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.“

            3. varakrafa:

            „Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku landnr. 159109, liggi um línu frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, og um hnit G, 715588,958 – 487113,765, efst í  Svartagili, þaðan eftir klettabrún Svartagils þar til Svartagilslækur fellur í Svartagil við hnit C, 715788,228 – 486886,577. Þaðan liggja merki um farveg Svartagilslækjar eins og hann nær að hniti D, 716053,585 – 487659,525 og þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.“

            4. varakrafa:

            „Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku landnr. 159109, liggi frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, í hnit E 715271,545 – 485664,535, í farvegi Svartagilslækjar, og þaðan í klettabrún Svartagils við hnit F, 715211,433 – 486070,065, og eftir brúninni þar til Svartagilslækur fellur í Svartagil við hnit C, 715788,228 – 486886,577. Þaðan liggja merki um farveg Svartagilslækjar eins og hann nær að hniti D, 716053,585 – 487659,525 og þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.“

            Í gagnsök krefjast aðalstefnendur sýknu.

            Þá krefjast aðalstefnendur málskostnaðar bæði í aðalsök og gagnsök.

            Í aðalsök krefst aðalstefndi, hér eftir nefndur gagnstefnandi, sýknu af öllum kröfum aðalstefnenda í málinu.

            Í gagnsök gerir gagnstefnandi þær dómkröfur „að landamerki milli jarðanna Hvannabrekku annars vegar og Berufjarðar og Berufjarðar II hins vegar séu svofelld: Með beinni línu sem liggur frá sjó og að fjallseggjum milli Berufjarðar og Breiðdals, gegnum punkt 1, hnit 714862,54 – 484115,93 sem er á miðri Staðareyri, og punkt 2, hnit 715177,11 – 486331,97 sem er í Svartagili.“

            Gagnstefnandi krefst málskostnaðar bæði í aðalsök og gagnsök.

            Réttargæslustefndu hafa ekki látið málið til sín taka.

            Dómari og lögmenn aðila gengu á vettvang 29. maí 2017, ásamt aðalstefnendum Óskari Gunnlaugssyni og Birni Gunnlaugssyni og gagnstefnanda, Steinþóri Björnssyni. Með í för voru einnig Bragi Gunnlaugsson, bróðir aðalstefnenda, og Aðalsteinn Björnsson, bróðir gagnstefnanda. Aðalmeðferð fór fram 30. maí s.á. en málið var endurflutt 20. desember s.á. þar sem ekki tókst að leggja dóm á málið innan lögbundins frests, fyrir réttarhlé.

             

I

Málsatvik

            Í máli þessu er deilt um landamerki milli óskipts lands jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar II annars vegar og jarðarinnar Hvannabrekku hins vegar, en jarðir þessar eru í Djúpavogshreppi og liggur þrætusvæðið innarlega í norðanverðum Berufirði. Aðalstefnendur eru þinglýstir eigendur Berjufjarðarjarðanna en gagnstefnandi er þinglýstur eigandi Hvannabrekku.

            Til Hvannabrekku var stofnað úr ysta hluta jarðarinnar Berufjarðar með byggingarbréfi fyrir erfðafestuland, dags. 5. desember 1954, þar sem sex erfingjar að búi Guðmundar Guðmundssonar, Berufirði, byggðu dóttur Guðmundar, Gyðu Guðmundsdóttur „eftirtalinn hluta úr Berufjarðarlandi“ og eru landamerki þar sögð þannig ákveðin:

            „Að innan: lína frá vörðu utanvert á Staðareyri í Svartagil.

            Að utan: landamerki Kelduskóga og Berufjarðar.“

            Beinum eignarrétti að landi Hvannabrekku var afsalað til hjónanna Gyðu Guðmundsdóttur og Björns Aðalsteinssonar með afsali, dags. 2. desember 1970. Að afsalinu stóðu fjórir erfingjar Guðmundar Guðmundssonar af þeim sex sem stóðu að byggingarbréfinu 1954, en aðalstefnendur eru öll börn eins afsalsgjafa, Gunnlaugs Guðmundssonar. Í afsalinu er vísað til landamerkja eins og þau voru ákveðin í byggingarbréfinu. Í afsalinu kemur einnig fram að einn afsalsgjafa, Ragnar Guðmundsson, afsali hjónunum til viðbótar spildu sem hann eignaðist 1946,  svonefnt Sláttufjall, en sú spilda liggur að mörkum Hvannabrekku að utan, gagnvart Kelduskógum og varðar því ekki beinlínis þau landamerki sem hér er um deilt. Gagnstefnandi, sem er sonur þeirra Gyðu og Björns, tók við Hvannabrekku af foreldrum sínum í kringum síðustu aldamót, en afsal þeirra til hans er dagsett 10. desember 2002. Í því afsali er ekki vikið að landamerkjum.

            Í landamerkjabréfi frá 1884 er fjallað um landamerki Berufjarðar gagnvart aðliggjandi jörðum. Þar er lýst mörkum gagnvart jörðinni Kelduskógum, sem þá var næsta jörð utar í firðinum, og að þar liggi merkin „upp á hina efstu fjallabrún og þaðan inneptir fjallgarðinum eða inneptir eggjum milli Berufjarðardals og Breiðdals eptir því sem vötnum hallar [...]“. Þessi lýsing hefur þýðingu varðandi mörk Berufjarðarjarða og Hvannabrekku gagnvart jörðum í Breiðdal, þ.m.t. jarðarinnar Flögu sem er í eigu réttargæslustefndu, en ekki beina þýðingu fyrir þau landamerki sem hér eru til umfjöllunar, milli óskipts lands Berufjarðar og Berufjarðar II og Hvannabrekku.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst í grunninn um það hvernig skýra beri tilvitnaða lýsingu byggingarbréfsins frá 1954 á mörkum Hvannabrekku „að innan“, þ.e. gagnvart Berufjarðarjörðum.

Þar er í fyrsta lagi deilt um kennileitið Staðareyri og þá hvort heitið vísi til malartotu sem liggur suður í fjörðinn eða stærra svæðis sem malartotan er hluti af. Aðalstefnendur halda því fram að Staðareyri vísi til alls þrætusvæðisins en gagnstefnandi kveðst þekkja þrætusvæðið sem Eyri eða Svartagilsaur, en totuna eða oddann sem Staðareyri. Á þrætusvæðinu er túnrækt sem óumdeilt er að einungis hefur verið nýtt frá Hvannabrekku.

            Í aðalstefnu er þess getið að skyldleiki aðila kunni að hafa átt þátt í því að ágreiningur þessa máls hafi ekki verið settur niður fyrr, en auk þess kveða aðalstefnendur að nýting Hvannabrekku á landi nærri merkjum hafi hvorki verið veruleg né stöðug fyrr en eftir síðustu aldamót. Björn Aðalsteinsson, faðir stefnda, hafi ræktað tún á Staðareyri í kringum árið 1970. Nytjar þess hafi verið óstöðugar og hafi fallið niður um langan tíma, enda hafi landið verið lélegt ræktarland. Túnið hafi verið nefnt ,,Túnið á Eyrinni“.

