• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

           Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 16. febrúar 2018 í máli

                                                        nr. S-48/2017:

         Ákæruvaldið

         (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

          gegn

          Óla Jóhanni Ólasyni

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 12. febrúar sl., er höfðað með þremur ákærum lögreglustjórans á Austurlandi á hendur Óla Jóhanni Ólasyni, kennitala […], til lögheimilis að […], […], en til dvalar að […], […].

 

Ákæru, útgefin 7. desember 2017.

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða:

„fyrir eftirtalin umferðarlagabrot: 

I.

            Með því að hafa miðvikudaginn  5. júlí 2017, í Fjarðabyggð, ekið bifreiðinni ST027, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og með 104 km hraða á klukkustund, þar sem hámarkshraði var 50 km á klukkustund, vestur Norðfjarðarveg, skammt utan við kauptúnið á Reyðarfirði, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn. Vínandamag blóði ákærða mældist 1,57 ‰.

II.

            Með því að hafa miðvikudaginn 23. ágúst 2017, á Fljótsdalshéraði ekið bifreiðinni JS436, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, norður þjóðveg nr. 1, á Egilsstaðanesi, á móts við verslunina Bónus, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn. Vínandamagn í blóði ákærða mældist 0,84 ‰.

            Telst ákæruliður I. varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Telst ákæruliður II. varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

Ákæru, útgefin 18. janúar 2018.

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða:

            „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I.

            Með því að hafa mánudaginn  8. maí  2017, í Reykjavík, ekið bifreiðinni JS436, sviptur ökurétti og án þess að hafa sinnt þeirri skyldu sinni, sem skráður eigandi bifreiðarinnar, að vátryggja hana. Bifreiðinni ók ákærði austur Bústaðaveg, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

II.

Með því að hafa miðvikudaginn 29. nóvember 2017, í Fjarðabyggð, ekið bifreiðinni  JS436, sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði mældust 1,2 ng/ml og amfetamín í blóði mældist 65 ng/ml). Bifreiðinni ók ákærði norður Skólaveg í kauptúninu á Fáskrúðsfirði, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

III.

            Með því að hafa fimmtudaginn 11. janúar 2018, á Seyðisfirði, ekið bifreiðinni VP831, sviptur ökurétti, um Austurveg, á móts við bensínafgreiðslu Orkunnar, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

            Telst ákæruliður I varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Telst ákæruliður II varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Telst ákæruliður III varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“


Ákæru, útgefin 31. janúar 2018.

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða:

            „fyrir umferðarlagabrot á Fljótsdalshéraði með því að hafa þriðjudaginn 12. janúar 2018, ekið bifreiðinni VP831, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, suður þjóðveg nr. 1, á Egilsstaðanesi, á móts við Egilsstaðaflugvöll, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn. Vínandamagn í blóði kærða mældist 0,70  ‰.

 

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

            Ákærði krefst vægust refsingar sem lög leyfa.

            Með heimild í 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála voru mál lögreglustjóra sameinuð við meðferð málsins fyrir dómi. 

 

A.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákærum. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og rannsóknargögnum lögreglu, er nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákærum er lýst.  Brot ákærða eru réttilega heimfærð til laga í ákærunum.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

           Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærum.

 

B.

            Ákærði, sem 33 ára, hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins áður hlotið dóma, en hann var á árunum 2004 til 2009 ítrekað dæmdur til fangelsisrefsinga og þá aðallega vegna brota gegn umferðarlögum, en að auki var hann þá sviptur ökurétti ævilangt. Ákærða var veitt heimild til ökuréttar á ný 15. september 2015. Þær refsingar sem áhrif hafa í máli þessu eru á hinn bóginn tilkomnar vegna dóma, sem ákærði hlaut á árunum 2016 og 2017. Annars vegar um að ræða dóm sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. janúar 2016, en ákærði var þá dæmdur til að greiða 484.000 króna sekt til ríkissjóðs og til að sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá 8. júní 2016 að telja sökum þess að hann hafði í þrígang, á tímabilinu frá 1. - 25. október 2016, gerst sekur um fíkniefnakstur. Hins vegar er um að ræða dóm sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness 19. apríl 2017, en ákærði var þá dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að sæta sviptingu ökuréttar í fjögur ár frá 8. júni 2018 að telja sökum þess að hann hafði á tímabilinu frá 8. maí til 3. desember 2016 í fjögur skipti ekið undir áhrifum fíkniefna, í sex skipti ekið ökutæki sviptur ökurétti, en að auki gerst sekur um minniháttar fjársvik, hraðakstur og fyrir að hafa haft í vörslum sínum smáræði af fíkniefnum.

 

            Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að aka ökutæki í fjögur skipti undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða undir áhrifum áfengis.  Að auki hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa í sex skipti ekið ökutæki sviptur ökurétti, en einnig fyrir hraðakstur og fyrir brot gegn 1. mgr. 93. gr. umferðarlaganna. Brotin framdi ákærði á tímabilinu frá 8. maí 2017 til 12. janúar sl.

            Með brotum sínum hefur ákærði rofið skilorð fyrrnefnds dóms Héraðsdóm Reykjaness. Ber því að taka þá refsingu upp, sbr. ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og dæma ákærða refsingu í einu lagi með þeim brotum sem hér eru til umfjöllunar og þá eftir reglum 77. gr. sömu laga.

            Að ofangreindu virtu og þá ekki síst þegar litið er til sakaferils og refsinga ákærða samkvæmt áður röktum dómum og þess að hann hefur í því máli sem hér er til umfjöllunar endurtekið gerst sekur um alvarleg umferðarlagabrot, þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð átta mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir fært að frest fullnustu fimm mánaða þeirrar refsingar og skal sá hluti falla niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði greiða 100.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella sjö daga fangelsi.

            Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákærum og lýsts sakarferils skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, en samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra nemur hann 253.297 krónum.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson fulltrúi.          

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Óli Jóhann Ólason, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða þeirrar refsingar og skal sá hluti hennar falla niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði skal greiða 100.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella sjö daga fangelsi.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 253.297 krónur í sakarkostnað.

                                                                

                                                                 Ólafur Ólafsson                                 

 

     Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum sækjanda, Helga Jenssyni ftr., og er honum afhent afrit dómsins.

     Dómþoli boðaði lögmæt forföll og verður dómurinn sendur lögreglustjóra til tíðkanlegrar birtingar.

 

                                                                 Dómþingi slitið.

                                                                 Ólafur Ólafsson

Vottur:

Rannveig Árnadóttir.