            Gagnstefnandi lýsir því svo að túnin „rétt ofan við Staðareyri“ sem nýtt hafi verið frá Hvannabrekku hafi verið stækkuð nokkuð í gegnum árin og verið slegin árlega „frá upphafi“, en öll sú notkun hafi verið áberandi og geti ekki hafa farið fram hjá Berfirðingum, sem aldrei hafi hreyft andmælum eða gefið til kynna að túnin tilheyrðu ekki Hvannabrekku.

            Í öðru lagi er deilt um kennileitið Svartagil. Óumdeilt er að gríðarmikið skeifulaga jarðfall í fjallshlíðunum ofan við þrætusvæðið á láglendinu ber þetta örnefni, en deilt er um það hvort landamerkjalýsing byggingarbréfsins vísi einungis til hamrasveigsins þar sem hann er mest áberandi, að innan og ofan (vestan og norðan), eða hvort kennileitið Svartagil vísi til alls jarðfallsins og þá hvort Svartagilslækur, sem fellur fram af brún utanvert (austanvert) í botni jarðfallsins, og rennur þaðan til sjávar, hafi þýðingu fyrir merkin.

            Reynt var að leita sátta hjá sýslumanni vegna merkjanna á árunum 2013 til 2016, en þær umleitanir báru ekki árangur.

            Í málinu liggur m.a. fyrir örnefnaskrá fyrir Berufjörð sem Nanna Guðmundsdóttir frá Berufirði mun hafa skrásett árið 1971, en Nanna var ein þeirra erfingja Guðmundar Guðmundssonar sem stóðu að byggingarbréfi og afsali til foreldra gagnstefnanda.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu Óskar Gunnlaugsson, Baldur Gunnlaugsson, Björn Gunnlaugsson og Steinþór Björnsson. Þá gáfu skýrslu sem vitni Bragi Gunnlaugsson, bróðir aðalstefnenda, og systkini gagnstefnanda, þau Aðalsteinn Björnsson, Guðlaug Björnsdóttir og Ragnar Birkir Björnsson. Enn fremur gáfu skýrslu sem vitni Erlingur Gunnarsson frá Lindarbrekku og Reynir Reimarsson frá Kelduskógum. Vikið verður að framburði aðila og vitna eftir þörfum í niðurstöðukafla.    

II

Málsástæður aðalstefnenda.

            Aðalstefnendur kveðast byggja dómkröfur sínar um legu landamerkja á lýsingu landamerkja á milli Berufjarðar og Hvannabrekku sem komi fram í byggingarbréfi, dags. 5. desember 1954. Kröfum sínum til stuðnings vísi þeir til laga nr. 41/1919 um landamerki, einkum 1. og 4. gr. laganna.

            Aðalstefnendur kveða landamerkjalýsingu byggingarbréfsins vísa til merkja Hvannabrekku að innan með eftirgreindu orðalagi: „Lína frá vörðu utanvert á Staðareyri í Svartagil.“ Álitaefnum um legu heildarlandamerkja milli jarðanna megi skipta í þrennt:

            a. Hvar landamerki liggi um utanverða Staðareyri, en varða sem lýsingin vísar til hafi að áliti stefnenda aldrei verið hlaðin.

            b. Með hvaða hætti landamerki liggi í Svartagil og þá hvernig landamerkjalína liggi um Svartagil.

            c. Með hvaða hætti landamerki jarðanna liggi ofan Svartagils.

            Af orðlagi landamerkjalýsingarinnar um ,,línu“ megi álykta að frá stað utanvert á Staðareyri liggi landamerki í beinni línu, að minnsta kosti að hluta til. Þá megi skilja landamerkjalýsinguna svo að ekki sé lýst landamerkjum ofan Svartagils með nákvæmum hætti. Með vísan til landamerkjalaga beri að líta svo á að landamerki skipti jörðum landa að fullu.

            Aðalstefnendur kveðast þekkja legu landamerkja jarðanna af því hvernig litið hafi verið á þau allt frá árinu 1954. Lýsing landamerkja í aðalkröfu taki mið af því. Sjónarmið sem komið hafi fram á sáttafundum af hálfu gagnstefnanda feli í sér að tiltekin orðalagsskýring styðji kröfur hans. Í ljósi hinnar fáorðu landamerkjalýsingar setji aðalstefnendur einnig fram varakröfur sem hvíli á orðalagstúlkun merkjalýsingarinnar, fremur en því hvernig litið hafi verið á legu landamerkja í raun.

            Aðalstefnendur kveðast byggja á því meginsjónarmiði að á árinu 1954 hafi verið ákveðið að setja niður landamerki milli Hvannabrekku og Berufjarðar þannig að Svartagilslækur réði merkjum milli jarðanna, en þar sem hann hafi frá örófi alda flæmst um Staðareyri og breytt farvegum sínum, hafi verið nauðsynlegt að afmarka ákveðinn landamerkjapunkt á Staðareyri. Vísun í Svartagil hafi verið vísun í Svartagilslæk, sem renni í botni Svartagils og ofan gilsins.

            Landmerki utanvert á Staðareyri

            Byggt sé á því að örnefnið Staðareyri sé allt svæðið neðan Hóla sem liggi utan Beruhólsbakka og að Svartagilslæk, nánar tiltekið út að Teignum. Um þetta sé vísað til örnefnalýsingar Berufjarðar. Þar sé vísað til þess að Hólarnir liggi upp af Staðareyri. Þá sé tekið fram að á eyrinni sé Tjörn. Staðareyri hafi myndast vegna framburðar Svartagilslækjar og hafi um 1954 verið lítið gróin, en hafi gróið upp á síðastliðnum áratugum. Hluti Staðareyrar sé eyraroddinn, en Staðareyrin sé mun stærra svæði og liggi suður í Berufjörð. Örnefnið Staðareyri nái til eyrarinnar sem liggi frá Beruhólsbökkum, út að Teignum og upp að Neðstahól. Teigurinn hafi verið gróin engjasvæði sundurskorin af gömlum farvegum Svartagilslækjar.

            Lega Staðareyrar í örnefnalýsingu komi vel heim og saman við lýsingu Gunnars Guðmundssonar frá Lindarbrekku í Berufirði á Staðareyri, sbr. einkum myndatexta sem komi fram í grein hans um grindhvaladráp í Berufirði, sem birst hafi í 1. tbl. Glettings árið 2005.

            Aðalstefnendur byggi á því að hnit samkvæmt aðalkröfu liggi á þeim stað, sem þeir hafi þekkt til allt frá árinu 1954 að liggi á landamerkjum. Lega hnitsins sé eðlileg miðað við það meginsjónarmið sem aðalstefnendur telji að hafi ráðið ákvörðun um landamerki jarðanna. Hnitið liggi utanvert á eyrinni, þ.e. út með Berufirði. Þær sönnunarkröfur verði að gera í landamerkjamáli að gagnstefnandi sýni fram á að umrædd staðsetning sé ekki rétt, enda beri aðilar málsins jafna ábyrgð á að farist hafi fyrir að halda við merkjum, sbr. 3. gr. laga um landamerki.

            Aðalstefnendur byggi á því að hnitið á Staðareyri geti ekki legið innar á Staðareyri, svo ytri hluti hagagirðingar Berufjarðar, sem til staðar hafi verið árið 1954, teljist ekki að miklu leyti innan Hvannabrekku. 

            Þýðing merkjalýsingar um að landamerki Berufjarðar og Hvannabrekku liggi frá utanverðri Staðareyri sé skýr miðað við orðalagsnotkun í fyrirliggjandi gögnum, almenna orðalagstúlkun og málvenju í Beruneshreppi. Með utanverðri eyrinni sé vísað til þess hluta eyrarinnar sem liggi út með Berufirði. Þegar vísað sé til utanverðrar Staðareyrar sé ekki vísað til eyraroddans sem liggi út í fjörðinn eða utanverðs hluta hans.

            Í byggingarbréfinu frá 1954 komi fram að lýst sé landamerkjum Hvannabrekku að ,,utan“. Með því sé greinilega vísað til þess hluta landsins sem liggi út með Berufirði. Þegar í sama skjali sé vísað til utanverðrar Staðareyri sé glögglega vísað til þess hluta Staðareyrar sem liggi út með Berufirði.

            Í örnefnalýsingu komi þessi merking fram ítrekað. Þannig sé t.a.m. vísað til upphafsorða lýsingar á bls. 1, þar sem komi fram að Berufjörður eigi land ,,út með firðinum“. Þá sé sérstaklega vísað til kafla VIII [í örnefnalýsingunni], þar sem ítrekað sé vísað til hugtaksins utar, sem svæða út með Berufirði. Um Staðareyri sé tekið fram að hún liggi suður í fjörðinn, en ekki út í fjörðinn.

            Hefði byggingarbréf vísað til eyrarodda Staðareyrar hefði slíkt verið tekið fram og þá með öllu óþarft að tilgreina að merkin lægju utarlega á oddanum. Þá hefði verið óþarft að tilgreina að þar yrði vörðustæði, enda eyraroddinn skýrt kennileiti.

            Þá benda aðalstefnendur á að sjónarmið stefnda um að landamerki liggi á eyrarodda Staðareyrar leiði til óvenjulegrar landamerkjalínu, þar sem merkin lægju á löngum kafla nærri fjöruborði innanverðrar Staðareyri, sem skapa myndi óvissu um hvers kyns landnot. Engar líkur séu á því að vilji þeirra, sem stóðu að gerð byggingarbréfsins, hafi staðið til slíkra merkja.

            Landamerki í Svartagil

            Aðalstefnendur byggi á því að í vísun landamerkjalýsingar til Svartagils felist að Svartagilslækurinn, sem renni um gilið, skipti merkjum. Landamerki liggi því frá utanverðri Staðareyri í farveg lækjarins þar sem hann renni úr Svartagili. Þaðan ráði lækjarfarvegurinn upp úr gilinu. Stefnendur byggi á því að hnit í lækjarfarvegi  (hnit B) liggi neðan Svartagils.

            Staðsetning hnitsins taki jafnframt mið af þeim landnotum sem eigendur Berufjarðar hafi haft í Hólunum, en þar hafi verið hagagirðing á árinu 1954. Ekkert bendi til þess að við gerð byggingarbréfsins hafi átt að setja niður landamerki þannig að hróflað væri við eignarrétti á því svæði sem hagagirðingin nái til.  Landamerkjakrafan sé með þessum hætti í samræmi við þau not sem verið hafi á svæðinu og hafi farið fram athugasemdalaust í tíð aðalstefnenda og foreldra þeirra, og í tíð fyrri eigenda Hvannabrekku, allt þar til gagnstefnandi hafi hafið ræktun upp úr árinu 2000.

            Landnýting Berufjarðar innan girðingar í Hólunum hafi staðið fullan hefðartíma, þ.e. 20 ár, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá séu huglæg skilyrði um hefðarhald til staðar, enda hafi eigendur Berufjarðar talið svæðið vera eign jarðarinnar. Styðji þetta aðalkröfu almennt og eignarhald Berufjarðar á landi innan girðingarinnar sérstaklega.

            Þá sé landamerkjakrafan í góðu samræmi við það hvernig aðilar hafi talið landamerki vera neðan Svartagils þegar þau voru færð inn á kort við vinnu Nytjalands.

            Aðalstefnendur byggi á því að í Svartagili liggi landamerki eftir miðjum farvegi Svartagilslækjar, allt þangað sem lækurinn falli í gilið, sbr. hnit C.

            Stefnendur byggi á því að dómkrafa þessi hvíli á skýringar- og fyllingaraðferðum á þeirri landamerkjalýsingu sem liggi fyrir, m.a. með hliðsjón af 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923, með síðari breytingum, um merkivötn. Þar sé kveðið á um að ef á eða lækur skilur landareignir eigi hvor landareign land í miðjan farveg.

            Stefnendur byggi á því að ofan Svartagils fylgi landamerki farvegi Svartagilslækjar, eins langt og upptök hans nái og þaðan í Berufjarðarskarð. Til að tryggja skýrleika kröfunnar sé kröfulína miðuð við hnitið D, enda kvíslist farvegur lækjarins þar ofan við og verði ógreinilegri í efstu drögum hans.

            Landamerkin liggi þá áfram í neðsta varp Berufjarðarskarðs, þ.e. þar sem Berufjarðarskarð liggi lægst yfir sjávarmáli, á fjallgarðinum milli Berufjarðar og Breiðdals. Í dómkröfu sé hnit fyrir þann stað ekki tilgreint, en tilgreining dómkröfu sé nægjanleg með vísan til 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919, um að merki milli jarðanna séu glögg af völdum náttúrunnar.

            Varakröfur:

            Í öllum varakröfum sínum kveðast aðalstefnendur vísa til málsástæðna í aðalkröfu varðandi landamerki utanvert á Staðareyri.

            Landamerki í Svartagili og ofan Svartagils

            1. varakrafa

            Landamerkjalýsingu byggingarbréfsins megi með strangri orðalagstúlkun skýra þannig að landamerki jarðanna ráðist af einni beinni línu, sem liggi frá sjó frá utanverðri Staðareyri í Svartagil og allt til fjallseggja, sem skipta milli lands Berufjarðar og jarða í Breiðdal.

            Á grundvelli þessarar orðalagsskýringar sé byggt á því að landamerkjalína liggi um Svartagil þar sem Svartagilslækurinn falli í gilið við hnit C. Eðlilegt sé að líta svo á að upphaf gils sé miðað við þann stað þar sem vatnsfall falli í gilið, sérstaklega í ljósi þess að Svartagilslækurinn beri nafn gilsins. Línan skipti þá merkjum óbrotin allt til fjallseggja, þar sem löndum skipti við Breiðdal.

            2. varakrafa:

            Skýra megi landamerkjalýsingu byggingarbréfsins þannig að landamerkjalína frá utanverðri Staðareyri liggi í miðjan lækjarfarveg Svartagils þar sem lækurinn renni úr gilinu og staðhættir feli í sér að sá staður sé við hnit E, sbr. dómkröfu. Neðsti hluti klettaveggja Svartagils að innanverðu liggi fyrir innan þann stað.

            Landamerki liggi frá framangreindu hniti upp með Svartagilslæk, sbr. málsástæður við aðalkröfu, allt þangað sem Svartagilslækur falli í Svartagil við hnit C,  þaðan í neðsta hluta Berufjarðarskarðs eins og lýst sé í aðalkröfu.

            3. varakrafa:

            Með orðalagstúlkun byggingarbréfsins og staðháttum sé unnt að líta svo á að með vísun í Svartagil sé byggt á því að landamerki liggi í línu upp í hæsta hluta Svartagils, þ.e. Svartagilsstafns, við hnit G, sbr. dómkröfu. Af hálfu eigenda Hvannabrekku hafi hins vegar ekki verið véfengt að Svartagilslækur ráði merkjum ofan Svartagils. Vísist um það m.a. til sjónarmiða eigenda Hvannabrekku, þegar merki hafi verið dregin upp vegna Nytjalands á árinu 2003. Dómkrafan hvíli því á að frá hniti G liggi merki um brún Svartagils, út að þeim stað sem Svartagilslækur falli í gilið, en lækurinn ráði merkjum ofan gils, eins og lýst sé í dómkröfunni.

            4. varakrafa:

            Stefnendur hafi hagsmuni af því að landamerkjaágreiningi aðila verði ráðið til lykta. Í því skyni sé sett fram dómkrafa sem vísi til þeirra sjónarmiða sem komið hafi fram af hálfu stefndu um legu landamerkja eftir klettabrún Svartagils að innan.

            Á grundvelli þess geti landmerkin legið í hnit B, í farvegi Svartagilslækjar rétt ofan vegar, sbr. hnit í aðalkröfu. Þaðan ráði lækjarfarvegur Svartagilslækjar að hniti E, og þaðan í klettabrún Svartagils. Slík niðurstaða rúmist innan kröfugerðar stefnanda.

            Dómkrafan vísi sérstaklega til þess að frá utanverðri Staðareyri liggi landamerki í hnit E og þaðan í klettabrún Svartagils við hnit F, en þar sé klettabrún gilsins áberandi. Landamerkin liggi um klettabrúnina allt að hniti C, þar sem Svartagilslækur falli í Svartagil. Þaðan með sama hætti og lýst sé í aðalkröfu.

            Dómkrafa þessi sé í samræmi við þá línu sem stefndi byggi á að séu rétt landamerki þegar landamerki hafi verið skráð af hálfu Nytjalands á árinu 2003.

           

            Í greinargerð sinni í gagnsök mótmæla aðalstefnendur því að Staðareyri hafi orðið til vegna hafstrauma, heldur hafi hún orðið til vegna framburðar Svartagilslækjar. Um þetta sé m.a. vísað til Árbókar Ferðafélags Íslands, árið 2002, bls. 146, grein eftir Hjörleif Guttormsson. Staðareyrin sé nefnd eftir Berufirði sem hafi verið kirkjustaður. Samkvæmt upplýsingum aðalstefnenda hafi eyraroddi á Staðareyri ekki verið til um 1906, þegar Guðmundur Guðmundsson flutti í Berufjörð. Fremsti hluti eyrarinnar hafi verið kallaður Eyraroddi. Staðareyrin sé mun stærra landsvæði, eins og sjáist t.d. af korti á nefndri blaðsíðu árbókarinnar. Ekki gæti hafstrauma innst í Berufirði, heldur sjávarfalla, þ.e. útfalls og innfalls með litlum straumi. Síðan sjái aldan um að móta ströndina með tilfærslu á fínasta og léttasta efninu. Þannig hafi Eyraroddinn orðið til að áliti aðalstefnenda.

            Staðareyri sé gamalt kennileiti. Í dagbókum séra Þorsteins Þórarinssonar, sem hafi verið prestur í Berufirði frá 1862-1890, sé fjallað um eyrina. Í færslu 3. september 1862 segi m.a.: ,,... komust 2 hvalir inn fyrir Staðareyri ...“. Í færslu 3. júní 1865, segi m.a.: ,,... dampskipið sem lá hér við Staðareyrina ...“.

            Æðarvarp, sem hafi verið á Staðareyri, hafi ekki verið bundið við Eyraroddann, heldur sé á Staðareyrinni. Að þessu leyti lýsi gagnstefnandi Staðareyri sem kennileiti með réttum hætti.

            Í Hólunum séu tvær hagagirðingar. Önnur sé Efrihólagirðing, sem liggi ofan þjóðvegar. Hún hafi verið færð nokkuð utar um vorið 1954, en stofnað hafi verið til Hvannabrekku síðar sama ár. Neðrihólagirðing, fyrir neðan þjóðveg, hafi verið færð á núverandi stað um miðjan fimmta áratug 20. aldar, þ.e. löngu áður en stofnað hafi verið til Hvannabrekku. Ekkert liggi fyrir um að við stofnun Hvannabrekku hafi staðið til að gera land innan hagagirðinga Berufjarðar að hluta af landi Hvannabrekku.

            Varðandi stærð Hvannabrekku sé ekki tilefni til að draga þær ályktanir sem gert sé í gagnstefnu. Land Hvannabrekku hafi verið gróið og vel ræktanlegt að hluta og hafi skipting jarðarhlutans tekið mið af þeim landkostum. Ekki verði byggt á því nú að landskipti hafi verið ósanngjörn.

            Aðalstefnendur kannist ekki við og hafi ekki fengið upplýsingar um að gagnstefnandi hafi selt malarefni úr þrætulandi. Slíkt sé ósannað.

            Vegna ræktunar á vegum gagnstefnanda á þrætusvæðinu sé áréttað að þeirri ræktun hafi ítrekað verið mótmælt af einum aðalstefnenda, Óskari Gunnlaugssyni, bónda í Berufirði. Byggt sé á því að ekki geti verið um nokkra hefð að ræða og ósannað að nýting hafi verið fullnaðan hefðartíma. Þá séu ekki fyrir hendi skilyrði hefðar í ljósi athugasemda um ræktunina.

            Sjónarmiðum gagnstefnanda varðandi landamerki sé mótmælt, en þau samræmist ekki staðháttum og heitum á kennileitum í löndum jarðanna. Ætlað vörðustæði utanvert á Staðareyri vísi til Staðareyrar, en ekki Eyraroddans, og þess að liggja út með Berufirði. Vísun í Svartagil geti með engu móti vísað til fremsta hluta klettaveggjar öðrum megin gilsins, og þaðan í beina línu til fjalls. Í því felist í raun ósamræmi við málatilbúnað gagnstefnanda sjálfs, þ.e. að dómkrafan feli í sér kröfur um land sem liggi innan við Svartagil, í þeirri merkingu sem hann sjálfur telji rétta.

            Aðalstefnendur vísa loks til ljósmyndar á dskj. 36, sem sýni vel klettabeltin við ytri hluta Svartagilsins. Þá sé vísað til korts á bls. 146 í nefndri árbók, sem lýsi staðsetningu Svartagils og hamraveggjum.

            Að öðru leyti sé í gagnsök vísað til málsástæðna í aðalsök.

           

III

Málsástæður gagnstefnanda

            Í greinargerð í aðalsök er um málsástæður vísað til gagnstefnu. Í gagnstefnu er málsatvikum og málsástæðum lýst í einu lagi, en hér verður helstu málsástæðum gagnstefnanda lýst.

            Gagnstefnandi kveðst byggja á því að Staðareyri sé v-laga malartota sú sem gangi þvert út í fjörðinn. Hafi hann staðsett kröfupunkt nr. 1 þar á miðri eyrinni. Mótmælt sé sem röngum þeim skilningi aðalstefnenda að Staðareyri sé miklu stærra landsvæði ofan og austan við hina eiginlegu eyri. Það eigi sér enga stoð í landamerkjalýsingu byggingarbréfsins frá 1954 eða öðrum gögnum. Svæðið austan og ofan við hina eiginlegu eyri hafi gagnstefnandi alist upp við að héti Svartagilsaur allt til sjávar. Lýsingar í fyrirliggjandi örnefnalýsingu bendi einnig til þess að skilningur gagnstefnanda á Staðareyri sé réttur, þ.e. lýsingarnar á eyrinni og svæðinu í kring.

            Eyrin hafi myndast af hafstraumum og hafi af þeim sökum verið á sama stað lengi þótt ágangur sjávar valdi því að hún kastist til um fáeina metra fram og til baka í mestu veðrum.

            Gagnstefnandi vísar til blaðagreinar í 1. tbl. Glettings, greinar um grindhvaladráp í Berufirði, sem aðalstefnendur hafa lagt fram, og kveður að af meginmáli greinarinnar verði ekkert ráðið sem styðji skilning þann sem aðalstefnendur vilji leggja í örnefnið Staðareyri. Í texta undir ljósmynd af greinarhöfundi segi á einum stað að hún sé tekin ofarlega á Staðareyri. Gagnstefnandi kveðst telja að mynd þessi sé tekin rétt ofan við sjó vestan við eyrina og áskilji sér rétt til að benda á þennan stað við vettvangsgöngu. Þessi myndatexti virðist saminn af vanþekkingu á staðháttum, en þrátt fyrir það veiti hann enga vísbendingu um að Staðareyri sé svæði austan við hina eiginlegu eyri. Jafnframt sé bent á að grein þessi hafi verið rituð eftir að aðalstefnendur hófu landamerkjaþrætu þá sem hér sé til meðferðar.

            Nokkurt æðavarp hafi verið á eyrinni og hafi Hvannabrekka sinnt því frá upphafi.

            Rétt ofan við Staðareyri séu tún sem Hvannabrekka hafi nýtt alveg frá upphafi. Þau tún hafi verið stækkuð nokkuð í gegnum árin. Túnin hafi verið slegin árlega frá upphafi. Stundum hafi aurskriður farið inn á þessi tún og hafi eigandi oft þurft að hreinsa aur af hluta þeirra í gegnum árin. Öll þessi notkun hafi verið áberandi og geti ekki hafa farið fram hjá Berfirðingum, sem aldrei hafi hreyft andmælum eða gefið á neinn hátt í skyn að túnin tilheyrðu ekki Hvannabrekku. Slíkar athugasemdir hafi fyrst verið settar fram talsvert löngu eftir að gagnstefnandi tók við búi af foreldrum sínum árið 1999.

            Gagnstefnandi kveðst ekki vita til þess að varða sú sem nefnd sé í lýsingu landamerkja í byggingarbréfinu frá 1954 hafi nokkurn tímann verið reist.

            Almenn orðnotkun orðsins „eyri“ samrýmist kröfu gagnstefnanda en ekki aðalstefnenda. 

            Allt framanritað renni stoðum undir það að skilningur gagnstefnanda á staðsetningu Staðareyrar sé réttur.

            Aðila greini einnig á um staðsetningu Svartagils. Gagnstefnandi kveðst mótmæla skilningi aðalstefnenda, sem samræmist ekki örnefnalýsingunnni t.d. að því leyti að samkvæmt þeim skilningi falli Skjólgil og Skjólgilshólar undir Svartagil. 

            Landfræðilegar aðstæður séu þannig að ekki sé um gil að ræða í eiginlegum skilningi. Þannig séu ekki tveir klettaveggir andspænis hvor öðrum.  Heldur sé aðeins um að ræða einn brattan klettavegg sem liggi frá suðri til norðurs, þar sem landið sé miklu hærra vestan við en austan við. Svartagilslækur renni austan við þennan klettavegg. Engar sambærilegar aðstæður séu austan við Svartagilslækinn. 

            Gagnstefnandi byggi á því að örnefnið vísi til þessa klettaveggs og hafi staðsett kröfupunkt sinn nr. 2 á miðjum klettaveggnum. Engin gögn bendi til þess að gilið sé stærra svæði en þetta, heldur þvert á móti eigi kennileiti austan við klettavegginn sér sérstök nöfn, önnur nöfn. 

            Á brún Svartagils séu girðingar og höft til að halda kindum, þannig að fé Berufjarðar sé vestan við og fé Hvannabrekku austan við, og hafi svo verið frá upphafi.

            Sérstaklega sé mótmælt málatilbúnaði aðalstefnenda sem gangi út á að landamerkin séu um Svartagilslæk. Það eigi sér enga stoð í gögnum og væru býsna óvenjuleg og óhentug landamæri sem engar líkur séu á að hafi verið ætlun aðila sem stóðu að gerð byggingarbréfsins 1954.

            Gagnstefnandi byggi á því að landamerki eigi að vera sem fæstar og beinastar línur, það viðhorf hafi gilt lengi og sé lögbundið. Lýsing byggingarbréfsins bendi eindregið til þess að landamerkin hafi átt að vera ein bein lína, eins og gagnstefnandi byggi á í kröfugerð sinni. Mótmælt sé kröfum aðalstefnenda að þessu leyti.

            Guðmundur Guðmundsson hafi verið bóndi í Berufirði og eigandi jarðarinnar uns hann féll frá á árinu 1940. Vísar gagnstefnandi þar um til ritsins Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Við frágang á dánarbúi hans hafi sex börn hans orðið eigendur jarðarinnar Berufjarðar, svo sem ráða megi af byggingarbréfinu frá 1954, þau Finnur, Hjálmar, Gunnlaugur, Marta, Nanna og Ragnar.

            Af afsali fyrir Hvannabrekku, dags. 2. desember 1970, til foreldra gagnstefnanda, Gyðu Guðmundsdóttur og Björns Aðalsteinssonar, megi ráða að þau hafi leyst til sín eignarhluta Mörtu og Ragnars í jörðinni Berufirði og í raun hafi Hvannabrekku því verið skipt út úr Berufirði sem þeim eignarhlutum. 

            Samkvæmt því ætti Hvannabrekka að vera 2/6 hlutar Berufjarðarjarðarinnar eins og hún var áður en Hvannabrekku var skipt út úr jörðinni. Hér þurfi að gæta að því að horfa ekki til þess hluta jarðarinnar Hvannabrekku sem komið hafi úr landi jarðarinnar Kelduskóga og kallað sé Sléttufjall í nefndu afsali. Af loftmyndum af svæðinu, svo og korti úr gagnagrunni Nytjalands, megi glöggt sjá að Hvannabrekka sé mun minni en ætti að vera samkvæmt þessu. Gagnstefnandi telji að þessi staðreynd eigi að leiða til þess að séu fleiri en einn skýringarkostur á landamerkjalýsingu jarðanna séu allar líkur fyrir því að sá kostur sé réttastur sem færi Hvannabrekku mest land.

            Á árinu 1970 hafi verið frekari viðskipti með hluti úr jörðinni Berufirði, sem falist hafi í því að ráðstafað var eignarhlutum sem áður tilheyrðu Finni og Hjálmari Guðmundssonum. Gagnstefnandi leggi fram þessu til staðfestu afsal, útgefið 28. október 1970 fyrir hönd Hjálmars, afsal útgefið 28. október 1970 fyrir hlut Finns og afsal útgefið 2. desember 1970, þar sem nefndir hlutir séu seldir áfram til Gunnlaugs Guðmundssonar. Í síðastnefnda skjalinu sé berum orðum tekið fram að eignarhlutur Finns hafi verið 1/6. Gagnstefnandi leggi og fram vottorð hreppstjóra, dags. 5. desember 1954, þar sem staðfest sé að jörðin Berufjörður sé í sameign fyrrnefndra sex barna Guðmundar Guðmundssonar og eigi hvert um sig 1/6 hluta. 

            Gagnstefnandi kveðst mótmæla því að skilyrði hefðar séu til staðar þannig að aðalstefnendur teljist hafa eignast rétt til einhvers hluta þrætuspildunnar fyrir hefð.

            Gagnstefnandi kveðst til vara byggja á þeirri málsástæðu að notkun hans á þrætuspildunni, sem fyrr hafi verið rakin hér, óslitið frá 1954, nái fullum hefðartíma og að öll skilyrði laga nr. 46/1905 um hefð séu fyrir hendi til að telja gagnstefnanda hafa unnið eignarhald að spildunni fyrir hefð.

 

IV

Niðurstaða

            Hér verður leyst samhliða úr dómkröfum í aðalsök og í gagnsök.

            Í máli þessu háttar svo til að einu lýsinguna sem til er á hinum umdeildu landamerkjum er að finna í byggingarbréfi sem gefið var út við stofnun nýbýlisins Hvannabrekku árið 1954. Eins og rakið er í kafla I hér að framan er mörkum Hvannabrekku „að innan“ þar lýst með þessum orðum: „[L]ína frá vörðu utanvert á Staðareyri í Svartagil.“ Óumdeilt er að varða samkvæmt framangreindri lýsingu virðist aldrei hafa verið hlaðin. Deilt er um bæði kennileitin, Staðareyri og Svartagil.

            Framburður aðila og vitna fyrir dómi um legu landamerkja og hin umdeildu kennileiti skiptist að mestu í tvö horn, en flest vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi eru systkini aðila og hefur framburður þeirra takmarkað sönnunargildi eftir því. Vitnin Erlingur Gunnarsson og Reynir Reimarsson eru aldir upp á næstu bæjum og þekkja til málsaðila, en Erlingur er auk þess skyldur aðilum beggja vegna. Erlingur bar um að Staðareyri sé samkvæmt sinni bestu vitneskju, nánast allt svæðið út að Svartagilslæknum og að eyraroddinn sé hluti af því örnefni. Hann kvað merkin hafa verið talin liggja í sjó eitthvað utan við eyraroddann, en að girðing, sem lögð hafi verið í sjó á öðrum stað, hafi verið lögð þar af hagkvæmnisástæðum. Þá bar hann um að merkin hafi legið frá sjó upp í Svartagil, fram hjá girðingum sem þegar voru á svæðinu, og tekið mið af innri brún Svartagils. Reynir bar aftur á móti um að hafa ávallt heyrt að Svartagilslækurinn skipti merkjum milli Hvannabrekku og Berufjarðar. Hann lýsti Svartagili sem mjög stóru jarðfalli á milli jarðanna. Þá lýsti hann Staðareyri svo að hún væri „dálítið stór og oddmjó.“ Hólarnir fyrir innan lækinn hafi verið taldir Berufjarðareign. Ekki er ástæða til að rekja hér frekar framburð vitna. Ljóst er að niðurstaða í málinu verður einkum að byggja á skiflegum gögnum, þótt jafnframt sé litið til munnlegs framburðar.

            Við aðalmeðferð kom fram að einhugur sé með aðilum og vitnum um að það sé málvenja fyrir því á svæðinu að með út eða utar sé átt við stefnu út fjörðinn, en með inn eða innar sá átt við stefnu inn fjörðinn, þ.e. í átt að botni hans.

 

            Staðareyri

            Samkvæmt lýsingu byggingarbréfsins eru landamerkin dregin í stefnu frá Staðareyri í Svartagil og verður því fyrst vikið að fyrrnefndu kennileiti. Aðila greinir á um það hvort Staðareyri sé mjór malartangi sem liggur úr þrætusvæðinu suður í fjörðinn eða stærra svæði, sem tanginn er hluti af, þar sem túnrækt gagnstefnanda er að finna.

            Í örnefnalýsingu Nönnu Guðmundsdóttur frá Berufirði, sem er ein þeirra sex erfingja sem stóðu að byggingarbréfinu 5. desember 1954, er í kafla VIII, um svæðið fyrir neðan veg, á milli Krosslækjar og Svartagilslækjar, að finna svohljóðandi umfjöllun þar sem örnefninu Staðareyri er lýst [skáletrun dómara]: „Ytri-Hjallsklettur er rétt utan við Hjallsklettinn. Lækurinn sem næstur er heitir Hjáleigulækur. Út með sjónum fyrir utan lækinn eru Beruhólsbakkar. Utan við þá gengur löng sandeyri suður í fjörðinn og heitir Staðareyri. Á henni er Tjörn. Afrennsli hefur hún í sjó. Þar heitir Ós. Vík heitir milli Staðareyrar og Hjallskletts. Upp af Staðareyri eru Hólar og ná langt upp fyrir veg. Þetta eru melhólar að nokkru grónir. Sá neðsti er nú kallaður Neðsti-hóll. [...]“

            Þá segir í sömu örnefnalýsingu um Svartagilsaur, en í gagnstefnu er á því byggt að svæðið sem aðalstefnendur vilja nefna Staðareyri falli undir það örnefni: „Svartagilslækur rennur fyrir utan Hólana á Svartagilsaur.“

            Þegar framangreindar lýsingar úr örnefnalýsingunni eru lesnar saman má ráða að Staðareyri afmarkist af Beruhólsbökkum í vestri (að innan), Hólum í norðri og Svartagilsaur í austri (að utan). Þá verður vart önnur ályktun dregin af síðarnefndri tilvitnun en að Svartagilsaur liggi utan við Hólana eða a.m.k. er hæpið að þessi lýsing styðji það að allt það svæði þar sem túnrækt gagnstefnanda er að finna falli undir örnefnið Svartagilsaur. Við skýrslugjöf gagnstefnanda fyrir dómi nefndi hann þó einnig að hann þekkti þetta svæði sem Eyri. Hvergi er þó í nefndri örnefnalýsingu getið kennileitis með því heiti. 

            Þá varð ljóst við vettvangsgöngu, og jafnframt sér þess stað á loftmyndum og uppdráttum sem liggja fyrir í málinu, að Tjörn liggur ekki á eyraroddanum þótt hún liggi ekki fjarri honum.

            Með sama hætti er ljóst að lýsingin „... þá gengur löng sandeyri suður í fjörðinn og heitir Staðareyri“ getur allt eins komið heim og saman við staðhæfingu aðalstefnenda um að Staðareyri taki til stærra svæðis en eyraroddans, enda er lengd svæðisins sem aðalstefnendur byggja á að heiti Staðareyri töluverð á milli vesturs og austurs (inn og út með firðinum) og má segja að allt það svæði gangi suður í fjörðinn. Raunar þykir orðið „löng“ ekki falla allskostar að malartanganum sem gagnstefnandi byggir á að sé Staðareyri og er stærð tangans að flatarmáli raunar svo lítilfjörleg að taka verður undir það með aðalstefnendum að orðið „utanvert“ í lýsingu byggingarbréfsins hefði verið óþarft ef með kennileitinu Staðareyri í byggingarbréfinu hefði einungis verið átt við tangann en ekki stærra svæði. Þá verður vart séð að þörf hefði verið á að reisa þar vörðu, enda tanginn sjálfur skýrt kennileiti frá náttúrunnar hendi. Varða sem þar hefði verið reist hefði auk þess augljóslega verið í hættu vegna ágangs sjávar og má í því sambandi benda á að gagnstefnandi sjálfur lýsir því svo í gagnstefnu að eyrin kastist til um nokkra metra vegna ágangs sjávar í mestu veðrum.

            Til viðbótar skal tekið fram að ekki verður séð að lega girðinga á svæðinu neðan þjóðvegar styðji kröfur og staðhæfingar gagnstefnanda, hvernig svo sem aðkomu Berfirðinga að girðingarvinnu var háttað, en ósannað er annað en að þær girðingar hafi einungis verið reistar til að halda fé, en ekki sem landamerkjagirðingar. Hið sama á við um girðingar ofan þjóðvegar, en um þær er þó það að segja að gagnstefnandi hefur ekki fært fram nein haldbær mótmæli við því að girðing ofan vegar hafi legið á þeim stað sem hún liggur í dag áður en byggingarbréfið frá 1954 var undirritað. Þá virðist óumdeilt að girðingar ofan þjóðvegar hafi aðeins verið nýttar frá Berufirði. Rennir það stoðum undir það að ólíklegt megi teljast að mörk nýbýlisins Hvannabrekku hafi verið ákveðin þannig að þau skæru af girðingarhólf frá Berufirði.

            Gagnstefnandi byggir á því að við úrlausn um rétt landamerki beri að velja þann skýringarkost sem færi Hvannabrekku mest land, í ljósi þess að útskipt land nýbýlisins hafi svarað til 2/6 hluta lands Berufjarðar. Þótt ályktun um þetta hlutfall fái stoð í gögnum málsins er sú málsástæða haldlítil enda fara landskipti ekki eftir flatarmáli heldur landkostum og ljóst þykir að stór hluti Berufjarðarjarða sé óræktað land.

            Af þessum sökum, og jafnframt með vísan til röksemda sem hér fara á eftir og varða kennileitið Svartagil, verður að telja gögn málsins hníga eindregið að því að afmörkun gagnstefnanda á upphafspunkti landamerkja jarðanna við punkt hans nr. 1 (K1) á kröfulínukorti fái ekki staðist, enda sé Staðareyri mun stærra svæði en eyraroddinn. Gagnstefnandi gerir engar varakröfur í þessum efnum. Upphafspunktur aðalstefnenda við hnit nr. A sýnist koma ágætlega heim og saman við þá lýsingu byggingarbréfsins að upphaf línunnar sé „utanvert á Staðareyri.“ Verður því slegið föstu að upphaf landamerkjalínunnar sé rétt staðsett við hnit aðalstefnenda nr. A. Enginn ágreiningur er um hnitsetningar í málinu.

Þegar af þeirri ástæðu að því hefur verið hafnað að upphaf landamerkja Hvannabrekku og Berufjarðarjarða miðist við punkt gagnstefnanda nr. 1, þá leiðir af því að stefna línunnar og lega hennar, einkum ofan Svartagils, nýtur ekki fullnægjandi stuðnings í gögnum málsins. Er því ekki unnt að taka dómkröfu gagnstefnanda til greina eins og hún er fram sett og verða aðalstefnendur sýknaðir af þeirri kröfu. Málsástæður gagnstefnanda koma þó áfram til skoðunar við umfjöllun sem hér fer á eftir um dómkröfur í aðalsök varðandi þann hluta merkja sem liggur í Svartagil, en fjórða varakrafa aðalstefnenda tekur t.d. mið af því að innri brún hamrabeltisins hafi þýðingu fyrir merkin, líkt og gagnstefnandi heldur fram.

           

            Svartagil

            Óumdeilt er og gögnum stutt að örnefnið Svartagil tekur til gríðarstórrar hvilftar sem sennilega hefur orðið til vegna berghlaups. Hvilftin er skeifulaga, séð neðan frá punkti A á Staðareyri, en hamrabeltin að innan (vestan) og í botni eða stafni gilsins sýnast hærri og meira áberandi en þegar utar (austar) dregur, þótt hamra sé einnig þar að finna.

            Aðalstefnendur miða aðallega við það í dómkröfum sínum að Svartagilslækur, sem fellur í fossi fram af hömrum utarlega í hvilftinni (austan til í henni), og sveigir lítillega til vesturs á leið sinni til sjávar, skipti merkjum. Gagnstefnandi vill aftur á móti miða við hamrabrúnina að innan (vestan) í hvilftinni þar sem hún er mest áberandi. Í ljósi orða landamerkjalýsingar byggingarbréfsins frá 1954 um „línu ... í Svartagil“ verður að taka undir það með málsaðilum að um beina línu hljóti að vera að ræða á merkjum, a.m.k. frá Staðareyri og að þeim stað þar sem Svartagil verður talið byrja að neðan, enda er það hugtaksskilyrði línu að hún sé bein. Í lýsingu byggingarbréfsins er ekki að finna nánari viðmið um það hvar landamerkin liggi í Svartagili eða ofan þess.

            Í örnefnalýsingu Nönnu Guðmundsdóttur segir svo um Svartagil í kafla XI: „Svartagil er upp af Svartagilsaur. Að því eru háir hamrar að innan og ofan. Efst í því er kallað Svartagilsstafn. Fyrir utan Svartagil og Svartagilsaur eru Skjólgilshólar.“

            Verður nú fjallað um kröfulínur aðalstefnenda almennt og svo í þeirri röð sem þær eru settar fram. Fyrst skal þó tekið fram að af kröfulínum aðalstefnenda sýnist 1.  varakrafa þeirra ósennilegust, enda verður ekki annað séð en að hún liggi um Skjólgilshóla sem samkvæmt örnefnalýsingunni eru utan Svartagils.

            Aðalkrafa aðalstefnenda og 2. varakrafa þeirra fela báðar í sér að bein lína er dregin frá sjó, úr hnitapunkti A utanvert á Staðareyri. Samkvæmt aðalkröfu er línan dregin þaðan í hnitapunkt B, í farvegi Svartagilslækjar, en samkvæmt 2. varakröfu er línan dregin í punkt nr. E, sem er ofar í lækjarfarveginum, nokkurn veginn til móts við þann stað þar sem innri brún hamrabeltisins byrjar að rísa. Úr punktum B og E eru mörkin svo látin fylgja miðjum farvegi Svartagilslækjar upp í hnit C, þar sem lækurinn fellur í Svartagil og þaðan upp að hniti D, ofan Svartagils, þar sem lækjarfarvegurinn verður ógreinilegur og „þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.“ Varakröfur nr. 3 og 4 eru eins og aðalkrafan og 2. varakrafan hvað snertir legu línanna frá hniti D. Dómkröfurnar, eins og þær eru orðaðar, tilgreina ekki hvar Berufjarðarskarð er lægst, hvorki með hnitsetningum né öðrum hætti. Þá tilgreina þær ekki heldur hvort merkin liggi sem bein lína úr hniti D í Berufjarðarskarð, eða með öðrum hætti, en af loftmyndum, þ. á m. sameiginlegu kröfulínukorti aðila, má þó sjá að dregin er bein lína úr punkti D. Gagnstefnandi hefur ekki hreyft neinum athugasemdum við skýrleika kröfugerðar aðalstefnenda að þessu leyti og verður ekki séð að umdeilt sé hvar Berufjarðarskarð sé lægst. Verða dómkröfurnar því taldar nægilega skýrar.

            Aðalkrafa og 2. varakrafa aðalstefnenda taka mið af því að Svartagilslækur sé skýrt kennileiti frá náttúrunnar hendi og að eðlilegt sé því að skýra landamerkjalýsinguna svo að merkin miðist við lækinn. Ekkert í landamerkjalýsingunni gefur þó til kynna að lækurinn eigi að ráða merkjum. Þá má ljóst vera að hið gríðarmikla Svartagil hefur ekki myndast vegna rennslis lækjar, en af því leiðir að ekki liggur jafn beint við að skýra lýsinguna svo að merkin liggi eftir læknum og ef þannig háttaði til. Þá bendir fáorð lýsingin fremur til þess að merkin liggi öll í beinni línu, frá sjó og upp í vatnaskil, fremur en hitt.

            Með sömu rökum og að framan greinir má spyrja að því hvers vegna innri brún hamrasveigsins var ekki nefnd sérstaklega í landamerkjalýsingunni, ef ætlunin var að merkin fylgdu þeirri brún. Brúnin er skýrt kennileiti frá náttúrunnar hendi, en raunar á það við um hamrasveiginn allan, ekki einvörðungu innri brún hans, þótt hún og stafninn séu mest áberandi hlutar hamrasveigsins.

            Eins og fyrr sagði eru ekki fyrir hendi traust samtímagögn sem varpað geta ljósi á hvað þeir sem stóðu að byggingarbréfinu höfðu í huga við samningu þeirrar einföldu landamerkjalýsingar sem þar er að finna. Þá liggur heldur ekki fyrir áreiðanlegur vitnisburður sem varpað gæti ljósi á það. Ekki verður lýsingu á nýbýlinu Hvannabrekku í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi heldur léð mikið vægi, en þar segir að býlið hafi fengið land frá Svarthamarslæk á Kelduskógarmörkum og „inn fyrir Svartagil, sem er hamrasveigur hátt í fjallinu rétt utan við gamla veginn yfir Berufjarðarskarð.“ Er sú lýsing nokkuð á skjön við landamerkjalýsingu byggingarbréfsins. Breytir engu þótt vera kunni að lýsingin í Sveitum og jörðum sé höfð eftir eða rituð af Nönnu Guðmundsdóttur, einni þeirra erfingja sem stóðu að byggingarbréfinu, líkt og haldið var fram í málflutningi.

Eins og gögnum málsins og landamerkjalýsingunni er háttað er óhjákvæmilegt að líta til landfræðilegra aðstæðna og þess hvað sennilegast þykir að afsalsgjafar og þeir sem stóðu að byggingarbréfinu hafi haft í huga er lýsingin var samin og landi Hvannabrekku var skipt út úr Berufirði. Þykir þar tvennt koma til greina. Annars vegar að taka mið af skýrum kennileitum í landslaginu og því hvernig landnotum hefur verið háttað, en í framburði aðila fyrir dómi kom t.d. fram að Svartagilið hafi iðulega verið smalað frá Hvannabrekku, enda auðveldara aðgengi að því þaðan en frá Berufirði, en svæðið ofan Svartagils hafi Berufjarðarbændur smalað að Svartalæk. Fellur 4. varakrafa aðalstefnenda ágætlega að þessu. Hins vegar kemur til greina að leggja áherslu á einfaldleika lýsingar byggingarbréfsins og að skýra það samkvæmt orðanna hljóðan, með því að draga beina línu alla leið frá sjó (punkti A) og upp í gegnum mitt Svartagil, allt upp í vatnaskil. Fellur 3. varakrafa aðalstefnenda best að þeirri kenningu, þar sem dregin er bein lína frá punkti A upp í punkt G, efst í Svartagili, en þaðan miðar kröfugerðin reyndar við að merkin fylgi hamrabrúninni að fossinum (C) og fylgi síðan farvegi Svartagilslækjar að punkti D og þaðan í lægsta hluta Berufjarðarskarðs.

            Við vettvangsgöngu kom berlega í ljós að þegar staðið er niðri við punkt A og horft til fjalls, þá sést beint inn í mitt gilið og þar blasir Svartagilsstafninn við. Miðað við þau takmörkuðu landnot sem hægt er að hafa á þessu svæði, sem og fjölskyldutengsl milli stofnenda nýbýlisins og þeirra sem byggðu þeim jarðarpartinn, virðist ekki ósennilegt að þessir aðilar hafi séð merkin fyrir sér sem beina línu, frá utanverðri Staðareyri, í gegnum miðjan stafn Svartagils þar sem hamrabrúnin er einna hæst og allt upp í vatnaskil. Samræmist sú skýring best orðalagi landamerkjalýsingarinnar og einnig best þeirri kenningu, sem fest var í sessi við setningu landskiptalaga nr. 46/1919, að draga beri sem fæstar og beinastar línur þegar skipta skal landi.

            Aðilar beggja vegna byggja kröfur sínar að nokkru leyti á hefð, en ósannað er að skilyrði hefðar séu uppfyllt þannig að þýðingu hafi við úrlausn í máli þessu.

            Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á þriðju dómkröfu aðalstefnenda, þó þannig að frá hniti G, efst í Svartagili, verða merkin dregin sem áframhaldandi bein lína með sömu stefnu, allt að vatnaskilum. Samræmist sú niðurstaða best landamerkjalýsingunni eins og hún verður skýrð samkvæmt orðanna hljóðan og rúmast sú niðurstaða innan marka kröfugerðar aðila. Eins og fyrr sagði eru aðalstefnendur sýknir af dómkröfu í gagnsök.

            Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

            Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans, tilfærslu hans milli héraðsdómstóla og hátíðisdögum.

 

Dómsorð:

            Viðurkennt er að landamerki óskipts lands Berufjarðar, landnr. 159098, og Berufjarðar 2, landnr. 159097, gagnvart landi jarðarinnar Hvannabrekku, landnr. 159109, liggi um línu frá sjó um hnit A, 715032,815 – 484175,664, utanvert á Staðareyri, og um hnit G, 715588,958 – 487113,765, efst í Svartagili, þar til línan nær að fjallseggjum milli Berufjarðar og Breiðdals.

            Málskostnaður milli aðila fellur niður.

 

                                                                        Hildur Briem